Sunday 25 September 2016

Svipmyndir úr nýja draumaeldhúsinu mínu!


Loksins er eldhúsið okkar tilbúið. Hugmyndin að þessu eldhúsi kviknaði eiginlega strax og ég sá þetta hús á netinu. Inga Dóra, mágkona mín, benti okkur á þetta hús á netinu fljótlega eftir að við ákváðum að flytja heim til Íslands. Við keyptum það af Pétri og Kolbrúnu sem byggðu þetta hús snemma á áttunda áratugnum. Þau höfðu augljóslega lagt alúð í þetta hús enda er svo sannarlega vandað til verka í hvívetna. Guðný Arna, innanhúsarkitekt sem er búsett í Lundi, hjálpaði mér að raða hugmyndum mínum upp í teikningu.

Við fengum afhent í júníbyrjun. Byrjað var á því að hreinsa allt út. Upprunalega ætluðum við þó að halda eftir hlut af gömlu innréttingunni en ákváðum síðan að myndi kannski koma eitthvað einkennilega út - þannig út fór hún!

Við byrjuðum að hamast fljótlega eftir að við fengum húsið afhent. Og þegar ég segi við þá meina ég Inga Dóra, svilkona mín, sem er ofsi til allra verka. Hún hefur verið verkstýran í þessu verki og séð til þess að það hafi farið vel. Hún er ekki bara nákvæm, heldur líka laghent og svo harðdugleg með eindæmum. Ekkert verk virðist vera henni ofviða!

Kolbrún Eva, mágkona mín, var einnig innsti kopur í búri. Og svo faðir minn, Ingvar - sem nennir öllu - öllu. Hann virðist ekki una sér nema að hann sé í eílífum verkefnum!
Hérna er svo mynd af okkur Ingu Dóru, í einum af mörgum veislum sem ég ætla að halda til heiðurs henni! 


Inga Dóra tók einnig í gegn gólfið - reif upp parketið sem var fyrir og flísalagði. Settum jafnframt hita í gólfið. 


Við fluttum síðan heim til Íslands snemma í vor. Og þá var hafist handa við að koma innréttingunni upp. Kolbrún Eva, mágkona mín, hafði þó sett bróðurpartinn af innréttingunni saman. 


Sverrir Jan, æskuvinur minn (frá fimm ára aldri) og verkfræðingur með meiru, var mér einnig innan handar við að klambra innréttingunni upp.


Og ótrúlegt en satt þá hefur mér fundist þetta föndur ótrúlega skemmtilegt.


Ég keypti borðplöturnar frá Fanntófelli. Sigurður og Krissa sem eiga fyrirtækið voru mér einnig innanhandar. Ég hafði verið svo vitlaus að senda þeim röng mál og þau voru ekki lengi að lagfæra mistök mín! 

Ég keypti gegnheilar eikarplötur, 32mm þykkar. Eyjan er fjórir metrar að lengd - Sigurður færði mér þó þær sorgarfréttir að þetta var ekki lengsta eyjan á Íslandi. Bæti það bara upp með stemmingunni.

Það er líka skemmtilegt að segja frá því að Fanntófell gerði innréttingarnar í móttökunni í Klíníkinni í Ármúla þar sem ég er með læknastofu ásamt góðu gengi kollega, en þær eru sérstaklega vandaðar og fallegar. 


Ég bað einnig Sigurð að sníða handa mér hillur í eitt hornið í eldhúsinu. 


Hann smíðaði einnig hillur fyrir matreiðslubókasafnið mitt sem telur tæplega fjögurhundruð bækur eins og sakir standa.

Ljósakrónuna í eldhúsinu hannaði ég sjálfur út frá hugmynd sem ég hafði þróað í Lundi. Þar eru gamalsdagar ljósaperur utan um kopargrind þar sem ég hengdi upp alla koparpottana sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. 


Skurðarbrettið færði svo Sigurður og Krissa mér að gjöf - hann getur skorið út skemmtileg mynstur (blóðröndina) í þykkan viðinn. - Ísland á nú við, þegar við erum loksins flutt heim. 

'

Fleiri svipmyndir af eyjunni! 


Ég er með þrjá ofna í eldhúsinu. Ég tók Drottninguna með frá Svíþjóð, sem er sex hellugas eldavél frá SMEG en ofninn á henni er eiginlega ekki nógu góður nema en til þess að grilla kjúkling á teini. Ég fékk mér því tvo ofna frá Bosch - annar þeirra er fullkominn gufuofn sem hægt er að hlaða með vatni og spýta gufu yfir matinn, frábært þegar verið er að baka brauð, eða hreinlega til þess að gufusjóða grænmeti. Svo er ég líka með annan aðeins minni sem er blanda af ofni og örbylgju (maður verður nú að geta poppað :) ). 

Það er ótrúlega hentugt að vera með tvo fullkomnaofna. 


Hérna sést svo ljósakrónan mín aðeins betur.


Ég fékk mér einnig spanhelluborð frá Bosch. Gasmaður eins og ég er eiginlega tregur við að viðurkenna en þegar kemur að hraða þá er spanið eiginlega hraðara heldur en gasið. Þetta helluborð hefur þann kost að það er hægt að virkja allan flötinn þannig að hann verður allur heitur. Þá er hægt að brúna kjötið að utan áður en ofnskúffunni er slengt inn í ofninn til að klára eldunina. 


Ég fékk kunningja minn til að setja þessa tengla í borðplötuna hjá mér, en þeim er hægt að loka. Það er ekki sjaldan að maður er með fjöldann allann af tækjum, tólum og tölvum á borðinu sem þurfa rafmagn. 


Ég tók öll tækin frá Bosch en þau hafa fengið lof útum allan heim. Ég er með ísskáp, frysti, uppþvottavél, helluborð, háf og tvo ofna - allt frá sama merkinu. Ég fékk alveg nóg af Electrolux í Svíþjóð sem var alltaf að bila.


Flísarnar tók ég með mér frá Svíþjóð þegar við fluttum. Þetta er franskar dekor flísar sem Inga Dóra sá um að leggja fyrir okkur. Síðustu tuttugu árin hef ég eignast ógrynni af góðum hnífum sem þarf að ganga vel um. Best fer um þá á seglum.


Stóru hnífarnir fengu sinn heiðurssess í eldhúsinu. Uppáhaldið mitt er neðst fyrir miðju - Kai Shun Ken Onion 10 tommu kokkahnífur. Hægt er að kaupa Kai Shun hnífa í Prógastró í Ögurhvarfi.


Eftir að hafa farið í gegnum tvær Rancilio Silva vélar á síðasta áratug - ákvað ég einnig að fá mér kaffivél  - Siemens Series 700 eq 6 - svona fyrst að maður var á annað borð að þessu (hún er á tilboði út mánuðinn). Og ekki sé ég eftir því - hún getur gert vel flesta kaffidrykki sem hugurinn gæti girnst og gerir það með glæsibrag.

Ég er allaveganna byrjaður að elda - elda eins og engin væri morgundagurinn.

Enda væsir ekki um mig - Bon appetit!

Hlakka til að sýna ykkur afraksturinn.

Tuesday 13 September 2016

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði


Eiginkona mín, Snædís Eva varð 39 ára á dögunum. Sumir myndu segja að maður ætti aldrei að greina frá aldri kvenna - en þegar maður ber aldurinn svona vel og fríkkar bara með árunum skiptir það í raun bara engu máli.

Og ég stend í óendanlegri þakkarskuld við þessa konu. Ekki bara hefur hún þolað mig í öll þess ár - þá hefur líka gert mig að betri manni. Búið mér líf þar sem ég hef fengið að njóta mín og hennar. Gefið mér gleði, tilgang og svo öll þess frábæru börn; Valdísi Eik, Vilhjálm Bjarka og Ragnhildi Láru.

Það er skrítið að hafa verið ástfanginn í svona mörg ár. Auðvitað er maður ekki ástfanginn alla daga, stundum elskar maður, stundum þykir manni bara vænt um konuna sína, stundum er maður bara vinur, svo aftur verður maður ástfanginn - svo óvænt aftur,  svo heitt og innilega. Það er erfitt að hugsa lífið án þess að vakna eða sofna við hliðina á þessari manneskju - ástinni minni, Snædísi Evu.


Við áttum líka brúðkaupsafmæli á dögunum. Þann 11. september 1999 gengum við upp að altari á fallegum septembereftirmiðdegi í Garðakirkju á Álftanesi og giftum okkur fyrir framan vini og vandamenn. Það var virkilega góður dagur, sól, en blés eilítið - bara svona eins og lífið hefur verið.

Daginn eftir á Snædísin mín svo afmæli. Og eins og þetta var skemmtilegt þá hefur afmælisdagurinn hennar oft horfið í skuggann á því að við áttum brúðkaupsafmæli daginn áður. Í fyrra stakk ég því upp á að við myndum gifta okkur aftur - einhvern tíma að vori, rétt áður en sumarið lætur á sér kræla. Ég held því að ég biðji hana því að giftast mér aftur - þannig að við náum bæði að njóta brúðkaupsafmælisins fyrir okkur og svo hún afmælisins.

Snædís - viltu gifast mér, ...aftur?

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

Þetta er alltént maturinn sem var eldaður í tilefni afmælisins - á ekki að vera fiskur á mánudögum?

Vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum fannst það alla veganna, en þeir eru með besta fiskinn í borginni.

Hráefnalisti

1,5 kg humar (skelbrot)
500 g stórlúða
2 stórar gulrætur
1 gulur laukur
2 sellerísstangir
6 hvítlauksrif
1 dós tómatmauk
500 ml hvítvín
3 l vatn
humarkraftur eftir smekk
worchestershire sósa
600 ml rjómi
1/2 tsk cheyenne pipar
2 handfylli steinselja
safi úr heilli sítrónu
1 púrrlaukur
smjör og olía
salt bragðbætt með þangi
salt og pipar
Kolbrún, systir Snædísar, sá um að taka humarinn úr skelinni. Vel gert, Kolbrún - þú ert þá kokkur eftir allt! 


Skera niður lauk, sellerí, gulrætur, hvítlauk í smjöri og olíu. Handfylli af steinselju, skelbrot og tómatmauk.


Setja tónlist á fóninn. Muna að fela snúrurnar fyrir næstu myndatöku.


Hella hvítvíni yfir skelbrotin, sjóða upp áfengið, hella vatni yfir og sjóða í 45 mínútur, sjóða niður um 1/3.


Skera lúðina í bita. Marinera í olíu og sítrónusafa. Pipar ef vill.


Sía soðið í öðrum potti, bæta við rjóma. Sjóða niður um annan þriðjung. Salta, pipra, bæta við krafti, víni, worchestirshire sósu. Ein púrra sneidd þunnt niður og bætt saman við. 


Bragðbæta ennþá meira. Nú með sjávarsalti bragðbættu með þangi. Umami kick!


Næst  er að útbúa hvítlauksbrauðið. Að þessu sinni bara bagettur úr búð, skornar niður 2/3 í gegn, smurðar með hvítlaukssmjöri og svo ostum raðað í sárin; camenbert, cheddar og piparosti (sem fær mikið diss en er ljúffengur).

Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu

500 g humar
3 egg
handfylli hveiti
handfylli brauðmylsna
hvítlauksduft
salt og pipar

Sósan

1 dós sýrður rjómi
1/2 tsk sambal oelek
1 tsk tómatsósa
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar


Setti þrjá lítra af olíu í pottinn og hitaði í 160 gráður. Velti humrinum upp úr bragðbættu hveiti, síðan eggjablöndu og loks mylsnunni. Hitastýringin á þessari Bosch plötu er frábær! 


Svo er bara djúpsteikt - ég elska að djúpsteikja góðan mat! Allt verður betra þegar það er djúpsteikt!!!


Djúpsteiku humarhölunum var síðan bara dýpt í sósuna (öllu hrært saman) og borðað með fingrunum í forrétt. Sælgæti!


Hvítlauksbrauðin voru bökuð í 20 mínútur við 180 gráðu hita.


 Nokkrum humarhölum var raðað á disk. Smá steinselja sett yfir. Lúðan var sett saman við súpuna tveimur til þremur mínútum áður en hún var borin fram. Súpan fékk að krauma vel áður en henni var hellt yfir humarinn sem eldaðist af hitanum af súpunni.


Með matnum drukkum við Montes Sauvignion Blanc Reserva frá því 2015. Þetta er vín frá Valle de Curivo í Chile. Þetta er virkilega góður sopi fyrir tunguna sem og budduna. Frísklegt vín, fölgult, létt á tunguna með ríkum ávexti, smá beiskju og ljúfu eftirbragði.


Ríkleg súpa með djúpu bragði og ferskum sjávarréttum.

Alger veisla.

Til hamingju með daginn, Snædís Eva.

Monday 5 September 2016

Örjurtinar frá Snjallbýli Stefáns Karls - hvítlauksglóðuð bruschetta með plómutómötum, mozzarella og ör-basil og svo fjögurra fiska ceviche með ör-kóríander


Ég las einhvers staðar að Stefán Karl Stefánsson leikari væri orðinn garðyrkjubóndi. Og ekki bara venjulegur garðyrkjubóndi heldur væri hann búinn að innrétta gám í hrauninu í Hafnarfirði og ræktaði þar "örjurtir" eða microgreens eins og það er kallað á ensku. Hann er augljóslega það heitasta í garðyrkubransanum í dag og var meira að segja til umfjöllunar Kastljóssins, mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn. Ég hafði upp á honum á Facebook og spurði hvort að ég mætti ekki koma og kynna mér það sem hann hefði verið að gera!

Og af hverju er ég eitthvað að hugsa um þetta? Svarið er einfalt - maður er einfaldlega að sækja sér innblástur. Það er gaman að sjá fólk takast á við áskoranir eins og það að stofna nýtt spennandi fyrirtæki, sérstaklega í matvælaframleiðslu! Það er líka svo áhugavert að sjá hvernig hugmynd sem einhver fær - getur orðið að einhverju - einhverju raunverulegu sem hægt er að horfa á, halda á og í þessu tilfelli - borðað.

Ég dvaldi drykklanga stund hjá Stefáni og fékk að smakka ólíkar spírur; baunagrös, karsa, sólfræspírur, sinnepsfræsspírur, kóríander, basil, timian, súrur ásamt mörgum fleiri tegundum sem hann er að rækta um þessar mundir. Stefán leysti mig svo út með nokkrum tegundum af ör-jurtum til að prófa og bæta matargerðina mína.

Örjurtinar frá Snjallbýli Stefáns Karls - hvítlauksglóðuð bruschetta með plómutómötum, mozzarella og ör-basil og svo fjögurra fiska ceviche með ör-kóríander

Auk þess að nota baunaspírur í salöt, sinnepsfræsspírurnar í kartöflumús og svo karsa í kartöflusalat gerði ég þessar tvær uppskriftir sem mér fannst nauðsynlegt að deila með ykkur. 


Það fyrsta sem maður sér þegar maður rekur inn trýnið er taflan þar sem vinnuplan vikunnar liggur fyrir - hverju þarf að sá, fyrir hvaða tíma og hvar/hverjum það er afhent. Þar sér maður líka hvurslags fjölbreytni þarna er að finna.


Allt byrjar þetta með moldinni. Stefán Karl flytur inn mold þar sem engum aukaefnum hefur verið bætt við - engin viðbótarefni! En þar er þó að finna öll næringarefni sem fræið þarf á að halda til að
spíra.


Bara eftir rúman sólarhring eftir að fræjunum er sáð spíra þau. Þau eru fljót að þroskast þar sem þau skjóta rótum við sérstök skilyrði með hærri hita og stýrðu rakastigi. Þannig eru þau fljótari en ella að ná sér á strik.


Rétt um 2-3 sólarhringum síðar eru spírurnar teknar úr hitakassanum og færðar í "almenna farrýmið" þar sem þær fá að spretta nokkra daga í viðbót áður en þær eru sendar út í heiminn. 


Eins og nefnt var að ofan er Stefán að rækta heilmikið af ólíkum jurtum sem hann selur mest til veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu.


Það ekki leiðinlegt að sækja sér innblástur í smiðju svona skapandi manna.

Fyrsta vers; Hvítlauksglóðuð brúsketta með smágerðum plómutómtöum, mozzarella og örbasil Þetta er svo auðveld matseld að það tekur því varla að skrifa upp hráefnalista.


Skerið handfylli af smáum plómutómötum í bita og setjið í skál. Hellið tveimur matskeiðum af jómfrúarolíu saman við. Sneiðið mozzarellaostinn í samskonar bita og blandið saman við tómatana. Saltið og piprið. Blandið helmingnum af basilinu saman við og geymið afganginn til skreytingar.


Penslið niðurskorna baguettu með kröftugri hvítlauksolíu og glóðið í blússheitum ofni. 


Svo er bara að tylla tómat- og mozzarella blöndunni ofan á sneiðarnar og setja síðan veglega af ör-basil yfir.


Þetta var einstaklega ljúffengt - "intensívt" og bragðgott.

Annað vers; Fjögurra fiska ceviche með melónu og ör-kóríander

Þetta er ótrúlega einfaldur og ljúffengur forréttur sem ég útbjó fyrir kollega mína frá Svíþjóð sem komu hingað nýlega í tengslum við norrænu gigtarráðstefnuna sem haldin var í Hörpu liðna helgi.

Ég notaði 300 g af hverri fisktegund; lax, hörpuskel, lúðu og smáhumar sem var skorið niður í hentuga bita og sett í skál með safa úr 3 sítrónum, 3 límónum, 5 msk jómfrúarolíu, berkinum af bæði límónunum og sítrónunum. Piprað. Ekki þarf að salta fiskinn á þessu stigi. Bætti einnig handfylli af steinselju saman við. Þetta var svo sett í ísskáp yfir nótt og hrært í þessu nokkrum sinnum.

Eftir sólarhring er fiskurinn tilbúinn. Sítrónu og límónusafinn hefur umbreytt fisknum þannig að hann er í raun eldaður. Vökvanum er síðan hellt frá. Skar niður melónu í litla bita og blandaði saman við fiskinn ásamt talsvert af ör-kóríandernum. Saltaði og pipraði eftir smekk.

Borið fram með ristuðu hvítlauksbrauði og einfaldri hvítlaukssósu (sýrður rjómi, hvítlaukur, salt og pipar, skvetta af hlynsírópi).  Svo setti ég nóg af ör-kóríander ofan á til skreytingar.

Einstaklega ljúffengt!


Í veislunni með kollegum mínum bar ég fram nokkra rétti og var með að auki; moules marniere, marineraðar og djúpsteiktar gellur (láðist að taka mynd af tilbúnum réttinum) og svo glóðaða þorskhnakka með skorðalía kartöflumús og ansjósusmjöri. Í eftirrétt var svo akút ostakaka (sem kemur á bloggið von bráðar)Með þessum réttum bar ég fram þetta ljúffenga nýsjálenska vín - Brancott Estate Sauvignion Blanc frá því 2014. Fyrri árgangar þessa víns hafa unnið til verðlauna. Þetta er fallega fölgult vín í glasi. Mjúkur jarðkenndur ilmur og svo mikil ávöxtur í bragðinu með smá kryddi og þægilegu eftirbragði.
Þetta vín passaði ljómandi vel með matnum.