Sunday 30 November 2008

Smásálarbjarmi í svartnættinu; Ljúffengt lambalæri þakið herbes de provence, ofnbakað rótargrænmeti með seiðandi sósu

snjor_i_lundi.jpg Það er fallegur sunnudagur hérna í Lundi. Það er búið að vera kalt síðustu tvær vikurnar og rakt í lofti þannig að kuldinn bítur mann í nefið. Það snjóaði meira að segja um daginn. Gráðurnar virðast því vera kaldari en á Fróni. En í dag er milt og nærri heiðskýrt. Ég byrjaði snemma í morgun í eldhúsinu. Við höfum tekið upp þá hefð að búa til pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Þetta er eitthvað sem við höfum lært af vinahjónum okkar Jóni Þorkatli og Álfhildi. Hefð sem ég vona að verði áfram. Fátt yndislegra en heit, þykk pönnukaka á sunnudagsmorgni, ostsneið og rjúkandi kaffi. Dásamlegt!

Ég fór í göngutúr áðan út í búð - bráður kaffibrestur á heimilinu - og á leiðinni í búðina gekk ég yfir Clemenstorgið þar sem var verið að undirbúa útifund - sem er víst árlega hér á torginu.  Þetta er kokkurinn_i_vinnunni.jpg víst dánardagur Karl XII Svíakonungs (við búum einmitt við götu sem ber hans nafn) - síðasti stríðkóngur Svía. Ég segi stríðskóngur því hans helsta dægrastytting var að heyja stríð við alla í kringum hann; Rússa, Pólverja, Dani og Norðmenn. Öfgasinnaðir hægrimenn - nýnasistar - hafa mikið dálæti á þessum kóngi og hylla hann á þessum degi. Það hefur komið fram í blöðunum í vikunni að aktívistar ætli að mótmæla nasistunum og því má búast við einhverjum látum hér. Það hefur verið hefð fyrir því að vera með læti þennan dag - fyrir hálfum öðrum áratug komu hingað farmfylli af aktívistum frá Danmörku til að slást við nýnasistanna. Þá var nánast stríðsástand í þessum bæ, steinum úr heilu götunum fræstar upp og grýtt í andstæðingana. Þessi kóngsauli æsir upp fólk langt fram yfir líf og dauða. Helvítið á honum. Svo fór sem fór - hér voru læti!

Ýmsar kenningar voru uppi um andlát hans en hann fékk kúlu í höfuðið í Noregi. Norðmönnum að sjálfsögðu kennt um en einnig er möguleiki á að einhver úr hirðinni hafi ákveðið að slútta þessu - langþreyttir á stríðsbrölti hans um norðanverða Evrópu. Það er lítið gott hægt að segja um þennan mann nema hvað hann rosmarinrunni.jpg kynnti skandinövum fyrir ágætum rétt sem hann sótti eitt sinn þegar hann var í stuttri útlegð í Tyrklandi - Kjötfars/kjöthakk í kálböggli. Það þurfti víst ekki að fórna nema nokkur hundruð þúsund manns til að kynna þessa hefð! Fráleitt - en kálbögglar geta verið prýðisgóðir!

Smásálarbjarmi í svartnættinu; Ljúffengt lambalæri þakið herbes de provence, ofnbakað rótargrænmeti með seiðandi sósu

Jæja nóg um þetta. Vindum okkur að matnum. Ég fór í smá stuð við pönnukökubaksturinn og ákvað því að klára að undirbúa kvöldmatinn. Innblásturinn er sóttur til Frakklands þar sem við vorum í ágúst í stórkostlegri ferð. Héraðið sem við vorum í í Suður Frakklandi, Tarn, er þekkt fyrir lambakjötið sitt og því auðvitað á boðstólnum þessa vikuna.

lamb_herbes_de_provence.jpg Herbes de Provence er fræg kryddblanda frá Provence sem á víst ekki svo langa sögu. Samkvæmt því sem kemur fram á Wikipediu var þetta sett á markað á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta er hægt að kaupa víða - oft selt í fallegum pokum á mörkuðum í Frakklandi og samanstendur af þurrkuðu rósmarín, majoram, basil, lárviðarlaufi, timian og lofnargjörð. 

