Thursday 31 May 2007

Einfaldur ofnbakaður lax með bökuðum sveitakartöflum

Snædís ætlaði að sjá um matinn í kvöld þar sem ég þurfti að vinna aðeins frameftir. Dóttir mín var ásamt vinkonum sínum og þjálfara í Ármanni að undirbúa fimleikasýningu og þegar Snædís kom til að sækja hana um sexleytið var allt á eftir áætlun og það kom í mínar hendur að undirbúa matinn. Snædís hafði keypt lax og hafði áformað að grilla hann. Ég var eitthvað í litlu stuði til að standa yfir grillinu í kvöld - já þrátt fyrir veðrið - var bara ekki í neinu grillstuði.

Eitthvað varð að þó að gera. Ég hef í tvígang bloggað um laxarétti áður. Þeir hafa verið heldur flókari en þessi sem var alveg í það einfaldasta. Svo var næstum hreinsað út úr ískápnum til að útbúa meðlætið. Meðlætið varð svo að ansi bragðgóðum rétt sem ég á örugglega eftir að gera aftur.

 Einfaldur ofnbakaður lax með bökuðum sveitakartöflum.

Eitt laxaflak var lagt á álpappír. Safa úr einni sítrónu sáldrað yfir og svo saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar dreift yfir. 60 gr af smjöri var klipið niður í bita og dreift yfir flakið. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 12 mínútur. 1/2 búnti af niður graslauk skorið niður í litla bita og sáldrað yfir tilbúið laxaflakið.

Meðlætið var eins og áður sagði samsafn úr mat sem ég fann ísskápnum. Álpappír var lagður í ofnbakka og brotið upp á hliðarnar. Smá jómfrúarolíu skvett á pappírinn og dreift með bursta. Tíu kartöflur voru skornar niður í átta bita og lagðar, hýðið niður, á álpappírinn. 250 gr af sveppum var dreift á milli kartaflanna, einum rauðlauk skornum í átta bita, einum hvítum lauk skorinn niður eins. 10 hvítlauksrifjum var dreift á milli og svo laufum af 2-3 greinum af rósmaríni. Smávegis af jómfrúarolíu skvett yfir og svo saltað og piprað. Bakað í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar verða gullinbrúnar og stökkar. Þessi réttur þar náttúrulega að fara á undan laxinum í ofninn.

Þegar ég setti laxinn í ofninn - kippti ég kartöflunum út í smástund og lagði nokkra beikon bita (kannski 5-6 sneiðar sem ég hafði skorið í þrennt) ofan á kartöfluréttinn og skellti aftur í ofninn og leyfði að klárast með laxinum

Einfalt salat var með matnum, nokkur lauf af ísbergssalati, hálf rauð papríka í bitum, einn niðurskorinn plómutómatur og nokkur rauðvínber skorinn í helminga.

Ljúfeng og einföld máltíð.


Tuesday 29 May 2007

Grísakótilettur að hætti Normandíbúa með steiktum eplum

Eldhúsið Eins og fram kom á síðunni minni vorum við fjölskyldan í bústað foreldra minna við Meðalfellsvatn. Faðir minn fékk nýverið frábæra matreiðslubók að gjöf. Las í gegnum hana í gærkvöld og í dag. Bókin heitir Sælkeraferð um Frakkland - 135 uppskriftir að hamingjunni á franska vísu eftir Sigríði Gunnarsdóttur. Algerlega frábær bók. Ekki annað hægt en að vilja elda allt sem á þessum síðum stendur. Sigríður hefur lengi búið í Frakklandi og bókin er ferð um Frakkland, staðháttum lýst sem og frægum uppskriftum hvers svæðis. Dóttir hennar Sigríðar, Silja Sallé tekur ljósmyndirnar, allar myndirnar mjög lystugar.

Ég opnaði bókina af handahófi og fyrsta uppskriftin sem ég rak augun í var sú sem mín er að miklu leyti byggð á - Cotes de porc á la Normande á bls 21. Ekkert smá girnileg. Mamma, pabbi og Kjartan komu í mat og allir voru hrifnir. Ég breytti uppskriftinni aðeins - ekki vegna þess að mér leist illa á það sem stóð í bókinni, heldur vegna þess að ég þurfti að stækka uppskriftina til að mæta fjöldanum, ég fékk heimaræktaðan graslauk í gjöf frá föður mínum og mig langaði til að hafa uppskriftina aðeins blautari.

 Grísakótilettur að hætti Normandíbúa með steiktum eplum gratín e eldun

Uppskriftin er huxuð fyrir allavega átta manns. Fyrst var 1,5 kg af grísakótilettur þvegnar og þurrkaðar. Saltaðar með Maldon salti og pipraðar með nýmöluðum pipar og svo steiktar örstutt á hvorri hlið í heitri jómfrúarolíu - rétt þannig að þær tóku lit beggja vegna. Lagðar í eldfast mót. 1 1/2 dós af 10% sýrðum rjóma var hrært saman við 300 gr af rifnum gratínosti og 200 ml af mateiðslurjóma. Jafnframt var 1/2 búnti af söxuðum graslauk sáldrað yfir kótiletturnar. Þessari blöndu var svo dreift yfir kótiletturnar þannig að þær eru nærri því alveg huldar. Bakaðar í 20 mínútur við 180 gráður. Þegar þessi tími er liðinn er eldfasta mótið tekið úr ofninum - kjötinu lyft á annað fat og 3 msk af sýrðum rjóma, 2 kúfaðar matskeiðar af Dijon sinnepi, og 1,5 dl eplaciderediki hellt útí vökvann í fatinu og blandað vel saman við. Kótiletturnar lagðar aftur í fatið og smá osti sáldrað yfir og sett aftur í ofninn undir grillið rétt til að fá gullinn lit á ostinn.

Með matnum var þrennt meðlæti. Fyrst voru 5 græn epli flys epli jum og skorið í skífur. 100 gr af smjöri brætt á pönnu og þegar froðan hvarf var laufum af 4 greinum af fersku rósmarín hellt útí. Því næst eru eplin sett á pönnuna og steikt þar til mjúk.

Einnig var með þessu kartöflur sem voru eldaðar á svipaðan hátt. Fyrst voru þær hlut-soðnar í 10 mínútur, sneiddar niður í báta og steiktar á pönnu með smá jómfrúarolíu. Saltaðar vel og pipraðar. Um það leiti sem þær voru að verða tilbúnar var 1 glasi af hvítvíni bætt saman við og látið sjóða niður.

Með matnum var einfalt salat. Salat tricolore - Fyrst blönduð græn lauf lögð á flatan disk, svo nokkur lauf af rifnu basil, 1 mozzarella kúla rifin yfir og 2 niðurskornir tómatar. Extrajómfrúarolíu sáldrað yfir, crema de balsamico og graskersfræ.

Þetta reyndist algerlega frábær máltíð.  

salat


Monday 28 May 2007

Náttverður í sumarbústað

Ég er búinn að vinna mikið undanfarna daga. Það skýrir hversvegna lítið hefur verið um færslur síðan á þriðjudaginn. Ég eldaði ég pasta tricolore - starfsmenn í vinnunni virðast hafa kunnað að meta uppskriftina - á þó eftir að heyra hvernig fólki gekk. Það er rosalega gaman að heyra að fólk er að reyna uppskriftirnar mínar - og oft með góðum árangri - það fær mann næstum til að roðna.

Fór í mat til bróður míns á fimmtudagskvöld. Við erum báðir miklir unnendur KFC tower zinger - sem er sennilega besti borgari sem seldur er á skyndibitastöðum. Kjartan bróðir fékk þá hugmynd í að mögulega væri hægt að gera þetta betra heima - hann hafði rétt fyrir sér - meira um það síðar!

Ég er búinn að vera að vinna um helgina. Það er búið að vera nóg að gera um helgina á bráðamóttökunni á Hringbrautinni. Ég var þó heppinn og fékk frí á annan í hvítasunnu. Snædís fór með börnin í bústað fyrir helgina og ég gekk til við liðs við þau sunnudagskvöldið. Kvöldið gat einhvern veginn ekki verið betra. Villi var ennþá vakandi þegar ég kom í bústaðinn, Valdís var að veiða útá bát með fólki í næsta bústað ... náði einum urriða. Hún var voðalega stolt.

Þegar klukkan fór að halla að ellefu fóru þeir sem voru vakandi í pottinn. Sólarlagið var geysifallegt til norðvesturs og tunglið lúrði yfir snæviþaktri Esjunni. Stemmingin var meiriháttar. Bjór í annarri og væmnin í hinni. Pabbi fór snemma úr pottinum og lofaði að elda náttverð. Ég hef einhvern tíma bloggað um nattemad föður míns ... hann galdrar fram stórkostlegar máltíðir þegar fer að halla að miðnætti. Ekkert gæti verið betra þegar maður hefur fengið smá rauðvín eða smá bjór ... eða bara mikið af hvoru.

Náttverður í sumarbústað.

Í þetta sinnið hafði sá gamli fengið þá flugu í höfuðið að djúpsteikja ost. Fátt betra. Gallinn var bara sá að ekki var til nein brauðmylsna. Pabbi brá á það ráð að nota heilhveiti í stað mylsnunnar og það var ekkert síðra. Fyrst var mismunandi ostum, bláum og hvítum höfðingja og gráðosti, velt upp úr hveiti, svo í eggjahræru og svo lagt í heilhveitið sem hafði verið blandað með salti og pipar. Þetta var svo djúpsteikt úti á palli. Bjútifúl.

Pabbi var í einhverju stuði og vafði prosciutto crudo utan um stóra kanadíska hörpuskel, sem hann pennslaði með hvítlauksolíu og sítrónusafa og grillaði skamma stund.

Þetta var svo borið fram með brauði sem hafði verið pennslað með hvítlauksolíu og grillað þar til það var stökkt. Með þessi var svo einnig einfalt salat og heimagerð krækiberjasulta - berin tínd í Eyjadalnum - einum af þessum dásamlega fallegu dölum sem ganga inn í Esjuna.

Svona máltið tryggir að samkvæmisflensa verður í algeru lágmarki.


Wednesday 23 May 2007

Pasta tricolore á fallegu vorkvöldi

Þessi uppskrift er samruni tveggja meiriháttar rétta. Annars vegar ítalska tricolore - basillauf, tómatur, ferskur mozzarellaostur, góð jómfrúarolía, salt og pipar og svo ein af uppskriftum Nigel Slater úr bók hans - the kitchen daires - bók sem ég eignaðist í fyrra og hefur reynst mér afar vel. Nigel skrifar frábærar bækur og það sést langar leiðir að hann er nautnaseggur fram í fingur góma - hann er svona karlkyns Nigella Lawson.  Uppskriftirnar hans eru einfaldar og gott hráefni látið bera uppi réttinn.

 Tricolore er svona réttur þar sem einfaldleiki er í algeru fyrirrúmi. Basil er uppáhalds kryddið mitt, ilmurinn, bragðið, áferðin - I love it! - djöfull er einfalt að gleðja mig!!! Þessi réttur verður sérstaklega góður þegar hann er gerður eins og á að gera hann - með buffalamozzarellaosti - en hann fær maður ekki hér á landi amk ekki svo ég viti til. Sá er mikið bragðmeiri, mýkri...svona flaueliskenndari heldur en íslenskur mozzarellaostur sem er frekar stamur, og bragðlítill - en honum má alveg bjarga með góðri jómfrúarolíu, Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Ég hef áður bloggað um réttinn hans Nigels - en það var einhverntíma í vetur - sennilega í janúar. Hann er alveg frábær. Ég eldaði hann fyrst í fyrra þegar ég var í feðraorlofi - eftir uppskrift úr matardagbókinni hans - gerði hann nærri því á sama degi og hann gerði sinn. Flottur.

Pasta tricolore

Þessi réttur er mjög einfaldur - bragðið af honum alveg frábært og það sem góða er að það tekur lítin tíma að elda hann. Þennan rétt hentar samt best að elda að sumri til þegar tómatauppskeran stendur sem hæst. 

Eitt kíló af af íslenskum plómutómötum eru skornir niður og raðað í eldfast mót. 4 msk jómfrúarolíu er hellt yfir og 8 smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar. Tómtötunum og hvítlauknum er velt rækilega upp úr olíunni. Ofn er hitaður í hámark og kveikt á grillinu. Eldfastamótið sett ca 15 cm frá og eru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir taka lit. Sumir verða gullbrúnir, sumir örllítið dekkri. Eldfastamótið er tekið út og tómatarnir stappaðir með gaffli - misvel. Einum smátt skornum ferskum mozzarellaosti, 30 rifnum basilikulaufum og 1/2 búnti af niðurskorinni ítalskri (flatleaf) steinselju er blandað saman við og 4 msk af rjóma sömuleiðis. Saltað og piprað eftir smekk. Hrært vel og sett aftur í ofninn í nokkrar mínútur.

Gott pasta (Fabrizzia di Rustichella) er soðið í miklu söltuðu vatni skv leiðbeiningum. Þegar pastað er tilbúið - la dente - er vatninu hellt frá og pastað sett saman við tómatsósuna og blandað vel saman þannig að pastað er vel þakið af sósu. Parmisanostur er raspaður yfir og leyft að bráðna.

Með þessu var ágætt salat; nokkur græn blönduð lauf, tveir niðurskornir tómatar, þrjár niðurskornar radísur, nokkrir skafningar af primadonnaosti, nokkrum ristuðum graskersfræjum sáldrað yfir. Dressingin er einföld; smá jómfrúarolía, salt, pipar og nokkrar línur af crema di balsimico.

 Borið fram með góðu brauði - helst heimagerðu foccacia, með ólívum, góðu salati. Mikilvægt er að hafa nóg af parmesan osti - og ekki sakar að fá sér gott rauðvín með þessu.


Sunday 20 May 2007

Thaifusion kjúklingur með basmati hrísgrjónum

Er er alltaf að reyna að færa mig meira í átt til Austurlanda í matseld minni. Það gengur en fremur hægt. Á alltaf erfitt með að slíta mig upp úr gamla farinu. Svo þegar ég loksins tek skrefið og elda eitthvað sem að ég held að sé austurlenskt eða eftir austurlenskri uppskrift finnst mér það alltaf meiriháttar.

Þessi uppskrift er innblásin af Kristni, vini okkar hjóna. Einhvern tíma þegar ég var að sækja Valdísi dóttur mína til þeirra var hann að elda rétt sem er kannski ekki ósvipaður þessum. Ég fékk að smakka hjá honum og rétturinn var alveg frábær - kókósmjólk, kóríander, kjúklingur, gult karrí, ferskur ananas - ljúffengt. Þessi réttur hjá mér í gærkvöldi var tilraun til að endurskapa þann rétt.

Ég keypti um daginn kókóshnetur - ég hafði hugsað mér að nota þær í salat - skafa ferskan kókós yfir en ákvað að bæta honum frekar útí réttinn - eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að skafa kókós eða raspa hann yfir matinn því að hann varð ansi stífur við eldunina, hafði bitana full stóra.

Thaifusion kjúklingur með basmati hrísgrjónum.

Fyrst voru kjúklingabringur, ca 500 gr, þvegnar og þurrkaðar og skornar niður í munnbitastóra bita. Bitarnir voru svo lagðir í smá marineringu sem samanstóð af smávegis af ferskum rauðum chilli, smá ferskum brytjuðum engifer, nokkrum skvettum af nam pla (fiskisósu), flatlaufssteinselju, salti og pipar. Látið standa í um klukkustund. Þá er nægur timi til að undirbúa afganginn af hráefninu og gæða sér á einu hvítvínsglasi á meðan - í þetta sinn Anakena chardonnay 2004 - afar gott.

Einn skarlottulaukur er skorinn smátt niður sem og 4 hvítlauksrif Svo er 4 cm af engifer skorinn smátt niður auk 2 rauðum chillipiparávöxtum sem hafa verið kjarnhreinsaðir. Olía er hituð í wok pönnu og þegar hún er heit er lauknum, hvítlauknum og engiferinu skellt á pönnuna ásamt einni tsk af túrmerik og einni tsk af muldu coríander. Þetta er steikt í smástund og þá er kjúklingum og chillipiparnum bætt saman við og steikt þar til kjúklingurinn hefur tekið lit.

Þá er 1 1/2 dós af kókósmjólk og 150 ml rjómi bætt útí ásamt niðurskornum kókós úr einni hnetu og 1/2 ferskur niðurskorinn ananas. Suðan var látin koma upp og svo var lokið sett á leyft að sjóða í 30-40 mínútur. Sem er ágætt því þá er tími fyrir annað hvítvínsglas - common, það er laugardagskvöld.

Þegar það fer að nálgast lok eldunartímans eru hrísgrjón soðið skv. leiðbeiningum á pakkanum og einfalt salat útbúið með. Borið fram með fersku kóríander sem hver og einn getur sáldrað yfir matinn sinn eftir smekk.

Rétturinn reyndist vera ansi sterkur þrátt fyrir talsvert magn af kókósmjólk, rjóma og ananas. Hann var mjög bragðgóður en ég hefði sennilega átt að matreiða kókósinn öðruvísi, skafa hann yfir í lokin eða eitthvað á þá leið - reyni það næst.


Friday 18 May 2007

Chilli con carne með grilluðu maisbrauði

Ég hef sett inn nokkrar nautahakksuppskriftir upp á síðkastið - eins og fram hefur komið á blogginu mínu hef ég verið að safna að mér nautahakksuppskriftum. Markmiðið var að komast í 20 frábærar uppskriftir - það á eftir að ganga vel - fólki er velkomið að senda mér góðar uppskriftir.

Segja má að þessi chilliréttur sé innblásinn af ágætum manni, Kristni Grétarssyni, vini okkar hjóna - sem er mikill matgæðingur. Hann er frægur fyrir chilli con carne rétt sem hann gerir og hann hefur í háa herrans tíð ætlað að senda mér uppskriftina sína. Hann hefur ekki ennþá sent mér þessa góðu uppskrift þannig að ég neyddist til að finna uppskrift - það var af nógu að taka. Ég fann nokkrar góðar uppskriftir og niðurstaðan varð einhverskonar bræðingur þeirra uppskrifta sem ég fann. Ég vona þó samt ennþá að Kristinn sendi mér sitt vers.

Chilli con carne með grilluðu maísbrauði.

Fyrst voru 2 hvítir laukar og 7 hvítlauksrif skorin smátt niður og steikt í jómfrúarolíu í stórum potti. Þegar laukurinn var orðinn gljáandi var tveimur smátt skornum sellerístönglum og 2 smátt skornum gulrótum bætt saman við og steikt í smástund. Því næst var 1100 gr af nautahakki bætt úti og saltað aðeins og piprað. Steikt í smástund og reynt að kljúfa hakkið vel í sundur þannig að ekki verði svona klumpar. Því næst er hálfri rauðvínsflösku (tveimur ríflegum glösum) bætt útí og soðið upp. Því næst er 2 msk af góðum nautakrafti bætt saman við og svo 2 dósum af niðursoðnum, hökkuðum tómötum og 4 matskeiðum af tómatpaste. Svo er þremur chilli piparávöstum sem hafa verið kjarnhreinsaðir og smátt skornir bætt saman við ásamt 1 tsk af muldu koríander, 1 tsk af muldu kúmeni, 1 tsk Worcherstershire sósu og einni kanilstöng. Suðunni er leyft að koma upp aftur og soðið við lágan hita með lokið á í 1-2 klukkustundir. Þegar um 10-15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er 2 dósum af rauðum nýrnabaunum - vökvanum hellt frá - bætt saman við. Saltað og piprað eftir smekk.

Borið fram skreytt með fersku kóríander - og um að gera að hafa auka kóríander svo að fólk geti bætt við. Einnig var ég með limebáta þannig að hægt var að kreista ferskan limesafa yfir chilliiið.

Maísbrauð.

Þetta var einhver hugmynd sem ég fékk þegar ég var að elda - maður sér oft gular baunir í mexíkóskum réttum og var eitthvað að pæla hvort ég ætti að henda því út kássuna líka - en engin af þeim uppskriftum sem ég hafði rekið mig á vildi neitt slíkt. Þannig að úr varð þetta brauð - það varð að hafa eitthvað meðlæti með þessu.

Fyrst er gerið vakið - 2 tsk af þurrgeri er vakið í 250 ml af volgu vatni ásamt 3 tsk af strásykri. 400 gr af hveiti og svo 200 gr af heilhveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og smá sletta af jómfrúarolíu er bætt við. 300 gr af maukuðum gulum baunum er bætt saman við hveitið. Svo er gervatninu bætt varlega saman við og það hnoðað þar til deigið er orðið að fallegum mjúkum klump. Látið hefast í 30-60 mínútur. Þegar deigið var búið að hefast var það lamið niður og klipið af deiginu minni klumpar sem voru flattir út, pennslaðir með olíu og saltaðir og pipraðir og grillaðir á rjúkandi grilli á báðum hliðum í nokkrar mínútur þar til fullbakað.

Maturinn var svo borið fram með einföldu salati, græn lauf, nokkur basil lauf, mozzarellaostsneiðar, plómutómatar og niðurskorin rauð vínber.

Ákaflega vel heppnuð máltíð. Svona kássur verða betri daginn eftir þannig að ég er farin að hlakka til að gæða mér á henni á morgun þegar ég vakna eftir næturvaktina sem ég er að fara á.


Tuesday 15 May 2007

Pavlova - eftirréttur guðanna - fyrir 130 manns

Ég hef bloggað um pavlovur áður. Þetta er minn uppáhalds eftirréttur, fallegur að horfa á og bragðast dásamlega.

Eins og fram kom í síðustu færslu þá vorum við í brúðkaupi á laugardaginn hjá Dögg og Grími og ég bauðst til að sjá um eftirréttinn. Brúðhjónin voru sammála um að ekkert annað kæmi til greina en pavlova. Þetta er alveg ekta sumareftirréttur, virkar léttur og frískandi, og allir þessir ávextir varpa fram tálmynd hollustu.

Ég hef venjulega stuðst við uppskrift Nigellu Lawson úr bókinni - How to eat, the pleasures and principles of goog food. Ég hef þó breytt uppskriftinni lítillega - hvað snertir marensbotninn. Mér fannst hann þurfa að vera aðeins sætari og hafa meiri vanillukeim. Þetta á bara við um basic hvítan botn - svo er hægt að breyta útaf - setja kókos útí, súkkulaði - you name it.

Pavlova - eftirréttur guðanna - fyrir 130 manns

5 eggjahvítur er þeyttar með smávegis salti þar til hvít froða fer að myndast á yfirborðinu. Þá er 290 gr af sykri bætt útí, þriðjung til fjórðung í senn þar til eggjahvíturnar eru orðnar stífar. Það þýðir að þegar skálinni er snúið á hlið eiga eggjahvíturnar ekkert að hreyfast. Svo er tveimur tsk af kartöflumjöli bætt saman við, 1 tsk af hvítvínsediki og nokkrum vanilludropum og hrært varlega saman við.

Marensinn er svo lagður á plötu og mikilvægt er að jaðarinn sé jafnþykkur og miðjan. Ofn er hitaður í 200 gráður og þegar marensinn er settur í ofninn er hitinn lækkaður í 150 gráður og bakað í fimm korter. Látið kólna alveg. Vel er hægt að gera botninn daginn áður - muna bara að geyma hann á myrkvuðum köldum stað.

300-500 ml af rjóma er þeyttur og dreift yfir botninn í þykku lagi og svo er berjum dreift yfir, í þetta sinn; niðurskornum jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, brómberjum og svo ástaraldin (það var sérstaklega fyrir brúðhjónin - móðir brúðgumans er farin að leggja hart að framleiðslu barnabarna - þannig að þetta var smá innlegg í þau mál).

Þetta er svo endurtekið tíu sinnum. Ég fékk aðstöðu í eldhúsi veitingastaðarins Geysis og Bjarki kokkur taldi að kökurnar myndu duga fyrir amk 200 manns. Hvað um það - þær voru borðaðar upp til agna.









Monday 14 May 2007

Grillaður sítrónugljáður kjúklingur með timian

Okkur hjónum var boðið í brúðkaup í gær. Dögg og Grímur, vinir okkar hjóna gengu í hjónaband í Skálholtskirkju og svo var haldin veisla á Hótel Geysi. Brúðkaupið og sérstaklega veislan var meiriháttar. Augljóst að Dögg og Grímur hafa skipulagt allt í þaula. Maturinn var frábær, stemmingin einstök og allir skemmtu sér konunglega. Dansað var fram á rauða nótt.

Grímur og Dögg báðu mig um að hjálpa sér með eftirréttinn. Einhvern tíma á haustmánuðum komu brúðhjónin í mat til okkar hjóna, þá hafði ég eldað pavlovu í desert. Ég hef bloggað um pavlovu áður. Grímur, eins og aðrir, var mjög hrifinn. Ég bauðst til þess að búa svona kökur til ef þau myndu einhverntíma ganga í það heilaga. Allavega brúðkaupið var í gær og ég bjó til 14 pavlovur fyrir 130 manns - með hindberjum, jarðaverjum, brómberjum, bláberjum og ástaraldinum. Þetta heppnaðist vel. Fæ vonandi sendar myndir og skelli þeim á vefinn minn.

Við komum heim seinnipartinn. Alltaf þegar ég er haldin samkvæmisflensu langar mig í gott að borða - ekki mjög ólíkt því sem gerist aðra daga - nema hvað oft er þörf en á þessum dögum er nauðsyn. Það rættist aldeilis úr þessum degi. Sól, heiðskýrt, rólegt eftir kosningaþruglið í gærkvöldi. Við stoppuðum í búð á leiðinni í bæinn og keyptum heilan ferskan kjúkling. Ég er búinn að elda kjúkling ansi mikið undanfarið. Ég gat einhvern vegin ekki huxað mér að hafa fisk á sunnudegi og heldur ekki neitt þyngra en kjúkling þar sem við höfðum verið í rosalegri matarveislu kvöldið áður. Úr varð kjúklingur - ekkert leiðinlegt við það þar sem það er eitt að mínum uppáhalds mat.

Grillaður sítrónugljáður kjúklingur með timian. sítrónukjúlingur

Það var svo fallegt veður í kvöld að ég eldaði úti á svölum. Þó að það var aðeins rok útí þá var alveg logn á svölunum og funheitt var útí. Þetta var dásamlegt.

Undirbúningurinn hófst með því að útbúa sítrónuolíuna. 60 ml af extra jómfrúarolíu sett í krukku og safi úr tveimur sítrónum bætt saman við. Hrist vel saman. 1 heill kjúklingur er þveginn og þurrkaður og klipptur upp og flattur út þannig að bringurnar liggja hlið við hlið og leggirnir til hliðanna. 30 ml af sítrónuolíunni er dregnir upp í sprautu og stungið á bringunum og 15 ml settir í hvora bringuna. Svo er sítrónuolíunni hellt yfir kjúklinginn og nuddað inn i haminn. Börkur af einni sítrónu er raspað yfir kjúklinginn. Svo er um 1-2 tsk af þurrkuðu timian sáldrað yfir. Í lokin er saltað og piprað eftir smekk. Grillað á heitu grilli á óbeinum hita - sem þýðir ekki er beinn hiti undir fuglinum...nema í lokin þegar kveikt er undir til þess að hamurinn grillist fallega. Þetta mun taka um 5 kortér - eða þartil kjarnhiti náði 82 gráðum. Fuglinum er snúið reglulega.

Með kjúklingum var sósa sem ég bjó til á gashellunni hliðana á grillinu - allt úti á svölum, meiriháttar!!! Fyrst hitaði ég pönnuna - hellti svo afgangnum af sítrónuolíunni útá hana, þegar hún var farin að hitna setti ég þrjú smátt skorinn hvítlauksrif og steikti/sauð í skammastund svo bætti ég niðurskornum blaðlauk, niðurskornum sveppum og steikti þar til farið að mýkjast aðeins og svo var sett eitt glas af hvítvíni, 250 ml af vatni, hálfum kjúklingatening og suðunni leyft að koma upp. Svo var 50 gr af rjómaosti sett saman við og saltað og piprað auk þess sem ég setti 1 tsk af sykri til að ná góðu jafnvægi á sósuna. Sósan var svo soðin mikið niður þannig að hún varð þykk og bragðmikil. Í lokin var smátt skorin fersk steinselja og basil bætt útí og leyft að hitna í 1-2 mínútur þar til hún var borin fram. kartöflur

Meðlæti að þessu sinni var ein bökuð kartafla og ein sæt kartafla sem ég sneiddi niður í hálfs sentimeters þykkar sneiðar. Þær voru pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar.  Grillaðar á heitu grilli á hvorri hlið í 2-3 mínútur þannig að þær voru grillaðar á utanverðunni og svo voru þær settar á efri grindina og fengu að bakast þar til kjúklingurinn var tilbúinn. Fersku niðurskornu dilli var svo sáldrað yfir venjulegu kartöflurnar og steinselju yfir sætu kartöflurnar.

Með þessu var borið fram einföld salatblanda og Lindemans Chardonnay hvítvín. Frábær endir á góðum degi.


Saturday 12 May 2007

Hunangsdijon marineraðar kjúklingabringur

Grillmatur er í eiginlega í eðli sínu einfaldur matur, en undirbúningurinn er misflókinn. Ég kom seint heim í dag til að undirbúa kvöldmat, bæði vegna þess að við hjónin vorum að fá okkur nýjan bíl og einnig fór ég í seinna fallinu í skvass.

Kom heim um að verða sjö og þá var allt í fullu gangi í eldhúsinu. Mágkona mína og svila og sonur þeirra komu í mat - jæja - svilkona mín eiginlega eldaði matin með aðstoð Snædísar konunnar minnar. Við höfðum ákveðið að hafa kjúklingabringur í matinn vegna þess að við keyptum of mikið fyrir gærkvöldið og áttum afgang.

Við höfum lengi verið að gera þennan rétt. Við gerðum hann fyrst fyrir nokkrum árum síðan uppi í sumarbústað þegar við höfðum fyrir klúðurs sakir gleymt talsvert af hráefni og vorum að reyna að redda málunum. Þetta heppnaðist vel og síðan þá hefur þessi matur verið í talsverðu uppáhaldi - ekki bara vegna bragðsins heldur einnig svona nostalgíu element síðan við vorum þessa helgi í bústaðnum.

Hungansdijon marineraðar kjúklingabringur

Átta kjúklingabringur eru lagðar í marineringu sem er gerð úr hálfri krukku af dijon sinnepi og 4 msk af góðu hunangi. Látið liggja í þessu um stund. Svo eru bringurnar grillaðar á heitu grilli þar til kjarnhiti er orðin 82 gráður. Saltaðar og pipraðar á meðan þær eru á grillinu.

Með kjúklingum var köld sýrðrjómasósa sem var gerð úr 1 1/2 dós af 10% sýrðum rjóma, 1/2 búnti af niðurskornu basil, 2 msk góðu hlynsírópi, 1/2 tsk af oregano, 1/2 niðurskornum chillipipar og hálf smátt niðurskorin agúrka. Saltað og piprað eftir smekk.

Sætar kartöflur, kartöflur og eggaldin var skorið niður í skífur, pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraður og grillað þar til stökkar.

Með þessu var einnig ferskt salat; græn lauf, niðurskorin papríka, niðurskorin akúrka, mozzarellaostur, olía og balsamicedik.

