Thursday 23 November 2017

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju



Eins og kannski margir hafa tekið eftir á blogginu mínu þá hef ég verið að vinna með Ólöfu og Omry, eigendum Krydd og Tehússins, á síðustu misserum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast þessu ljúfa fólki og kynnast þeirri ástríðu sem liggur að baki vinnu þeirra. Þau hafa í tvö ár rekið Kryddbúðina sína í Þverholti. Hún er krúttlegri en hægt er að setja í orð - það verður eiginlega bara að kíkja við.

Við höfum þróað saman nokkrar kryddblöndur sem virðast leggjast vel í landsmenn en þau hafa selst upp nokkrum sinnum á síðustu mánuðum. Kryddblöndurnar hafa verið teknar í sölu í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Hagkaup auk þess að fást á netinu. Við bindum auðvitað vonir við að þær muni sjást á hillum fleiri verslana eins og Krónunni og Nettó.

Við byrjuðum á því að setja fimm blöndur á markaðinn fyrir sumarið en erum nú að bæta í safnið; bráðum verður Villt og ótamið - villibráðarblanda aðgengileg, Þakkargjörð og meira - kalkúnakryddblanda, Jólin, jólin allstaðar - jólaglöggsblanda, Grafin en ekki gleymur - graflaxblanda og svo þessi blanda sem er hugsuð á spriklandi ferskan fisk - Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk.

Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju

Og þetta er eins auðveldur réttur og hugsast getur - og fljótlegur.

Fyrir fjóra til sex

1 laxaflak (sirka 1,2 kg)
2-3 msk jómfrúarolía
1-2 msk Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk
salt og pipar

200 ml grísk jógúrt
1/2 kjarnhreinsuð agúrka
handfylli mynta
1 msk hunang
1 msk hvítlauksolía
salt og pipar

icebergsalat


Það ina sem þarf að gera við laxinn er að skola hann og þerra. Leggja hann svo á eldfast mót (ég lagði hann á álpappír til að minnka uppþvottinn á eftir). 

Næsta skref er að leysa kryddið upp í jómfrúarolíunni, smakka til með salti og pipar og pensla svo laxinn vandlega með blöndunni.

Hitið ofninn í um 225 gráður og bakið laxinn í um 20 mínútur - þangað til að hann er eldaður í gegn. Ef flakið er þunnt þá mun það auðvitað taka styttri tíma.


Raita er köld sósa sem er notuð til að kæla niður bragðmikinn eða bragðsterkan mat. Í hana má auðvitað setja hvaða grænmeti eða ávexti sem er. Ég ákvað að fara hefðbundna leið þar sem ég vildi leyfa kryddblöndunni minni að njóta sín.

Ég skrapa alltaf kjarnan úr gúrkunni - hann er vatnsmestur og bragðminnstur. Restina saxa ég niður og blanda við grísku jógúrtina.


Svo er að skera gróflega (eða bara rífa niður) ferska myntu. Svo er sósan bragðbætt með heimagerðri hvítlauksolíu, hunangi, salti og pipar.


Ilmurinn í eldhúsinu varð hreinlega kyngimagnaður þegar laxinn var tekinn út úr ofninum.


Það er aldrei leiðinlegt að smakka á góðu léttvíni með góðum mat. Bonterra er bandarískt Sauvignion Blanc sem er ljómandi hvítvínssopi. Fullt af sítrus í nefi og svo ljúft ávaxtabragð á tungu með eftirbragði í góðu jafnvægi.



Svo var laxinum komið fyrir í salatblaði, með fullt af raitu og svo bitið í - og notið! 

Monday 13 November 2017

Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi


Sumir pottréttir eru einfaldlega betri en aðrar - og chili con carne trónir þarna á toppnum með mörgum góðum uppskriftum eins og t.d. Bolognese. Og alveg eins og bolognese þá finnst mér Chili con carne vera uppskrift sem passar einstaklega vel þegar kólna fer í veðri og helst að það sé komin snjóhula yfir jörðina.

Ég hef margoft eldað chili con carne áður - meira að segna grænmetisútgáfu sem var déskoti ljúffeng - hægt er að lesa um hana hérna. En af einhverri ástæðu hef ég látið það vera að setja mína útgáfu af þessum rétt á netið - en bæti úr því núna.

Mér finnst gott að gera stóra uppskrift í senn. Þá veit ég að það verður til afgangur, sem hægt er að frysta og þannig á maður til veislumáltíð í vændum þó að tíminn sé knappur - eins og það oft vill verða í aðdragandi hátíðanna sem framundan eru.


Lamba-chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

Mér finnst gott að gera þennan rétt talsvert heitan - hann verður betri fyrir vikið og stendur þannig betur undir nafni - en þar gengir sýrði rjóminn hvað stærstu hlutverki, ekki bara sem bragðbætandi efni heldur hefur hann líka kælandi áhrif þannig að maka manns og börn svíða síður undir chilipiparnum.

Fyrir 4-6 (þrisvar sinnum)

2 laukar
4 hvítlauksrif
5 cm engifer
3 rauður chilipipar
jómfrúarolía
4 tsk chiliduft
2 tsk broddkúmen
2 tsk kóríander
2 kanelstöng
3 lárviðarlauf
1 kg lambahakk
500 g nautahakk
1 dós chipotle salsa (hefði notað chipotlemauk en fann það ekki í búðinni)
4 dósir niðursoðnir tómatar
3 dósir blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, svartar baunir og brúnar baunir)
1,5 l kjúklingasoð
2 msk kakóduft
salt og pipar

Sýrður rjómi
Nachosflögur (eða tortilla)
rifinn ostur
ferskur kóríander


Sneiðið laukinn, hvítlaukinn, engiferin og chilipiparinn.


Steikið í heitri olíu í stórum potti - núna verður tekið til hendinni. 


Merjið kóríanderfræ og broddkúmen í mortéli og bætið útí pottinn ásamt chiliduftinu. 


Næst lárviðarlauf og svo heill kanil.


Svo er að setja kjötið - og brúna það vandlega. Ekki gleyma að salta og pipra.


Ég rótaði í búrinu hjá mér og fann nokkrar tegundir af tómötum, bæði heila og maukaða. Kann þó alltaf betur við heila - finnst þeir yfirleitt gefa manni betra bragð. 

Setti svo 1,5 L af kjúklingasoði. 


Ég ætlaði að nota bara chipotle mauk - en það var ekki til í búðinni þannig að ég keypti þetta í staðinn - og ekkert að því - þetta var líka ljúffengt. 


Fullt af tabaskó!


Kakóið er eiginlega leynigesturinn í þessa kássu og gefur henni ljúffenga breidd.

Það þarf að svo að sjóða kássuna niður í um sex kortér þannig að hún er orðin þykk og girnileg.


Skolið baunirnar og bætið þeim svo út í kássuna. Það þarf ekki nema 20 mínútur til að hita þær í geng.


Alveg að koma.


Ég nota alltaf 18% rjóma - mér finnst hann langbestur - auk þess að bæta matargerðina þá hefur hún líka kælandi áhrif eins og ég nefndi áðan. 


Mér finnst ágætt að fá mér smá rauðvínstár með mat eins og þessum, og þá finnst mér gott að eiga eina búkollu inn í búri sem hægt er að laumast í þegar maður týmir ekki að opna flösku. Og þetta er alveg ljómandi góður sopi til að hafa með Chili con carne. Lindemans er auðvitað vín sem annar hver Íslendingur hefur einhvern tíma bragðað. Ágætis ávaxtabragð, fínn fylling og gott jafnvægi í eftirbragðinu. 


Svo er bara að raða þessu saman á disk. 

Ég hafði avókadóið með - sem er auðvitað ljúffengt - en aðallega vegna þess hvað ég var undrandi yfir því að fá svona fallegt avókadó - þau virðast ekki vaxa á trjánum hérna á Fróni! 

Þetta var dásamlega ljúffengt og saðsamt. 

Verði ykkur að góðu! 

Monday 6 November 2017

Lambakjötbollur "stroganoff" með tagliatelle og ristuðum valhnetum


Við höfum dvalið í New York nú um helgina. Við fengum ráðleggingar hjá vinum okkar, Tómasi og Önnu Margréti, sem dvöldu hérna í sumar ásamt yndislegu drengjunum þeirra - tvíburunum, Marínó og Sólvin. Þau voru í íbúðaskiptum og dvöldu í á aðra viku í Brooklyn, hverfi sem hefur tekið miklum breytingum síðastliðinn áratug eða svo. Við fundum ágætis hótel skammt frá Brooklyn brúnni - Aloft hótelið á Duffield götu. Þaðan höfum við kannað svæðið ýmist á fótgangandi eða hjólandi. 

Við fórum í afar skemmtilega hjólaferð um Brooklyn með Tony sem starfar hjá Brooklyn Bicycle Tours. Við fórum í ljómandi skemmtilega ferð með honum - The Brooklyn Pizza Sunset Tour þar sem við hjóluðum um allt hverfið - frá Williamsburg þvert og endilangt og svo suður til Brooklyn Heights. Við fengum að smakka flatbökur frá þremur stöðum - allt frábærar bökur. Mér fannst sú síðasta best - en hún var fyrst steikt og svo eldbökuð - pizza fritta.

Svo höfum við gengið borgina þvera og endilanga - í dag fengum við svo bókstaflega veður af veðrinu á Íslandi.

Flugið okkar til Íslands var afbókað og nær ómögulegt að fá upplýsingar um hvernig heim átti að komast. Eftir um tuttugu símtöl til Icelandair - og tveggja klukkustunda bið bauðst okkur að komast til Íslands með því að fara í gegnum Minneapolis - sem þýðir ferðalag upp á fimmtán klukkustundir. Ég náði að skipta vakt en konan mín missir af tækifæri til að halda fyrirlestur sem skipulagður var við heimkomu. Þó að ég skilji vel að ófyrirsjáanlegar aðstæður sköpuðust með þessu óveðri þykir mér furðulegt að ekki megi setja farþega í betra sæti til að flýta fyrir heimkomu. Við þessar aðstæður segir maður bara að sem betur fer er samkeppni um flugfarþega á Íslandi.

Við náðum líka að redda pössun fyrir börnin okkar. Sem betur fer eigum við gott fólk á Íslandi, ömmu Lilju og afa Ingvar og svo bróður minn - sem sjá um grísina.

Við hlökkum til að komast heim! 

Lambakjötbollur stroganoff með tagliatelle og ristuðum valhnetum

Ég fékk hugmyndina að þessum rétti af myndbandi sem ég fann á netinu. Ég breytti uppskriftinni auðvitað aðeins til að laga hana að "séríslenskum aðstæðum"

Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

500 g lambahakk
500 g nautahakk
2 skalottulaukar
100 g heimagerður raspur (ég átti brauð frá Brauð og Co - ekki leiðinlegt það)
2 egg
4 msk heimagerð hvítlauksolía
1 msk hökkuð steinselja
1 msk timjan 
salt og pipar
250 g sveppir
1 msk djion sinnep
2 msk smjör
1/2 hvítvínsglas
250 ml kjötsoð
ein dós af sýrðum rjóma
4 greinar af timjan
salt og pipar
handfylli valhnetur

100 g af tagliatelle á mann



Byrjið á að blanda kjötbollurnar - setjið allt hráefnið í skál; hakkið, eggin, raspinn, hvítlauksolíuna, fersku kryddjurtirnar, salt og pipar og hnoðið vandlega saman.


Klípið svo rúmlega matskeið af blöndunni og mótið í fallegar kjötbollur - að stærð við golfbolta.


Bræðið smjör á góðri pönnu.


Ég elska að nota járnpönnur við svona eldamennsku - eitthvað í mér segir mér að kjötið brúnist betur á svona pönnum en öðrum pönnum.


Þegar búið er að brúna bollurnar að utan setjið þið þær svo í eldfast mót og bakið í 180 gráðu heitum ofni í kortér.


Sneiðið sveppina í sneiðar. 


Bræðið meira smjör í pönnu og karmelliserið svo sveppina að utan þangað til að þeir eru fallega brúnir. Það er um að gera að fá börnin ykkar til að hjálpa til á þessu stigi málsins. 

Maturinn verður bara betri þegar svona krútt hjálpa til við matargerðina. 

Þið getið dáðst að þeim - og notið rauðvínsdreitils á meðan. Ekki gleyma því að salta og pipra. 


Þegar sveppirnir eru brúnaðir - setjið þið sinnepið saman við og blandið vandlega saman. Ilmurinn í eldhúsinu mun verða dásamlegur.


Bætið svo hálfu hvítvínsglasi á pönnuna og sjóðið áfengið vel niður. Bætið næst við kjötsoði og sjóðið niður um helming.


Snarið svo einni dós af sýrðum rjóma á pönnuna og blandið vel saman.


Næst ferskt timjan - það má auðvitað setja það fyrr á pönnuna.


Bætið svo kjötbollunum saman við sósuna. 


Sjóðið tagliatelle í söltu vatni þangað til að það er "al dente" - sem þýðir að það er aðeins undir tönn þegar bitið er í það. 


Ristið handfylli af valhnetum í þurri pönnu.



Með matnum nutum við þessa rauðvíns; Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignion frá því 2015. Þetta er vín  frá Chile sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður - og er gjarn á að taka með mér þegar ég fer í gegnum tollinn á Keflavíkurflugvelli.  Þessi sopi er munnfyllur - fallega dumbrautt í glasi - með þéttu ávaxtabragði - sólber og kirsuber, kryddað og jarðkennt með ljúfu eftirbragði. 


Þetta var einstaklega velheppnaður réttur. Lambahakk er ótrúlega ljúffengt!

Verði ykkur að góðu!