Sunday 28 October 2018

Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk!


Ég elska haustin! Reyndar er ég þannig gerður að ég nýt hverrar árstíðar fyrir sig - en haustin eru í sérstöku uppáhaldi, en þá kemur á markaðinn fullt af splunkunýju grænmeti og svo auðvitað kjöt af nýslátruðu lambi.

Frændur okkar í Noregi kunna svo sannarlega að njóta lambakjöts og hvítkáls, en þjóðarréttur Norðmanna er einmittt Får i Kål - sem er eins einfaldur og hugsast getur. Þar sjóða menn jafnan hlut af lambakjöti og hvítkáli með fullt af heilum svörtum pipar í rúmar tvær klukkustundir. Galdurinn ku vera að þjappa kjötinu og kálinu á víxl í potti svo að hann verði alveg troðinn upp að börmum!

Þó að ég hafi þjóðarrétt Norðmanna bak við eyrað ætla ég að víkja ærlega af sporinu og sækja innblástur til Jamie Oliver, Simon Hutchinson og meira að segja Marco Pierre White. Það er þá eins gott að rétturinn heppnist vel!

Annars erum við stödd, eins og svo oft áður, í Kjósinni í sumarhúsi foreldra minna. Markmiðið er að ganga til rjúpna á morgun upp í dal. Hann er ansi erfiður yfirferðar svo það er gott að næra sig vel daginn fyrir gönguferðina.

Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk! 

Hráefni fyrir 6

1 lambaframpartur
1 hvítkálshaus frá gróðrarstöð Sigrúnar
3 epli
1 laukur
4 hvítlauksrif
4 ansjósuflök
1 lambateningar
4 greinar rósmarín
handfylli timjan
6 msk jómfrúarolía
salt og pipar

Borið fram með rjómalagaðri sveppasósu, kartöflum sem voru svo góðar að þær munu koma í sérstakri færslu og svo einföldu, en mjög svo ljúffengu salati.


Ég keypti þetta ferska hvítkál í nærlægri matvöruverslun. Hvítkál ætti maður að nota oftar - ég ætla í ár að prófa aftur að gera súrkál - sem ég hef lært að meta á endurteknum ferðum mínum til Austurríkis (panta mér alltaf væna pylsu með súrkáli og sterku sinnepi - nammi namm). Skal gera grein fyrir því í færslu á komandi vikum. 


Alltént skar ég hvítkálshausinn gróflega, sem og eplin og laukinn og lagði allt saman í stóra olíuborna ofnskúffu. 


Svo útbjó ég magnaða kryddolíu. Allt hugsað til að magna upp umami bragðið af réttinum. Hafið engar áhyggjur af ansjósunum - þær bráðna og hverfa og skilja ekkert fiskibragð eftir. Maukaði flökin saman við hvítlauk og tvo lambateninga í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu.


Svo var olíunni hellt yfir og nuddað vandlega inn í kjötið.


Svo var bara að dreifa kryddjurtum yfir og krydda vel með salti og pipar. Setti álpappír yfir og bakaði í 170 gráðu heitum forhituðum ofni í þrjár og hálfa klukkustund.


Sko, ilmurinn var nóg til að gera mann veikan í hnjánum. Öll fitan hafði bráðnað og kjötið var lungamjúkt! Lungamjúkt segi ég. Og bragðið kyngimagnað. Sérstaklega þar sem ég hafði tekið það út úr ofninum, saltað aðeins og sett undir grillið í nokkrar mínútur til að reyna að poppa aðeins upp lambafituna.

Við gerðum rjómalagaða sveppasósu með matnum. Um uppáhaldssósuna mína hef ég bloggað margoft! ;) - Hægt er að lesa um aðferðina hérna!

Set kartöflurnar inn á bloggið í vikunni en þær voru klikkaðar - með nýjum íslenskum osti - Svörtum Tind1Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín sem er frá Rioja á Spáni. En þar var ég í heimsókn í síðasta mánuði og tók upp sjónvarpþætti sem verða sýndir á Sjónvarpi Símans. Þetta vín er algert afbragð. Gert úr 100% tempranillo þrúgu - vínið er frá 2011 svo það hefur fengið langan tíma á eikartunnu og svo á flösku. Þetta vín er fallega rúbinrautt í glasi, ilmar af þroskuðum berjum og sultu. Svipað á tungu með ljúffengum eikartónum sem entust lengi.


Hvet ykkur öll til að prófa að elda lambaframpart með þessum hætti. Allir voru sammála um að það hafði heppnast sérstaklega vel í þetta skiptið.

 -------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sunday 21 October 2018

Spænskt innblásinn kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum


Í nýlegri heimsókn okkar til Spánar heimsóttum við meðal annars Laguardia - sem er lítið þorp í norðanverðu Rioja héraði. Þegar maður stendur á borgarvirkinu er horft yfir á landamærin sem skilja að Rioja og Baskaland. Fegurðin er ógleymanleg. Við heimsóttum þennan bæ einnig síðastliðið vor þegar við vorum þar nokkur í heimsókn og það var eiginlega skylda að heimsækja bæinn aftur. Hann er einkar fallegur, er nær allur innan hárra borgarmúra sem vörðu bæjarbúa á öldum áður fyrir ofríki ræningja og ribbalda. 

Allsstaðar var tekið vel á móti okkur. Við fórum á frægan vínbar þar sem hægt er að njóta vínsopa langt neðanjarðar í gömlum víngeymslum sem gerðar hafa verið upp til að veita þyrstum ferðalöngum veigar. Í borginni er nokkrar fallegar matvöruverslanir - og ein þeirra, slátrarinn, framleiðir meðal annars þessa ljúffengu chorizo pylsu sem við fengum að smakka áður en við keyptum nokkrar. Ég var svo sannarlega ekki svikinn af þessum kaupum. 

Spænskt innblásin kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum

Hráefnalisti fyrir sex

6 kjúklingabringur
250 g chorizopylsa
1 msk pimenton - sætt
1 msk pimenton - sterk reykt
3 msk hveiti
jómfrúarolía til steikingar
2 nýjar rauðar íslenskar papríkur
1 rauðlaukur 
3 hvítlauksrif
salt og pipar

hrísgrjón

salat - blönduð græn lauf, rauðlaukur, kirsuberjatómatar, agúrkur, 
einföld salatdressing - olía, sítrónusafi, salt og pipar


Ég notaði bara helminginn af þessari pylsu sem slátrarinn hafði pakkað vandlega inn fyrir mig.


Skar pylsuna í munnbitastóra bita.


Pylsuna setti ég svo á pönnuna - og lét hitann koma upp - þannig að þær gæfu sem mest af fitunni frá sér og myndu í staðinn bragðbæta kjúklinginn og grænmetið.


Var reyndar með sjö bringur - en sex hefðu verið nóg. Það er alltaf ágætt að geta tekið afganginn með sér í vinnuna daginn eftir.


Ég setti bringurnar í plastpoka og lamdi þær nokkrum sinnum svo að þær yrðu nokkuð jafnflatar og myndu þess vegna steikjast jafnt.


Papríkuduft er ekki það sama og papríkuduft. Ég notaði tvennskonar papríkuduft, annars vegar milt - svona til að leggja grunninn og svo reykt papríkuduft til að gefa þessu hressilegt bragðkikk!


Papríkuduftinu var svo blandað saman við hveiti ásamt salti og pipar. 


Ég hafði nælt mér í þessa papríku. Hún er einkar bragðgóð. 


Svo skar ég niður einn rauðlauk, nokkuð þunnt.


Þegar chorizopylsurnar voru búnar að gefa frá sér heilmikið af fitu bætti ég papríkunum á pönnuna, svo lauknum og hvítlauknum og steikti þar til grænmetið var fallega mjúkt. Þá tók ég það til hliðar um stund.


Næst var að steikja kjúklingabringurnar að utan. Þegar þær höfðu tekið á sig lit lagði ég þær í eldfast mót og tyllti grænmetinu og pylsunum ofan á. Ég lét að sjálfsögðu ekkert af olíunni fara til spillis og hellti henni yfir þannig að ekkert af bragðinu myndi sleppa frá okkur.


Ilmurinn í eldhúsinu var dásamlegur þegar ég tók réttinn úr ofninum. Skreytti með lferskri steinselju. 


