Tuesday 16 June 2020

Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar!Valdís Eik Ragnarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð með glæsibrag. Það er alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá barnið sitt klára menntaskóla. Athöfnin var auðvitað með öðru sniði - aðeins annað foreldrið mátti koma í hátíðarsalinn. Ég horfði á útsendinguna í gegnum netið - sem var furðuvel heppnuð. Ég var að rifna úr stolti yfir frábæra frumburðinum okkar. 

Um kvöldið var svo veisla stúdínunni til heiðurs. Þar var fjölmennt, en þó innan Covid ráðlegginga. 


Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar! 

Fyrir lambið

4 lambaframpartar
Marókósk kryddblanda - heimagerð (blanda af ristuðu broddkúmeni, kóríander auk túrmeriks, hvítlauksdufti, papríkudufti og salti og pipar. 
Beð af mirepoix (gulrætur, laukur, sellerí)
Jómfrúarolía. 


Útbjó kryddblönduna. Smurði lambið ríkulega með jómfrúarolíu og lagði á beð af mirepoix sem ég hafði skorið niður. Lambið var svo nuddað ríkulega með kryddblöndunni og bakað undir álpappír í 4 klukkustundir.


Kjötið varð lungamjúkt og leikur einn að toga beinin úr og aðskilja kjötið frá. Setti það til hliðar og geymdi í kæli til morguns.


Gerði líka fullt af brauðdeigi. Fyrst var að undirbúa flatbrauðið. Ég hef oft gert einhvers konar grillbrauð og það er einstaklega auðvelt. Gerði líklega 6 uppskriftir

Einföld uppskrift er eitthvað á þessa leið; 

Fyrir flatbrauðið

600 gr hveiti eru sett í skál
1 tsk salt
2 msk jómfrúarolíu. 
1 pakkir af þurrgeri 
30 g hunang
600-700 ml vatnÞetta er síðan hrært saman í góðri hrærivél.  Látið hefast yfir nótt.


Skipti deiginu síðan í 12 kúlur sem fengu að hefast aftur í um klukkutíma.


Bakaði svo brauðið á pizzusteini úti á grilli. Penslaði hverja sneið með hvítlauksolíu og saltaði vandlega.


Brauðið heppnaðist mjög vel.


Um það leyti sem gestirnir voru að mæta setti ég risastóra paellupönnu á gasið og steikti rifið kjötið aftur í jómfrúarolíu og kryddaði aftur með restinni af kryddblöndunni sem ég hafði gert kvöldið áður.


Rauðbeðu- og chilihummus

2 dós kjúklingabaunir
3 msk tahini
100 g innlagðar rauðbeður
2 msk chilimauk (að eigin vali)
salt og pipar
75 ml jómfrúarolía
1 hvítlauksrif
salt og pipar


Skar einn rauðkálshaus niður með mandólíni og lagði í pækil gerðan úr þremur hlutum vatns, tveimur hlutum af góðu ediki og einum hluta af sykri. Sauð þetta upp, lét kólna og standa á rauðkálinu í tvo til þrjá tíma. Við það verður það létt pæklað - ennþá stinnt og aðeins undir tönn.


Og auðvitað var skálað fyrir stúdínunni.

Prosecco frá Piccini hefur verið í uppáhaldi hjá okkur síðan við heimsóttum framleiðandann Piccini til Toscana sumarið 2017. Þar tókum við Kristján Kristjánsson upp fyrstu sjónvarpsþættina okkar fyrir sjónvarp Símans. Algerlega ógleymanleg ferð!


Svo var ekkert annað að gera en að raða á disk, fyrst brauð og svo hlaða öllu gúmmelaðinu á brauðið.

Þetta heppnaðist vel og maturinn var nær allur snæddur upp til agna.

Til hamingju - elsku Valdís Eik. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 7 June 2020

Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum


Þetta er leiftursnögg grilluppskrift sem hentar vel á virkum degi - en myndi líka sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er!Galdurinn við eldamennsku eins og þessa er að grilla rækjurnar ekki of lengi - þær þurfa bara skamman tíma á blússheitu grillinu. Hiti og snör handtök skipta hér öllu máli. Svo snögg að það tekur varla því að opna bjór fyrir sjálfa eldamennskuna. Hann má teyga á meðan rækjurnar marinerast eða þegar hann er borinn fram með matnum. Svo má líka alveg sleppa bjórnum. Hann er góður en ekki nauðsynlegur. 

Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum 

Ég var með gesti í mat - Maggi og Hafdís mættu með yndislegu börnin sín. Ég byrjaði á að bera fram hvítlauksrækjurnar. 

Hvítlauksrækjur með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði

Fyrir sex svanga

Fyrir hvítlauksrækjurnar

600 g risarækjur
6 msk hvítlauksolía
safi úr einni sítrónu
4 msk graslaukur
salt og pipar

250 smjör
6 hvítlauksrif
3 msk graslaukur
salt og pipar

6 brauðsneiðar
hvítlauksolíaÞessi eldamennska var eins einföld og hugsast getur. Skar niður graslauk eins fínt og ég mögulega gat. Setti risarækjurnar í skál og bætti hvítlauksolíu, sítrónusafa, graslauk, salti og pipar saman við. 


Leyfði svo rækjunum að marinerast í hálftíma áður en þær voru þræddar upp á spjót. 


Hvítlaukssmjör er ofureinfalt að undirbúa. Skera hvítlaukinn eins smátt og unnt er eða setja hann í gegnum hvítlaukspressu. Hræra vel saman við smjörið ásamt tveimur til þremur msk af fínt hökkuðum graslauk, pipra aðeins. 


Næst er að blússhita grillið og grilla þær eldsnöggt. Þær skipta næstum strax um lit og þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo á grillinu. 


Rækjurnar eru svo lagðar á grillað súrdeigsbrauð og bornar fram með glóðuðum sítrónusneiðum. 
Eldheitar risarækjur með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum 

Fyrir sex (aðeins minna svanga)

600 g risarækjur
2 msk olio principe peperoncino
hnífsoddur af möluðum chili pipar (frá Kryddhúsinu)
1 msk rauður pæklaður chili pipar
2 msk hvítlauksolía
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar

Fyrir gulræturnar

3 marglitar gulrætur
6 msk edik
3 msk vatn
2 msk sykur
2 msk salt

Kínakálsblöð (þvegin og þerruð)

Fyrir sósuna

3 msk majónes
2 msk grísk jógúrt
1 msk sirachasósa
1 tsk hvítlauksolía
salt og piparSkellti rækjunum í skál og bragðbætti með þessari kraftmiklu olíu. 


Svo með þessum ljúffenga chili pipar. 


Og svo smáræði af þessum pæklaða rauða jalapeno sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér ásamt því að bæta við hvítlauksolíu, hakkaðri steinselju (hefði notað ferskan kóríander ef minn betri helmingur hefði ekki algert óþol fyrir þessu) og svo að lokum salti og pipar. 


Og auðvitað ferskum chili. Leyfði þessu að marinerast í 30 mínútur.


Ég notaði íslenskar marglitar gulrætur. Útbjó pækilinn í potti sem ég hitaði að suðu, kældi svo niður og hellti yfir næfurþunna gulrótarstrimla. 


Eftir að hafa grillað rækjurnar á funheitu grillinu lagði ég þær á kínakálsblöð sem ég hafði þvegið vandlega, lagði svo gulrótarstrimlana yfir ásamt því að sáldra chilikokteilsósu (blanda af siracha, jógúrt, majónesi og salti og pipar) yfir.


Svo var bara að skella þessu á disk og hesthúsa þessu í sig. Sælgæti! 


Með matnum drukkum við svo hressandi rósavín, Chill out Shiraz Rosé frá Kaliforníu, sem passaði vel við matinn og ljúfa vorsólina.

Það er óhætt að segja að þessar rækjur hafi heppnast vel! 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Thursday 4 June 2020

Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum


Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum 

Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta. 

Þessi uppskrift er birt í samvinnu við Gott í matinn. Sjá hérna

Fyrir fimm

Fyrir fiskinn

1 kg spriklandi fersk smálúða (ég fer alltaf í fiskbúðina á Sundlaugaveginum)
1 hvítur laukur
1 rauðlaukur
2 msk hvítlauksolía
50 g af smjöri
1/2 box af rjómaosti með karmelliserðum lauk 
1 msk ferskt timjan
salt og pipar

Fyrir hrísgrjónin

1,5 bolli basmati hrísgrjón (soðin skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni) 
50 g smjör
0,5 g saffran 
salt og pipar

Salatlauf


Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu.


Ég notaði rjómaost með karamellíseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.


Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.


Byrjaði á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann. Ofan á það lagði ég svo bæði rauðlauk og gulan lauk sem ég hafði skorið í sneiðar og mýkt í nokkrar mínútur í smjöri. Gætti þess vandlega að brúna ekki laukinn. Sáldraði svo fersku timjan yfir og bakaði svo í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.


Næsta skref var að vekja saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.


Bræddi svo 50 g af smjöri á pönnu og steikti soðin basmati hrísgrjón í nokkrar mínútur áður en ég hellti saffraninu ásamt vatninu saman við. Steikti áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.


Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan var kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk.

Sannkölluð veislumáltíð.

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa