Thursday 25 October 2012

Gómsæt heimagerð Bratwurst pylsa með ekta súrkáli og skánsku sinnepi


Pylsur hafa lengi verið mikil uppáhaldsfæða í minni fjölskyldu. Faðir minn, Ingvar Sigurgeirsson, er einn helsti pylsufíkill Íslands - hann gæti lifað á Bæjarins bestu pylsum ef það samræmdist markmiðum lýðheilsustofnunar um fæðuinntöku. Þessi áhugi hans er þó ekki bara á SS pylsum heldur einnig pylsum í öllum stærðum og gerðum. Og þessi áhugi hans hefur sannarlega smitað okkur bræðurna sem gera hvað þeir geta til að feta í fótspor föðursins. Sjaldan fellur... langt frá eikinni og allt það!

Í næstum hverri einustu ferð okkar til Danmerkur förum við á einhvern pylsubarinn og verslum eina með öllu og Cocio súkkulaðimjólk! Í Svíþjóð er líka hin ágætasti pylsukúltur þó að meðlætið sé aðeins fátæklegra en við Íslendingar eigum að venjast. En margar eru þó alveg ljúffengar, t.d. feit smálenskt Isterband pylsa með kartöflumús og títuberjasultu, Lunna melle með vænni sinnepsklessu og skánsk laukpylsa skorin köld á brauð - allt er þetta að mínu mati herramannsmatur. 

Vinur minn, Hans í Holmgrens, gerir líka ljúffengar ferskar og reyktar pylsur, og eftir að hafa spjallað við hann þá þótti mér ekki annað hægt en að gera aðra atrennu að pylsygerð. Ég gerði tilraun til pylsugerðar fyrir nokkrum árum eftir samtal við kollega minn, Hjördísi Smith, sem er mikill matgæðingur og ástríðukokkur. Sú tilraun heppnaðist ágætlega en ekki þó betur en svo að ég lagði pylsugerð á hilluna þangað til núna í ár!

Gómsæt heimagerð Bratwurst pylsa með ekta súrkáli og skánsku sinnepi

Hvernig svona pylsur eru gerðar má sjá á þessari færslu frá því snemma í ár en þá prófuðum við að gera enskar Cumberland pylsur með kartöflumús og lauksósu.


Hérna að ofan er smá myndsería úr þeirri færslu! Bratwurst pylsur er frábrugðnar Cumberland pylsum að því leyti að annað krydd er notað til að gefa pylsunni sitt dásemdar bragð! Ég studdist við nokkrar uppskriftir og endaði með þessa; Fyrir hvert kíló af kjöti þá setti ég 150 gr af köldu vatni, 15 gr af salti, 10 gr af sykri, 3 gr af svörtum pipar (átti ekki til hvítan), 1/2 tsk af engiferdufti, 1/2 af múskati og hálfa teskeið af negul. Hrært vel saman. Smá biti er steiktur á pönnu til að kanna bragðið. 

Svo er fyllingunni troðið í ekta garnir sem hafa verið þrifnar, bleyttar og þræddar upp á þar til gerðan pylsustút sem hægt er að kaupa sem aukahlut við flestar matvinnsluvélar.



Súrkál, eða sauerkraut, er það sem myndi kallast á ensku "an aquired taste" - mér fannst þetta ekkert sérstaklega gott þegar ég smakkaði þetta í fyrsta sinn en eftir nokkrar ferðir til Austurríkis þá hef ég lært að elska þetta ljúffenga meðlæti. Það er auðvitað hægt að gera sitt eigið sauerkraut úr hvítkáli en slíkt krefst þess að kálið er látið gerjast í krukku allt upp í þrjár vikur - kannski að ég leggi í það einhvern tíma, en læt mér nægja að kaupa þýskt súrkál útí í búð, niðursoðið í dós. 

Fyrst steikir maður 150-200 gr af beikoni á pönnu, setur síðan kálið út á og hitar í gegn, saltar og piprar. Svo þykir góð hefð að setja eina teskeið af venjulegum kúmenfræjum saman við - sem við slepptum að gera þar sem bróðir minn leggur algera fæð á þetta krydd. Stundum verða hefðir að víkja fyrir tillitsemi!


Ég stakk gat á pylsurnar með oddhvössum hníf til þess að hindra að þær myndu springa við eldunina. Pylsurnar voru bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30-40 mínútur. 


Með matnum fékk ég mér auðvitað bjórglas. Ég hafði í sumar sótt mér nokkra kassa af Carlsberg svörtu Gulli þegar við vorum á leið til Þýskalands. Þar er hægt að kaupa bjór í bát við höfnina á góðu verði og það telst stór synd að taka ekki eins og bíllinn leyfir þegar maður er hvort eð er á leiðinni framhjá. Þetta er einn af mínum uppáhalds bjórum. Fallega gullinn í glasi, klassískur lagerilmur - ljúfur á bragðið. Vinur minn, Ragnar Freyr Rúnarsson - sem heldur úti bjórbókinni - gefur honum fjórar krúsir af fimm mögulegum! 


Þetta reyndist algerlega frábær máltíð! Lífsins lystisemdir þurfa ekki að vera flóknar!

Bon appetit!

Sunday 21 October 2012

Kraftmikið osso buco að hætti Mílanóbúa með gremolata og hrísgrjónum




Ég fékk fyrirspurn á Facebook síðunni minni um hvort að ég ætti ekki góða uppskrift af Osso buco - og það hélt ég nú og var nokkuð kokhraustur um að ég hefði áreiðinlega bloggað um þetta einhvern tíma. Eftir smá leit á síðunni minn kom á daginn að ég hafði aldrei eldað þennan rétt áður - ég varð nokkuð undrandi þar sem þessi réttur er náttúrulega alveg sígildur. Og þennan rétt þurfa allir áhugakokkar að hafa eldað. 

Þannig að núna átti að gera bragarbót á! Og ekki stóð á mér að sigrast á þessari uppskrift. Þegar kemur að gerð Osso buco takast á tveir skólar í matargerð. Þeir sem nota tómat í uppskriftina og þeir sem gera það ekki. Að bæta tómati við réttinn er sennilega seinni tíma viðbót þar sem upprunalega uppskriftin sem varð til í kringum aldamótin nítjánhundruð á veitingahúsum utan við Mílanó, kveður ekki á um slíkt.  Áður var hefð fyrir því að bera fram risotto með þessum rétti en persónulega finnst mér slíkt vera aðeins og "ríkt" - fyrir mína parta nægja hrísgrjón eða kartöflumús. Að þessu sinni valdi ég að hafa bara hrísgrjón (meira segja ég hef mín mörk). 

Það er margt sem gleður mig við matargerð sem þessa. Þarna sameinast ást mín á langelduðum mat - þar sem maður umbreytir ódýrum seigum bita af kjöti í hreinustu dásemd og einnig að við langeldun verður oft til djúpt, safaríkt bragð sem sameinast við ferska bragðið sem kemur frá gremolatanu sem lyftir réttinum langt upp fyrir það sem maður myndi búast við!

Kraftmikið osso buco að hætti Mílanóbúa með gremolata og hrísgrjónum


Þetta er sannarlega einfaldur réttur að elda. En eins og oft áður skiptir máli, eins og með allan góðan mat, að gæta þess að hráefnið sé vel valið og eins að gefa sér góðan tíma. Matur af þessu tagi, með skönkum - sem í eðli sínu eru seigir séu þeir eldaðir skamma stund umbreytast við það að eldast lengi við lágan hita í lungamjúkan bita sem bráðnar í munni.


Fyrst er að velta kálfaskönkunum upp úr bragðbættu hveiti, og þá á ég við hveiti sem hefur verið saltað og piprað. Því næst er það brúnað í smjöri í heitum potti þangað til að báðar hliðar eru fallega brúnaðar. Þá er kjötið lagt til hliðar á meðan hlúð er að grænmetinu.


Ég skar niður eins og oft áður - tvær gulrætur, tvær sellerísstangir, tvo gula lauka og þrjú hvítlauksrif og steikti í pottinum sem ég hafði brúnað kjötið í. Gulrætur, sellerí og laukur eru í almennu tali í franskri matargerð kallað "mirapoix" og er undirstaðan í flestar súpur og kássur! Til eru fleiri útgáfur af "mirapoix" frá ólíkum löndum, Holy trinity í cajun matargerð, refugado í portugalskri matargerð, sofrito í spánskri og suppengrunen í þýskri. Innihaldið breytist lítillega á milli staða en allsstaðar er sama hugsun að baki - að leggja arómatískan grunn að því sem á að elda!


Við það að steikja grænmetið í sama potti losnar upp allur krafturinn sem varð til við að steikja kjötið. Þegar grænmetið er orðið fallega gljáandi, ilmar dásamlega og hefur verið kryddað nægjanlega með salti og pipar er komið að því að mikilvægu skrefi!


Og það þýðir að leggja kjötsneiðarnar aftur saman við grænmetið. Maður reynir að koma því þannig fyrir að sneiðarnar liggja á milli grænmetisins án þess þó að kjötbitarnir liggi ofan á hver öðrum. 


Næst er hellt úr stóru glasi af hvítvíni yfir kjötið og því leyft að sjóða upp og síðan niður um að minnsta kosti helming. 

Þá er hálfum lítra af léttu soði bætt við, t.d. grænmetissoði eða heimagerðu kjúklingasoði. Þetta átti ég einmitt til í frystinum hjá mér. Saltað vel og piprað. 


Eftir þetta var lítið annað að geta en að setja lokið á pottinn og skella inn í ofn á 120 gráðum í tvær til þrjár klukkustundir.



Á meðan var nógur tími að gera eitthvað allt annað. Eins og t.d. að þrífa húsið eða bara halda áfram að elda. Næsta skref var að gera gremolata sem er kryddmauk úr sítrónuberki, hvítlauk og steinselju.



Það þarf bara að saxa niður eina handfylli af steinselju, eitt hvítlauksrif og börk af heilli sítrónu.



Þetta hrærir maður bara saman í skál og þá er þetta tilbúið til að bera fram með kjötinu. Með matnum bárum við fram soðinn hrísgrjón - okkur þótti eitthvað of mikið að gera risotto með þessum rétti eins og miðað er við í mörgum uppskriftum.


Með matnum drukkum við ljómandi gott rauðvín. Ég hafði sótt þessa búkollu í systemið (sænska ríkið) nýverið. Það eru mörg góð vín á búkollum þessa daganna. Gæðin hafa stóraukist og margar þekktar víngerðir farnar að selja í svona umbúðum. Þetta er prýðisgott vín - fallega rautt í glasi. Ágæt fylling, kryddkeimur og fersk ber. 


Maturinn heppnaðist alveg stórvel. Mergurinn gefur auka dýpt í bragðinu af matnum.


Og við átum þetta allt upp til agna.

Bon appetit!

Thursday 18 October 2012

Ofngrillaður sólkoli með karmelliseruðum fennel og salsa verde



Ég er alltaf á höttunum á eftir nýjum leiðum til þess að elda fisk. En síðan enda ég oftast á því að elda fiskinn á sem einfaldasta háttinn til að hann nái að njóta sín sem best. Þannig er það eiginlega oftast með fisk – maður gerir sem minnst við hann og þá stendur hann upp úr á disknum. En það er auðvitað háð því að hráefnið sem maður er að nota sé eins ferskt og unnt er! Og ég hef nefnt það margoft í færslunum mínum að aðgengi að ferskum fiski er fyrir ofan garð og neðan, og fyrir Íslending, oftast fyrir neðan! En ég hef komist í samband við fyrirtæki í Malmö, Galleri fisk, sem selur frystan íslenskan fisk sem hefur reynst mér einkar vel! Ég hef keypt löngu, þorsk og núna síðast sólkola! Og einfalt var það – panta á netinu og svo er þetta keyrt heim til manns.

Síðustu misseri hef ég verið mest spenntur fyrir því að ofngrilla fiskinn, pensla hann létt með smjöri eða olíu og svo inn í blússheitan ofn. Fjölbreytileikinn hefur verið mestur þegar það kemur að meðlætinu.
Það er langt síðan að ég gerði síðast karmelliseraðan fennel – en eins og lauk þá líður fennel ákaflega vel að liggja í smjörklípu við lágan hita í 30–45 mínútur. Hann lyftist hreinlega upp í hæstu hæðir.

Salsa verde er ævaforn sósa. Talið er að hún eigi rætur að rekja til Miðausturlanda og hafi borist með rómverskum hermönnum til Rómar fyrir um 2000 árum. Hún hefur síðan dreifst um Evrópu og tekið breytingum í gegnum árin. Ég studdist við uppskrift sem á rætur að rekja til Ítalíu.

Ofngrillaður sólkoli með karmelliseruðum fennel og salsa verde


Fyrst skrefið er að skera niður fennelinn í sneiðar. Setja smjörklípu á pönnu og smáræði af olíu. Þegar smjörið er bráðið og hljóðnað á pönnunni setur maður fennelinn út á. Saltar og piprar og steikir við lágan hita í rúman hálftíma – jafnvel þrjú kortér. Muna að hræra reglulega og gæta þess að hann brúnist ekki.


Næst er að gera salsa verde, enda er það sósa sem nýtur góðs af því að standa um stund þannig að hráefnin nái að blandast saman og fá þannig jafnvægi á sósuna.



Það er erfitt að gefa uppskrift að salsa verde þar sem hún er háð því sem maður á til – en mín var nokkurn veginn á þennan veg; hálfur hvítur laukur, tvö hvítlauksrif, ein teskeið af dijon sinnepi, tvær msk af kapers, fimm ansjósuflök, tvær msk af rauðvínsediki, handfylli af steinselju, salt og pipar og svo jómfrúarolía þangað til rétt þykkt fæst á sósuna.



Svo þarf að smakka til, salta, pipra, meira edik, kannski sætu þangað til að bragðið er eftir manns eins og best líkar.



Maukið sett í skál og látið bíða í ísskápnum þangað til að maturinn er borinn fram.



Sólkolinn hafði fengið að þiðna í ró og næði inni í ísskáp. Setti álpappír í botninn á ofnskúffu og penslaði fiskinn með olíunni/smjörinu af fennelnum. Saltaði og pipraði!



Ofninn er hitaður að hámarki með grillið í gangi. Ofnskúffuna setti ég í miðjan ofninn og fiskurinn var tilbúinn á innan við sjö mínútum. Mjög mikilvægt að hafa hann ekki of lengi inni.

Cloudy Bay Chardonnay
Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks hvítvín frá Nýja Sjálandi. Cloudy Bay Sauvignion Blanc frá því 2009. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Fallega sítrónugult í glasinu. Létt og gott vín - ávaxtaríkt á tungu með frískandi létt eikuðu eftirbragði. Sá ekki eftir því að hafa splæst í þessa flösku!



Með matnum bárum við nýjar möndlukartöflur og svo tómat sem ég skar niður á svona „kreatívan“ hátt, sem ég bragðbætti með smá jómfrúarolíu, balsamik ediki, salt og pipar og fersku smáttskornu basil.

Maturinn var alveg frábær!

Bon appetit!

Ps. Ég bý einnig á Facebook - The Doctor in the Kitchen – þar sem ég sett inn ýmsa hlekki og annað efni úr eldhúsinu mínu, verið velkomin!

Ps.s. Þið mynduð einnig gleðja mig mikið með að like-a og deila eins og hugur ykkar lystir!

Thursday 11 October 2012

Knassandi Andaleggur (Confit du Canard) með Puy linsum og góðu rauðvíni


Það er engum blöðum um það að fletta að það er komið haust hjá okkur í Lundi. Það hefur blásið hressilega á okkur síðastliðna daga og trén taka sinn toll. Þau eru þó lituð fallegum haustlaufum sem eru byrjuð að falla til jarðar! Það er hressandi að fara í góða gönguferð í haustveðrinu og njóta árstíðabreytinganna sem núna eru að ganga í garð. Þar sem ég vinn heima mestmegnis þá gefast mörg tækifæri til þess. 

Myndin hér að ofan var tekin við sólsetur þegar við horfðum niður götuna og sáum hvernig sólin skyndilega lýsti upp himininn stórkostlegum gullnum lit - svo sterkum að maður fékk í augun. 

Á haustin finnst mér alltaf gott að elda það sem ég myndi kalla "comfort mat" - mat sem yljar sálinni og hlúir að manni. Maður saknar hlýja sumarsins og vantar eitthvað til að ylja upp hjartaræturnar og þá eru réttir eins og þessir mér sérstaklega kærir. Confit du Canard - andaleggir eldaðir í andafitu hafa verið í uppáhaldi hjá mér í áraraðir. Auðvitað er hægt að gera þetta sjálfur. Að hita andaleggi í þrjá til fjóra tíma hulda andafitu þangað til þeir eru eldaðir í gegn - dásamlegt. En svo er líka hægt að kaupa þetta tilbúið eins og ég gerði núna. Og þá þarf lítið annað en að hita leggina í ofni þangað til að húðin verður stökk eins og kex. Betri mat á köldum haustdegi er varla hægt að hugsa sér.

Knassandi Confit du Canard með Puy linsum og góðu rauðvíni


Þessi réttur er ættaður frá Suður Frakklandi. Þetta er einfaldur réttur í alla staði og á sér langa sögu. Puy linsur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þetta eru litlar linsubaunir eins og nafnið gefur til kynna. 


Fallega tvílitar og halda sér sérlega vel við suðu - mun betur en margar aðrar linsutegundir sem margar hverjar una sér vel sem undirstaða í súpur eða kássur! Svo taka þær líka einstaklega vel í sig bragðið af þeim vökva sem þær eru soðnar í! 

Ég sauð linsurnar, 400 gr í rúmum lítra af vatni sem ég hafði sett í tvo teninga af kjúklingakrafti ásamt vöndli af kryddjurtum, steinselju, timian og lárviðarlaufi - í rúma hálfa klukkustund. 


Á meðan linsurnar suðu skar ég niður eina gulrót, tvær sellerístangir, einn heldur smáan hvítan lauk og tvö hvítlauksrif. Steikti síðan grænmetið uppúr matskeið af smjöri, saltaði og pipraði.


Þegar grænmetið var orðið fallega gljáandi bætti ég linsunum saman við og steikti saman í nokkrar mínútur þar til vel blandað saman.


Eins og ég nefndi þá hafði ég keypt confitið hjá slátrarnum. Auðvitað er hægt að gera þetta sjálfur og það hef ég gert nokkrum sinnum, bæði með önd og með rjúpum (sjá hérna)
Að þessu sinni tók ég andaleggina úr plastinu og raðaði á ofnplötu hjúpaða með álpappír. Setti álpappír ofaná til að hindra að fitan skvettist út um allt og hitaði í gegn í 20 mínútur í 180 gráðu forhituðum ofni. Síðustu þrjár mínúturnar tók ég álpappírinn af og setti grillið í gang til að fá húðina stökka eins og kex. 

Heppnaðist næstum fullkomlega - brann bara smávegis. Hellti síðan fitunni sem hafði runnið af öndinni yfir legginn og bar fram á beði af linsum. 


Chaterneuf du Pape

Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín úr Rínardalnum.  E.Guigal Chateauneuf-du-Pape frá því 2005. Þetta er vín sem hefur síðustu árin fengið afar háar einkunnir í Wine Spectator - þessi árgangur fékk 96 punkta í þessu virta tímariti. Þetta er blanda af nokkrum þrúgutegundum og er ljúffengur sopi. Fallega djúpt, rúbinrautt í glasinu, ilmar af þroskuðum ávöxtum, á bragðið kryddað og með keim af kröftugum ávexti, súkkulaði og jafnvel ögn af vanillu! Frábært vín!


Eftir að myndin var tekin hellti ég síðan smávegis af andafitunni yfir legginn. Dásamlega safaríkt og með knassandi stökkri andapuru! 

Bon appetit!

Sunday 7 October 2012

Ljúffengar lambarifjur "sous-vide" með katalónskum kartöflum, brúnni sósu og auðvitað góðu rauðvíni


Þetta er búið að vera einstaklega ljúfur septembermánuður. Við höfum haft það einkar notalegt fjölskyldan hérna í Púkagranda eitt. Snædís er eins og gefur að skilja í fæðingarorlofi og ég er að vinna hálft starf við verkefni í tengslum við stjórnunarnámið sem ég er í. Þess fyrir utan er ég í sumarleyfi, þannig að ég get verið mikið heima með nýju dótturinni minni, henni Ragnhildi Láru, sem varð sex vikna á föstudaginn.

Tengdamamma kom í snögga heimsókn skömmu eftir að litlan fæddist og svo komu foreldrar mínir stuttu síðar og voru hjá okkur yfir eina langa helgi. Þau komu færandi hendi með einn alíslenskan lambahrygg og úr varð þessi réttur. Þetta er í þriðja sinn sem ég er að elda eftir þessari aðferð. Ég eldaði heilt lambalæri í byrjun ágúst, sjá hér. Svo eldaði ég andabringur handa ástinni minni rétt eftir að dóttir mín kom í heiminn, sjá hérna. Þetta er ótrúlega góð aðferð til að elda kjöt. Tímafrek auðvitað, en vel þess virði. Þetta er gott verkefni fyrir langan laugardag í eldhúsinu.

Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að kannast við "sous-vide" aðferðina en fyrir þá sem eru í heimsókn í fyrsta sinn þá byggir þessi aðferð á því að innsigla kjötbita í vakúmpakka og sjóða við lágan hita (æskilegan kjarnhita kjötsins) í nokkrar klukkustundir. Með þessari aðferð verður bitinn ekki bara góður í miðjunni heldur verður allt kjötið "perfect". Hvet ykkur til að prófa!

Ljúffengar lambarifjur "sous-vide" með katalónskum kartöflum, brúnni sósu og auðvitað góðu rauðvíni


Mamma kom með heilan hrygg sem ég úrbeinaði. Ég sleppti því að salta kjötið þar sem ég vildi ekki draga vökva út úr bitanum. Þó pipraði ég rækilega og kryddaði með rósmaríni, timiani og blóðbergi. 

Því næst voru bitarnir settir í poka og innsiglaðir í vakúmpökkunarvél sem ég keypti einhvern tíma!


Ég hitaði vatnið upp að 57 gráðum sem ég hafði ákveðið að yrði ljómandi góður hiti fyrir lambið - þá verður það fallega bleikt í gegn! 


Hérna er svo kjötið eftir tveggja og hálfs tíma "suðu" við 57  gráður. Vökvann sem varð eftir í pokunum notaði ég svo í sósuna. Soðið bjó ég bara til með lambakraftsteningi, alls hálfan lítra og bætti svo vökvanum af kjötinu samanvið. Þykkti það svo með smjörbollu (30 gr smjör - 30 gr hveiti). Bragðbætti síðan sósuna með salti, pipar, smá rifsberjasultu og skvettu af soyasósu. 



Eins og sjá má á myndinni þá er kjötið fallega bleikt - og það sem betra er - allur bitinn hefur þennan fallega lit!


Bitana brúnaði ég að utan upp úr smá smjöri á pönnu. Steikti þá bara örstutt á báðum hliðum þar sem ég vildi ekki að kjötið eldaðist mikið meir en það hafði þegar gert. 



Síðan skar ég rifjurnar niður í fallegar sneiðar og raðaði á disk. 


Við gerðum kartöflurétt sem við gjarnan köllum katalónskar kartöflur. Kartöflurnar eru skornar niður í báta og steiktir fyrst upp úr blöndu af smjöri og olíu, bragðbættu með fersku rósmaríni og timian. Síðan er hitinn lækkaður og smá hvítvíni hellt á pönnuna og lokið sett á og vínið soðið í því. Síðan fá kartöflurnar að steikjast í 20 mínútur þangað til þær eru tilbúnar - hrært í þeim af og til. Að þessu sinni röspuðum við parmiggiano osti yfir og kláruðum undir grillinu.
Piccini Memoro

Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín frá Toskana á Ítalíu. Piccini Memoro er blanda af  40% Primotivo þrúgum, 30% Montepulciano, 20% nero d'avola og svo 10% Merlot. Þetta vín er dökkt í glasi, ilmar af kirsuberjum. Góður ávöxtur á tungu, rúsínur og smá kryddað og reykt eftirbragð. Gott vín!




Bon appetit!

Endilega kíkið við á Facebook: The Doctor in the Kitchen!  Ef ykkur líkar lesturinn endilega deilið víðar! 




Wednesday 3 October 2012

Óður til tómata; besta penne alla pomodore heimsótt aftur - núna á grillinu




Þetta er kannski ekki alveg rétta uppskriftin fyrir haustmánuðina. Þegar maður finnur að myrkrið er að hellast yfir, gróðurinn fölnar og laufin byrja að falla til jarðar. Ég sá það nú samt í veðurfréttunum í gær að ennþá væri hægt að skilgreina veðráttuna hjá okkur Skáningum sem sumar þar sem meðalhitinn væri ennþá ofan við 10 gráður. Ekki leiðinlegt það.

Þetta er uppskrift sem ég gerði í lok sumarsins. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég elda þessa uppskrift og né heldur er þetta í fyrsta sinn sem ég blogga um þennan rétt. Það var fyrir nokkrum árum að ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn. Hann er innblásinn af vini mínum Hugh Fearnley Whittingstall sem núna er einn af mínum uppáhaldssjónvarpskokkum - nýjustu bækur hans hafa verið mér mikill innblástur í eldhúsinu og neysla okkar á grænmeti og grænmetismat hefur aukist til muna!

Að þessu sinni er þó rétturinn aðeins frábrugðinn því sem ég gerði í fyrsta skiptið. Núna eldaði ég hann á grillinu þar sem veðrið leyfði slíkar tilraunir. Einnig notaði ég tvær gerðir af tómötum - engin sérstök ástæða kannski - meira bara svona til gamans. Og svo bætti ég líka smá skvettu af balsamik ediki til að lyfta bragðinu aðeins.

Óður til tómata; besta penne alla pomodore heimsótt aftur - núna á grillinu



Hráefnalisti

600-800 gr sætir tómatar
4 msk jómfrúarolía
6 hvítlauksrif
Salt og pipar
2 msk balsamic edik

30  basilíkulauf
4-6 msk rjómi


Jæja best að vinda sér í þetta. Ætli ég hafi ekki verið með 600-800 gr af fallegum rauðum og sætum tómötum. Þeir voru skornir niður í bita eins og sést á myndinni og lagðir í eldfast mót. Næst er að hræra saman við fjórum matskeiðum af góðri jómfrúarolíu og síðan er sex smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir, eða þá tveimur niðurskornum kínverskum hvítlauksrifjum. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar.



Reif niður heila basiliku-jurt sem ég síðan lagði til hliðar til að bæta saman við tómatana þegar þeir yrðu eldaðir.



Þá bætti ég saman við tveimur matskeiðum af góðu balsamik-ediki.



Grillið var blússhitað. Eldfasta mótið sett á grillið, um cm frá og voru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir tóku lit og voru jafnvel farnir að sjóða. Sumir verða gullinbrúnir, sumir örllítið dekkri. 

Næsta skref er að stappa tómatana með gaffli – misvel.



Því næst er 30 rifnum basilíkulaufum blandað saman við og 4-6 msk af rjóma sömuleiðis.



Saltað og piprað eftir smekk. Látið vera á grillinu þangað til að fer að sjóða upp í sósunni.

Pastað var soðið skv. leiðbeiningum. Við gerðum einfalt heimagert hvítlauksbrauð - bara baguetta skorin í helminga og pensluð með hvítlauksolíu, smá niðurrifinn parmesan og svo bakað í ofni. 


Með matnum drukkum við hvítvín úr búkollu. Ég hafði sótt nokkrar svona til Þýskalands í sumar þannig að þetta vín var nokkrum sinnum á boðstólnum yfir sumarmánuðina. Þetta er ástralskt Chardonnay vín frá því 2011. Ljómandi gott, kalt úr ísskápnum - ávaxtaríkt, melóna og smjörkennt eftirbragð.



Pastað var sett á stórt fat og svo sósunni hellt yfir. Parmaostur raspaður yfir!

Bon appetit!