Borið fram með góðu hvítvíni. Gott kvöld - heitt á svölunum - rétt svona til að syrgja tapið í Evróvision.


Thursday 10 May 2007

Einfaldur tex-mex matur á Eurovision

Það er hálfeinkennilegt en Eurovision er svona eins og jólin ættu að vera. Á Eurovisiondögum er alltaf skemmtileg stemming - næstum svona hátiðarbragur - sem fjölskyldan sameinast í kringum einhverja skemmtun. Á jólunum eru kaupmenn hins vegar búnir að eitra stemminguna með  endalausum auglýsingum og tilboðum - Jólin eru hálfeyðilögð af þessum sökum. Maturinn góður en aðdragandinn heldur dapurlegur og ekki er eftirleikurinn betri með jólagleði 1. febrúar þegar Jóla-VISA minnir á sig.

Á mínu heimili hefur alltaf verið fjör á Eurovisionkvöldum - þessi undankeppni er hinsvegar dáldill stemmingarbani þar sem undankeppnakvöldið (þar sem við erum annað árið í röð) er á virkum degi og vinna daginn eftur - takmarkar allverulega það magn rauðvíns sem hollt er að innbyrða. Maður var nú stoltur af okkar manni á sviðinu. Þegar maður horfði á Eirík gat maður vel ímyndað sér að Íslendingar hafi lítið breyst á 1000 árum - maður sér alveg fyrir sér rauðhærðan víking klæddan í leður að herja á Evrópskar þjóðir. Vona að lagið komi okkur áfram.

Við erum að fara í brúðkaup á laugardaginn næstkomandi - þetta verður massívur dagur - Kosningar, Evróvision og brúðkaup Daggar og Gríms vinafólks okkar. Maður sér nú alveg fyrir sér að kosningarnar eigi alveg eftir að fara alveg í vaskinn. Fólk á eftir að standa inn í kjörklefunum og reyna að gefa Framsókn 2 stig, Frjálslyndaflokknum 4 stig, Sjálfstæðisflokknum 6 stig, Vinsti grænum átta, Samfylking 10...þið skiljið hvert ég er að fara - fjölda auðum/ógildum á aukast töluvert.

 Jæja hvað um það. Það er Evróvisionkvöld í kvöld og fólkið heima var í stemmingu fyrir góðan en fljótlegan mat. Mín fjölskylda hefur lengi verið að gera tex-mex mat - pabbi byrjaði á þessu fyrir löngu síðan og ég hef lengi verið að gera þennan mat. Ég hef áður verið með færslu - mexíkósk terta - sem var fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þessi er ennþá einfaldari.

Tex-mex matur á Eurovision

Að þessu sinni notaði ég kjúklingabringur. Fjórar kjúklingabringur eru pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar og svo Pimenton (sætur chillipipar) sáldrað yfir. Grillað á heitu grilli þar til kjarnhiti hefur náð 82 gráðum. Skorið svo í þunnar sneiðar og borið fram á flötum disk.

Með þessu var einfalt guacamóle - 1 avókadó, 1/2 rauðlaukur, 3 tómatar, 2 hvítlauksrif og safi úr einni límónu er blandað saman í matvinnsluvél og rifið saman í nokkur mínútubrot þar til vel blandað. Saltað, piprað og sætt eftir þörfum.

Jafnframt var svona tómatsósubræðingur (varla að maður þori að segja frá þessu - þetta var svo aðkeypt eitthvað). Einn krukka af El Miriachi salsasósu, 1 dós af niðurskornum tómötum,  var hellt saman í pott - bragðið jafnað með salti og pipar og hitað upp.

Með þessu var ansi fjölbreytilegt hráefni til að raða á Burritokökurnar (keyptar tilbúnar - og hitaðar á grillinu). Niðurskornir tómatar, græn paprika, rauð paprika, rauðlaukur, kóríander, niðurskornir sveppir, ferskt grænt salat, niðurskorin agúrka, rifinn ostur, refried baunir, gular baunir, og sýrður rjómi.

Þessu er svo öllu raðað saman og vafið inn í Burríto kökur - borðað með höndunum - og skolað niður með köldu öli. Góður matur sem vel hæfir þessu tilefni - Evróvision.

 

 

 


Monday 7 May 2007

Svartfugl, gæsabringur og hreindýrasteik - hvílík veisla

Það er búið að vera fremur mikið að gera undanfarna daga. Búinn að vera á vöktum þessa vikuna og þá er alltaf gaman þegar dregur nær helginni. Helgin er einhvern vegin meira virði þegar vikan er búinn að vera annasöm.

Ég er búinn að vera að leggja drög að þessu matarboði ansi lengi. Við hjónin höfðum boðið vinafólki okkar í mat. Dóttir okkar á vinkonu, bestu vinkonu sína, og við höfum kynnst foreldrum hennar ágætlega. Við höfum fengið þau áður til okkar í mat og þau hafa boðið okkur sömuleiðis. Kristinn og Helga eru miklir sælkerar og nautaseggir fram í fingurgóma. Fátt er betra en að gefa góðu fólki gott að borða. Þau eru að fara flytja til Danmerkur og við ákváðum að bjóða þeim í svona kveðjumatarboð.

Þegar upp var staðið var þetta fjögra rétta máltíð. Og hún heppnaðist ákaflega vel. Við vorum við matarborðið frá um kl 20 til að verða 24 - ekkert er betra en að sitja lengi við að borða - góðan mat og gott vín - I love it!!!

Svartfugl með toffísósu.

Ég fór nýlega á svartfuglsveiðar - heimturnar voru nú ekki beisnar en þeim fáu fuglum sem ég náði að skjóta var gerð góð skil. Átta svartfuglsbringur voru hreinsaðar - öll fita skorin af og himnur hreinsaðar frá, þannig verður ekkert lýsisbragð af fuglunum. 60-70 gr af smjöri eru brædd á pönnu og þegar froðan hverfur eru bringurnar steiktar í skamma stund á hvorri hlið. Rétt áður en þær eru tilbúnar er 2-3 msk af púðursykri bætt á pönnuna og bræddur í smjörinu. Þegar sykurinn er orðin að bráð er 100 ml af rjóma hellt á og leyft að sjóða upp á skömmum tíma og þá eru bringurnar veiddar upp af pönnunni og lagt á disk. Sósunni er síðan hellt í kringum bringurnar. Fersku niðurskornu dilli er svo sáldrað yfir diskinn. Borið fram með góðu rauðvíni.

Grillaðar grágæsarbringur með pecanhnetu- og kóríanderpestói. gæsabringur

Eins og áður hefur komið fram hef ég verið að reyna að veiða aðeins. Skaut nokkrar gæsir síðastliðið haust. Þeim var einnig gerð ágæt skil núna í gærkvöldi. Tvær grágæsarbringur voru hreinsaðar og þurrkaðar. Lagðar í skál og jómfrúarolíu hellt yfir - ca 250 ml. Svo er einu búnti af saxaðri myntu og hálfu búnti af ferskri steinselju ásamt safa af tveimur sítrónum og svo saltað og piprað. Látin marinerast í amk 8 klst helst í sólarhring. Svo eru bringurnar grillaðar á háum hita þar til kjarnhiti er kominn í 55-57 gráður. Látin standa í 10 mínútur til að jafna sig og svo skornar í þunnar sneiðar og lagt á klettasalatsbeð.

Áður en bringurnar eru grillaðar er pestóið útbúið með því að saxa niður tvö búnt af kóríander, 1 búnti af basil, 100 gr af ferskum nýrifnum parmesan osti, safi úr hálfri sítrónu, 1 dós (100 gr) af smátt söxuðum pecan hnetum blandað saman í skál. Saltað með Maldon salti og svo piprað með nýmöluðum pipar. Mjög góðri extra jómfrúarolíu er hrært saman við þar til þykktin á pestóinu er orðin eins og hún á að vera. Þykk og rústic. Pestóið svo lagt yfir skornar bringurnar og chilli stráð yfir.

 Ofnbakaður hreindýraframhryggur með bláberjasósu og katalónskum kartöflum.

1,2 kg af hreindýraframhrygg er lagður í marineringu með 1 1/2 smátt skornum hvítlauk, 1 búnti af lömdu fersku rósmaríni, 2 tsk af þurrkðuðu timian (átti ekki ferskt), einu búnti af fersku oregano, nóg af extra jómfrúarolíu, salti og pipar. Látið standa í 8 klst helst lengur. Bakað í ofni í ofnpotti - lyft af botninum með gulrótum, lauk og sellerí. Þetta var svo bakað við 150 gráður þar til kjarnhiti var 62 gráður.

Með þessu voru katalónskar kartöflur sem ég hef sagt frá áður á blogginu mínu. 10 kartöflur eru skornar niður í báta. Steiktar á pönnu í hvítlauksolíu, ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Svo eru hvítvíni bætt á pönnuna ca 200 ml og svo lokið sett á. Soðið í 15-20 mínútur og hrært af og til þar til tilbúið. Fersku dilli svo sáldrað yfir tilbúnar kartöflurnar.

Með þessu var bláberjasósa, sérlega ljúffeng. 1/2 líter soði - svona villisoði var útbúið, bara Oscars úr dollu hitað í potti, svo var 2 msk af bláberjasultu hrært saman við og soðið aðeins upp. Svo var nokkrum gulrótarbitum, sellerí, kryddjurtum og lauk sem hafði eldast með hreindýrunu fiskað upp og maukað með töfrasprota. Hrært saman við sósuna og soðið áfram í nokkrar mínútur. Svo var sósan sigtuð og færð aftur í pottinn og 100 ml rjóma bætt við og suðan látin koma upp. Smakkað til og saltað og piprað eftir smekk. Í lokin er svo einu boxi - 100 gr af ferskum bláberjum bætt saman soðið áfram í skamma stund og þá er sósan tilbúin.

Bar fram ferskt salat með aðalréttinum. Græn lauf, niðurskorin blá vínber, ristuð graskersfræ, niðurskornir plómutómatar, þunnt sneiddur kastali. Smá skvettu af jómfrúarolíu yfir og svo salt og pipar.

Með þessu var svo drukkið nokkrar tegundir af góður rauðvíni og spjallað fram eftir kvöldi. Yndislegt veður og góður félagsskapur. Frábær kvöldstund.


Friday 4 May 2007

Nautahakksbollur með kreólasósu og heitu salati

Ég er alltaf að reyna að viða að mér fleiri uppskriftum úr nautahakki. Það er ekki þannig að nautahakk er mitt uppáhalds hráefni - það er bara þannig að ég á talsvert af nautahakki og mann hættir oft til þess að fara automatísk í gömlu klisjurnar. Ég er því að reyna að safna í sarpinn. Og það gengur alveg ágætlega. Markmiðið er að ná 20 ansi góðum uppskriftum - það ætti ekki að vera nokkuð mál - er komin langleiðina að markinu.

Ég var að versla í Nóatúni nýverið og rakst þar á nýja íslenska matreiðslubók sem var verið að kynna, man því miður ekki nafn höfundar, en bókin leit vel út - á sennilega eftir að bæta henni í safnið. Einni uppskrift var stillt upp til auglýsingar og hljómar eitthvað svipað og titillinn á minni uppskrift. Ég gerði mitt besta að leggja hráefnið á minnið og var svo eitthvað að bisast við að rifja þetta upp á þriðjudagskvöldið.

Bróðir minn kom aftur í mat og hjálpaði við eldamennskuna. Þó mér finnist oft gott að vera með sjálfum mér við eldamennskuna þá er mjög gaman að elda með einhverjum öðrum. Það er eitthvað sem hefur tíðkast mikið í minni fjölskyldu. Safnast saman nokkuð áður en maturinn er tilbúinn - hjálpast að við að búa til salat, hvítvínsglas í hendi og fjörugar umræður um það sem hvílir á manni. Þetta eru augnablik sem eru frábær og eru því miður endurtekin of sjaldan.

Nautahakkskjötbollur með Kreólasósu og heitu salati kreóla

Með kreólasósu hljómar fremur framandi en með þessu er verið að vísa til eldamennsku sem á rætur sínar að rekja til svæðins í kringum Louisiana í Bandaríkjunum. Þetta er í raun fusion eldamennska sem varð til á þessu svæði þegar ólíkir hópar sem flust höfðu til Bandaríkjanna voru að aðlaga sínar matarhefðir að því hráefni sem völ var á.

Nautahakkskjötbollurnar er útbúnar þannig að 600 gr af nautahakki eru sett í skál og 1 smátt saxaður rauður laukur, 1 tsk paprikuduft, 1 tsk pimenton (ákv. tegund af muldum chilli), 1/2 tsk oregano, Maldon salt, nýmalaður pipar, 1 egg og brauðmylsna eru hnoðuð saman og mótað í litlar bollur á stærð við golfkúlur (kannski aðeins minni). Bollurnar eru steiktar á pönnu þar til brúnar að utan.

Sósan er einföld. Olía er hituð í potti og einum smátt skornum hvítum lauk og 5 hvítlauksrifjum er bætt útí og steikt þar til gljáandi. Svo er 2 niðursneiddum rauðum papríkum bætt útí sem og einum smátt skornum og fræhreinsuðum chillipipar (hetjur láta fræin með) og steikt aðeins áfram. Því næst er ananas sem hefur verið afhýddur, og kjarninn fjarlægður og skorinn í litla bita bætt saman við ásamt 2 dósum af niðursoðnum hökkuðum tómötum. Tveimur bollum af vatni er bætt útí, 2 tsk af paprikudufti, salti, pipar, 1 tsk af pimento. Suðunni leyft að koma upp, smakkað til og bragðbætt eftir þörfum. Sósunni er leyft að sjóða aðeins niður og svo er henni hellt yfir kjötbollurnar á pönnunni og leyft að malla saman um stund á meðan annað meðlæti er undirbúið. vetrarsalat2

Með þessu var heitt salat; klettasalat lagt á disk. Niðursneiddur kúrbítur og 12 sveppir skornir í fernt voru steiktir upp úr smá hvítlauksolíu. Saltað og piprað og svo dreift yfir klettasalatið. Kannski væri gott að hella eitthvað af vökvanum frá því salatinu hættir til að verða ansi blautt. Á meðan salatið er ennþá heitt er nokkrum litlum bitum af hvítmygluosti dreift og leyft að bráðna.

Borið fram með hvítum hrísgrjónum...og helst góðu rauðvíni.


Tuesday 1 May 2007

Georgísk kjúklingaveisla innblásin af Nigellu

Heilsteiktur kjúklingur verður að teljast eitt að mínum uppáhalds réttum. Ég veit fátt betra en að vita af heilum kjúklingi - vandlega krydduðum, troðnum eða á teini - inni í ofni. Og flestir í fjölskyldunni eru mér sammála. Upplærin og leggurinn er mitt uppáhald og auðvitað vel eldaður og stökkur vængurinn. Það er eitthvað rosalega heimilislegt við að heilsteikja kjúkling. Svo er þetta líka frekar ódýrt hráefni - allavega þegar maður kaupir heilan fugl, eiginlega alveg magnað hvað mikið er lagt á bara bringurnar - sem síðan eru ekki bestu bitarnir ... það er alltént mín skoðun.

Þessi uppskrift er frekar frábrugðin því sem ég elda venjulega þegar ég heilsteiki kjúkling og það helgast af því að ég er búinn að vera að lesa síðustu bók Nigellu Lawson síðustu vikur. Hún heitir Feast, Food that celebrates life - og um matarveislur - ofboðslega girnileg matreiðslubók - vel skrifuð, hún skrifar á þann hátt um mat að ekki er annað hægt en að vilja borða hann, og svo ekki er leiðinlegt að horfa á hana Nigellu. Í bókinni eru margar hugmyndir af matarveislum og meðal annars þessi sem ég var að elda. Ég breyti uppskriftinni bara lítillega - ekki vegna þess að það yrði endilega neitt betra heldur átti ég ekki allt hráefnið sem hún notar - þá bara spinnur maður - og um leið og maður spinnur getur maður eignað sér uppskriftina ... í það minnsta að einhverju leyti.

Við hjónin vorum með gesti, Unni og Bjössa vinafólk okkar í mat. Unnur á von á barni og það er farið að sjást vel á henni. Það var gott að fá þau í heimsókn. Alltaf nóg að spjalla um ... og yfir góðum mat er alltaf hægt að kjamsa á einhverju.

Georgískur kjúklingur með fyllingu

Tveir kjúklingar eru þvegnir og þurrkaðir og lagðir í eldfast mót. Lagði niðurskornar gulrætur og blaðlauk undir til að lyfta þeim aðeins upp frá mótinu. 30 gr af smjöri og smávegis af hvítlauksjómfrúarolíu eru hituð í pönnu og 4 smátt skorin hvítlauksrif og 2 smátt skornir laukar eru steiktir í olíunni þar til hann er farinn að gljáa. Svo er 250 gr af Basmati hrísgrjónum bætt á pönnuna ásamt 100 gr af niðurskornum sveskjum. Steikt um stund og hrísgrjónin böðuð upp lauksmjörinu. Þá er 600 ml af vatni hellt á pönnuna hrært aðeins og lokið sett á og soðið við lágan hita í 10-15 mínútur. Þegar hrísgrjónin eru soðin er 1/2 búnti af smátt saxaðri steinselju hrært saman við. Hrísgrjónin eru svo troðin inn í kjúklinginn þannig að hann standi nánast á blístri. Bakað í ofni í við 180 gráðu hita í fimm korter.

Grænar belgbaunir og kúrbítur með jógúrtsósu

Þessi réttur var eiginlega sigurvegari kvöldsins - kom verulega á óvart og verður án efa eldaður aftur. Þegar 20 mínútur eru eftir af eldunartímanum er rétt að undirbúa meðlætið. 500 gr af grænum belgbaunum (soðnar í 5 mínútur í söltuðu vatni) og einn niðursneiddur kúrbítur. Svo eru tveir litlir laukar skornir niður mjög smátt og 1/2 tsk af kanill og hnífsoddi af muldum negull bætt saman við. 50 gr af smjöri og smávegis af olíu er hitað á pönnu og kanil/negul laukurinn steiktur þar til hann fer að gljáa. Þá er belgbaununum og kúrbítnum bætt á pönnuna og blandað vel við laukinn og steikt við lágan hita í 10-15 mínútur. Þegar eldunartíminn er að klárast er 1/2 búnti af smátt skorinni steinselju og 1/2 búnti af smátt skornu basil hrært saman við baunirnar.

Tvær dósir af hreini jógúrt eru settar í skál og 4 kramin hvítlauksrif blandað saman við. Saltað og piprað vandlega. Baunirnar og kúrbíturinn er svo settur á flatan disk og jógúrtsósunni hellt yfir. Í lokin er 2 msk af smátt skorinni ferski myntu sáldrað yfir.

Borið fram með einföldu salati; spínat, klettasalat, tómatar, paprika, fetaostur. Með þessu var drukkið Trivento rauðvín. Mjög ljúffengt.