Wednesday 23 July 2008

Besti pastarétturinn fyrir sumarið; glóðsteiktir tómatar, hvítlaukur og basil! Dásamlegt!

tómatar1 Þetta er afbrigði af pastarétt sem ég setti á netið í fyrra. Nema hvað núna breyti ég litlu frá Nigel Slater - ég held jafnvel að ég hafi sett færslu um þennan rétt einhvern tíma í janúar í fyrra...nema þá tók ég ekki eins mikið af myndum. Eins og ég hef oft komið að áður þá er hans bók Kitchen Diaresinnblásturinn að þessari bloggsíðu. Mæli eindregið með henni. Hann gerði þennan rétt um miðjan júní þegar fyrsta uppskera sumarsins af tómötum kom í hús. Hér passar þetta ágætlega um miðjan júlí en ég eldaði þennan mat í seinustu viku. Þetta er eiginlega svindl að setja þessa færslu aftur á netið - nema hvað þessi réttur er eiginlega það góður að hann verðskuldar tvær færslur og að minnsta kosti eina með myndum.

Ég hafði keypt heilmikið af nýjum tómötum nokkru áður og hafði leyft þeim að standa á borðinu í nokkra daga - þeir voru orðnir yndislega rauðir - svona djúprauðir að maður getur nánast séð hvað þeir eiga eftir að vera sætir. Það er ekki oft sem maður fær þá tilfinningu með íslenska tómata en þessir voru meiriháttar. Ég notaði líka heilmikið af basil en það er uppáhalds kryddið mitt, ilmurinn, bragðið, áferðin - það jafnfast fátt á við það að vera með hvítvínsglas í hendi á fallegu sumarkvöldi og vera nýbúinn að rífa niður basil - lyktin verður alveg óviðjafnanleg -  skelfing hvað það er einfalt að gleðja mig!!! tómatar

Besti pasta rétturinn fyrir sumarið; glóðsteiktir tómatar, hvítlaukur og basil! Dásamlegt!

600-800 gr af fallegum rauðum niðurskornum tómötum, niðurskornir, er lagt í eldfast mót.  4 msk jómfrúarolíu er hellt yfir og 6 smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir/eða tveimur niðurskornum kínverskum hvítlauksrifjum. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar. Ofn er hitaður í hámark og kveikt á grillinu. Eldfastamótið sett ca 15 cm frá og eru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir taka lit. Sumir verða gullbrúnir, sumir örllítið dekkri. Eldfastamótið er tekið út og tómatarnir stappaðir með gaffli - misvel. 30 rifin basilíkulauf er blandað saman við og 4-6 msk af eldfastmót rjóma sömuleiðis. Saltað og piprað eftir smekk. Sett aftur inn í ofninn og rjómanum leyft að hitna.

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni skv leiðbeiningu. Ég notaði Abruzzo di Rustichella (afsakið ef ég er að klúðra stafsetningunni). Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá og því bætt við heita tómatsósuna og blandað vel saman. Smávegis aukalega af fersku basil er bætt saman við sem og salt og pipar.

Borið fram með góðu brauði - helst heimagerðu foccacia, með ólívum, góðu salati. Mikilvægt er að hafa nóg af parmesan osti - og ekki sakar að fá sér gott hvítvín með þessu. tilbúið basta

Með matnum fengum við okkur hvítvín frá Chile, Castillo de Molina - Chardonnay frá því 2007. Þetta er prýðisgott hvítvín á góðu verði. Talsverður ávöxtur sem minnir á eitthvað eins og perur. Þykkt og fínt á tungu með fínt eftirbragð. Passaði matnum vel. Góð kaup í þessu víni er á um 1300 kall í ríkinu og hefur fengið fína dóma.   baguettesmjöroghvítlauksolía

 


Sunday 20 July 2008

Dásamlegt Filet Mignion með ekta saus bernaise, afrísku grænmeti og ljúfengu rauðvíni - verður lífið eitthvað betra?

sólarlagið-1 Þetta er búið að vera ansi strembinn vika sem skýrir færslufæð. Ungir læknar hafa verið talsvert í fréttum þessa viku vegna kjaramála og nýlegs undirritaðs kjarasamnings við hið opinbera. Sem formaður félags ungra lækna hefur verið talsvert að gera að ræða við kollegana og svo einnig fjölmiðla. Við munum vonandi fella þessa samninga og reyna fyrir okkur aftur á nýjan leik við samningarnefnd ríkisins. Jafnframt hefur verið nóg að gera í vinnunni. Það var því rosalega gott að fara í bústaðinn í fyrrakvöld til að halda upp á afmæli bróður míns sem var að verða 27 ára.

Þetta var veisla fyrir fjölskylduna, fjórar kynslóðir samankomnar. Alltof langt síðan síðast. Ég og pabbi sáum um eldamennskuna. Ég sá um kjötið, sósuna og rauðvínið - pabbi sá um grænmetið. Ég hef áður gert færslu með steik og bernaise - að minnsta kosti - tvisvar áður og með tveimur nautafilet mismunandi útgáfum af bernaisesósunni. Hérna verður sú þriðja og síðasta. Núna gekk allt stórvel - ekki of súr eins og stundum vill verða - perfektó múndó.

Árangrinum í sósugerðinni þakka ég Hadda kokki sem ég kynntist þegar ég var í skíðaferð í Austurríki í byrjun mars á þessu ári. Þar fórum við í annað sinn til Dodda og Þuríar sem reka Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau héraði. Þau eru höfðingjar heim að sækja og þarna fórum við í annað sinn á jafnmörgum árum. Það var mikil gæfa að kokkurinn þeirra hafði hætt skyndilega og Doddi fékk mág sinn - Hadda kokk - til að koma og redda eldhúsinu og hann er almennilegur kokkur. Mér skilst að hann hafi unnið áður á Vox og svo Holtinu. Núna er hann á veitingastaðnum í nýja turninum í Kópavogi. Ég fékk aðeins að sniglast í kringum hann í eldhúsinu og læra af fagmanni. Hann kenndi mér meðal annars hvernig á að gera almennilega bernaisesósu.

nautafilet skorið Dásamlegt Filet Mignion með ekta saus bernaise, afrísku grænmeti og ljúfengu rauðvíni - verður lífið eitthvað betra?

Við vorum með 2 kg af nautafilet, vel fitusprengdu var penslað með góðri jómfrúarolíu, saltað með Maldon salti og piprað með nýmöluðum pipar. Sumir segja að það eigi ekki að pipra steikur fyrir eldun vegna þess að það dragi úr því vökva. Þetta er ekki alveg rétt. Það er mikilvægt að salta kjötið fyrir eldun einmitt til þess að draga vökva að jaðri kjötsins svo að það karmelliserist betur og loki sér. Þetta er svo lagt á heitt grillið og grillað eftir smekk. Þegar kjarnhiti er kominn í ca. 50 gráður þá er það rare-med rare og þá á að leggja það til hliðar og láta það standa undir álpappír eða stykki í 10 mínútur þar til að það jafnar sig aftur eftir steikinguna.

bernaisesósa Saus bernaise - sumum kann að blöskra magn smjörsins - en mér til varnar þá er þessi sósa hugsuð fyrir tíu manns. Þannig að það er um 40 gr af smjöri á mann. Sem er náttúrulega ekkert lítið, en þetta er eitthvað sem maður leyfir sér kannski tvisvar á ári. Fyrst er skarlotulaukur skorinn niður - nóg fyrir 2-3 kúfaðar matskeiðar. 2/3 bollar af  hvítvínsediki og svo 2/3 bollar af hvítvini (hérna er tækifæri til breytinga - ég hef séð uppskriftir með rauðvínsediki og fleiru!). Edikið og vínið er sett í pott og laukurinn einnig, nokkur piparkorn og 2-3 greinar af fersku fáfnisgrasi (estragon). Haddi kokkur benti mér á að nota einnig smávegis nautakraft sem ég og gerði. Þetta er svo soðið niður þannig að eftirstóð ca nóg í 4-6 matskeiðar af vökva. Mikilvægt er að hella niðursoðinu í gegnum sigti þannig að laukurinn, piparinn og fáfnisgrasið verður tekið frá. Á annarri hellu er vatnsbað útbúið. 7 eggjarauður eru settar í skál og skálin sett yfir vatnsbaðið. 1 matskeið af rjóma er sett saman við eggjarauðurnar og smávegis salt. Þá er hafist handa við að hræra með písk. Eggin taka fljótlega í sig loft og þá er byrjað að sáldra smjöri útí - alls 450 gr (skornum í tenginga) - nokkrum teningum í senn. Þegar allt smjörið hefur verið hrært saman við eggin en niðursoðinu bætt varlega saman við - ekki allt í einu - smakkað til því að sósan má ekki verða of súr. Þegar sósan er kominn í jafnvægi er 2 matskeiðum af ferskur smátt skornu fáfnisgrasi hrært saman við.

afrískt grænmeti Afrísk grænmeti er eins einfalt og hugsast getur - eina sem þarf að huga að er að gera þetta í tveimur stigum. Fyrst forsjóða valið grænmeti í 3 mínútur - þannig opnar það sig fyrir næsta skref. Við notuðum spergilkál, blómkál, rauðlauk og gulrætur. Þá er panna hituð með nóg af hvítlauksolíu og grænmetið steikt þar til tilbúið. Saltað og piprað.

Með matnum drukkum við að minnsta kosti tvær tegundir af víni. Annars vegar Wolf Blass Grey Label Cabernet Sauvignion og svo Lindemans Reserve Cabernet Sauvignion. Lindemans vínið var drukkið fyrst. Þetta er ágætis vín, fremur þurrt en fyllir munninn þokkalega. Dálítið stutt eftirbragð en ágætis berjabragð - dökkum ávexti. Wine Spectator gefur þessu víni 88 púnta sem er prýðisgóð einkunn. En Wolf Blass vínið var talsvert betra - munn þéttara í munni með miklum og bragðgóðum ávexti með löngu eftirbragði. Mjög gott. Það stundu allir af ánægju við borðið. Wine spectator gefur þessu víni 90 púnta í einkunn.

sólarlag


Friday 11 July 2008

Stórgóður tyrkneskur kjúklingaréttur bættur sveskjum og furuhnetum, puy linsubaunarétt og fersku salati

turkey_istanbul_02 Ég sá þessa uppskrift í Morgunblaðinu föstudaginn 13. júní þegar ég var á leiðinni til San Francisco. Þar var Kristín Guðmundsdóttir skútuskipstjóri viðmælandi Morgunblaðsins í pistli sem þeir nefna matur. Í þessum pistlum hafa oft spennandi uppskriftir birst frá áhugakokkum (m.a. undirrituðum "mont dagsins"). Hvað sem því líður þá slefaði ég bara útum þegar ég las uppskriftirnar hennar. Þær eru innblásnar af miðjarðarhafinu, hráefninu sem fæst á mörkuðum þar og svo hvernig hún túlkar þær. Maður hreinlega getur vel ímyndað sér að skunda þangað suðureftir sérstaklega ef mann byðist svona matarveisla við komuna. Ég varð að stela þessum blaðsíðum - Nóta til Icelandair - afsakið innilega, ég var drifin áfram af innri öflum!

 

Ég hef oft verið að reyna að færa mig yfir Miðjarðarhafið í matargerð minni. Ég á eina frábæra matreiðslubók sem Halli og Guðný vinir mínir gáfu okkur hjónum þegar við fluttum inn í Skaftahlíðina - Crazy Water Pickled Lemons: Enchanted Recipes from the Middle East, Mediteranian and North Africaeftir Diana Henry. Þó ekki sé um ferðabók að ræða þásegir bókin frá reynslu höfundar að búa í hverfi í London þar sem mikið var um innflytjendur frá þessum svæðum og "gastronómísku" ferð hennar um þessi svæði með bragðlaukunum. Væntanlega stórkostleg ferð. Bókin er alltént frábær aflestrar.

 

mallandi linsur Það er margt gott um þennan rétt að segja. Hann er ódýr en jafnframt ljúffengur. Þarna er notast við ódýra bita af kjúklingum - leggina, ég notaði reyndar líka læri - þetta eru bitar sem gjarna eru á 20-40% afslætti í lágvöruverslununum. Bringur virðast hinsvegar vera verðlagðar eins og fíkniefni. Þegar að ég vil nota bringur í mat - þá kaupi ég nær alltaf heila kjúklinga og hluta þá niður og geymi það sem ég vill ekki nota í frysti. Þetta er einkar lítið mál að gera.

 

Tyrknesk veisla með kjúklingarétti með hrísgrjónum, furuhnetum og sveskjum með  linsubaunarétti og fersku salati.

 

salat með möndlum og lime Þess ber að geta að ég breytti réttinum lítillega frá því hvernig hann birtist í blaðinu. Slíkt er öllum kokkum heimilt og meira segja er það nóg til þess að segja að maður hafi hugsað þetta upp sjálfur. Ég reyni þó að geta heimilda - eiginlega vegna þess hversu stutt er frá því að þetta birtist - ef lengra hefði liðið hefði ég eignað mér uppskriftina sjálfur.

 

Fyrst eru 6-8 leggir, 6-8 læri söltuð og pipruð og svo steikt í smávegis jómfrúarolíu þartil þau taka lit, þ á eru þau lögð til hliðar (passa að henda ekki olíunni) og því næst eru 3 hvítir laukar, og 3 hvítlaukar (eins geira kínverskir hvítlaukar) eru skornir niður og steiktir í olíu í stórum potti þar til þeir eru mjúkir og glansandi. Ekki er gott að brúna laukinn eða hvítlaukinn því þá verður hann rammur á bragðið. Þá er kjúklingum bætt saman við, rúmlega hálfum lítra af rauðvíni - ég notaði Wolf blass Eaglehawk úr kassa en auðvitað hefði hvaða vín sem er dugað. Þá var tæpum líter af vatni hellt saman við, kjúklingakrafti í sama magni, 1 tsk chilliduft, 1 tsk koríander og 1 tsk papriku duft, 30 sveskjur og svo saltað vel og piprað.

Þetta var svo soðið í 30 mínútur. Þá voru 3 bollar af hrísgrjónum ásamt handfylli af furuhnetum steikt á pönnu í olíunni sem var notað til að steikja kjúklinginn og þegar þau fóru að glansa var linsubaunaréttur hálfu glasi af vatni bætt á pönnuna og  hún "deglazed" þannig að allt gums losnaði af pönnunni (fullt af bragði) þessu var svo bætt útí kássuna og leyft að malla við meðalhita í 45 mínútur.

 

Á meðan var linsubaunaréttur útbúinn. 2 glös af puy linsum var soðið skv. Leiðbeiningum. Því næst var einn stór rauðlaukur, 3-4 hvítlauksrif, 3 stórar flysjaðar gulrætur skornar í sneiðar steiktur á pönnu við lágan hita í 10 mínútur. Svo var 4 msk af tómatpuré  , 1 tsk chillisósa, 1 stór kjarnhreinsaður og smátt skorinn chilli, 1 tsk kóríander duft, 1 msk af harissa paste, saltað. Þá er linsunum bætt saman við og blandað vel. Í lokin er hálfu búnti af fersku kóríander sett saman við.

 

Með matnum var ferskt salat, nokkrir tómatar, rauð papríka, mozzarellaostur, ferskt basil, steinselja, möndlum, smá olía, limesafi, salt og pipar.

 

Þá var drukkið smá rauðvínsdreitill með Castello di Gabbiano Chianti Classico Riserva 2005 frá Ítalíu. Þetta er fremur óvanalegt vín. Dáldið hvasst í nefið en bragðið var ljúfara en ilmurinn gaf til kynna.  Vel kryddað með miklum dökkum ávexti að því mér finnst. Langt eftirbragð. Hefur ekki fengið einkunn á wine spectator en árgangur 2004 fékk 84 púnta sem er hin þokkalegasta einkunn.

pottréttur

 


Tuesday 8 July 2008

Frábær ofnbakaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum, salato tricolore, baguettu og góðu rauðvíni

40hvítlauksrif Þetta er klassísk uppskrift. Það er varla til klassísk matreiðslubók þar sem þessi uppskrift er ekki látinn fljóta með. Í öllum matreiðslu bókum þar sem hvítlauki er hampað er spilar þessi uppskrift stóra rullu. Sennilega er það einfaldleikinn við þennan mat sem gerir hann svona stórkostlegan. Ég hafði ekki eldað þessa uppskrift í langan tíma, þar til fyrir tveimur mánuðum þegar ég var að horfa á gamlan þátt með Nigel Slater þar sem vinur hans, Alistair Little, eldaði þennan rétt. Síðan þá hef ég eldað þennan rétt þrisvar sinnum. Ástæðan fyrir því að hann var ekki kominn á netið var sú að ég var alltaf hreinlega búinn að borða matinn áður en til myndatöku kom. Maturinn var bara svona góður. Reyni að vanda mig núna.  

kjúklingurundirbúningur Ég gæti eins bætt við einu hvítlauksrifi og kallað þetta mína eigin en það myndu allir sjá í gegnum það. Í það minnsta allir sem lesa matreiðslubækur. Varðandi hvítlaukinn, þ.e.a.s. magnið, þá munu sumir segja að þetta sé alveg fráleitt magn. Þvert á móti ... er þetta alveg ljúffengt og oft þannig að maður myndi óska að rifinn væru fleiri (þarna er kominn hugmynd að eigin uppskrift!?!). Þegar hvítlaukurinn er bakaður í pappírnum í jómfrúarolíu í tæpa klukkustund þá verður dramatísk breyting á bragði hans ... allt sterkt og hast bragð hverfur og í staðinn verður dásamlegt bragð af sætum hvítlauk með djúpu eftirbragði sem minnir á stund á karamellu. Ég er næstum því farinn að froðufella við að skrifa um þetta.

Svona máltíðir eru líka svo einfaldar í eldamennsku. Undirbúningurinn tekur ekki nema nokkrar mínútur. Bökunin rúman klukkutíma, sem er nógur tími til að njóta hvítvínsglas í sólinni, spila góða tónlist og spjalla við fjöls salat kylduna.

Ofnbakaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum, salato tricolore, góðu brauði og auðvitað ljúfu rauðvíni

Þó um einfalda uppskrift sé að ræða er mikilvægt að elda réttinn eins og lög mæla fyrir. Kjúklingurinn þarf um 30 mínútur lengri tíma heldur en hvítlaukurinn. Kjúklingurinn er hreinsaður og svo þurrkaður. Þá er smávegis af jómfrúarolíu sett í grindarholdið, salt, pipar, líka hálfur laukur, hálfsítróna, smávegis af rósmaríni og svo timian. Kjúklingurinn er þvínæst nuddaður upp úr jómfrúarolíu og svo er hann saltaður rækilega og pipraður vel. Handfylli af fersku timian er svo sáldrað yfir fuglinn og hann svo settur inn í 180 gráðu heitan ofn. Þegar 20-30 mínútur eru liðnar er hvítlauknum settur í eldfasta mótið með fuglinum og bakaður áfram í um klukkustund eða þar til að hann er tilbúinn.

Þá er fuglinn tekinn úr ofninum og hann lagður til hliðar á meðan sósan er undirbúin - sem er afar einfalt. Rétt áður en kjúklingurinn er tekinn úr ofninum er hálfur líter af kjúklingasoði sett í pott. Kjúklingurinn er færður á disk og ofnskúffan sem kjúklingurinn var í er settur á hlóðir. Soðinu er varlega bætt saman við og bakkinn skafinn upp þannig að allt góða bragðið sem hefur festist við bakkann losnar úr læðingi. Sósan er smökkuð og söltuð og pipruð eftir smekk. Hún er svo soðinn niður í um 10 mínútur á meðan kjúklingurinn jafnar sig.

Salato tricolore er klassískt ítalskt salat. Bakki er smurður með örlítilli jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo er mozzarella sósan sneiðum, basil og niðurskornum vel þroskuðum tómötum raðað saman. Balsamik edik er svo sáldrað yfir ásamt jómfrúarolíu.

Með matnum drukkum við Ruffino Ducale Riserva Chianti Classico Riserva 2004. Þetta var prýðisgott ítalskt rauðvín. Þetta er vín með ljúfum ávexti, dökkt á litin með langt eftirbragð. Þetta er vín sem hefur verið að fá á bilinu 87-90 punkta á Wine Spectator. Þar er því haldið fram að þetta vín myndi batna með smá geymslu - bara að maður hefði þessa þolinmæði - það getur bara fengið að batna í búðinni. Þetta endist ekkert í minni hillu.

 

kjullitilbuinn2


Wednesday 2 July 2008

Jurtalegnar kindalundir með fylltum papríkum, nýju salati og sætkartöfluböku

papríkur Þessi réttur var eldaður þegar við komum heim frá San Francisco fyrir að verða tveimur vikum síðan. Eins og kom fram þá höfðum við hjónin verið þar á ferðinni. Eins og það er frábært að fara til útlanda þá er alltaf gott að koma heim. Sérstaklega þegar grísirnir manns taka svona vel á móti manni. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar tóku börnin að sér á meðan við vorum í burtu og við ákváðum því að elda eitthvað gott handa þeim í þakklætisskyni. Þetta var yndislegt sunnudagskvöld, grillað á svölunum í glampandi sólskini.

Mamma hefur mikið dálæti á lambakjöti. Það eru fáir á Íslandi sem munu syngja kindunum kvæði eins og hún móðir mín. Eins og fram hefur komið á blogginu þá er líka lambalæri að hætti móður minnar minn uppáhaldsmatur. Við höfum líka reynt að elda lambakjöt á eins fjölbreytilegan hátt og hægt er - samt er það klassíska alltaf best. Rétt svipaðan þessum höfum við eldað oft áður, sérstaklega þegar við erum upp í sumarbústað. Það er mjög oft lamb á grillinu hjá okkur þar. Enda verður að segjast að mamma veit hvað hún er að tala um - lambakjöt er einfaldlega eitt af því besta hráefni sem okkur stendur til boða.

Eins og ég sagði áðan þá var var sól úti. Íslenskt sumar eins og það gerist best. Þá er lítið annað að gera heldur en að grilla. Það deila víst margir þessari skoðun. Það er bara svo gaman að grilla. 

Jurtalegnar kindalundir með fylltum paprikum, nýju salati og sætkartöfluböku

kjöt í marineringu 1700 gr af kindalundum eru lagaðir í skál. 50 ml af góðri jómfrúarolíu, 8 smátt söxuðum hvítauksrifjum, 5 greinum af majoram laufum, 3 greinar af rósmarín laufum, 3 msk af steinelju og nóg af salti og pipar. Látið liggja svona eins lengi og hægt er - best væri að láta þetta marinerast í sólarhring - en maður er ekki alltaf svo forsjáll. Þetta verður ljúffengt sama hvað marineringartímanum líður. Mikilvægt er að elda ekki lambið of lengi. Grilla það bara í nokkrar mínútur þar til að það verður medium rare - taka það svo af grillinu og láta það hvílast í 10 mínútur undir álpappír -  rétt til að kjötið jafni sig - safinn úr því dreifi sér aftur jafn um kjötið og renni ekki allur út þegar það er skorið.

