Wednesday 27 December 2006

Laxapasta - Miðvikudagskvöldmatur eftir sólarhringsvakt

Var á sólarhringsvakt á St. Jósefsspítala og laumaði inn fyrr í dag uppskrift sem var gömul og mjög góð. En til að gefa raunsanna mynd að því sem er að gerast í eldhúsinu mínu...verður maður líka að setja lummulegu hlutina sem manni dettur í hug. Og dagurinn í dag var einn af þeim dögum. Var um daginn að lesa gamla matreiðslubók sem ég á - sem fjallar aðallega um pastarétti. Þar sá ég uppskrift með laxi sem hljómaði ekkert svo illa. Í dag þegar ég var á heimleið mundi ég ekki alveg hvað átti að vera í henni og leyfði bara ímyndunaraflinu að ráða - ég held að ég hafi ekki verið svo langt frá því sem stóð í bókinni - ætla samt ekkert að gá að því - matreiðslubækur eru bara fyrir hugmyndir - ekki til þess að fara eftir að ...follow too the letter. Allavega!

Laxapasta - aftur redding.

300 gr af pasta - Orichette - var soðið í miklu söltuðu vatni. Sjá leiðbeiningar á pakka.
Keypti 500 gr af laxi í Hagkaup - sennilega alin í keri - ekki í sjókví, þar sem hann var dáldið feitur (alltaf að taka sjóalin lax sé þess einhver kostur - þar sem sá lax er líkastur þeim sem er veiddur villtur - það er vegna þess að sjóalin lax þarf að synda á móti straumnum í sjókvíinni og verður í vöðvameiri og ekki eins feitur og frændi hans í kerinu á þurru landi). Laxinn var þveginn og þurrkaður, saltaður og pipraður og steiktur í smá olíu með 3 kreistum hvítlauksrifjum - tekur svipaðan tíma og tekur að sjóða pastað.

Á meðan er sósan undirbúinn. 1 dós af 10% sýrðum rjóma blandað saman við 1 dós af tómatapaste. Saltað og piprað. Saxaði 20 lauf af fersku basil og 1/3 búnti af ferski steinselju og blandaði saman við. Tók 15 salvíu lauf og skar í tvennt. Olía hellt á pönnu og hituð vel og rækilega og salvíu laufinn djúpsteikt af pönnunni. Um leið og laufinn fara að missa lit sinn (verða brúnleit) takið úr pönnunni.

Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá - sósunni blandað saman við - laxinn er rifinn niður og hrærður saman við. Smakkað - ef sósan er of súr - þarf að sæta hana - þarna má nota bæði sykur eða hreinlega tómatsóu til að tóna sætuna niður (enginn skömm í því). Salvíunni bætt útí.

Dóttir mín fékk að útbúa salat í dag í úr því sem hún fann ísskápnum - kirsuberjatómatar, basil, rauður laukur og nokkrar sneiðar af höfðingaosti.  Borið fram með brauði og smá hvítvíni. Heppnaðist alveg þokkalega.

Fylltar kjúklingabringur með Knarrbrostadesósu

Mamma og pabbi bjuggu í nokkra mánuði í Kaupmannahöfn þar sem þau voru bæði í rannsóknarleyfi frá Kennaraháskólanum. Mér skilst að það hafi verið hálfslags listamannslifnaður á þeim. Þegar heim var komið eldaði mamma kjúklingabringur á pönnu og hafði með algerlega frábæra sósu, sem var hálfeinkennilega bleik á litinn. En hún var einstaklega góð. Mamma eldaði kjúklingabringur á einfaldan máta, saltað og piprað, og svo steikt á pönnu úr smjöri eða olíu. Ég hef reynt að herma eftir þessari sósu - og reynt að elda hana eftir minni. Það hefur gengið ágætlega - en ég hef ennþá ekki náð sama effect og mamma - en er mjög góð. Ég hef líka flækt kjúklinginn aðeins.

Ég eldaði þennan rétt seinast í haust...og var himinlifandi með útkomuna. Rétturinn er fyrir fjóra.
4 kjúklingabringur er þvegnar og lagðar á eldhúspappír og látnar þorna. Á meðan er fyllingin undirbúinn. Einhver góður ostur, t.d. höfðingi, gullostur eða bara camenbert, er skorinn í þykkar sneiðar, ferskar kryddjurtir, t.d. salvía, basil og steinselja er skorið niður og marið með smá salti - þá losnar bragðið auðveldar. Kjúklingabringur eru skornar á þverveginn - þannig að þær eru butterflied og hægt er að opna þær eins og bók. Næst er önnurhliðin smurð með paste úr sólþurrkuðumtómötum, osturinn er lagður á aðra hliðina, því næst er sett sneið af pepperoni grilliata - sem er ristaðar paprikur í olíu (þetta er bæði hægt að kaupa og búa til á einfaldan hátt) og svo ferskum kryddjurtum stráð yfir. Bringunni er því næst lokað. Núna er bringan vafin með beikoni (einnig gott að nota Serrano skinku eða Parma - ef maður tímir því). Beikonið er svo skorðað á bringuna með nokkrum tannstönglum.

Næst er sósan undirbúinn. 3-4 fjórir hvítlaukar kreistir og 1 lítill hvíturlaukur smátt skorinn er hitaður í olíu á pönnu. Þegar olían er orðin heit eru sveppir skornir í fjórðunga steiktir úr olíunni. Þegar þeir eru tilbúnir er 300 ml af vatni hellt yfir og 1 tengingur af kjúklingakrafti. Saltað og piprað. Þegar suðan er kominn upp er 100-200 ml af matreiðslurjóma hellt saman við og 1 lítilli dós af tómatpasta (eða sólþurrkaðatómatpaste). Saltað og piprað á nýjan leik. Ferskum kryddjurtum er bætt útí á þessum tímapúnti - sömu og fóru í fyllinguna á kjúklingum.  Þetta þarf að sjóða aftur og svo sjóða niður í 20-30 mínútur. Stundum þarf að þykkja sósuna aðeins.

Næst er olía hituð á annarri pönnu og bringurnar steiktar þannig að beikonið verði gullið og fallegt. Bringurnar eru settar í eldfast mót, sósunni hellt yfir og sett í heitan ofn 180 gráður þar til kjúklingurinn er eldaður - tekur yfirleitt 20 mínútur en ég er farinn að elda eftir hitamæli þannig að um leið og kjúklingur nær réttum hita í miðjunni er maturinn tilbúinn. Áður en maturinn er borin fram er mikilvægt að skreyta réttinn með ferskum kryddjurtum - niðurskorinn salvía, basil og steinselja - er stráð yfir. Það er ekki bara fyrir útlitið heldur gefur það réttinum annað lag af bragði. Mjög gott!

Borið fram með góðu brauði og salati. Bæði rauðvín og hvítvín passar vel með þessum mat. Þessi hentar vel þegar gestir eru að koma í mat.

Monday 25 December 2006

Grænbaunapuréé - gott meðlæti með eiginlega hverju sem er

Hér um árið var ég í svona saumaklúbb - við kölluðum hann samt smíðaklúbb (ekta karlmenn þarna á ferðinni). Í þessum smíðaklúbb voru góðir félagar úr menntaskóla og hittumst við nokkrum sinnum. Það er langt liðið síðan við hittumst síðast, því miður. Það var mikill metnaður hjá þessum hópi manna í matreiðslu - kannski var það þess vegna sem hópurinn hefur ekki komið saman lengi - kláruðum flottu hugmyndirnar of snemma. Hvað sem því líður þá kom Trausti vinur minn - oft kallaður Sólbjartur - vegna þess að hann er alltaf brosandi - með graunbaunamauk sem við þá borðuðum ofan á brauð. Þetta var vel heppnað hjá honum. Þessi réttur rifjaðist svo upp fyrir mér nokkrum árum síðar þegar ég var að lesa eina af bókum Jamie Olivers en þar var hann með svona gulbaunamash.

Grænbaunapuréé.

Í þessari uppskrift er ekki notað ora grænar baunir í dós þó að þær séu nú ágætar til síns brúks. Ég kaupi frosnar sweet peas í poka. Nóg af vatni er hitað að suðu, saltað og baunirnar soðnar í nokkrar mínútur - ef búið er að þíða þær ca 4 mín en aðeins lengur ef þær koma beint úr pokanum. Því næst er vatninu hellt frá og baunirnar maukaðar töfrasprota. Því næst er steinselju, eða kóríander - bara vel af einhverjum ferskum kryddjurtum sett ofan í, í gærkvöldi notaði ég steinselju, 3 blöð af salvíu og basil. Næst er sett smá smjörklípa (10-20 gr), smá rjómaost (1 msk) og svo er þetta allt maukað saman. Saltað og piprað að smekk.

Þetta er svo borið fram sem meðlæti með góðum kjötrétt. Ég hef aðallega haft þetta með villibráð; dádýri, krónhirti, venison og núna hreindýralund. Virðist alltaf passa vel við.

Hreindýralund innbökuð í smjördeig með Duxellesveppum

Jæja...þá eru kominn jól. Við buðum foreldrum mínum, Lilju og Ingvari, og tengdaforeldrum mínum, Hrafnhildi og Edda. Einnig kom bróðir minn sem hefur verið búsettur í Berlín í haust - hann hefur mikla andúð á öllu jólahaldi - en elskar mat eins og ég - þannig að eins og hann - látum við okkur hafa þetta. Við hjónin höfum haldið jól núna í þrjú ár og fengið fjölskylduna til okkar - það hefur verið ákaflega ljúft og þetta kvöld var engin undantekning.

Ég fór að veiða í haust með kollega mínum Bergþóri og eins og fram hefur komið á bloggsíðunni, og var ungur tarfur felldur. Einnig fór ég í Kjósina og veiddi nokkrar rjúpur með frænda mínum Magnúsi - en við erum þremeningar, jafnaldrar og höfum verið félagar frá því við vorum börn.

Matseðillinn í kvöld er fjölbreyttur. Tengdamóðir mín eldaði forláta blómkálssúpu í forrétt en með henni hafði ég bakað einfalt baguette brauð. Ekki hef ég ennþá lært uppskriftina af þessari súpu - en það hlýtur að koma með árunum. Mamma gerði ís í desert og hann var mjög góður.

Í aðalrétt var tvíréttað, annars vegar var boðið upp á rjúpur með soðsósu og svo einnig var elduð hreindýralund að hætti Wellington lávarðs. Ég hef eldað svona einu sinni áður - en þá var ég með krónhjört sem var frá Skotlandi - afar gott.

Hreindýralund innbökuð í smjördeig með Duxelle sveppum.

Fyrst er að huga að sveppunum. Skv. því sem fram kemur í Matarást er þessi aðferð fengin frá Matsveini d'Uxelle lávarði, La Varenne, en þar segir að best sé að nota gamla sveppi þar sem þeir hafa mikið bragð - veit lítið um það. Maður breytir uppskriftum alltaf eitthvað þannig að núna heitir þetta Ragnar'elle sveppir - maybe. Í dag notaði ég þrjár tegundir af sveppum, franska sveitasveppi sem fengust í Hagkaup, kastaníusveppi og svo venjulega sveppi frá Flúðasveppum.

Fyrst var 40 gr af þurrkuðum sveppum var leyst upp fyrst í volgu vatni og svo sjóðandi vatni. Vatninu var hellt frá - og geymt í sósuna. Fersku sveppirnir voru skornir í smátt. Smjör og olía var hituð á pönnu. Þegar olían var að verða heit var 5-6 smáttskornum hvítlauksrifjum og 2 litlum fínskornum laukum dempt á pönnuna og látnir svitna aðeins. Því næst var sveppunum skellt yfir og þeir látnir steikjast. Svo var ferskum kryddjurtum settor á pönnuna, niðurskorinni salvíu, steinselju, basilíku og timían. Lyktin gýs að vitum manns. Þetta er steikt aðeins saman og svo er glas af vatni hellt á pönnuna og jafnmiklu hvítvíni - ég notaði Rosemount GTR - sem ég átti í belju inni í ísskáp. Þetta var svo soðið niður.

Þá að hreindýrinu. Lundin var þvegin og þurrkuð. Söltuð með Maldon salti og pipruð með nýmuldum svörtum pipar og einnig svona fimm piparsblöndu. Smjör var brætt á pönnu og svo var lundinn svissuð að utan - fáeinar sekúndur á hverri hlið. Tekið af pönnunni og látið sitja.
Í kjölfar þessa eru þrjár plötur af smjördeigi flattar út. Ragnar'elle sveppirnir eru lagðir á og lundin ofan á sveppina. Svo er niðurskorinn gullostur lagður á kjötið og meira af sveppunum. Deigið er vafið yfir og innsiglað, pennslað og látið í 160 gráðu heitan ofn með kjöthitamæli - tilbúið þegar kjarnhiti er á bilinu 72-76 gráður.

Löngu áður eru niðurskorinn hvítlaukur, laukur, sellerí og gulrætur steiktar í potti. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er vatninu af sveppunum hellt í pottinn (ca 1 L) og suðan fær að koma upp. Saltað og piprað. Villibráðakraft að hvaða tagi sem er er sett ofan í  og svo meira vatn. Suðan fær að koma upp og svo soðið niður á nýjan leik. Næst er grænmetið skilið frá og soðið sett aftur í pott og látið malla. Niðursneiddir sveppir lýkt og var notað í fyllinguna er sett í pottinn og látnir mýkjast í suðunni. Smakkað til. Bætt á kraft, saltað og piprað ef þarf. 1/2 pela af rjóma er bætt útí og sósan soðin áfram og þykkt eftir þörf. Mjög gott er að mauka grænmetið með töfrasprota og bragðbæta sósuna með þessu - það bæði bragðbætir og þykkir hana - ég endaði með því að nota um helmingin af grænmetinu aftur ofan í sósuna.

Þessi matur var borin fram með sykurhúðuðum kartöflum, grænbaunapuré og Waldorf salati og var hreinasta sælgæti. Pabbi kom með ljúfeng rauðvín með matnum sem Zúnki vinur minn og ráðgjafi í ÁTVR hafði mælt með og reyndist þetta var alveg frábær máltíð. Og Gleðileg Jól.

Tuesday 19 December 2006

Frábæru Muffinskökurnar hennar Imbu

Dóttir mín á afmæli á morgun og verður 6 ára. Hún hlakkar mikið til og er búinn að vera skipuleggja afmælisdaginn sinn síðan í seinustu viku. Hún er búinn að bjóða stelpunum í bekknum sínum í heimsókn eftir skóla. Boðið verður upp á súkkulaðikökustelpu (uppskriftin er kominn á vefinn) sem amma Lilja ætlar að hjálpa henni að skreyta, Ricekrispies kökur og þessar bragðgóðu muffinskökur ásamt einhverju fleiru.

Þessa uppskrift fékk ég hjá bekkjarsystur minni og kollega henni Ingibjörgu Hilmarsdóttur lækni. Ég man ekki alveg við hvaða tækifæri ég fékk að smakka þær hjá henni en þetta voru alltént einar af bestu muffinskökum sem ég hef bragðað. Auðvitað bað ég hana um uppskriftina og hefur gert hana nokkrum sinnum. Ég hef lítið breytt út frá því sem hún lét mig fá - en allar uppskriftir taka einhverjum breytingum eftir dyntum kokksins.

Fyrst er þurrefnum blandað saman; 3 bollar af hveiti, 2 1/3 bolli af sykri, 1/2 tsk matarsódi, 1 tsk lyftidufti, 120 gr af söxuðu suðusúkkulaði. Hrært vel saman. Svo er 3 eggjum, 200 gr af smjöri, 1 tsk vanilludropar, 1 dós af karmellujógúrt sett úti og deigið er hrært saman. Sett í muffinsmót.

Ofn er hitaður í 200 gráður og kökurnar svo bakaðar í 15-20 mínútur þar til þær eru gullnar og fallegar.
Það er voðalega gott að setja smávegissúkkulaðikrem á kökurnar - en þær eru líka bara góðar eins og þær eru!

Monday 18 December 2006

Ítölsk kjötsósa - tímafrek en tímans virði!

Hugmynd af þessum rétt er fengin úr sjónvarpsþætti sem var á dagskrá á Skjá einum hérna um árið. Þessi þáttur hét follow that food - og þátturinn sem þessi uppskrift kom fram í var um tómata. Þáttarstjórnandi elti hráefnið um víðan völl og eltingaleikurinn bar hann meðal annars til Californiu í veitingahús sem heitir Ray's (að mig minnir). Þetta veitingahús var þekkt fyrir það að vera lítið - einungis 50 sæti og var bókað 9 mánuði fram í tímann á sunnudögum þegar eigandi staðarins eldaði ítalska kjötsósu eftir uppskrift móður sinnar. Í hans uppskrift var notað nautakjöt - og ég hef einnig notað lambakjöt og mér finnst það eiginlega betra. Alger óþarfi er að nota dýra bita - ef notað er nautakjöt má nota osso bucco, og eiginlega hvaða bita af lambinu ef það verður fyrir valinu - passa bara að hafa það ekki of feitt.

Ég byrjaði að elda þennan rétt fyrir um fjórum árum síðan. Hann varð fljótt vinsæll hjá vinum mínum - þegar ég eldaði þennan mat þá lét ég bara vita með sms eða bara hringdi og sumir þeirra létu sjá sig aftur og aftur.
Að gera þessa uppskrift tekur tíma - það má eiginlega ekki elda þetta á skemmri tíma en svona 2-3 klukkutímum - en það þarf ótrúlega lítið af hafa fyrir þessu - þetta eldar sig eiginlega sjálft.

Rúmlega kíló af lambakjöti er þvegið og þurrkað. 1 hvítlaukur er saxaður niður og sömu örlög hljóta tveir laukar - hvítir eða rauðir - það skiptir eiginlega ekki máli. Hitaður í vænum slurk af olíu - það er sennilega óþarfi að nota extra virgin olíu til að steikja upp úr - margir kokkar segja að svoleiðis olía missi sitt sérstaka bragð við steikingu og því sé óþarfi að spandera góðri olíu í slíkt - ég nota bara það sem hendi er næst! Mikilvægt er að brúna ekki laukinn. Þegar laukurinn er orðin glær er kjötið sett útí og brúnað á öllum hliðum. Saltað og piprað.  Kjötið er sett á disk - mikilvægt að passa allan safa af kjötinu - ekkert má fara til spillis!

3 dósir af góðum niðursoðnum tómötum er sett útí og jafnmikið af vatni. 2 litlar dósir af tómatapaste er einnig sett út. Mikilvægt er að laukurinn og brúnið af kjötinu sem gjarna festist við botninn á pottinum losni frá þegar vökvinn er settur úti. Kjötið er svo sett útí aftur og allur safinn af disknum. Saltað og piprað á nýjan leik. Ef fólk vill krydda á þessum tímapúnti er mikilvægt að nota bara kryddjurtir sem þola langa eldun eins og lárviðarlauf eða rósmarín. Ég á ekki alltaf til ferskt rósmarín en ég læt alltaf 2-3 lárviðarlauf. Suðan er látin koma upp - lokið er tekið af pottinum og svo fær rétturinn að malla.

Á þessum tímapúnkti eru rúmlega 4-5 L í pottinum - þetta þarf að sjóða niður minnst um helming. Það er auðvelt að sjá hvenær kjötið er tilbúið - þá fer það eiginlega sjálft að detta í sundur og renna af beinunum. Smakka - ef réttinn vantar meiri kraft - td. ef lítið af beinum var með kjötinu þarf stundum að setja lambakraft.

Þegar rétturinn fer að verða tilbúinn þá er rétti tíminn til að setja fleiri kryddjurtir sem þola minni eldun eins og basil og steinselju. Skera kryddinn niður og hrært saman við sósuna. Mikilvægt er að smakka sósuna til á þessum tímapúnti. Stundum eru tómatarnir súrir og þá þarf að sæta sósuna annað hvort með sykri eða jafnvel syndga með tómatsósu. Mikilvægt er að salta og pipra vel - alltaf Maldon og nýmalaður pipar.

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni með smá olíu. Þegar pastað er að verða tilbúið er vatninu hellt af því - best að láta pasta í gróft pasta sigti og hrista vatnið vel af - hafa hraðar hendur hér því að pastað þarf að komast aftur í pottinn. 2-3 ausur af sósu er sett yfir pastað og hrært vel þannig að það tekur allt rauðan lit. Látið standa í tvær til þrjár mínútur. Pastað sogar inn í sósuna og verður alveg frábært á bragðið.

Borið fram með fersku salati, kannski smá baguette til að þrífa sósuna af diskinum í lok máltíðar. Ef einhver afgangur er af matnum - þá verður hann bara betri á degi tvö og jafnvel á degi þrjú.


Sunday 17 December 2006

Spaghetti Carbonara - uppáhaldspasta fjölskyldunnar

Spaghetti Carbonara hefur verið uppáhaldspastaréttur fjölskyldunnar síðan sautjánhundruð og súrkál. Þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn dettur okkur hjónunum alltaf í hug þessi réttur - hann verður ekkert alltaf fyrir valinu en ég meina - hann er bara svo ansi góður.  Ég man eftir því að mamma bar þennan rétt á borð fjölskyldunnar áður en að ég fór að búa og öllum þótti frábær. Hún gerir hann aðeins öðruvísi en ég en er alls engu síðri - nema hvað minn er auðvitað betri!!!

Uppskriftir af þessum einfalda rétt eru mismunandi eftir því hvaða matreiðslubók þú lest. Helsti munurinn er fólginn í því hvort að kokkurinn vilji hafa rjóma í uppskriftinni eður ei. Sumum finnst maður vera verri kokkur fyrir vikið ef maður þarf að nota rjóma - let's face it - hver hefur ekki bjargað klúðraðri sósu með vænum gúl af rjóma. Feitt bragðið af rjómanum nær að balansera næstum hvaða klúður sem er - en svo er nú þannig að feita bragðið af rjómanum - sem leggst á góminn á manni er líka eitthvað svo ofboðslega góður. Faðir minn er ekki sammála því - honum finnst rjómi í mat - vera the easy way out! En hvað um það.

Mína uppskrift má gera á báða vegu. Ef maður var duglegur í ræktinni þann daginn og á efni á 339 kcal/100 ml af rjóma - go for it!.

1 pk af beikoni er skorin í bita og steiktur á pönnu í smá hvítlauksolíu. Á meðan er pasta sett yfir í sjóðandi saltað vatn. Dash af olíu er einnig sett í pastapottinn. Á meðan pastað sýður og beikonið baðar sig í heitri hvítlauksolíunni er 3-4 egg brotinn í skál og hrærð saman við ca. 75 gr af parmesan osti sem er raspaður úti. Jafnframt er ferskt basil og steinselja skorinn niður og sett útí. Saltað með Maldon salti og ríkulega af nýmöluðum pipar. Um þetta leiti er pastað sennilega al dente og vatninu hellt af. Hérna skiptir máli að hafa hraðar hendur því hitinn frá heitu pastanu í raun eldar sósuna. Þegar tryggt er að pastað sé næsta þurrt er beikoninu og allri fitunni af pönnunni hellt yfir pastað og eggjasósunni sömuleiðis. Hrærið vel saman, setjið lokið á pottinn og látið standa í 2 mínútur.

Á meðan er lagt á borðið og ef það er nógu stutt í helgina, eða það er helgi, eða stutt síðan að það var helgi er tappinn tekinn út góðu hvítvíni og drukkið með. Yfirleitt hef ég einnig einfalt salat með þessu og heitan brauðhleif. Þegar maturinn er borin á borð er mikilvægt að hafa nóg af parmesan osti til viðbótar til að raspa yfir og auðvitað meiri pipar. Bon appetit.

Saturday 16 December 2006

Súkkulaðiskúffukakan hennar mömmu - mamma, best í heimi!!!

Þegar ég var lítill og það átti að halda upp á afmælið mitt þá gerði mamma alltaf þessa skúffuköku og bjó til úr henni súkkulaðikökudreng - ég algerlega elskaði þessa köku og geri reyndar ennþá. Þegar ég fór að verða eldri vildi ég fá þessa köku oftar og mamma lét það stundum eftir mér. Ég vissi eiginlega ekkert betra en að sitja við eldhúsborðið heima með heita súkkulaðiköku, með heitu kremi og kókós og skolað niður með ískaldri mjólk. Unaðslegt.

Þegar ég komst á "tween" aldurinn (11-13 ára - USandAarar tala um þennan aldur áður en maður verður teen/táningur) vildi ég áfram fá þessa köku á minn disk og mömmu fóru að leiðast þessar bónir og sagði að fyrst ég hefði svona mikinn áhuga á þessari köku þá gæti ég eins gert hana sjálfur - and did I ever!!! Ég fór sko að baka. Ég bauð vinum mínum reglulega í heimsókn til að fá þessa köku. Ég var orðin svo fljótur að hræra í hana að deigið var orðið tilbúið áður en ofnin náði 180 gráðum. Mettíminn var 12 mínútur. Einu sinni var ég að keppast við tímann að ég ruglaðist á salti og sykri kakan varð hreinasti viðbjóður (eins og sagt er í innlit útlit).

Þetta er alls ekki flókinn kaka og þegar maður les aðrar uppskriftir ekki svo merkileg þegar útí það er farið. Engar fínessur - bara meiriháttar góð skúffukaka.

Uppskriftin er svohljóðandi:
Fyrst er þurrefnum blandað saman; 375 gr hveiti, 450 gr sykur, 6 msk kakóduft, 1 1/2 tsk lyftiduft, 1 1/2 tsk salt, 3/4 tsk matarsódi. Svo er komið að blautefnunum. Fyrst er sett 190 gr af smjör - ég mýki það yfirleitt í örbylgjunni - svo 2 2/3 dl af mjólk og þetta hrært í kökuna. Kakan verður ansi grófútlítandi þegar búið er að hræra þetta saman við. Því næst er sett 3 meðalstór egg og bætt við 1 1/3 dl af mjólk. Þetta er hrært saman við deigið þar til það verður mjúkt og fallegt.

Sett í smurða skúffu og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 25 mínútur eða þar til það skilur sig frá hliðunum. Ég sting yfirlett stálprjón í miðja kökuna - ef eitthvað deig festist á hnífinn þá þarf hún nokkrar mínútur í viðbót. Látin kólna aðeins á meðan kremið er útbúíð.

Næst á dagskrá er kremið. 50 gr. af smjöri er brætt í 100 ml af heitu vatni í potti. 150-200 gr flórsykur er sigtaður í skál og 2 msk kakóduft bætt við. Vökvanum er síðan hrært saman við hægt og bítandi þar til það dökkt, þykkt og gljáandi. Smurt á kökuna. Kókosmylsnu er síðan sáldrað yfir kökuna.

Borðað helst með höndunum - ekki nota skeið eða gaffal eða svoleiðis fínerí - og ísskalda mjólk með. Þessi kaka klikkar ekki.

Friday 15 December 2006

Ristuð hörpuskel vafin serranoskinku með bragðbættu smjöri

Þessa uppskrift hef ég eldað nokkrum sinnum á þessu ári. Hún hefur alltaf verið succsess. Var með hana í matinn þegar pabbi minn varð 56 ára núna í lok nóvember og ég bauð gömlu hjónunum í matarveislu í afmælisgjöf. Pabbi var glaður. Þetta er frekar einföld uppskrift en er svona í dýrari kantinum þar sem Serrano skinka er sjaldan á útsölu. Sennilega væri hægt að gera budget útgáfu af þessum rétt með góðu beikoni en allavega - hún vel borgar sig.

Mikilvægt er að nota risahörpuskel. Ekki bara vegna þess að það er flottara heldur það eru mun auðveldara að vefja stóran hörpudisk heldur en lítin. Hef venjulega haft þrjá á manninn. Fyrst er að huga að smjörinu.  70 gr af smjöri er látið ná herbergishita svo hægt sé að hræra það. Svo er 25 gr af muldum heslihnetum ristaðar á pönnu. 10 gr (ca 1/6 af búnti) af kóríander er saxað niður í hæfilega stærð - ekki of smátt. Sama er gert við jafnmikið af ferskri steinselju. Þessu öllu er blandað saman við smjörið. Saltað og piprað. Safa úr hálfri sítrónu er blandað saman við. Þá ertu komin með ristað heslihnetu,kóríander, steinselju og sítrónu bragðbætt smjör - ekkert smávegis nafn.

Risahörpuskel er vafin serrano skinku - yfirleitt hefur nægt að nota eina sneið utan tvo hörpudiska. Skinkan er fest með tannstönglum. Best er að krossfesta hörpudiskinn - þá hreyfist skinkan ekki neitt. Raðað í eldfast mót.

Kveikt er á grillinu í ofninum og látin ná blússandi hita - 250 gráðum. Hörpuskelin er ristuð í ofni í 1 1/2 mínútur á hvorri hlið, svo er hörpuskelin tekin úr ofninum - smjörklípa er sett á hverja skel og svo sett í 2 mínútur undir grillið til að smjörið bráðni. Borið fram á beði af klettasalati.

Auðvitað er nauðsynlegt að drekka með þessu gott hvítvín - De Martino Legado Reserva Chardonnay - algert sælgæti.

Thursday 14 December 2006

Líbanskt innblásinn lambabollupottréttur með flatbrauði

Þegar við fjölskyldan fluttum í Skaftahlíðina fyrir tveimur árum gáfu vinir okkar - Haraldur kollegi minn og Guðný konan hans - okkar alveg frábæra innflutningsgjöf. Um er að ræða alveg meiriháttar matreiðslubók eftir Diana Henry sem heitir Crazy Water - Pickled Lemons. Bókin fjallar um reynslu höfundar frá þeim tíma þegar hún bjó í hverfi í London þar sem mikið var af innflytjendum frá löndum umhverfis miðjarðarhafið. Til urðu réttir innblásnir frá Evrópuhlið miðjarðarhafsins - Spáni, Ítalíu, Grikklandi og frá löndum sunnan við hafið Líbíu, Marocco, Egyptalandi og svo frá löndum við botn hafsins; Tyrklandi og Líbanon - ég er örugglega að gleyma einhverjum. En allavega - nóg um það.

Frá því að ég byrjaði að elda þá hef ég verið mikið upptekinn af ítalskri matargerð - en hef síðustu ár verið að færa út kvíarnar og prófa matargerð annarra landa. Eftir að ég fékk þessa bók, einnig eftir að ég fór á Mouroush - líbanskur veitingastaður í London,  hef ég verið rosalega spenntur fyrir líbanskri og marókóskri matargerð. Rétturinn sem ég eldaði í kvöld var einmitt innblásin af lestri þessarar bókar.

Líbanskt innblásinn lambabollupottréttur með flatbrauði

Fyrst kjötbollurnar. 500 gr lambahakk er sett í skál og við þetta er blandað tveimur tsk papriku dufti. 4 kreistum hvítlauksrifjum, hálft búnt af saxaðri ferskri steinselju, 1 hnífsoddur af múskati, 1/2 tsk kanill  og hálfri tsk af majoram er einnig bætt í bollurnar. 1/2 tsk af kúmenfræjum og 1 tsk af kóríander fræjum er sett í mortel og steytt með Maldon salti þar til það er orðið af fínu dufti - blandað saman við. Piprað rækilega. 1-2 egg sett saman við og brauðmylsna til að binda þetta saman. Hnoðað vel og litlar bollur eru búnar til. Olía/smjör blanda er hituð á pönnu og bollurnar brúnaðar að utan. Lagt til hliðar þegar bollurnar eru steiktar.

Því næst sósan. 1 kúrbítur er þveginn og skorinn í sneiðar. 2 litlir laukar, 1/2 græn papríka og hálf gul papríka skornar í sneiðar. 3-4 tómatar niðursneiddir sem og hálfur púrrlaukur. Olía er hituð á pönnu og 4 hvítlauksrif kreist úti og hituð í olíunni. 1 tsk af kóríander kryddi, 1/2 tsk kúmeni og vel af paprikudufti er bætt í olíuna og hitað. Ilmurinn mun gjósa upp af pönnunni. Grænmetið er sett útí, fyrst laukurinn, svo papríkan, púrran, kúrbíturinn og í lokin tómatarnir. Velt vel upp úr heitri olíunni. 1 dós af niðursoðnum tómötum er sett útí, og jafnmikið vatn (400 ml) bætt útí. Setti einnig 1 tening af lambakrafti. Saltað og piprað að smekk. Þegar suðan er kominn upp er bollunum hellt úti og hitað áfram í nokkrar mínútur.

Að lokum flatbrauðið - en sennilega er best að byrja á því. 300 ml af hveiti er sett í skál, 15 gr af salti og 3 msk af extra virgin ólífuolía er sett saman við (einnig er hægt að setja 1/2-1 dós af niðursoðnum kjúklingabaunum saman við - mjög gott - Þá þarf að minnka aðeins vatnið á móti). Kóríander fræ ca 2 tsk og hálf tsk af kúmeni er mulið í morteli og blandað saman við.  Útí 200 ml af ylvolgu vatni er ger og sykur blandað saman og gerið vakið - byrjar að freyða - og þá má byrja að blanda saman. Hnoðað vel og látið hefast í 45 mínútur. Deigið mun nærri tvöfaldast. Deigið er svo kýlt niður, flatt út, skipt niður í hentugar stærðir. Pennslað með hvítlauksolíu og saltað. Grillpanna er hituð þannig að rýkur úr henni og brauðið grilluð á pönnunni.

Borið fram með einföldu salati - babyleaf, kirsuberjatómötum, sneiddum risaólífum og fetaosti.
Vel heppnaður pottréttur - myndi sennilega hafa gott af því að malla í nokkra klukkutíma (ef það er gert þá þarf að setja meira vatn saman við svo að það sjóði ekki alveg niður - til að bragðið nái meira jafnvægi. Gæti vel trúað að þessi pottréttur verði betri á degi 2. Afgangar á morgun - jibbí.

The Ultimate Raindeer Meatballs

Fórum tveir kollegar á hreindýraveiðar í byrjun september. Áttum leyfið saman, hann á gikknum ég á kíkinum. Náðum þessum fallega tarfi eftir talsverðan eltingarleik við hjörðina. Fallþungi var um 70 kg og fékk ég helmingin af kjötinu í minn hlut eftir verkun um 20 kg af úrvals kjöti. Fengum nokkra pakka af hreindýrahakki og varð þessi uppskrift til í tengslum við það.

Bandarískur kokkur að nafni Tyler Florence hafði dáldið með tilurð þessarar uppskriftar að gera þar sem hún byggir á hans bollum sem nefnast Tyler's Ultimate Meatballs - alls ekki sem verstar - eiginlega alveg frábærar. Uppskriftin hans byggði á því að ræða við frægan ítalskan kokk og svo annan þekktan bandarískan og taka svo það sem hann hafði lært var af þeim og þróa eigin uppskrift. Ég breyti litlu frá hans uppskrift nema hvað ég er að nota hreindýrahakk - geymi bollurnar aðeins eftir að þær eru blandaðar og geri svo tómatsósu með þessu. Úr verður því mín uppskrift - ekki satt?

Ragnar's Ultimate Raindeer Meatballs

Ágæt blanda af íslenskri villibráð - og ítölsku eldhúsi. Fyrst er 6-8 brauðsneiðar af góðu brauði (skorpan af) bleytt upp úr mjólk. Þvínæst 500-600 gr af hreindýrahakki sett í skál og saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar. 3 (jafnvel meira...jafn vel mikið meira - fer eftir ást manns á hvítlauk - sjálfur myndi ég setja meira) smátt skorin eða kreist hvítlauksrif sett úti. Handfylli af fersku basil og ferskri steinselju eru saxaðar niður og sett úti. Handfylli af furuhnetum eru ristaðar á pönnu - svo barðar í Morteli og sett útí. Um 70 gr af nýrifnum parmesan osti er bætt við. Því næst er brauðið tekið úr mjólkinni og mjólkin kreist úr og sett útí ásamt einu eggi. Hnoða vel saman. Geyma í ískáp í nokkra klukkutíma. Steikt á pönnu þannig að þær brúnist aðeins. Endilega ekki elda meira en medium - medium rare. Ekkert welldone hér takk fyrir.

Tómatsósan er afar einföld. 1 rauðlaukur og 2-4 hvítlauksrif eru söxuð niður og steikt í olífuolíu á pönnu - ekki brúnað - bara þar til orðið mjúkt og glært að sjá. Mikilvægt er að láta laukinn hitna í olíunni - þannig kemur mýkra og jafnvel smá sætubragð af hvítlauknum. Því næst eru 1-2 dósir af niðrusoðnum tómötum sett út og hitað. Ein lítil dós af tómatpaste sett útí. Ferskar kryddjurtir, basil og steinselja, söxuð og sett útí. Saltað og piprað. Stundum eru þessar sósur aðeins súrar og þurfa að fá einhverja sætu - þarna má nota sykur en einnig tómatsósu - en bara smávegis því sósa má ekki verða sæt, bara að jafnvægi ríki í þessu. Stundum hef ég sett smá rauðvínsslettu (skemmir aldrei) saman við.

Bollurnar eru settar í eldfast mót, sósunni hellt yfir. Parmesan ostur eða jafnvel mozzarella er settur yfir og osturinn látinn bráðna í heitum ofni í smá stund.

Borið fram með góðu pasta - fabrizzia di rustichella (örugglega vitlaust stafað hjá mér - en þetta er í brúnum pokum og er einstaklega bragðgott pasta), góðu brauði - helst heimagerðu og einhverju einföldu salati. Að venju - gott rauðvín með þessu...eitthvað gott ítalskt.

Wednesday 13 December 2006

Grágæsarbringucarpaccio - ógleymanlegur forréttur

Hef verið á vaktinni síðustu daga og því lítið merkilegt átt sér stað í mínu eldhúsi, nema gengið hefur aðeins á skyrbirgðirnar - ég virðist vera með einhverja áráttu að kaupa skyr í hverri ferð út í búð - gleymi alltaf að ég á þetta í tonnavís í ískápnum.

Læt í staðinn forrétt flakka sem ég bjó til fyrst núna í október. Ég byrjaði að veiða fyrir rúmu ári síðan og ég hef veitt nokkrar gæsir í haust.

Grágæsabringucarpaccio

Rétturinn byggir á orginalnum sem er nautacarpaccio sem er nautalund borin fram þunnt skorinn og pressuð niður og krydduð með ferskum kryddjurtum og ólífuoliu. Stundum er lundinn steikt rétt að utan til að fá fallegt útlit á hana. Ég hef smakkað carpaccio nokkrum sinnum, bæði nauta, lamba, og höfrunga - alltaf mjög gott.

Fyrir fjóra sem forréttur. Grágæsarbringa er hreinsuð og lögð í extra virgin ólífuolíu, hvítlauksrif (bara nóg - more the merrier) kreist yfir, fersk bergmynta (oregano - en þurrkuð gengur líka - þar sem oregano er ein af fáum kryddjurtum sem heldur bragði sínu við þurrkun), ferskt timian, söxuð steinselja, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þetta er sett í gott ílát og geymt í ísskáp helst yfir nótt.

Panna er hituð - þannig að það rjúki af henni - og bringunni velt yfir pönnuna þannig að hún brúnist aðeins á hverri hlið. Þetta á bara að taka augnablik þar sem hugmyndin er ekki að elda bringuna að neinu ráði. Bringan sett til hliðar og fær að hvílast í augnablik. Bringan er skorin í þunnar sneiðar og lagt á matarfilmu og önnur matarfilma lögð yfir. Bringan er pressuð vel með hendinni þannig að stærð hennar nær tvöfaldast. Sneiðarnar eru lagðar á disk og skreytt með ferskum kryddjurtum, ristuðum furuhnetum og spekkaðar með marineringsleginum.

Baguette, keypt eða heimagert, er skorið í sneiðar og pensluð með hvítlauksolíu og grilluð á grillpönnu eða í ofni á báðum hliðum er borið fram með réttinum.´

Ég ber þetta gjarnan fram með balsamikediki/kremi. Gert þennan rétt þrisvar sinnum og hann hefur vakið mikla lukku. Um að gera að drekka með þessu gott rauðvín (þetta á nú eiginlega alltaf við - sama hvaða mat er um að ræða)Sunday 10 December 2006

Skyndibiti á sunnudagskvöldi.

Sonur minn er lasinn - upp og niðurgangspest - og svo virðist sem dóttir mín sé að verða lasinn líka, andskotans.

Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, kom í heimsókn og leit eftir börnunum á meðan ég og konan mín skutumst í jólaglögg hjá vinafólki - veit ekki með glöggina - er ekki búið að sjóða allan vínandan úr þessu? Allavega...þá lofaði ég tengdó einhverju að borða og maður var ekki vel innblásinn til að gera eitthvað grandíós.

Kjúklingapastareddíng. Og ég meina redding!!! Á leiðinni heim úr glögginni var stoppað í Nóatúni - alltaf gaman að versla þar - nema þegar það kemur að því að borga - skiptir engu máli hvað ég kaupi - pokinn kostar aldrei minna en 2700 kall.

Keypti einn grillaðan kjúkling, dós af sýrðum rjóma bragðbættum með graslauk og lauk. Þegar heim var komið var Champignole pasta skrúfur soðnar í miklu vatni - vel söltuðu/og með dash af olíu. Þegar pastað var tilbúið var hellt af því og sett aftur í pottinn. Soðinu af kjúklingum var hellt yfir og kjúklingurinn hreinsaður - þeas kjötið hreinsað af beinunum - skorið niður og sett útí. Sýrða rjómanum var bætt saman við, saltað og piprað (auðvitað Maldon og ferskt nýmalaður pipar), og svo ferskri steinselju og graslauk sett saman við.
Borið fram með baguettu frá Nóatúni og parmesan osti.

Heppnaðist ferlega vel. Ekki hægt að biðja um fljótlegri og auðveldari eldamennsku en þetta.

Átti smá afgang eftir af Monte Galbi Ripasso frá því í gær sem drukkið var með. Passaði líka vel með þessum mat. Er eitthvað sem gott rauðvín passar ekki með??? (rhetorísk spurning og svör ekki velkominn)

Sunnudagsbrunch - eiginlega heilög stund

Sunnudagsmorgunverður hefur frá því að ég var lítill verið nánast heilagt móment.

Pabbi minn er mikil brönsmaður og hefur í gegnum árin eldað marga frábæra morgunverði - allt frá brauði ríka mannsins í flóknar eggjakökur eldaðar á pönnu en kláraðar á grilli - eiginlega alltaf alveg frábært hjá gamla.

Ég hef haldið þessu áfram í mínum búskap og geri mikið af því að gera eitthvað sniðugt á sunnudagsmorgnum. Yfirleitt er þetta einhver útgáfa af enskum morgunverð - en stundum á ég það til að gera amerískar pönnukökur eða ommilettu.

Í morgun var þetta með léttara móti - jólaátið að fara hefjast og maður er svona að reyna að stramma sig af - þó af veikum mætti - 2 brauðsneiðar ristaðar í ristabrauðsvélinni minni. Smurðar með kotasælu, saltað og piprað, og söxuðum púrrlauk og graslauk stráð yfir. Tvö egg eru steikt á pönnu - Sunny side up (eins og þeir segja í USandA) og lagt ofan á. Skorið í gegnum rauðuna og dreifa henni vel yfir.

Einfalt og gott. Gerði þetta líka fyrir konuna mína en setti gróft Dijon sinnep hjá henni. Ég held að hún hafi
bara fílað þetta.

Ekkert vín með morgunmatnum - bara vatn og kaffi. Helvítis!

Saturday 9 December 2006

Kósí kvöld og stormviðvörun - nautasteik með bernaise

Nautasteik með Bernaise

Þetta er eitthvað sem við hjónin eldum þegar við viljum gera það sem Danir kalla að "hugge sig".  Það er stormviðvörun í kvöld og ekki veitir af að láta sér líða vel. Þessi réttur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni lengi. Eiginlega getur þessi eldamennska ekki verið mikið einfaldari. Hérna er fyrst og fremst verið að reiða á gott hráefni og svo svindli með Bernaise sósuna.

Bernaise sósa (konan mín gerir þessa - uppskrift frá tengdaföður mínum): Hollandiase sósa úr pakka (frá Knorr - ekkert Tóró eitthvað segir konan mín - sjálfur myndi ég aldrei elda neitt svona úr pakka og þori varla að viðurkenna opinberlega að við gerum svona - bara resúltatið er svo déskoti gott að ég get lítið gagnrýnt þetta). Eldað eftir leiðbeiningum. Bernaise essens er notaður - ég veit ekki einu sinni hvað er í þessu...og svo til að setja smá persónulegt tötsh þá eru ferskar kryddjurtir klipptar útí, ekki fáfnisgras eins og á að gera heldur yfirleitt steinselja. Sennilega ætti þessi sósa ekkert að heita Bernaise...hún ætti að heita Snædísósa - alltént á hún lítið skilt við ekta Bernaise sem er í smjör og eggjasósa sem er bragðbætt með fáfnisgrasi, skarlottulauk og kerfil. Einnig er yfirleitt smá víni og edik bætt við - Þetta er eiginlega það sama og er í Hollandaise sósu - nema hvað kryddið er ólíkt og í Hollandaise sósu er sítrónusafi aðalbragðgjafinn.

Nautakjötið (núna innra læri) var fyrst piprað rækilega - og hér greinir kokkum mikið á - hvort að það sé saltað fyrir eða eftir steikingu - sumir segja að það eyðileggi matinn alveg að salta fyrir og næsti maður segi það algerlega nauðsynlegt. Hvað sem því líður þá er nautakjötið steikt á pönnu í smjöri, nema þegar faðir minn er í mat þá í olíu þar sem hann þolir ekki smjör og finnst alger lágúra að nota svoleiðis í matargerð. Yfirleitt steiki ég samt úr smjöri þegar hann kemur í mat og lýg svo bara að honum - hann fær þá að dást að bragðinu haldandi það að þetta sé bara steikt úr olíu - Smjör er frábært.

 Með þessu eru bara soðnar kartöflur og Spergilkál. Meiriháttar.

Og auðvitað er með þessu gott rauðvín - að þessu sinni var drukkið Monte Garbi Ribasso 2002. Excellent.


Pizza í gærkvöldi - vel heppnuð

Alltaf vinsæll föstudagsmatur á mínu heimili. Eins einfalt og huxast getur.

Ég hef gert mikið af því að baka pizzur síðan að ég byrjaði að búa. Ég hef gert hefðbundnar í ofni, þunnbotna, þykkbotna, grillað á grilli og einnig í svona pizzaofni sem ég fékk í jólagjöf á seinasta ári. Eini gallinn við hann er að brauðuppskriftin mín hentaði ekki í fyrstu fyrir ofninn - alltof blautt deig - þannig að allt festist hjá mér þegar ég var að byrja að nota hann. En ég er búinn að taka hann í sátt aftur. Svilkona mín er samt orðin alger meistari í notkun þessa pizzaofns og á ég langt í að toppa hana þegar kemur að því að elda böku í svona ofni.

Ég er ekki með almennilega uppskrift (en er algerlega sannfærður að Jamie Oliver hafi lesið huxanir mínar og birt uppskrift mína í fyrstu bók sinni - the naked chef) þegar kemur að því að búa til botn - ég veit svona cirka hvað ég er að fara að elda fyrir marga (geri samt alltaf of mikið) og reyni að áætla (alltaf of mikið) út frá því.

Þegar ég geri bara fyrir fjölskylduna þá nota ég eftirfarandi; 500-700 gr. hveiti, 250 ml ylvolgt vatn, 2 tsk þurrger, ca 30 g salt, 30 g sykur eða hunang, og smávegis af olíu (auðvitað extra virgin). Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. Á meðan læt ég hveiti, olíu og salt í skál. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu og við viljum það ekki á þessu stigi málsins. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma.

Svo er það áleggið. Ég set það sem ég á til. Ég er alltaf með tómatsósu - en í öllum fínni bókum sem ég á - er alltaf verið að reyna að fá mann til að sleppa sósunni - Það er bara ekki pitsa í mínum huga - þannig að ég set alltaf tómatsósu - Ég nota Hunt's þegar ég er að flýta mér (næstum alltaf) - Þetta er í frekar stórum dósum og ég notast við roasted garlic tomato sauce, en italian sausage er einnig ágæt. Svo raðar maður bara áleggi á. Ég set eiginlega alltaf rjómaost á hluta af pitsunni - það passar fullkomlega - eini gallinn við rjómaost (og ég meina eini gallinn) er að daginn eftir er bragðið oft ekki eins gott og kvöldið áður - en samt alveg ágætt.

Bon appetit.

Fyrsta færsla

Jæja...þá er ég búinn að opna þetta blogg. Sniðugt.

Hugmyndin með þessari síðu er að halda dagbók yfir aðgerðir mínar í eldhúsinu - uppskriftir og svoleiðis. Reyna að hafa þetta á svona dagbókarformi - og skrá þannig reglulega hvað fer fram í eldhúsinu mínu - þetta er auðvitað stolin hugmynd. Ég var nýlega að lesa bók eftir Nigel Slater sem heitir Kitchen Dairies og þar rekur hann eldamennsku sína í eitt ár - frábær bók - og alveg þjóðráð að herma eftir. Ef maður getur ekki fengið góðar hugmyndir þá bara stelur maður þeim frá einhverjum öðrum.

Það er nú eiginlega hægt annað en að koma þá allavega með eina góða uppskrift í upphafi.
Þessi frábæri pasta réttur var í matinn hjá mér seinasta sunnudagskvöld. Hugmyndin var fengin frá Armando Percuoco sem er ítalskur kokkur búsettur í Ástralíu og rekur veitingahús í Sydney.

Truffle eggjapasta

Ef maður fylgir uppskriftinni til hlýtar þarf maður að geyma nokkur egg í kassa með hvítum trufflum (jarðsveppum - fokdýrir sveppir sem vaxa neðanjarðar við rætur eikatrjáa og einhverra annarra trjátegunda). Ég gerði ódýrari útgáfu af þessum rétt.

Sauð upp pela af matreiðlsurjóma, blandaði 1 msk af trufflu olíu saman við þegar suðan var kominn upp og leyfði þessu að sjóða aðeins niður. Á meðan sauð ég spaghetti í miklu vatni - söltuðu. Þegar spaghettíið var soðið, hellti ég vatninu af og setti svo pastað aftur í pottinn og rjóma/trufflublönduna saman við. Leyfði því að standa - með lokið á - á meðan ég steikti egg á pönnu. Léttsteikt þannig að þau voru ennþá ansi blaut.

Því næst er pastanu hrært rækilega og sett á disk og skreytt basil. Saltað og piprað. Eggið lagt ofan á og ríkulegu magni af parmisanosti raspað yfir.

Því næst er þessu blandað saman og borðað. Mér fannst þetta ákaflega gott en Snædísi (konunni minni) fannst trufflan aðeins væmin ...en samt kláraði hún matinn sinn og vel það!Rosemount GTR passaði ekki alveg með þessum mat - þar sem það er fullsætt á bragðið.