Showing posts with label afmæli. Show all posts
Showing posts with label afmæli. Show all posts

Friday, 20 September 2019

Svipmyndir úr hörkuveislu í tilefni 42 ára afmælis Snædísar. Tilgangi lífsins náð og fagnað með vinum - Heilgrillað lamb, steikt grænmeti, ljúffengt salat, heimagert brauð og taiziki sósa!


Þessi draumadís varð fjörutíuogtveggja ára í liðinni viku. Hún er mitt algera uppáhalds í lífinu! Mér fannst það frábært tilefni og til að halda ærlegt teiti og bjóða vinum og vandamönnum í veislu á heimilinu. Einhverjum kann að finnast það skrítið að halda upp á þennan afmælisdag frekar en einhvern annan. Hugmyndin er fengin úr bókinni og seinna bíómyndinni A Hitchhiker's guide to the galaxy þar sem framandi geimverur spyrja ofurtölvu eina um hver sé tilgangur lífsins. Svarið kom nokkrum milljón árum síðar - fjörutíuogtveir. Og ef þetta er ekki ástæða til að fagna þá veit ég ekki hvað! 

Svipmyndir úr hörkuveislu í tilefni 42 ára afmælis Snædísar. Tilgangi lífsins náð og fagnað með vinum - Heilgrillað lamb, steikt grænmeti, ljúffengt salat, heimagert brauð og taiziki sósa!

Fyrir 37 gesti

1 lamb
500 ml jómfrúarolía
kryddblanda að eigin vali - ég fór í grískar áttir með fullt af oregano, timjan, papríkudufti, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar
fullt af kolum og eitt stykki stórt grill

Fyrir brauðin 

Vilji maður gera bara eina uppskrift er hægt að fylgja leiðbeiningum hérna.

4 kg hveiti
2 l vatn
4 pakkar ger
120 g salt
120 g sykur

Fyrir foccacia brauðin notaði ég handfylli af íslenskum kirsuberjatómötum og svo tvær tegundir af grískum ólíum í hitt brauðið. 

Valdís tók að sér að gera veislubrauð sem hún hafði lært í heimilisfræði í MH. 

250 g af fetaosti og svo handfylli af ólívum. 

Villi gerði svo annað brauð með sömu aðferð, fyllt með osti og kraftmikilli heimagerðri hvítlauksolíu.


Öllum hráefnum var blandað saman og skipt niður í fjóra hleifa sem fengu að hefast í klukkustund eða svo.


Veislubrauðinu var aftur skipt í tvo hluta. Deigið var svo flatt út, hráefnum dreift yfir og svo var annað útflatt deig lagt ofaná.


Deigið var svo klippt í grófa þríhyrninga.


Og svo var snúið upp á brauðið.


Það kom út úr ofninum alveg dásamlega gullið og ilmaði stórkostlega. Villi endurtók leikinn með hvítlauksostaveislubrauðið.


Foccacian var gerð með hefðbundnu sniði - sjá þennan hlekk.



Næsta skref var að undirbúa lambið. Ég byrjaði á því að þræða skrokkinn upp á spjótið. Ég á mótorknúið spjót sem hafði verið með smá vesen - og þurfti viðgerð,  en það gaf sig aftur svo það þurfti að redda nýju mannknúnu spjóti.


Faðir minn, Ingvar, var kallaður út og sá til þess að sitja úti í rigningu og roki og elda lambið. 


En það þarf alvöru mannskap ef maður vill grilla heilt lamb - þetta tekur um tvo til þrjá tíma við kjöraðstæður en þegar íslenskt haustveður lætur á sér kræla þá er betra að hafa auka mannafla því haustvindarnir krefjast lengri eldunar. 


Hér sést svo faðir minn aðeins betur, Ingvar Sigurgeirsson, greiðviknari mann er erfitt að finna.


Svo verður auðvitað að bjóða upp á einhverja brjóstbirtu eigi mannskapurinn ekki að verða þurrbrjósta.

Við buðum gesti velkomna með Piccini Prosecco extra dry sem og VES.


Þá vorum við með ljúffengt hvítvín Mar de Frades Albarino frá Spáni. Rann einkar vel niður enda er það ferskt og upplífgandi. 


Svo skárum við niður gulrætur, papríkur, sveppi, vorlauk, hnúðkál, lauk og hvílauk og steiktum í hvítlauksolíu og smjöri. Bragðbætt með döðlum og auðviað salti og pipar.


Bróðir minn hjálpaði mér að gera þessa geggjuðu Taiziki sósu - gerða úr grískri jógúrt, majónesi, sítrónusafa, hvítlauk, kjarnhreinsaðri agúrku, ferskum kruddjurtum, salti og pipar.


Þegar lambið var tilbúið, var bara að brýna hnífinn og byrja að skera. 

Sá ekki betur en að gestirnir voru sáttir - bæði með mat og drykk!

Og auðvitað var sungið - allir tóku lagið! Langt fram eftir nóttu!

Til hamingju með afmælið - tilgangi lífsins hefur verið náð - nú er að halda áfram að njóta þess.

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 13 September 2016

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði


Eiginkona mín, Snædís Eva varð 39 ára á dögunum. Sumir myndu segja að maður ætti aldrei að greina frá aldri kvenna - en þegar maður ber aldurinn svona vel og fríkkar bara með árunum skiptir það í raun bara engu máli.

Og ég stend í óendanlegri þakkarskuld við þessa konu. Ekki bara hefur hún þolað mig í öll þess ár - þá hefur líka gert mig að betri manni. Búið mér líf þar sem ég hef fengið að njóta mín og hennar. Gefið mér gleði, tilgang og svo öll þess frábæru börn; Valdísi Eik, Vilhjálm Bjarka og Ragnhildi Láru.

Það er skrítið að hafa verið ástfanginn í svona mörg ár. Auðvitað er maður ekki ástfanginn alla daga, stundum elskar maður, stundum þykir manni bara vænt um konuna sína, stundum er maður bara vinur, svo aftur verður maður ástfanginn - svo óvænt aftur,  svo heitt og innilega. Það er erfitt að hugsa lífið án þess að vakna eða sofna við hliðina á þessari manneskju - ástinni minni, Snædísi Evu.


Við áttum líka brúðkaupsafmæli á dögunum. Þann 11. september 1999 gengum við upp að altari á fallegum septembereftirmiðdegi í Garðakirkju á Álftanesi og giftum okkur fyrir framan vini og vandamenn. Það var virkilega góður dagur, sól, en blés eilítið - bara svona eins og lífið hefur verið.

Daginn eftir á Snædísin mín svo afmæli. Og eins og þetta var skemmtilegt þá hefur afmælisdagurinn hennar oft horfið í skuggann á því að við áttum brúðkaupsafmæli daginn áður. Í fyrra stakk ég því upp á að við myndum gifta okkur aftur - einhvern tíma að vori, rétt áður en sumarið lætur á sér kræla. Ég held því að ég biðji hana því að giftast mér aftur - þannig að við náum bæði að njóta brúðkaupsafmælisins fyrir okkur og svo hún afmælisins.

Snædís - viltu gifast mér, ...aftur?

Afmæli Snædísar: Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu og svo humar- og lúðusúpa með fjölbreyttu hvítlauksbrauði

Þetta er alltént maturinn sem var eldaður í tilefni afmælisins - á ekki að vera fiskur á mánudögum?

Vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum fannst það alla veganna, en þeir eru með besta fiskinn í borginni.

Hráefnalisti

1,5 kg humar (skelbrot)
500 g stórlúða
2 stórar gulrætur
1 gulur laukur
2 sellerísstangir
6 hvítlauksrif
1 dós tómatmauk
500 ml hvítvín
3 l vatn
humarkraftur eftir smekk
worchestershire sósa
600 ml rjómi
1/2 tsk cheyenne pipar
2 handfylli steinselja
safi úr heilli sítrónu
1 púrrlaukur
smjör og olía
salt bragðbætt með þangi
salt og pipar




Kolbrún, systir Snædísar, sá um að taka humarinn úr skelinni. Vel gert, Kolbrún - þú ert þá kokkur eftir allt! 


Skera niður lauk, sellerí, gulrætur, hvítlauk í smjöri og olíu. Handfylli af steinselju, skelbrot og tómatmauk.


Setja tónlist á fóninn. Muna að fela snúrurnar fyrir næstu myndatöku.


Hella hvítvíni yfir skelbrotin, sjóða upp áfengið, hella vatni yfir og sjóða í 45 mínútur, sjóða niður um 1/3.


Skera lúðina í bita. Marinera í olíu og sítrónusafa. Pipar ef vill.


Sía soðið í öðrum potti, bæta við rjóma. Sjóða niður um annan þriðjung. Salta, pipra, bæta við krafti, víni, worchestirshire sósu. Ein púrra sneidd þunnt niður og bætt saman við. 


Bragðbæta ennþá meira. Nú með sjávarsalti bragðbættu með þangi. Umami kick!


Næst  er að útbúa hvítlauksbrauðið. Að þessu sinni bara bagettur úr búð, skornar niður 2/3 í gegn, smurðar með hvítlaukssmjöri og svo ostum raðað í sárin; camenbert, cheddar og piparosti (sem fær mikið diss en er ljúffengur).

Djúpsteiktur humar með chili-sýrðrjómasósu

500 g humar
3 egg
handfylli hveiti
handfylli brauðmylsna
hvítlauksduft
salt og pipar

Sósan

1 dós sýrður rjómi
1/2 tsk sambal oelek
1 tsk tómatsósa
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar


Setti þrjá lítra af olíu í pottinn og hitaði í 160 gráður. Velti humrinum upp úr bragðbættu hveiti, síðan eggjablöndu og loks mylsnunni. Hitastýringin á þessari Bosch plötu er frábær! 


Svo er bara djúpsteikt - ég elska að djúpsteikja góðan mat! Allt verður betra þegar það er djúpsteikt!!!


Djúpsteiku humarhölunum var síðan bara dýpt í sósuna (öllu hrært saman) og borðað með fingrunum í forrétt. Sælgæti!


Hvítlauksbrauðin voru bökuð í 20 mínútur við 180 gráðu hita.


 Nokkrum humarhölum var raðað á disk. Smá steinselja sett yfir. Lúðan var sett saman við súpuna tveimur til þremur mínútum áður en hún var borin fram. Súpan fékk að krauma vel áður en henni var hellt yfir humarinn sem eldaðist af hitanum af súpunni.


Með matnum drukkum við Montes Sauvignion Blanc Reserva frá því 2015. Þetta er vín frá Valle de Curivo í Chile. Þetta er virkilega góður sopi fyrir tunguna sem og budduna. Frísklegt vín, fölgult, létt á tunguna með ríkum ávexti, smá beiskju og ljúfu eftirbragði.


Ríkleg súpa með djúpu bragði og ferskum sjávarréttum.

Alger veisla.

Til hamingju með daginn, Snædís Eva.

Thursday, 25 February 2016

Fertugsafmælið; Confit du canard með seljurótar, beðu og baunapúré og kirsuberjum í púrtvíni - namminamm


Það er einkennilegt að verða fertugur. Mér finnst þetta vera hálf "out of body experince" - þar sem mér finnst ég vera yngri í anda. En kannski er ég að misskilja þennan þroskaferil eitthvað, alltént er ég að vona það! Ekki að ég sé ósáttur - alls ekki! 

Ég skrifaði þetta á Fésbókina í gær!

40 ára!

Fjörutíu ár - 480 mánuðir, 2080 vikur, 14600 daga, 350400 klukkustundir, 210244000 mínútur (give or take nokkur hlaupaár) - þetta er dágóður tími hvernig sem á það er litið!

Maður er þá loksins orðin fullorðinn! Er það ekki?

Það er ágætt að líta yfir farinn veg og velta fyrir sér hverju maður hefur áorkað á þessum tíma!

Ólst upp hjá frábærum foreldrum, Lilja og Ingvar. Ég fór í leikskóla og lærði mannasiði og að blóta, eignaðist bróður, fór í grunnskóla og kynntist frábærum vinum, fór í leiklistarskóla í Ecternach, lærði dönsku og krufði þorsk. Bjó í Englandi og lærði ensku. Kom aftur heim og bar út Tímann, Þjóðviljann og seinna Moggann. Átti kött. Fór í menntaskóla - lærði meira, eldfjallaáfanga, ljóðaáfanga, indjánaáfanga, líffræði, fór til Kanada - lærði að lesa og las sögu og kynntist enn fleiri vinum. Kom heim og fór í leiklist, ritstýrði skólablaði. Kynntist ástinni, alvöru ást - Snædísi. Fór í Læknadeild og kynntist fleiri frábærum vinum og kynntist mörgum fyrirmyndum - lærði endalaust meira. Eignaðist dóttur, Valdís Eik. Varð læknir. Vann eins og hestur. Fór að blogga, eignaðist son, Vilhjálm Bjarka. Fór í framhaldsnám í Svíþjóð - lærði að vera betri læknir. Lærði hvað ég í raun kunni lítið! Varð sérfræðingur og eignast svo aðra dóttur, Ragnhildi Láru. Fór í rannsóknir, og lauk stjórnunarnámi. Eignaðist fleiri vini og gaf úr matreiðslubók, matreiðsluþátt og svo aðra matreiðslubók - kynntist ennþá fleira af frábæru fólki. Fór til Englands með fjölskylduna þar sem eiginkonan fór í framhaldsnám. Varð sérfræðingur og ráðgjafi. Birti fyrstu greinina í doktorsnáminu, er að klára þriðju matreiðslubókina. Nóg hefur verið um að vera.

Ég er þakklátur, óendanlega þakklátur. Fyrir alla sem hafa viljað vera vinir mínir, fyrir að umbera mig og þola mig fyrir bæði kosti og galla - sértaklega gallana! Og takk fyrir allar kveðjurnar á afmælisdaginn.

Ég hlakka til - að sinna verkefnum dagsins, framtíðaráskorunum, og meira að segja að flytja til Íslands. Reyna að vera góður sonur, góður vinur, betri eiginmaður og ennþá betri faðir.

Ég er vonandi að gleyma einhverju!

En við ykkur öll segi ég skál og takk!

Hlakka til að sjá ykkur á næstu dögum, vikum og mánuðum. Vona að ég verði það farsæll að upplifa meira af þeirri gleði, gæfu og ást sem ég hef fengið að njóta á þessum 40 árum.

Ég ætla að ná 47 árum í viðbót - að lágmarki!

Bon appetit!


Ég sá að sjálfsögðu um eldamennskuna í gærkvöldi í tilefni afmælisins en auðvitað voru allir í fjölskyldunni með mér í eldhúsinu og lögðu hönd á plóginn! Við höfðum rætt í skíðafríinu hvað ætti að vera í matinn og við ákváðum að hafa önd. Það er auðvitað hægt að gera þetta allt frá grunni - uppskriftina er að finna í bókunum mínum. En þar sem ég var að vinna allan daginn ákvað ég að stytta mér aðeins leið og keypti öndina í Frakklandi - hálfeldaða! Ég var, jú, hvort sem er á ferðinni í gegnum norðaustanvert Frakkland um síðastliðna helgi, þannig að það var, jú, auðsótt mál.

Fertugsveislan var fámenn en góðmenn. Auk fjölskyldumeðlima var óperan okkar á svæðinu og ég bauð vini mínum, Roger Duckitt, einnig í mat. Ætli ég muni ekki halda upp á afmælið almennilega með Snædísi þegar hún verður fertug á næsta ári. Þá getum við gert það saman. 

Fertugsafmælið; Confit du canard með seljurótar-, beðu- og baunapúré og kirsuberjum í púrtvíni - namminamm 

Fyrir átta

8 andaleggir (confit du canard)
20 kirsuber
75 ml púrtvín
seljurót
3 beður
2 dósir canneloni baunir
150 g smjör
salt og pipar



Seljurót er einstaklega ljótt grænmeti - en maður á ekki að dæma bókina eftir kápunni - seljurót er ljúffeng.


Skerið utan af henni og svo í minni bita. 


Næst eru það svo beðurnar. Séu þær ekki til taks mætti nota kartöflur í stað þeirra - eða í versta falli sleppa þeim!


Saltið grænmetið vandlega. Setjið svo pipar. Nú er það svo að hægt er að nálgast gæðasalt á Íslandi. Saltverk framleiðir úrvalssalt við Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum. 


Þar sem ég var að spara tíma - forsauð ég vatnið í katli og hellti yfir grænmetið. Þegar það hafði soðið í 20 mínútur, og var mjúkt í gegn, blandaði ég baununum sem ég hafði skolað vandlega í vatni saman við. Sauð svo í nokkrar mínútur í viðbót.


Því næst hellti ég vatninu frá og setti ég væna klípu af smjöri saman við og leyfði því að bráðna með grænmetinu og baununum. 


Svo var bara að ná í töfrasprotann og mauka allt niður í fallegt silkimjúkt purée. Smakka til með salti og pipar. 


Veiðið andaleggina upp úr dósinni og raðið upp á ofnplötu. Setjið í 220 gráðu heitan ofn og bakið þangað til að húðin er stökk og ljúffeng. 


Setjið kirsuberin í pott og hellið púrtvíninu saman við. Sjóðið vínið upp og látið krauma þangað til að það hefur soðið nærri því alveg upp.


Það er fátt sem er girnilegra en Confit du canard. Lúngamjúkt andakjötið með stökkri húðinni. 

Berið fram með ljúffengu Pinot Noir, til dæmis Montes Pinot Noir Limited Selection frá því 2012 Þetta er vín sem er framleitt í Chile í Valle de Casablanca í Aconcagua héraðinu. Fallega rautt - næstum gegnsætt í glasi eins og Pinot Noir vill vera, ilmar af sætum berjum og með léttum kirsuberjakeim og tannínríku eftirbragði. Þetta er kjörið vín til að hafa með Confit du Canard.


Svo er bara að raða þessu upp á disk og njóta. 

Það er kannski ekki svo slæmt að verða fertugur. Það er nóg af spennndi áskorunum framundan. Þriðja bókin mín fer í prentun á næstu vikum og ég hlakka mikið til að sýna ykkur hana! 

Skál og bon appetit! 

Sunday, 14 December 2014

Valdís 14 ára: Þriggja rétta veisla eftir óskum heimasætunnar og fullt hús af glöðum vinkonum! Tricolore, steik og bernaise og súkkulaðimús!


Frumburðurinn minn, Valdís Eik, verður fjórtán ára núna á laugardaginn næstkomandi. Hún ákvað í tilefni þess að óska eftir því að fá að halda stórt matarboð eins og hún hafði fengið fyrir ári síðan. Eftir því sem mér skildist á henni þá hafði það spurst vel fyrir og mikil tilhlökkun fyrir því að endurtaka leikinn. Og ekki stóð það á okkur hjónum að verða við bón heimasætunnar. 

Hún bauð öllum vinkonum sínum úr bekknum og svo fékk einn vinur hennar líka að slæðast með. Og þetta var ljómandi vel heppnað. Það var mikil gleði í þessum fallegu krökkum sem kunnu svo sannarlega að taka til matar síns! 

Snædís og ég sáum um eldamennskuna og ásamt Villa sáum við líka um að þjóna til borðs. Við reyndum að láta þetta vera eins og að fara á veitingahús - lögðum upp á diska, helltum engiferöli í glös og gengum frá leirtaui. Ég sá ekki betur en að allir væru glaðir - og skarinn tók vel til matar síns! Ein vinkona sló í glas og hélt ræðu til heiðurs Valdísar - þetta voru, sko, krakkar sem kunnu sig. Hver sagði svo að heimur versnandi færi?


Það var þétt setið við borðið. En þröngt mega sáttir sitja! 


Valdís hafði gert sér ferð í bæinn daginn áður og sótt skraut og sérvéttur til að hafa smá hátíðarbrag yfir borðhaldinu. Ég held að hún hafi hitt í mark! 

Valdís 14 ára: þriggja rétta veisla eftir óskum heimasætunnar og fullt hús af glöðum vinkonum! Tricolore, steik og bernaise og súkkulaðimús! 


Ég stakk upp á þessu einfalda ljúffmeti í forrétt. Valdís tók undir. Einfaldari og stílhreinni forrétt er vart að finna. Þarna eru bragðtegundir sem hafa einstakan samhljóm; sætir tómatar, þéttur osturinn, rifin basílíska og svo góð jómfrúarolía og ennþá betri balsamedik. Sælgæti! 

Svo er einfalt mál að gera mozzarellaost sjálfur. Þetta gerðum við fyrir rúmum þremur árum síðan; sjá hérna.


Nautaentrecote var kryddað ríkulega með pipar og svo lokað í vakúmpökkunarvél.


Sett við rúmar 54 gráður í 2 1/2 tíma þannig að það verður lungamjúkt í gegn. Í lokin bara saltað og grillað í eitt ögnablik á heitu grilli! Hérna eru meiri upplýsingar um sous vide eldamennsku þar sem nautalund er í forgrunni - en sömu grunngildi eiga við! 


Sveitakartöflur eiga alltaf vel við þegar steik og bernaise er annars vegar! Bara skera kartöflunar í báta, velta upp úr hvítlauksolíu, rósmarín, salt og pipar og baka í 180 gráðu heitum ofni í eina klukkustund!


Gerðum hnausþykka bernaisesósu! Hérna er að finna leiðbeiningar. Og svo að sjálfsögðu í bókunum mínum! 


Valdís sá um súkkulaðimúsina. 600 gr af súkkulaði brotið niður og sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. 


500 ml af mjólk hitaðir að suðu og 5 gelatínblöð leist upp í mjólkinni. Blandað saman þriðjungi í senn saman við brætt súkkulaðið. 


Líter af rjóma er þeyttur upp. 


Svo er öllu blandað saman.



Sett í bolla eða skálar. Bara það sem hendi er næst.


Það er ágætt hugmynd að láta smakka súkkulaðimúsina til. Hún rann ljúflega niður hjá Ragnhildi!


Svo fékk músin að hvíla í ísskáp í tvær klukkustundir, borin fram með þeyttum rjóma og svo súkkulaðispæni.


Og með sætan þjón, Vilhjálm Bjarka, voru allir vegir færir! 

Veislan varð alveg frábær!