Tuesday 19 August 2008

Syndagreiðsla: Stórgóður ofnbakaður lax með kapers, fetaosti og rósahvítlauk, léttu salati og hrísgrjónum

laxundirbúningur Komum frá Frakklandi í morgun. Í stuttu máli - MÖGNUÐ FERÐ! - hef verið að vinna að færslu sem ég mun setja á netið á næstunni - Ferðasaga nautnaseggs um matgæðingaland - ætli hún verði ekki að nokkrum færslum í máli og myndum. Þetta var ótrúlegt. Maður skilur núna ýmislegt um Frakka - sumir segja að þeir séu hrokafullir, aðrir segja að þeir setji sig á háan hest - kannski myndum við gera það líka ef maður gerði svona margt svona rosalega vel - Sagan, listir, arkitektúr, vínið og maturinn! Þvílíkt og annað eins.

Jæja, nú er maður kominn á Frónið, en rétt aðeins til að kveðja. Við hjónin ákváðum að ég og Valdís færum út þann 1. sept. næstkomandi og undirbyggjum komu Snædísar og Villa sem myndu koma viku síðar. Þá fengi Snædís aðeins lengri tíma til þess að klára ritgerðina sína - mastersverkefni í sálfræði. Þetta er allt að gerast - flutningurinn allur að bresta á. Sænska lækningaleyfið barst á meðan ég var úti og Villi fékk inngöngu í Anne Garden leikskóla sem er við hliðina á skólanum hennar Valdísar. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum.

laxtilbúinn Ég var með bleikjurétt á blogginu seinast. Stundum er þetta bara svona. Þessi réttur var hugsaður til að stangast á við allt decadensið sem gekk á í Frakklandi - ostar, smjör, salt, vín, meira vín, svo aðeins rauðvín, foie gras, steikur, grísir, kjúklingur, pylsur - nefndu það. Þessi réttur innihélt ekkert smjör - engan rjóma. Bara lax, reyndar smá feta ost, en að öðru leyti mjög hollur. Fór í fiskbúðina í Vogunum - þar var mikið að gera enda mánudagur og ljóst að fleiri en ég voru á því að fiskur væri það rétta á diskinn í dag! Þetta er virkilega aðlaðandi búð - því miður er meira úrval af krydduðum fiski en ferskum - ég er ekki hrifinn af því að láta krydda matinn minn fyrir mig.

Syndagreiðsla: Ofnbakaður lax með kapers og fetaosti, léttu salati og hrísgrjónum

c_users_ragnar_freyr_pictures_lax_me_kapers_lax_closup.jpg Eins og ég segi nær alltaf - þetta var einfalt. Fersk falleg laxaflök eru lögð á bökunarpappír eða álpappír og pensluð með góðri jómfrúarolíu. Þá er handfylli af kapers dreift yfir, og svo stöppuðum fetaosti og svo örþunnum sneiðum af hvítlauks - Ail de Rose frá Lautrec - besti hvítlaukur í heimi - í þessum bæ í Suður-Frakklandi er árlega haldið hvítlauksfestival. Þetta er bústin hvítlaukur - með rauðum pappír utan á - lyktar yndislega (það er náttúrulega ekki nauðsynlegt að nota þennan hvítlauk en það er ábyggilega betra). Þá er saltað og piprað og örlítið af hvítvini er sáldrað yfir fiskinn. Bakað í ofni í 15 mínútur við 180 gráður.

Borið fram með fersku salati; klettasalati, þunnum sneiðum af kúrbít, kirsuberjatómötum, skornum í helminga, líka smátt skorin papríka, agúrka, ristuð graskersfræ, niðursneidd basillauf og svo var vinagrettu dreift yfir í lokin - olía, salat balsamikedik, 1 Ail de Rose hvítlauksrif, 1 tsk gróft Dijon sinnep, salt og pipar. Hrist vel saman og dreift yfir.

Gerði einnig létta sósu - hálf dós af sýrðum rjóma, hálf jós hrein jógúrt, afgangurinn af vinagrettunni og svo smá hunang. Einnig vorum við með smábrauð og svo hrísgrjón með matnum.

Með matnum nutum við tveggja prýðisvína - annað var ég að prófa í fyrsta sinn, Labouré-Roi Chablis Premier Cru Vaillons frá því 2006 - virkilega gott vín, með léttum sítónu og eplakeim sem ég keypti í fríhöfninni. Langt en milt eftirbragð. Það fær góða einkunn á Wine Spectator um 89 punkta. Það seinna er klassíker sem ég hef oft bloggað um áður, Wolf Blass Presidents Selection Chardonnay sem ég fíla virkilega vel. Það er smjörkennt og ávaxtaríkt.

Við vorum á einu máli um að þetta var ákaflega vel heppnaður laxaréttur - að mínu mati einn sá besti sem ég hef matreitt. Hvet ykkur til að prófa hann.

matarborðið


Saturday 2 August 2008

Létt og ljúffeng grilluð bleikja með góðu salati, hrísgrjónum með grænum baunum og brjóstbirtu - Sumarið er ekki nærri búið!

bleikjaundirbúningur Ég var að klára vaktaviku á Landspítalanum í Fossvogi. Þetta eru síðustu vaktirnar sem ég tek í bili á Landspítalanum. Í byrjun næsta mánaðar fer forum við fjölskyldan til Parísar og munum keyra í gegnum Frakkland á leið okkar til svæða í kringum Toulouse. Ég hef í hyggju að taka krók á leið okkar og fara í gegnum Poiters, La Rochelle og svo Bordeaux áður en að við endum í Albi sem er ekki svo langt frá Toulouse. Þetta svæði ku vera heimagrendur Fois Foie gras - ég get ekki beðið. Tengdaforeldrar mínir bjóða börnum sínum í hús á þessu svæði - ef hús á að kalla, þetta er í raun Villa - þetta verður stórkostlegt.

Það er undarlegt tilfinning að vera að ganga út af spítalanum -stað þar sem maður hefur varið mest af sínum tíma síðustu 6-8 árin - og vera að kveðja hann um stund - mögulega til framtíðar - það er ómögulegt að vita. Það er ekki sjálfsagt mál að maður eigi heimangengt aftur eftir sérnám. En hver

bleikjameðsítrónu

veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég þakka fyrir mig - á Landspítalanum hef ég kynnst frábæru samstarfsfólki og það var heiður að fá að vinna með þeim, ykkur öllum!

En núna er komið að því að fara í frí og undirbúa sig fyrir framhaldsnám í Suður Svíþjóð. Mér skilst að uppskerutími verði þegar ég kem til Skánar sem mun jafnframt vera helsta landbúnaðarhérað Svía - ekki leiðinlegt. Ætli maður haldi ekki áfram að blogga?

Allavega. Nóg af væmni - tölum um mat! Við hjónin höfum verið að sækja á í því að elda fisk upp á síðkastið. Lax og bleikja er eitthvað sem við eldum reglubundið en ég reyni að brydda upp á nýjungum í hvert sinn. Þessi aðferð verður seint kölluð nýjung en ég hef ekki gert bleikju á þennan máta áður. Er það

þá ekki nýjung? Ég nokkrum sinnum nefnd hrakfarasögur mínar með grillið mitt. Þessi réttur var eldaður á grilli sem var alelda - mér tókst að bjarga bæði matnum og hárinu.

avacadóogblárkastalisalat Létt og ljúffeng grilluð bleikja með góðu salati, hrísgrjónum með grænum baunum og brjóstbirtu - Sumarið er ekki nærri búið!

Ég er alltaf að segja það...en þetta er sennilega með einfaldari réttum sem unnt er að snara fram. Myndirnar nánast tala sýnu máli.

Aðalatriðið er að kaupa fersk bleikjuflök - spjallið aðeins við fisksalann - hann á eftir að hjálpa ykkur. Eins og ég hef nefnt hér á netinu að velja frekar sjóalinn fremur en úr kerjum. Sjóalinn bleikja er vöðvameiri og hefur meiri "villt" bragð heldur en sá sem er alin í keri. Ég held að þetta skipti miklu máli.

Falleg bleikjuflök eru lögð á álbakka pensluð með jómfrúarolíu, ferskum sítrónusafi er dreift yfir og svo saltað með Maldon salti og piprað með nýmöluðum pipar. Þá er nokkrum litlum smjörklípum dreift yfir og nokkrum sítrónusneiðum lagt fallega ofan á. Grillað á heitu grilli í nokkrar mínútur þar til að fiskurinn er eldaður í gegn.

Salatið var ljúffengt; klettasalat, riceandpeas tómatsneiðar, avócadósneiðar, perusneiðar og nokkrar flísar af bláum kastala. Litlu magni af jómfrúarolíu, salti og pipar er sáldrað yfir salatið.

Einnig var borið fram afar einfaldur hrísgrjónaréttur - jasmínhrísgrjón og svo sætar grænar baunir (í útlöndum myndi maður nota ferskar en ég nota frosnar - þær eru alveg ágætar). Nokkrum niðursneiddum ferskum basillaufum er svo dreift saman við.

Með matnum var drukkið ákaflega gott hvítvín Rosemount Show Reserve Chardonnay - Hunter Valley frá því 2006. Ég greip þetta vín einhvern tíma með mér á leiðina í gegnum fríhöfnina. Var ekki svikinn. Þetta vín ilmar vel, þykkt á lyktina. Bragðið er milt og þetta er ávaxtaríkt vín minnir kannski helst á peru með talsvert smjörlíkri áferð á tungunni. Þetta vín fær góða einkunn á Wine spectator - 89 púnta. Virkilega ljúffengt.

bleikjatilbúinn