Sunday 29 March 2009

Spennandi innbakað spaghetti með skelfiski (alla frutta di mare), heimagert baguette og ljúffengt hvítvín

hráefnið Þetta er framhald af síðustu færslu. Ekkert að því að því að kljúfa þetta niður. Sérstaklega eftir svona matarboð og maður er búinn að verja góðum tíma í að skipuleggja þetta. Aðalrétturinn átti að vera áhugavert framhald af forréttinum og mig langaði til að hafa þetta á sömu nótunum. Mig langaði mikið til þess að elda meira sjávarfang. Ég var búinn að vera að hugsa um að gera eitthvað á þessum nótum lengi. Svo er líka í raun sáraeinföld eldamennska - bara að leyfa góðu hráefni að njóta sín. Og reyna að bera það fallega fram.

matreiðslubók Ég sá þessa uppskrift fyrst í einni af mínum fyrstu matreiðslubókum. Hana eignaðist ég eftir að hafa setið hjá Rakel og Zúnka vinum okkar í matarboði þegar þau bjuggu á Háteigsveginum - ætli það sé ekki fyrir rúmum tíu árum síðan. Þetta var nokkuð áður en ég var byrjaður að elda að einhverju ráði. Mér fannst þessi bók frábær. Sérstaklega að því leyti hvað hún var aðgengileg. Fyrst umfjöllun um hráefni, síðan voru uppskriftir settar þannig upp að auðvelt er að fylgja henni eftir. Ég set mynd úr bókinni hérna á síðuna mína til kynningar. Það gæti hreinlega verið að þessi bók hafi sett þetta allt af stað. Nokkru síðar fann ég bók eftir Jamie Oliver - The Naked Chef - þá fór ég á fullt. Ítölsk matargerð hefur í gegnum árin átt hug minn allan. Ég fór að sanka að mér fleiri góðum bókum. The Silver Spoon sem er ein frægasta bók ítalskrar matargerðar - mér skilst að hún opin sé núna komin út á íslensku. Það hefur ekki verið neitt smá verk að þýða - enda inniheldur bókin meira en tvöþúsund uppskriftir. Kosturinn við hana er sá að hún er byggð þannig upp að efninu er raðað upp eftir hráefnum. Ef maður er með aspas í hendinni þá flettir maður bara upp á aspas - og þá bíða manns uppskriftir í röðum. Mín uppáhalds ítalska matreiðslubók er þó eftir Giorgio Locatelli og heitir Made In Italy Food & Stories. Sú bók finnst mér vera alveg meiriháttar. Þar blandar höfundur saman sögum af matargerð bæði sagnfræðilegum og svo sjálfsævisögum - hvernig hinn og þessi réttur varð til, og hvernig hann hefur breyst eða fengið að haldast óbreyttur í meðförum kokksins. Frábær lesning. Næstum skyldueign fyrir áhugasama um ítalska matargerð. 

Ætli þetta sé ekki í annað sinn að ég reyni við þennan rétt. Síðast þegar ég gerði hann bjuggum við í Eskihlíðinni. Ætli ég hafi ekki verið Unni og Bjössa í mat. Ég man að mér fannst sósan sem ég gerði aðeins of sæt og jafnvel aðeins of þykk og að ég bakaði böggulinn aðeins of lengi. Mamma hefur áður gert uppskrift í líkingu við þessa sjá hér - heppnaðist virkilega vel hjá mömmu og því hafði ég ferska minningu af þessum rétti þegar ég lagði í að gera þennan.

Sjávarfangið keypti ég í City Cross - því miður frosið þar sem ferskur kræklingur var uppseldur en hann hafði verið auglýstur daginn áður. Var of seinn. Smáhumrana - kryftor - keypti ég einnig frosna en þeir munu hafa verið aldir í keri einhversstaðar í Svíþjóð - þótt hann sæki uppruna sinn til Austurlanda fjær. Rækjurnar voru í skelinni og munu hafa komið frá Noregi - Í flestum verslunum er hægt að kaupa frosnar rækjur í skelinni í lausu og á fremur hagkvæmu verði.

