Sunday 27 August 2017

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði

Í þessari færslu er eiginlega sósan sem leikur aðalhlutverkið. Og það er vegna þess að ég held bara að mér hafi tekist að gera bestu hvítlaukssósu sem ég hef bragðað. Og það er ekki eins og humarinn og piparosta-hvítlauksbrauðið hafi ekki verið ljúffengt - sósan var barasta algerlega dásamlega ljúffeng!

Og það tókst með því að ofnbaka hvítlaukinn í álpappír. Þannig umbreytist hann alveg - og það heita og sterka bragð sem oft einkennir hvítlauk mildast og en í staðinn koma sætir tónarnir og ljúfu jafnvægi náð.

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði


Hráefnalisti

Fyrir fjóra

Fyrir sósuna

1 hvítlaukur
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar
1 dós sýrður rjómi
2 msk grísk jógúrt
2 msk mæjónes
1 tsk hlynsíróp
3 msk graslaukur
salt og pipar

Fyrir humarinn 

Humar
hvítlauksolía
salt og pipar

Fyrir piparostsosta hvítlauksbrauð

1 baguetta
hvítlauksolía
1 piparostur
rifinn ostur eftir smekk
salt og pipar

Byrjum á byrjuninni; Hvítlaukssósan guðdómlega. 


Byrjið á því að setja heilan hvítlauk á álpappír og hella olíunni yfir og saltið. Innsiglið og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 50 mínútur. 


Leyfið lauknum að kólna aðeins áður en þið farið að meðhöndla hann þar sem hann er ákaflega heitur. 


Á meðan hvítlaukurinn er að kólna setjið þið heila dós af sýrðum rjóma í skál.


Hrærið sýrða rjómann saman við tvær matskeiðar af grískri jógúrt og svo sama magni af mæjónesi og hrærið vel saman.


Hakkið graslaukinn ... 


... og blandið honum saman ásamt öllum hvítlauknum - sem auðvelt er að kreista úr hýði sínu.




Klippið humarinn upp eftir bakinu og hreinsið görnina frá og leggið humarhalann ofan á skelina.


Penslið humarinn ríkulega með hvítlauksolíu, salti og pipar. Grillið í fimm til sex mínútur á blússheitu grilli eða inni í ofni.


Skerið baguettuna í tvennt, penslið með hvítlauksolíu, sneiðið piparostinn þunnt og leggið á brauðið. Setjið því næst rifinn ost ofan á og grillið í ofninum í nokkrar mínútur þangað til að osturinn er bráðinn.


Með matnum nutum við þessa ágæta hvítvíns. Við buðum upp á Barone Montalto Bianco Passivento sem er framleitt á Sikiley á Ítalíu. Þetta vín er fölgult í glasi. Ilmar af frískum ávexti, smá sæta á tungu, með mildum ávexti. Eftirbragðið var ljómandi. Passaði ljómandi vel sem ljúf bakgrunnsnóta með ljúffengum humri og kraftmikilli hvítlaukssósu!


Svo er bara að leggja þessa dásemd á disk og njóta - grillaður humar, dásamlegt piparosta-ostabrauð og nóg af þessari dásamlegu hvítlaukssósu.

Saturday 19 August 2017

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk, chilli og kókósmjólk


Það eru margir kostir við að búa á Íslandi. Listinn er auðvitað langur, en til að tengja þessa fullyrðingu við þessa færslu þá hefur það auðvitað að gera með sjávarfangið sem okkur stendur til boða. Það er, eins og flestir vita, framúrskarandi. Í dag býðst okkur svo gott úrval af spriklandi ferskum fiski.

Ég er mjög hrifinn af kræklingi enda hefur hann komið fyrir nokkrum sinnum á blogginu mínu í gegnum árin. Börnin mín eru líka hrifin af honum, meira að segja sú minnsta - Ragnhildur Lára, gæddi sér á nokkrum bitum áður en hún afþakkaði pent og bað um jógúrt.

Kræklingurinn sem við kaupum út í búð er ræktaður, það er auðvitað hægt að týna hann í fjörum suma mánuði ársins, en auðveldast er að ná í hann út í fiskbúð - ég sótti þennan í fiskbúðina mína á Sundlaugaveginum. Það er líka gjarnan talað um að ræktaður kræklingur sé betri en sá sem er villtur - ég satt að segja veit ekki svarið þar sem það er svo langt síðan að ég fékk hann villtan seinast. En ljúffengur er hann úr fiskborðinu!

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk og kókósmjólk

Svo er það líka augljós kostur við krækling er hversu fljótlegt er að elda hann. - Þetta er máltíð sem tekur undir 7 mínútur, "from start to finish".

Veðrið var líka dásamlegt þannig að það var líka gaman að elda úti undir berum sumarhimni.

Hráefnalisti

1 kg kræklingur
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 skalottulaukur
1 lítill púrrlaukur
1 dós kókósmjól
100 ml hvítvín
safi úr hálfri sítrónu
jómfrúarólía
steinselja eða kóríander
salt og pipar


Skerið engiferin, chilipiparinn og alla laukana smátt niður og steikið í tvær mínútur í heitri olíunni. 


Verið búin að skola kræklinginn. Hendið opinni eða skemmdri skel. Ef skelin er smávegis opin er gott að banka aðeins í hana - ef hún lokar sér er hún lifandi og í lagi að borða hana.

Skellið henni á pönnuna með hinum hráefnunum og blandið vel saman.


Ég átti smá afgang af þessu ljúffenga víni í kæli sem var kjörið að nota í matinn (auðvitað hefði verið ennþá betra að drekka það - en maður á alltaf að nota vín sem manni finnst gott í matinn). 

Sjóðið upp áfengið og látið það krauma í mínútu eða svo. 


Næst smá sítrónusafi.


Skellið svo kókosmjólkinni samanvið og blandið vandlega saman.


Saxið svo steinseljuna (notið kóríander - ef maki ykkar þolir það) og sáldrið yfir.


Þetta var fallegur sumardagur og því kjörinn dagur fyrir rósavín. Ég átti Filarino Sangiovese sem er rósavín frá Ítalíu - þetta vín er fallegt í glasi - fölleitur rósalitur. Ilmurinn er léttur og blómakenndur og bragðið sömuleiðis. Passaði fullkomlega með kræklingnum. 


Bon appetit!