Thursday 30 July 2015

Læknirinn í Eldhúsinu - 4. þáttur - Chablis kjúklingur og Kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum



Uppskriftirnar í þættinum

Chablis Kjúklingur

Þessi réttur varð til á ferðalagi okkar fjölskyldunnar um Frakkland haustið 2009. Við leigðum okkur stóran húsbíl og keyrðum sem leið lá frá Svíþjóð til Frakklands í gegnum Danmörku, Þýskaland og Holland. 

Þegar komið var til Chablis-héraðs stoppuðum við í bæ sem ber sama nafn og reyndist vera rómantískur smábær í norðanverðu Búrgúndarhéraði við bakka árinnar Serein. 

Við komum inn í bæinn síðdegis. Þegar við ókum yfir brúna inn í miðbæinn stóð yfir brúðkaup og allt var blómum skreytt. Við lögðum bílnum í miðbænum og röltum í rólegheitum upp aðalgötuna og sóttum hráefni; kjúkling til slátrarans, ferskan hvítlauk, kantarellusveppi á grænmetismarkaðinn, sýrðan rjóma, skalottlauk og dijon-sinnep í litla kaupfélagið við götuna. 

Eftir að hafa staldrað við á kaffihúsi ókum við í rólegheitum á vínekru Jean-Marcs Brochard og lögðum bílnum við yfirgefna kirkju og elduðum kvöldverð. Og til varð þessi réttur. 

1 heill kjúklingur
3 msk Edmont Fallot dijon-sinnep
4 hvítlauksrif
250 g kantarellur (eða aðrir sveppir)
2 skalottlaukar
salt og pipar
400 ml sýrður rjómi
smjörklípa

Skerið hvítlaukinn og skalottlaukinn smátt og steikið í klípu af smjöri eða olíu þar til hann fer að mýkjast.
Steikið niðurskorna sveppina í 5-10 mínútur og gætið þess að brenna þá ekki, þeir eiga að taka lit og brúnast en alls ekki brenna. 
Á meðan sveppirnir taka lit hlutið þið niður kjúklinginn, bringur, leggi, læri og vængi. Saltið og piprið. 
Takið grænmetið af pönnunni, bætið smjörklípu út á hana og bræðið.
Bætið kjúklingabitunum á pönnuna með húðina niður og brúnið í 3-4 mínútur. Snúið þeim svo við.
Hrærið dijon-sinnepið saman við sýrða rjómann.
Bætið grænmetinu við kjúklinginn og því næst blöndunni af sýrða rjómanum og sinnepinu. 
Saltið og piprið og látið sjóða upp varlega. 
Setjið lok á pönnuna og eldið í 25 mínútur þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
Berið fram með soðnum hrísgrjónum og einföldu salati.

Kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum

Hvítlaukur er rauður þráður í þessari bók. Ég elska hvítlauk og þessi réttur er minn ástaróður
til þessa dásamlega hráefnis. Ég er algerlega sannfærður um heilunarmátt hvítlauks, sama
hvað niðurstöður tvíblindra rannsókna segja. Fátt fer betur með hvítlauk en að baka hann í
hýðinu með kjúklingi. Þegar kjúklingurinn er bakaður hefur hvítlaukurinn soðnað og karamellíserast
í hýðinu þannig að allt rammt bragð hefur breyst í ljúffenga hvítlaukssætu sem er svo
góð að hægt væri að smyrja henni ofan á brauð.
Sumir myndu segja að það væri fullmikið af því góða að nota allan þennan hvítlauk en þegar
hann bakast á þennan hátt kemur hann næstum í staðinn fyrir sósuna. En bara næstum.
1 heill kjúklingur
jómfrúarolía
salt og pipar
ferskt tímían
40 hvítlauksrif
1 gulur laukur
2 sellerístangir
2 gulrætur

Nuddið kjúklinginn upp úr jómfrúarolíu, tímíani, salti og pipar.
Skerið grænmetið og leggið í botninn á eldföstu móti.
Setjið kjúklinginn ofan á grænmetið og raðið síðan hvítlauksrifjunum,
ennþá í pappírnum, meðfram kjúklingnum.
Bakið í rúmlega eina og hálfa klukkustund eða þar til kjarnhiti
er kominn í 82 gráður.

Berið fram með hrísgrjónum, salati og einfaldri veloute-sósu

Tuesday 28 July 2015

Ekta ítalskt lasagna frá grunni - með ríkulegri bechamél sósu!



Lasagna er ákaflega vinsæll réttur á þessu heimili. Lengi vel var það Snædís kona mín sem sá um að elda þennan rétt. Og það gerði hún sannarlega vel. Eftir að ég gerðist fyrirferðarmeiri í eldhúsinu hef ég séð um að elda lasagnað. Okkur hjónin greinir reyndar svolítið á um hvernig best er að standa að því að gera lasagna. Ég vil alltaf hafa fleiri lög af lasagnaplötum en Snædís og svo erum við ekki alveg sammála um hvernig raða skal sósunum í lasagnað. Við höfum þó náð málamiðlun í þessu eins og svo mörgu.




Lasagna er auðvitað upprunnið á Ítalíu, frá Emilia-Romagna-héraði. Það mun þó eiga einhver söguleg tengsl við Grikki og er það ekki ósennilegt þar sem lasagnað er ekkert svo ósvipað gríska réttinum moussaka.

Þetta er kjörinn réttur til að bjóða upp á í fjölmennum veislum. Auðvelt að undirbúa fyrirfram og nær öruggt að gestir verði sáttir.

Ekta lasagna frá grunni
Fyrir kjötsósuna:

600 g nautahakk
1 stór gulur laukur
2 gulrætur
2 sellerístangir
4 hvítlauksrif
3-4 lárviðarlauf
1 tsk ferskt tímían
1 glas rauðvín
2 msk tómatþykkni
2 dósir niðursoðnir tómatar
salt og pipar
tómatsósa (ef þarf)

Fyrir Béchamel-sósuna:

1½ l nýmjólk
90 g smjör
90 g hveiti
½ hvítur laukur
3-4 negulnaglar

500 g lasagnaplötur
150 g gratínostur/parmaostur

Kjötsósan löguð:



Byrjið á því að gera kjötsósuna. Skerið grænmetið niður smátt (eða hakkið í matvinnsluvél sem flýtir fyrir kjötsósugerðinni) og steikið í jómfrúarolíu. Saltið og piprið. Takið svo grænmetið úr pottinum til að steikja nautahakkið.

Brúnið nautahakkið í pottinum og gætið þess að ná því vel í sundur. Saltið og piprið.

Bætið grænmetinu við og hrærið vel saman.

Hellið rauðvíninu yfir og sjóðið upp áfengið. 



Þá er bara að bæta við niðursoðnu tómötunum, tómatþykkninu og kryddjurtunum. 



Sjóðið upp sósuna, smakkið til og bætið við salti, pipar og tómatsósu eftir smekk.

Látið malla í 20-30 mínútur á meðan þið gerið béchamel-sósuna.

Béchamel-sósan löguð:

Bræðið smjör í potti og þegar það hættir að freyða hrærið þið hveitinu saman við (hafið hugfast að þykkingarkraftur smjörbollunnar er mestur í byrjun og minnkar því meira sem bollan er elduð).



Hellið mjólkinni varlega út í og hrærið í á meðan. Ekki örvænta – béchamel-sósan er þunn í fyrstu en þegar hún sýður mun hún þykkna. Hrærið í sósunni svo hún brenni ekki við.

Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla á lágum hita í tíu mínútur til að elda burt allt hveitibragð af sósunni.



Flysjið laukinn og skerið annan helminginn frá. Stingið negulnöglunum í laukinn, leggið í sósuna og látið vera á meðan hveitibragðið er að eldast burt.

Samsetningin:

Smyrjið eldfast mót með hvítlauksolíu.



Setjið fyrst béchamel-sósu í botninn og svo lasagnaplötur.



Raðið til skiptis béchamel-sósu, kjötsósu og lasagnaplötum uns mótið er fullt eða hráefnin uppurin.



Dreifið ostinum ofan á og bakið í 180 gráðu heitum ofni þangað til osturinn er fallega gullinbrúnn. 



Hugmyndir:

Hægt er að nota hvaða hakk sem er í kjötsósuna!

Hægt er að skipta béchamel-sósunni út fyrir mozzarellaost og basillauf – frábært!

Prófið kotasælu sem maður hrærir saman við nokkur hökkuð ansjósuflök.


Með matnum væri svo kjörið að njóta smá rauðvínssopa. Það er líka hægt að fá mörg góð vín á búkollum. Í Svíþjóð eru búkollur meira en 60 prósent af ællu seldu léttvíni. Og margir framleiðendur farnir að mæta kröfum markaðarins með því að bjóða upp á aukið úrval af vínum í þessum umbúðum.

Þetta vín er frá Ítalíu eins og nafnið gefur til kynna. Tommasi Graticcio Appassimento er frá Valpolicella á norðanverðri Ítalíu. Þetta vín er blanda af Corvína og Oseleta þrúgum. Þetta vín er ljómandi með ágætum ávexti, aðeins kryddað með ljúfu og mjúku eftirbragði.


Veislan getur vel haldið áfram! 



Thursday 23 July 2015

Læknirinn í Eldhúsinu - 3. þáttur - Risotto og Pasta með Villa

Þá er kominn fimmtudagur á nýjan leik og komið að þriðja þættinum. Þessi þáttur er tileinkaður risotto og pastaréttum. Vilhjálmur Bjarki, sonur minn, er mér innan handar.



Hérna eru svo uppskriftirnar úr þættinum:

Risotto 
- með nýjum aspas

Risotto er sígildur ítalskur hrísgrjónaréttur sem ég lærði að elda fljótlega eftir að ég fór að búa. Ég hafði eignast bók Jamies Oliver, The Naked Chef, og það voru mín fyrstu kynni af ekta risotto. Ég smakkaði risotto sem barn en þá var það bara eins og hrísgrjón sem búið var að blanda grænmeti eða kjúklingi saman við. Þurrt og óspennandi. Risotto á að vera næstum því eins og lifandi réttur. Þegar honum er skóflað yfir á diskinn á hann að renna aðeins til og vera safaríkur og ilmandi. 


Fyrir sex
1 gulur laukur
2 sellerístangir
4 hvítlauksrif
600 g arborio- eða 
carneroli-hrísgrjón
salt og pipar
1 stórt glas hvítvín
1 1/2 l kjúklingasoð
50 g smjör
75 g parmaostur
350 g aspas
smáræði af fínt söxuðu 
basil eða steinselju

Skerið laukinn, hvítlaukinn og selleríið smátt og steikið í olíu eða smjöri þar til það byrjar að glansa. 
Bætið hrísgrjónunum við og steikið þangað til jaðrarnir á þeim verða gegnsæir. Gætið að hitanum þar sem grjónin eiga ekki að festast við botninn. Saltið og piprið.
Næst hellið þið víninu yfir og sjóðið upp.
Svo er að bæta við ausu af kjúklingasoði og hræra í grjónunum. Þegar vökvinn er næstum horfinn bætið þið við næstu ausu. 
Haldið þessu áfram þangað til soðið er uppurið eða grjónin orðin „al dente“ – aðeins undir tönn.
Þá bætið þið við smjörinu og parmaostinum. 
Á meðan þið eruð að hræra í grjónunum hitið þið pönnu og steikið aspasinn. 
Skerið síðan stilkana frá og blandið saman við grjónin síðustu fimm til sjö mínúturnar áður en þau verða tilbúin. 
Setjið réttinn í skál, skreytið með toppunum á aspassprotunum, sáldrið meira af parmaosti yfir, síðan ferskum kryddjurtum og hellið loks smávegis af jómfrúarolíu yfir.



Spaghettí 
- með hvítlauk, steiktu eggi og truffluolíu 

Þetta er ljúffengur og einfaldur pastaréttur. Það er góð hugmynd að steikja eitt egg með og bæta við nokkrum dropum af truffluolíu því að það bætir nokkrum gómsætum tónum við þennan annars spartanska rétt. 

Það er mikilvægt að salta vatnið sem notað er til að sjóða pastað – svo það opnist betur og verði móttækilegra fyrir sósunni sem mun hjúpa það.


Fyrir fjóra
400 g spaghettí
4 hvítlauksrif
4 msk jómfrúarolía
4 egg
nokkrir dropar truffluolía
parmaostur að vild
1-2 msk söxuð steinselja/basil til skreytingar
50 ml rjómi (val)


Hitið vatn í potti, 1 l fyrir hver 100 g af spaghettíi, og saltið vatnið ríkulega. 
Sjóðið spaghettíið þar til það er „al dente“ – það þýðir að það sé dálítið bit eða þéttni í miðju spaghettíinu.
Á meðan pastað sýður hitið þið jómfrúarolíuna á stórri pönnu og steikið smátt saxaðan hvítlaukinn við lágan eða miðlungshita. Gætið þess að brenna ekki hvítlaukinn. 
Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá og spaghettíinu bætt á pönnuna og velt upp úr heitri hvítlauksolíunni. Ef nota á rjóma er honum bætt við nú. 
Steikið eggin upp úr smjöri/jómfrúarolíu og bragðbætið gjarnan olíuna með örlitlu af truffluolíu.
Setjið á diska og bætið síðan spældu eggi ofan á. 
Skreytið með ferskum söxuðum kryddjurtum, nokkrum dropum til viðbótar af truffluolíunni og svo eins miklu af parmaosti og hugurinn girnist.


Spaghettí carbonara með Villa

Þessi réttur er eiginlega einn af mínum uppáhaldspastaréttum og það má með sanni segja að hann hafi verið orsök þess að ég fór að blogga um mat og matargerð. Eins og ég lýsi í inngangi þessarar bókar 
fannst mér ég vera farinn að staðna í eldhúsinu. Mig skorti nýjar hugmyndir. Alltaf þegar ég var ekki 
viss um hvað ég ætlaði að hafa í matinn datt mér í hug þessi réttur. Ekki skrítið kannski þar sem hann 
er ótrúlega ljúffengur. En maður getur ekki lifað á spaghettí carbonara – það verður til lengdar frekar 
einhæft. Og hvernig leiddi þetta þá til þess að ég fór að blogga? Jú, á sama tíma hafði mér áskotnast 
bók Nigels Slater, The Kitchen Diaries, sem er safn uppskrifta sem hann eldaði á einu ári og birti í 
tímaröð. Þetta fannst mér ansi sniðugt. En svona til að setja svolitla pressu á sjálfan mig datt mér í hug 
að ef aðrir gætu séð það sem ég var að sýsla þá myndi það hvetja mig áfram. Þannig að 9. desember 
2006 setti ég fyrstu færsluna í loftið og er enn að!

En aftur að réttinum sem ég er ennþá duglegur að elda. Mér skilst að spaghettí carbonara eigi sér ekki sérlega langa sögu. Einhvers staðar las ég að hann hefði orðið til á stríðsárunum þegar Bandaríkjamenn höfðu tekið Ítalíu. Þeir höfðu þá í fórum sínum bæði egg og beikon og vissulega áttu Ítalir spaghettí, en ekki hvað? Og úr varð þessi dásamlegi, saðsami réttur. 

Sérfræðingarnir deila endalaust um hvort rjómi eigi að koma eitthvað við sögu í þessum rétti. Í upprunalegum uppskriftum var aldrei kveðið á um að bæta ætti rjóma saman við eggin en á síðari tímum hefur rjóminn smeygt sér inn í margar uppskriftir. Hann er í raun alveg óþarfur. Vilji maður 
auka vökvamagnið er alveg eins hægt að bæta við fleiri eggjum. En eins og er oft með rjóma – hann 
skemmir auðvitað ekki neitt!

Spaghettí carbonara er mjög fljótlegur réttur. Hann ætti í raun að geta verið tilbúinn á innan við 15 
mínútum. Uppvaskið tekur því miður mun lengri tíma!

Fyrir sex
300 g beikon
2 msk jómfrúarolía
6 egg
100 g parmaostur
salt og mikið af nýmöluðum pipar
600 g spaghettí
2-3 msk fersk steinselja/basil

Setjið spaghettíið ofan í ríkulega saltað sjóðandi vatn.
Á meðan spaghettíið sýður skerið þið beikonið í bita og steikið í jómfrúarolíunni. 
Hrærið eggin saman við 3/4 hluta parmaostsins á meðan beikonið steikist. Saltið og piprið. 
Þegar pastað er soðið þarf að hafa hraðar hendur. Hellið vatninu frá, blandið svo eggjablöndunni 
saman við ásamt öllu beikoninu (og jafnvel beikonfitunni – samviskan ræður) og helmingnum af 
fersku kryddjurtunum – og hrærið vel saman.
Setjið lokið á pottinn og bíðið í mínútu. Eggin eiga að eldast og þykkna í hitanum sem kemur frá heitu 
spaghettíinu. Þau eiga ekki að kurlast saman og verða að eggjahræru (sama hvað móðir mín segir!).
Hellið síðan réttinum í skál og sáldrið því sem eftir er af parmaostinum yfir ásamt afganginum af 
fersku kryddjurtunum.

Berið fram með ríkulegu salati og góðu léttvíni.
- See more at: http://www.laeknirinnieldhusinu.com/p/lknirinn-skjanum.html#sthash.atSKs8uH.dpuf

Thursday 16 July 2015

Læknirinn í Eldhúsinu - 2. þáttur

Þá er aftur kominn fimmtudagur - og í þessum þætti er hugmynd að frábærum lambarifjum sousvide með pommes fondant kartöflum ásamt fleira góðgæti.




Hérna eru svo uppskriftirnar sem fylgja þættinum.

Ríkulega fylltir portobellosveppir

Þessi réttur er sóttur í hugmyndasmiðju föður míns. Ég man ekki alveg hvenær hann gerði fyllta sveppi í fyrsta sinn en ég man vel eftir því þegar hann eldaði þá á grillinu skömmu eftir að foreldrar mínir eignuðust sumarbústað við Meðalfellsvatn í Kjósinni sumarið 2001. Við urðum svöng einhvern tíma um kvöldið og faðir minn gerði sveppina sem náttverð. Þá notuðum við Flúðasveppi sem eru auðvitað góðir til síns brúks. Það er líka gott að nota skógarsveppi sem hafa í sér aðeins meiri hnetukeim þegar þeir eru eldaðir. 


Þegar ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn notaði ég venjulega sveppi en núna nota ég nær einvörðungu portobello-sveppi sem eru mun stærri og matarmeiri. 


4 stórir portobello-sveppir
4 msk hvítlauksolía
150 g beikon, skinka, rækjur eða humar (en aðeins eitt af þessu) 
1 rauðlaukur
2 msk brauðmylsna
4 msk parmaostur (eða einhver annar ostur)
steinselja og chili-pipar til skrauts


Hreinsið stilka af sveppunum og skerið stilkana smátt. 
Skerið beikonið og rauðlaukinn smátt.
Steikið beikonið á pönnu, setjið rauðlaukinn og söxuðu stilkana út á og steikið áfram.
Bætið brauðmylsnunni við og steikið þar til hún brúnast.
Saltið og piprið.
Fyllið sveppina og raspið parmaostinn yfir.
Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.
Skreytið með steinselju og smátt söxuðum chili-pipar.


Lambarifjur "sous vide" með kryddhjúp

Að elda eitthvað „sous vide“ þýðir að eldað sé í lofttæmi. Hugmyndin byggist á því að innsigla hráefnið
í plastpoka og leggja það í vatnsbað þar sem hitanum er stýrt nákvæmlega. Þannig er hægt að elda
t.d. kjöt á fullkominn hátt, svo að það verði medium rare alveg í gegnum alla steikina – frá yfirborði til yfirborðs!

