Thursday 23 June 2016

Dásamlegar andabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum

Ég og bróðir minn sátum á nærlægum pöbb í Brighton í gær og fylgdumst með leiknum. Allir gestir knæpunnar héldu með Íslandi og sumir höfðu meira segja veðjað á niðurstöðu leiksins! Skemmtilegast var að sjá að presturinn hoppaði hæð sína þegar íslenska liðið skoraði mark á lokasekúndunum og tryggði okkur sigurinn. Mikið rosalega var gaman að fylgjast með leiknum!

Ég verð þó að játa að ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af fótbolta en á stundum sem þessum er erfitt annað en að hrífast með - og þó að íslenska liðið eigi allan heiður skilinn fyrir frammistöðuna finnst mér eiginlega skemmtilegast að fylgjast með myndum af íslensku aðdáendunum - frábærar myndir af glöðu, samheldnu fólki að syngja saman - það nær sérstaklega til mín! Maður verður stoltur að tilheyra þessum hópi!

Við hjónin hlökkum mikið til helgarinnar. Við erum á leiðinni til Íslands þar sem Snædís er að fara að sjá húsið okkar í fyrsta sinn með eigin augum. Við ætlum að reyna að mála neðri hæðina og vonandi fáum við gáminn okkar á mánudaginn og getum tæmt hann inn í húsið áður en við setjumst niður yfir fótboltaleiknum!

Þessi uppskrift er úr bókinni minni - Grillveislan - og birtist einnig á síðum Morgunblaðsins fyrir rúmum mánuði síðan. Þá gefur það auga leið að maður verður að deila þessu!
 
Dásamlegar a
ndabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum


Andabringur þykja með fínni hráefnum. Þær eru oft eldaðar til hátíðabrigða – en þær henta eins vel á grillið. Látið því ekki hefðbundinn hátíðleika hindra ykkur. Hér er ein leið til að djassa þær aðeins upp. Með því að skera þær langsum í þunna strimla og vefja þær svo upp með grænmeti má létta aðeins á þeim – og kannski gera þær aðgengilegri og jafnvel minna hátíðlegar.

Eins mætti auðvitað gera með kjúkling, kalkúnabringur og gæs. Sleppið ímyndunaraflinu bara lausu. Með þessari ofureinföldu köldu sinnepssósu verður rétturinn ennþá ljúffengari.

Fyrir fjóra

4 andabringur
½ kúrbítur
¼ sætar kartöflur
¼ gulrót
4 tsk dijonsinnep
salt og pipar


Skolið og þerrið andabringurnar og skerið þær með beittum hníf í þunna strimla langsum.
Flysjið grænmetið og skerið í þunnar sneiðar langsum. Leggið andabringusneiðar á skurðarbretti, tvær í lengju. Látið endana mætast þannig að þeir liggi aðeins hvor ofan á öðrum. Smyrjið með þunnu lagi af sinnepi. Leggið grænmetissneiðar ofan á, svo andabringusneið, haldið áfram þar til komin eru tvö til þrjú lög af önd og tvö til þrjú lög af grænmeti.


Rúllið lengjunni upp í vöndul og bindið um þannig að hún haldist í gegnum eldamennskuna. Saltið og piprið.


Endurtakið fjórum sinnum.


Hitið grillið og eldið í þrjár til fjórar mínútur á hvorri hlið á beinum hita og setjið svo til hliðar á grillinu og eldið á óbeinum hita þar til kjarnhiti hefur náð að minnsta kosti 60°C.


Bæti við auka mynd af öndinni á grillinu - bara af því að mér finnst það svo fallegt!


Ég á í erfiðleikum með að þykja þetta eitthvað annað en gullfallegt! 


Besta sinnepssósan sem passar með öllu

Þessi sósa er ekki bara fljótleg, heldur er hún stórkostlega góð. Hún passar mjög vel með ýmsum grillmat - kjúklingi, nautasteik eða jafnvel andabringu!

Þegar verið er að gera einfaldar sósu gildir í raun bara ein regla, að hráefnið sem er notað sé gott. Ég mæli með því að kaupa gott, gróft sinnep, sjálfur er ég afar hrifinn af Edmond Fallot sinnepi frá Dijon í Frakklandi sem hefur veri framleitt síðan 1840.

3 msk majónes
3 kúfaðar msk sýrður rjómi
1 msk gróft sinnep
1 msk hlynsíróp
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Setjið majónes í skál og hrærið sýrða rjómanum saman við.
Blandið sinnepinu saman við (það má vel auka magnið).
Smakkið síðan til með hlynsírópi, sítrónusafa, salti og pipar.

Geymist í ísskáp í nokkra daga.


Ég segi það og skrifa - þessi sinnepssósa passar með næstum því öllum grillmat. Ég hef 100% rétt fyrir mér 60% af tímanum! :)



Með mat eins og þessum væri fullkomið að njóta góðs rauðvíns eins og til dæmis þessu frá Chile, Montes Pinot Noir frá 2012. Ég hef lengi verið hrifinn af vínum frá þessum framleiðenda. Þetta er ljúft og gott rauðvín með ljúffengum berjakeim sem passar svona ljómandi vel með öndinni.


Njótið vel!

Friday 17 June 2016

Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflum


Síðustu dagar hafa verið annríkir. Um helgina fórum við til Svíþjóðar þar sem við pökkuðum niður föggum okkar og settum í gám. Það hefði ekki verið hægt nema með hjálp góðra vina - það hlýjar manni um hjartarætur að eiga vini sem erum manni innan handar þegar á þarf að halda. Ástarþakkir fyrir alla hjálpina og stuðninginn!

Og við skiljum sátt við Svíþjóð - eins og ég nefndi í síðustu færslu - héðan eigum við gnægð af góðum minningum, höfum eignast fullt af vinum sem við eigum eftir að halda góðu sambandi við - það verður gaman að fá þau í heimsókn og sýna þeim landið okkar.

Ég hlakka meira og meira til að flytjast heim. Þar bíða heilmikið af spennandi verkefnum. Og við fáum líka hjálp frá vinum og vandamönnum við heimkomuna. Mág- og svilkona mín hafa hjálpað okkur að undirbúa húsið í Ártúnsholtinu áður en við komum heim, málað loftið og tekið niður eldhúsið - þvílíkir englar. Tengdamútta sló meira segja grasið í garðinum núna um síðustu helgi. Guðmundur var líka innan handar í niðurrifsstarfssemi í eldhúsinu. 

Fyrir utan að byrja að vinna á Íslandi á Landspítalanum og á Klíníkinni, ætli ég hlakki ekki mest til að útbúa nýja eldhúsið mitt. Það er næstum því 30 fermetrar, opið inn í stofu og svo aðgengi út á pall þar sem ég verð með útieldhús. Ég er búinn að panta borðplötur frá Fanntófell en ég er að láta sérsmíða fyrir mig plötu á innréttinguna og þá sérstaklega eyjuna mína. Við þurftum að kaupa öll raftæki - þar sem öll tæki fylgja húsum í Svíþjóð - og því áttum við ekki nein tæki í nýja húsið. Eftir smá rannsóknarvinnu á netinu ákvað ég að taka alla línuna frá Bosch - ísskáp, frysti, uppþvottavél, háf, örbylgjuofn, spanhelluborð og svo gufuofn sem ég er mjög spenntur fyrir því að prófa. Sýni ykkur græjurnar þegar fram líða stundir. 

Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflum



Í grunninn er hér um að ræða gamalkunna en jafnframt frábæra íslenska leið til að elda lambalæri. Moðsuða var gjarnan viðhöfð á heimilum á öldum áður þegar eldiviður var af skornum skammti. Á mörgum heimilum voru moðsuðukassar úr tré þar sem hey, ull, hálmur, fiður, segl eða tjöld voru notuð til einangrunar, eða hvaðeina sem mátti nota til að spara eldiviðinn. Maturinn var settur í einangraðan kassann og kassinn nálægt hitagjafanum. Og svo var bara beðið.

Þessi aðferð er enn einfaldari – lambalærið er umlukt ferskum kryddjurtum, pakkað inn í álpappír, sett beint á kolin og grasþaka lögð yfir. Einfalt.

Fyrir fjóra til sex
1 lambalæri
1 hvítlaukur
1 msk ferskt timían
1 msk ferskt/þurrkað blóðberg
½ msk rósmarín
½ msk majoram
5 msk jómfrúarolía
salt og pipar



Brjótið álpappírinn saman nokkrum sinnum þannig að hann þoli að liggja á berum kolum.Nuddið lambalærið upp úr olíu og saltið og piprið. „Spekkið“ lærið með hvítlauknum með því að stinga nokkur göt í það með stuttum hníf og troða hvítlauknum í sárið. Leggið þriðjung af kryddjurtunum á álpappírinn og svo lambalærið ofan á jurtirnar. Setjið þriðjung af jurtunum ofan á lærið og síðasta þriðjunginn með hliðunum.



Pakkið lærinu vandlega inn og grillið á heitum kolum í 1½-2 klst eftir stærð lærisins. Snúið á hálftíma fresti.


Leggið grasþöku ofan á lærið - og moðsjóðið.

Takið svo lærið af grillinu og látið það hvíla í 30 mínútur áður en þið opnið álpappírinn. Á meðan lambið hvílir blússhitið þið grillið.


Penslið lambið að 30 mínútum liðnum með smáræði af jómrúarolíu, saltið aðeins og brúnið það síðan að utan á funheitu grillinu. Það þarf ekki nema mínútu á hvorri hlið þar sem það er þegar eldað í gegn. Gætið þess að halda vökvanum í álpappírnum til haga og nota í sósuna!

Fyrir rósmarínkartöflurnar

800 g nýjar kartöflur
4 msk góð jómfrúarolía
2-3 greinar ferskt rósmarín
1 hvítlaukur
sjávarsalt og pipar

Rósmarínkartöflurnar


Takið hvítlaukinn sundur í geira, setjið með kartöflunum í eldfast mót (eða álbakka) og veltið upp úr olíunni. Raðið rósmaríngreinum á milli og saltið vel og piprið.  Bakið við óbeinan hita í um klukkustund þar til kartöflurnar eru gullnar að utan.


Það er eitthvað fallegt við þessar kartöflur - nett stökkar að utan, mjúkar, fluffí, að innan. 


Með þessum mat myndi ráðleggja þetta ljúfenga Cabernet Sauvignion frá Chile - Marques Casa Concha frá 2013. Þetta vín passar vel með lambi eins og þessu. Það kröftugur ilmur af berjum og eik, þétt á tungu - með svipuðum tónum og á nefi - mjúkt með ríkulegu eftirbragði. 

Til hamingju með afmælið Ísland! 

Hægt er að finna þessa uppskrift og margar aðrar ljúffengar grilluppskriftir í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 

Sunday 12 June 2016

Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu


Ég flaug frá London á föstudaginn eftir að hafa sótt stóra og mjög svo áhugaverða gigtarráðstefnu til Lundar til að afhenda húsið okkar. Það eru næg verkefni fyrir höndum en við eigum eftir að pakka öllum föggum okkar niður og setja í gám sem við fáum til okkar á mánudaginn. Dagurinn í dag hefur þó gengið vonum framar og við erum langt komin með verkið. 

Það verður þó að játast að það er ögn tregablandið að yfirgefa Lund. Hér höfum við átt mjög svo góð ár. Lært, lifað, notið, ferðast, borðað og hlegið. Fjölskyldan hefur vaxið og dafnað. Veðrið hefur líka verið dásamlegt - glampandi sól og heitt, samt ekki of heitt. Garðurinn og gatan í blóma. 

En heima á Íslandi bíður fjöldinn allur af spennandi verkefnum fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Sú yngsta, Ragnhildur er komin í leikskóla, Villi fer í Ártúnsskóla og ætlar að æfa fótbolta, Valdís stefnir á að reyna að komast inn í MH, Snædís mun ljúka verknámi og opna stofu. Ég mun vinna á Landspítalanum og opna stofu í Klíníkinni í Ármúlanum. Ég ætla að byrja að spila skvass aftur í Veggsport og njóta lífsins út í æsar. 

Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu


Þessa uppskrift er að finna í nýju bókinni minni sem kom út núna fyrir að verða mánuði síðan. Ég er þakklátur fyrir móttökurnar. Hún náði að vera á metsölulista fyrstu vikurnar og var bók mánaðarins hjá Eymundsson. Ég er líka þakklátur fyrir athugasemdirnar sem mér eru sendar. Þær gleðja mann alveg óendanlega. 

Með þessum rétti er gerð sósa sem margir kannast við – pítusósa. Hún er lygilega einföld að útbúa og ekki nokkur einasta ástæða til að kaupa tilbúna sósu út úr búð, gleymið henni. Ég sá eina tegund sem innihélt erfðabreytta soyaolíu - hvílíkt ógeð - ódýrara og óhollara hráefni er varla hægt að hugsa sér.

Pítur draga heiti sitt af brauðinu sem þær eru bornar fram í. Saga þessa brauðs er löng og nær aftur til Mesópótamíu 2.500 árum fyrir Krists burð. Það er ekki sérlega flókið að baka þessi brauð sjálfur en hér stytti ég mér leið og kaupi þau hálfbökuð út í búð – þá þarf bara að hressa þau aðeins við. Best er að væta brauðin aðeins með vatni og setja rök inn í blússheitan ofn eða á rjúkandi grillið.

Oftast er okkar ljúffenga lambakjöt snætt í heilum steikum, en lambahakk unnið úr framparti eða slögum getur sannarlega lagt grunninn að góðri veislumáltið eins og hér er gert.

Fyrir sex til átta

800 g lambahakk
3 hvítlauksrif
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 tsk paprikuduft
1 msk mynta
1 msk steinselja
3-4 msk jómfrúarolía
salt og pipar

1 avókadó
1 haloumiostur
sólþurrkaðir tómatar
1 rauður laukur
nokkrar radísur
blandað salat
6-8 pítubrauð

„Ekta“ pítusósa

4 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
1 tsk óreganó
1 tsk majoram
1 tsk ferskt timían
hlynsíróp ef vill
salt og pipar



Setjið lambahakk í skál og blandið saman við það möluðu broddkúmeni, kóríanderdufti, paprikudufti og maukuðum hvítlauk. Blandið smátt söxuðum kryddjurtum, jómfrúarolíu, salti og pipar saman við og hnoðið vandlega saman.


Hafið meðlætið tilbúið á diski svo kjötið og brauðið þurfi ekki að bíða. Mótið kjötið í buff og grillið þar til það er eldað í gegn (tvær til fjórar mínútur á hvorri hlið – háð þykkt buffsins). Leggið til hliðar. Skerið ostinn í sneiðar, penslið með jómfrúarolíu og grillið í 30-60 sekúndur á hvorri hlið (háð þykkt). Vætið pítubrauðin og skellið á grillið. Eldið þar til þau blása upp.

Fyrir pítusósuna

Setjið majónes í skál ásamt sýrðum rjóma. Látið óreganó, majoram og timían saman við. Smakkið til með salti og pipar (stundum þarf að sæta svona sósur lítillega og þá er gott að nota hlynsíróp).


Þessar og margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan.

Thursday 2 June 2016

Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioli



Sumarið er rétt að byrja og spáin lítur vel út. Þó að það sé gaman að grilla allt árið getur það stundum verið ansi krefjandi á veturna - þegar vindurinn kemur úr öllum áttum og kuldinn sækir að. En nú er komið sumar og útlitið fyrir næstu daga er lofandi. Og þá er ekkert annað en að grípa gæsina þegar hún gefst. 

Þessi uppskrift er ótrúlega einföld. Hún varð eiginlega til þegar var verið að róta í ísskápnum á mánudagskvöldið! En sama kvöld viðraði einnig vel til grilleldamennsku. Sól, smá rok - en hægt að finna skjól í garðinum. 

Og uppskriftin sem var höfð til fyrirmyndar var Cesarssalat - en það vantaði eiginlega það helsta til elda það almennilega - þess vegna verður þetta bara kallað keisaraafbrigði. Og fljótlegt var það - en það sem er mikilvægara, það var alveg einstaklega ljúffengt. 

Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioli

Hráefnalisti 

Fyrir sex

6 kjúklingabringur
10-12 beikonsneiðar
100 g blandað salat
2 papríkur
300 g tómatar
jómfrúarolía
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Fyrir aiolið

2 eggjarauður
1 tsk djion
2 hvítlauksrif
200 ml góð jómfrúarolía
safi úr heilli sítrónu 
handfylli fersk steinselja


Að gera aioli er einfaldara en margur heldur. Og það sem skilur aiolið frá mayjónesinu er í raun bara hvítlaukurinn. Og byrjið á því að hræra eggjarauðurnar, hvítlaukinn, sinnepið og smá salt og pipar saman vandlega þannig að það sé vel blandað og farið að aukast aðeins í rúmmáli. 


Það skiptir máli að blandan sé farin að "taka sig" áður en byrjað er að hella olíunni. Henni er síðan hellt varlega saman við og þeytt af áfergju. Ein eggjarauða getur fituþeytt (emulsify) ansi mikilli olíu, jafnvel meira en einum lítra. Ég setti tvær eggjarauður bara til að gefa aiolíinu meiri fyllingu, gera það ríkulegra.




Ragga Lára, yngsta dóttir mín, lét sig ekki vanta við eldamennskuna - en hún hefur mikin áhuga á því að hjálpa föður sínum í eldhúsinu. Hér sat hún og gaf góð ráð við grillmennskuna. 


Kjúklingurinn er penslaður með jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo skellt á heitt grillið, brúnaður að utan á báðum hliðum og svo látinn eldast við óbeinan hita til að elda í gegn. 


Svo var bara að steikja beikonið á grillinu. Beikon verður einhvern veginn ennþá ljúffengara á grilli, sérstaklega þegar það er grillað yfir viðarkolum. 


Og það var ekki af verri endanum vínið sem við smökkuðum með matnum. Baron de Ley Tres Vinas frá 2010. Þetta er spánskt Rioja sem er gert úr þremur mismunandi þrúgum. Það er fallega gullið í glasi, ilmurinn heldur eikaður, með þéttum ávexti á tungu, smá vanillu og eik á tungu, með löngu eftirbragði. Ekki skrítið að þessu víni hefur verið vel tekið!


Svo var bara að raða öllu saman. Setja kjúklingabringurnar á salatið á milli niðursneiddra tómata og papríku, dreifa beikoni á milli og svo aioli yfir.

Mánudagsgrillið getur líka orðið að veislu!

Njótið vel!