Með matnum var einföld sósa. Ég er oft með svona sósur - og hef bloggað um þær oft áður. 2 smátt skornar og flysjaðar gulrætur, einn niðurskorin laukur, 2 niðurskornar sellerísstangir, nokkur smátt skorinn hvítlauksrif eru steikt við lágan hita í jómfrúarolíu í 10 mínútur þar grænmetið verður mjúkt og glansandi. Mikilvægt er að salta og pipra á þessum tímapúnkti til að ná bragðinu úr grænmetinu. Þá er um líter af vatni bætt saman við og viðeigandi magni af góðum lambakrafti. Soðið í klukkustund. Þarna er oft ágætt að bæta við þeim kryddjurtum sem er ríkjandi í marineringunni og geta þolað suðu eins og rósmarín og timian - steinselja og basil þola síður mikla suðu og ekki gott saetkartoflubaka.jpg að bæta þeim út í á þessum tímápunkti. Þá er sósan síuð og sett í könnu. Í sama potti er smjörbolla útbúinn, 30 gr af smjör og smávegis af hveiti er hrært saman og soðinu svo varlega blandað saman við aftur. Hrært vandlega. Núna þarf að djassa sósuna til með því sem við á - smá rauðvín, sulta, ostur, salt og pipar...bara tóna þetta fram og tilbaka þar til að bragðið verður eins og þú vilt. Alltaf er hægt að leiðrétta klúður með smá vegis af rjóma. Ef sósan verður of sölt má td. setja nokkrar sneiðar af kartöflu útí til að sanka saltinu til sín - þær eru svo veiddar úr áður en sósan er borin fram. Stundum hakka ég grænmetið úr soðinu sem ég hafði síað frá með töfrasprota og bæti svo matskeið af því saman við til að fá meiri dýpt í sósuna - bara eftir stemmingunni.

Sæt kartöflubakan var einföld. Um kíló af sætum kartöflum voru flysjaðar og soðnar í 15 mínútur í söltuðu vatni. Þá er vatninu hellt af og þær stappaðar saman með klípu af smjöri, smá rjómaosti og salti og pipar. Skreytt með rósmaríni eins og sést á myndinni og parmesanosti sáldrað yfir. Bakað í 20-30 mínútur. Bakan verður sæt og ljúffeng.

Marglitar paprikur eru toppskornar og kjarnhreinsaðar. Einn laukur, ein sellerísstöng, nokkur hvítlauksrif, 7 sneiðar af smátt skornu beikoni eru steiktar á pönnu í smá jómfrúarolíu. Eftir nokkrar mínútur er afgangsostum bætt saman við, smávegis rjómaostur, smá camenbert...bara það sem er til í ísskápnum. Saltað og piprað. Brauðmylsnu bætt saman við til að binda saman blönduna. Toppurinn sem var skorinn af paprikunum var skorinn smátt niður og bætt í fyllinguna. Ferskum kryddjurtum eins og steinselju og ljuffengt_salat.jpg basil er svo hrært saman við fyllinguna. Paprikurnar eru svo fylltar með þessari blöndu. Smávegis af parmesanosti er svo sáldrað yfir , síðan smá jómfrúarolíu, og svo er paprikunum raðað á grillbakka og svo grillað í 20-30 mínútur þar til osturinn er bráðinn og paprikurnar farnar að sverta á hliðinum.

Salatið var ljúffengt. Blandað grænt salat var lagt á disk, nokkrar niðurskornar radísur, 2 niðurskornar appelsínur og svo muldum fetaosti dreift yfir.

Borið fram með Masi Costasera Amarone Classico frá því 2004 rauðvín, sem ég keypti í tollinum á leiðinni til landsins, fyrir þá sem kunnu að meta rauðvín og svo var hvítvínsdreitill fyrir tengdamúttu sem mest fyrir hvítvín eða rósavín.  Rauðvínið var ljúffengt, þykkt á litinn og á bragðið og minnir á dökk ber. Vín í dýrari kantinum en maður notar tækifærið þegar ég er á ferðinni í gengum tollinn.  Hún fékk Rosemount Chardonnay hunter valley estate frá 2005, þetta er ástralskt hvítvín, þurrt en ávaxtaríkt, smjörkennt og frískandi. Vín í þessum flokki fá um 90 púnta frá Wine spectator.

tilbuinn_malti_589769.jpg