Thursday 29 November 2007

Ljómandi gott heimagert ravioli með sætkartöflu og camenbert fyllingu

Þetta er færsla sem var að mestu skrifuð á sunnudaginn. Það var heldur lágt á fjölskyldunni risið í gærkvöldi enda flestir nýstaðnir upp úr iðrakveisu. Hafði eldað ofngrillaðan kjúkling fylltan basmati hrísgrjónum og döðlum með kartöflum, sætum kartöflum. Þetta var ansi girnilegt - ég einn hafði lyst á þessu og því var heilmikill afgangur. Það varð til þess að ég eldaði þennan rétt. Þetta var í svona ítölskum anda - þar sem reynt var að nota alla afganga. Þannig að ég bjó til ravioli. Ansi mikil handavinna - og fyrir þá sem hafa reynt stundum tvísýnt með árangur - en þegar heppnast...frábært!!!

Gekk til rjúpna seinustu helgi. Það fer hver að verða síðastur. Var einn á ferð í talsverðum vindi, frosti og byl. Var með vindinn í fangið. Þegar ég hafði gengið inn dalinn í fimm korter sá í tvær rjúpur fljúga framhjá mér. Í bráðræði hleypti ég af tveimur skotum. Hitti ekki. Fylgdist með þeim fljúga undan vindi og svo venda sér upp í vindinn og lenda 60 metrum frá mér í litla dæld. Ég gekk af stað og fann hvernig undirlagið gaf sig og ég stakkst ofan í snjóinn. Þegar ég stóð upp tók ég eftir því að síðasta skotið í byssunni hafði stöðvast á miðri leið og byssan var full af snjó. Ég reyndi að hreinsa eins og ég gat og hlaða aftur - skotin vildu ekki í geyminn - einhver stífni í gorminum í skotgeyminum.  Þegar komið var á hólinn sá ég rjúpurnar narta í grös og biðu eftir mér. Ég setti skot í hlaupið og settist niður - miðaði - beið eftir að þær röðuðu sér upp þannig að ég næði þeim báðum í einu skoti, ætli þær hafi ekki verið 20-25 m í burtu. Horfði eftir hlaupinu - fullkomið - tók í gikkinn og klikk - ekkert gerðist. Rjúpurnar horfðu á mig, að ég held undrandi. Setti nýtt skot í og reyndi aftur - klikk. Ekkert. Reyndi að hreinsa byssuna eins og ég gat - strjúka af öllu, hreinsa hvert snjókorn í burtu. Ekkert ætlaði að ganga. Fór í gengum öll skotin í beltinu - ekkert. Ég endaði með að taka upp nestið mitt og borða súkkulaði og drekka kaldan djús með rjúpunum. Rjúpurnar færðu sig sífellt nær mér. Þegar þær voru hvað næst voru þær ekki lengra en 6-7 metra í burtu. Fallegir og virðulegir fuglar. Ætla greinilega að koma sér undan jólaboði hjá mér þetta árið!

Ég gekk niður hlíðina ansi pirraður en yljaði mér við tilhugsunina um það sem ég ætlaði að gera í eldhúsinu. Ravioli!

Ljómandi gott heimagert ravioli með sætkartöflu og camenbert fyllingu

Það er auðvelt að búa til pastadeig en það krefst talverðar handavinnu. 500 gr af hveiti eru sett í matvinnsluvél og fimm stórum eggjum er bætt saman við. Hrært saman með krafti. Þetta verður að grófri mylsnu sem er svo hellt á hreint borð og hnoðað saman í eina kúlu í nokkrar mínútur. Vafið í plastfilmu og sett í ísskáp í amk 60 mínútur en má alveg standa lengur í skápnum. Pastað má gera með handafli en fyrir þá sem hafa reynt er það mikil vinna. Best er að nota pastavél sem fletur deigið fyrir mann (Ég á Imperia pastavél sem ég keypti á Ítalíu fyrir 2500 kall - hægt er að fá sömu maskínu á íslandi fyrir 15 þúsund - langt flug, skiljið þið!). Deigið er flatt út nokkrum sinnum í vélinni, byrja fyrst á fyrstu stillingu og þrengja svo þar til deigið er um það bil 0,6-1 mm á þykkt.

