Thursday 26 March 2009

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikthörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi

Við vorum með góða gesti í mat síðastliðið laugardagskvöld. Það verður að segjast að þetta var svona fyrsta formlega matarboðið í nýja húsinu. Foreldrar mínir og bróðir mega ekki móðgast við þessa fullyrðingu. Það er aðeins öðruvísi að bjóða vinum í mat en vandamönnum - þó eru báðir frábærir gestir.


Við fengum nokkra nágranna okkar í mat. Jónas, Hrund og Guðrún, mamma Hrundar, úr Pukgranden 5, Þórir og Signý Vala, sem flytjast í apríl í sjöuna, komu í þríréttað og svo komu Elva og Gummi úr Pukgranden 3 og Jón Þorkell og Álfa úr fjörutíuogsexunni í desert. Þetta var gott kvöld. Skálað í brennivíni í byrjun eins og góðum Íslendingum sæmir og svo haldið áfram fram eftir nóttu.

Ég er mikill aðdáandi hörpuskeljar. Það verður að segjast að það er næstum því mitt uppáhalds sjávarfang. Fátt finnst mér flottara en risahörpuskel. Það kemur fiskbíll reglulega til Lundar með fisk frá Íslandi og síðan annar með fisk frá Noregi. Við höfðum misst af þeim íslenska en náðum bílnum frá frændum okkar í Noregi. Keyptum þorsk, ýsu, regnbogasilung og þessa geysistóru risahörpuskel. Ég varð hreinlega spenntur þegar ég sá pakkninguna.


Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hörpuskel. Ein af mínum uppáhalds er hörpuskel vafinn serranoskinku með heslihnetu og kóríandersmjöri (sjá; hér), svo gerði ég einhvern tíma smjörsteikta hörpuskel með flamberuðum jarðarberjum og balsamikkremi (sjá hér; ). Í heimsókn hjá vinum í Danmörku síðastliðið haust gerðum ég og húsráðandi saman Spaghetti Nero með hörpuskel og chilli ( sjá þessa færslu). Það eru öruggulega einhvejar fleiri - hægt að leita í gegnum google með því að skrifa hörpuskel site;ragnarfreyr.blog.is - þá fær maður lista yfir allt sem varðar hörpuskel.

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikt hörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi

Ég fór til slátrarans í Saluhallen og keypti nokkrar pylsur sem hann gerir sjálfur. Hef prófað þær áður í öðrum rétti og þær eru alveg frábærar. Skar þær niður í feitar sneiðar og steikti á pönnu þar til stökkar og fallegar. Lagði þær á disk - með nokkrum grænum laufum á meðan ég kláraði hörpuskelina. Hörpuskelin hafði fengið að liggja í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu, sítrónusafa, chilli og salti og pipar í nokkrar mínútur áður henni var skellt á heita pönnu og steikt á hvorri hlið í stutta stund. Hörpuskelin var svo lögð ofan á steikta pylsuna og í lokin var sett ein teskeið af heimagerðu guacamole sem ég hafði gert fyrr um daginn.

Þrjú þroskuð lítil avakadó, einn lítil laukur, tvö hvítlauksrif, 1 stór tómatur, handfylli af fersku kóríander, smá rauður chillipipar, salt, pipar, jómfrúarolía er sett í matvinnsluvél og maukað saman. Oft þarf að bæta við einu og öðru til að ná balans. Það byggir allt á persónulegu mati kokksins (á það ekki við alla eldamennsku).

Með forréttinum drukkum við Montes Sauvignion Blanc 2008 sem er ljúffengt og brakandi ferskt hvítvín. Þetta er vín frá Leyda dalnum í Chile. Ávaxtaríkt, jafnvel dálítið sætt en samt létt hvítvín, engin eikarkeimur enda kemur þetta vín hvergi í snertingu við tunnu að mér skilst. Ég bar það fram beint úr kælinum þannig að það væri vel kalt til að spila aðeins á móti hitanum í pylsunni og chillinu sem var í marineringunni.

Gestirnir virtust ánægðir og það var ég líka. 


Bon appetit.


No comments:

Post a Comment