Það er búið að vera alveg nístandi kuldi síðustu tvær vikur hérna hjá okkur í Svíþjóð. Í dag var mínus tólf gráður þegar ég hjólaði af stað, eldsnemma, út á lestarstöð, nokkur ský á himni og stilla. Fallegur dagur. Síðustu dagar hafa verið með þessu móti. Sólsetrin hafa verið einkar falleg, meira segja séð niður götuna á nýbyggða hverfinu okkar í norður Lundi. Þó dagarnir séu fallegir þá er þörf á að hlýja sér, svona veðurfar kallar á mat sem yljar manni um hjartarætur og þá er ekkert betra en svona baka. Steik og guinnes baka...namminamm.
Ég hef gert eina tilraun áður til að gera þennan rétt. Þá fór allt til fjandans...og það var ekki mér að kenna...ég sver það! Þetta er réttur sem þarf tæplega þriggja klukkustunda matreiðslu. Þannig að maður verður að hafa nógan tíma. Eins væri hægt að elda kássuna daginn áður og klára svo bökuna daginn eftir (sennilega væri það bragðbest - mér finnst næstum allar kássur batna við að það að fá að slaka á yfir nótt - brögðin einhvern veginn aðlagast betur hvoru öðru. Það verður þó að segjast að þetta er eins og næstum allur matur sem ég elda - ákaflega einfalt. Hvað varðar klúðrið í fyrra skiptið - þá skildi ég það eftir við lágan hita til að malla á meðan ég skrapp í skvass. Fól bróður mínum og eiginkonu að halda vökulu auga yfir kássunni sem því miður brann umfram það sem hægt var að bjarga. Það var því pöntuð flatbaka það kvöldið - það gæti verið að ég hafi líka átt sök á máli - kannski var ekki alveg rétt að segja að ég hafi skilið við kássuna á lágum hita...en hvað um það - það er einfaldara að kenna öðrum um!
Eftir að ég gerði síðan Beuf Beaurgnion ala Juliu Childs fékk ég síðan áhuga á því að gera þessa kássu aftur. Hennar leið var fólgin í því að setja kássuna við lágan hita inn í ofn - það fannst mér algert þjóðráð. Ég eldaði því kássuna aftur eins og lög gera ráð fyrir nema skellti henni í ofn við 120 gráðu hita - freistaði svo gæfunnar og skellti mér í skvass aftur. Það var nú ekki skvassið sem eyðilagði hana í fyrra skiptið.
Ekta "comfort" matur: Steik og Guinnesbaka með grænum baunum og heimagerðum frönskum
Jæja, vindum okkur í þetta. Um það bil kíló af nautakjöti - alls ekki dýrum bita, en vel fitusprengdum (rétturinn verður eldaður það lengi að allt kjöt verður meyrt eftir þann tíma) - er skorið í 2,5 cm sinnum 2,5 cm stóra bita. Bitarnir eru þurrkaðir vel með eldhúspappír og síðan saltaðir og pipraðir. Þá eru þeir steiktir í vel heitri olíu þannig að þeir brúnast fallega. Gætið að fylla ekki pottinn af kjöti - þá lætur kjötið frá sér vökva og sýður frekar en að karmelliserast á pönnunni. Þegar kjötið brúnað þá er það tekið úr pottinum og lagt til hliðar á meðan farið er í næsta skref. Þá er að skera niður tvo hvíta lauka, 5-6 hvítlauksrif, tvær stórar gulrætur og 2-3 sellerístangir - sem er svo steikt í olíu, saltað og piprað í kannski tíu mínútur við miðlungshita. Gæta þess að brenna ekki grænmetið. Þegar grænmetið er glájandi og fallegt þá er kominn tími á að bæta kjötinu saman við. Ég velti kjötbitunum fyrst upp úr hveiti áður en þeir fóru aftur í pottinn - þannig býr maður til smá "roux" og auðveldar að kássan þykkni. Þá er bætt einni og hálfri dós af guinnes bjór, nóg af fljótandi nautakrafti, salt, pipar, 2 msk af ferskri rósmarín, 1 tsk af þurrkuðu timian og tvö lárviðarlauf. Hrært vel saman og hitað. Þegar suðan er kominn upp þá er lok sett á pottinn og hann settur inn í ofn 2-2 1/2 klukkustundir við 120 gráðu hita (þá er þjóðráð að gera eitthvað annað).
Smjördeig nenni ég aldrei að gera sjálfur - það er hægt að fá það frosið allstaðar, og það er yfirleitt ljúffengt. Tek nóg út úr frystinum til að hylja eldfasta mótið tvisvar. Smjördeigið er lagt í mótið, passa að láta það liggja þétt að. Kássan er tekin úr ofninum, hún mun lykta stórkostlega - ég lofa! Stundum þarf að þykkja kássur, ég notaði smá maizenamjöl til að fá rétta þykkt. Kássan er hellt yfir í mótið, cheddarostur er rifin yfir, og lokið sett á. Skreytt eftir bestu getu. Það er mikilvægt að setja nokkur göt á lokið til að hleypa gufunni út. Lokið er penslað með smá eggjaþvotti (egg og skvetta af vatni) - og bakað í 30-45 mínútur þar til smjördegið er fallega gullið.
Borið fram með grænum baunum og heimagerðum frönskum - niðursneiddar kartöflur, velt upp úr smá olíu, saltaðar vel og bakaðar í ofni þar til fallega gullin brúnar, kannski 45 mínútur.
Ég ætlaði að fá mér bara bjórglas með matnum en fannst síðan rauðvín vera viðeigandi. Þetta er virkilega bragðmikill og bragðgóður réttur og mér fannst einhvern vegin rauðvín eiga bara betur við. Ég tók upp flösku af Peter Lehmann Barossa Cabernet Sauvignion árgerð 2006. Þetta dumbrautt og vel ilmandi rauðvín. Bragðið er kraftmikið, ágæt fylling - eikað með dökkum berjum.
Bon appetit.