Monday 29 January 2018

Ævintýraferð norður í land; Skíðað og kúrt á Sigló Hótel, djammað með Nýdönsk á Græna Hattinum


Vinahjón okkar, Kristján og Anna Guðný, buðu okkur norður í land nú um helgina og þar nutum við svo sannarlega þess besta sem svæðið hafði upp á að bjóða. Ég hef verið að vinna með Kidda síðasta árið og ber hann hvað mesta ábyrgð á þáttunum okkar á ÍNNtv. Síðastliðið vor fórum við svo saman til Ítalíu og heimsóttum vínframleiðandann Masi og Piccini þar sem afar vel var gert við okkur í mat og drykk. Þar lék eiginkona Kidda aðalhlutverk en hún tók að sér allt skipulag og framleiðslu á þáttunum. Þeir verða sýndir á Sjónvarpi Símans nú á komandi vikum.

Snædís, eiginkona mín, varð fertug nú í haust og gáfu Kiddi og Anna Guðný, henni þessa ferð að gjöf. Sannarlega rausnarlegt. Og sérlega gleðilegt. Það var ekki leiðinlegt að aka norður í land á föstudaginn eftir vinnu í áttina að Siglufirði. Færðin var nokkuð þokkaleg þó hált væri á vegum Norðanlands. Við fengum að hætta aðeins fyrr í vinnunni og vorum komin rétt fyrir klukkan sjö norður á Siglufjörð.

Ævintýraferð norður í land; Skíðað og kúrt á Hótel Sigló, Djammað með Nýdönsk á Græna Hattinum


Við fengum húsaskjól á Sigló Hótel - sem opnaði fyrir tveimur árum síðan. Við höfðum bókað rómantíska helgi þar sem innifalið var herbergi ásamt kvöldverði og morgunverði. Þetta hótel er eins huggulegt og hægt er að hafa það. 


Þegar á Sigló var komið fékk ég að smakka á "lokal" bjór - Segul jólabjór - náðum að drekka dreggjarnar áður en hann var tekinn af tunnu. Virkilega ljúffengur. 


Fengum okkur kvöldverð á hótelinu. Ég fékk mér ljúffenga humarsúpu, steik og ís. Snædís fékk sér lambacarpaccio, löngu og svo súkkulaðiköku í eftirrétt. Þjónustan var einkar góð. 


Herbergin eru sérlega falleg.


Við hjónin vöknuðum snemma og skelltum okkur í pottinn í morgunsárið.


Um daginn skelltum við hjónin okkur á skíði á skíðasvæðinu í Fjallabyggð. Útsýnið var auðvitað stórkostlegt. 


Brekkurnar eru virkilega fínar þrátt fyrir að þarna sé einvörðungu að finna fjórar toglyftur.  


Eftir skíðaferðina fórum við svo að Árskógssandi þar sem Kaldi bjór er framleiddur. 


Við fórum í pottana.


Og svo fengum við að prófa bjórböðin. Eftir baðið fer maður svo í 30 mínútna slökun á efri hæðinni. Maður kemur út alveg endurnærður.


Svo fórum við út á lífið á Akureyri - höfuðstað Norðurlands. 


Við fórum á Rub 23 veitingastað sem er alveg í miðbænum. Við pöntuðum ævintýraveisluna. Hófum ferðalagið á fjölbreyttu ljúffengu sushi. 


Smökkuðum svo grillaðan lax með pico de gallo, hvítlaukssteikta hörpuskel og tígrisrækju sem var ljúffeng. Þá fengum við nautasteik með aníssoðsósu sem var ansi megn en kjötið var fullkomlega eldað. 


Þaðan fórum við á ball með Nýdönsk. Þvílíkir snillingar. 


Þeir segja að maður eigi aldrei að hitta hetjurnar sínar ... Þeir sem sögðu þetta höfðu aldrei hitt meðlimi Nýdönsk. 


Óli Hólm er trommari sveitarinnar til næstum þrjátíu ára. Snillingur! 


Björn Jörundur er yngsti meðlimur Nýdönsk - kornungur í anda og textasmiður par excellence! 


Daginn eftir var svo brunch í Brekkusíðunni heima hjá Kidda og Önnu Guðný. 


Hvað er betra en að ljúka helginni með þessum hætti. Við ókum suður til Reykjavíkur með bros á vör södd og sæl eftir dásamlega helgi norður í landi. 

Hvet alla til að skella sér. 

Sunday 28 January 2018

Einn, tveir og elda - marókóskur kjúklingur með kúskús salati, lambaprime með strengjabaunum og kaldri piparrótarsósu


Ég var beðinn um að leggja til nokkrar uppskriftir í sarp nýs fyrirtækis - Einn tveir og elda sem er að hasla sér völl um þessar mundir. Fyrir á markaði er Eldum rétt sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri. Og ekki skrítið þar sem um góða hugmynd er að ræða; að auðvelda fólki eldamennskuna, auka hollustu og ekki síst minnka matarsóun. 

Svona matarkassa hef ég kynnt mér lítillega - þeir tröllriðu öllu í Svíþjóð um og upp úr 2013. Fyrst byrjuðu lítil fyrirtæki, sem seinna uxu í stór og núna bjóða nær allar verslanir upp á matarpakka til að létta fólki hversdaginn. Og fólk hefur tekið þessari þróun með opnum örmum. Við erum jú alltaf svo upptekin! 

Einn, tveir og elda - marókóskur kjúklingur með kúskús salati, lambaprime með strengjabaunum og kaldri piparrótarsósu

Ég útbjó þessa tvo einföldu rétti - sem í senn eru ljúffengir og auðgerðir. Í aðalhlutverki eru kryddblöndurnar sem ég hef verið að þróa með Krydd- og tehúsinu. 

Marókóskur kjúklingur með kúskús salati


Eftir fylgja uppskriftirnar. 



Lambaprime með parmaostsbættum strengjabaunum og kaldri piparrótasósu


Eftir fylgja uppskriftirnar. 



Hægt er að kynna sér þetta verkefni nánar á einn, tveir og elda


Verði ykkur að góðu!

Wednesday 17 January 2018

Yndisleg Vetrarveisla: Ljúffeng langelduð lambakássa með flauelsmjúku kartöflupúré


Við skelltum okkur í sumarbústaðinn nú á laugardaginn og dvöldum þar eina nótt. Það er eitthvað sérstaklega ævintýralegt að halda út á land á miðjum vetri. Fátt hleður rafhlöðurnar meira en að kúra framan við arininn eða skella sér í heita pottinn í myrkrinu og vetrarkuldanum. Við leyfðum okkur að dekra við okkur. Á leiðinni heim gerði byl og svo að við vorum heillengi á leiðinni. Betra að fara varlega.

Við stoppuðum í matvöruverslun þar sem ég sá niðurskorinn frampart á lækkuðu verði. Niðurstaðan var því augljós - auðvitað er lambakjötið best til að verma mann upp á köldum vetrardegi. 

Yndisleg Vetrarveisla: Ljúffeng langelduð lambakássa með flauelsmjúku kartöflupúré

Og þetta er í raun eldamennska eins og hún er einföldust. Í raun bara að raða í pott og bíða.

Hráefnalisti

Fyrir átta

2,5 kg sagaður lambaframpartur
2 rauðir laukar
4 sellerísstangir
5 hvítlauksrif
6 gulrætur
500 g sveppir
5 lárviðarlauf
100 g smjör
3 l lambasoð
2 msk Vilt og ótamið - kryddblanda frá Kryddhúsinu/Lækninum í Eldhúsinu
1 dós tómatpúre
1/2 flaska rauðvín
1 msk Lea & Perrins Worchestershire sósa

1 kg kartöflur
150 g smjör
250 ml rjómi
1/3 múskathneta
salt og pipar


Fyrsta skrefið var að velta öllum lambabitunum upp úr hveiti, salti, pipar og smá hvítlauksdufti. Hveitið hjálpar kássunni að þykkna þegar yfir líkur.


Bitarnir voru svo steiktir í smjöri þangað til að þeir voru fallega brúnaðir. Þá voru þeir settir til hliðar og grænmetið steikt. Þessi mynd er nú eiginlega bara upp á rómantíkina sem mér fannst vera í loftinu á sunnudaginn þegar bylurinn lamdi á gluggana. 


Skar svo hvítlauk, rauðlauk og sellerí niður í smáa bita.


Gulrótunum leyfði ég bara að vera í stórum bitum. Bætið við lárviðarlaufum.


Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega er öllu kjötinu bætt saman við. 


Ég hafði opnað þessa flösku fyrir einhverjum dögum síðan og af einhverjum skussaskap ekki klárað þannig að tveir þriðjuhlutar hennar voru eftir - svona á maður ekki að fara með góð vín. En á móti kemur að maður á gott vín til að nota í matinn. 

Hellti saman við og sauð upp áfengið. 


Svo ein dós af tómatpúre.


