Sunday, 20 May 2018

Bragðlaukaferð til Spánar; Bilbao, Logroño og Laguardia - dásamlegur matur og ennþá ljúffengari vín


Þeir lesendur sem fylgja mér á Facebook hafa getað fylgst með ferðalagi mínu til Spánar nú í liðinni viku. Mér bauðst að fara og kynna mér víngerð Ramón Bilbao sem er skammt sunnan við Bilbao í Rioja héraði. Við vorum átta ferðalangar saman í hópi - virkilega skemmtilegir ferðafélagar - þetta voru þrír dagar, pakkaðir af mat, víni, spjalli og hlátrasköllum. Hlakka mikið til að hitta þetta fólk á nýjan leik. 

Við lögðum af stað snemma á mánudagsmorguninn og vorum ekki komin til Bilbao fyrr en tæpum tólf klukkustundum síðar. Þar tók á móti okkur fjölmiðlatengill Ramon Bilbao, Anna, sem sá til þess að við okkar var stjanað í mat og drykk. Við snerum heim til Íslands aðfaranótt fimmtudags, södd og sátt eftir spennandi og lærdómsríkt ferðalag.

Bragðlaukaferð til Spánar; Bilbao, Logroño og Laguardia - dásamlegur matur og ennþá ljúffengari vín


Við fórum út að borða á Casa Rufo sem er veitingastaður í miðbæ Bilbao í Baskalandi. Staðurinn er sannarlega einstakur. Gengið er inn í litla verslun sem selur ferskt kjöt, ansjósur sem veiddar eru í Biscay flóa, ferskt grænmeti, auk þess að vera með gríðargott úrval af vínum frá nærlægum vínekrum.


Það var enginn skortur á ansjósutegundum.


Það kenndi ýmissa grasa í þessari verslun - en hún er mun frægari sem veitingahús.


Eigandi staðarins tók á móti okkur opnum örmum og sá til þess að glös voru vel fyllt af vínum framleiddum af Ramón Bilbao og þeirra samstarfsfyrirtækjum.


Við snæddum að sjálfsögðu ansjósur - og með þeim fengum við þetta ljúffenga hvítvín sem er framleitt í Gaulverjalandi skammt frá ströndum Atlantshafsins. Það er gert úr Albariño þrúgunni sem ég hef ekki smakkað áður. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.


Ég fór og skoðaði mig um á staðnum - hann tekur ekki nema 45 manns í sæti og er hver angi staðarins aðeins krúttlegri en sá næsti.


Opið var inn í eldhús og þar mátti sjá kokkinn af störfum þar sem hann grillaði þessar risastóru nautasteikur.


Kjötið var einstaklega ljúffengt, meyrt og bragðgott.


Maður fór velmjúkur af staðnum og auðvitað fékk eigandinn knús frá okkur öllum.


Gönguferðin heim var ekki af verri endanum. Við gengum með Rio del Nervion O de Bilbao en við hana stendur Guggenheim safnið ásamt öðrum fallegum minnismerkjum.


Næsta dag tókum  viðdaginn snemma og ókum suður yfir til Rioja héraðs þar sem víngerð Ramón Bilbao er staðsett. Anna sýndi okkur vinekrurnar þar sem vínberin voru rétt að byrja að myndast. Það var áhugavert að sjá hversu mikil vinna það er að framleiða vín. Öllum þáttum víngerðarinnar er sinnt af mikilli kostgæfni.


Við skoðuðum einnig vínframleiðsluna sem er geysistór. Ramón Bilbao framleiðir meira en fimm milljón flöskur af víni árlega. Við gengum endalausa ganga af eikartunnum - en víngerðin hýsir meira en tuttugu þúsund eikartunnur af rauðvíni sem fá að þroskast í 12-24 mánuði áður en það fer á flöskur.


Að sjálfsögðu fengum við svo að smakka á herlegheitunum. Smökkuðum tvær tegundir af hvítvíni, rósavín og svo nokkrar tegundir af rauðvíni sem framleitt er í víngerðinni.


Öll voru við svöng eftir vínsmökkunina og þá fengum við hádegisverð á veitingahúsi staðarins. Í forrétt fengum við hvítan aspas, ansjósur á "gem" salathaus með ljúffengri jómfrúarolíu. 



Líkt og kvöldið áður var opið inn í eldhúsið og hægt að fylgjast með kokkinum að störfum. 


Í aðalrétt var boðið upp á lambakótilettur af vorlambi sem voru skornar næfurþunnt og grillaðar yfir vínviðarkolum. Afar ljúffengar bornar fram á einfaldan hátt með salti og pipar og með góðri jómfrúarolíu.


Allir fóru saddir og glaðir frá Ramón Bilbo. Fyrir miðju er Antonio Salinas markaðstjóri Ramón Bilbao. Við hittum hann svo aftur seinna sama dag.


Um kvöldið fór Antonio með okkur í gönguferð um Laurel stræti í Logroño sem er þekkt gata, einna helst fyrir það að þarna er fjöldi vinsælla tapasstaða. 


Við röltum á milli nokkurra staða. Fengum allt frá sjávarfangi - kolbrabba á einum stað og svo  hvítlaukssteikta sveppi á þeim næsta.


Stoppuðum á öðrum stað þar sem við snæddum langeldað svínakjöt og gellur í eigin soði.


Enduðum svo á fjórða staðnum þar sem við fengum fjöldan allan af ólíkum tegundum af iberco skinkum og þurrkuðu nautakjöti, sem allt var framleitt í grenndinni. 


Með þessu smökkuðum við dásamlega gott rauðvín frá Ramón Bilbao - Mirto. Einstaklega ljúffengt rauðvín sem því miður er ekki enn selt á Íslandi. En lengi má vona. 


Það var, sko, vandræðalaust að skála með þessu góða fólki! 


Eftir að hafa fengið að sofa aðeins út á miðvikudagsmorguninn heimsóttum við bæinn Laguardia í Rioja sem er að finna spölkorn frá Lagrono. Þetta er fallegur lítill bær sem er reistur eins og borgarviki. Innan múranna búa um 1500 manns. Bærinn er afar sjarmerandi. 


Auðvitað þurftum við að fá eitthvað að borða. Undir mörgum af húsunum eru vínkjallar sem liggja átta til níu metra undir yfirborði jarðar. Sumum hefur verið breytt í veitingahús og vínbari og fengum við að heimsækja einn þeirra.


Þarna fengum við krókettur fylltar með reyktri skinku og bechamél sósu auk fleirri rétta.


Við fengum aftur hvítan aspas, nú steiktan með pækluðum smáttskornum rauðlauk. 


Þessi mynd sýnir afrakstur ferðarinnar. Þetta var vínið sem hópurinn valdi til innflutnings nú á næstu vikum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. 

Þið eigið eftir að kunna að meta þetta vín!


Friday, 18 May 2018

Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum


Saltfiskur  er sérlega góður matur og hefur fylgt okkur Íslendingum um langt skeið. Þetta var okkar helsta útflutningsvara um langt árabil og hann er vel þekktur í viðskiptalöndum okkar syðst í Evrópu. Ég hef smakkað íslenskan saltfisk bæði á Spáni og á Portúgal eldaðan bæði í tómatsósu og svo hálfdjúpsteiktan í jómfrúarolíu.

Ég var svo heppinn að fá að skreppa til Spánar í stuttan heimsókn í byrjun vikunnar þar sem mér bauðst að heimsækja víngerðina Ramón Bilbao, sem er í Rioja héraði, í um klukkustundar fjarlægð frá Bilbao - höfuðborg Baskalands.

Við fengum höfðinglegar móttökur, hef greint aðeins frá því á Facebooksíðu minni - hérna. Mun segja betur frá þessari heimsókn fljótlega á blogginu.

Eins og nefnt var hérna að ofan þá hefur saltfiskur verið mikilvæg útflutningsvara og lengi vel áttum Íslendingar í vöruskiptasamningum við Spán og Portugúl og við fengum vín af þeim gegn því að þeir keyptu fiskinn okkar. Það er því ekki skrítið að vín frá t.d. Rioja hafa fylgt okkur lengi við góðan orðstír.

Steiktur saltfiskur frá miðjarðarhafinu með ljúffengum steinseljukartöflum

Þetta var einkar ljúffengur réttur - og einstaklega fljótlegur. Ég sótti fiskinn til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

Fyrir fjóra

1 kg saltfiskur
2-3 msk hveiti
1 msk paprikuduft
1 tsk hvítlauksduft
pipar
150 ml góð jómfrúarolía
1 dós íslenskir sólskinstómatar
1 msk kapers
15 kalamataólívur
8-10 hvítlauksrif
pipar

kartöflur
75 g smjör
fersk steinselja
salt og pipar

fallegt salat


Blandaði hveitinu saman við papríkuduftið, hvítlauksduftið og veltið svo saltfiskbitunum vandlega upp úr hveitinu.


Hitaði olíuna á pönnu og steikti fiskinn fyrst með roðið niður.


Skar niður eina dós af íslenskum sólskinstómötum sem eru einstaklega ljúffengir. Það mætti að sjálfsögðu líka nota piccolotómata frá Friðheimum en þeir voru ekki til útí Krónunni. Þessir tómatar eru einstaklega bragðgóðir og aðeins sætir.


Tók pappírinn utan af hvítlauknum. Skolaði saltpækilinn af ólívunum og kapersnum.


Setti svo tómatana, ólívurnar, hvítlaukinn og kapersins með fisknium.


Sneri svo fiskinum og steikti aðeins áfram í tvær til þrjár mínútur.


Lagði svo allt hráefnið í eldfast mót og setti í 120 gráðu heitan ofn í nokkrar mínútur á meðan ég kláraði kartöflurnar.


Sauð kartöflurnar eins og lög gera ráð fyrir. Velti þeim upp úr bráðnu smjöri, steinselju og saltaði svo með sjávarsalti.


Mér fannst fiskurinn líta afar girnilega út.



Þetta vín hefði passað fullkomlega með - en ég prófaði það nokkrum sinnum nú í vikunni sem er að líða úti á Spáni. Það er framleitt í Gaulverjalandi við strendur Atlantshafins og er gert úr Albariño þrúgunni. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.


Þetta reyndist einstaklega ljúffengur kvöldverður. 

Hvet ykkur til að prófa. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 7 May 2018

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum


Vinnuhelgi að baki. Þó að oftast sé kraðak á spítalanum er samt alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það er gott að vinna með góðu fólki, hvort sem um ræðir sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Eins og oft áður er mikið að gera - en loksins er flensutímabilinu að ljúka - þetta er líklega eitt af lengstu flensutímabilum sem við höfum glímt við og það virtist enga enda taka. Svona tímabil reyna auðvitað mikið á starfsfólkið. 

Eftir langa vinnuhelgi er líka gott að eiga athvarf úti á landi. Við hjónin búum svo vel að foreldrar mínir hafa búið sér til dásamlegt athvarf í Kjósinni, spölkorn frá Reykjavík, þannig að ekki tekur nema tæp þrjú kortér að aka þangað. Að eiga slíkt athvarf er munaður. Og það er dásamlegt að vera alltaf velkomin í kotið. 

Þar sem við komum seint á vettvang var sniðugt að elda eitthvað fljótlegt. Og þessi réttur var kjörinn. Ég stoppaði í stórmarkaði á leiðinni úr bænum og sótti það sem vantaði. 

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

Fyrir sex

600 g lambaprime
4 msk jómfrúarolía
4 msk soyasósa
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1 sítrónugras
2 msk thaí-chilisósa
4 vorlaukstoppar
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar

200 g kastaníusveppir
1 gul papríka
2 rauðar snakk papríkur
4 vorlaukar
1 box mungbaunir
1 púrrlaukur
1 rauðlaukur
1 pakki heilhveiti núðlur (soðnar í kjúklingasoði)
4 egg
4 msk soyasósa
3 hvítlauksrif
2 cm engifer
1 rauður chili
2 msk thaí-chillisósa
smávegis af lambamarineringunni
salt og pipar


Lambaprimerifjasteik er að ég held vanmetin kjötbiti. Hún hentar bæði í snögga eldun eins og lundir og lambarifjur sem og langa eldun þar sem fitan nær að bráðna. 

Það þarf þó að eiga aðeins við bitann til þess að hann henti vel fyrir snögga eldun eins og þessa. 


Ég byrjaði á því að "butterfly-a" kjötið". Það gerir maður með því að skera í jaðarinn og fletja það svo út og halda áfram þannig að maður er kominn með jafnþykkan bita. 


Ég endurtók leikinn með alla þrjá bitana þangað til að ég var kominn með jafnþunnar sneiðar. 


Svo útbjó ég marineringuna; blandaði jómfrúarolíunni, soyasósunni, hvítlauk, chili og engifer saman. Salt og pipar.


Lagði svo kjötið saman við og sá til þess að bitanir væru vel hjúpaðir. Skreytti með smátt skornum vorlauksprotum og lét standa til að marinerast í rúma klukkustund á meðan ég skellti mér í pottinn.


Svo skar ég niður rauðlauk og púrru og steikti í jómfrúarolíu þangað til að það var mjúkt á heitri wok pönnu.


Skar svo niður afganginn af grænmetinu og kryddinu og blandaði saman við og steikti í um kortér þangað til það var mjúkt, ilmandi og eldað í gegn.


Sauð svo núðlurnar eins og lög gera ráð fyrir í fjórar mínútur í kjúklingasoði þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 


Þegar núðlurnar voru tilbúnar blandaði ég þeim saman við grænmetið og lét standa á meðan ég grillaði kjötið. 

Sauð fjögur egg í söltuðu vatni á meðan ég stóð við grillið.



Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig á að grilla lambaprimerifjasteik. 


Ég penslaði kjötið reglulega og snéri því einnig á fimmtán sekúnda fresti þannig að það brinni ekki. Það var talsvert af olíu í marineringunni þannig að logarnir gusu reglulega upp á grillinu. En það skiptir ekki máli hafi maður snöggar hendur í snúningum. 


Kjötið varð alltént gullfallegt. Gljáð að utan og lungamjúkt að innan.


Með matnum nutum við Barone Montalto Nero D'Avola Passivento frá 2015. Þetta er vín sem skorar hátt á Vivino þó það sé á talsvert hagstæðu verði. Það kostar undir 2500 kall í ÁTVR. Þetta er bragðmikið vín - sætur og kraftmikill ávöxtur, vanillu keimur og langt og mikið eftirbragð. Stóð sig vel með bragðmiklum matnum. 


Svo var bara að raða réttninum saman. Setti núðlurnar og grænmetið á stórt fat og lagði skornar lambaprimesteikurnar ofan á. Skreytti með eggjum (sem áttu auðvitað að vera soðinn aðeins minna en myndirnar gefa til kynna) og svo vorlaukssprotum og ferskum kóríander. 

Þetta var sannkölluð veisla!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa