Friday 26 February 2010

Afmælisblogg úr Ölpunum; Heileldaður grís með freyðandi bjór og söngskemmtun með skíðakóngum

aftoppnum


Það er ekki hægt að kvarta - bara alls ekki. Ég fæ að njóta afmælisdagsins í Ölpunum. Þá verður lífið bara ekki betra - alltént ekki á mínum mælikvarða. Við fjölskyldan keyrðum suður til Austurríkis frá Lundi á einum og hálfum sólarhring. Gistum á arfaslöku hóteli í Hamborg - sem við bókuðum á netinu - sem reyndist vera hostel þegar við komum þangað seint á sunnudagskvöldi. En við stoppuðum ekki nógu lengi til þess að kvarta, sváfum bara í 8 klukkustundir og svo ókum við sem leið lá eittþúsundsextíuogsjö kílómetra til St. Michael í Lungau héraði. Leiðin frá Hamborg til Hannover og þaðan að Magdeburg, sem leið lá framhjá Leipzig, síðan Nurnberg, svo Munchen, að Salzburg og þaðan á milli Alpatinda að St. Michael. Börnin mín, alveg yndisleg, dunduðu sér í aftursætinu og við spjölluðum alla leiðina suður. Það virðist alltaf vera nóg að spjalla um við konuna mína, hana Snædísi. Ferðin var í raun miklu þægilegri en ég hafði gert mér í hugarlund.
hotelmynd


En það var frábært að renna í hlaðið, keyra niður St. Martinerstrasse og leggja bílnum fyrir framan heimili okkar næstu ellefu næturnar. Lítið skíðahótel við fjallsrætur Speiereck fjallsins í bænum St. Micheal/St. Martin á hóteli sem ber nafn fjallsins. Þetta er í þriðja sinn sem við gistum á þessu skíðahóteli sem er í eigu Þorgríms og Þuríðar. Og þau kunna að reka skíðahótel... það er ekki hægt að segja annað. Þetta er ekki skráð fimmstjörnuhótel - ég held að það sé þriggja stjörnu - en andskotinn, þetta eru almennilegar stjörnur. Hótelið er í fallegum Alpastíl, með lútandi þök og blaktandi fána. Innréttingarnar eru gamaldags - antík nánast í hverju horni. Herbergin notaleg, rúmin mjúk og alpaloftið brakandi ferskt. Maturinn hefur alltaf verið frábær - hjónin hafa flutt inn kokka frá Íslandi sem sannarlega kunna að elda. Í þetta skiptið höfum við fengið ýmislegt góðgæti; kalkúnabringu á asískan máta, vínarsnitsel með öllu tilheyrandi og í gær var nautalund með bernaise, namminamm. Hægt er að kíkja á heimasíðu hótelsins hérna.

Við erum hérna í afbragðs félagsskap húsráðanda.  Auk okkar eru nágrannar okkar og vinir Signý Vala, Þórir og börnin þeirra Hrafnhildur og Sigrún Edda. Þau keyra heim á sunnudaginn en þá koma líka aðrir góðir vinir og nágrannar, Jónas, Hrund og strákarnir þeirra, Kristinn og Hrafnkell. Valdís og Villi (börnin mín) eru í skíðaskólanum og taka stórum framförum. Villi (4 ára)  lærði að skíða í fyrradag og í gær lærði hann að fara í svig og fara í stólalyftu - í dag vann hann svigkeppnina í skíðaskólanum í sínum hópi - við vorum ofsastolt . Valdís (9 ára) er að bæta sig í hverri ferðinni - varkár eins og amma sín - hún tók einnig þátt í svigkeppninni og hafnaði í fjórða sæti - vel og örugglega.
svinidboridfram


Í gærkvöldi var aðalveislan. Heileldað svín með öllu tilheyrandi. En meðlæti verður algert aukaatriði  þegar í boði er heil- og hægeldaður grís. Þetta var The Big Kahuna - The really big kahuna! (sem er reyndar réttur frá Hawai og þar nota þeir nýfædda smágrísi) - þetta er alvöru skepna. Grísinn er eldaður allan daginn við lágan hita, húðin verður stökk og kjötið meyrara en smjör. Dásamlegt.
Kjotidskammatad


Á myndinni eru kokkarnir sem sérhæfa sig í að elda grísi á þennan hátt. Þeir bera hann fram við hátíðlega viðhöfn, kertaljós, stjörnuljós, blys og austurrísk tónlist. Frábær stemming alveg. Á myndinni eru kokkarnir að gera að grísnum og Þurý að skammta á diska. Ég ræddi aðeins við matreiðslumennina um hvernig þetta er gert. Fyrst er grísinn látinn liggja í saltpækli í rúman sólarhring. Síðan er það sett í ofn við lágan hita og eldað frá morgni til kvölds. Með matnum var borin fram einföld og bragðgóð svínasoðssósa, Waldorfsalat og grötsel. Grötsel (bið um leiðréttingar ef þetta er rangt skrifað) er Austurrískur réttur, afar einfaldur, þar sem kartöflubitar, gulrótabitar, flesk og kjötbitar eru steikt saman í olíu, kryddað með kúmeni, salti og pipar.
maturinn

Í gærkvöldi var svo heljarveisla - Hótelbandið - Skíðbrot (the Broken Ski) tók heldur betur lagið. Hljómsveitarmenn eru Einar Úlfsson, Doddi, Joey B og svo voru gestasöngvarar dregnir upp á meðal gesta; Binni skíðakennari og svo fékk ég að syngja tvö lög. Varð helvíti stressaður þannig að það eyðilagði eiginlega fyrir mér drykkjuna - fjandinn sjálfur! Maður bætir það upp síðar.

IMG_0886

Það var mikil stemming í gærkvöldi. Hér voru allra þjóðar kvikindi; Austurríkismenn, Ungverjar, Slóvenar, Bretar, Norðmenn og svo auðvitað Íslendingar.

Fekkadsyngja


Það eru góðir dagar framundan. Við eigum viku eftir af fríinu áður en við leggjum í hann norður á bóginn á heimahagana. Sem betur fer!

Monday 15 February 2010

Bestu hamborgarar allra tíma? Ótrúleg borgaraveisla í Danmörku - öllutjaldað til!

Hamborgarar eru góður matur. Það er merkilegt hversu góð samloka, hamborgari í raun er. Þessi samblanda nautahakks, brauðs, grænmetis og hina ýmsu sósa - hvað þetta er vel heppnað. Fáar samlokur standast hamborgaranum snúning. Það bara verður að segjast. En hamborgarinn á líka sínar myrku hliðar. Þessum ágæta rétti hefur verið skipulega nauðgað af skyndibitastöðum um langt árabil. Áhangendur MacDonalds og Burger King geta hætt að lesa hér - sá sem hér bloggar hefur algera ímugust á þeim stöðum og ruslinu sem þeir pranga upp á fólk undir nafninu matur. Þessa skoðun mína mun ég ekki rökstyðja frekar - hún er öllum augljós og fjöldi annarra deilir skoðun minni. En nóg um það - snúum okkur að alvöru hamborgurum.

Fyrir rúmri viku síðan var mér boðið til vinar míns í Danmörku í algerlega meiriháttar matarboð. Það var dáldið skemmtilegt hvernig það kom til að Kristinn bauð okkur í þessa matarveislu. Á fyrstu vikum Miðjunnar, undir liðnum matur, var greint frá ákaflega skemmtilegri heimasíðu sem ostaframleiðendur í Wisconsin halda úti þar sem ástarsambandi hamborgara og osts er gert hátt undir höfði. Og þá meina ég hátt undir höfði! Á þessari síðu eru kynntar þrjátíu girnilegar uppskriftir af hamborgurum - lygilega girnilegum hamborgurum. Fyrir áhugasama má glöggva sig nánar á heimasíðu þeirra - www.cheeseandburger.com. Alltént sýndi ég Kristni og Teit þessa heimasíðu þegar þeir voru hérna í heimsókn fyrir nokkru. Kristinn virðist hafa bitið þetta í sig og eftir ýtarlega heimildavinnu bauð hann nokkrum vinum til sín í þessa frábæru hamborgaraveislu þar sem öllu var tjaldað til. Ég var heppinn að fá boð!

Eftir netkosningu höfðu fjórir hamborgarar af þeim þrjátíu af heimasíðunni orðið fyrir valinu;

The Farmer John, nr 7 - ’..not for the guy who makes spreadsheets for a living. 

The Lumberjack, nr 10 – ‘..it´s breakfast, lunch, dinner and a few snacks all rolled into one’.

The Sheboygan, nr 26 – ‘..If you´re vegan or vegetarian, please cover your ears".

The Camelot, nr 16 – ‘..treat her right and she´ll return the favor tenfold..’

Bestu hamborgarar allra tíma? Ótrúleg borgaraveisla í Danmörku - öllu tjaldað til!


Þetta varð hið skemmtilegasta samstarfsverkefni. Kristinn og Teitur söfnuðu saman öllu hráefni - það hefur sennilega verið þriggja sólarhringavinna. Við hjálpuðumst að í eldhúsinu. Ég sá um að setja í hamborgarabrauðin og gera laukhringina. Kristinn grillaði, Teitur skar niður álegg og  tók allar ljósmyndir. Hinir drukku bjór og svo drukkum við allir bjór. Og allir voru glaðir! Mjög glaðir!



Kristinn hafði keypt nóg af nautahakki - ein tvö kíló frá slátraranum; hakkað niður "live" eftir pöntun. Þannig er hakkið best. Það var hnoðað í væna nautahakks pylsu - saltað og piprað rækilega.



Þegar maður er með nautahakk af þessum gæðaflokki er alger óþarfi að bæta mikið af kryddum samanvið. Ekki að það sé rangt - alls ekki. Það væri hægt að krydda þá, bæta við lauk af hvaða tegund sem er, brauðmylsnu, eggi, salti og pipar, chilli - you name it. En við létum salt og pipar duga. Kjötinu var deilt niður í tólf safaríka hamborgara.



Ég gerði einfalda uppskrift fyrir laukhringina, eftir minni, hveiti - kannski tveir bollar, teskeið salt, hálf teskeið lyftiduft og  álíka mikið af matarsóda. Um það bil flösku af góður bjór eða pilsner er hrært saman við þangað til að maður er kominn með þykkt deig.


Laukurinn er skorinn niður í sneiðar, velt upp úr hveiti og síðan skellt í deigið og þaðan beint í heita olíuna og steiktir þar til fallega gullinbrúnir.


Í uppskrift fyrsta hamborgarans - The Farmer John - kvað á um að gera rosti kartöflur. Við hökkuðum niður kartöflur, bleitum með eggi, krydduðum með salti og pipar og síðan steiktir á pönnu. Brauðinu var þrýst ofan í kartöflurnar og síðan steikt með þar til það fór að taka lit.


The Farmer John - "Not for the guy who makes spreadsheet for a living"

Þykkur grillaður hamborgar hlaðin öðru góðgæti. Samkvæmt uppskrift átti að nota Limburger ost - sem er kraftmikill og bragðmikil mygluostur með miklum "daun" - ljúffengur á bragðið. Rostikartöflur á báðum brauðsneiðum, beikonsneiðar, laukhringir til skrauts.


The Lumberjack, nr 10 – ‘..it´s breakfast, lunch, dinner and a few snacks all rolled into one’.

Hvítur og gulur cheddarostur, tveir hamborgarar, ristað hvíttbrauð, gult sinnep, hvítur laukur, tómatsósa, mayonaise. OMG - hvílíkur hamborgari - þessi fannst mér bestur!



The Sheboygan, nr 26 – ‘..If you´re vegan or vegetarian, please cover your ears".

Á þessum hamborga var þýsk bratwurstpylsa, sauerkraut, sterkt sinnep. Uppskriftin kallaði á "cheesecurds". Kristinn fann ekkert svoleiðis þannig að við notuðum aftur þennan ótrúlega bragðgóða gula cheddarost.


The Camelot -, nr 16 "..treat her right and she´ll return the favor tenfold".

Þessi var með kraftmiklum camenbertosti, steiktum sveppum, karmelliseruðum lauk, tómötum, dijon sinnepi og velpipruðu beikoni. Þarna var maður orðin svo saddur að það þurfti raunverulega að þvinga hamborgarann ofan í sig. En góður var hann!



Og auðvitað maður kvöldsins - Kristinn Grétarsson - hvílík frammistaða! Maturinn var stórkostlegur - félagsskapurinn ennþá betri. Lifi alvöru hamborgarar. Núna eru bara tuttugu og sex hamborgarar eftir!

Bon appetit!

Monday 8 February 2010

Helgarveisla; Gómsæt ofnbökuð kalkúnabringa með sveppasósu, Kartöflumduphnoisase og hvítlaukssteiktu rósakáli

Undirbúningur


Ég hef verið latur við að blogga síðustu vikur. Óvenjulega latur. Það er ekki vegna þess að við höfum verið eitthvað löt í eldhúsinu - langt í frá. Þannig er mál með vexti að ég og bróðir minn höfum verið í átaki - hann hætti að reykja og við byrjuðum að lyfta - og þá er maður alltaf með harðsperrur- svo slæmar að ég hef varla getað vélritað. Núna eru krónísku vöðvaverkirnir að hjaðna og maður getur tekið upp tölvuna að nýju og reynt að koma nokkrum uppskriftunum frá sér.

