Saturday 19 June 2010

Grasekkill bloggar: Spaghetti con burro e salvia e un bicchiere di vinobianco

IMG_0531

Eins og stendur er ég grasekkill. Snædís og börnin mín fóru til Íslands núna á miðvikudaginn heilli viku á undan mér! Ég er með hefðbundna afsökun - ég þurfti að vinna. Mér bauðst í vor að vinna aftur í Helsingborg í íhlaupum sem nokkurskonar uppdubbaður sérfræðingur. Það var erfitt að hafna tilboðinu og í staðinn fékk ég ekki sumarfríið sem ég hafði hugsað mér að taka - en það er nú gaman í vinnunni. Nóg er  af krefjandi verkefnum!

Sjálfur kem ég á til Íslands núna í næstu viku og ég er farin að hlakka mikið til. Ég var á Íslandi seinast í október í fyrra og gafst þá tækifæri til að hitta vini og ættingja og  til að bregða mér á rjúpnaveiðar. Núna er aðeins annað upp á teningnum. Yndislegu foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, ætla að halda upp á sextugs afmælið sitt upp í Kjós. Mamma varð sextug í janúar og pabbi verður  sextugur í nóvember. Ég er alveg viss um að þetta verður glæsileg veisla. Ég fæ að aðstoða kokkinn og svo var ég fengin til að sjá um veislustjórn. Vonum það besta.

Ég held annars að ég hafi aldrei verið svona lengi einn heima síðan að ég gifti mig. Ég hef nokkrum sinnum farið einn í hérað - en það er einhvern vegin öðruvísi. Það er tómlegt að vera einn í húsinu. Ég ætla samt að reyna að vera duglegur. Elda góðan mat - fyrir einn. Það er í raun að mörgu að hyggja - garðurinn er fullur af verkefnum: slá grasið, reyta arfa, vökva, taka til í bílskúrnum og svo þrífa húsið. Ég verð ekki iðjulaus.

Spaghetti con burro e salvia e un bicchiere di vino bianco

Þessi réttur er eins einfaldur og hugsast getur. Hann er fullkominn fyrir þann sem er að elda fyrir einn!

Fyrst er að rölta út í garð (eða búð) með skæri og klippa nokkur salvíulauf af búntinu sem vex í einu af kerjunum mínum. Síðan er bara að skella sér inn í eldhús og setja yfir vatn í stórum potti. Salta vel. Sjóða handfylli af pasta þar til al dente - Það er sérstaklega mikilvægt að pastað sé eldað al dente (aðeins undir tönn), það þarf að klára sína eldun í pönnunni og hafa getu til að sjúga upp smjörið/olíuna - þannig að það má alls ekki vera alveg mettað vatni.

IMG_0532


Fimmtíu grömm af smjöri og skvetta af jómfrúarolíu er hitað á pönnu þangað til að smjörið freyðir og tekur örlítið að brúnast - þó ekki brenna. Þá er salvíunni hennt útí og henni leyft að "djúp" steikjast í smjörinu í nokkrar sekúndur. Þá er að bæta pastanu á pönnuna og blanda vel saman þannig að pastað hjúpist vel olíunni. Saltað vel og piprað. Fært yfir á disk og nóg af parmaosti rifin yfir heitt pastað. Njóta strax.

Þar sem ég var einn heima þá var ekkert annað að gera enn að fá sér hvítvínstár með. Eins og oft áður þá átti ég ágæta búkollu í ísskápnum - Drostdy Hof Chardonnay Voigner sem mér finnst vera alveg ansi vel lukkuð búkolla. Þetta er ekki flókið vín - langt í frá - en þetta er skarpt, þurrt, ávaxtaríkt og jafnvel aðeins smjörkennt - alveg eins og Chardonnay eiga að vera. Frábært til að fá sér tár þegar maður er hálfeinmanna einn heima!

IMG_0533

Bon appetit!

Monday 14 June 2010

Marineraðar BBQ svínakótilettur með maísstöngli og fersku salati.

undirbúningur


Það hefur skipt á með skini og skúrum núna seinustu vikurnar. Svíar eru orðnir ansi langeygir eftir sumrinu. Ég segi þeim í gríni að þeir séu núna að upplifa íslenskt sumar – rigning og rok. Svo kíkir maður á íslensku veðurspárnar og verður fullur öfundar. Við höfum alltént reynt að nýta og njóta sumardagana þegar þeir koma. Núna á þriðjudaginn kom einn slíkur, glampandi sól eftir hádegi og heitt og rakt. Þá þýðir ekkert annað en að grilla.

Ég er farin að fara meira og meira að grilla á kolum. Það er auðvitað aðeins meira vesen en þegar maður er búinn að prófa fram og tilbaka gas og kolagrill þá er vinningshafin augljós - kolin! Og það er ekki bara stemmingin við að kveikja upp í kolagrillinu - reykurinn skilar sér líka í bragðinu af matnum. Og svo má svo sannarlega leika sér með reykinn - henda sagi eða bara þurrum spýtum og þannig fá ennþá meira bragð af reyknum.

Marineraðar BBQ style  svínakótilettur með maísstöngli og fersku salati.


maturabordum


Þessi uppskrift er í grunninn ekkert svo frábrugðin svínarifjunum sem ég hef áður bloggað um – nema hvað kryddblandan sem ég notaði til þess að krydda grísinn var aðeins frábrugðnari. Ég útbjó þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt-papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar, fennel fræjum, smá kúmen, þurrkað rósmarín, chilli - everything but the kitchen sink! . Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í rúman klukkutíma.

Maður þarf ekkert að vera hræddur við að það sé nóg af fitu á kjötinu - bróðurpartinn af henni sker maður hvorteðer burtu að eldun lokinni. Fitan tryggir að kjötið verði safaríkt og bragðríkt - það er enginn vitleysa - sú fullyrðing að góða bragðið sé í fitunni. Fitan eykur þó á líkunum á því að það kvikni í grillinu - gæta vel að hitastjórn. Vatnsbrúsi til að sprauta á eldinn kemur þar að góðum notum.

Grillaði kótiletturnar sirka 8-10 mínútur á hvorri hlið – snéri þeim reglulega. Þegar helmingur var liðin af eldunartímanum smurði ég á BBQ sósu – Sweet baby Ray’s BBQ sauce – where sauce is the boss. Ég hef gert mína eigin, en á virkum dögum þá verður maður að vinna aðeins tíma. Og svo skemmir það ekki að sósan er fjári góð.
matur


Vafði maísnum inn í álpappír og grillaði í góðar 40 mínútur aftast á grillinu. Með matnum vorum við einnig með gott salat, fersk græn lauf, avacadó, tómatar og steinselja.

Við fengum okkar rauðvínsglas með matnum – það verður nú stundum að lyfta sér upp, eða hvað? Við áttum til flösku af El Coto Rioja frá árinu 2008. Þetta er prýðisgott Rioja vín, ögn kryddað, fremur léttur ávöxtur og ágætt eftirbragð. Þetta er ágætt vín til að vera með svona grillmat – sem er heldur bragðmikill. Vínið yfirgnæfir ekki né hverfur með svínakjötinu.

Þetta reyndist alveg ljúffengur matur. Bon appetit!

alltbuid

Tuesday 8 June 2010

Gómsæt ofnbökuð þykkvalúra (lemon sole) með nýjum kartöflum, salati og hvítvínstári

IMG_1677


Erum með frábæra gesti frá Íslandi um þessar mundir. Vigdís og Bassi vinir okkar og yndisleg dóttir þeirra Úlfhildur Ragna komu í heimsókn á föstudaginn var og verða hjá okkur í viku. Við erum mikið búin að hlakka til þessarar heimsóknar. Vigdís á alltaf sérstakan sess í hjörtum okkar hjóna því án hennar hefðum við aldrei kynnst. Við Vigdís urðum vinir í menntaskóla og hún kynnti mig síðar fyrir æskuvinkonu sinni, elskunni minni, Snædísi. Kann ég henni bestu þakkir fyrir - enn þann dag í dag!

Við elduðum góðan mat á föstudaginn í glampandi sólskini - grilluðum nautasteik og gerðum bernaise sósu með fáfnisgrasi úr garðinum - gerðu úr íslensku smjöri og skánskum eggjum. Á laugardaginn skelltum við okkur í  ferð um Skán, fengum lánaðan bíl hjá nágrönnum okkar og keyrðum til Simrishamn, þaðan í gegnum  Brantevik og stoppuðum síðan á Kylsstrand rétt austan við Skillinge á suðaustur hluta Skánar. Þar vorum við næstum ein á ferðinni - einstaka hræða gekk framhjá. Sólin skein og ljúfur gustur blés yfir okkur frá Eystrasaltinu. Konurnar okkar sváfu í sandinum á meðan við strákarnir lékum við börnin í sandinum. Dásamlegt alveg!  Um kvöldið grilluðum við flatbökur og drukkum rauðvín úti á palli. Á sunnudaginn drösluðum við okkur framúr og keyrðum á markað í Veberöd. Þar var mikið af drasli, en inn á milli má finna ýmsar gersemar. Við hjónin keyptum gamaldags upptrekta klukku til að hengja á vegginn inn í stofunni og síðan fann ég skál - sennilega vaskafat - til að hafa undir ávöxti í eldhúsinu - skálin er frá Rörstrand - kannski 30 ára gömul. Um kvöldið grilluðum við Bjäre-kjúkling með bjórdós í rassinum með rjómasósu og baguette.

Í gær var svo  mánudagur og þarf að byrja að greiða fyrir syndir helgarinnar. Og þá finnst mér sæmandi að hafa fisk. Ekki satt? Eins og ég nefndi áður þá var búið að vera svo góð helgi að við urðum að hafa fisk. Ekki að það að elda fisk sé einhver kvöð - hvað þá einhver refsing fyrir syndir helgarinnar. En það er samt alltaf einhver spartanskur fílingur að elda fisk. Eitthvað úr fortíðinni. Kannski var það ýsan sem hér forðum sem risti þessar tilfinningar í mig. En hvað um það. Fiskur er góður og hreinsandi og þannig hlýtur hann að reiknast á móti öllu öðru. Hann smakkast líka oft betur með hvítvínstári og þannig friðar maður sálina enn frekar.

Gómsæt ofnbökuð þykkvalúra (lemon sole) með nýjum kartöflum, salati og hvítvínstári


maturundirbundingur


Þykkvalúra heitir á ensku lemon sole og er algengur fiskur í Norður Evrópu. Ég hef fundið margar uppskriftir í bókum Rick Stein með ýmsum tegundum skyldum þessum flatfisk.

Ég hafði keypt mikið af fiski nýverið frá fyrirtækinu Ishavsexpressen - þeir selja mikið af fiski frá Íslandsmiðum og reynar víðar. Ég keypti þorkshnakkastykki frá Íslandi, skötusel og síðan þessa lúru frá Noregi.

Fyrst skar ég 6-8 vorlauka, 2 skarlottulauka, 2 heilagan hvítlauk og setti í ofnskúffu. Síðan lagði ég  fiskinn yfir. Síðan setti ég meiri lauk, ferskt oregano, ferska steinselju, niðurskorna kirsuberjatómata, svartar olífur sem við keyptum í delicatessu í Simrishamn, skvetti síðan olíu yfir, hvítvíni, sítrónusafa, saltað og piprað. Bakað í blússheitum ofni í 12-15 mínútur.

Gerðum kalda hvíta sósu með úr sýrðum rjóma, safa úr hálfri sítrónu,  1-2 hvítlauksrif, smá graslauk, 1 tsk síróp og salt og pipar. Við vorum einnig með ný uppteknar kartöflur frá Brandby. Moldin hreinsuð af. Soðin. Í skál. Olíu sáldrað yfir salt og pipar og svo nóg af fersku dilli. Við vorum einnig með salat með lambakáli, papríkum, tómötum og haloumiosti -sem er í miklu uppáhaldi.

IMG_1737


Og Semifreddo í desert. Þetta gerði Vigga eftir einhverri góðri uppskrift. Fyrst eru 300 gr af heslihnetum bakaðar í ofni í 5 mínútur til að ná af þeim hýðinu. Síðan er 200 gr af sykri ásamt 4 msk vatni hitað á pönnu þar til maður er kominn með ljósbrúna karamellu. Þá er hnetunum bætt saman við. Hrært - hellt á smurt  fat og látið kólna. Þegar kaldar er helmingurinn hakkaður í matvinnsluvél.

Ein vanillustöng er hreinsuð fræum sínum og hrært saman við 50 gr af sykri og fjórar eggjarauður. Hvíturnar eru þeyttar þar til þær fá á sig hvíta toppa. Síðan er hálfum lítra af rjóma þeyttur. Þá er rjómanum, eggjarauðunum með vanillunni og þeyttar hvíturnar hrært varlega saman - passa sig að slá ekki loftið úr hvítinum og þvínæst er hnetunum blandað saman við - bæði mylsnunni og grófu hnetunum. Sett í form og sett í kæli. Borðað með hindberjum tveimur klukkustundum síðar.

IMG_1744


Með matnum drukkum við hvítvín - bara úr búkollu. Það þarf ekki að vera neinn lúxus á mánudagskvöldum. Ég hafði sótt nokkrar kusur í Danmörku um daginn. Við drukkum Drostdy-Hof Chardonnay Voigner úr búkollu. Þetta er vín frá Suður Afríku. Þetta er ljómandi gott vín á búkollu - mildur gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Ísskalt og frískandi.

Virkilega góður kvöldverður með góðum vinum.