Þessi aðferð er alls ekki ný af nálinni en henni var lýst fyrst á átjándu öld. Hún féll síðan í gleymskunnar dá þar til um miðja síðustu öld. Þá var hún þróuð til að varðveita mikið magn af
matvælum. Það voru síðan franskir matreiðslumenn sem tóku aðferðina skrefinu lengra og buðu upp
á rétti eldaða á þennan máta. Síðan þá hefur sous vide-aðferðin farið sigurför um heiminn – alltént hjá
veitingamönnum – og hefur hér með innreið sína í venjuleg eldhús!

Það þarf engan sérstakan útbúnað til að gera þetta annað en áreiðanlegan hitamæli. Hægt er að nota
ziploc-plastpoka og lofttæma þá undir vatni eða bara með því að sjúga loftið út með röri. Sérstakan
gaum þarf að gefa að því að hitinn haldist stöðugur. Ef hitinn fer að hækka er bara að fjarlægja heitt
vatn og bæta við köldu í staðinn.

1 kg lambarifjur
5 greinar rósmarín
10 greinar tímían
2 tsk blóðberg
nýmalaður pipar
2 msk smjör
3-4 tsk dijon-sinnep
handfylli steinselja
1 msk jómfrúarolía

Skerið lambarifjurnar í þriggja til sex rifja bita. Skolið með vatni og þerrið.
Kryddið með pipar og setjið í pokana. Raðið kryddjurtunum með í pokana.
Innsiglið og lofttæmið í vél eða lofttæmið undir vatnsþrýstingi í ziploc-poka.
Setjið í pott með 57-60 gráðu heitu vatni og látið liggja í vatninu í eina og hálfa klukkustund. Tryggið að hitinn haldist á þessu bili með því að hafa hitamæli í vatninu allan tímann.
Takið pokana úr pottinum og opnið. Notið vökvann sem fellur til í sósuna.
Skafið síðan kryddið af kjötinu, leggið til hliðar og þerrið kjötið vel. Saltið ríkulega.
Bræðið smjör á pönnu og steikið puruna í tvær til þrjár mínútur í heitu smjörinu þar til hún er fallega brúnuð. Leggið til hliðar.
Smyrjið puruna með dijon-sinnepi.
Setjið handfylli af steinselju í matvinnsluvél ásamt kryddinu sem kemur af lambinu í pokunum og blandið í fínt kryddmauk.
Smyrjið síðan kryddmaukinu ofan í sinnepið.

Skerið lambarifjurnar í sneiðar og raðið á disk.

Pommes fondantes

Á íslensku myndi þessu réttur kannski kallast kartöflur í krafti. Það hljómar svolítið ruddalega
og þess vegna fær franska nafnið að halda sér. Þetta er ákaflega góð leið til að elda kartöflur. Og
eins og nafnið gefur til kynna eru kartöflurnar eldaðar í soði – oftast kjúklingasoði en auðvitað
má nota hvaða soð sem er. Ég hef einna helst haft þennan rétt með önd. Sætan frá stökkri öndinni og svo næstum því mjúk, kremuð áferð sem kemur með kartöflunum og passar svo ljómandi vel saman.


Í nær öllum uppskriftum að „pommes fondant“ fylgja leiðbeiningar með því hvernig á að flysja
kartöflurnar en einnig hvernig á síðan að skera þær þannig að yfirborðið verði sem mest. Það næst best með því að skera þær svo þær verði flatar báðum megin eftir endilöngu eins og myndin sýnir. Hugmyndin með þessu er að skapa stórt yfirborð til að karamellísera kartöflurnar og um leið að þær eigi léttara með að sjúga soðið í sig. Niðurstaðan verður alltént falleg – og ekki síst bragðgóð

Fyrir fjóra
8 kartöflur
1/2 l kröftugt kjúklingasoð
nokkrar greinar sítrónutímían
salt og pipar
50 g smjör til steikingar


Flysjið kartöflurnar og skerið samkvæmt ofansögðu með
beittum hníf. Saltið og piprið.

Bræðið smjörið á pönnu með nokkrum greinum af sítrónutimian. Þegar smjörið hættir að freyða setjið þið kartöflurnar setjið varlega á pönnuna og steikið á báðum hliðum þangað til þær eru fallega brúnaðar.
Hellið heitu kjúklingasoði út á pönnuna og látið suðuna koma upp.

Setjið í 180 gráðu heitan forhitaðan ofn og bakið í 45 mínútur.


Núna er kominn tími til að njóta!
- See more at: http://www.laeknirinnieldhusinu.com/p/lknirinn-skjanum.html#sthash.703iw2v6.dpuf

Thursday 9 July 2015

Læknirinn í Eldhúsinu á Skjá Einum. Fjórði þáttur.

Ég fékk leyfi til að birta sjónvarpsþættina mína á netinu. Er að vinna í því að leggja þá upp á Youtube. Byrjum í miðjunni - það skemmir ekkert söguþráðinn!

 


Tuesday 7 July 2015

Dásamlegur skánskur aspas, sousvide, með smjöri



Ætli margir þekki ekki sousvide eldamennsku núna. Ég hef allatént bloggað um hana nokkrum sinnum á síðustu misserum og þeir sem eru kunnugir bókunum mínum hafa án efa rekið nefið í þetta hugtak nokkrum sinnum. Hægt er að glöggva sig á þessu nánar hérna. Vinir mínir í Kokku hafa haft til sölu sama tæki og ég keypti fyrir rúmu ári - sansaire - sem er auðvelt í notkun og á mjög hagstæðu verði miðað við samkeppnisaðilana. Ég hvet alla áhugakokka að kynna sér þetta snilldarverkfæri! 

Þetta var ákaflega kalt vor í Lundi svo aspasinn lét bíða eftir sér. Oftast kemur hann á markað fyrst í apríl og er seldur fram yfir Jónsmessu. En þar sem vorið lét líka bíða eftir sér er hann ennþá fáanlegur. Það er þó hægt að fá ferksan aspas allt árið um kring en þá er hann oft sóttur langar leiðir, stundum jafnvel til Perú. Bestur er hann þó næstur manni - fagmenn segja að aspasinn falli í bragði strax frá því hann er skorinn og því sé hann bestur eins fljótt eftir og hann er skorinn og mögulegt er. 

Og ég held að það sé rétt - nýr aspas ilmar dásamlega, jörð og ferskleiki. Og það er líka gaman að sjá að stilkarnir eru ekki trénaðir eins og oft vill verða þegar hann er fluttur langar vegalengdir. Enn fremur heldur hann sér dásamlega þegar hann er eldaður á þennan hátt. Stinnur og bragðmikill! 

Dásamlegur skánskur aspas, sousvide með smjöri

Ég sótti þennan á markaðinn sama dag og hann var eldaður. Og hann var eins og ég lýsti hér að ofan. Ferskur og ilmandi, eins og aspas á að vera!


Fyrst er bara að setja hann í poka, pipra og henda nokkrum smjörklípum með.


Innsigla svo pokann í vakúmpökkunarvél eða undir vatnsþrýstingi.


Hita vatnið með hitajafnaranum upp í 85 gráður. 


Hita í 15 mínútur. 


Opna pokann og setja á disk og njóta með vinagrettu, parmaosti eða eins og ég gerði í þetta sinn - bara vökvanum sem varð til í pokanum, dásamlegu aspassmjöri! 

Og auðvitað kallar svona veislumáltíð á gott vín. Ég opnaði flösku af Jacob's Creek Chardonnay Reserve. Þetta er ástralskt vín sem margir þekkja. Þetta er Chardonnay eins og það á að vera - ilmar af ferskum ávexti, blómakennt. Á tungu smjörkennt og ávaxtaríkt. Eikað eftirbragð. Og vinalegt á veskið. 

Sumrin eru svo sannarlega tími til að njóta!