Þá er deigið lagt á borð og fyllingunni bætt á, 1 tsk í senn, með ca 5-7 cm millibili. Þá er penslað í kringum fyllinguna og annað jafnstórt deig lagt ofan á. Þétta vel í kring og passa að loftið sleppi út. Þetta er soðið í miklu söltuðu vatni í nokkrar mínútur - ferskt pasta þarf minni suðu en þurrt. Gæti best trúað að pastað hafi ekki verið lengur en 4 mínútur í pottinum - allavega ekki meira en það.

Fyllingin var einföld. Blandaði saman afgöngum af sætum kartöflum (1 sæt kartafla), venjulegum kartöflum (1-2 stórar bökunarkartöflur) og camenbert osti sem ég tók hvítuna af og setti í matvinnsluvél (allt hafði þetta verið eldað áður nema osturinn). Þetta varð að frekar fínni blöndu og við þetta blandaði ég ferskri steinselju, salti og pipar og hrærði vel saman.

Fersku pasta hentar vel feitar sósur. Steikti einn meðalstóran hvítan smáttskorin lauk og einn garlic noble í 20 gr af smjöri í nokkrar mínútur - mikilvægt að saute'a laukinn svo hann brenni ekki, þá verður hann sætur og góður. 100 ml af hvítvíni er hellt saman við og soðið aðeins niður. Þá er niðurskornum kjúkling (ca kjöti af tveimur bringum sem hafði verið ofnbakaður kvöldið áður - örugglega hægt að nota ferskar bringur og gæta þess bara að elda í gegn) bætt saman við og hann hitaður. Svo er 150 ml af matreiðslurjóma og 100 ml af venjulegum rjóma bætt útí, ásamt einum grænmetistening, og soðið upp. Ef einhverjir ostar (sem eru að nálgast dagsetningar sínar eru til í ísskápnum er um að gera að koma þeim í lóg) - Setti 2 sneiðar af gráðaosti saman við. Saltað og piprað og leyft að malla í nokkrar mínútur. Rétt áður en að sósan er tilbúin er fersku basil bætt útí.

Raviolinu er raðað á disk og sósunni dreift yfir. Borið fram með parmesan osti, aukalegu salti og pipar. Einnig var borið fram með matnum einfalt ferskt salat og gott hvítvín.

Bon appetit.


Thursday 22 November 2007

Gnocchi di patate (kartöflupasta) með tómatsósu og brauði

gnocchiádisk

Hvernig væri að byrja færslu án veðurlýsinga. Þetta verður þá fyrsta sinn í þó nokkrar færslur sem ég byrja bloggið mitt ekki á einhverjum hugleiðingum um veðrið. What a bore! Var að ljúka við að horfa á Jóa Fel þátt og þar ferðast hann um Ítalíu og fær hugljúfa Ítala til að elda fyrir sig mat. Það er eitthvað pínulítið bogið við að sjá ítalskt hráefni í íslenskum umbúðum í ítölskum eldhúsum.

Það er langt síðan að ég gerði gnocchi síðast. Þessum rétti kynntist ég þegar við hjónin vorum í fyrsta sinn á ferðalagi um Ítalíu fyrir 8 árum síðan. Þá vorum við í brúðkaupsferð í Piemonte en gnocchi er algengur matur á norðanverðri Ítalíu. Það var alger tilviljun að ég smakkaði þetta í fyrsta sinn, ég hélt að ég væri að panta venjulegt pasta. Fyrir þá sem hafa ekki borðað þetta áður þá er þetta pínulítið eins og mjúkt deig undir tönn. Afar ljúffengt.

Í þetta skipti gerði ég hefðbundið kartöflupasta en það má gera eins og þessi uppskrift kveður á um með kartöflum og hveiti en það er vel hægt að blanda við pastadeigið, ricottaosti, sætum kartöflum, spínati, kryddjurtum eða það sem manni dettur í hug. Ég hef einhvern tíma fyrir mörgum árum gert þetta með ricottaosti og spínati og það var mjög ljúffengt.

gnocchióeldað Gnocchi di patate (kartöflupasta) með tómatsósu og brauði

Eitt kíló af mjölmiklum kartöflum er soðið eins og vant er í söltuðu vatni. Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt frá og kartöflurnar flysjaðar og stappaðar. Við kartöflurnar er bætt 2 eggjum, 1 msk af jómfrúarolíu, smá Maldon salti og nýmöluðum pipar, 2 msk af nýrifnum parmesan osti og síðan 150 gr af hveiti (stundum þarf að bæta við meira hveiti til að deigið verði þétt). Hráefnunum er svo blandað vel saman og hnoðað í fremur þykkt deig. Smá bútar er klipnir af deiginu og hver bútur rúllaður út í langa pulsu, skorinn niður í munnbitastóra bita og rúllað varlega með gafli.

gnocchiípotti Kartöflupastað er soðið í miklu söltuðu vatni, pastað sekkur til botns og þegar það er tilbúið flýtur það upp á yfirborðið. Þá er það veitt upp úr (helst með götóttri skeið - þannig að vatnið lekið af.

Pastanu er því næst blandað saman við sósuna. Sósan var í raun bara einföld tómatsósa. 1 rauðlaukur, 1 noble hvítlaukur, 1 stöng af sellerí og 1 gulrót eru skorin smátt niður og steikt í 2 msk af jómfrúarolíu (saute'd) þar til það er orðið mjúkt, saltað og piprað. Þá er tveimur dósum af niðursoðnum tómötum bætt saman við, 100 ml af vatni og grænmetisteningi. Soðið í 20 mínútur. Þá er sósan þeytt saman með töfrasprota og soðin áfram í nokkrar mínútur. Því næst er 150-200 ml af matreiðslurjóma bætt saman við ásamt handfylli af ferskri steinselju og basil.

Borið fram með heitu baguette. Nóg af parmesanosti er sáldrað yfir og svo salti og pipar.

 


Tuesday 20 November 2007

Kjúklingur með pestó, rjómaosti og grænum ólívum með hrísgrjónum og salati

Dagurinn er farin að styttast allverulega. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst...meira segja við sem erum úr hófi bjartsýnir tökum vel eftir því. Þetta kemur manni alltaf einhvern veginn á óvart - bara eiginlega alveg eins og vorið - einn góðan veðurdag hefur laufgast - einn góðan veðurdag er dimmt allan daginn...þetta laumast upp að manni.

Ég var á vakt alla helgina. Þannig að eldhússtörfin voru vanrækt í staðinn. Ég hóf störf á taugadeildinni síðustu mánaðarmót. Það hefur verið einkar áhugavert. Það verður eiginlega að segjast að það er bara mjög skemmtilegt - einhvern veginn er það fráleitt, jafnvel sjúklegt, að finnast veikindi fólks svona áhugaverð. En ég get lítið gert að því að finnast gaman í vinnunni. Maður vonar bara að það skili einhverjum árangri!

Ég ætlaði að elda lax í kvöld en það var eitthvað við myrkrið seinnipartinn sem kallaði á svona "comfort food", ég ákvað því frekar að elda kjúkling. Mig langaði líka til að gera vel við mig þar sem ég hafði verið á vaktinni um helgina. Ég hef ekki gert þennan rétt áður - held ég - sumt af þessu er þó farið að renna saman. Ég hef einhvern tíma gert pestókjúkling áður - en kannski ekki alveg svona. Góða við þennan rétt er hvað hann var ansi fljótgerður. Eina sem tók tíma var að baka hann í ofni.

Kjúklingur með pestó, rjómaosti og grænum ólívum með hrísgrjónum og salati

Hlutaði heilan kjúkling niður í fjóra bita og var með aukalega nokkra leggi. Hellti 1-2 msk af jómfrúarolíu í botninn á eldföstu móti og dreifði svo heilum gróft söxuðum hvítlauk í fatið. Lagði kjúklingabitana þar ofan á. Setti 100-130 gr af hreinum rjómaosti í skál og blandaði saman við 3/4 krukku af pestó. Þetta var hrært vel saman og saltað aðeins og piprar. Þessari blöndu var svo makað á kjúklinginn. Restinni af pestóostinum var svo dreift með í fatið. Einni lítilli krukku af góðum ólívum var svo dreift á milli. Bakað í forhituðum ofni, 200 gráður, í 35-45 mínútur eða þar til kjarnhiti nær 82 gráðum.

Þegar kjúklingurinn var tilbúin var honum raðað á fat og ferskri steinselju dreift yfir. Sósan var einföld, vökvinn (rjómaosturinn, pestó, ólívur, hvítlaukur og olían) sem rann af kjúklingum við bökunina hellt í skál og borin fram með.

Með matnum var borin fram soðin jasmín hrísgrjón. Ferskt salat með grænum laufum, vínberjum, konfekttómötum og papríku.

Bon appetit.


Friday 16 November 2007

Gómsætt Spaghetti Ragnarese (bolognese) með hvítlauksbrauði og rauðvínssopa

Nýjasta blað gestgjafans kom út núna í dag. Ritstjóri blaðsins, Sólveig Baldursdóttir, bað mig í haust að vera með villibráðaveislu fyrir blaðið sem er að koma út núna. Mín var ánægjan. Þetta var alveg stórgaman að vera með þeim í þessu. Ég eldaði fjórréttaða villibráðarveislu og var með foreldra mína, bróður minn og tengdó í mat. Vínráðgjafi var með í ráðum og kvöldið var meiriháttar. Blogga ábyggilega um það síðar.

En þessi færsla fjallar ekkert um það, heldur meiri pasta. Eiginlega allir sem gefa út matreiðslubækur eru með einhverskonar útgáfu af þessum rétt, Spagetti bolognese, í bókum sínum. Aldrei ber þessum bókum saman um hvernig uppskriftin á að vera.  Samkvæmt The Silver Spoon(sem almennt er talað um sem biblía ítalskar matargerðar) er mjög lítið af tómötum í uppskriftinni. Ég nota fullt af tómötum í mína uppskrift þannig að kannski ætti hún að heita eitthvað annað þar sem hún hálfgerður bastarður. Sósan er hinsvegar soðin mikið niður þannig að kjötið fær mikið að njóta sín - ég hugsa hinsvegar að Bolognabúar myndu ekki vilja kenna mína sósu við borgina sína...kannski gætu þeir kyngt henni með nýju nafni...Ragnarese!

Í fyrsta skipti sem ég bauð konunni minni í mat, þá verðandi konunni minni, þá eldaði ég Spaghetti Bolognese (héðan í frá Spaghetti Ragnarese). Hún virtist afar ánægð með mig - hún endaði með því að giftast mér - en sagði mér síðar að þetta hefði ekki verið neitt sérstakt. Ég var náttúrulega niðurbrotinn og hef reynt að þróa betri uppskrift til að gleðja hana. Þetta er í stöðugri þróun og vona bara að henni líki maturinn. Ég held að núna hafi mér tekist að slá í gegn með þennan rétt.

Spaghetti Ragnarese með hvítlauksbrauði og rauðvínssopa.

Einn stór laukur, 2 gulrætur, 2 sellerísstangir og 2 noble hvítlaukar er skornir smátt niður og steiktir (saute'd) í nokkrar mínútur í heitri olíu í stórum potti. Þá er 5 sneiðum af niðurskornu beikoni bætt saman við og steikt um stund. Saltað og piprað (til að ná bragðinu úr grænmetinu). Þegar grænmetið er orðið mjúkt er nautahakkinu ca. 500 gr bætt saman við og steikt þar til það er orðið brúnt. Þá er tveimur dósum af niðursoðnum tómötum bætt úti og jafnmiklu vatni (ca 700 ml) ásamt glasi af rauðvíni. Saltað og piprað. Núna er einnig góður tími til að bæta kryddum saman við sem þola suðu; 2 tsk af þurrkuðu oregano, 1 tsk þurrkað timian og laufum af einni grein af rósmarín smátt niðurskorið. Soðið í 2 klst með lokið á. Svo er lokið tekið af og leyft að sjóða niður. Þegar þetta fer að nálgast það að verða tilbúið er 1/2 búnti af ferski steinselju bætt saman við.

Gott pasta, t.d. Rustichella d'abruzzo (í brúnu pökkunum) er soðið skv leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni þar til aldente. Þá er vatninu hellt frá og pastað fært aftur í pottinn og sósunni hellt saman við og látið standa í 2-3 mínútur.

Borið fram með góðu hvítlauksbrauði, salati; græn lauf, plómutómatar, góðar ólívur og camenbert sneiðum. Að sjálfsögðu með góðu rauðvíni Masi Campofiorin 2004.


Saturday 10 November 2007

Pasta Gigolo með heitu brauði og góðu salati

Aftur pastaréttur með fráleitu nafni, en í þetta sinn er það ekki bara úr lausu lofti gripið heldur hefur það einhverja tilvísun í eitthvað sem fyrir er. Hugmyndin af þessum rétti er Pasta Puttanesca sem er frægur pastaréttur og er í fjölmörgum matreiðslubókum. Þessi réttur er svona millileið á milli þess réttar og svo réttar sem ég hef áður skrifað um á blogginu.

Mamma og pabbi voru að bjóða okkur í mat, þau voru eitthvað sein á ferðinni og stoppuðu í Nóatúni og keyptu tilbúinn kjúkling. Eins og áður sagði þá hef ég áður eldað úr tilbúnum kjúklingi, sem er hráefni sem er ansi gott í ýmsa rétti - eins og pastarétt sem þennan. 

Var á vakt á sjúkrabílnum í nótt; vaktin var rólegri en oft áður en samt var svona tutl í gangi - þurftum tvisvar að fara sækja fólk á vinsælan skemmtistað borgarinnar sem hafði lent í einhverjum óhöppum. Þegar maður er ekki sjálfur undir áhrifum er fullt fólk það aleiðinlegasta sem fyrir finnst. Skelfing vorkenni ég fólki sem þarf að umgangast fullt fólk að atvinnu; barþjóna, dyraverði, lögreglumenn, leigubílstjóra og heilbrigðisstarfsfólk á helgarvöktum.

Pasta Gigolo með heitu brauði og góðu salati. 

Þetta er eins einfaldur réttur og hugsast getur. Ég fékk kjúklinginn í hendurnar og reif allt kjötið af beinunum og setti í skál. Fjögur smátt skorin hvítlauksrif eru steikt upp úr 4 msk af hvítlauksolíu, því næst er 1 smátt skornum lauk bætt á pönnuna og steikt þar til mjúkt. Þá er 150 gr. af kirsuberjatómötum skornir í tvennt, 40 svörtum ólívum bætt á pönnuna og steiktir í 1-2 mínútur. Þá er 4 msk af rjómaosti bætt á pönnuna ásamt salti og pipar og blandað vel saman. Kjúklingurinn er svo settur saman við sósuna og þvínæst er einu glasi af hvítvíni, 1 glasi af vatni, 2 msk af fljótandi kjúklingakrafti bætt á pönnuna. 1/3 búnti af ferski steinselju, og 1/6 búnt af smátt söxuðum graslauk bætt saman við og saltað og piprað eftir smekk. 

Gott pasta er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni og þegar pastað er orðið al dente er sósunni blandað saman við. Ferskum kryddjurtum er svo sáldrað yfir ásamt nýrifnum parmesan osti (faður minn skammast alltaf þegar ég nota þetta enska heiti á þennan ost sem ætti auðvitað að heita Parmaostur á íslensku! Einnig gætum við notað ítalska heitið Parmigiano).   

Borið fram með heitu baguette og einföldu salati; grænum laufum, tómötum, papriku, fetaosti með einfaldri salatdressingu úr olíu, balsamik ediki, dijon, salti og pipar.

Með þessu var drukkið bæði ljúfengt hvítvín og Wyndham Estate rauðvín bin 555.

Bon appetit. 


Thursday 8 November 2007

Ótrúlega góð fiskibaka með reyktri ýsu, rækjum og laxi

Við hjónin brugðum okkur út að borða í gærkvöldi í tilefni nýafstaðins brúðkaupsafmælis. Við fórum á VOX við Suðurlandsbraut. Þeir eru til húsa á hóteli sem um þessar mundir heitir Hilton hótelið (Seinast Nordica, einhvern tíma Radison, áður Esjan - hver skilur þessar nafnarbreytingar?). Við höfum tvisvar áður farið á VOX.  Fórum einu sinni þegar Food and Fun var í gangi fyrir og það var alveg frábært. Í fyrsta skipti sem við fórum þá hafði ég nýlokið læknaprófi og við hjónin fórum að halda upp á þann áfanga. Ég gleymi þessu kvöldi aldrei, þetta var um vorið 2004. Við pöntuðum árstíðarmatseðil ásamt vínseðli, þjóninn okkar var Elísabet Alba (nýkrýndur íslandsmeistari vínþjóna), og við áttum þarna frábært kvöld. Maturinn frábær, frumlegur og skemmtilegur og þjónustan meiriháttar.

Ég tók eftir því þegar ég gekk inn á staðinn að búið var að hengja upp Manifesto veitingastaðarins. Þeir ætla að kenna sig við nýja norræna matargerð, ferskt staðbundið hráefni og halda uppi norrænum hefðum í matargerð og þróa áfram til betri vegar (eftir minni - ekki orðrétt haft eftir) - ekki amalegt. Í gærkvöldi pöntuðum við aftur árstíðarmatseðilinn, og hann sveik ekki frekar en í fyrri skipti. Á matseðlinum var m.a laxatartar, kræklingabroð, gæsalæri í Jacobsen öli, heiðagæsabringa með krækiberjasoðsósu en sigurvegari kvöldsins var einn af milliforréttunum - reykt ýsa með nýjum kartöflum með rjómaýsusoðsfroðu (hljómar ekki neitt sérstaklega vel) og var alger success.

Þessi máltíð var mér innblástur í dag. Ég er búin að vera að sjá uppskriftir í hinum og þessum bókum um fiskiböku; m.a. í bókum Jamie Oliver, Hugh Fearnley-Whittingsstall og einnig í nýrri bók sem ég var að fá mér A Cook's Companion(eftir ónefnda höfunda). Þessi réttur sem á eftir kemur er kannski mestu byggður á uppskrift Hugh's en var breytt nóg til þess að ég nægji að eigna mér hana - auðvitað.

fiskbakan2 Ótrúlega góð fiskibaka með reyktri ýsu, rækjum, og laxi

350 gr af reyktri ýsu, 300 gr af laxi, 300 gr af þorski eru sett í pott ásamt 800 mL af léttmjólk, lárviðarlaufi, 10 piparkornum, 2 flysjuðum og niðurskornum gulrótum, 1 niðurskorinni sellerístöng og einum niðurskornum lauk. Hitað varlega upp að suðu og þá er slökkt undir fisknum og leyft að standa þar til annað hráefni í réttinn er undirbúið. Eftir 10 mínútur er fiskurinn tilbúinn, þá er fiskmjólkinni hellt í gegnum sigti í könnu, þannig að fiskurinn og grænmetið verður eftir í pottinum.

50 gr af smjöri er brætt í öðrum potti og þegar bráðið er 50-70 gr af hveiti hrært saman við smjörið (þetta heitir roux á frönskunni en smjörbolla á íslenskunni og hljómar mun verr). Þegar það hefur blandast vel er fiskmjólkinni bætt varlega saman við roux-ið og hrært vel saman (fjórðung af mjólkinni í senn). Við þessa meðferð þykknar fiskmjólkin verulega og verður á þykkt við vöffludeig. Þá er fisknum bætt saman við og leyft að sjóða í nokkrar mínútur í sósunni. Smakkað til og saltað og piprað eftir smekk.

fiskbakan 800 gr af kartöflum eru flysjaðar og soðnar í söltuðu vatni)þar til tilbúnar. Þá er vatninu hellt frá og kartöflurnar færðar aftur í pottinn og stappaðar niður með smjörklípu, klípu af rjómaosti, salti og nóg af pipar og kannski 50 ml af fiskmjólkinni. Hrært vel saman.

Fisksósan er svo færð yfir í smurt eldfast mót og kartöflumúsinni var svo raðað ofan á fisksósuna og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur þar til sósan fer að sjóða og kartöflumúsin verður gullinn.

Borið fram með maukuðum grænum baunum (200 gr af grænum baunum, soðnar í söltuðu vatni, maukaðar með ferskri steinselju, myntu, smá smjöri, salti og pipar). Einnig bar ég fram heitu baguette og ágætu hvítvíni.

Bon appetit.


Sunday 4 November 2007

Ljúffengar lambakótilettur með salsa verde og bragðgóðu couscous

lambakótilettur Þetta er búið að vera ansi ljúf helgi. Nokkrir kollegar héldum skvassmót lækna og læknanema á föstudag og skemmtum okkur vel. Á eftir fórum við á Hornið að borða og svo á útgáfutónleika Jagúar á NASA. Þeir voru helvíti góðir. Funk fram í fingurgóma. Dagurinn í dag hefur verið heldur rólegur. Fór í tvö barnaafmæli

Fólk hefur væntanlega tekið eftir því að rjúpnatímabilið er hafið. Það hefst yfirleitt með einhverjum hryllingssögum um yfirgang veiðimanna á hinum ýmsustu svæðum landsins. Miðað við hve margir eru að skotvopnaleyfi á landinu þá held að ég að þorri veiðimanna séu almennilegir og stundi skynsamlegar sportveiðar. Sjálfur ætla ég að ganga til rjúpna á morgun. Maður fær næstum því samviskubit með að opinbera það - það láta allir hljóma að eins og maður sé á höttunum eftir síðasta geirfuglinum ... þeim allra síðasta.

Ég fékk nýverið sendingu frá Amazon í Englandi, þar hafði ég pantað nýjustu bækur Nigel Slater, Rick Stein og síðast en ekki síst síðustu bók Jamie Oliver. Allar eru þær ágætar nema hvað Jamie kemur sérstaklega á óvart. Ansi góð bók. Hugmyndin af þessum rétti er fengin úr þeirri bók,: Jamie at home - Cook your way to the good life.

Ljúffengar lambakótelettur með salsa verde og bragðgóðu couscous

lambakótillettur Það var ekki erfitt að elda lambakóteletturnar. Þær voru saltaðar og pipraðar og steiktar úr smá hvítlauksolíu, 1 mínúta á hvorri hlið, svo settar í ofn í 10-12 mínútur við 180 gráðu hita.

Borið fram með salsa verde sem er að miklu leyti byggt á uppskrif Jamie Oliver; einum smátt söxuðum hvítlauk er blandað saman við 2 tsk af söxuðum kapers, fimm litlum söxuðum súrum gúrkum, 3-4 flökum af smátt skornum ansjósum, 1/2 búnti af brytjaðri ferskri steinselju, basil og myntu. Útí blönduna er sett 1-2 msk af rauðvínsediki, 1-2 tsk af Dijon sinnepi, salt, pipar og jómfrúarolíu þar til að salsað verður eins og pestó að þykkt.

Með matnum var couscous sem var í fyrstu útbúið á hefðbundinn hátt. 300 gr af couscous leyst upp í soðnu vatni, skv. leiðbeiningum. Þegar það var tilbúið var það steikt upp úr hvítlauksolíu og við það var bætt hálfri niðurskorinni papriku, 1/2 tsk kóríander dufti, 1/3 niðurskorinni agúrku, 100 gr af grænum baunum, salt og pipar, 1/2 búnti af ferskri couscous steinselju.

Einnig var einfalt ferskt salat með matnum. Afar ljúffengt.

Bon appetit.