Með matnum bar ég fram þetta ítalska rauðvín. Auðvitað hefði ég átt að opna einhvern Spánverja með matnum - en maður er ekki alltaf með kveikt á perunni. En það skipti engu þar sem vínið var ljúffengt og rann ljúflega niður. Ég hafði togað tappann úr úr Corte Giara Ripasso frá Valpolicella sem er skammt fyrir utan Verona. Þetta vín minnir óneitanlega á Amarone vín - það er fallegt á litinn, með þéttum ilmi af ávexti, sultað, með kryddkeim og með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Ekki bara var maturinn ljúffengur - þá var hann líka fallegur á að horfa. Það er gaman þegar mörg skilningarvit eru örvuð. 


Hvet ykkur til að prófa þennan rétt - hann var fljótlegur og ljúffengur! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 7 October 2018

Snöggsteiktar nautasteikur ala Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati


Ég hef verið að horfa á Michelin- og sjónvarpskokkinn Marco Pierre White á Youtube upp á síðkastið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann líklega einn af fyrstu stjörnukokkum Bretlands. Hann rak nokkra veitingastaði, af þeim var Harvey's í London þekktastur og hann þjálfaði aðrar verðandi stjörnur eins og Gordon Ramsey. Hann var þekktur skapofsamaður og tók Gordon upp eftir honum þegar hann fór að reka eigin eldhús með öskrum, blóti og ragni eins og frægt er orðið. Á miðjum áttunda áratugnum var hann yngsti kokkurinn til að fá þrjár Michelin stjörnur, þá aeðins 33 ára gamall (met hans var þó slegið nokkrum árum síðar). Árið 1999 - öllum að óvörum - hengdi hann upp svuntuna sína og hætti að starfa í eldhúsi. 

Eitthvað þurfti hann þó að gera til að draga fram lífið og rekur í dag veitingastaði, hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og komið fram í sjónvarpi - og er forríkur.  Það orkaði þó tvímælis þegar hann gerðist talsmaður Knorr fyrirtækisins, sem flestir þekkja, og sagði þá vera leynivopn sitt í eldhúsinu og hafa verið það um langt árabil. Hneykslunaralda gekk yfir fylkingu matreiðslumanna sem margir gera allt frá grunni! 

Eins og flestir þá nota ég kraft (bæði teninga, duft og vökva) - það er auðvitað fljótlegt. En maður verður ekkert sérlega innblásinn þegar maður les innihaldslýsinguna - þarna er auðvitað salt og fita auk bragðaukandi efna eins og gerextract og mónósódíum glútamat og svo smá kjöt. Ekki að það sé eitthvað slæmt - en kannski ekki eitthvað sem þriggja stjörnu kokkur myndi státa sig af. Þannig að ég varð að prófa. 

Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati

Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því. 

Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 steikur (200-250g)
3 msk jómfrúarolía
2 kjötkraftsteningar 
pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

4 msk Worchestershire sósa
400 ml rjómi
3 msk þurrkuð græn piparkorn
salt og pipar eftir smekk

kartöflur
4 msk hvítlauksolía
ferskt timjan
salt og pipar

blanda af íslensku grænmeti


Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.


Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.


Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið. 


Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.


Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming. 


Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung. 


Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.


Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.

Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.

Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.
Ég greip þessa flösku með mér þegar ég var á leið í gegnum tollinn síðast. Þetta vín hef ég smakkað einu sinni áður fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec vínum frá Argentínu - sér í lagi eftir að ég heimsótti landið vegna ráðstefnu fyrir fimm árum. Þetta vín er frá 2015 - dökkrautt, næstum blekað, í blasi - ljúfir tónar af berjum, jafnvel bláberjum, eik. Flauelsmjúkt á tungu með ljúft og breitt eftirbragð. 


Svo var bara að raða á diska og setjast niður og njóta.

Og það er óhætt að hvetja ykkur til að prófa - þetta varð einstaklega bragðgóð og bragðmikil steik!

Bon appetit! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Wednesday 3 October 2018

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy


Eins og ég nefndi í færslu í byrjun september, sjá hérna, þá fórum við fjölskyldan í ferðalag um Vestfirðina síðastliðið sumar. Þá heimsóttum við meðal annars Tjöruhúsið á Ísafirði sem er án efa einn besti fiskveitingastaður á Íslandi. Síðan við fórum þangað hef ég mælt með þessum stað við flesta sem hafa áhuga. 

Einn af réttunum sem við borðuðum á veitingastaðnum var eldaður af syni aðalkokksins, en sonurinn er rétt rúmlega tvítugur. Hann virðist ætla að verða föðurbetrungur. Og það er ekkert að því sem faðir hans eldar - réttirnir hans eru vissulega ljúffengir. Ljúffengir! 

Þessi uppskrift er innblásin frá Tjöruhúsinu - mér tókst þó ekki að líkja algerlega eftir því sem við gæddum okkur á í veitingahúsinu - en þetta er tilraun mín til að útbúa eftir minni, bragðlaukaminni, það sem við fengum að borða þar. 


Ef sonur kokksins á Tjöruhúsinu les þetta, þá má hann gjarnan senda mér sína uppskrift. Og þó að mín hafi heppnast vel, þá var hans útgáfa enn betri. 

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - Rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy

Þetta er auðvitað alger fusion eldamennska. En svona verða stundum góðar uppskriftir til - með tilraunum. 

Það er líka gaman að elda með íslensku hráefni, eins og saltfiski, og svo auðvitað splunkunýtt íslenskt grænmeti. Og það er nóg í boði af því um þessar mundir - eins og það er öll haust! 

Hráefnalisti fyrir 6 manns

1,2 kg saltfiskur - hnakkastykki
100 g smjör
2 msk hveiti
pipar
100 g púðursykur
4-5 msk romm
30 g smjör
handfylli pekan hnetur

600 g stórar gulrætur
3-4 greinar rósmarín
5-6 lauf fersk salvía
3 msk hvítlauksolía
50 g smjör
2-3 msk hunang (eða hlynsíróp)

250 g pak choy
safi úr heilli sítrónu
2 msk jómfrúarolía
1 msk sherrý edik
salt og piparÉg gerði karamellu, setti sykurinn í botninn á stórum pottinn, og kveikti undir - á lágum hita og beið eftir því að sykurinn bráðnaði. Þegar hann fór að bráðna á jaðrinum dró ég hann inn að miðju þannig að hitinn dreifist jafnar um pönnuna og sykurinn bráðni jafnt. Þegar sykurinn var bráðnaður bætti ég við rommi og smjöri. Lét standa í augnablik á meðan ég sinnti saltfisknum. 


Á meðan smjörið bráðnaði á pönnu, velti ég saltfisknum upp úr hveiti og pipraði aðeins. Steikti svo fiskinn upp úr smjörinu.


Bætti handfylli af pekanhnetum á pönnuna og steikti með í nokkrar mínútur.


Hellti svo rommsírópinu á pönnuna. 


Steikti svo áfram í nokkrar mínútur - alls um 10 mínútur. 


Gulræturnar tóku lengri tíma - þannig að ég hefði átt að byrja færsluna á þeim - þær taka um klukkustund í ofninum. Byrjaði á því að flysja þær og skera í nokkuð jafnstóra bita. Gat dobblað Snædísi til að hjálpa mér. Það þurfti engar sérstaka fortölur. 


Gulrótunum var svo raðað í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Bragðbætti með smjöri, ferskum kryddjurtum og svo hunangi. Bakaði í 180 gráðu heitum ofni í klukkustund eða svo. 


Nú er hægt að fá íslenskt pok choy - sem er í raun bara afbrigði af því sem við þekkjum sem kínakál - en þetta afbrigði er það sem er algengast í heiminum. 


Ég ákvað að gufusjóða það yfir kjúklingasoði og nokkrum sítrónusneiðum í nokkrar mínútur.


Svo var bara að leggja það á disk og bragðbæta með olíu, sítrónusafa, ediki, salti og pipar.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá norðanverðu Rioja héraði - Ramon Bilbao. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta vín tók ég þátt í að velja til innflutnings nú í vor þegar mér var boðið í heimsókn til Rioja. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. Passaði ákaflega vel með saltfiskinum. 


Og hér er hann kominn - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy. 

Afar ljúffengt! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa