Þeir lesendur sem fylgja mér á Facebook hafa getað fylgst með ferðalagi mínu til Spánar nú í liðinni viku. Mér bauðst að fara og kynna mér víngerð Ramón Bilbao sem er skammt sunnan við Bilbao í Rioja héraði. Við vorum átta ferðalangar saman í hópi - virkilega skemmtilegir ferðafélagar - þetta voru þrír dagar, pakkaðir af mat, víni, spjalli og hlátrasköllum. Hlakka mikið til að hitta þetta fólk á nýjan leik.
Við lögðum af stað snemma á mánudagsmorguninn og vorum ekki komin til Bilbao fyrr en tæpum tólf klukkustundum síðar. Þar tók á móti okkur fjölmiðlatengill Ramon Bilbao, Anna, sem sá til þess að við okkar var stjanað í mat og drykk. Við snerum heim til Íslands aðfaranótt fimmtudags, södd og sátt eftir spennandi og lærdómsríkt ferðalag.
Bragðlaukaferð til Spánar; Bilbao, Logroño og Laguardia - dásamlegur matur og ennþá ljúffengari vín
Við fórum út að borða á Casa Rufo sem er veitingastaður í miðbæ Bilbao í Baskalandi. Staðurinn er sannarlega einstakur. Gengið er inn í litla verslun sem selur ferskt kjöt, ansjósur sem veiddar eru í Biscay flóa, ferskt grænmeti, auk þess að vera með gríðargott úrval af vínum frá nærlægum vínekrum.
Það var enginn skortur á ansjósutegundum.
Eigandi staðarins tók á móti okkur opnum örmum og sá til þess að glös voru vel fyllt af vínum framleiddum af Ramón Bilbao og þeirra samstarfsfyrirtækjum.
Við snæddum að sjálfsögðu ansjósur - og með þeim fengum við þetta ljúffenga hvítvín sem er framleitt í Gaulverjalandi skammt frá ströndum Atlantshafsins. Það er gert úr Albariño þrúgunni sem ég hef ekki smakkað áður. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.
Ég fór og skoðaði mig um á staðnum - hann tekur ekki nema 45 manns í sæti og er hver angi staðarins aðeins krúttlegri en sá næsti.
Opið var inn í eldhús og þar mátti sjá kokkinn af störfum þar sem hann grillaði þessar risastóru nautasteikur.
Kjötið var einstaklega ljúffengt, meyrt og bragðgott.
Maður fór velmjúkur af staðnum og auðvitað fékk eigandinn knús frá okkur öllum.
Næsta dag tókum viðdaginn snemma og ókum suður yfir til Rioja héraðs þar sem víngerð Ramón Bilbao er staðsett. Anna sýndi okkur vinekrurnar þar sem vínberin voru rétt að byrja að myndast. Það var áhugavert að sjá hversu mikil vinna það er að framleiða vín. Öllum þáttum víngerðarinnar er sinnt af mikilli kostgæfni.
Við skoðuðum einnig vínframleiðsluna sem er geysistór. Ramón Bilbao framleiðir meira en fimm milljón flöskur af víni árlega. Við gengum endalausa ganga af eikartunnum - en víngerðin hýsir meira en tuttugu þúsund eikartunnur af rauðvíni sem fá að þroskast í 12-24 mánuði áður en það fer á flöskur.
Að sjálfsögðu fengum við svo að smakka á herlegheitunum. Smökkuðum tvær tegundir af hvítvíni, rósavín og svo nokkrar tegundir af rauðvíni sem framleitt er í víngerðinni.
Öll voru við svöng eftir vínsmökkunina og þá fengum við hádegisverð á veitingahúsi staðarins. Í forrétt fengum við hvítan aspas, ansjósur á "gem" salathaus með ljúffengri jómfrúarolíu.
Líkt og kvöldið áður var opið inn í eldhúsið og hægt að fylgjast með kokkinum að störfum.
Í aðalrétt var boðið upp á lambakótilettur af vorlambi sem voru skornar næfurþunnt og grillaðar yfir vínviðarkolum. Afar ljúffengar bornar fram á einfaldan hátt með salti og pipar og með góðri jómfrúarolíu.
Allir fóru saddir og glaðir frá Ramón Bilbo. Fyrir miðju er Antonio Salinas markaðstjóri Ramón Bilbao. Við hittum hann svo aftur seinna sama dag.
Um kvöldið fór Antonio með okkur í gönguferð um Laurel stræti í Logroño sem er þekkt gata, einna helst fyrir það að þarna er fjöldi vinsælla tapasstaða.
Við röltum á milli nokkurra staða. Fengum allt frá sjávarfangi - kolbrabba á einum stað og svo hvítlaukssteikta sveppi á þeim næsta.
Stoppuðum á öðrum stað þar sem við snæddum langeldað svínakjöt og gellur í eigin soði.
Enduðum svo á fjórða staðnum þar sem við fengum fjöldan allan af ólíkum tegundum af iberco skinkum og þurrkuðu nautakjöti, sem allt var framleitt í grenndinni.
Með þessu smökkuðum við dásamlega gott rauðvín frá Ramón Bilbao - Mirto. Einstaklega ljúffengt rauðvín sem því miður er ekki enn selt á Íslandi. En lengi má vona.
Það var, sko, vandræðalaust að skála með þessu góða fólki!
Eftir að hafa fengið að sofa aðeins út á miðvikudagsmorguninn heimsóttum við bæinn Laguardia í Rioja sem er að finna spölkorn frá Lagrono. Þetta er fallegur lítill bær sem er reistur eins og borgarviki. Innan múranna búa um 1500 manns. Bærinn er afar sjarmerandi.
Auðvitað þurftum við að fá eitthvað að borða. Undir mörgum af húsunum eru vínkjallar sem liggja átta til níu metra undir yfirborði jarðar. Sumum hefur verið breytt í veitingahús og vínbari og fengum við að heimsækja einn þeirra.
Þarna fengum við krókettur fylltar með reyktri skinku og bechamél sósu auk fleirri rétta.
Við fengum aftur hvítan aspas, nú steiktan með pækluðum smáttskornum rauðlauk.
Þessi mynd sýnir afrakstur ferðarinnar. Þetta var vínið sem hópurinn valdi til innflutnings nú á næstu vikum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði.
Þið eigið eftir að kunna að meta þetta vín!