Showing posts with label papríka. Show all posts
Showing posts with label papríka. Show all posts

Saturday, 3 October 2020

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar


Ég deildi þessari mynd á Instagram í liðinni viku og hef fengið nokkrar óskir um að birta uppskriftina. Þetta er í raun endurbirting; hún birtist í fyrsta sinn á síðunni minni 8. febrúar 2007. Síðan eru liðin mörg ár - heil þrettán ár. 

Og þessi uppskrift er ekki frá mér komin. Konan mín, Snædís, á allan heiðurinn af þessari eldamennsku og hefur eldað hana margoft. Þetta er svona "go-to" uppskrift  sem hún er löngu búin að fullkomna. 

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar

Hráefnalisti fyrir 4-6

500 g nautagúllas
4 gulrætur
1 rauðlaukur
1sellerístöng
2 hvítlauksrif
250 g sveppir
2 lárviðarlauf
1 dós tómatmauk (lítil)
1 msk papríkuduft
300 ml rauðvín
500 ml nautakraftur
150 ml rjómi
jómfrúarolía/smjör til steikingar
salt og pipar

2 bollar basmati hrísgrjón

Einfalt salat með pommengranat eplum


Saltið og piprið kjötið og brúnið að utan og setjið það svo til hliðar. Næst er að steikja grænmetið, niðurskornar gulrætur, saxaðan rauð- og hvítlauk, smátt skorið sellerí og niðursneidda sveppi þangað til að það er mjúkt. Losið kjötkraftinn af botninum með sleif. 

Bætið svo tómatmauki saman við og látið steikjast áfram í nokkrar mínútur til að brúna tómatmaukið. Bætið papríkuduftinu, lárviðarlaufi og saltið og piprið vandlega. 

Hellið svo rauðvíni saman við og sjóðið upp og síðan niður um helming. Þá bætið þið nautakraftinum við og látið krauma í 90 mínútur á hellu eða inni í 160 gráðu heitum ofni. Að lokum er rjóma bætt saman við og látið sjóða áfram í 20 mínútur. Það þarf stundum að smakka sósuna til með krafti, salti, pipar og soya - svona til að fá rétta bragðið. 


Berið fram með soðnum hrísgrjónum og einföldu salati. Það sakar ekki að fá sér ljúffengt rauðvín með matnum. Við bárum fram Marques de casa Concha Etuiqueta frá 2017. Þetta er kraftmikið rauðvín, mikið berjabragð, tannínríkt, frekar þurrt með gott eikað eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 3 September 2018

Innblástur frá Tjöruhúsinu - Blálanga í tælenskri piparsósu, með ferskum agúrkum og kóríander


Þessi réttur er innblásinn af heimsókn okkar á Tjöruhúsið á Ísafirði. Mér tókst að næla mér í nokkra daga frí í júlímánuði og við fjölskyldan skelltum okkur í stutta ferð um Vestfirðina, alltof stutta! Þarna væri gaman að vera lengur. Og ég verð að játa að þangað hef ég einvörðungu komið einu sinni áður, en það var þegar ég var læknanemi á öðru ári og var boðinn í heimsókn í Menntaskólann á Ísafirði til að halda erindi á vegna Ástráðs (sem er forvarnarverkefni um kynsjúkdóma og kynheilbrigði - sem er enn við líði). Þá dvaldi ég einungis dagpart - en ég man eftir því að hafa alltaf ætlað að skunda þangað aftur. Og svo leið og beið og svo loks átján árum síður tókst mér að snúa aftur. Hvílík náttúrufegurð. 

Við komum til Ísafjarðar að kvöldlagi eftir drjúgan akstur inn og út firðina í Ísafjarðardjúpi. Fyrsta daginn skruppum við í gönguferð um bæinn, fórum í sund á Bolungarvík og svo snæddum við kvöldverð á Tjöruhúsinu.


Og þetta var mögnuð heimsókn. Húsnæðið er fallegt - rústrautt að utan með svörtu þaki. Maður greiðir fyrir aðgang að hlaðborði - og það virðist engan enda taka. Ég verð að játa að ég fór í þrígang til að fá að smakka sem mest. Og síðasta ferðin var eiginlega best - þá sýndist mér að rúmlega tvítugur sonur eigandans væri tekin við og töfraði fram tvær pönnur - eina sem ég er að reyna að líkja eftir í þessari uppskrift og svo aðra þar sem hann hafði eldað saltfisk í rommsírópssósu með ristuðum valhnetum, hljómar örlítið klikkað en var dásamlegt. 

Innblástur frá Tjöruhúsinu - Blálanga í tælenskri piparsósu, með ferskum agúrkum og kóríander

Fyrir 6 

1,2 kg blálanga
1 kúrbítur
3 vorlaukar
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
3 msk piparsósa
2 msk teriyakisósa
1 msk soyasósa
hálf agúrka
1/2 fínt skorin papríka
50 g smjör
3 msk 
salt og smá pipar


Byrjaði á því að sneiða rauðlaukinn, hvítlaukinn, kúrbítinn og vorlaukinn (sparaði endana til að skreyta með í lokinn) í olíu og smjöri þangað til að þetta varð mjúkt og ilmandi. Saltaði og pipraði lítillega.


Skar svo blálönguna í bita.


Kom svo fisknum fyrir á pönnunni og saltaði og pipraði og steikti á báðum hliðum.


Ég hafði keypt þessa sósu í Víetnam market - en hún er ljómandi góð. Vilji maður hafa minni hita í réttinum mætti prófa að nota Hoisin sósu í staðinn.


Blandaði piparsósunni, teriyaki og soyasósunni saman.


Hellti svo sósunni yfir fiskinn og eldaði hann í gegn í sósunni.


Því næst skreytti ég pönnuna með ferskum agúrkum, smátt skornum vorlauksendum og papríkum.


Með matnum drukkum við þetta ljúfa rósavín frá Masi, Rosa dei Masi. Mér þykir vænt um þennan framleiðenda en ég heimsótti hann í maí í fyrra þegar við vorum við tökur á þættinum, Læknirinn á Ítalíu. Það var ógleymanleg heimsókn. Vínið er bragðgott og frekar bragðríkt fyrir rósavín en það er framleitt með appasimento aðferðinni, þannig að hluti berjanna er þurrkaður í nokkrar vikur áður en þau eru kreist - en sú aðferð þéttir bragðið af víninu.


Borið fram með soðnum Basmati grjónum. 

Ég hvet ykkur til að prófa, þetta var einstaklega ljúffengt! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 7 May 2018

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum


Vinnuhelgi að baki. Þó að oftast sé kraðak á spítalanum er samt alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það er gott að vinna með góðu fólki, hvort sem um ræðir sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Eins og oft áður er mikið að gera - en loksins er flensutímabilinu að ljúka - þetta er líklega eitt af lengstu flensutímabilum sem við höfum glímt við og það virtist enga enda taka. Svona tímabil reyna auðvitað mikið á starfsfólkið. 

Eftir langa vinnuhelgi er líka gott að eiga athvarf úti á landi. Við hjónin búum svo vel að foreldrar mínir hafa búið sér til dásamlegt athvarf í Kjósinni, spölkorn frá Reykjavík, þannig að ekki tekur nema tæp þrjú kortér að aka þangað. Að eiga slíkt athvarf er munaður. Og það er dásamlegt að vera alltaf velkomin í kotið. 

Þar sem við komum seint á vettvang var sniðugt að elda eitthvað fljótlegt. Og þessi réttur var kjörinn. Ég stoppaði í stórmarkaði á leiðinni úr bænum og sótti það sem vantaði. 

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

Fyrir sex

600 g lambaprime
4 msk jómfrúarolía
4 msk soyasósa
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1 sítrónugras
2 msk thaí-chilisósa
4 vorlaukstoppar
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar

200 g kastaníusveppir
1 gul papríka
2 rauðar snakk papríkur
4 vorlaukar
1 box mungbaunir
1 púrrlaukur
1 rauðlaukur
1 pakki heilhveiti núðlur (soðnar í kjúklingasoði)
4 egg
4 msk soyasósa
3 hvítlauksrif
2 cm engifer
1 rauður chili
2 msk thaí-chillisósa
smávegis af lambamarineringunni
salt og pipar


Lambaprimerifjasteik er að ég held vanmetin kjötbiti. Hún hentar bæði í snögga eldun eins og lundir og lambarifjur sem og langa eldun þar sem fitan nær að bráðna. 

Það þarf þó að eiga aðeins við bitann til þess að hann henti vel fyrir snögga eldun eins og þessa. 


Ég byrjaði á því að "butterfly-a" kjötið". Það gerir maður með því að skera í jaðarinn og fletja það svo út og halda áfram þannig að maður er kominn með jafnþykkan bita. 


Ég endurtók leikinn með alla þrjá bitana þangað til að ég var kominn með jafnþunnar sneiðar. 


Svo útbjó ég marineringuna; blandaði jómfrúarolíunni, soyasósunni, hvítlauk, chili og engifer saman. Salt og pipar.


Lagði svo kjötið saman við og sá til þess að bitanir væru vel hjúpaðir. Skreytti með smátt skornum vorlauksprotum og lét standa til að marinerast í rúma klukkustund á meðan ég skellti mér í pottinn.


Svo skar ég niður rauðlauk og púrru og steikti í jómfrúarolíu þangað til að það var mjúkt á heitri wok pönnu.


Skar svo niður afganginn af grænmetinu og kryddinu og blandaði saman við og steikti í um kortér þangað til það var mjúkt, ilmandi og eldað í gegn.


Sauð svo núðlurnar eins og lög gera ráð fyrir í fjórar mínútur í kjúklingasoði þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 


Þegar núðlurnar voru tilbúnar blandaði ég þeim saman við grænmetið og lét standa á meðan ég grillaði kjötið. 

Sauð fjögur egg í söltuðu vatni á meðan ég stóð við grillið.



Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig á að grilla lambaprimerifjasteik. 


Ég penslaði kjötið reglulega og snéri því einnig á fimmtán sekúnda fresti þannig að það brinni ekki. Það var talsvert af olíu í marineringunni þannig að logarnir gusu reglulega upp á grillinu. En það skiptir ekki máli hafi maður snöggar hendur í snúningum. 


Kjötið varð alltént gullfallegt. Gljáð að utan og lungamjúkt að innan.


Með matnum nutum við Barone Montalto Nero D'Avola Passivento frá 2015. Þetta er vín sem skorar hátt á Vivino þó það sé á talsvert hagstæðu verði. Það kostar undir 2500 kall í ÁTVR. Þetta er bragðmikið vín - sætur og kraftmikill ávöxtur, vanillu keimur og langt og mikið eftirbragð. Stóð sig vel með bragðmiklum matnum. 


Svo var bara að raða réttninum saman. Setti núðlurnar og grænmetið á stórt fat og lagði skornar lambaprimesteikurnar ofan á. Skreytti með eggjum (sem áttu auðvitað að vera soðinn aðeins minna en myndirnar gefa til kynna) og svo vorlaukssprotum og ferskum kóríander. 

Þetta var sannkölluð veisla!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 21 May 2016

Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu


Ég er fullur tilhlökkunar. Í næstu viku verð ég á faraldsfæti, en þá mun ég bregða mér aftur til Íslands í tengslum við Foodloose ráðstefnuna sem verður í Hörpunni næstkomandi fimmtudag, þann 26. maí. Að ráðstefnunni lokinni munum við Tommi, útgefandinn minn, standa við grillið og bjóða ráðstefnugestum upp á grillað ljúfmeti og brjóstbirtu. Á föstudeginum verð ég með námskeiði í paleo/lágkolvetna-matargerð ásamt ráðstefnuhöldurum og nokkrum fyrirlesurum. Það á eftir að verða alveg meiriháttar - ég er alveg sannfærður um það! 

Á sama tíma mun ég einnig fá húsið sem við vorum að kaupa afhent. Það verður þann 1. júní. Húsið er í ljómandi góðu standi, á góðum stað í Reykjavík, í Ártúnsholtinu. Ég ætla ekki að breyta miklu en auðvitað þarf ég að breyta eldhúsinu eftir mínum þörfum. Ég mun að sjálfsögðu greina frá því á blogginu. Það verður líka spennandi verkefni. Eins og marga væntanlega grunar, þá er eldhúsið uppáhalds herbergið mitt í öllum húsum. Þar er kjarni og hjarta heimilisins. 

Þessi færsla birtist í Fréttatímanum í morgun - smá leiðrétting - í fyrirsögn stendur mangósósu - en á að vera ananasraitu, sem fylgir í uppskriftinni. 

Ljúffeng kjúklingaspjót með ananas, papríku og einfaldri ananasraitu


Það er svo merkilegt, að þegar maður sökkvir sér niður í eitthvað viðfangsefni, þá er eins og fjöldi dyra opnist fyrir manni. Ég hef síðastliðinn áratug verið fremur duglegur við að grilla - bara svona eins og margir. En þegar við ákváðum að gera þessa grillbók mína, sökkti ég mér ennþá meira í lestur og tilraunir með grillið. Og það er ljóst að það er hægt að grilla hvað sem er. Meira að segja ávexti. 


Fyrir sex

1,2 kg kjúklingabringur
5/6 hluti af ferskum ananas (afgangurinn fer í sósuna)
3 papríkur
1 rauður chili
4 msk jómfrúarolía
salt og pipar
1/2 poki blandað salat
250 g kirsuberjatómatar

Fyrir ananassósu

300 ml jógúrt
1/6 hluti af ananasinum (það sem eftir er af honum)
1 msk hlynsíróp
1/2 rauður chili
2 msk jómfrúarolía
handfylli ferskur kóríander
salt og pipar





Það er sennilega rétt að byrja á því að gera sósuna. Hún þarf klukkustund til að öll bragðefnin nái að taka sig almennilega. Og hún er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Fyrirmyndin er indverska sósan raita sem oftast er gerð með hvítlauk og gúrku, en það er auðvitað hægt að setja hvað sem er í sósuna. Eins og til dæmis því sem ég sting upp á í dag - ananas.

Setjið jógúrtina skál, skerið ananasinn niður smátt og hrærið saman við ásamt smáttskornum chili. Hræið jómfrúarolíunni saman við og saltið og piprið eftir smekk. Látið standa í kæli á meðan þið útbúið og grillið kjúklingaspjótin. Skreytið svo með ferskum kóríander áður en sósan er borin á borð (það má líka hakka smá kóríander saman við sósuna en á mínu heimili eru deildar meiningar um kóríander þannig að því er bætt við eftir þörfum hvers og eins).


Skerið kjúklingabringurnar í bita, sem og ananasinn, ásamt papríkunum, og þræðið upp á grillspjót (séu viðarspjót notuð þarf að bleyta þau í klukkustund áður svo ekki kvikni í þeim við eldamennskuna). Penslið með jómfrúarolíu, sáldrið smátt skornum chilli yfir og saltið og piprið. 


Svona yfirlitsmyndir eru ekkert annað en listaverk.


Og ekki er þessi síðri! :)


Hellið salatinu á trébretti (eða disk), skerið tómatana í tvennt og dreifið yfir. Sáldrið smá jómfrúarolíu yfir og saltið og piprið. 

Leggið svo kjúklingaspjótin á salatið og berið á borð. 

Njótið! Fram í fingurgóma! 

Margar aðrar ljúffengar uppskriftir er að finna í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan

Wednesday, 30 March 2016

Frá afgöngum í veislumáltið! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi!

Það er frábært að halda góðar matarveislur - fátt finnst mér vera skemmtilegra! Þeir sem fylgjast með blogginu mínu og bókunum ættu ekki að hafa farið á mis við það! En stór hluti af því að halda matarveislu er að gera afgöngunum góð skil. Það er fátt sorglegra en að henda mat, sérstaklega góðum, fullkomlega ljúffengum mat.

Og matarsóun er stórt vandamál í heiminum í dag. Sums staðar er talið að allt að 40% af þeim mat sem sendur er í verslanir endi á haugunum. Hvílík endemis sóun. Ekki bara er það sorglegt í ljósi þess hversu margir svelta í heiminum í dag, heldur ekki síður vegna umhverfisáhrifa. Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að dýri sé slátrað til þess eins að enda á haugunum. Dýrin okkar, grænmetið, á betra skilið en að enda á haugunum.

Auðvitað er hægt að hita mat að nýju og njóta hans vel - en það er líka skemmtilegt að breyta einni ljúffengri máltíð í eitthvað allt annað - og álíka, ef ekki ennþá ljúffengara.

Afgangaveisla! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi! 

Mexíkósk eggjakaka

Fyrir fjóra til sex

6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
1 rauðlaukur
1 græn papríka
2 hvítlauksrif
10 msk kjötsósa (td. af Bolognese sósu)
15-20 jalapenósneiðar
150 g rifin ostur
6 tsk sýrður rjómi
3 msk kóríander

Miðjarðarhafs eggjakaka

6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
200 g lambakjöt (af lambalæri eða lambaframparti)
10 kirsuberjatómatar
10 kalamata ólívur
10 grænar ólívur
100 g feta ostur
2-3 msk jómfrúarolía


Allt byrjar með eggjunum. Það er alltaf þess virði að nota góð egg - ég kaupi oftast lífræn, en ávallt frá hænum sem hafa fengið að ganga frjálsar! Mér finnst það skila sér í bragðinu. 

Hrærið eggin saman við rjómann og saltið og piprið. 


Byrjum á að gera Mexíkóeggjakökuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt, skerið papríku í strimla og steikið í olíu eða smjöri þangað til að grænmetið er mjúkt og glansandi. Saltið og piprið. 


Takið grænmetið af pönnunni og bætið smjörklípu á pönnuna. Þegar smjörið er þagnað hellið þið eggjunum á pönnuna og leyfið eggjunum aðeins að taka sig. Raðið þá lauknum og papríkunni á ofan eggin, svo kjötsósunnni. Raðið þvínæst jalapenó pipar á pönnuna og sáldrið ostinum yfir. Látið eggin eldast næstum því eldast í gegn. Setjið undir grillið í ofninum til að leyfa ostinum að brúnast. 


Skreytið með sýrðum rjóma og ferskum kóríander.


Næst er svo Miðjarðarhafseggjakakan. Byrjið á því að skera utan af lambalærinu og sneiðið í smáa bita. Raðið í smurt eldfast mót. Setjið næst helmingaða kirsuberjatómata og ólívur með lambinu. Saltið og piprið. 

Hrærið eggin saman við rjómann, saltið og piprið og hellið saman við eggin. Brjótið svo fetaostinn yfir, dreifið tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu yfir og bakið í 30 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. 


Þegar ofnbakaða eggjakakan kemur út ofninum þarf bara að skreyta hana með ferskri steinselju eða með myntu sé hún við hendina.

Saturday, 9 January 2016

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar




Það hefur verið nóg að gera síðastliðinn mánuð og bloggið mitt fengið að líða aðeins fyrir það. Ég hef þó reynt að vera duglegur á Fésbókinni. Átjánda desember lauk ég vinnu minni hjá Capio Movement í Halmstad. Síðasti vinnudagurinn var ansi óvenjulegur fyrir gigtarlækni en ég tók að mér að elda fyrir jólaveislu sjúkrahússins. Ég fékk aðstoð frá starfsfólki eldhússins, May og Maríu, og við vorum ekki í vandræðum með að snara fram fimm rétta máltíð fyrir 80 manns. Maturinn heppnaðist vel og allir voru ánægðir. Eftir matinn tók ég lest til Lundar þar sem ég var boðinn í jólaglögg hjá góðum vinum okkar, Addý og Gumma. Frábært kvöld sem lengi verður í minnum haft. 

Þann 21. desember byrjaði ég svo í nýrri vinnu í Englandi. Ég er sérfræðingur í gigtarlækningum á sjúkrahúsinu í Eastbourne í hálfu starfi og svo vinn ég einnig hjá einkafyrirtæki, MSK partnership, sem er samstarfsverkefni á milli hins opinbera og svo þeirra sem veita meðferð við stoðkerfissjúkdómum af öllu tagi. Okkar verkefni er að greina snemma sjúklinga með stoðkerfisvandamál og koma þeim strax til réttra meðferðaraðila þannig að sjúklingar séu ekki að velkjast í kerfinu alltof lengi eins og vill verða í þessum sjúkdómaflokki. Þetta er afar spennandi og viðamikið verkefni. Mitt hlutverk snýr að gigtarsjúkdómum, að sjá til þess að sjúklingar á upptökusvæði okkar í Austur Sussex með um hálfa milljón íbúa, fái þjónustu í takt við þarfir sínar. Verkefnið er þegar komið á fullt skrið. Mér hefur meira að segja verið boðið á læknadaga eftir tvær vikur til að greina frá þessu verkefni. 

Um áramótin keyrðum við til Austurríkis og áttum frábært skíðafrí á uppáhalds skíðahótelinu okkar, Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau, nema unglingurinn sem fór til Svíþjóðar að hitta vinkonur sínar. Vilhjálmur tók stórstígum framförum á brettinu, Ragga Lára lærði að standa í lappirnar (og á góðum degi bremsa). 

Við hlökkum til þessa árs með öllum þeim ævintýrum sem það kann að hafa í för með sér. Þetta verður spennandi ár með fullt af breytingum, ögrandi verkefnum, bókaútgáfu og tilheyrandi fjöri. 

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar

Þessi uppskrift var í bókinni minni sem kom út fyrir jólin 2014. Þetta er ommiletta sem ég geri reglulega, sérstaklega um helgar, þegar maður þarf að ná sér hressilega upp. 

Chorizo-pylsur eru upprunnar á Íberíuskaganum, nánar tiltekið á Spáni. Það er eiginlega ekki til nein ein ákveðin uppskrift að þessari pylsu heldur er hún til í mörgum útgáfum; fersk, gerjuð, reykt, sölt og sæt! Allar uppskriftir að henni eiga þó sameiginlegt að innihalda ríkulegt magn af reyktu paprikudufti, pimentón, sem gefur pylsunni sinn einkennandi rauða lit.

Ég er einkar hrifinn af þessari pylsu þar sem hún hefur mikið fituinnihald sem gerir það að verkum að hún karamellíserast sérlega vel við steikingu og steikist eiginlega best í fitunni sem rennur af henni. Í þessari uppskrift fær chorizo-pylsan að hitta nokkra vini sína, chili-pipar, papriku og jalapeño, og nokkur egg sem milda lokaniðurstöðuna. Þeir sem eru í stuði geta vandræðalaust bætt við Tabasco-sósu til að lyfta réttinum upp í enn heitari hæðir!

Hráefnalisti

Fyrir tvo

3 egg
2 chorizo-pylsur
½ gul paprika
½ græn paprika (½ af hvorri eða samtals?)
5-6 sneiðar jalapeño-pipar, (eiga þetta að vera 5-6 jalapeño-piparbelgir í sneiðum eða 5-6 sneiðar af jalapeño-piparbelg?)
1 lítill rauður chili-piparbelgur
50 g rifinn ostur
5-6 tsk sýrður rjómi – crème fraîche
2 msk ferskt kóríander
salt og pipar

Brjótið eggin í skál, bætið við einni teskeið af vatni og hrærið saman með gaffli. Saltið og piprið. Bræðið smjör á pönnu.


Skerið pylsurnar niður í sneiðar og steikið í smjörinu.


 Skerið niður paprikurnar og steikið með chorizopylsunum.


Hellið eggjunum út á pönnuna og hristið hana til svo að þau losni frá brúnunum. Þegar eggin eru byrjuð að eldast raðið jalapeno-piparnum á ommilettuna.  Þegar ommilettan er næstum tilbúinn, bætið niðursneidddum rauðum chilipipar út á pönnuna ásamt sýrðum rjóma.


Skreytið með ferskum kóríander