Saturday 18 April 2020

Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti


Það mun vera tákn um ranghugmyndir að maður haldi að fólkið í sjónvarpinu sé að tala við mann. En þannig leið mér síðastliðinn föstudag þegar ég, ásamt restinni af fjölskyldunni sátum og nutum þáttarins Heima hjá Helga.

Ég beið spenntur eftir aspasbrauðinu - en Helgi nefndi að þessu sinni aspassoufflé. Og það hafði ég bara aldrei gert. Þannig að ég leit svo á að um áskorun væri að ræða. Liðna viku hef ég verið að skoða uppskriftir og fann eina sem ég aðlagaði til að geta kallað hana mína.

Hægt er að sjá atganginn á Instragram reikningi mínum, sjá instagram story.



Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti

Fyrir sex

1/2 búnt af ferskum aspas
4 egg
35 g smjör
35 hveiti
300 ml mjólk
4 msk rifinn Västerbotten ostur
1/2 hvítlauksgeiri
smjör
brauðmylsna

Aðferð

Skerið aspasinn í bita og sjóðið í söltuðu vatni í tvær mínútur. Kælið í ísvatni og leggið svo aspasinn til hliðar.

Útbúið bechamél sósu með því að bræða 35 g af smjöri í potti og hræra vel saman og mynda smjörbollu. Bæta kaldri mjólk saman við og hita varlega. Sósan þykknar þegar hún hitnar. Bætið svo ostinum saman við og bræðið hann í heitum jafningum.

Aðskiljið eggjahvíturnar frá eggjarauðunum.

Setjið bechamélsósuna í blandara og bætið við aspasnum, hálfum hvítlauksgeira, eggjarauðum, salti og pipar. Blandið vel saman. Færið blönduna yfir í skál.

Þeytið eggjahvíturnar þangað til að þær eru dúnmjúkar - eins og fallegt ský á himni. Ekki stífþeyta. Bætið þeim saman við aspasbætta bechamélblönduna, varlega þannig að þið sláið ekki loftið úr eggjahvítunum.

Smyrjið lítil eldföst mót með mjúku smjöri og setjið brauðmylsnu innan á mótin. Hellið því næst souffleblöndunni yfir í mótin.


Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur. Souffle-ið rís upp úr mótunum. Látið standa í nokkrar mínútur. Við það falla þau aftur.


Berið fram með góðu kampavíni og njótið.

Áfram Helgi Björns og Reiðmenn vindanna.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Saturday 11 April 2020

Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð. Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi kóngur með camembert og kampavíni


Heitir réttir - eins og Aspasbrauð - hafa verið vinsælir á mínu heimili frá því að ég man eftir mér. Ég held að í öllum fjölskylduveislum sem foreldrar mínir stóðu fyrir hafi aspasbrauð verið á boðstólunum. Og þennan rétt tók ég svo sannarlega upp á mína arma. Heitir rétt eins og aspasbrauð eru dásamlega ljúffengir.

Og nú ætti auðvitað að vera alger uppskeruhátíð fyrir aspasbrauðs elskendur - þar sem fermingaveislur er líklega stærsti vettvangur þar sem aspasbrauð ætti upp á pallborðið. En nú eru engar fermingaveislur. Þeim hefur verið frestað í bili þangað til um hægist í samfélaginu.

En svo birtist Helgi Björns - sem virðist kunna að taka púlsinn á þjóðinni. Ekki bara með söng - heldur líka með því að lyfta upp þessum gómsæta rétti.

Aspasbrauð!

Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð; Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi konungur með camembert og kampavíni

Og aspasbrauð eru makalaust fljótleg að undirbúa - það tók miklu lengri tíma að setja þetta inn á instastory heldur en að matbúa :) - hægt er að sjá færsluna hérna.


Klassískur Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
6 skinskusneiðar
salt og pipar
handfylli af osti - td. rifnum gratínosti

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum.

Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið svo í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.



Dásamlegt!


Smá jómfrúarolía - sælgæti!


Lúxus Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
3 skinkusneiðar
15 sneiðar af salami
1/2 rauð papríka
1/2 rauður chili
salt og pipar
handfylli af ljúffegum Västerbottenosti

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna og salami í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum, niðurskorinni papríku og chili.

Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.


Ljúffengt!


Bestu bitarnir eru þar sem osturinn hefur karmelliserast aðeins.


Konunglegur Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eiginvali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml kampavín
5 aspasspjót
1 camembert
2-3 msk rifinn ostur
1 tsk ferskt timian
salt og pipar

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Brjótið eggin í skál og setjið rauðurnar til hliðar. Þeytið upp hvíturnar. Hrærið svo saman eggjarauðum, rjóma og kampavíni. Bætið hvítunum saman við og blandið varlega saman. Skerið aspasinn í þunnar sneiðar og setjið ofan á brauðið.

Hellið eggja og kampavínsblöndunni yfir og raðið svo niðursnseiddum camembert yfir. Bætið upp með rifnum osti. Skreytið með timjan.

Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.


Ef þetta er ekki falleg sjón þá veit ég ekki hvað. 


Og með réttunum gæddi ég mér á Moillard Cote Nuits-Villages frá Beune í Búrgúndarhéraði. Dásamlegt Pinot Noir - berjakeimur og flauelismjúkt! 


Konunugur aspasbrauðanna hefur verið krýndur! 

Takk Helgi - skál fyrir....

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa