Monday 26 November 2012

Villtar Villa hjartarkjötbollur með pasta og heimagerðri tómatsósu


Í vikunni barði farandsölumaður að dyrum og bauð til sölu kjöt af villibráð frá Smálöndunum. Ég lét freistast og keypti af honum hakk af villisvíni, elg og hirti. Þannig að látið ykkur ekki bregða ef það verður talsvert um villibráðaruppskriftir hérna í aðdraganda jólanna. Ég er með margar hugmyndir auk þessarar; elgpylsur, villisvínahakk Wellington style, hjartarborgarar, vískíelgskjötbollur og fleira á þessum nótum.

Vilhjálmur Bjarki og ég fórum saman í skvass seinnipart dags og á leiðinni þangað vorum við að ræða um hvað við ætluðum að hafa í matinn. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað hann hafði miklar skoðanir á því hvernig kjötbollur átti að gera og sérstaklega gaman að fylgjast með honum minnast Danmerkurferðar snemma í sumar þegar við fórum á lífrænan veitingastað í Ködbyen en þar fékk hann stórar kjötbollur með pasta. Hann var alveg á því að við þyrftum að reyna að gera okkar útgáfu af þeim bollum. Og úr varð þessi réttur.

Hjartarkjöt er heldur fiturýrt og úr því þarf að bæta. Hægt er að bæta við t.d. svínaspekki sem oftast er hægt að nálgast hjá góðum slátrara, eins og vinum mínum í Kjöthöllinni, eða gera eins og ég gerði, að kaupa heldur feitt grísahakk og blanda saman við hjartarhakkið. Grísahakk hefur heldur hlutlaust bragð nema hvað grísafita hefur þann eiginleika að karmelliserast á dásamlegan hátt og verða nánast blómleg á bragðið. Hver man ekki hvaða unun puran af grísasteik hefur að geyma? Grísafita kysst af léttum keim af negul eða rósmarínnál! Ég fæ bara gæsahúð við að skrifa þetta!

Villtar hjartarkjötbollur með pasta og heimagerðri tómatsósu



Það er mjög langt síðan að ég bloggaði um einhversslags kjötbollur, mig rámar í að á árdögum þessa bloggs hafi ég gert - ultimate hreindýrakjötbollur - þá innblásnar af bandaríska sjónvarpskokknum Tyler Florence sem var, og kannski er  enn með, sjónvarpsþætti sem kölluðust Ultimate! Ég gerði mína túlkun af réttinum hans. Og hún var dásamleg. Síðan hef ég gert marókóskar kjötbollur í tómatsósu með broddkúmeni og eggjum sem er í miklu uppáhaldi á okkar heimili. Ég hef meira að segja fengið að smakka orginal útgáfu eldaða af marókóskri vinkonu okkar, Latifu Johnson. Hún rekur núna fyrsta marókóska veitingastaðinn í Malmö - og hefur meira að segja boðið mér að vera gestakokkur þann 12. janúar næstkomandi. Verið velkomin í heimsókn!



Alltént átti ég allt þetta villibráðarhakk. Og í morgun tók ég út hjartarhakk og lét þiðna í rólegheitum á eldhúsborðinu. Auðvitað væri alveg hægt að nota hreindýrahakk í staðinn! Villi var staðráðinn í því að sjá um að elda matinn og það gerði hann; marði einiber, sótti kryddjurtir, hnoðaði kjötið, mótaði kjötbollur, hrærði í tómatsósunni. Og sá var stoltur!



Á myndinni sést klár munur á hjartarhakkinu og svo svínahakkinu. Ég setti hálft kíló af hvoru í skálina.



Bætti síðan við hökkuðum kryddjurtum, laufum af tveimur greinum af rósmaríni, teskeið af fersku tímían, hálfri tsk af blóðbergi, hálfri af ferskri salvíu, hálfri tsk af óreganó, einni msk af hakkaðri steinselju, handfylli af parmaosti og svo þremur msk af góðri jómfrúarolíu. Nóg af salti og pipar auðvitað!



Villi var ljómandi duglegur við að hnoða hakkið saman og sá til þess að allt blandaðist eins vel og hægt var!




Það er eiginlega ekki mögulegt að þetta verði neitt annað en dásamlega gott á bragðið!?!



Villi fékk smá hjálp frá móður sinni að hnoða bollurnar, en verkstýrði þó - var alveg handviss um hvernig stærðin átti að vera og hversu þétt átti að hnoða.



Bollurnar voru síðan steiktar uppúr einni matskeið af smjöri og einni matskeið af jómfrúarolíu þangað til brúnar að utan. Kannski tvær mínútur á hvorri hlið.




Ég hafði undirbúið tómatsósu. Einn smátt hakkaður rauðlaukur, fjögur hvítlauksrif voru steikt upp úr einni matskeið af olíu þangað til að það næstum því fór að brúnast. Þá setti ég tvær dósir af góðum niðursoðnum tómötum saman við, tvær msk af balsamediki, tvær msk af tómatsósu, salt og pipar, eina msk af fljótandi villibráðarkraft, eina msk af fljótandi nautakrafti, hálfa tómatdós af vatni og tvær msk af hakkaðri steinselju. 

Þegar kjötbollurnar voru steiktar lagði ég þær í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu. Hellti síðan hálfu glasi af rauðvíni útá pönnuna og sauð upp kraftinn og hellti saman við sósuna sem ég síðan blandaði saman með töfrasprota. 
Hellti síðan sósunni yfir bollurnar. Villi dreifði síðan einum mozzarellaosti yfir ásamt 4 msk af rifnum parmaosti. 



Bakað í ofni í 30 mínútur þangað til að osturinn er bráðnaður og húsið ilmar eins og hreinasta dásemd!



Borið fram með penne pasta sem er uppáhald sonarins. Ég ætlaði að hafa polenta með parmaosti en Villi hafnaði því og því varð pastað fyrir valinu og engin varð svikinn af því!

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks rauðvín sem við sóttum til Kaupinhafnar þar sem við vorum á rölti í gær í leit að jólakjólum fyrir stelpurnar á heimilinu!Við fengum okkur Masi Tupungato frá því 2011. Þetta er vín frá ítölsku vörumerki, Masi sem er frá Veneto, en er framleitt í Argentínu og er gert út blöndu af Corvina þrúgum og Malbec þrúgum. Notuð er svipuð aðferð og við framleiðslu Ripasso vína, þar sem vínið er gerjað í tvígang. Þetta er fallega kirsuberjarautt vín, ilmar af kryddjurtum og ávöxtum. Bragð af plómum og jafnvel vanillu. Gott jafnvægi og gott vín með villibráð. Sannkallað jólavín!





Þetta var alveg mögnuð máltíð og allir átu á sig gat!

Bon appetit!

Thursday 22 November 2012

Ljómandi lambalifur með beikoni, steiktum sveppum, einfaldri sósu og rauðvínsdreitli

Alltaf þegar mig vantar smáræðis innblástur í eldhúsinu þarf ég ekki að gera mikið meira en að blaða í bókum Nigel Slater og lesa t.d. einn af leiðurunum sem fylgja bókunum hans. Það þarf ekki meira til. Hvernig sá herramaður skrifar um mat dugar mér til þess að fletta fleiri bókum, skoða fleiri síður og horfa á fleiri þætti og reyna að auka breiddina í matargerð minni.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að nota gott hráefni í matargerð. Slíkt skiptir geysimiklu máli fyrir þá niðurstöðu sem við óskum eftir. Einnig er ég sammála Hugh Fearnley Whittingstall sem nefnir oft í bókum sínum að ef við erum kjötætur á annað borð sé mikilvægt að nýta allt sem fellur til af dýrinu. Nú á tímum borðum við einna helst bara kjötið af dýrinu. Íslendingar eru þó ansi duglegir að nýta innmat þar sem slátur á ennþó erindi á borð landsmanna. Víða er þó til hefð fyrir því að nýta innmat betur. Bretar og Frakkar eiga margar girnilegar upskriftir þar sem hóstarkirtillinn, hjörtun, lifur og nýru leika stórt hlutverk. Og það var ekki auðvelt að sannfæra konuna mína um ágæti þess að reyna aftur að borða lifur. Í hennar minni er lambalifur lítið annað en undin skósóli á disk við hliðina á tveimur sorgmæddum kartöflum. Til að koma þessa niður var þessu drekkt í brúnni sósu.

Í gær setti ég inn fyrirspurn á Facebook síðuna mína um hvað maður ætti að gera við lambalifur - og úr spannst heljarinnar umræða. Allt frá buffi í að bera hana fram hráa! Ég notaði nokkrar af þeim hugmyndum sem mér voru færðar og blandaði þeim saman við mínar eigin. Og niðurstaðan varð ljúffeng!

Ljómandi lambalifur með beikoni, steiktum sveppum, sultu og einfaldri sósu og rauðvínsdreitli



Hráefnalisti

600 gr lambalifur250 gr skógarsveppir
1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
Klípa smjör
Salt og pipar
2 tsk sherrí
500 gr hveiti
2 tsk hvítlauksduft
500 gr beikon
Ferskt rósmarín


Lambalifrina fékk ég gefins ásamt nokkrum hjörtum þegar ég keypti heilt lamb af bóndakonu nýverið. Ég prófaði meira að segja að hluta niður lambið sjálfur eins og sjá má á þessum myndum. Ég hafði fryst lifrina og leyfði henni að þiðna í rólegheitum inni í ísskáp.



Með matnum átti að vera nóg af beikoni og sveppum. Smjörið sem lifrin var steikt upp úr var bragðbætt með hvítlauk og rósmaríni. Að lokum var gerð sósa bragðbætt með sherríi!



Fyrst var að byrja að gera meðlætið þar sem það krafist lengri eldunnar en lifrin sem verður tilbúinn á örskotstundu. 

Ég skar niður 250 gr af skógarsveppum, einn heilan rauðlauk og tvö hvítlauksrif sem ég steikti upp úr klípu af smjöri við lágan hita í um hálftíma. Saltað og piprað, auðvitað!


Eftir hálftíma er laukurinn karmelliseraður, sveppirnir steiktir og ilmuðu af hnetukeim. Namminamm!



Fyrst var að skera lifrina niður í strimla. Síðan að velta þeim uppúr bragðbættu hveiti - bragðbættu með hvítlauksdufti, salti og pipar. Látið hvíla. 


Fyrst steikti ég beikonið og lagði til hliðar. Hellti smáræði af fitunni frá, bætti saman við tveimur söxuðum hvítlauksrifjum og nokkrum laufum af rósmaríni og steikti síðan lifrina, bara eina mínútu á hvorri hlið.


Lifrin varð stökk að utan en mjúk að innan. Og það er augljóst hvernig of mikil eldun umbreytir bragðinu og nær að fá fram þennan málmkeim sem margir minnast af lifrinni. Ef maður gætir þess að elda hana bara í skamma stund, verður hún mjúk og næstum því sæt á bragðið.

Sósan var einföld. Hafði undirbúið lambasoð og smjörbollu. Þegar lifrin var tilbúin skvetti ég 30 ml af sherríi á pönnuna og náði upp öllum kraftinum. Setti síðan smjörbolluna saman við og hrærði síðan soðinu varlega saman við. Bragðbætti með salti og pipar, soya og smá sultu. Svona eins og venjulega!


Með matnum drukkum við dreitil af Lindemans Bin 50 - Shiraz sem er frá Ástralíu.  Þetta vín er þykkt í glasi. Mikill ávöxtur í nefi. Bragðið örlítið sultukennt, örlítið kryddað og með ágætu eftirbragði.


Smakkaðist ljómandi vel. Snædís var yfir sig hrifinn, Villi borðaði nokkra bita og Valdís var skeptísk. En allir gátu vel við unað. Beikon siglir jú flestum matarskipum örugglega í höfn.

Bon appetit!

Thursday 15 November 2012

Arómatískar wokaðar núðlur með gríslalund og litríku grænmeti



Það er afar langt síðan að ég lagði land undir fót og eldaði austurlenskan mat. Einhvern tíma á árinu eldaði ég sushi og nokkrum sinnum hef ég horft á bróður minn elda indverskan mat - en sjálfur hef ég verið afar latur við austurlenska matargerð. Og ekki er það vegna þess að mér líkar illa við þessa tegund matargerðar (þó að það sé hálf dónalegt að setja hana alla undir einn hatt), nei þvert á móti finnst mér hún afar spennandi og ekki síst dásamlega ljúffeng.

Ég hef bara síðustu árin verið meira upptekinn við að elda evrópskan mat - hann hefur átt hug minn allan síðustu misseri. Og ég held að flestir sem kíkja á síðuna mína hafa orðið varir við það. Kannski mun ég fara að gera bragarbót á því! Þegar ég vaknaði í morgun og var búinn að koma Villa og Valdísi af stað í skólann hafði ég þegar ákveðið að eitthvað frá þessum heimshluta yrði í matinn um kvöldið. Þegar ég svo opnaði búrskúffuna mína sá ég haug af eggjanúðlum og í frystinum fann ég gríslalund - þannig að þetta var ákveðið. Nú var bara að hugsa í gegnum restina af uppskriftinni og sjá hvað var til í kotinu sem nýtast mætti í matargerðina. Og viti menn, ýmislegt var til.

Arómatískar wokaðar núðlur með gríslalund og litríku grænmeti

Það er ágætt að vera búinn að skera niður allt grænmeti áður en maður tekur til við eldamennskuna. Þegar wokpannan er orðin heit skiptir sköpum að hafa hraðar hendur og þá er gott að hafa allt tilbúið og við höndina. 



Fyrst skar ég niður um 6 cm af engiferrót heldur smátt, svo einn stóran solo hvítlauk (ígíldi um fjögurra hvítlauksrifja) og þrjá litla vorlauka. Með á myndinni er svo 1/3 tsk þurkaðar chilli flögur.



Þá skar ég líka niður eina litla græna papríku, eina miðlungsstóra rauða og svo aðra eins gula. Þær voru skornar niður í strimla.



Ég átti rúmlega hálft kíló af grísalund sem ég velti upp úr 4 tsk af kínversku fimm kryddablöndu ásamt salti og pipar. Skar einnig niður hálfan rauðlauk og hálfan hvítan lauk.

Sjóða síðan núðlur fyrir fimm í söltuðu vatni og leggja til hliðar.



 Ég átti 200 gr af soya baunum í frystinum sem ég snöggsauð í 2 mínútur í söltuðu vatni, sem ég svo plokkaði út úr hýði sínu.

Og þá var allt tilbúið.



 Setti wokpönnuna á hlóðirnar og 2 msk af jarðhnetuolíu á wokinn. Fyrst steikti ég kjötið og lagði til hliðar. Svo hvítlaukinn, laukinn, engiferinn og vorlaukinn. Saltað og piprað.

Svo papríkurnar - sem voru steiktar þangað til að þær voru mjúkar. Þá bætti ég núðlunum saman við, ásamt kjötinu og blandaði svo saman.


Að lokum setti ég þrjár msk af ostrusósu, fimm  msk af soya sósa, tvær msk af fiskisósu, salt og pipar og svo 2 tsk af sykri.

Skreytt svo með ferskum kóríander.

Með matnum drukkum við Wolf Blass Biliyara Shiraz frá því 2011 sem var á góðu verði þegar við fórum í gegnum fríhöfnina á Kastrup fyrir rúmri viku síðan. Þetta er kröftugt vín, ansi berja- og ávaxtaríkt, sem sómdi sig afar vel með matnum (sem var einnig talsvert bragðmikill en þó ekki of heitur). Ljómandi góður sopi!



Bon appetit!

Sunday 11 November 2012

Pizza Calzone með gómsætu áleggi og börnin gera tilraunapitsur!



Það er föstudagskvöld í Lundi og þá hefur orðið til sú hefð að baka pitsur. Einstaka sinnum svíkur maður þó lit og pantar - en slíkt er alger undantekning. Og síðastliðin misseri hafa börnin mín, Valdís og Villi verið mér innan handar við pitsugerðina og þá fengið að fletja út deigið og velja sér álegg. Í þetta sinn hvatti ég börnin til að prófa eitthvað annað en að þau voru vön og gerði ég sömuleiðis hið sama.

Ég hef oft bloggað um pitsugerð áður - og það er kannski ekki að undra þar sem ég algerlega elska að gera pitsur og svo er ég líka ennþá hrifnari af því að borða þær. Þessi réttur sameinar bæði brauðgerð og svo endalausan fjölbreytileika vegna þeirra mismunandi áleggja sem má nota til að skreyta pitsuna. Í gegnum tíðina hef ég sett flest á flatbökur; allt frá skinkusneiðum upp í villibráð og flest allt sjávarfang og allt þar á milli.

Pizza Calzone með gómsætu áleggi og börnin gera tilraunapitsur!

Brauð

600-700 gr hveiti
1 1/2 tsk salt
3 msk jómfrúarolía
15 gr þurrger
400 ml volgt vatn
30 gr sykur

Tómatsósa


1 laukur
3 hvítlauksrif
1 msk jómfrúarolía
1 dós niðursoðnir tómatar
Salt og pipar
2-3 msk hökkuð steinselja og basil

Álegg að eigin vali


Fyrst er að huga að því að gera deigið. Best er að byrja nokkrum klukkustundum áður og leyfa deiginu að hefast í nokkrar klukkustundir.

Veljið hveititegund - um 600-700 gr af hveiti (að þessu sinni notaði ég blöndu af hvítu próteinríku hveiti og spelti), setti í skál og bætti 1 1/2 tsk af salti og 3 msk af jómfrúarolíu saman við. Einn pakki af geri er vakinn í ca 400 ml af ylvolgu vakni, bætti síðan við 30 gr af sykri til að flýta fyrir vakningu gersins. Þegar gerið er byrjað að freyða er því bætt varlega saman við hveitið sem er síðan hnoðað í 10 mínútur í matvinnsluvél. Stundum þarf að nota meira eða minna af vatni eftir því hvaða mjöl varð fyrir valinu.



Tómatsósan er ákaflega einföld. Gerð hennar hefur líka þróast hjá mér. Hér á árum áður var ég með allskyns tilburði en núna hefur maður horfið aftur til hefðarinnar og einfaldleikans. Oft er hann bara bestur.

Einn laukur og 3 hvítlauksrif eru steikt í matskeið af jómfrúarolíu. Þegar laukurinn fór að glansa settti ég eina dós af lífrænum niðursoðnum tómötum saman við. Saltað og piprað og síðan soðið upp. Smakkað og oft þarf að sykra sósuna lítillega, annað hvort með sykri eða bara svindla með því að nota tómatsósu. Bætti síðan 2-3 matskeiðum af hakkaðri steinselju og basil saman við í lokin.
  

Sonur minn var ekki lengi að detta í ham - með pitsu með skinku, sveppum, basil og eplum, Valdís fór meira á klassísku línuna, en kannski óvenjulegt fyrir ellefu ára krakka, að setja túnfisk, kapers og þistilhjörtu - hún hefur góðan smekk.



Okkur áskotnaðist þessi fíni nýi pensill frá Le Creuset þegar við vorum á Íslandi ásamt nokkrum öðrum góðum verkfærum (fæst í Búsáhöldum í Kringlunni).



Ég gerði þessa einföldu Calzone pitsu - sem er í raun ekki frábrugðin venjulegum flatbökum nema að því leyti að botninn er brotinn saman og pitsunni lokað.

Ég raðaði saman því helsta sem varð afgangs á borðinu þegar að börnin voru búin að velja úr; skinku, lauk, salami, papríku og svo ostur að sjálfsögðu.



Deigið var síðan brotið saman eins og sést á myndinni.  



Næst er síðan að vefja vel upp á kantana til að innsigla innihaldið inni í brauðinu.


 
Að lokum er pitsan pensluð með olíu og söltuð aðeins.



Bökuð í blússheitum ofni á pitsasteini þangað til skorpan er orðin fallega gullin!


  
Þegar maður sker svo í pitsuna þá vellur innihaldið út og ilminn leggur um eldhúsið!



Hérna er svo afurð Villa og Valdísar. Faðirinn var verulega stoltur!



Borið fram með smávegis rauðvínstári sem okkur hafði verið fært frá nágranna mínum. Ljómandi spánskt Rioja vín frá 2006. Ljúffengur sopi. 

Bon appetit!

Sunday 4 November 2012

Ungverks gúllassúpa fyrir 60 manns með heimagerðu brauði í tilefni nafnaveislu Ragnhildar Láru


Ein af ástæðum þessarar Íslandsheimsóknar var að kynna nýjustu viðbótina í okkar ætt, Ragnhildi Láru Ragnarsdóttur - hún fæddist þann 24 ágúst síðastliðinn. Hún var frumsýnd núna á sunnudaginn var, í Lönguhlíðinni heima á foreldrum mínum og allri fjölskyldunni boðið í heimsókn. Við höfðum ekki yfir miklum tíma að ráða þannig að við ákváðum að hafa súpu og  brauð - handa 60 manns. 

Og sem betur fer gerðum við nóg af súpu þar sem mæting var með eindæmum góð og gaman að sjá alla ættingjana samankomna að bjóða litlu dóttur mína velkomna. Ætt okkar hefur stækkað og dafnað síðastliðin ár og höfðu þrjú ný börn bæst í hópinn síðustu þrjá mánuði. 

Gúllassúpa hentaði ákaflega vel. Það var hægt að elda hana daginn áður og það er nú svo með súpur af þessu tagi að þær batna bara við biðina. Í fjölskyldu Snædísar var gjarnan talað um að þriðji í kjötsúpu væri sá besti. Ég hafði haft samband við Kjöthöllina áður en ég kom til Íslands og þau voru ekki vandræðum að bjarga mér um átta kíló af úrvalsgúllasi. Það er verslun sem ég auglýsi með bros á vör - góð þjónusta og geta bjargað manni um flest. Ég hef í gegnum tíðina fengið fyrirspurnir um hin ýmsu verkefni sem ég tek mér fyrir hendur, eins og pylsugerð og kjötvinnslu almennt, hráefni sem er mjög aðgengilegt í Svíþjóð. Þetta er eitthvað sem þau í Kjöthöllinni geta auðveldlega reddað - hvort það sé pulsugarnir, nítrítsalt eða grísahausar!

Ungverks gúllassúpa fyrir 60 manns með heimagerðu brauði í tilefni nafnaveislu Ragnhildar Láru


Ég læt þó nægja að birta uppskrift sem ætti að duga átta manns vel. Ég keypti þessar fínu papríkur og kom það sérstaklega á óvart að þær voru helmingi ódýrari en í Svíþjóð. 


Papríkur leika stórt hlutverk í gúllasi og notast maður bæði við ferskar papríkur sem og talsvert af papríkudufti. 



Fyrst er að skera niður laukinn - ég skar auðvitað niður talsvert af lauk og grét hraustlega á meðan! Þrír laukar eru skornir smátt niður ásamt fjórum til fimm stórum hvítlauksrifjum.


Potturinn er settur á hlóðirnar og laukurinn og hvítlaukurinn steiktur í góðri skvettu af jómfrúarolíu. Saltað og piprað. Þegar laukurinn var orðinn fallega gljáandi setti ég hann til hliðar. 



Næst var eitt kíló af góðu nautagúllasi skorið niður í munnbitastóra bita. Saltað og piprað. Það var síðan brúnað að utan í eina til tvær mínútur og svo sett til hliðar.



Faðir minn, Ingvar, var mér innan handar og var lipur við að skræla bæði gulrætur og kartöflur sem og sneiða niður papríkur enda var af nógu að taka. 

Næst var að bragðbæta kjötið. Ég setti tvær msk af papríkudufti - og svo eina msk af reyktu papríkudufti. Ein og hálf tsk af venjulegu kúmeni og svo þrjár tsk af marjorami. 

Því næst setti ég tvær dósir af niðursoðnum tómötum, eina litla dós af tómatpuré og svo einn og hálfan lítra af vatni og svo fjóra nautateninga auk 1/3 flösku af rauðvíni. Saltað og piprað. 






Þá voru fjórar gulrætur skornar niður, þrjár papríkur og kíló af kartöflum (flysjaðar og skornar í bita) og bætt útí súpuna. Soðið upp að nýju. 





Til að gera fyrir sextíu - margfaldið bara uppskriftina með átta! Ekkert vandamál!



Við bökuðum síðan brauð fyrir alla hersinguna! Hlutföllin voru nokkurn veginn á þessa vísu; 700 gr af hveiti, þrjár tsk af geri, tvær til þrjár tsk af salti, þrjár msk af jómfrúarolíu og svo sirka hálfur lítri af volgu vatni. Valdís stóð sig vel!



Fyrst var þurrefnunum blandað saman og svo var vökvanum bætt saman við. Hnoðað vel saman! Og Villi lét ekki deigan síga!



Allir fengu að taka til hendinni.  Brauðin fengu síðan að hefast yfir nóttina - mótuð í brauðhleifa og voru síðan bökuð í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. 


Við bárum fram fjölbreytt úrval af ostum, heimagert túnfisksalat sem og rækjusalat. Hituðum nóg af kaffi og svo gerðum við skúffuköku að hætti ömmu Lilju - sjá hér!



Súpan var síðan borin fram með smá klípu af sýrðum rjóma og smávegis af steinselju. 

Bon appetit!