Þetta er alltént nógu einfalt. Lambalærið er tekið og spekkað með hvítlauk. Það er gert með því að stinga nokkur göt á það og setja hvítlauksrif í götin. Lærið er þvínæst nuddað með góðri jómfrúarolíu, salti, pipar og kryddblöndunni og leyft að standa í nokkra klukkutíma áður en það er eldað. Þannig ná kryddjurtirnar að ljá kjötinu sitt ljúfa bragð. Lambalærinu er leyft að lúra í 150 gráðu heitum ofni þangað til að það verður með kjarnhita um 65 gráður. Síðasta hálftímann er kannski 300 ml af vatni hellt í botninn á fatinu til að safna kraftinum til að búa til sósuna. Þegar allt er tilbúið er lambið tekið út og leyft að standa á meðan sósan en kláruð. 

lamb_a_diski.jpg Og nóg er sósan einföld. Soðinu er hellt í pott, suðunni hleypt upp og soðið niður um þriðjung. Þá  er smá matreiðslurjóma, saltað og piprað og soðið niður áfram í smá stund.

Borið fram með rótargrænmeti, ofnbökuðu eins og kemur fram í titlinum - það má nota í raun hvað sem er; kartöflur, sætar eða venjulegar, gulrætur, rófur, næpur, seljurót, lauk og hvítlauk - nefndu það bara. Bleyta með smá jómfrúarolíu, salta og pipra og baka í klukkustund. Í kvöld vorum við með kartöflur, gulrætur, rauðlauk og hvítlauk. Rósmarínið, þurrkað, kom sterkt inn. Ljúffengt.

Í kvöld drukkum við alvöru vín, beljan var tóm - grét ekki yfir því - vegna þess að í staðinn opnuðum við Penfold Kalimna Shiraz bin 28 frá því 2005. Þykkt og mikið vín. Fyllir munninn bragði af dökkum vínberjum, sólberjum og kannski leðri, dáldið tannín. Vín sem lifir í munninum og aðeins lengur í blóðrásinni, sem betur fer!

matur_a_bor_um.jpg

 


Sunday 16 November 2008

Smá birta; kjúklingabringur með parmaskinku, osti og basil með spaghetti og fersku salati

sonurinn_a_hjalpa_til.jpg Síðasta vika var ansi ljúf hjá okkur Íslendingunum á Karl Xii götunni í Lundi. Við fengum góða gesti, mágkonu mína, Kolbrúnu Evu og son hennar Patrek, sem voru hjá okkur í næstum viku. Við reyndum að gera okkar besta að gera þetta heimilislegt hérna í íbúðinni okkar og ég held það þetta hafi bara tekist vel hjá okkur. Allavega var alveg frábært að hafa þau hérna.

Ég horfði á mótmælin í gær. Djöfull var ég stoltur. Mörg þúsund Íslendingar að mótmæla. Mér fannst ræðurnar vera góðar, þá sérstaklega Viðar Þorsteinsson - hvílík ræða! Eitthvað verður að gerast á Fróni. Þetta getur ekki haldið svona áfram. Ætli Andri Snær hafi ekki bara hitt naglann á höfuðið með orðum sínum um vini okkar - hver ætti að vilja lána okkur peninga. Þeir sem stýra hafa bara sýnt getu og ráðaleysi. Allir ríghalda í stólinn sinn, enginn ætlar að víkja. Ótrúlegt.

Allavega. Ég hef verið að renna í gegnum uppáhalds matreiðslu heimasíðurnar mínar og á heimasíðu Jamie Oliver rakst ég á uppskrift sem ég byggði þessa á. Þetta virðist vera úr nýjustu bókinni hans sem heitir Ministry of Food. Hef ekki eignast hana - en ætli ég biðji ekki um hana í jólagjöf. Eins var ég að skoða heimasíðu, Júlíusar Júlíussonar, sem heitir matarsíða áhugamannsins. Frábær síða hjá honum og gaman að lesa hversu metnaðarfullar hugmyndir eru í farvatninu. Hann og Friðrik V eru að gefa út matreiðslubók sem heitir Meistarinn og áhugamaðurinn - hlakka mjög til þess að glugga í þessa bók.

kjuklingur_undirbuinn.jpg Smá birta; kjúklingabringur með parmaskinku, osti og basil með spaghetti og fersku salati

Fyrst er kjúklingabringan þvegin og lögð á milli plastfilmu og svo lamin nokkrum sinnum þar til að hún er orðin nokkuð jöfn að þykkt. Þetta tryggir að hún steikist jafnt. Þá er smávegis af olíu penslað yfir bringuna, saltað og piprað, rifnum osti, parmesan osti, sáldrað yfir og svo nokkrum niðurskornum basillaufum dreift yfir. Því næst er 2-3 sneiðum af góðri skinku, t.d. parmaskinku - ég notaði reyndar sænska vindþurrkaða vestfirska skinku - lagt jafnt yfir þannig að það hylur ostinn og kryddið alveg. Þá er bringan steikt, fyrst skinkusneiðar hliðin niður,við meðalhita í 4-5 mínútur. Svo er þessu snúið við og steikt í nokkrar mínútur. Þá er sneiðunum stungið inn í ofn á meðan meðlætið er gert tilbúið. 

kjuklingur_a_lei_inni.jpg Sósan var ágæt. Eftir að búið var að steikja kjúklinginn, hellti ég smávegis (30ml) rauðvíni á pönnunna, smá balsamikedik (20ml) og dropa af jómfrúarolíu. Þetta var soðið niður og pannan skröpuð á sama tíma til að ná öllu bragðinu sem bundist hafði við hana. Hellt í skál í gegnum sigti. Þetta er kröftug sósa þannig að einungis þarf teskeið eða svo á hverja sneið af kjúklingi. 

Meðlætið var einfalt. Spaghetti soðið samkvæmt leiðbeiningum. Vatni hellt af og góðu pestói - best væri náttla að gera heimagert, en það eru krepputímar svo við notuðum bara keypt pestó sem var á tilboði út í búð. Ég notaði hefðbundið grænt pestó en eftir á að hyggja þá held ég að rautt pestó, eða tapenade úr sólþurrkuðum tómötum hefði verið frábært. 

Einnig var ferskt salat með matnum. Nokkur græn lauf, tómatar, sneiðar af mozzarellaosti, salt, pipar, smá olía. Einfalt. 

Með matnum drukkum við prýðisrauðvín, Wolf Blass yellow label, Cab Sauv. Bragðmikið og talsverð munnfylli, svört ber og prýðisgott eftirbragð. Þetta er vín þar sem maður fær mikið fyrir peninginn. Bang for the buck eins og sagt er í USA. 

kjuklingurinn_tilbuinn.jpg


Thursday 13 November 2008

Núna er það svart; Spaghetti Nero með tómat/chilli sósu, góðu brauði og úrvals hvítvíni

Fjölskyldan var í heimsókn hjá vinafólki hinu megin við brúna fyrir að verða fimm vikum síðan. Það var í upphafi bankakrísunnar og ég man vel eftir því hvað við vorum að ræða saman um hvernig myndi spilast úr þessu öllu. Lítið af því sem okkur datt í hug varð að veruleika ... ekki það að hugmyndirnar væru eitthvað fjarstæðukenndar eða slæmar. Allir mega koma með hugmyndir og það gleður mann hversu margir, hér í netheimum eru með hugmyndir ... svo er annað að útfæra þær. Ekki að ég hafi einhverjar kunnáttu í þessum efnum ... en allir mega hafa sýnar skoðanir. Sérstaklega í krísum.

Það sem vekur athygli mína er hugtakið ábyrgð. Það að bera ábyrgð er mér ekki framandi, þvert á móti, sem læknir ber maður ábyrgð á aðgerðum sínum, hjá því verður ekki komist. Þegar maður horfir á það ástand sem blasir við í dag ... katastrófískt ... ber enginn ábyrgð á neinu. Ráðamenn, bankamenn, eftirlitið ... voru á staðnum en virðast bara hafa verið saklaus fórnarlömb skelfilegra aðstæðna. Þetta fólk var innsti koppur í búri en virðast bara hafa rettur_a_ponnu.jpg verið farþegar í stjórnlausu fleyi, túristar án leiðsagnar, sauðir án hirðis. Lygilegt. Við þegnarnir erum augljóslega hálfvitar. Enda ekki við öðru að búast af okkur! Hvað höfum við borgarar gert til þess að tekið se mark á okkur.

And&/&(s ... þetta er matarblogg ... en maður getur bara ekki setið á sér. Það er bara ekki hægt ... kannski hægt en það er erfitt. Og eins og sjá má á blogginu mínu þá er ég maður sem læt undan freistingum. Þannig er ég bara gerður. Þetta er einmitt réttur sem varð til í heimsókn okkar hinum megin við sundið ... Aurasundið. Þetta var spontant matur, kannski eins og margar af lausnunum sem hafa legið í loftinu ... og bragðgott var það. 

spaghetti_nero_a_disk.jpg Núna er það svart; Spaghetti Nero með tómat/chilli sósu, góðu brauði og úrvals hvítvíni

Þetta var einfaldur matur. Ekki í fyrsta sinn sem ég byrja færslu með þessum orðum, en engu að síðar satt. 

Fyrst voru nokkur smátt skorin hvítlauksrif, ein smátt skorinn skarlotulaukur og einn smátt skorinn rauður chillipipar (kjarnhreinsaður) steiktur í blöndu af smjöri og olíu á pönnu í nokkrar mínútur þar til mjúkt. Saltað og piprað. Því næst var 300 gr af stórri hörpuskel skellt á pönnuna og svissað aðeins að utan og veitt af pönnunni. Þá va smá hvítvíni skvett yfir, alkóhólið soðið af, hálfri dós af niðursoðnum tómötum bætt saman við, smávegis af rjómaosti, hörpuskelin aftur saman við. Skreytt með basllaufum. 

closeup.jpg Borið fram með svörtu pasta - Spaghetti Nero - sem var eldað samkvæmt leiðbeiningum. Spaghetti Nero er gert á þann máta að bleki frá kolkrabba er bætt saman við hefðbundna pasta uppskrift til að leggja til þennan sérstaka lit. Ótrúlegt en satt leggur það ekki mikið til bragðsins, nema hvað það verður aðeins flauelskenndara þegar maður rennir því niður. Ljúffengt. 

Einnig var borið fram gott baguette, smá salat og gott hvítvín. Auðvitað hvítvín. Hvað er lífið án þess að hafa glas af köldu og góðu hvítvíni. 

Við fengum okkur meðal annars Beringer Napa Valley Fumé Blanc, sem stundum er selt undir nafninu Sauvignion Blanc. Hvað sem því líður þá er þetta sama vínið. Unnið úr Sauvignion Blanc þrúgu. Ferskt, ávaxtaríkt hvítvín með ágætu eftirbragði. Þetta er vín sem hefur fengið ágæta dóma á Wine Spectator, um 85 púnta. 

 

hofundur_i_rettu_ljosi.jpg


Sunday 9 November 2008

Laugardagskvöld; Gómsætar grísalundir með sveskjum, kartöflum með timian og góðu rauðvíni

img_6163_722750.jpg Það gengur vel að koma sér fyrir hérna í Svíþjóð. Á sama tíma er erfitt að fylgjast með öllu því sem er að gerast á Íslandi. Ég var stoltur í dag að sjá að það voru mótmæli á Austurvelli. Vildi óska að ég hefði tækifæri til að taka þátt í þeim. Ég var með í anda. Við vonum öll að hægt verði að sigla okkur út úr þessari ógæfu. Merkilegt samt að engin skuli bera ábyrgð á neinu. Engin réði neinu eða ákvað neitt...mennirnir sem fengu hundraði milljóna í laun fyrir störf sína (m.a. vegna þeirra ábyrgðar sem þeir báru á stóru fyrirtæki og mörgum starfsmönnum og gríðarlegri veltu) bera enga ábyrgð á því ástandi sem blasir við í dag. Ótrúlegt! Égr er alltaf að gleyma því að þetta er matarblogg!

 

Lundur er ákaflega fallegur lítill bær. Hann er álíkastór og Reykjavík en aldurinn gerir gæfumuninn. Dómkirkjan hér er frá því um tólf hundruð, þetta var einu sinni höfuðborg Danmerkur og hér er löng hefð fyrir æðri menntun. Hér er gríðarstór og virtur háskóli með um fjörutíuþúsund háskólanemum. Fimm hundruð prófessorar að kenna, 500 hundruð doktorsnemar verja rannsóknir sýnar árlega. Skólinn veltir 7 milljörðum sænskra króna árlega og þar af fara tveir þriðju í rannsóknir. Alvöru háskóli. Spítalinn er geysistór og það verður gaman að þiggja framhaldsmenntun á þessum vettvangi. Myndin er af hverfinu sem við erum búinn að kaupa hús í...sem verður tilbúið í febrúar.

Áður en við komum hingað var mér sagt að Svíar væru leiðinlegir upp til hópa og þurrprumpulegir. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum.  Svíar eru afar þægilegir í viðmóti. Einstaklega þolinmóðir útlendingum sem böðlast við að læra að tala tungumálið þeirra og leggja sig í líma við að hjálpa manni að aðlagast og læra að tala. Móttökurnar sem við höfum fengið hafa verið frábærar og þetta kom mér á óvart.

kjoti.jpg Við vorum með svona "kósýkvöld" í kvöld, við fjölskyldan, í Karl XII götunni í Lundi. Í fyrsta skipti í langan tíma keyptum við hjónin okkur alvöru rauðvínsflösku frekar en að fá okkur rauðvín úr belju, ekki að það sé eitthvað slæmt, það er bara meiri stemming að opna rauðvínsflösku, draga út korktappa með Lagoulie korktappatogaranum sem ég keypti á markaði í sumar í suður Frakklandi. Elda góðan mat...sitja lengi við borðið og rabba við fjölskylduna og ræða um það sem liggur á þeim. Eftir matinn settumst við svo niður og horfðum á uppáhaldsmynd Valdísar, dóttur minnar, sem er Mamma mia myndin. Hún algerlega dýrkar þessa mynd. 

Börnin eru núna farin að sofa og ég ligg í sófanum með tölvuna í fanginu, kertaljósið eina birtan í herberginu, rauðvínstár á borðinu,  C'était ici frá 2002 eftir Yann Tiersen á fóninum (sá sami og gerði tónlistina við Amilie og Good bye Lenin - stórkostlegt tónskáld - skylda fyrir alla sem eru hrifnir af Eric Satie, Debussy og þeim öllum sem lifðu um þarseinustu aldamót).

Laugardagskvöld; Gómsætar grísalundir með sveskjum, kartöflum með timian og góðu rauðvíni

Þessi uppskrift er að miklu leiti fengin úr bók Joanne Glynn - Eldað með hægum takti - sem ég hvet alla mataráhugamenn að eignast, frábær bók. Ég breytti uppskriftinni bara lítillega - ekki nóg til að ég gæti eignað mér þetta...því miður. 

kjot_a_ponnu.jpg Fyrst eru 15-20 sveskjur settar í pott og vatn hellt yfir, nóg til að hylja, og svo eru þær hitaðar að suðu og svo tekið af hitanum og leyft að liggja í heitu vatninu í 10 mínútur. Vatninu er svo hellt frá og lagt til hliðar þar til síðar í matargerðinni.

Fyrst eru grísalundirnar snyrtar - sinar og svoleiðis hreinsað burtu. Þær eru svo steiktar í smjöri þar til að þær hafa tekið góðan lit, karmelliserast á öllum hliðum, og svo lagðar til hliðar - td. í volgan ofn - svona 80 gráðu heitan á meðan sósan er undirbúin.

Hún er gerð þannig að soð er útbúið í potti - kannski kjúklingasoð eða svínasoð, ég notaði bara teninga, svona um það bil 250 ml samtals. Næst er einn fínt skorinn laukur steiktur á pönnunni sem lundirnar voru steiktar (ekki henda fitunni sem er á pönnunni, fullt af bragði þar) og ein klípa af smjöri bætt saman við. Steikt þar til laukurinn er orðin mjúkur og þá er einu góðu glasi af hvítvíni sett á pönnuna og suðunni leyft að koma upp og soðið aðeins niður. Þá er soðinu - ca. 250 ml hellt saman við, 3 lárviðarlaufum, hálfu handfylli af fersku timian, og svo vatninu af sveskjunum og svo auðvitað sveskjunum sjálfum. Saltað og piprað. Þetta er svo soðið upp og leyft að sjóða niður um helming. Þá er sósan síuð og sett aftur á pönnuna og 250 ml rjóma er bætt á pönnuna. Soðin í nokkrar mínútur þar til hún fer að þykkna og þá er grísalundunum bætt aftur saman við og þær hitaðar í gegn. Skreytt með nokkrum ferskum timianlaufum.

a_disknum.jpg Borið fram með kartöflum, góðum ílöngum kartöflum, sem eru fyrst soðnar og því næst hent í pottinn aftur með smá olíu, salti, pipar og fersku timian og leyft að eldast aðeins áfram. Einnig var borin fram smávegis salat. 

Við drukkum Masi Campofiorin, ítalskt rauðvín frá 2006, vín sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður og bloggað eitthvað um. Þetta er ljúffengt vín, bragðgott með ágætum ávexti og mildu eftirbragði. Þetta var indælt kvöld. Svo sannarlega...nóg til að lyfta manni í augnarblik frá atburðum dagsins og vikunnar!