Sunday 12 June 2016

Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu


Ég flaug frá London á föstudaginn eftir að hafa sótt stóra og mjög svo áhugaverða gigtarráðstefnu til Lundar til að afhenda húsið okkar. Það eru næg verkefni fyrir höndum en við eigum eftir að pakka öllum föggum okkar niður og setja í gám sem við fáum til okkar á mánudaginn. Dagurinn í dag hefur þó gengið vonum framar og við erum langt komin með verkið. 

Það verður þó að játast að það er ögn tregablandið að yfirgefa Lund. Hér höfum við átt mjög svo góð ár. Lært, lifað, notið, ferðast, borðað og hlegið. Fjölskyldan hefur vaxið og dafnað. Veðrið hefur líka verið dásamlegt - glampandi sól og heitt, samt ekki of heitt. Garðurinn og gatan í blóma. 

En heima á Íslandi bíður fjöldinn allur af spennandi verkefnum fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Sú yngsta, Ragnhildur er komin í leikskóla, Villi fer í Ártúnsskóla og ætlar að æfa fótbolta, Valdís stefnir á að reyna að komast inn í MH, Snædís mun ljúka verknámi og opna stofu. Ég mun vinna á Landspítalanum og opna stofu í Klíníkinni í Ármúlanum. Ég ætla að byrja að spila skvass aftur í Veggsport og njóta lífsins út í æsar. 

Ljúfar lambapítur með grilluðum haloumi, avókadó og „ekta“ pítusósu


Þessa uppskrift er að finna í nýju bókinni minni sem kom út núna fyrir að verða mánuði síðan. Ég er þakklátur fyrir móttökurnar. Hún náði að vera á metsölulista fyrstu vikurnar og var bók mánaðarins hjá Eymundsson. Ég er líka þakklátur fyrir athugasemdirnar sem mér eru sendar. Þær gleðja mann alveg óendanlega. 

Með þessum rétti er gerð sósa sem margir kannast við – pítusósa. Hún er lygilega einföld að útbúa og ekki nokkur einasta ástæða til að kaupa tilbúna sósu út úr búð, gleymið henni. Ég sá eina tegund sem innihélt erfðabreytta soyaolíu - hvílíkt ógeð - ódýrara og óhollara hráefni er varla hægt að hugsa sér.

Pítur draga heiti sitt af brauðinu sem þær eru bornar fram í. Saga þessa brauðs er löng og nær aftur til Mesópótamíu 2.500 árum fyrir Krists burð. Það er ekki sérlega flókið að baka þessi brauð sjálfur en hér stytti ég mér leið og kaupi þau hálfbökuð út í búð – þá þarf bara að hressa þau aðeins við. Best er að væta brauðin aðeins með vatni og setja rök inn í blússheitan ofn eða á rjúkandi grillið.

Oftast er okkar ljúffenga lambakjöt snætt í heilum steikum, en lambahakk unnið úr framparti eða slögum getur sannarlega lagt grunninn að góðri veislumáltið eins og hér er gert.

Fyrir sex til átta

800 g lambahakk
3 hvítlauksrif
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 tsk paprikuduft
1 msk mynta
1 msk steinselja
3-4 msk jómfrúarolía
salt og pipar

1 avókadó
1 haloumiostur
sólþurrkaðir tómatar
1 rauður laukur
nokkrar radísur
blandað salat
6-8 pítubrauð

„Ekta“ pítusósa

4 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
1 tsk óreganó
1 tsk majoram
1 tsk ferskt timían
hlynsíróp ef vill
salt og pipar



Setjið lambahakk í skál og blandið saman við það möluðu broddkúmeni, kóríanderdufti, paprikudufti og maukuðum hvítlauk. Blandið smátt söxuðum kryddjurtum, jómfrúarolíu, salti og pipar saman við og hnoðið vandlega saman.


Hafið meðlætið tilbúið á diski svo kjötið og brauðið þurfi ekki að bíða. Mótið kjötið í buff og grillið þar til það er eldað í gegn (tvær til fjórar mínútur á hvorri hlið – háð þykkt buffsins). Leggið til hliðar. Skerið ostinn í sneiðar, penslið með jómfrúarolíu og grillið í 30-60 sekúndur á hvorri hlið (háð þykkt). Vætið pítubrauðin og skellið á grillið. Eldið þar til þau blása upp.

Fyrir pítusósuna

Setjið majónes í skál ásamt sýrðum rjóma. Látið óreganó, majoram og timían saman við. Smakkið til með salti og pipar (stundum þarf að sæta svona sósur lítillega og þá er gott að nota hlynsíróp).


Þessar og margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan.

No comments:

Post a Comment