Showing posts with label chorizo. Show all posts
Showing posts with label chorizo. Show all posts

Sunday, 25 July 2021

Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu


Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu á liðnum mánuðum. Biðst velvirðingar á því. En skýringin á því er nokkuð einföld. Ég hef verið á haus að skrifa fjórðu matreiðslubókina mína og einnig að vinna í tökum á sjónvarpsþáttum sem verður tengdur bókinni. Bókin mun koma út í byrjun vetrar og verða hin glæsilegasta. Ég hlakka mikið til að sýna ykkur hana. 

 Humar og chorizospjót með mangó-sýrðrjómasósu 

Þessi uppskrift er úr bókinni minni - Grillveislan sem kom út á vormánuðum 2016. 

Aðeins ein tegund af humri lifir við Íslandsstrendur – leturhumar. Þetta kann að hljóma eins og hreinasta þjóðremba en mér finnst hinn íslenski vera umtalsvert betri en sá sem ég hef til dæmis prófað á veitingastöðum í Bandaríkjunum. Sá humar er talsvert stærri, ekki eins fínn undir tönn, ekki með þann sætukeim sem einkennir íslenskan humar og loks er kjötið grófara.

Bestur er humarinn þegar hann er grillaður – hvort sem það er í ofni undir blússheitu grillinu eða á funheitu kolagrilli. Nægur hiti í stuttan tíma er allt sem þarf.

Og humar sómir sér best með einhverju feitu, hvort heldur það er hvítlaukssmjör eða olía eða þá feitar chorizo pylsur eða þá bara hvort tveggja, eins og í þessari uppskrift. Chorizopylsur fást í sérverslunum eins og Pylsumeistaranum í Laugalæk og jafnvel í Melabúðinni. 

1 kg humar
5 chorizopylsur
3 msk hvítlauksolía
salt og pipar

Sósan

1 dós sýrður rjómi
1 mangó
2,5 cm engifer
½ kjarnhreinsað chili
1 tsk mangóchutney
salt og pipar


  1. Skolið humarinn og takið hann úr skelinni. Fjarlægið görnina.
  2. Setjið humarinn í skál og veltið upp úr hvítlauksolíunni.
  3. Sneiðið chorizopylsurnar niður í grófar sneiðar.
  4. Þræðið humarinn upp á spjót ásamt pylsunum. Saltið og piprið.


5. Grillið á funheitu grilli þangað til að humarinn er tilbúinn, tekur bara nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Fyrir sósuna
  1. Setjið sýrða rjómann í skál og blandið mangóchutneyinu saman við.
  2. Skerið mangóið í smáa bita og hrærið saman við sósuna ásamt smátt skornu kjarnhreinsuðu chili og rifnum engifer. Smakkið til með salti og pipar. Blandið vel saman. 



Berið fram með salati. Og kannski einhverju ljúffengu hvítvíni?

Bon appetit!





Sunday, 21 October 2018

Spænskt innblásinn kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum


Í nýlegri heimsókn okkar til Spánar heimsóttum við meðal annars Laguardia - sem er lítið þorp í norðanverðu Rioja héraði. Þegar maður stendur á borgarvirkinu er horft yfir á landamærin sem skilja að Rioja og Baskaland. Fegurðin er ógleymanleg. Við heimsóttum þennan bæ einnig síðastliðið vor þegar við vorum þar nokkur í heimsókn og það var eiginlega skylda að heimsækja bæinn aftur. Hann er einkar fallegur, er nær allur innan hárra borgarmúra sem vörðu bæjarbúa á öldum áður fyrir ofríki ræningja og ribbalda. 

Allsstaðar var tekið vel á móti okkur. Við fórum á frægan vínbar þar sem hægt er að njóta vínsopa langt neðanjarðar í gömlum víngeymslum sem gerðar hafa verið upp til að veita þyrstum ferðalöngum veigar. Í borginni er nokkrar fallegar matvöruverslanir - og ein þeirra, slátrarinn, framleiðir meðal annars þessa ljúffengu chorizo pylsu sem við fengum að smakka áður en við keyptum nokkrar. Ég var svo sannarlega ekki svikinn af þessum kaupum. 

Spænskt innblásin kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum

Hráefnalisti fyrir sex

6 kjúklingabringur
250 g chorizopylsa
1 msk pimenton - sætt
1 msk pimenton - sterk reykt
3 msk hveiti
jómfrúarolía til steikingar
2 nýjar rauðar íslenskar papríkur
1 rauðlaukur 
3 hvítlauksrif
salt og pipar

hrísgrjón

salat - blönduð græn lauf, rauðlaukur, kirsuberjatómatar, agúrkur, 
einföld salatdressing - olía, sítrónusafi, salt og pipar


Ég notaði bara helminginn af þessari pylsu sem slátrarinn hafði pakkað vandlega inn fyrir mig.


Skar pylsuna í munnbitastóra bita.


Pylsuna setti ég svo á pönnuna - og lét hitann koma upp - þannig að þær gæfu sem mest af fitunni frá sér og myndu í staðinn bragðbæta kjúklinginn og grænmetið.


Var reyndar með sjö bringur - en sex hefðu verið nóg. Það er alltaf ágætt að geta tekið afganginn með sér í vinnuna daginn eftir.


Ég setti bringurnar í plastpoka og lamdi þær nokkrum sinnum svo að þær yrðu nokkuð jafnflatar og myndu þess vegna steikjast jafnt.


Papríkuduft er ekki það sama og papríkuduft. Ég notaði tvennskonar papríkuduft, annars vegar milt - svona til að leggja grunninn og svo reykt papríkuduft til að gefa þessu hressilegt bragðkikk!


Papríkuduftinu var svo blandað saman við hveiti ásamt salti og pipar. 


Ég hafði nælt mér í þessa papríku. Hún er einkar bragðgóð. 


Svo skar ég niður einn rauðlauk, nokkuð þunnt.


Þegar chorizopylsurnar voru búnar að gefa frá sér heilmikið af fitu bætti ég papríkunum á pönnuna, svo lauknum og hvítlauknum og steikti þar til grænmetið var fallega mjúkt. Þá tók ég það til hliðar um stund.


Næst var að steikja kjúklingabringurnar að utan. Þegar þær höfðu tekið á sig lit lagði ég þær í eldfast mót og tyllti grænmetinu og pylsunum ofan á. Ég lét að sjálfsögðu ekkert af olíunni fara til spillis og hellti henni yfir þannig að ekkert af bragðinu myndi sleppa frá okkur.


Ilmurinn í eldhúsinu var dásamlegur þegar ég tók réttinn úr ofninum. Skreytti með lferskri steinselju. 


Með matnum bar ég fram þetta ítalska rauðvín. Auðvitað hefði ég átt að opna einhvern Spánverja með matnum - en maður er ekki alltaf með kveikt á perunni. En það skipti engu þar sem vínið var ljúffengt og rann ljúflega niður. Ég hafði togað tappann úr úr Corte Giara Ripasso frá Valpolicella sem er skammt fyrir utan Verona. Þetta vín minnir óneitanlega á Amarone vín - það er fallegt á litinn, með þéttum ilmi af ávexti, sultað, með kryddkeim og með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Ekki bara var maturinn ljúffengur - þá var hann líka fallegur á að horfa. Það er gaman þegar mörg skilningarvit eru örvuð. 


Hvet ykkur til að prófa þennan rétt - hann var fljótlegur og ljúffengur! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 9 February 2017

Ekta vínarsnitzel frá grunni með fjórum gerðum af kryddssmjöri og bökuðum perum með blámygluosti og ristuðum valhnetum


Þetta var alveg frábær veisla. Við buðum góðum vinum okkar Sverri og Bryndísi og strákunum þeirra; Hákoni, Pétri og Hauki í Alpaveislu. Við erum öllsömul á leiðinni til Austurríkis þar sem við munum hitta fleiri góða vini - Söru Hlín og Davíð. Þetta er tíunda árið sem við förum á Skihótel Speiereck og gistum hjá Dodda og Þurí sem hafa tekið vel á móti okkur síðastliðinn áratug.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um Vínarsnitzel - fyrir fimm árum hafði ég þetta að segja um snitzelið. Þá gerði ég það úr svínakótilettum og fór að ráðum Tómasar Mandl kollega míns sem á rætur að rekja til Austurríkis. En það er hinsvegar svo að ekta Vínarsnitzel er gert úr kálfakjöti. Og í Austurríki þarf að taka það sérstaklega fram að snitzelið sé ekki gert úr kálfakjöti "vom Schwein" - sé það ekki gert - þá má gera ráð fyrir að um kálfakjöt sé að ræða. Það finnst líka á buddunni - þar sem kálfakjöt er gjarnan aðeins dýrara.

Og það er aðeins betra. Vitiði til!

Ekta vínarsnitzel "vom kalb" frá grunni með fjórum gerðum af hvítlaukssmjöri og bökuðum perum með blámygluosti og ristuðum valhnetum

Það er engin launung að ég elska smjör! Mér finnst það ótrúlega bragðgott og gera nær allan mat betri.

Og lengi vel var ég hálfpartinn leiður yfir þessari smjörást, enda læknisfræðimenntaður og lengi vel var smjörið stimplað sem sjúkdómavaldur. En svo er ekki!  Á síðustu árum er búið að hrekja þessar kenningar. Smjörið hefur ekki neikvæð áhrif á heilsuna. Við getum því notið þess með góðri samvisku - alveg eins og smekkurinn og bragðlaukarnir krefjast. Jibbí!

Og mér finnst bragðbætt smjör vera fyrirtak með snitzeli. Fyrst þegar ég gerði þennan rétt gerði ég ansjósusmjör sem ég endurtek núna með örlitlum breytingum, auk fjögurra annarra sem mig langaði til að prófa.

Fyrir 10

2,2 kg kálfakjöt
hveiti
6 egg
brauðmylsna
hvítlaukskrydd
salt og pipar

5 stórar perur
1/2 blámygluostur (ég notaði Ljót)
4 msk góð jómfrúarolía
50 g valhnetur
salt og pipar

Fjögur mismunandi kryddsmjör (sjá að neðan)


Fyrir þá sem segja að þeir hati ansjósur - staldrið aðeins við. Vissulega er þetta sardínutegund og hún er afar sölt sé hún borðuð ein og sér. En sem hluti af öðrum hráefnum þá leika þær lykilhlutverk í bakgrunninum og lyfta öðrum bragði á hærra plan - klassísk umami áhrif - hérna er færsla um umami.


Takið 150 g af mjúku smjöri og blandið saman við það fimm flökum af smátt skornum ansjósum, berki af hálfri sítrónu, safa úr hálfri sítrónu, tveimur msk af smátt skorinni steinselju. Saltið og piprið og blandið vandlega saman. 


Næsta smjör er alveg geggjað. Fyrst setur maður heilan hvítlauk ofan á álpappír og hellir smá skvettu af olíu yfir hann, saltar og piprar. Því næst vefur maður álpappírnum utan um og bakar í ofni í 45 mínútur við 180 gráður. 


Þá umbreytist hvítlaukurinn algerlega yfir í þetta sem sést hér á myndinni að ofan. Hann karmelliserast, skerpan og hvítlaukshitinn hverfur og í staðinn kemur sæta; djúsí hvítlaukssæta. 

Maður hrærir 150 g af smjöri saman við öll hvítlauksrifin. 


Auk tveggja msk af ferskum graslauk. Og salti og pipar auðvitað.


Næsta gerð af hvítlaukssmjöri var svo gerð úr 150 g af smjöri, 80 g af chorizo pylsu, 1/2 smátt söxuðum kjarnhreinsuðum chili, safa úr hálfrí límónu og svo salti og pipar.


Fjórða var gert úr 150 g af smjöri, þremur msk af góðu hvítvínsediki, tveimur msk af söxuðu fersku fáfnisgrasi, tveimur msk af smátt skornum skalottulauk og svo salti og pipar. 


Svo var smjörinu skellt á bökunarpappír ...


... og því vafið upp og sett í kæli í klukkustund.


Á meðan útbjuggum við kálfakjötið. Það var búið að fletja það aðeins út í Melabúðinni, en ég tók upp hamarinn og flatti það út aðeins meira.

Auðvitað þarf að salta og pipra í hverju skrefi.


Fyrst er að velta kálfinum upp úr hveiti, svo eggjablöndu og að því loknu heimagerðri brauðmylsnu (gerða úr brauðafgöngum heimilisins, t.d. brauði frá Brauð&co - namminamm)


Svo var að undirbúa perunar. Fyrst flysjaðar, svo velt upp úr góðri jómfrúarolíu, saltað og piprað. Kjarninn var fjarlægður og í staðinn komið fyrir góðum bita af blámygluosti. 

Þetta var svo bakað í ofni í 35 mínútur við 180 gráðu hita. 


Þegar perurnar voru tilbúnar voru þær skreyttar með ristuðum valhnetum og smátt skorinni steinselju.


Eftir klukkustund var bragðbætta smjörið tilbúið. Frá hægri; Bernaisesmjör, svo hvítlauks- og graslauks smjör, fyrir neðan ansjósusmjör og svo chorízó og chilismjör.


Kálfakjötið var steikt í smjöri við miðlungshita í tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið og svo sett í 150 gráðu heitan ofn í tíu mínútur.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín frá Ítalíu. Maso Campofiorin Nectar sem er blanda af Corvina þrúgum auk Rondiella og svo Molinara. Margir þekkja Masi Campofiorin sem á 50 ára afmæli nú í ár. Þetta vín er á svipuðum nótum - kannski þéttara að mínu mati. Það er gott að umhella því til að lofta um það - og það lyftir bragðtónunum enn frekar.


Þessi matur reyndist algert sælgæti.


Ég hvet ykkur til að prófa.

Bon appetit!

Saturday, 9 January 2016

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar




Það hefur verið nóg að gera síðastliðinn mánuð og bloggið mitt fengið að líða aðeins fyrir það. Ég hef þó reynt að vera duglegur á Fésbókinni. Átjánda desember lauk ég vinnu minni hjá Capio Movement í Halmstad. Síðasti vinnudagurinn var ansi óvenjulegur fyrir gigtarlækni en ég tók að mér að elda fyrir jólaveislu sjúkrahússins. Ég fékk aðstoð frá starfsfólki eldhússins, May og Maríu, og við vorum ekki í vandræðum með að snara fram fimm rétta máltíð fyrir 80 manns. Maturinn heppnaðist vel og allir voru ánægðir. Eftir matinn tók ég lest til Lundar þar sem ég var boðinn í jólaglögg hjá góðum vinum okkar, Addý og Gumma. Frábært kvöld sem lengi verður í minnum haft. 

Þann 21. desember byrjaði ég svo í nýrri vinnu í Englandi. Ég er sérfræðingur í gigtarlækningum á sjúkrahúsinu í Eastbourne í hálfu starfi og svo vinn ég einnig hjá einkafyrirtæki, MSK partnership, sem er samstarfsverkefni á milli hins opinbera og svo þeirra sem veita meðferð við stoðkerfissjúkdómum af öllu tagi. Okkar verkefni er að greina snemma sjúklinga með stoðkerfisvandamál og koma þeim strax til réttra meðferðaraðila þannig að sjúklingar séu ekki að velkjast í kerfinu alltof lengi eins og vill verða í þessum sjúkdómaflokki. Þetta er afar spennandi og viðamikið verkefni. Mitt hlutverk snýr að gigtarsjúkdómum, að sjá til þess að sjúklingar á upptökusvæði okkar í Austur Sussex með um hálfa milljón íbúa, fái þjónustu í takt við þarfir sínar. Verkefnið er þegar komið á fullt skrið. Mér hefur meira að segja verið boðið á læknadaga eftir tvær vikur til að greina frá þessu verkefni. 

Um áramótin keyrðum við til Austurríkis og áttum frábært skíðafrí á uppáhalds skíðahótelinu okkar, Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau, nema unglingurinn sem fór til Svíþjóðar að hitta vinkonur sínar. Vilhjálmur tók stórstígum framförum á brettinu, Ragga Lára lærði að standa í lappirnar (og á góðum degi bremsa). 

Við hlökkum til þessa árs með öllum þeim ævintýrum sem það kann að hafa í för með sér. Þetta verður spennandi ár með fullt af breytingum, ögrandi verkefnum, bókaútgáfu og tilheyrandi fjöri. 

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar

Þessi uppskrift var í bókinni minni sem kom út fyrir jólin 2014. Þetta er ommiletta sem ég geri reglulega, sérstaklega um helgar, þegar maður þarf að ná sér hressilega upp. 

Chorizo-pylsur eru upprunnar á Íberíuskaganum, nánar tiltekið á Spáni. Það er eiginlega ekki til nein ein ákveðin uppskrift að þessari pylsu heldur er hún til í mörgum útgáfum; fersk, gerjuð, reykt, sölt og sæt! Allar uppskriftir að henni eiga þó sameiginlegt að innihalda ríkulegt magn af reyktu paprikudufti, pimentón, sem gefur pylsunni sinn einkennandi rauða lit.

Ég er einkar hrifinn af þessari pylsu þar sem hún hefur mikið fituinnihald sem gerir það að verkum að hún karamellíserast sérlega vel við steikingu og steikist eiginlega best í fitunni sem rennur af henni. Í þessari uppskrift fær chorizo-pylsan að hitta nokkra vini sína, chili-pipar, papriku og jalapeño, og nokkur egg sem milda lokaniðurstöðuna. Þeir sem eru í stuði geta vandræðalaust bætt við Tabasco-sósu til að lyfta réttinum upp í enn heitari hæðir!

Hráefnalisti

Fyrir tvo

3 egg
2 chorizo-pylsur
½ gul paprika
½ græn paprika (½ af hvorri eða samtals?)
5-6 sneiðar jalapeño-pipar, (eiga þetta að vera 5-6 jalapeño-piparbelgir í sneiðum eða 5-6 sneiðar af jalapeño-piparbelg?)
1 lítill rauður chili-piparbelgur
50 g rifinn ostur
5-6 tsk sýrður rjómi – crème fraîche
2 msk ferskt kóríander
salt og pipar

Brjótið eggin í skál, bætið við einni teskeið af vatni og hrærið saman með gaffli. Saltið og piprið. Bræðið smjör á pönnu.


Skerið pylsurnar niður í sneiðar og steikið í smjörinu.


 Skerið niður paprikurnar og steikið með chorizopylsunum.


Hellið eggjunum út á pönnuna og hristið hana til svo að þau losni frá brúnunum. Þegar eggin eru byrjuð að eldast raðið jalapeno-piparnum á ommilettuna.  Þegar ommilettan er næstum tilbúinn, bætið niðursneidddum rauðum chilipipar út á pönnuna ásamt sýrðum rjóma.


Skreytið með ferskum kóríander

Thursday, 3 December 2009

Byrjum á Spaghetti með chorizopylsu, kirsuberjatómötum og basil á nýjubloggi. Namminamm





Það er spennandi að vera að flytja sig á nýtt vefsetur.Ég hef síðastliðna mánuði verið að hugsa um það að flytja mig um set. Hér blása ekki eins skarpir pólitískir vindar og á gamla vefsvæði mínu - moggablogginu. Ég hafði þó hugsað mér að halda áfram að birta fyrstu setningar hverrar færslu á moggablogginu og leyfa því svo að halda áfram hérna. Vona að fólk verði sátt við það. Þeir sem hafa fylgst með mér þar geta því vanið sig við að fara beint yfir á miðjunna.

Á þessum tíma hef ég fengið margar heimsóknir á síðuna og það hefur glatt mig mikið hversu margir hafa áhuga á því að lesa um viðfangsefni mín í eldhúsinu. Þakklátastur er ég þó fyrir athugasemdirnar. Fátt gleður bloggara meira. Ég mun eins og áður rembast að vera frumlegur í eldhúsinu - reyna að prófa nýjar uppskriftir og halda áfram að ögra sjálfum mér í eldhúsinu. Það var nú líka tilgangurinn með blogginu í upphafi. Að brjóta upp venjurnar/íhaldssemina sem var farin að ganga að eldhúsinu mínu dauðu.

Ég vona að lesendur síðunnar hafi gaman að því að fylgjast með vandræðaganginum í mér...og það væri nú sérstaklega gaman ef það leiddi til þess að fleiri gæfu sér tíma til að elda - og finni hversu frábært áhugamál það er að búa til mat- gefandi í alla staði. Að velta fyrir sér uppskriftum, kaupa inn, setja á tónlist, kveikja kerti, undirbúa, elda...borða, njóta...(vonandi gengur einhver annar frá) - það er ekkert betra að mínu mati.

Byrjum á ljúffengu spaghetti með chorizo, basil og tómötum á nýju bloggi. Namminamm




Fór niður í Saluhallen í dag og tók slátrarann tali. Ræddum aðeins um gang mála með kjötvinnsluna heima. Hann skoraði á mig að koma með og leyfa sér að prófa. Ég lofaði að snúa tilbaka í mars með sýnishorn. En ekki hvað?... kannski næ ég að kría út afslátt næst.


Hvað um það þá keypti ég nokkrar chorizo pylsur - gerðar af slátranum, bragðbættar með pipar, cheyenne og paprikudufti. Ég hef keypt þær nokkrum sinnum áður - þær eru bestar þegar maður sker þær í sneiðar og steikir í smá olíu eins og ég gerði í gærkvöldi. Pylsan er ansi feit (eins og allar góðar pylsur) þannig að þær leka talsverðri fitu. Það er gott - fitan er síðan notuð til að hjúpa pastað. Þegar pylsusneiðarnar eru orðnar stökkar á báðum hliðum er kirsuberjatómötum, skornum í helminga, bætt saman við - kannski 20 litlir tómatar. Þeir eru steiktir í nokkrar mínútur með pylsunum - þeir leka líka vökva sem leggur til í þessa þunnu sósu sem verður til á pönnunni. Síðan 10-15 rifin basillauf, annað eins af ferskri steinselju, smá skorið klettasalat. Steikt örlítið, saltað og piprað. Skvetta af hvítvíni og síðan skvetta góðu balsamikediki. Soðið niður.

Því næst er pastanu bætt á pönnunna, náttúrulega soðið áður af krafti í miklu söltuðu vatni þar til aldente. Hrært saman við pastað. Saltað og piprað að nýju, skreytt með ferskum kryddjurtum - basil og steinselju. Fært á diska, nóg af parmaosti er raspað yfir. Frábært.

Borið fram með brauðhleif, kannski hvítvínstári ef það er afgangur í búkollunni - en svo var ekki, þannig að það var bara kolsýrt vatn. En það er nú líka bara ágætt. Bon appetit.






Bon appetit!




Thursday, 26 March 2009

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikthörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi





Við vorum með góða gesti í mat síðastliðið laugardagskvöld. Það verður að segjast að þetta var svona fyrsta formlega matarboðið í nýja húsinu. Foreldrar mínir og bróðir mega ekki móðgast við þessa fullyrðingu. Það er aðeins öðruvísi að bjóða vinum í mat en vandamönnum - þó eru báðir frábærir gestir.


Við fengum nokkra nágranna okkar í mat. Jónas, Hrund og Guðrún, mamma Hrundar, úr Pukgranden 5, Þórir og Signý Vala, sem flytjast í apríl í sjöuna, komu í þríréttað og svo komu Elva og Gummi úr Pukgranden 3 og Jón Þorkell og Álfa úr fjörutíuogsexunni í desert. Þetta var gott kvöld. Skálað í brennivíni í byrjun eins og góðum Íslendingum sæmir og svo haldið áfram fram eftir nóttu.

Ég er mikill aðdáandi hörpuskeljar. Það verður að segjast að það er næstum því mitt uppáhalds sjávarfang. Fátt finnst mér flottara en risahörpuskel. Það kemur fiskbíll reglulega til Lundar með fisk frá Íslandi og síðan annar með fisk frá Noregi. Við höfðum misst af þeim íslenska en náðum bílnum frá frændum okkar í Noregi. Keyptum þorsk, ýsu, regnbogasilung og þessa geysistóru risahörpuskel. Ég varð hreinlega spenntur þegar ég sá pakkninguna.


Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hörpuskel. Ein af mínum uppáhalds er hörpuskel vafinn serranoskinku með heslihnetu og kóríandersmjöri (sjá; hér), svo gerði ég einhvern tíma smjörsteikta hörpuskel með flamberuðum jarðarberjum og balsamikkremi (sjá hér; ). Í heimsókn hjá vinum í Danmörku síðastliðið haust gerðum ég og húsráðandi saman Spaghetti Nero með hörpuskel og chilli ( sjá þessa færslu). Það eru öruggulega einhvejar fleiri - hægt að leita í gegnum google með því að skrifa hörpuskel site;ragnarfreyr.blog.is - þá fær maður lista yfir allt sem varðar hörpuskel.

Ljúffengur forréttur í fyrsta matarboðinu í nýja húsinu; snöggsteikt hörpuskel með Chorizopylsu og avocadomauki og hvítvínsglasi

Ég fór til slátrarans í Saluhallen og keypti nokkrar pylsur sem hann gerir sjálfur. Hef prófað þær áður í öðrum rétti og þær eru alveg frábærar. Skar þær niður í feitar sneiðar og steikti á pönnu þar til stökkar og fallegar. Lagði þær á disk - með nokkrum grænum laufum á meðan ég kláraði hörpuskelina. Hörpuskelin hafði fengið að liggja í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu, sítrónusafa, chilli og salti og pipar í nokkrar mínútur áður henni var skellt á heita pönnu og steikt á hvorri hlið í stutta stund. Hörpuskelin var svo lögð ofan á steikta pylsuna og í lokin var sett ein teskeið af heimagerðu guacamole sem ég hafði gert fyrr um daginn.

Þrjú þroskuð lítil avakadó, einn lítil laukur, tvö hvítlauksrif, 1 stór tómatur, handfylli af fersku kóríander, smá rauður chillipipar, salt, pipar, jómfrúarolía er sett í matvinnsluvél og maukað saman. Oft þarf að bæta við einu og öðru til að ná balans. Það byggir allt á persónulegu mati kokksins (á það ekki við alla eldamennsku).

Með forréttinum drukkum við Montes Sauvignion Blanc 2008 sem er ljúffengt og brakandi ferskt hvítvín. Þetta er vín frá Leyda dalnum í Chile. Ávaxtaríkt, jafnvel dálítið sætt en samt létt hvítvín, engin eikarkeimur enda kemur þetta vín hvergi í snertingu við tunnu að mér skilst. Ég bar það fram beint úr kælinum þannig að það væri vel kalt til að spila aðeins á móti hitanum í pylsunni og chillinu sem var í marineringunni.

Gestirnir virtust ánægðir og það var ég líka. 


Bon appetit.