Þessi blanda frá mér og Krydd- og Tehúsinu kom á markaðinn nú fyrir jól og var fyrst og fremst hugsuð fyrir villibráð - en hún er einnig ljúffeng með íslensku lambakjöti sem að mínu mati mætti nánast kalla villibráð þar sem það gengur á heiðar og étur villigrös þangað til að því er slátrað að hausti. 


Þarna kennir ýmissa grasa - þurrkuð bergmynta, rósmarín, hvítlaukur, einiber, rósapipar, svartur pipar, allrahanda og margt fleira - allt hugsað til að lyfta hráefninu upp á efstu hæðir. 


Þegar suðan var kominn upp skellti ég sveppunum saman við. Fleytti allri froðu ofan af (það er froðan sem kemur upp á yfirborðið þegar kássan hitnar). Setti svo pottinn inn í 170 gráðu heitan ofn og þar var hann látinn kúra í 3,5 tíma. 


Svo sauð ég nokkrar flysjaðar kartöflur í söltuðu vatni, setti svo í annan pott ásamt smjöri og rjóma, salti og pipar.


Raspaði svo 1/3 af múskathnetu saman við kartöflupúreið.


Úr varð þessi dásamlega mús/púre - sem var flauelismjúk.


Kássan ilmaði dásamlega þegar hún kom úr ofninum. Ég fleytti mestu af fitunni ofan af (geymi hana að sjálfsögðu til betri tíma - sem grunn í sósu, súpu eða næstu kássu - inn í frysti).



Með matnum bárum við fram lögg af þessu ljúffenga Malbec víni frá Mendósa héraði í Argentínu. Þetta er ljúffengur sopi sem passar vel með kássum eins og þessum. Þarna er bragð af dökkum berjum og bláberjum, jörð með mjúku eftirbragði. 


Kássan reyndist hreinn dásemd. Fullkomin á vetrardögum sem þessum.

Svo er um að gera að nýta afganginn daginn eftir - kássan batnar bara á næstu dögum þegar bragðið þróast og kryddin jafna sig saman.

Verði ykkur að góðu. 

Sunday 14 January 2018

Áramótaveislan 2017: Dásamlegir humarhalar, Wellington sous vide með púrtvínsbættri villisveppasósu og fullkomnum kartöflum

Okei, ég held að það sé morgunljóst að það er engin sérstök stemming fyrir þungum máltíðum svona fyrstu mánuðina eftir nýárið þegar flestir eru að hugsa um að snúa við blaðinu og skilja hátíðirnar eftir. Ætli margir séu ekki að puða í ræktinni við að brenna þeim umframhitaeiningum sem þeir söfnuðu á sig yfir jólahátíðina. 

En það er eiginlega ekki hægt annað en að gera veislumáltíð eins og þessari einhver skil. Og þá skiptir litlu máli hvort einhver leiki þetta eftir - þetta verður þá sett í sarpinn fyrir komandi ár - eins og allir vita - það verður, jú, hátíð aftur eftir nokkra mánuði. Og eftir því sem maður eldist þá virðast þessar hátíðir renna saman í eitt. Þannig er það nú bara.

Ég var með ellefu í mat á gamlárskvöld og við höfðum þann háttinn á að skipta með okkur verkum. Faðir minn, Ingvar Sigurgeirsson, sá um forréttinn og ég tók að mér að gera aðalréttinn. Þannig að þetta var heldur einfalt. Eina sem þurfti var að hafa vaðið fyrir neðan sig og skipuleggja ferlið vel og vandlega. 

Áramótaveislan 2017: Dásamlegir humarhalar, Wellington sous vide með púrtvínsbættri villisveppasósu og fullkomnum kartöflum

Hráefnalisti

Fyrir forréttinn

30 humarhalar
200 g smjör
handfylli steinselja
1 tsk ungversk papríka
1/2 rauður chili 
2 hvítlauksrif
3 msk ferskur sítrónusafi
salt og pipar 
hvítt brauð 
Salat eftir smekk

Fyrir nautið

2,5 kg chateaubriand nautalund (miðbiti nautalundarinnar)
5 msk dijon sinnep
1 kg sveppir
4 skalottulaukar
4 hvítlauksrif
100 g smjör 
handfylli steinselja
salt og pipar
150 g parmaskinka (þrjú bréf)
smjördeig (3 pakkar)

Fyrir kartöflurnar

1,5 kg kartöflur
3 msk hveiti
5 msk andafita
salt og pipar 

Fyrir sósuna

1 gulrót
2 sellerístangir
1 gulur laukur
2 hvítlauksrif
2 lárviðarlauf
60 cl púrtvín
75 g þurrkaðir íslenskir villisveppir
500 ml nautasoð
250 ml rjómi
salt og pipar
sulta og dijon sinnep eftir smekk



Fyrsta skrefið var að útbúa kryddsmjörið. Setjið mjúkt smjör í matvinnsluvél ásamt steinselju, papríkudufti, chili, hvítlauk, salti og pipar. Smurt vandlega á humarhalana sem höfðu fyrr um daginn verið baðaðir í sítrónusafa. Pabbi studdist við uppskrift frá Dröfn á Eldhússögum úr Kleifarselinu.


Grillað í 250 gráðu blússheitum ofni í nokkrar mínútur þangað að til þeir eru eldaðir í gegn.


Lagðir á disk með fersku salati, papríkum, tómötum og hvítlauksristuðu brauði.


Bindið nautalundirnar upp  í jafna bita svo þær eldist jafnt.


Innsiglið í plastpoka.


Eldið við 52-53 gráður í 2 tíma.


Takið úr vatnbaðinu og vefjið þétt í plastfilmu og kælið yfir nótt. 


Útbúið duxelle sveppi. Hakkið skalottulauk, hvítlauk og sveppi í matvinnsluvél.


Steikið í smjöri. Saltið og piprið. 


Bragðbætið með ferskri steinselju.


Fletjið smjördeigið út og leggið parmaskinkuna á.


Leggið svo duxelle sveppina á parmaskinkuna.


Takið nautalundina úr kælinum og penslið með dijon sinnepi á öllum hliðum.


Lokið nautalundinni inn í smjördeiginu, þéttið vel með plastfilmu og setjið svo aftur í kæli tvær klukkustundir. 

Hitið ofnskúffuna í ofninum - við 225 gráður svo hún verði blússandi heit. 


Hugið að meðlætinu. Ég fékk þessa sveppi í gjöf frá skjólstæðingi mínum. Svona lagað gleður mann alltaf óskaplega.


Vekið sveppina upp úr 1/2 lítra af sjóðandi vatni.


Skerið gulrótina, laukinn, selleríið, hvítlaukinn niður í litla bita, bætið við lárviðarlaufi, og mýkið í smjöri. Gætið að salta og pipra. 


Hellið púrtvíni saman við, kveikið í og sjóðið niður áfengið. Bætið nautasoðinu saman við og sjóðið við lágan hita í um klukkustund. Saltið og piprið.


Steikið sveppina upp úr smjöri og þegar þeir eru mjúkir og ilmandi bætið þið síuðu soðinu saman við. Bragðbætið með rjóma, sultu, dijon, salti og pipar þangað til að sósan er ljúffeng og dásamleg.


Flysjið og sjóðið kartöflur í ríkulega söltuðu vatni í sex mínútur. Hellið vatninu frá og veltið upp úr hveiti og steikið svo upp úr heitri andafitu. Saltið og piprið.


Bakið svo í 180 gráðu heitum ofni í 60 mínútur þangað til kartöflurnar eru orðnar gullnar að utan. Dásamlega stökkar og lungamjúkar að innan. 


Bakið Wellington nautalundina á blússheitri ofnplöttunnni við 225 gráður í rúmlega 20 mínútur þangað til að smjördeigið er fallega gullið að utan.


Nautalundin hitnar í gegn á þessum tíma án þess þó að eldast neitt frekar. 


Fáið einhver listfengan til að leggja á borð. 


Með matnum nutum við The Leap Cabernet Sauvignion frá Stag's Leap sem er í Napa dalnum í Kaliforníu. Þetta er vín frá 2006 þannig að það hefur fengið tækifæri til að þroskast umtalsvert. Þetta er vín er fallega djúprautt í glasi. Ilmar dásamlega - dökkur jafnvel, sultaður ávöxtur, smá lakkrís, kaffi og jörð. Eins á tungu. Þvílíkt vín - langt og seiðandi eftirbragð. 


Það þarf varla að lýsa því hveru dásamlega ljúffengt þetta var. Kjötið var fullkomlega, duxelle sveppirnir einstaklega ljúfir og utan um dásamlegt smjördeig - stökkt allan hringinn!

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum lesendum samfylgdina á liðnu ári. Það gleður mig óneitanlega hversu margir leita í bloggið og þeirra sarp uppskrifta sem þar er að finna.

Takk fyrir mig og gleðilegt ár!