Það er gott að búa Skáni - allaveganna fyrir mig. Skánn er nefnilega mikið matarframleiðsluhérað. Hér er mikill landbúnaður, mikil grænmetisframleiðsla, kornrækt, sykurbeðarækt ásamt fjölbreytilegri dýrarækt. Hérna er einnig  vinsæll kalkúnabúgarður - Ingelsta kalkon - hann er í suð-austurhluta Skánar - Österlen. Sem Svíar kalla hið sænska "Provence" - þarna er meira að segja vínrækt, framleiðsla á rapsolíu (ólívuolía norðursins) og ýmislegt fleira. Ég hef skrifað nokkrum sinnum áður um þennan hluta Skánar, var að vinna á þessum slóðum í íhlaupavinnu síðastliðið sumar, á austurströndinni í bænum Simrishamn, sem er ákaflega fallegt! Sérstaklega á morgnanna - þegar maður var að keyra eldsnemma um morguninn yfir einn af Ásunum á Skáni og sá hvernig þokuslæðan lagðist eins og ábreiða yfir græna akrana. Þessa viku sem ég vann í Simrishamn keyrði ég alltaf fram hjá þessum kalkúnabúgarði og langaði alltaf til að kíkja við en lét aldrei verða af.

Svo rakst ég á þessa geysistóru kalkúnabringu í matvöruverlsuninni í fyrradag- einmitt frá Ingelsta. Gat nátturulega ekki staðist að kaupa hana. Hún var nátturulega alltof stór - yfir tvö kíló, og bara ein bringa. Það er auðvitað hætta á því að svona steik verði allof þurr, en við því eru ráð: Hægeldun - sem er eiginlega trygging fyrir því að hlutirnir eldast vel!

Helgarveisla; gómsæt ofnbökuð kalkúnabringa með sveppasósu, Kartöflum duphnoisase og hvítlaukssteiktu rósakáli


aleidinniiofninn


Fyrst tók ég kalkúnabringuna, þvoði hana í rennandi vatni, þurrkaði og lagði í eldfast mót. Saltaði og pipraði og kryddaði með ferskur rósmarín og salvíu. Hitaði pönnu með smjöri/olíu og léttsteikti niðursneiddan hvítlauk og ferskt rósmarín í olíunni. Skellti svo bringunni í pönnuna og brúnaði á öllum hliðum. Þegar hún var 0rðin fallega brún á öllum hliðum var hún sett aftur í eldfasta mótið og hitamæli komið fyrir og sett í 150 gráðu heitan ofn. Eldað þangað til að kjarnhiti náði 74 gráðum. Þá var steikin tekin út og leyft að jafna sig - og á meðan er sósan kláruð.
Sósan var á svipuðum nótum og oft áður. Hafði í vikunni gert kjúklingasoð sem ég notaði. Hitaði það í potti á meðan ég steikti niðursneiddan hvítlauk, smáttskorinn skarlottulauk og síðan þunnt skorna sveppi. Þá var saltað og piprað. Síðan smá hvítvín, svo soðið, svo smá matreiðslurjóma og þessu svo leyft að sjóða niður og þykkna. Þykkt með smá maizena mjöli í lokin.


Kartöflur duphnoiase gerði brósi eftir þessari uppskrift; Fyrst voru kartöflur skornar í sneiðar og settar í pott ásamt smátt skornum hvítlauk, mjólk hellt í pottinn þannig að kartöflurnar voru aðeins uppúr, þá aðeins rjómi, múskat, smá dijon sinnep, salt og pipar. Soðið í 10 mínútur. Þá fært yfir í eldfast mót, rifnum osti stráð yfir og bakað í heitum ofni þangað til að mjólkin hafði soðið mikið niður og osturinn hafði brúnast að ofan.

Rósakál hefur aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér. En núna er ég farin að taka það í sátt. Keypti ferskt rósakál sem ég steikti í smá olíu, saltaði og piprað. Þegar það var farið að taka smá lit þá hellti ég glasi af hvítvíni á pönnuna, setti lokið á með smá glufu og leyfði því sjóða niður.

Með matnum drukkum við þetta ljúfa vín - Seniro de los Llanos Valdepenas Gran Reserva - alveg hreint prýðisgott spánskt rauðvín. Flaskan er há og fremur glæsileg. Vínið dökkrautt á litinn. Ilmar af dökkum berjum, brómberjum og klár keimur af vanillu. Mjúkt vín og flaueliskennt vín.
matur