Wednesday 24 August 2011

Kraftmikið pasta penne með ljúfengri eggaldin- og tómatsósu

Það hefur verið erfitt að byrja að vinna aftur eftir langt sumarfrí. Ég er búinn að vera í heilar fimm vikur í leyfi. Ég hef aldrei tekið svona langt frí áður. Venjuega hef ég notað tækifærið og unnið einhvers staðar annars staðar, út í sveit, svona rétt til að hysja upp tekjurnar aðeins - og eiga fyrir lífsins lystisemdum. En að þessu sinni ákvað ég að núna muni maður njóta sumarsins. Og maður er aldeilis búinn að hafa það gott - alltof lengi. Og ég held að það sé þess vegna sem maður hefur verið heldur lúinn síðastliðna daga. Ég veit hreinlega ekki hvort að ég muni leggja í að fara í svona langt frí aftur, ætli ég taki mér ekki styttri frí næsta sumar í nokkrum lotum.

Jæja, að matnum. Þessi réttur var innblásinn úr einni af matreiðslubókum Marcellu Hazan, sem oft hefur verið eignað að hafa kynnt alvöru ítalska matargerð fyrir Bretum og Bandaríkjamönnum. Hún gaf út nokkrar bækur en bókin sem við eigum heitir, Essentials of Classical Italian Cooking, og kom út árið 1992. Þessi bók er auðvitað alger klassíker. Besta Spaghetti Bolognase sem eldað hefur verið á þessu heimili var elduð af bróður mínum upp úr þessari biblíu ítalskrar matargerðar.

Þessi uppskrift, sem er til umfjöllunar að þessu sinni, er lítið annað en tómatsósa "with a twist". En þessi snúningur sem verður til við að bæta steiktu eggaldini við réttinn kúvendir honum algerlega. Ég hef í gegnum tíðina aldrei verið neitt sérstakur aðdáandi eggaldins. En eftir að hafa lesið aðeins meira um þetta einkennilega bjúglaga fyrirbæri hefur skoðun mín á því líka breyst. Ég hafði augljóslega ekki kunnað að elda eggaldin - alltént ekki þannig að mig langaði til að borða það aftur. En eftir að ég fór að steikja hann í ríkulegu magni af olíu þangað til að það verður gullin brúnt, þá umbreytist eggaldinið algerlega. Það fær djúpt, ríkulegt og jafnvel dálítið heitt bragð. Ég hvet alla til að prófa þessa sáraeinföldu uppskrift, hún er algerlega gómsæt.

heimagerður serviettuhringur

Á meðan við föndruðum í eldhúsinu bjó Valdís, dóttir mín, til nokkra laglega servíettuhringi.

Kraftmikið Pasta penne með steiktu eggaldin- og tómatsósu

eggaldin

Fyrst er að huga að því að gera tómatsósuna. Eins og kom fram þá er hún afar einföld. Fyrst er að skera niður smátt heilan hvítan lauk, nokkur hvítlauksrif og steikja í 3-4 msk jómfrúarolíu við lágan til miðlungs hita þangað til hann er lungamjúkur og ljúffengur (þarna væri möguleiki að skvetta smá rauðvíni á pönnuna óski maður þess - en ég gerði það ekki). Svo setti ég tvær dósir af góðum ítölskum niðursoðnum tómötum saman við og leyfði hitanum að koma rólega upp. Auðvitað er saltað og piprað ríkulega. Niðursoðnir tómatar eru auðvitað misjafnir að gæðum - sumir súrir og aðrir sætir. Fyrir þá sem lenda í því að vera bara með súra tómata er auðvitað lítið mál að redda því með því að setja smá sykur saman við sósuna. Við bættum síðan handfylli af basillaufum við í lokin og leyfðum sósunni að malla á lágum hita á meðan hugað var að eggaldinum.

DSC_0507

Eggaldinið var skorið niður í sneiðar og lagt á pappír. Salti var sáldrað yfir og svo fékk eggaldinið að svitna talsvert áður en það fór á pönnuna. Vökvinn dregst í eldhúsbréfin. Panna er sett á eld og kannski hálfum sentimetra af olíu sett á pönnuna - hérna má nota bara venjulega jómfrúarolíu. Eggaldinið er síðan steikt á báðum hliðum þangað til gullinbrúnt.

gullinneggaldin

Það er dáldið gaman að fylgjast með þessu steikjast á pönnunni (ég veit, I am a foodnerd!). Fyrst tekur maður eftir því hvernig eggaldinið sogar í sig olíuna (og maður fær mórall) en svo tekur maður gleði sína á nýjan leik þegar maður sér að það lætur frá sér olíuna á nýjan leik þegar það er tilbúið. Þannig að þegar það er jafnmikið af olíu á pönnunni og þegar maður byrjaði - þá er eggaldinið tilbúið. Tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Skorið niður í heldur smáa bita og blandað saman við tómatsósuna.

eggaldinstómatsósa

a mano
Með matnum vorum við með einfalt salat; bara grænt salat úr garðinum, papríka, gúrka, steinselja og nokkrar svartar kalamata olífur - smávegis af brauði og svo auðvitað penne sem var bara soðið eftir leiðbeiningum í söltu vatni þangað til "al dente". Þegar pastað er tilbúið er sósunni hrært saman við og svo reif ég nóg af parmaosti yfir.

Með matnum fengum við okkur bara smáræði af þessi ágæta ítalska víni. A Mano Primitivo frá því 2007. Þetta vín er á góðu verði hérna í Svíþjóð. Þetta vín er frá Apulien sem er rétt fyrir utan Taranto, sem er á skaga rétt sunnan við miðju Ítalíu. Þetta er ágætt vín - kraftmikið - mjög dökkt í glasi, ilmar af miklum ávexti. Ljúft á bragðið, tannín og með löngu eftirbragði.

meðpasta

Bon appetit!

Thursday 18 August 2011

Dásamleg Ítölsk Pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni

Það var snemma í seinustu viku að ég ákvað að elda þennan rétt. Af einhverri ástæðu fór ég að rifja upp ferðalag til Boston sem ég og Snædís fórum í árið 2005. Þá var Snædís ólétt af stráknum okkar, honum Vilhjálmi Bjarka sem varð sex ára í síðustu viku. Á því ferðalagi fórum við á nokkra ágæta veitingastaði, m.a. ítalska veitingastaðinn Maggiano's Little Italy sem er við Colombus Avenue. Við rötuðum þarna inn snemma á sunnudagskvöldi og fengum ágætis borð. Þetta er huggulegur staður með dökkum viðarinnréttingum og rauðköflóttum dúkum á borðum. Okkur var færð brauðkarfa sem hefði náð að seðja hungur í meðalstóru þorpi í þróunarlöndunum - dísus! Efst á matseðlinum var í boði "All Authentic Italian Pot Roast - only on Sundays". Og auðvitað varð ég að prófa þetta - en ekki hvað?



Og ég var ekki svikinn! Bragðið var djúpt og arómatískt...og svínakjöt er stundum bara alveg fullkomið. Bragðið af svínakjöti getur oft orðið alveg frábært, sér í lagi feitir bitar, sem hafa verið eldaðir lengi. Fitan einhvern vegin eldast burtu en skilur eftir kjötið - meyrt - þannig að það bráðnar undir tönn. Og þessi réttur er þannig. Hann er fullkominn fyrir bita eins og svínahnakka - vel fitusprengdan. Svoleiðis biti passar vel fyrir langa eldun við lágan hita.

Sumir myndu halda því fram að svona réttir sé matur sem passar best fyrir köld vetrarkvöld. Og það er vissulega rétt. Það hefur samt verið svo ári haustlegt upp á síðkastið. Sumarið hefur verið heldur dapurlegt svona "veðurfræðilega" séð. Það hefur verið skýjað, rignt meira en góðu hófi gegnir og verið hvasst af og til. Ekki að undra að maður sé farinn að hugsa um haustið sem venjulega hefur ekki látið á sér kræla fyrr en um miðjan september í fyrsta lagi...allavegana síðan að við fluttum hingað. Og þess vegna eldar maður svona dásamlegan rétt. Endilega prófið þennan, ég lofa að hann á ekki eftir að svíkja!

Dásamleg ítölsk pott-steik með kartöflumús, tómatsalati og góðu rauðvíni



Þetta er réttur sem maður byrjar að elda um miðjan dag og þarf síðan ekkert að huga að aftur fyrr en um kvöldmatarleytið. Bara gleyma matnum í ofninum við lágan hita og huga að öðru hverju á meðan.



Fyrst er að gera að grænmetinu. Skera niður heilan hvítan lauk, 3-4 stæðilegar nýjar gulrætur, 2-3 sellerístangir, 5-6 hvítlauksrif og síðan hálfan fennelhaus, skera allt heldur gróft niður.

Síðan er að þurrka 1,5 kg af beinlausum grísahnakka að utan (þá karmelliserast hann betur) og síðan salta og pipra og nudda svo smá hveiti í kjötið. Þá er að hita olíu í stórum potti og þegar fer að rjúka úr pottinum er steikin sett í pottinn og steikt við háan hita til að loka henni. Lokuð á öllum hliðum. Sett til hliðar.



Þá er hitinn lækkaður og smáræði af olíu er bætt í pottinn og grænmetinu skellt útí og steikt í nokkrar mínútur. Salta og pipra smávegis til þess að hjálpa til að draga vökva úr grænmetinu og losa "fondinn" sem varð til við steikingu á kjötinu og situr oft fast við botninn eða hliðarnar á pottinum. Grænmetið er steikt þangað til mjúkt og þá er kjötið sett aftur í pottinn.

Þá hellir maður tveimur dósum af niðursoðnum tómötum saman við, jafnmikið af vatni, 400 ml af rauðvíni, smávegis af kjötkrafti og hrært saman. Síðan setti ég 2-3 greinar af rósmaríni og 5-6 greinar af timiani út í pottinn. Lokahnykkurinn var að setja nokkra Karljóhann sveppi saman við. Þeir höfðu verið þurrkaðir fyrir nokkrum vikum (settir í skál - sjóðandi vatn saman við og látið standa í 30 mínútur) og þegar þeir hafa þanist eilítið út í vatninu er því bætt í pottinn (bæði sveppunum og vökvanum). Hrært saman, saltað og piprað og suðunni leyft að koma upp - og soðið í nokkrar mínútur. Þá er potturinn settur í forhitaðan 120-130 gráðu heitan ofn og látið vera þar í 3-4 tíma.



Kjötið verður algerlega lungamjúkt við þessa meðferð og nánast dettur í sundur þegar það er tilbúið. Þegar komið er að kvöldverðartíma er kjötbitinn færður á disk og leyft að hvíla í nokkrar mínútur á meðan sósan er smökkuð til og soðin aðeins niður til að þykkja hana - kannski í 10 mínútur. Það þurfti ekki að gera mikið við hana þar sem hún var núna orðinn kraftmikil með eindæmum og einstakega ljúffeng.



Við sóttum nokkrar kartöflur út í garð. Þær voru þrifnar, flysjaðar og svo soðnar í ríkulega söltuðu vatni þangað til mjúkar. Þá var vatninu hellt af. Því næst voru þær stappaðar, saltað og piprað, smá smjörklípa og mjólk bætt saman við og hrært vel vel saman.



Við gerðum þetta sáreinfalda tómatsalat með blönduðum fallegum smáum tómötum sem við höfðum keypt á markaðnum um morguninn. Við keyptum kannski 5-6 tegundir af tómötum, sem við skárum niður í helminga og settum í skál. Gerði smá dressingu úr balsamikediki, jómfrúarolíu, salti og pipar og sáldraði yfir. Blandaði síðan handfylli af ferskri niðurskorinni steinselju og basil saman við.




Með matnum drukkum við gott ítalskt rauðvín frá Toskana héraði. Da Vinci Chianti frá 2008 varð fyrir valinu í þetta sinnið. Þetta vín er gert úr blöndu af Sangiovese þrúgum (90%) og svo Merlot þrúgum sem fær síðan að liggja á eikartunnum í hálft ár. Vínið er fallega rúbinrautt. Ilmar af plómum og vínberjum. Mjúkt á tungu með smávegis tannínum og ljúfu eftirbragði. Passaði ákaflega vel með matnum að mér fannst.



Bon appetit.

Tuesday 9 August 2011

Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitusveppasalati og kartöflugratíni





Ég var í gærkvöldi við það að birta færslu um kantarellur og nýfundna ást mína á þessum dásamlega svepp þegar að vinnutölvan mín lagði upp laupana. Bara dó - bar fyrir sig að hún gæti ekki fundið harða diskinn. Déskotans tölvur. Ég flippaði auðvitað eins og mér einum er lagið. Hafði ekki bakkað upp tölvuna í tæpar þrjár vikur og sá því fyrir mér að að hluti af rannsóknargögnunum mínum sem og sumarleyfismyndirnar væru fyrir bí. Í morgun hafði ég síðan samband við tölvugaurinn - sem sagði mér að það væri alltaf hægt að bjarga þessu. Mér létti stórkostlega!

Ég hafði þó haft vit á því að bakka upp gögnin mín fyrir nokkrum vikum þannig að að tapið er ekki stórkostlegt - en það er alltaf fúlt að lenda í svona. Sér í lagi þegar forvörnin er svo einföld! Jæja, maður lærir svo lengi maður lifir. Er ekki nær að snúa sér að matnum.

Í einni af hverfisbúðunum hefur hangið nautakjöt sem hefur verið hengt upp á mismunandi tímapunktum síðan í vor. Glæsilegir nautahryggir og lundir hafa fengið að hanga í þar til gerðum skáp í að minnsta kosti 10 vikur. Niðurstaðan var vægast sagt girnileg. Kjötið hefur fengið á sig dökkan og fallegan lit og leit afar spennandi út.



Allt í steik! Kolagrilluð langhangin nautasteik með kryddsmjöri, heitu sveppasalati og kartöflugratíni
Það góða við að grilla steik er að svona matseld er einföld - en þó er auðvelt að klúðra henni. Helstu mistökin felast í því í að ofelda steikina. Slíkt er að mínu mati bannað. Oft er talað um þrjár leiðir til að elda steik; rare, medium rare og svo ruined (ónýtt!). Fátt er ógirnilegra en að tyggja einhvern skósóla!



Fyrst var að huga að því að gera kryddsmjörið. Ég hafði keypt smjör í Frakklandi sem ég hafði ætlað í svona hlutverk - franskt smjör með grófu sjávarsalti, namminammi. Fyrst var að láta 100 gr af smjöri ná herbergishita, bæta við smátt skornum berki af hálfri sítrónu, 2 smátt skornum hvítlauksrifjum, smávegis af smátt saxaðri sítrónumelissu og steinselju og svo auðvitað nýmöluðum pipar. Þessu er síðan hnoðað saman og svo rúllað út í pylsu, sett í álpappír og inn í kæli.


Síðan er að huga að því að gera gratínið - sem að þessu sinni var alveg klassíkt. Kartöflurnar voru skornar næfurþunnt niður í matvinnsluvél. Raðað í eldfast smurt mót. 300 ml af matreiðslurjóma hellt út á, salt, pipar, smávegis af nýmuldum negul. Svo setur maður auðvitað ost ofaná. Bakað í ofni, 180 gráðu heitum, í tæpan klukkutíma - jafnvel fimm korter.



Áhugi minn á sveppum hefur stóraukist seinustu vikurnar - það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem kíkir á bloggið mitt. Þetta er ekki villisveppasalat - allt fengið úr búð - enda var þessi máltíð elduð áður en að sveppatímabilið byrjaði.



Hita grill - blússhita! Grilla fyrst sveppina - blöndu af venjulegum hvítum sveppum, skógarsveppum og svo portobellosveppum. Salta og pipra auðvitað og setja síðan til hliðar á grillinu.


Steikurnar eru penslaðar með olíu, saltaðar og pipraðar og síðan eldaðar í 1-2 mínútur á hvorri hlið, allt eftir þykkt steikanna og svo hita grillsins. Látnar standa í nokkrar mínútur undir álpappír til að jafna sig áður en maður gæðir sér á þeim.



Á meðan steikurnar hvíla er um að gera að klára að gera heita sveppasalatið. Sveppunum er blandað í skál, safa úr hálfri sítrónu settur yfir, smá lögg af góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað og svo er nokkrum matskeiðum af niðurskorinni steinselju blandað saman við.





Með matnum fengum við okkur rauðvín. Að þessu sinni varð fyrir valinu vín frá Spáni - Montecillo Gran Reserva frá því 2003. Vínið er dálítið rústrautt í glasi, ansi kröftugur ilmur, ber. Bragðið er einnig kröftugt, dáldið kryddað með löngu og góðu eftirbragði.

Kjötið var hreint út sagt afbragð. Meyrt og bragðmikið. Ég var feginn að hafa ekki verið með þunga sósu - kjötið fékk að njóta sín á þennan hátt betur en ella.





Bon appetit!