Þetta er færsla sem var að mestu skrifuð á sunnudaginn. Það var heldur lágt á fjölskyldunni risið í gærkvöldi enda flestir nýstaðnir upp úr iðrakveisu. Hafði eldað ofngrillaðan kjúkling fylltan basmati hrísgrjónum og döðlum með kartöflum, sætum kartöflum. Þetta var ansi girnilegt - ég einn hafði lyst á þessu og því var heilmikill afgangur. Það varð til þess að ég eldaði þennan rétt. Þetta var í svona ítölskum anda - þar sem reynt var að nota alla afganga. Þannig að ég bjó til ravioli. Ansi mikil handavinna - og fyrir þá sem hafa reynt stundum tvísýnt með árangur - en þegar heppnast...frábært!!!
Gekk til rjúpna seinustu helgi. Það fer hver að verða síðastur. Var einn á ferð í talsverðum vindi, frosti og byl. Var með vindinn í fangið. Þegar ég hafði gengið inn dalinn í fimm korter sá í tvær rjúpur fljúga framhjá mér. Í bráðræði hleypti ég af tveimur skotum. Hitti ekki. Fylgdist með þeim fljúga undan vindi og svo venda sér upp í vindinn og lenda 60 metrum frá mér í litla dæld. Ég gekk af stað og fann hvernig undirlagið gaf sig og ég stakkst ofan í snjóinn. Þegar ég stóð upp tók ég eftir því að síðasta skotið í byssunni hafði stöðvast á miðri leið og byssan var full af snjó. Ég reyndi að hreinsa eins og ég gat og hlaða aftur - skotin vildu ekki í geyminn - einhver stífni í gorminum í skotgeyminum. Þegar komið var á hólinn sá ég rjúpurnar narta í grös og biðu eftir mér. Ég setti skot í hlaupið og settist niður - miðaði - beið eftir að þær röðuðu sér upp þannig að ég næði þeim báðum í einu skoti, ætli þær hafi ekki verið 20-25 m í burtu. Horfði eftir hlaupinu - fullkomið - tók í gikkinn og klikk - ekkert gerðist. Rjúpurnar horfðu á mig, að ég held undrandi. Setti nýtt skot í og reyndi aftur - klikk. Ekkert. Reyndi að hreinsa byssuna eins og ég gat - strjúka af öllu, hreinsa hvert snjókorn í burtu. Ekkert ætlaði að ganga. Fór í gengum öll skotin í beltinu - ekkert. Ég endaði með að taka upp nestið mitt og borða súkkulaði og drekka kaldan djús með rjúpunum. Rjúpurnar færðu sig sífellt nær mér. Þegar þær voru hvað næst voru þær ekki lengra en 6-7 metra í burtu. Fallegir og virðulegir fuglar. Ætla greinilega að koma sér undan jólaboði hjá mér þetta árið!
Ég gekk niður hlíðina ansi pirraður en yljaði mér við tilhugsunina um það sem ég ætlaði að gera í eldhúsinu. Ravioli!
Ljómandi gott heimagert ravioli með sætkartöflu og camenbert fyllinguÞað er auðvelt að búa til pastadeig en það krefst talverðar handavinnu. 500 gr af hveiti eru sett í matvinnsluvél og fimm stórum eggjum er bætt saman við. Hrært saman með krafti. Þetta verður að grófri mylsnu sem er svo hellt á hreint borð og hnoðað saman í eina kúlu í nokkrar mínútur. Vafið í plastfilmu og sett í ísskáp í amk 60 mínútur en má alveg standa lengur í skápnum. Pastað má gera með handafli en fyrir þá sem hafa reynt er það mikil vinna. Best er að nota pastavél sem fletur deigið fyrir mann (Ég á Imperia pastavél sem ég keypti á Ítalíu fyrir 2500 kall - hægt er að fá sömu maskínu á íslandi fyrir 15 þúsund - langt flug, skiljið þið!). Deigið er flatt út nokkrum sinnum í vélinni, byrja fyrst á fyrstu stillingu og þrengja svo þar til deigið er um það bil 0,6-1 mm á þykkt.
Þá er deigið lagt á borð og fyllingunni bætt á, 1 tsk í senn, með ca 5-7 cm millibili. Þá er penslað í kringum fyllinguna og annað jafnstórt deig lagt ofan á. Þétta vel í kring og passa að loftið sleppi út. Þetta er soðið í miklu söltuðu vatni í nokkrar mínútur - ferskt pasta þarf minni suðu en þurrt. Gæti best trúað að pastað hafi ekki verið lengur en 4 mínútur í pottinum - allavega ekki meira en það.
Fyllingin var einföld. Blandaði saman afgöngum af sætum kartöflum (1 sæt kartafla), venjulegum kartöflum (1-2 stórar bökunarkartöflur) og camenbert osti sem ég tók hvítuna af og setti í matvinnsluvél (allt hafði þetta verið eldað áður nema osturinn). Þetta varð að frekar fínni blöndu og við þetta blandaði ég ferskri steinselju, salti og pipar og hrærði vel saman.
Fersku pasta hentar vel feitar sósur. Steikti einn meðalstóran hvítan smáttskorin lauk og einn garlic noble í 20 gr af smjöri í nokkrar mínútur - mikilvægt að saute'a laukinn svo hann brenni ekki, þá verður hann sætur og góður. 100 ml af hvítvíni er hellt saman við og soðið aðeins niður. Þá er niðurskornum kjúkling (ca kjöti af tveimur bringum sem hafði verið ofnbakaður kvöldið áður - örugglega hægt að nota ferskar bringur og gæta þess bara að elda í gegn) bætt saman við og hann hitaður. Svo er 150 ml af matreiðslurjóma og 100 ml af venjulegum rjóma bætt útí, ásamt einum grænmetistening, og soðið upp. Ef einhverjir ostar (sem eru að nálgast dagsetningar sínar eru til í ísskápnum er um að gera að koma þeim í lóg) - Setti 2 sneiðar af gráðaosti saman við. Saltað og piprað og leyft að malla í nokkrar mínútur. Rétt áður en að sósan er tilbúin er fersku basil bætt útí.
Raviolinu er raðað á disk og sósunni dreift yfir. Borið fram með parmesan osti, aukalegu salti og pipar. Einnig var borið fram með matnum einfalt ferskt salat og gott hvítvín.
Bon appetit.