Thursday 26 December 2013

Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013

Jólin eru ljúfur tími í faðmi fjölskyldu og vina. Og það er gott að hafa það náðugt yfir hátíðarnar. Ég var reyndar á bakvakt bæði á aðfangadag og jóladag. Og það var rólegt á deildinni og notalegt að ganga stofugang um hátíðirnar. Það er svo stóískt yfirbragð yfir öllum - meira segja þeim sem liggja inni yfir hátíðarnar. Þannig að ég get eiginlega ekki kvartað vaktabyrðinni! 

Ég fór óvænta ferð til Íslands í síðustu viku þegar mér bauðst að koma fram í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni sem var sendur út núna á föstudaginn 20. desember. Ég bauð Valdísi, dóttur minni, með mér og því gat hún haldið upp á afmælið sitt með því að hitta frænku sína og bestu vinkonu og fá að koma með mér í sjónvarpssal - hún var himinlifandi með þessa jólagjöf. Ég gat því nálgast það sem mig vantaði fyrir hátíðirnar eins og svínahamborgarahrygg, smjör og fleira! 

Það var nú samt eiginlega mest að gera í eldhúsinu hjá mér. En allt var þó með hefðbundnu sniði. Þá hefur íhaldssemin tögl og hagldir í öllum siðum og venjum. Ég gerði svínhamborgarhrygginn á aðfangadag og svo kalkún í gærkvöldi og í dag bauð bróðir minn upp á bestu samloku allra tíma! 

Besta samloka allra tíma og svo nokkrar svipmyndir frá jólunum 2013



Hamborgarahryggurinn var gerður með hefðbundu sniði - hægt er að sjá meira um hann hérna. Ég bætti nokkrum einiberjum við rauðvínssoðið sem ég sauð hrygginn í. Ætli ég hafi ekki líka verið ögn örlátari á rauðvínið að þessu sinni!


Fékk vel fitusprendan hrygg að þessu sinni og hann var mjög ljúffengur! Ótrúlega safaríkur og góður!


Og auðvitað var graflax í forrétt - makalaust hvað það er einfalt að gera graflax. Fyrir uppskrift er hægt að kíkja í bókina mína - eða hérna!


Við hjálpuðumst að í eldhúsinu eins og vant er. Móðir mín er þarna að verma rauðkálið sem hún hafði gert kvöldið áður. Það er ekki að sjá á þessari dömu að hún verði 64 ára eftir nokkrar vikur! Hún afkastaði því á árinu sem er að líða að verja doktorsritgerðina sína! 


Undirritaður var ákaflega ánægður með jólagjöfina í ár frá eiginkonu sinni - en ég datt í lukkupottinn og fékk leðursvuntu. Fregnir af þessari svuntu hafa þegar borist til nágrannanna og hefur Jónas kollegi minn þegar óskað eftir mjög sérstakri mynd af mér í þessari svuntu. Það gæti þurft nokkra snafsa til að verða við þeirri bón! 


Uppáhalds jólamaturinn minn er eiginlega kalkúninn! Hérna er ýtarleg uppskrift um hann - en svo er hana líka að finna í bókinni minni! 


Smjörið leikur lykilhlutverk í minni uppskrift og er fuglinn bæði sprautaður og ...



... og svo er hann hjúpaður með smjöri og meira að segja læt ég viskastykki liggja á honum sem hefur verið drekkt í smjöri og olíu!


Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, Spánverja að nafni RODA frá 2008. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum sem kemur af rúmlega 30 ára gömlum vínvið. Þetta er kraftmikið vín og gott vín - ljúffengt á bragðið - með ilm og bragð af dökkum berjum og næstum brenndri eik. Good stuff!

Og daginn eftir var svo besta samloka allra tíma - hún er svo góð að við hlökkum til að borða hana allt árið! Það er Kjartan, bróðir minn, sem hefur verið að þróa þessa samloku, nánast árum saman. Hún verður stöðugt betri!


Fyrst er að skera kalkúnin niður. 


Raða brauði á ofnskúffu og smyrja með blöndu af sultu og mayonaisi. Síðan er ostur settur yfir. 


Næsta skref er að setja sósu á hina sneiðina. Svo ljúffengu fyllinguna og svo er brauðsneiðunum hent undir grillið í eitt augnablik. 


Næsta skref er að setja rauðlauk í þunnum sneiðum.


Svo tómata og salat.


Og að loka - og mikilvægast af öllu - eins mikinn kalkúnn og brauðsneiðin ber!


Svo er bara að tylla sér niður með smávegis af jólaöli eða malti og appelsíni! 

Núna er sko tími til að njóta!

Tuesday 17 December 2013

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati

Ég hóf þessa viku á rannsóknarvinnu - en ég er að reyna eins og rjúpan við staurinn að sinna doktorsverkefninu mínu! Það gekk ágætlega framan af dagi, sótti gögn og las í gegnum þau og reyndi að skrá niður það sem máli skipti. Planið var að halda þessari vinnu áfram út vikuna en útgefandinn minn hringdi í mig eftir hádegið og spurði hvort ég væri til í að skreppa til Íslands til að taka þátt í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni. Það hélt ég nú. Þannig að restin af deginum fór svona fyrir ofan garð og neðan. Bóka flug, redda gistingu, losa mig við eina bakvakt, skipuleggja smá matseðil! Þetta verður gaman! 

Verð því að halda vel á spöðunum næstu tvo daga svo mér verði fyrirgefin þessi ferð. Sem betur fer er ég í rannsóknaleyfi og hef engar klíniskar skyldur þannig að þetta ætti allt að ganga. Dóttir mín, Valdís Eik, verður þrettán ára á föstudaginn og fær að koma með mér heim til Íslands og vera mér andlegur stuðningur í sjónvarpssal. Hún var ekkert lítið ánægð að fá að fara þessa óvæntu ferð. Svona tveimur mínútum eftir að henni voru sagðar fréttirnar var hún búin að þaulskipuleggja daganna tvo með frænku sinni og vinkonu! 

Ætli ég nái ekki að redda jólamatnum með þessari óvæntu heimsókn! Í síðustu tveimur ferðum hef ég haft svo mikið fyrir stafni að ég hef klikkað illilega á því að kaupa inn fyrir jólin. Ég hafði treyst á að foreldrar mínir myndu ná að bjarga þessu fyrir horn eins og svo oft áður en að þessu sinni lögðu þau lykkju á leið sína og fóru viku fyrr af stað og eru núna að heimsækja gamla vini sína í Saarbrucken í Þýskalandi. Þau munu koma til okkar um næstu helgi og halda með okkur jól eins og þau hafa gert síðastliðin fimm ár! Við hlökkum mikið til að fá þau til okkar.

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati


Þessi réttur varð til þegar ég var að hreinsa út úr ísskápnum núna í síðustu viku. Þar kenndi þó ýmissa grasa, fann tvö eggaldin, átti nautahakk inní frysti sem ég hafði keypt lífrænt frá bónda í Ängelholm núna fyrir nokkrum vikum, hálfaskja af tómötum úti í glugga og svo á ég oftast til nokkrar lauktegundir í skál á eyjunni minni! 

Innihaldslýsing

2 eggaldin
400 gr nautahakk
150 gr tómatar
2 smáir rauðlaukar
1 rauð papríka
4 hvítlauksgeirar
3 rauðir, smáir, chilipiprar
1 msk tómatpuré
250 ml af kjötsoði
1 msk smátt saxað ferskt basil
2 tsk þurrkað oregano
1/2 krukka af fetaosti í kryddolíu

Þetta er það sem fannst inn í ísskáp! Ekki svo slæmt, stundum eru svona "naglasúpur" bara nokkuð góðar!


Skerið laukinn, hvítlaukinn og sveppina niður smátt. 


Þegar laukurinn, hvítlaukurinn, papríkan og sveppirnir hafa fengið að steikjast í nokkrar mínútur á pönnunni bætið þið hakkinu saman við. 


Bætti síðan chilipiparnum saman við - hann var heldur lítill þannig að ég lét kjarnann fylgja með.


Þegar nautahakkið var brúnað þá setti ég tómatana saman við - sem ég hafði skorið í helminga - ásamt tómatpúréinu. Setti svo oreganoið.


Næst kjötsoðið, sem ég hitaði að suðu, og leyfði síðan að krauma þannig að það sauð niður í minnst um helming - þannig að sósan væri þykk og falleg.


Næst skar ég eggaldinið niður í helminga og hreinsaði innihaldið út en skildi nóg eftir þannig að það væri líklegra til að halda formi sínu þrátt fyrir að vera bakað í ofni. 


Steikti síðan innvolsið af eggaldininu í jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Að lokum hellti ég eggaldininu saman við kjötsósuna. Bætti síðan basilinu saman við. 


Síðan fyllti ég eggaldinið með kjötsósunni. 


Stappaði svo niður fetaostinn. 


Og dreifði ríkulegu magni af honum yfir.


Bakaði svo inni í ofni í 35 mínútur. 




Með matnum drukkum við síðan örlítið tár af ljúffengu frönsku víni frá E.Guigal. Þetta er Cotes du Rhone vín frá því 2010. Þetta vín er blanda úr þremur þrúgum, Syrah 60%, grenache 30 % og svo 10% mourvedre þrúgur. Liggur í eikarfati í eitt ár áður en það er sett á flöskur og selt í verslanir. Þetta er ljómandi góður sopi, fallega rautt, lyktar af villtum berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og með góðu jafnvægi. Þetta vín hefur oft fengið háa einkunn í víndómum!


Þetta varð mjög gómsætt. Eggaldin umbreytist við eldun frá því að vera biturt á bragðið yfir í að vera djúpt og arómatískt. Hitinn af chiliinum kom líka vel í gegn - fyrir krakkana hefði ég kannski átt að kjarnhreinsa, en mér fannst þetta frábært. Bárum bara smá hreina jógúrt fram með matnum. Meira að segja Ragnhildur Lára var kampakát með matinn! 

Núna er kominn tími til að njóta!

Sunday 15 December 2013

Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri

Hérna er komið þriðja myndbandið sem við gerðum til að kynna bókina mína! 



Ég man ekki hvaðan þessi uppskrift er komin. Síðastliðið sumar var ég mikið að prófa mig áfram með að nota ansjósur í mat og læra hvernig þær geta lyft bragðinu af eiginlega hvaða mat sem er upp á æðra stig. Betur, kröftugar og á heilsusamlegri hátt en til dæmis arómat eða mónósódíum glútamat gerir!

Best er að bræða ansjósur í smjöri eða olíu við lágan hita þangað til þær hverfa inn í fituna. Síðan er bara að velja hvað þú vilt nota grunninn í. Á sumrin sækja áhrif Miðjarðarhafsins á mig; kapers, ólífur, sítrónusafi og steinselja. Þetta eru dásamleg hráefni til að para við eitt af því besta úr íslensku sjávarfangi – þykk þorskhnakkaflök!

Ofnristaður þorskur með ansjósu, ólívu, kapers og chillismjöri
Innihaldslýsing
100 g smjör
50 ml jómfrúarolía
6 ansjósuflök
2 msk kapers
15 kalamata-ólífur
1/2 chili-pipar
1 kg þorskhnakki
salt og pipar

Setjið olíuna og smjörið í pott og bræðið smjörið.

Lækkið hitann eilítið og setjið svo smátt söxuð ansjósuflökin út í. Látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smjörið.

Bætið svo við kapers, smátt söxuðum chili-pipar og ólífum og eldið áfram í 10 mínútur.

Skerið þorskhnakkann niður í skammtastærðir og penslið með smávegis af smjörinu. Saltið og piprið.

Grillið þorskhnakkann undir ofngrillinu – setjið fiskinn rétt ofan við miðjan ofninn. Hann ætti að verða tilbúinn á sjö til tíu mínútum.

Raðið svo þorskhnakkanum á disk og hellið smjöri yfir fiskinn.

Spíntakartöflumús

Að blanda spínati í kartöflumús lífgar verulega upp á hana og gerir hana léttari og jafnvel mildari. Spínatið þarf ekki að elda ef það er sett út í rjúkandi heitar kartöflurnar, það dugir einfaldlega að hræra því saman við og blöðin munu skreppa saman og eldast í gegn.

Verið ófeimin við að auka spínatmagnið í uppskriftinni, músin verður ekkert síðri. Kreistur hvítlaukur hefur heldur aldrei eyðilagt neitt í þessu samhengi.

1 kg kartöflur (helst mjölmiklar)
salt og pipar
1 dl nýmjólk
100 gr smjör
200 g spínat

Flysjið og sjóðið kartöflur í ríkulega söltuðu vatni.

Þegar hægt er að stinga í gegnum þær með hníf án mótstöðu eru þær tilbúnar.

Hellið kartöflunum í sigti og látið renna vel af þeim.

Setjið aftur í pottinn og maukið með stappara.

Bætið salti, pipar, mjólk og smjöri við og hrærið vel saman.

Skolið spínatið og þurrkið, gjarnan í salatvindu, áður en því er blandað saman við kartöflumúsina.

Wednesday 11 December 2013

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur!

Við gerum eins og margar fjölskyldur pizzur á föstudagskvöldum. Það hefur eiginlega orðið að hefð á okkar bæ. Og það er líka alveg ágætt að sameinast í lok vikunnar og að allir fjölskyldumeðlimir fái að föndra sína eigin pizzu. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um þessa flatbökugerð fjölskyldunnar. Sumum hverjum myndi finnast þetta nóg komið - hversu mörg orð er eiginlega hægt að eyða í rétt sem er raunar lítið annað en brauð með áleggi? En það er nú svo, að þetta er einn vinsælasti réttur heims.

Auðvitað gerum við nokkrar tegundir af flatbökum - allir fá að gera sína uppáhaldstegund. Börnin velja gjarnan það sama en stundum hafa þau sleppt af sér beislinu og leyft ímyndunaraflinu að ráða för. Fyrir rúmu ári fóru þau mikinn í eldhúsinu og gerðu "tilraunapizzur" - hægt er að skoða það hérna. Snædís hefur alveg fests í Pizza Bianca - sem er án tómatsósu og er ansi ljúffeng - hef jafnframt greint frá því á síðunni minni - sjá hérna. Ég held að ég hafi prófað flest í þessum bransa - að grilla þær - sjá hérna, að loka þeim og innbaka, sjá hér. Ég hef prófað ýmiskonar álegg - sett á þær allt milli himins og jarðar, hérna veisluafganga, kartöflur (sem var ljúffengt) og svo þessa með humri og þistilhjörtum - namminammi! Og aldrei verð ég þreyttur á þessu! ALDREI!

Ég hef upp á síðkastið verið að færa mig upp á skaftið hvað ansjósur varðar. Þær eru sannkallað leynivopn í matargerð - gefa ótrúlega ríkt bragð og lyfta öðru bragði með kröftugu "umami" bragði sem fyllir bragðlaukana.

Frönsk flatbaka, Pissaladière - auk annarra tegunda - Villi bakar pizzur! 

Ekta Pissaladière er frá Provence í Frakklandi en mér skilst að líkar flatbökur séu til í Liguria á Ítalíu. Liguria liggur, jú, að Frakklandi og einmitt að Provence-Alpes-Côte d'Azur. Það er kannski til lítils að þræta um uppruna þó að ég gæti best trúað að margir eldheitir Ítalir og Frakkar myndu án efa vilja rekja upprunann til sín.

Þessi flatbaka er oftast án tómatsósu - en ég ákvað að brjóta þá reglu þar sem ég hafði gert svo góða og einfalda sósu sem mér fannst synd að láta fara til spillis. Einnig datt mér í hug að tómatarnir myndu milda ansjósubragðið lítillega sem er ágætt þegar maður er að læra að elska ansjósur meira og meira. 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Tómatsósan

1 laukur
3 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
1 dós góðir niðursoðnir tómatar
1 msk tómatpúré
salt og pipar
2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil 

Álegg

15 ansjósuflök
30 kalamataólívur
2 hvítir laukar
2-3 hvítlauksrif



Það er um að gera að láta börnin sjá um þetta! Villi var að þessu sinni aðalmaðurinn í eldhúsinu!


Setjið hveitið í skál. 


Svo saltið. Og á eftir því olíuna.


Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við.


Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. 


Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.


Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.


Deigið ætti að ná að tvö til þrefaldast. 


Svo er bara að fletja út deigið. 


Litla systir fylgist með full aðdáunnar! 


Næst er að skera laukinn niður í sneiðar og steikja hann við lágan hita í 30-40 mínútur til þess að karmellisera hann. Gleymið ekki að salta og pipra. 


Raðið síðan ansjósum á pizzuna, lauknum, ólívum og smátt skornum hvítlauk. 


Þessi mynd er hér til að minna mig á að nefna að við gerðum fleiri flatbökur er bara Pissaladière, Snædís fékk sína Bianca, Valdís fékk eina með túnfisk og kapers og svo Villi sem vildi bara einfaldleikann að þessu sinni, skinku! 


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Vina Maipo Gran Devocion Syrah Petite Sirah frá því 2009. Þetta er vín frá Chile og er blanda af 80% Syrah, 20% Petite Sirah. Þetta er vín sem hefur fengið góðar viðtökur - Það hefur fengið að þroskast á eikartunnum í meira en eitt ár. Bragðið er kryddað og ávaxtakennt með eikuðu eftirbragði! Ljúffengt. 



Þetta var kraftmikil og bragðgóð pizza. Umamibragðið kom sterklega í gegn og sveik ekki! Hvet ykkur til að prófa þessas bragðmiklu flatböku! 


Monday 9 December 2013

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára!



Ó, hvað tíminn líður hratt. Ég man þegar ég sat við borðstofuborðið í Skaftahlíðinni fyrir framan tölvuna og ákvað að prófa að byrja að blogga! Ástæða þess að ég byrjaði að blogga var til þess að hvetja sjálfan mig áfram í eldhúsinu. Mér hefur alltaf þótt gaman að elda - alveg frá því að ég var krakki að ég fór að baka skúffuköku í eldhúsinu heima.

En þetta haust - haustið 2006 fannst mér eitthvað vanta á innblásturinn í eldhúsið og upplifði að ég væri að endurtaka mig í sífellu. Var alltaf að elda Spaghetti Carbonara - ekki bara vegna þess hversu ótrúlega gott það er - heldur líka vegna þess að mér datt sá réttur bara oftast í hug! Þannig að - um þetta leyti var bloggið að ryðja sér til rúms á Íslandi og mér fannst bara þjóðráð að prófa mig áfram að þeim vettvangi. 

Og síðan 9. desember 2006 hef ég bloggað að minnsta kosti 498 færslur um uppáhalds áhugamál mitt sem síðan þá hefur orðið ennþá ríkari þáttur af mínu lífi og fjölskyldu minnar. Og áhugamálið hefur vaxið. Ég hef haldið úti bloggi á Moggablogginu frá upphafi, var um tíma á Miðjunni sem síðar lagði upp laupana, seinna á Eyjunni og síðustu tvö árin hef ég lagt allt púður í "nýju" heimasíðuna - Lækninn í Eldhúsinu. Svo hef ég verið nokkuð virkur á Fésbókinni og meira segja gælt við enska útgáfu bloggins sem ennþá er í vinnslu - svona beta útgáfa. 

Nú hef ég eins og lesendur vita margir - gefið út veglega matreiðslubók. Hver veit hvert vegurinn liggur? Það verður allavega spennandi að hefja nýtt ár og takast á við þau verkefni sem þar þarf að vinna.

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára! 

Ég ákvað að velja nokkrar færslur til að hafa á svona lista - eitthvað sem ég gæti kallað uppáhaldið mitt - en þær eru margar fleiri. Þessir réttir hafa verið með mér síðustu ár - nokkrir frá því ég var barn - sumir nýrri en allir eru þeir ljúffengir.

1. Spaghetti Bolognese innblásin úr mörgum áttum! 


Þessi uppskrift hefur verið með mér frá blautu barnsbeini. Mamma gerði alltaf ljúffenga kjötsósu sem var í miklu uppáhaldi. Seinna fór ég að elda þetta sjálfur og var lengi mjög stoltur af niðurstöðunni. En uppskriftin tók breytingum. Snædís sagði að ég notaði of mikið oregano í uppskriftina og ég sem hélt að ég hefði unnið hjarta hennar með einmitt þessari uppskrift. Niðurbrotinn maðurinn hóf þá leit að betri uppskrift og með hjálp bróður míns rötuðum við á aðferð Marcelu Hazan - sem er afar ljúffeng. Eftir að ég fór að gera hana með mínu eigin beikoni varð hún "instant" klassík. Bróðir minn heldur því þó fram að hægt sé að elda hana á skemmri tíma en ég gef upp í uppskriftinni. Hver og einn þarf auðvitað að eiga það við sig!

2. Grillaðir hvítlaukspenslaðir humarhalar


Það þarf eiginlega ekkert að segja um þennan rétt. Ég hef eldað oftar en ég get talið - ég hef bloggað um hann nokkrum sinnum og eldaði hann meira að segja tvisvar fyrir bókina. Fannst myndirnar eitthvað "slappar" og notaði það sem afsökun að gera réttinn aftur. 

Þetta er oft í forrétt hjá mér - en þegar veskið leyfir þá er þessi réttur einnig fullkominn aðalréttur. Ég er meira að segja sannfærður að ef vel liggur á manni þá væri vandræðalaust að borða þennan þennan gómsæta humar sem eftirrétt!

3. Pavlova - eftirréttur guðanna, fyrir 130 manns


Eins og þeir sem lesa bloggið mitt verða eflaust varir við - þá fer ekki mikið fyrir kökum og eftirréttum á síðunni minni. Og útskýriningin á því er einföld - Ég er einfaldlega hrifnari af for-, aðal og brauðréttum en eftirréttum og sætmeti. 

En þetta á auðvitað sínar undantekningar. Pavlova er terta sem einhvern veginn nær að fanga alla breiddina - allt frá sætunni í tyggjókenndum botninum út í þéttleika rjómans og svo ferskleikann sem kemur frá ávöxtunum. 

Ég bakaði þessa köku fyrir brúðkaup kollega míns - Daggar Hauksdóttur þegar hún gekk að eiga manninn sinn, Grím. Ég gerði einar tuttugu kökur. Náunginn sem var mér innan handar í eldhúsinu til að klára að setja þetta upp á disk - át rúmlega hálfa tertu. Ætli hann hafi ekki verið að borða hana í fyrsta sinn - og því verða þetta að teljast nokkuð eðlileg viðbrögð!

4. Seiðandi andabringur "sous-vide"með steiktum kirsuberjum og pommes fondant fyrir ástina mína!


Þennan rétt gerði ég fyrir Snædísi, ástina mína, kvöldið þegar hún kom heim með þriðja barnið okkar, Ragnhildi Láru. Fæðingin gekk vel og við höfðum farið á sérstakt námskeið um hvernig má styðja maka sinn í gegnum fæðingarferlið. Það var einstaklega lærdómsríkt námskeið og mér hefur aldrei fundist ég vera eins mikill þátttakandi eins og einmitt í þessari fæðingu - oftast hefur mér fundist ég vera óskaplega bjargarlaus í þessu ferli sem konan mín hefur gengið í gegnum - en í þetta skiptið gat ég verið henni meira innan handar! Það var sérstök reynsla.

Ég kom heim og eldaði uppáhaldsmat Snædísar, andabringu - nema að þessu sinni gerði ég hana með þeim hætti sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um síðar. Sous-vide - eldað undir þrýstingi við lágan hita. Þannig verður kjötið einkar meyrt og bráðnar í munni. Kjötið er svo steikt í lokin til að fá þessa karmelliseringu sem er svo góð!

5. Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmeti


Ég gæti sett svo margar kjúklinga uppskriftir inn á þennan lista - því ég er svo heppinn að luma á mörgum góðum leiðum til að elda kjúkling. En mér þykir sérstaklega vænt um þessa uppskrift og þegar ég sest niður við matarborðið með fjölskyldunni minni er næstum eins og ég flytjist til í tíma og sitji með foreldrum mínum og litla bróður við matarborðið. Og þetta voru hátíðlegar stundir sem ég á seint eftir að gleyma!

6. Confit du Canard með Puy linsum


Þetta er alveg mögnuð uppskrift. Linsurnar eru jarðbundnar og seiðandi og vega svo vel á móti næstum því sætu og feitu bragðinu af öndinni. 

Í þessari uppskrift notast ég við andaleggi sem hafa verið undirbúnir og lítið þarf að gera annað en að hita þá í ofni. En það er ekkert mál að gera þetta frá grunni. Eina sem þarf er smá tími og tvö kíló af andafitu! Uppskriftina er að finna í bókinni minni!



Þegar síðan mín varð fimm ára - nefndi ég þessa færslu sem mína uppáhalds. Og það verður að segjast að hún er það auðvitað ennþá. Þó þróast bragðlaukarnir og ætli ég myndi í dag ekki nefna porchetta italiana sem er í algeru uppáhaldi í dag - en uppskriftina af henni er að finna í bókinni minni. 

Þessi stendur þó alltaf fyrir sínu og þegar það fer að hausta býð í svona kjötsósuveislu. Þessi réttur kenndi mér að það þarf ekki flókin hráefni til að elda dásamlega ljúffengan mat - í þessari uppskrift er auðvitað íslenskt lambakjöt en aðalhráefnið er tími. Að gefa sósunni tíma til að malla á lágum hita, sjóða niður svo bragðið nái að þróast - að draga það besta úr þeim fáu hráefnum sem sett voru í sósuna. Og ætli það skemmtilegasta sé ekki að njóta hennar með góðum vinum og vandamönnum. Sjá hvað allir verða glaðir og mettir - hlægja og lyfta glösum!


*

Ég von að þið haldið áfram að líta við á síðunni minni - ég mun án efa halda ótrauður áfram að skrifa um mitt helsta hugðarefni; eldamennsku, mat og drykk. Fátt gleður mann nefnilega meira en að heyra að fólk kunni að meta það sem maður er að gera - það er hreint út sagt ótrúlega verðlaunandi. 

Hlakka til að halda þessu áfram. 

Núna er kominn tími til að njóta!