Spennandi innbakað spaghetti með sjávarfangi (alla frutta di mare), heimagert baguette og ljúffengt hvítvín

OMG

Ég bjó samt til tómatsósuna sem fór á spaghettiið nokkrum klukkustundum á undan og leyfði henni að sjóða vel niður - líklega um rúman helming - þannig verður hún þykk og kraftmikil. Fyrst var að gera sósuna. Fyrst skar ég niður smátt tvo skarlottulauka og fimm hvítlauksrif og steikti í blöndu af smjöri og olíu í nokkrar mínútur. Mikilvægt er að salta og pipra til að ná fram safanum úr laukunum. Næst 1-2 glös af hvítvíni og leyfði suðunni að koma upp.  Því næst setti ég tvær dósir af niðursoðnum tómötum og 800 ml fiskisoði. Saltað og piprað á nýjan leik. Þessu var svo leyft að sjóða af nokkrum krafti með lokið á. Bragðað til - saltað, piprað og smá sykur til að vinna á móti tómötunum. Lokið tekið af og leyft að sjóða á lágum hita í nokkrar klukkustundir þar til það hafði helmingast í rúmmáli.

takk_fyrir_matinn.jpg

heimagerðar baguettur Með matnum bar ég fram heimagert baguette - eiginlega alveg eins og ég var með í færslu hér fyrir skemmstu. Sett textann aftur hingað inn. Svona smá Copy/paste aðgerð. Gerði þetta eftir uppskrift sem ég hef oft sett hérna á netið. Pakki af geri er vakin í 250 ml ylvolgu vatni með 2 msk af strásykri. 600-700 ml hveiti sett í skál, smávegis af salti og 2-3 msk jómfrúarolía. Þessu svo blandað saman og hnoðað í nokkrar mínútur. Leyft að hefast í klukkustund, þá er það lamið niður og klipið úr því og mótað í falleg baguette og leyft að hefast að nýju. Penslað með eggjablöndu (eitt egg, skvetta af vatni - hrært saman). Skorið í brauðið til að gefa því fallega áferð þegar það bakast.

salati.jpg Einnig var ég með einfalt salat borið fram á flötum disk. Græn blönduð lauf, smátt skorin rauðlaukur, avakadó, vínber og feta ostur.

Með aðalréttinum drukkum við Fleur du Cap Chardonnay 2008, vín frá Suður Afríku. Þetta er bragðgott og frískandi hvítvín. Tónar af vanillu, ferskum ávexti og svo smjörkennt bragð sem oft einkennir Chardonnay vínin. Við vorum alls ekki svikinn af þessari flösku. Gaman líka hversu ólík vínin voru - Montes Sauvignion blanc og svo þetta. Mér fannst vínið passa stórvel með þessum rétt.

Í desert var ég með jarðarberjakrumbl - þetta er sama uppskrift og ég var með í Mogganum einhverntíma á frumbernsku þessarar heimasíðu. 250 gr af hveiti, 100 gr af dökkum Muscovado sykri, 50  gr af hvítum sykri, 100 gr af smjöri, 1 tsk vanilludropar og 50 ml af mjólk var blandað saman í hrærivél. 350 gr  (1 1/2 box) jarðaberjum, skorinn í tvennt, og 150 gr af bláberjum (1 box) er blandað saman. Berin eru þvegin og lögð blaut í eldfast mót og sykruð með smá hvítum sykri. Bakað í 190 gráðu heitum ofni í 10 mínútur.  Þá eru þau tekin út og flutt yfir í minni eldföst mót (1 á mann) og deiginu sáldrað yfir. Bakað aftur í um 10 mínútur eða þar deigið er orðið fallega gullið. Borið fram með vanilluís.

jarðarberjakrumbl

 


Thursday 26 March 2009

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikthörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi

Við vorum með góða gesti í mat síðastliðið laugardagskvöld. Það verður að segjast að þetta var svona fyrsta formlega matarboðið í nýja húsinu. Foreldrar mínir og bróðir mega ekki móðgast við þessa fullyrðingu. Það er aðeins öðruvísi að bjóða vinum í mat en vandamönnum - þó eru báðir frábærir gestir.


Við fengum nokkra nágranna okkar í mat. Jónas, Hrund og Guðrún, mamma Hrundar, úr Pukgranden 5, Þórir og Signý Vala, sem flytjast í apríl í sjöuna, komu í þríréttað og svo komu Elva og Gummi úr Pukgranden 3 og Jón Þorkell og Álfa úr fjörutíuogsexunni í desert. Þetta var gott kvöld. Skálað í brennivíni í byrjun eins og góðum Íslendingum sæmir og svo haldið áfram fram eftir nóttu.

Ég er mikill aðdáandi hörpuskeljar. Það verður að segjast að það er næstum því mitt uppáhalds sjávarfang. Fátt finnst mér flottara en risahörpuskel. Það kemur fiskbíll reglulega til Lundar með fisk frá Íslandi og síðan annar með fisk frá Noregi. Við höfðum misst af þeim íslenska en náðum bílnum frá frændum okkar í Noregi. Keyptum þorsk, ýsu, regnbogasilung og þessa geysistóru risahörpuskel. Ég varð hreinlega spenntur þegar ég sá pakkninguna.


Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hörpuskel. Ein af mínum uppáhalds er hörpuskel vafinn serranoskinku með heslihnetu og kóríandersmjöri (sjá; hér), svo gerði ég einhvern tíma smjörsteikta hörpuskel með flamberuðum jarðarberjum og balsamikkremi (sjá hér; ). Í heimsókn hjá vinum í Danmörku síðastliðið haust gerðum ég og húsráðandi saman Spaghetti Nero með hörpuskel og chilli ( sjá þessa færslu). Það eru öruggulega einhvejar fleiri - hægt að leita í gegnum google með því að skrifa hörpuskel site;ragnarfreyr.blog.is - þá fær maður lista yfir allt sem varðar hörpuskel.

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikt hörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi

Ég fór til slátrarans í Saluhallen og keypti nokkrar pylsur sem hann gerir sjálfur. Hef prófað þær áður í öðrum rétti og þær eru alveg frábærar. Skar þær niður í feitar sneiðar og steikti á pönnu þar til stökkar og fallegar. Lagði þær á disk - með nokkrum grænum laufum á meðan ég kláraði hörpuskelina. Hörpuskelin hafði fengið að liggja í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu, sítrónusafa, chilli og salti og pipar í nokkrar mínútur áður henni var skellt á heita pönnu og steikt á hvorri hlið í stutta stund. Hörpuskelin var svo lögð ofan á steikta pylsuna og í lokin var sett ein teskeið af heimagerðu guacamole sem ég hafði gert fyrr um daginn.

Þrjú þroskuð lítil avakadó, einn lítil laukur, tvö hvítlauksrif, 1 stór tómatur, handfylli af fersku kóríander, smá rauður chillipipar, salt, pipar, jómfrúarolía er sett í matvinnsluvél og maukað saman. Oft þarf að bæta við einu og öðru til að ná balans. Það byggir allt á persónulegu mati kokksins (á það ekki við alla eldamennsku).

Með forréttinum drukkum við Montes Sauvignion Blanc 2008 sem er ljúffengt og brakandi ferskt hvítvín. Þetta er vín frá Leyda dalnum í Chile. Ávaxtaríkt, jafnvel dálítið sætt en samt létt hvítvín, engin eikarkeimur enda kemur þetta vín hvergi í snertingu við tunnu að mér skilst. Ég bar það fram beint úr kælinum þannig að það væri vel kalt til að spila aðeins á móti hitanum í pylsunni og chillinu sem var í marineringunni.

Gestirnir virtust ánægðir og það var ég líka. 


Bon appetit.


Sunday 22 March 2009

Pottþétt Penne með reyktum laxi, kapers og rauðlauk og heimagerðubaguette

Þennan rétt eldaði ég á laugardaginn var þegar við snérum heim til Lundar frá Sviss. Þetta var langur dagur. Vöknuðum um sex um morguninn og tókum okkur til. Ég hafði undirbúið morgunverðinn daginn áður, smurt samlokur og pakkað niður nokkrum drykkjum og ávöxtum. Þannig gátum við sofið aðeins lengur og í staðinn snætt morgunmatinn í lestinni frá Disentis. Þetta gekk allt stóráfallalaust fyrir sig nema hvað ég flaug niður tröppurnar á leiðinni útí í leigubilinn í eina hálkublettinum sem fannst á tröppunni. Lennti illilega á bakinu og úr mér allur vindur. Og í mér virðist nægur vindur. En hvað segja menn - fall er fararheill.

Fórum með lest frá Disentis til Chur - Alparnir skörtuðu sínu fegursta þennan morgun - glampandi sól og hvassir tindar. Í Chur var skipt um lest og ekið til Zurich meðal annars meðfram Zurichvatninu, þaðan til aðallestarstöðvarinnar í Zurich. Þar var skipt aftur um lest og út á flugstöð. Flogið til Köben og svo þaðan með lest til Lundar. 7 farþegar með 14 töskur. Gott að koma heim.

Okkur langaði öll í eitthvað gott að borða. Bróðir minn var búinn að vera tala um reyktan lax alla ferðina. Ég vildi eitthvað fljótlegt ... pasta. Það tók ekki langan tíma að leggja línurnar. Kjartan og ég fórum að versla. Hentum í brauð ... og úr varð ljúf kvöldstund. Allir þreyttir eftir langan dag en líka saddir og sælir. 

Pottþétt Penne með reyktum laxi, creme fraiche, kapers og rauðlauk og heimagerðu baguette

Þrjú hvítlauksrif voru skorin í næfurþunnar skífur og steikt með einum smátt skornum rauðlauk upp úr nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu. Þá er tveimur dósum af creme fraiche 15% bætt á pönnuna og einnig þremur matskeiðum af kapers. Þvínæst tveim matskeiðum af rjómaosti, salt, pipar, handfylli af smátt skorinni steinselju. Svo safi úr hálfri sítrónu, 1-2 tsk af strásykri. Ég keypti eldislax - 400 gr - norskan og afar ljúffengan. Spaghetti var soðið samkvæmt leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni. Þegar það var al dente var vatninu hellt frá, sósunni blandað saman við og þá laxinum sem hafði verið skorinn niður í strimla. Skreytt með ferskri steinselju.


Gerði heimagert baguette. Gerði þetta eftir uppskrift sem ég hef oft sett hérna á netið. Pakki af geri er vakin í 250 ml ylvolgu vatni með 2 msk af strásykri. 600-700 ml hveiti sett í skál, smávegis af salti og 2-3 msk jómfrúarolía. Þessu svo blandað saman og hnoðað í nokkrar mínútur. Leyft að hefast í klukkustund, þá er það lamið niður og klipið úr því og mótað í falleg baguette og leyft að hefast að nýju. Penslað með eggjablöndu (eitt egg, skvetta af vatni - hrært saman). Skorið í brauðið til að gefa því fallega áferð þegar það bakast. Með matnum drukkum við það sem var til ísskápnum. Við hjónin eigum venjulega alltaf til búkollu í ísskápnum. Fleiri og fleiri framleiðendur eru farnir að selja vínin sín í þessum pakkningum. Hentugt og ódýrt. Úrvalið í Systembolaget er talvert minna en maður á að venjast hjá ÁTVR. Við erum búin að prófa nokkrar hvítvínsbúkollur og sjálfum finnst mér best að eiga Chardonnay - það er auðvelt að gera þetta vín vel. Ég átti Drostdy-Hof Chardonnay Voigner 2008 sem er frá Suður Afríku og fékk ágætisdóma sem bestu kaupin í búkollum í Aftonbladet.se. Ég er sammála þeim að þetta er prýðisgott vín. Þetta er létt hvítvín, smá kryddað og með keim af sætum ávexti.

Bon appetit.

Monday 16 March 2009

Gómsæt nautakássa nautabanans með macaronade, parmaosti og ljúffengurauðvíni
Eins og kom fram í síðustu örfærslu fórum við stórfjölskyldan til Svissnesku alpanna í síðustu viku. Við dvöldum í Disentis, sem er fallegur lítill bær í efri Rínardal. Gríðarlega fallegt umhverfi, djúpir dalir umluktir háum snæviþöktum tindum. Og það snjóaði ... og það snjóaði. Fyrsta daginn var sólskin en síðan snjóaði stanslaust í fjóra daga. Og ég er ekki að kvarta. Við skíðuðum í púðursnjó nær allan tímann. Fór nokkrum sinnum utanbrautar með vini okkar, þrælvönum þessu svæði. Stórkostlegt að skíða í mjaðmadjúpum snjó niður rúma 1600 hundruð metra milli hárra grenitrjáa.

Við elduðum góðan mat þessa viku. Við komum inn seint á laugardagskvöldinu og fengum létta máltíð, brauð, osta, salami og kalt öl. Á sunnudagskvöldinu eldaði vinur okkar Benni Edelstein og ég pasta með kraftmikilli k jötsósu gerða úr nautahakki, tómötum og fleiru. Á mánudagskvöldinu sáum ég og faðir minn um matinn og gerðum Tempura - þríréttað; fyrst grænmeti svo rækjur í lokin nautakjöt, borið fram með hrísgrjónum og "dipping" sósum. Á þriðjudeginum var svo afgangakvöld þar sem enginn okkar var nógu sleipur að meta magnið á réttan máta - þarna breyttum við tempura í nautarétt með lauk og papriku, steiktum gómsætt hrísgrjónasalat, afgangurinn af pastanu var breytt í gratín og svo bakaði ég polentabrauð með. Daginn eftir sá Monica Edelstein um matinn og bar fram hefðbundið svissneskt góðgæti - raclette; kartöflur, sveppi, salami, skinku og margt fleira; allt eldað undir grilli þar sem ákveðinn svissneskur ostur leikur aðalhlutverk. Ég bakaði flatbrauð með matnum. Á fimmtudagskvöldinu sló bróðir minn svo í gegn með þessari máltíð sem ég blogga um hér, eiginlega sér bróðir minn að mestu um færsluna - svona sem gestakokkur á blogginu - Nautakássa Nautabanans - mögnuð. Síðasta kvöldið bakaði ég kjúkling með 40 hvítlauksrifjum. Reyndar gerði ég fimm kjúklinga með rúmum eitt hundrað hvítlauksrifjum - þetta var borið fram með baguette og soðsósu undan kjúklingnum - ég hef áður bloggað um þennan rétt (sjá; http://ragnarfreyr.blog.is/blog/ragnarfreyr/entry/572405/) 
Og núna tekur Kjartan bróðir við færslunni;


Nautakássa nautabanans eins og við höfum þýtt úr ensku (Bullfighters Beefstew er þessi uppskrift kölluð af Rick Stein - þaðan sem hugmyndin er sprottinn og er hægt að finna í bók hans French Odissey). Þetta er saðsöm, lystug og bragmikil kjötkássa. Tilvalin fyrir stórt matarboð, sérstaklega á fannasömu, köldu vetrarkvöldi (sakar ekki að það á sér stað í svissnesku ölpunum). Blandan af rauðvíni, negul og kanil skapar einstakan ilm sem gefur kássunni miðausturlenskan blæ. Hægt er að bæta við því grænmeti sem hver hefur áhuga á án þess að hrófla mikið við bragðinu sem einkennir kássuna. Uppskriftin sem hér er blogguð hefur tekið nokkrum breytingum, sem felst einna helst í viðbættu grænmeti, án þess þó að hverfa frá þeim grundvelli sem gerir kássuna að nautakássu nautabanans.


Gómsæt nautakássa nautabanans með macaronade, parmaosti og ljúffengu rauðvíni
Uppskriftin sem fylgir ætti að duga fyrir átta eða jafnvel fleiri (alltaf má bæta í meðlætið eða bjóða upp á brauðhleif með). 1,5 kg af góðu nautakjöti (eða gúllasi) er skorið niður í munnbita og steikt ásamt tveimur laukum og 6 smáttskornum hvítlauksrifjum á vægum hita eða þar til kjötið er brúnað á hverri hlið. Á meðan steikingu stendur er 7,5 kanil, nautakrafti, salti og pipar og 6 negulnöglum bætt ofan í pottinn. Að því loknu (eða þegar kanil/negul lyktin hefur blossað upp) er 750 ml af rauðvíni bætt ofan í. 2 lárviðarlauf, 2 greinar af fersku timían og rósmarín bætt ofan í. Eftir að kássunni hefur verið leyft að malla er síðan 2 sneiðaskornum gulrótum, 100 gr af svörtum, heilum og steinhreinsuðum ólífum, 2 smáttskornum vorlaukum og ca. hálfri rófu eða steinseljurót bætt ofan í. Áður en að kássan er borin fram er ca. 100 gr af parma skinku rifið yfir kássuna.


Með matnum er borinn fram makkarónuréttur - makkarónur soðnar samkvæmt leiðbeiningum þar til al dente. Vatninu er síðan hellt frá, nokkrar ausur af kjötsósunni hellt yfir og svo er raspað ríkulega af parmaosti yfir (ég skrifa parmaostur fyrir hann föður minn sem er í krossför gegn orðinu parmesan - sem er sennilega komið úr frönsku. Hann berst öttullega fyrir því að þýða þetta yfir á okkar ylhýra móðurmál, parmaost eftir borginni eða bara nota upprunalega orðið parmigiano ost - hann tekur engum sönsum með þetta - meira að segja þrátt fyrir að orðin parmigiano og parmesan séy lögvernduð orð í Evrópu og eiga bara við ost uppruninn frá Parma). Hvað um það. Góður er hann - bæði pabbi og osturinn.


Með matnum drukkum við Peter Lehmann Wild Card Shiraz frá því 2006 sem ég keypti í COOPinu í Disentis. Innflutt vín eru talsvert ódýrari en svissnesk (Sviss er ótrúlega dýrt land!!!) og að auki hafa Peter Lehmann vín verið lengi í uppáhaldi hjá mér. Þetta er gott Shiraz, dimmrautt og ilmar af sætum ávexti. Bragðið er ávaxtaríkt og fyllir munninn - dáldið tannín í lokin. Gott vín og á góðu verði - allavega í Disentis - þar sem allt annað kostaði hönd og fót og jafnvel eitt nýra.

Bon appetit.

Wednesday 11 March 2009

Stutt frí á síðunni - svissnesku alparnir kalla

Við höfðum ákveðið að fara í frí til Svissnesku alpanna að hitta vinafólk okkar. Gengið hafði verið frá flugi og íbúð leigð áður en allt fór suður til.... allavega skelltum við okkur til Disentis í Efri Rínardalnum. Vá. Þetta er paradís fyrir skíðafólk - þekkt fyrir utanbrautarskíðamennsku. Netsamband þó frumstætt, og því erfitt að blogga reglubundið eins og planið var að gera. Við erum nefnilega búin að elda góðan mat. Reyni að gera þessu góð skil þegar heim verður komið næsta laugardag.


Sunday 1 March 2009

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu; Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict
Við erum búinn að búa í nýja húsinu í Annehem í rúma viku. Okkur hefur liðið vel. En það er búið að vera mikið af gera. Setja saman húsgögn - bæði gömul og ný - ég hugsa að ég myndi setja hraðamet í samsetningu IKEA húsgagna um þessar mundir, raða upp úr kössum - komum með 75 kassa til Svíþjóðar, taka til, taka til, taka svo til og síðan fara með í endurvinnsluna. Það er þvílíkt farganið af pappa sem fellur til við svona flutninga. Manni blöskrar hreinlega. Það mætti kalla einn svona flutning nánast náttúruhamfarir. Það eru allir á fullu í kringum okkur. Alls voru sex hús afhent síðast liðin föstudag. Þar af fimm íslenskar fjölskyldur. Hér var einn íslenskur kollegi fyrir og ein bíður eftir að fá afhent í apríl. Þannig að við verðum sjö íslenskar læknafjölskyldur hérna á einum reit. Hálfkjánalegt, en á sama tíma huggulegt að þekkja alla nágrannana sína. Og þekkja þá vel...af þessum sjö, vorum við fjórir saman í bekk og höfum fylgst að í deildinni síðan 1998. Ein útskrifaðist árinu á undan og einn á eftir. Við höfum varpað því fram að breyta nafninu á götunni - Pukgranden - í Aðalstræti, það væri sennilega hægt enda fáir Svíar hérna til þess að mótmæla.

Tengdamóðir mín kom til okkar á fimmtudaginn og er búinn að vera fjandi dugleg að hjálpa til. Við erum svona að leggja lokahönd á þetta. Aðeins nokkrir kassar eftir, gluggatjöld á neðri hæðina og einstaka ljós sem á eftir að klára. Ætli við náum ekki að slútta þessu í vikunni. Það er mikilvægt að reyna að gera þetta allt strax annars er hætt við því að maður láti þetta danka alltof lengi. Ég setti aldrei upp ljós í eldhúsinu í Skaftahlíðinni - ekki í fjögur ár - hætti bara að taka eftir því að það stóðu tveir kóngabláir feitar snúrur útúr loftinu. Maður verður alveg blindur á svona. 
Ég er ferlega ánægður með eldhúsið mitt. Ég reyndi lengi að fá þá hjá NCC til að setja gaseldunartæki í eldhúsið en það var ekki tauti við þá komið - það mátti ekki einu sinni hafa ekki neitt þannig að ég gæti sett gashellur - þannig að ég valdi spanhellur - fékk Ittala pottasett með...nánast gefins. Eldhúsið er að drukkna í pottum. Alltént - hafði ég bitið það í mig að vera með gas - enda vanur því - endaði með að kaupa eldvél frá SMEG sem var á útsölu í fallegri verslun fyrir utan Helsingborg. Þannig að núna er ég drukkna í eldunartækjum - ekki bara í pottum.

Ég hef nefnt það í færslu áður að við erum búinn að gera það svona að hefð að gera pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Börnin elska að byrja daginn með þessu - þeim finnst líka gaman að hjálpa til. Valdís er orðin ansi lunkin við þetta. Villi - duglegur að hræra. Efnileg börn, finnst mér!

Ég keypti þessa koparpotta á markaði í Frakklandi í sumar. Þeir höfðu staðið inn í skáp í áraraðir og eftir því sem ég komst næst aldrei verið notaðir. Það þurfti smá vinnu að bóna þá upp aftur og hreinsa innan úr þeim. Mér finnst þeir vera fallegt skraut og svo eru þetta líka góðir pottar. Þungir og leiða vel hitann frá eldinum.
Ákvað að skella inn mynd af því sem ég kem til með að kalla kjarnorkukljúfinn - þvílíkt og annað eins hvað spanhellur eru öflugar. Það kom mér á óvart að sjá hversu hraðar þær voru að hita upp vatn og svoleiðis - næstum eins og hraðsuðuketill. Ætli spanið verði ekki notað mest í það - sjóða pasta og kartöflur.


Kaffibarinn okkar. Höfum átt þessa prýðis góðu kaffivél lengi - keypti hana í einhverju brjálæði eftir næturvakt með dönskum kollega - Ulrik Overgaard sem ég vann með á sínum tíma á bráðamóttökunni í Fossvogi. Hann er mikill gourmet og kaffibrjálæðingur. Brennir sínar eigin baunir. Hann fluttist einnig í nágrennið og býr utan við Lund í fallegu húsi í Vallakra með eiginkonu sinni Ingunni lækni og tveimur börnum þeirra. Hann lofaði mér einhvern tíma að kenna mér að brenna mitt eigið kaffi. Málverkið sem sést á myndinni gerði dóttir mín á námskeiði hjá Önnu Gunnlaugsdóttur frænku okkar og myndlistarkonu.


Það sést nú ekki mikið í eyjuna hérna. Hún var keypt í IKEA - ekki frá Myresjökök. NCC verslar við myresjökök sem er sænskt fyrirtæki. Ég fékk tilboð frá þeim í eyjuna - hvílíkt okur. IKEA eyjan var 5 sinnum ódýrari. Ég fæ ekki séð að það sé mikill munur. Myresjökök virðist límt en IKEA skrúfað. En skúffusystemið er alveg það sama. Kannski endist IKEA eyjan eitthvað skemur!

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu: Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict


Það eru nokkur atriði - kannski í raun eitt - sem mér finnst miklu máli skipta þegar maður er að gera amerískar pönnukökur. Það er að skilja hvíturnar frá eggjunum, rauðurnar fara beint ofan í deigið. En hvíturnar eru þeyttar þannig til þær hafa tvöfaldast. Þá er þeim bætt saman við - þannig fær maður loftkenndari pönnsur - sem drekka betur í sig sírópið.

Uppskriftin breytist helgi frá helgi - allavega hlutföllin. Ég á erfitt með að segja til um magn af hverju hráefni. Kannski 2-3 bollar af hveiti, 1 tsk salt, 2 msk sykur, 1-2 tsk lyftiduft, 2-3 egg, 2 msk jómfrúarolía og svo mjólk bætt saman þangað til að maður er komin með þykkt deig - sem minnir á vöffludeig eða lummudeig - þykkt þannig að það lekur hægt af skeiðinni í þykkum gullnum taumi. Eins og ég nefndi áðan - eru eggjahvíturnar þeyttar með smá salti þangað til tvöfaldað og blandað varlega saman við deigið, ekki hræra harklega, bara "fold them inn".