Showing posts with label súkkulaði. Show all posts
Showing posts with label súkkulaði. Show all posts

Sunday, 26 March 2017

Ljúffenga skúffukakan hennar Röggu - ný kynslóð í eldhúsinu, allir geta bakað!



Þegar ég var lítill, ætli ég hafi ekki verið um átta ára gamall, lærði ég að gera skúffuköku ekki svo ólíka þessari. Það var hún móðir mín, Lilja María, sem kenndi mér að gera uppskrift af skúffuköku sem að vissu leyti tryggðu mér sess í annars nokkuð stormasömum grunnskólabekk í Æfingaskólanum (núna Háteigsskóli). Það var nokkuð auðveld leið inn að hjörtum bekkjarfélaga minna að geta auðveldlega snarað fram skúffuköku að loknum skóladegi.

Sú uppskrift er svo sannarlega ljúffeng en í henni er óheyrilegt magn af sykri! Ég hef greint frá henni áður á blogginu, en þá var það elsta dóttir mín, Valdís, sem bakaði hana í það skiptið, sjá hérna. Ég hef því í gegnum árin verið að prófa uppskriftir sem innihalda minni og minni sykur. Ég byrjaði á því eftir að einhver lesandi benti mér á þá augljósu staðreynd að kakan innihélt hvorki meira né minna en 450 g af sykri. Sem er fáranlega mikið.

Hér er því tilraun til að minnka strásykurinn og setja eitthvað annað sem gefur sætu, í þetta skipti meira af dökku súkkulaði sem er skömminni skárri en hvítur sykur. Auðvitað má skipta konsúm súkkulaði út fyrir en dekkra súkkulaði - en þessi, eins og margar aðrar uppskriftir eru í stöðugri þróun.

Og það er gott að koma heim eftir göngutúr í Elliðaárdalnum og gæða sér á volgri skúffuköku og mjólkurglasi, eða hvað?

Ljúffenga skúffukakan hennar Röggu - ný kynslóð í eldhúsinu, allir geta bakað!

375 g hveiti
150 g sykur
2 tsk lyftiduft
1 tsk natron
3 msk kakó
1 1/2 tsk salt
300 g konsúm súkkulaði
200 g smjör
3 egg
1 eggjarauða
3,5 dl mjólk

fyrir kremið

80 ml rjómi
100 g konsúm súkkulaði
1 msk smjör


Fyrst er að blanda þurrefnunum saman; hveitinu, sykrinum, saltinu, natróni og lyftidufti í skál.


Ragga Lára er að læra að brosa fyrir myndavélar. Bætið svo kakóinu saman við.


Bræðið svo smjörið og súkkulaðið saman í potti.


Til að gera kökuna aðeins ríkari notaði ég þrjú egg og eina eggjarauðu tilviðbótar.


Röggu Láru tókst að blanda þessu vandræðalítið saman við ásamt mjólkinni og súkkulaðibráðinni. 


Hrært vandlega saman og svo sett í smurða ofnskúffu.


Kakan var bökuð í 30 mínútur við 180 gráður.


Kremið var einfalt. Bræddi súkkulaði í rjómanum og blandaði svo smjörinu saman við. Til að kæla það niður hraðar (Ragga var orðin óþreyjufull að smakka) var kremið kælt útí í snjónum.


Ragga Lára var alveg á því frá upphafi að það þyrftu að vera hvít korn á kökunni því þá væri hún best.


Kakan varð safarík og ljúffeng. Mikið súkkulaðibragð. 


Mér tókst að fá dóttur mína til að staldra við í smástund til að fá að smella mynd af henni með kökuna. Henni lá á að smakka.



Enda er leikurinn gerður til þess.

Bon appetit!

Sunday, 4 May 2014

Frábært súkkulaði pannacotta með hindberjacoulis og ferskum berjum

Það hefur verið gaman að sjá þættina fara í gang og heyra kveðjur frá vinum og ættingjum. Ég vona að sem flestir hafa gaman af þáttunum! Ég er sjálfur búinn að fá að sjá fjóra þætti og hlakka mikið til að sjá restina. Það er sérstaklega gaman að sjá hvað Gunnhildi og Ómari tekst vel til með leikstjórn og myndatöku - en ég er nú kannski dáldið hlutdrægur, eða hvað?

Annars hafa bókaskrifin gengið vel síðustu vikurnar og hér hefur verið eldað nótt sem nýtan dag. Það er rosalega gaman að hafa svona verkefni fyrir stafni og hafa alltaf eitthvað til að hlakka til að gera. Ég er á leiðinni í stutt frí aftur til að leggja lokahönd á verkið og mun síðan snúa aftur í mína venjulegu dagvinnu - sem læknir á gigtardeildinni. Einhver sagði einhvern tíma - "if you want something done, ask a busy man" - og ég hef, sko, nóg fyrir stafni um þessar mundir! 

Ég veit að það var viðtal við mig í Smartlandinu fyrir nokkrum dögum þar sem ég nefndi að maður ætti helst að forðast sykur, en stundum er í lagi að gera leyfa sér að syndga smávegis. Bara ekki of oft! Sagði ekki einhver að allt væri gott í hófi! 



Veðrið hefur leikið við okkur í Lundi síðustu daganna og mér hefur gefist tækifæri til að elda úti á palli. Það er ótrúlega ljúft - grísirnir að leika sér í garðinum á meðan maður saxar niður grænmeti og sýslar eitthvað við grillið. Sú yngsta, Ragnhildur Lára, vill eiginlega bara vera úti og uppáhaldið hennar er að leika sér á trampólíninu. Það er gott net umhverfis það svo það er engin hætta á að hún detti framaf. Og þarna getur hún svo sannarlega unað sér vel. Hún er orðin lunkin að hoppa sjálf og svo fara í kollhnís! 

Frábært súkkulaði pannacotta með hindberjacoulis og ferskum berjum

Þetta er dásamlegur eftirréttur. Það má alveg auka magn súkkulaðsins í eftirréttinum og auðvitað velja hvaða súkkulaði sem er – jafnvel bragðbætt súkkulaði. Ég gæti t.d. vel ímyndað mér að þessi réttur myndi njóta sín vel með súkkulaði, bragðbættu með appelsínu – en þá þarf kannski að huga aðeins að sósunni sem höfð er með réttinum.

Fyrir sex

200 gr súkkulaði
5 dl rjómi
3 dl nýmjólk
1 vanillustöng
150 gr sykur
5 gelatínblöð


1. Bræðið súkkulaðið í potti.
2. Hellið rjómanum, mjólkinni og sykrinum samanvið og blandið vel saman.
3. Skerið vanillustöngina eftir miðjunni og skafið vanillufræin út með hníf og setjið saman við súkkulaðimjólkina ásamt sjálfri vanillustönginni. Hitið að suðu.
5. Leggið gelatínblöðin í kalt vatn og látið liggja þar þangað til að suðan er komin upp á súkkulaðimjólkinni.
6. Þegar suðan er komin upp, takið þið pottinn af hitanum og látið kólna í nokkrar mínútur.
7. Takið gelatínblöðin upp úr vatninu og kreistið vatnið úr þeim áður en þeim er svo blandað saman við súkkulaðimjólkina.
8. Hellið súkkulaðimjólkinni í ákjósanleg form.



Hindberjacoulis

Coulis er tegund af ávaxta- (eða grænmetis) sósu sem er gerð er úr maukuðum ávöxtum sem er síðan þrýst í gegnum sigti til að fjarlægja öll fræ og misfellur. Niðurstaðan er þykk og glansandi sósa sem er sérstaklega ljúffeng.

250 gr frosin hindber
175 gr sykur
200 ml vatn

1. Setjið berin, sykurinn og vatnið saman í pott og hitið að suðu.
2. Lækkið undir og látið krauma og leyfið sósunni að sjóða niður um þriðjung.
3. Hellið sósunni í gegnum sigti og kælið niður. 



Nú er, sko, kominn tími til að njóta!

Sunday, 8 December 2013

Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar



Frábæra dóttir mín, Valdís Eik, verður 13 ára 20. desember næstkomandi. Hún óskaði sérstaklega eftir því að afmælið sitt yrði haldið aðeins fyrr þar sem henni finnst sá tuttugasti vera óþægilega nálægt jólunum! Hún hefur ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Og það var auðvitað ekkert mál að gera svo. Hún bauð öllum bekkjarsystrum sínum í kvöldverð og vildi hafa veitingahúsastemmingu. Hún hafði óskað eftir sínum uppáhaldsmat. 

Við hjónin klæddum okkur upp og þjónuðum til borðs. Ég stóð vaktina í eldhúsinu ásamt Vilhjálmi syni mínum sem aðstoðarkokki. 

Á matseðlinum var í forrétt hvítlauksristuð brúsketta með tómötum og basil. Í aðalrétt vildi dóttir mín bjóða upp á upphaldsmatinn sinn - steik og bernaisesósu sem ég eldaði nýlega með þessum hætti, sjá hérna! Í eftirrétt óskaði hún síðan eftir því að fá þennan ljúffenga eftirrétt!

Dásamlegt súkkulaði fondant með þeyttum rjóma í afmælisveislu Valdísar

Innihaldslýsing

200 g smjör
200 g dökkt súkkulaði
200 g sykur
200 g hveiti
4 egg
4 eggjarauður
50 g smjör til að smyrja mótin
8 tsk kakóduft



Bræðið smjörið í potti og penslið síðan kökumótin. Setjið í frysti í 30 mínútur. Takið út og penslið aftur. Setjið skeið af kakódufti í mótið og veltið mótinu þannig að það hjúpist að innan. Hellið því sem er umfram. Setjið aftur í  frystinn og undirbúið fyllinguna. 


Tyllið stálskál yfir vatnsbað og bræðið smjörið og súkkulaðið saman. Hrærið vel og setjið til hliðar í nokkrar mínútur. Í annarri skál hrærið þið saman eggin, eggjarauðurnar og sykurinn þangað til blandan er þykk og pískurinn skilur eftir far í henni.

Sigtið hveitið yfir eggjablönduna og hrærið saman. Blandið súkkulaðinu við, þriðjungi í senn, og hrærið saman í þykkt deig.

Takið mótin úr frystinum og hellið deiginu í þau. Gætið þess að fylla ekki mótin meira en að 3/4 þar sem kakan á eftir að lyfta sér. 



Bakið í 180 gráðu heitum blástursofni í 10-12 mínútur þangað til kakan fer að losna aðeins frá kantinum og yfirborðið hefur harðnað. Bíðið í nokkrar mínútur áður en þið reynið að ná kökunni úr formunum. Berið fram með ís eða rjóma.


Tími til að njóta!

Þessa uppskrift er finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu, Tími til að njóta.
Bókin, sem er uppseld hjá forlaginu, hefur greint mér frá því að ný sending af bókinni sé væntanlega í búðir strax í næstu viku!


Tuesday, 19 December 2006

Frábæru Muffinskökurnar hennar Imbu

Dóttir mín á afmæli á morgun og verður 6 ára. Hún hlakkar mikið til og er búinn að vera skipuleggja afmælisdaginn sinn síðan í seinustu viku. Hún er búinn að bjóða stelpunum í bekknum sínum í heimsókn eftir skóla. Boðið verður upp á súkkulaðikökustelpu (uppskriftin er kominn á vefinn) sem amma Lilja ætlar að hjálpa henni að skreyta, Ricekrispies kökur og þessar bragðgóðu muffinskökur ásamt einhverju fleiru.

Þessa uppskrift fékk ég hjá bekkjarsystur minni og kollega henni Ingibjörgu Hilmarsdóttur lækni. Ég man ekki alveg við hvaða tækifæri ég fékk að smakka þær hjá henni en þetta voru alltént einar af bestu muffinskökum sem ég hef bragðað. Auðvitað bað ég hana um uppskriftina og hefur gert hana nokkrum sinnum. Ég hef lítið breytt út frá því sem hún lét mig fá - en allar uppskriftir taka einhverjum breytingum eftir dyntum kokksins.

Fyrst er þurrefnum blandað saman; 3 bollar af hveiti, 2 1/3 bolli af sykri, 1/2 tsk matarsódi, 1 tsk lyftidufti, 120 gr af söxuðu suðusúkkulaði. Hrært vel saman. Svo er 3 eggjum, 200 gr af smjöri, 1 tsk vanilludropar, 1 dós af karmellujógúrt sett úti og deigið er hrært saman. Sett í muffinsmót.

Ofn er hitaður í 200 gráður og kökurnar svo bakaðar í 15-20 mínútur þar til þær eru gullnar og fallegar.
Það er voðalega gott að setja smávegissúkkulaðikrem á kökurnar - en þær eru líka bara góðar eins og þær eru!