Tuesday 28 September 2021

Kryddlegin hjörtu Læknisins í Eldhúsinu



Haustin eru í sérstöku upphaldi hjá mér. Ég hlakka til að snúa aftur til vinnu eftir verðskuldað sumarleyfi. Svo eru haustin tími dásamlegrar uppskeru af fersku grænmeti og nýju lambakjöti. Ég verð að játa að ég hef aldrei tekið slátur, þó ég kunni vel að meta ferskan innmat - eins og soðna lifrarpylsu og steikta blóðmör borna fram með heimagerðri bláberjasultu.

Þennan rétt hef ég ekki gert oft áður - en hann varð til þegar ég var að gera uppskriftir fyrir eina af matreiðslubókunum mínum. Ég veit enn þann dag í dag ekki af hverju hún komst ekki í bókina. Það er hreinlega stundum þannig - en hún er alveg nógu ljúffeng. Heit og seðjandi.

Það er mikilvægt að elda hjörtun nægilega vel. Hjartað er vöðvi sem inniheldur litla fitu og er heldur undir tönn þegar hann er of lítið eldaður. En eldaður við lágan hita í 1,5 til 2 klst verður bitinn lungamjúkur. 

Kryddlegin hjörtu Læknisins í Eldhúsinu

Fyrir fjóra 

4 lambahjörtu
1 rauður chili
2 hvítlauksrif
1/2 tsk cheyenne pipar
1 tsk þurrkuð sterk papríka (sterk)
2 msk jómfrúarolía (það má nota chilibragðbætta jómfrúarolíu)
4 msk hveiti
salt og pipar

4 gulrætur
1 rauðlaukur
1 sellerísstöng
2 hvítlauksrif
1 msk tómatmauk 
150 ml rauðvín
500 ml lambasoð
1 tsk Yfir holt og heiðar kryddblanda
50 g smjör
salt og pipar
2 íslenskar rauðar papríkur
pæklaður íslenskur chilipipar til skrauts

hrísgrjón 
salat að eigin vali


1. Sneiðið og skolið hjörtun undir köldu vatni og setjið í skál. 
2. Bætið smátt skornum chili ásamt hvítlauk, chilidufti, papríkudufti, jómfrúarolíu, salti og pipar og blandið vandlega saman og látið marínerast í að minnsta kosti klukkustund í kæli. 
3. Brúnið upp úr blöndu af smjöri og jómfrúarolíu og setjið til hliðar. Hrærið hveitið saman við. 
4. Skerið laukinn, hvítlaukinn og selleríið smátt og steikið í olíunni, saltið og piprið. 
5. Bætið kjötinu út í pottinn og blandið vel saman. Flysjið gulræturnar og setjið heilar saman við. 



6. Hækkið hitann undir pottinum og þegar allt kraumar rækilega hellið þið víninu saman við og sjóðið upp - og svo niður um helming. 
7. Bætið lambasoðinu saman við og hitið að suðu og setjið svo inn í 160 gráðu heitan, forhitaðan ofn og látið dvelja þar í 90 mínútur. 
8. Þegar hálftími er eftir sneiðið þið tvær papríkur niður í lengjur og hrærið saman við kássuna. 
9. Takið pottinn úr ofninum og setjið á hlóðirnar og blandið smjörinu saman við. 
10. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og fersku salati úr nýju íslensku grænmeti. 
11. Skreytið kássuna með pækluðum chili (uppskriftin verður í nýju bókinni minni).



12. Og skálið fyrir haustinu í öllum sínum ljóma! 

Thursday 26 August 2021

Dúndur forréttur - Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri


Hörpuskel er kjörið að bera fram sem forrétt til að tendra bragðlaukana. Hana má ekki elda lengi, annars er hætta á að hún verði gúmmíkennd og jafnvel seig undir tönn.

Serranóskinka kemur frá Spáni og er einstaklega bragðgóð. Auðvitað væri hægt að nota parmaskinku eða jafnvel beikon. Ef beikon verður fyrir valinu er nauðsynlegt að steikja það í gegn. Beikonið ver hörpuskelina fyrir hitanum og leggur til ljúffengt bragð.

Steikt salvía er sælgæti og passar hreint út sagt ljómandi vel með þessum rétti. En það verður auðvitað að nota ferska salvíu. Þurrkuð salvía mun ekki gera neitt fyrir réttinn – nema gera hann verri! Og það er engin ástæða til að skemma dásamlega góðan mat!

Fyrir fjóra sem forréttur

12 hörpudiskar
6-12 sneiðar serranóskinka (háð stærð)
safi úr ½ sítrónu
salt og pipar
75 g smjör
12-15 salvíulauf


Vefjið hverja hörpuskel með hálfri til einni sneið af serranóskinku, penslið með olíu, vætið með ferskum sítrónusafa, saltið og piprið.

Rennið tveimur spjótum í gegnum hörpuskelina (þá er maður snarari við að snúa þeim og það heldur skinkunni á sínum stað – jafnframt er mikilvægt að láta spjótin liggja í vatni í um klukkustund til að síður kvikni í þeim).


 

Kyndið grillið og þegar það er blússheitt er hörpuskelin elduð í eina til eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Setjið til hliðar.


 

Skellið pönnu á grillið og bræðið smjörið. Þegar það hefur hljóðnað er salvían sett á pönnuna og steikt þar til hún verður stökk – hafið auga með pönnunni þar sem þetta tekur einvörðungu nokkrar sekúndur.

Leggið svo hörpuskeljarspjótin á disk, raðið salvíu ofan á og hellið brúnuðu salvíusmjöri yfir.



 Njótið.!


Sunday 25 July 2021

Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu


Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu á liðnum mánuðum. Biðst velvirðingar á því. En skýringin á því er nokkuð einföld. Ég hef verið á haus að skrifa fjórðu matreiðslubókina mína og einnig að vinna í tökum á sjónvarpsþáttum sem verður tengdur bókinni. Bókin mun koma út í byrjun vetrar og verða hin glæsilegasta. Ég hlakka mikið til að sýna ykkur hana. 

 Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu 

Þessi uppskrift er úr bókinni minni - Grillveislan sem kom út á vormánuðum 2016. 

Aðeins ein tegund af humri lifir við Íslandsstrendur – leturhumar. Þetta kann að hljóma eins og hreinasta þjóðremba en mér finnst hinn íslenski vera umtalsvert betri en sá sem ég hef til dæmis prófað á veitingastöðum í Bandaríkjunum. Sá humar er talsvert stærri, ekki eins fínn undir tönn, ekki með þann sætukeim sem einkennir íslenskan humar og loks er kjötið grófara.

Bestur er humarinn þegar hann er grillaður – hvort sem það er í ofni undir blússheitu grillinu eða á funheitu kolagrilli. Nægur hiti í stuttan tíma er allt sem þarf.

Og humar sómir sér best með einhverju feitu, hvort heldur það er hvítlaukssmjör eða olía eða þá feitar chorizo pylsur eða þá bara hvort tveggja, eins og í þessari uppskrift. Chorizopylsur fást í sérverslunum eins og Pylsumeistaranum í Laugalæk og jafnvel í Melabúðinni. 

1 kg humar
5 chorizopylsur
3 msk hvítlauksolía
salt og pipar

Sósan

1 dós sýrður rjómi
1 mangó
2,5 cm engifer
½ kjarnhreinsað chili
1 tsk mangóchutney
salt og pipar


  1. Skolið humarinn og takið hann úr skelinni. Fjarlægið görnina.
  2. Setjið humarinn í skál og veltið upp úr hvítlauksolíunni.
  3. Sneiðið chorizopylsurnar niður í grófar sneiðar.
  4. Þræðið humarinn upp á spjót ásamt pylsunum. Saltið og piprið.


5. Grillið á funheitu grilli þangað til að humarinn er tilbúinn, tekur bara nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Fyrir sósuna
  1. Setjið sýrða rjómann í skál og blandið mangóchutneyinu saman við.
  2. Skerið mangóið í smáa bita og hrærið saman við sósuna ásamt smátt skornu kjarnhreinsuðu chili og rifnum engifer. Smakkið til með salti og pipar. Blandið vel saman. 



Berið fram með salati. Og kannski einhverju ljúffengu hvítvíni?

Bon appetit!





Sunday 16 May 2021

Bragðlaukaveisla - kjúklingur með parma, pistacíuhnetum, västerbottenosti og piccolo tómötum á aspasbeði

Þessa uppskrift fékk ég hjá einum af sjúklingunum mínum. Stundum þegar formlegaheitum er lokið er spjallað um lífið og tilveruna og margt ber á góma. Ég fæ og gef ráð um mat og matseld og oft fæ ég sendar til mín hugmyndir um skemmtilegar og spennandi uppskriftir. 

Ég myndi geta heimilda, en þá væri ég að rjúfa trúnað við sjúklinginn minn. Það besta sem ég get gert er að þakka einstaklingi sem býr á eyju skammt frá meginlandinu - bestu þakkir fyrir þessa frábæru uppskrift. Þú veist hver þú ert!  

Bragðlaukaveisla - kjúklingalæri með parma, pistacíuhnetum, Västerbottenosti og píkkoló tómötum á aspasbeði

Handa fimm 

10 úrbeinaðuð kjúklingalæri
3 egg
4 msk hveiti
2 bollar brauðraspur
1 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk chiliduft
olía til steikingar
salt og pipar

2 búnt aspas
2 box pikkolótómatar
5 sneiðar parmaskinka
handfylli pistasíuhnetur
75 ml hvítvín
75 g Västerbottenostur
jómfrúarolía
handfylli basil
salt og pipar

Best er að hefja leika með hafa þrjár skálar, eina fyrir hveiti, næstu fyrir eggin og þá síðustu fyrir brauðmylsnuna. 

Byrjið á því að leggja lærin í fat, saltið og piprið.  


Veltið lærunum svo upp úr hveiti, bragðbættu með hvítlauksdufti, chili, salti og pipar. Dustið af umfram hveitið. Hrærið egg og veltið lærunum upp úr eggjablöndunni. Færið svo lærin yfir í brauðmylsnuna og hjúpið vel. 


Steikið lærin í 1-2 mínútur á hvorri hlið. 


Leggið aspasinn í ofnskúffu, sáldrið smá jómfrúarolíu yfir, saltið og pipar og hellið hvítvíni yfir. Leggið kjúklingalærin ofan á aspasinn. 


Sáldrið Västerbottenostinum ofan á kjúklinginn. 


Piccolótómatar eru sælgæti. Skerið þá í tvennt og og dreifið yfir kjúklingalærin. Leggið sneiðar af parmaskinku ofan á hvert læri. 


Svo pistasíunum. 


Þetta er eins og listaverk! Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur eða svo. 


Með matnum smökkuðum við Finca San Marín - sem er spænskt vín frá Rioja héraði. Þetta er nokkuð kraftmikið vín, þurrt með ágætum ávexti, smá tanníni. Ljómandi sopi með matnum. 



Þetta var sannkölluð bragðlaukaveisla! 


 --------------------



   Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 9 May 2021

Það er að koma sumar - ekta jarðaberjaterta að drukkna í jarðarberjum


Þetta er fyrsta færslan í nokkuð langan tíma. Og það er ekki vegna þess að ég hef setið iðjulaus. Ég hef verið á fullu að elda og skrifa fjórðu matreiðslubókina - hún mun koma út næsta haust. 

Ég geri ekki oft eftirrétti eða kökur og þess vegna gæti þessi uppskrift komið einhverjum á óvart, vonandi skemmtilega. En ég komst í smá eftirréttagír þegar ég var að skrifa fjórðu matreiðslubókina - því auðvitað þarf að vera smá kafli um eftirrétti. Þessi kaka varð til skömmu eftir að ég lauk skrifum á bókinni. Hugmyndin var sú að gera hana í tilefni af Valborgarmessunni sem Svíar halda hátíðlega á hverju vori - en náði ekki að klára hana í tæka tíð. Bæti fyrir það með því að birta hana í dag.

Þegar við bjuggum í Svíþjóð var jarðaberið í mínum huga tákn um sænskt sumar. Og nú er um að gera að tengja það við íslenska sumarið - enda skín sólin og íslensku berin eru komnin í búðir. 

Það er að koma sumar - ekta jarðaberjaterta að drukkna í jarðarberjum

Þessi kaka er gerð í nokkrum stigum. Fyrst svampbotninn, svo fyllingin, svo bragðbættur rjómi, svo skreyta með jarðaberjum. En þetta er í raun ofureinfalt. 

Svampbotn

4 egg
250 g sykur
125 g hveiti
125 g kartöflumjöl
3 tsk. lyftiduft




Byrjið á því að brjóta egg í skál og þeytið þau vandlega.




Hellið sykrunum saman við og og þeytið þar til létt og ljóst.



Sigtið saman hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft og bætið varlega saman við.



Smyrjið smelluform vel og setjið bökunarpappír í botninn. Bakið við 175°C í um 20 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út. 



Látið svampbotninn kólna alveg áður en þið losið mótið. 

Fyllingin

2 eggjarauður
100 g flórsykur
90 gr hvítt súkkulaði
250 ml þeyttur rjómi

Þeytið saman saman eggjarauður og flórsykur þar til þykkt og ljósgult. Bræðið súkkulaðið, leyfið því að kólna lítillega og blandið því svo saman við eggja- og flórsykurblönduna. Blandið síðan þeyttum rjóma varlega saman við.


Skerið svampbotninn í tvo álíka þykka hluta og smyrjið mjög rausnarlega með hvítsúkkulaði-fyllingunni. Geymið afganginn af fyllingunni - ég notaði afganginn í skreytingar.

Þeytið svo saman 500 ml af rjóma með tveimur til þremur matskeiðum af vanillusykri og smyrjið utan á kökuna. 


Ég var með 600 grömm af jarðarberjum. Át sjálfur hálft box þannig að líklega hafa tæplega 500 grömm af berjum farið á kökuna. 


Þroskuð jarðaber eru ekki bara sæt á bragðið, þau eru líka algert augnakonfekt. Skar öll berin í þunnar sneiðar. 


Svo er bara að byrja að raða jarðaberjunum. Það er nóg af fallegum fyrirmyndum að finna á netinu. 
Ég notaði afganginn af hvít-súkkulaðirjómanum og setti í poka og sprautaði dropum yfir jarðaberin. 


Dustaði kökuna með dálitlu af flórsykri. Reyndi að skapa einhvers konar mynstur. Mér fannst þetta heppnast nokkuð vel! 


Og svo kakan var líka sérlega gómsæt. 


Vilhjálmur var mjög ánægður - og sá að mestu um að klára kökuna. 


                                                                    --------------------



   Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 14 February 2021

Stolið sælgæti - Lamba chermoula með poppuðum kjúklingabaunum, grilluðum kúrbít, furuhnetum, granatepli og hvítlaukskremi

 

Fyrir tveimur vikum skrapp ég í hádegisverð á Fjallkonuna niðri í miðbæ. Átti góðan fund með tveimur kollegum þar sem við fórum yfir verkefni komandi missera. Pantaði rétt, lamba chermoula, með öllu tilheyrandi og varð alveg orðlaus. Hann var algert sælgæti. Svo góður, að ég setti um leið mynd upp í samfélagsmiðlaskýið, mér til áminningar að reyna við mína eigin útgáfu síðar. Og liðna helgi gerði ég mína eigin uppskrift. 

Matseðillinn á Fjallkonunni var auðvitað til hliðsjónar, sjá hérna. En auðvitað þurfti ég að skoða ólíkar uppskriftir af chermoula, sem er kryddmauk eða marínering frá Norður Afríku og kemur víða fyrir í uppskriftum frá Túnis, Alsír, Marokkó og Líbíu. Mín uppskrift er samsuða úr nokkrum ólíkum áttum.

Þessi uppskrift inniheldur þó nokkurn fjölda hráefna - sem eru elduð hvert í sínu lagi - og engin þeirra eru sérstaklega flókin. Þetta var góður sunnudagur í eldhúsinu.  

Stolið sælgæti - Lamba chermoula með poppuðum kjúklingabaunum, grilluðum kúrbít, furuhnetum, granatepli og hvítlaukskremi

Fyrir sex

1200 g lambamjaðmasteik (efri parturinn af lambalærinu - eins mætti úrbeina lambalæri)
1 poki regnbogagulrætur 
5 msk jómfrúarolía
1/2 krukka marókósk harissa frá Kryddhúsinu
1 tsk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 tsk papríkuduft 
2 msk hunang
1 msk sirachasósa
1/2 chili duft
safi úr lime 
salt og pipar


Fyrstu skrefin eru einföld. Bara blanda saman öllum hráefnum í skál og hræra jómfrúarolíu og limesafa saman við. Nudda svo í kjötið. Ég lét það svo standa við herbergishita í klukkustund. 


Hitaði olíu í pönnu og brúnaði kjötið að utan. Lét það síðan í eldfast mót ásamt flysjuðum regnbogagulrótum og setti í 150 gráðu forhitaðan ofn. Stakk hitamæli í kjötið og lét það fara í 54-56 gráður í kjarnhita. 


Ilmurinn í eldhúsinu varð svo dásamlega seiðandi að það ætlaði að æra mann algerlega. 


Hvítlaukskrem

150 ml feitur, sýrður rjómi
50 ml nýmjólk
3 hvítlauksrif
1 tsk hunang
safi úr hálfu lime
salt og pipar

Hvítlaukskremið er svo einfalt að það hálfa væri nóg. Galdurinn er að nota feitan sýrðan rjóma, setja í skál, blanda maukuðum hvítlauknum saman við, sem og hunangi, límónusafa og mjólkurskvettu. Smakka til með salti og pipar. Láta standa í kæli. 



Chermoula kryddmauk

200 ml jómfrúarolía
1 búnt steinselja
1 búnt kóríander
1 msk broddkúmen
1 msk kóríander 
1 msk papríkuduft
1 stór skalottulaukur
4 hvítlauksrif
4 msk rúsínur
safi úr límónu
salt og pipar

Chermoula er kryddmauk sem er fljótlegt að útbúa. Byrjaði á því að þurrrista kryddin á pönnu og færa svo yfir í matvinnsluvél. Þá bætti ég við skalottulauknum, hvítlauknum, fersku kryddunum, safa úr límónu, rúsínum, og svo jómfrúarolíu. Saltið og piprið eftir smekk. 



Meðlætið var ekki sérlega flókið. Kúrbíturinn var skorinn í hæfilegar sneiðar, velt upp úr hvítlauksolíu, saltaður og pipraður og svo eldaður á grillinu. 

Kjúklingabaunirnar voru skolaðar og látnar standa til að þorna. Steiktar upp úr heitri olíu og svo velt upp úr broddkúmeni, sítrónusafa og salti og pipar. 

Furuhneturnar voru þurrsteiktar á pönnu og lagðar til hliðar.  

Granateplið er skorið í helminga og rauður perlurnar sóttar með því að lemja á ávöxtinn með skeið. 

Bulgurið er soðið í kjúklingasoði, skv. leiðbeiningum á umbúðunum. 


Með matnum nutum við Masi Campofiorin frá 2017. Þetta vín er ekki ósjaldan á borðum hjá okkur enda finnst mér það ljúffengt. Svo finnst mér ég einhvern vegin tengdur þessum framleiðenda þar sem ég heimsótti vínekruna í tenglsum við sjónvarpsþættina mína - Ferðalag bragðlaukanna


Svo er bara að hlaða á diskinn: Fyrst bulgur, svo niðursneitt lambakjöt, kúrbítur og gulrætur, skreytt með chermoula og hvítlaukskremi. Furuhnetunum, kjúklingabaunum og granateplinu sáldrað yfir. 

Þetta er svona máltíð þar sem hver munnbiti kemur á óvart. Endilega prófið þessa uppskrift - algert sælgæti! 

Verði ykkur að góðu!
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday 2 February 2021

Sælgæti á sunnudegi - Geggjuð rifjasteik með fullkomnum ofnbökuðum kartöflum, soðsósu, karmelliseruðum nípum og Yorkshire búðingi!




Þennan rétt hef ég aldrei eldað áður - en hef smakkað hann margsinnis. Ég efast um að ég sé einn um það, en löng hefð er fyrir því að hann sé framreiddur á breskum knæpum á sunnudögum. Fyrir nokkrum árum áttum við fjölskyldan heima í Suður Englandi og snæddum þennan ljúffenga rétt. Hann var auðvitað misgóður eftir stöðum en þar sem hann var bestur var þetta hreinasta veislumáltíð. 

Það var því sérstaklega gaman að rekast á þennan bita í Dry Age skápnum hjá Geira í Kjötbúðinni. Þegar mig bar að garði var kjötið búið að fá að þroskast og meyrna í skápnum í rúmlega þrjár vikur. Við það brotnar það niður og verður meyrara við eldun. Ég lagði mig því talsvert fram við eldamennskuna á sunnudaginn var og tók nokkrar klukkustundir í allt verkið. En það er tíma vel varið - nóg var um stunur við matarborðið þegar maturinn var borinn á borð. 

Sælgæti á sunnudegi - Geggjuð rifjasteik með fullkomnum ofnbökuðum kartöflum, soðsósu, karmelliseruðum nýpum og Yorkshire búðing!



Fyrir rifjasteikina 

2,8 kg rifjasteik á beini
2 rauðir laukar
4 sellerísstangir
5 hvítlauksrif
4 gulrætur
4 lárviðarlauf
1 glas rauðvín
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar

Fyrsta skrefið er að flysja grænmetið og skera það í grófa bita og setja í botninn á stórri ofnskúffu. Bætið við lárviðarlaufunum. 

Nuddið steikina með jómfrúarolíu og saltið og piprið mjög ríkulega. Komið hitamæli fyrir í kjötinu og setjið í 120 gráðu heitan ofn og bakið þar til æskilegum kjarnhita er náð. Ég fór í 52 gráður og það tók tæpar tvær klukkustundir. 

Sem gaf mér nægan tíma að huga að meðlætinu ...


... sem var fullkomnar ofnsteiktar kartöflur. Þetta er án efa eitt ljúffengasta meðlæti sem um getur. 

Fyrir kartöflurnar

700 g kartöflur
2 msk hveiti
3-4 matskeiðar andafita
salt

Flysjið kartöflurnar og sjóðið í söltuðu vatni í sex til sjö mínútur. Hellið þeim yfir í sigti og hossið þeim aðeins í sigtinu til að ýfa upp ytra byrði kartöflunnar. Bætið við hveiti og hossið þeim aðeins meira þar til þær eru vel hjúpaðar. 

Hitið andafituna á pönnu og steikið kartöflurnar þangað til að þær taka lit. Setjið þær svo í eldfast mót og inn í 180 gráðu heitan ofn og bakið í klukkustund eða þangað til að þær eru orðnar fallega gullnar. 

Svo átti ég nokkrar regnbogagulrætur og nípur í ísskápnum sem þurfti að fara að nota. Þær voru flysjaðar, skornar í fjórðunga eftir lengdinni og lagðar í eldfast mót. Velt upp úr olíu, hunangi, salti og pipar og bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. 


Og þá var komið að Yorkshire búðingum - sem í raun er enginn búðingur. Þetta eru brauðbollur. 

Fyrir Yorkshire brauðbollur

4 egg
200 ml nýmjólk
200 g hveiti 
grænmetisolía
1/2 tsk salt

Byrjið á því brjóta egg í skál og þeyta vandlega saman þannig að eggin lyfti sér aðeins. Hrærið mjólkina saman við. Sigtið hveitið saman við og blandið vandlega saman. Blandan á að minna á pönnukökudeig. 
Hellið botnfylli af olíu í hvern bolla á bollakökumóti og setjið inn í 190 gráðu heitan ofn og hitið í rúmlega 15 mínútur. Takið mótið svo varlega út úr ofninum og hellið deiginu varlega ofan í mótin. Reynið að dreifa þessu sem jafnast á milli í mótinu. Setjið í 190 gráðu heitan ofn í 20-25 mínútur. Ekki kíkja inn í ofninn fyrr en undir lok bökunartímans, annars er hætt við að bollan falli. 


Og úr verða þessa gullfallegu kökur. 

Þegar kjötið er komið í 52 gráður fékk það að hvíla undir álpappír - en þá var að huga að sósunni. 

1 glas rauðvín
3 msk hveiti (og maizena mjöl eftir smekk - eftir því hvað þú vilt þykka sósu)
1 lítri kjötsoð
50 g smjör
1 msk dijon sinnep
1 tsk sulta
salt og pipar

Ég beitti aðferð Jamie Oliver. Hún felst í því að nota allt grænmetið sem lá undir kjötinu á meðan það eldaðist og mauka það með kartöflustöppu. Næsta skref var að bæta rauðvíni saman við og sauð það upp á gashellu. Þá bætti ég sigtuðu hveiti saman við og hrærði saman við soðið. Bætti svo kjötsoðinu saman við og sauð upp á nýjan leik. Hellti því svo í gegnum sigti yfir í annan pott og sauð upp. Skóf fituna ofan af. Bragðbætti með dijon og sultu og bragðbætti með salti og pipar. Í blálokin hræði ég smjörinu saman við til að fá fallegan gljáa á sósuna. 

Blússhitaði ofninn. Á meðan hitinn reis bjó ég til sinnepsgljáa með því að blanda saman 3 matskeiðum af dijon sinnepi saman við 3 maukuð hvítlauksrif, 1 matskeið af hlynsírópi, salti og pipar. Smurði svo yfir kjötið og setti það svo aftur inn í ofninn í nokkrar mínútur. 

Skar svo kjötið af rifjunum. 


Og svo í þunnar sneiðar. Þetta var alveg ótrúlega ljúffengt. Það er eiginlega erfitt að lýsa því hversu ljúffengt það var að naga kjötið af rifjunum. 


Með matnum opnaði ég flösku af MMM - Machoman Monastrell frá 2017. Þetta er vín sem ég hef notið nokkrum sinnum áður en ég heimsótti þessa framleiðendur árið 2018 þegar við tókum upp sjónvarpsþáttinn Ferðalag bragðlaukanna á Spáni. Þetta er bragðríkt vín, með miklum ávexti, þurrt með ljúffengu eftirbragði. Verður drukkið aftur. 


Svo var ekkert annað að gera en að raða á diskanna og setjast að borðum og njóta þess að hlustu á sælustunur matargesta. 

Þetta verðið þið að prófa. Sælgæti á sunnudegi!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa