Sunday 11 October 2020

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

 

Ég elska haustin. Sumir segja, vonandi í gríni, að þeir sem elska haustin ættu að leita sér einhverskonar meðferðar. 

Ætli þessa færsla skýri ekki að einhverju leyti hvers vegna mér þykir svo vænt um þennan árstíma. Öll uppskeran. Sjáið alla þessa dásamlegu liti. Auðvitað er best að njóta allra þessara ávaxta sumarsins meðan það er sem ferskast - en það má líka leggja það í pækil og þannig varðveita bragð þess og áferðar yfir myrkustu mánuðina. 

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

Það eru til óteljandi blöndur af vökva sem ætti að nota í pækil. 3-2-1 blandan frá Svíþjóð og svo óteljandi aðrar blöndur. 

Ég útbjó þessa eftir að hafa skimað fjölda ólíkra uppskrifta. 

Grænmeti af ýmsu tagi;

Smágúrkur
papríkur
gulrætur
rauðkál
hvítkál
blómkál 
laukur

Pækill

1 hlutur edik
1 hlutur vatn
1/2 hlutur sykur
1/8 hlutur salt 

Krydd

Sinnepsfræ
svört piparkorn
græn piparkorn
rauð piparkorn
eldpipar
lárviðarlauf


Hægt er að hafa gúrkurnar - heilar, í sneiðum eða í ílöngum fjórðungum eins og þessum.


Sama má segja um gulræturnar. 


Svo er að fylla krukkurnar með grænmetinu. 

Í sumar krukkurnar fóru nokkrar tegundir af grænmeti - svona tilraun til að skapa einhver mynstur. 

Krukkurnar fengu að fara ferð á háum hita inn í uppþvottavélina, fengu að þorna og svo eina ferð inn í 110 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur. Við það ættu þær að vera sótthreinsaðar.


Svo er bara að loka krukkunum og koma þeim fyrir inn í ísskáp. 

Þetta er frábært meðlæti með ýmiskonar réttum og lyftir og lífgar við nánast hvaða disk sem lagður er á borðið. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday 3 October 2020

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar


Ég deildi þessari mynd á Instagram í liðinni viku og hef fengið nokkrar óskir um að birta uppskriftina. Þetta er í raun endurbirting; hún birtist í fyrsta sinn á síðunni minni 8. febrúar 2007. Síðan eru liðin mörg ár - heil þrettán ár. 

Og þessi uppskrift er ekki frá mér komin. Konan mín, Snædís, á allan heiðurinn af þessari eldamennsku og hefur eldað hana margoft. Þetta er svona "go-to" uppskrift  sem hún er löngu búin að fullkomna. 

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar

Hráefnalisti fyrir 4-6

500 g nautagúllas
4 gulrætur
1 rauðlaukur
1sellerístöng
2 hvítlauksrif
250 g sveppir
2 lárviðarlauf
1 dós tómatmauk (lítil)
1 msk papríkuduft
300 ml rauðvín
500 ml nautakraftur
150 ml rjómi
jómfrúarolía/smjör til steikingar
salt og pipar

2 bollar basmati hrísgrjón

Einfalt salat með pommengranat eplum


Saltið og piprið kjötið og brúnið að utan og setjið það svo til hliðar. Næst er að steikja grænmetið, niðurskornar gulrætur, saxaðan rauð- og hvítlauk, smátt skorið sellerí og niðursneidda sveppi þangað til að það er mjúkt. Losið kjötkraftinn af botninum með sleif. 

Bætið svo tómatmauki saman við og látið steikjast áfram í nokkrar mínútur til að brúna tómatmaukið. Bætið papríkuduftinu, lárviðarlaufi og saltið og piprið vandlega. 

Hellið svo rauðvíni saman við og sjóðið upp og síðan niður um helming. Þá bætið þið nautakraftinum við og látið krauma í 90 mínútur á hellu eða inni í 160 gráðu heitum ofni. Að lokum er rjóma bætt saman við og látið sjóða áfram í 20 mínútur. Það þarf stundum að smakka sósuna til með krafti, salti, pipar og soya - svona til að fá rétta bragðið. 


Berið fram með soðnum hrísgrjónum og einföldu salati. Það sakar ekki að fá sér ljúffengt rauðvín með matnum. Við bárum fram Marques de casa Concha Etuiqueta frá 2017. Þetta er kraftmikið rauðvín, mikið berjabragð, tannínríkt, frekar þurrt með gott eikað eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa