Wednesday 16 February 2011

Kraftmikill kjúklingur, Diablo, með ofurnachos, gulum baunum,quesadillas og avakadósalati - SKÁL!


Á laugardagskvöldið síðastliðið vorum við með góða gesti; Addý og Gumma nágranna okkar úr Lagergränden (næsta gata) og börnin þeirra og svo Jón Þorkel og son hans Einar - Álfa var því miður í vinnunni (búa í sömu götu). Hér búa eiginlega ekkert nema Íslendingar! Það er alltaf gaman að hafa matarboð (hef örugglega vélritað þessa setningu hundrað sinnum). Þeir sem lesa síðuna mína ættu að vita að það er engin lygi.

Mál voru rædd fram og tilbaka. Ætli við höfum ekki tæpt á vel flestum málum; stjórnmálum frá ýmsum vinklum, nýafstöðnum byltingum, vandasömum fjölskyldumálum, hinum síerfiðu trúmálum, þjóðkirkjunni, jarðarförum og jafnvel íþróttarheimilum. Það er aldrei leiðinlegt að ræða málin. Kannski var það maturinn... en stundum varð manni pínu heitt í hamsi - en bara í örskamma stund. En svo var líka hlegið og skálað. SKÁL!

En eins og kom fram seinustu færslu þá á skíðafríið sem í vændum er hug minn allan. Ég hugsa eiginlega ekki um neitt annað! Lífið er matur, en matur fyrir og eftir skíðafrí! Það var hrein tilviljun hvernig við enduðum í Austurríki í lok febrúar 2007. Við fengum tölvupóst frá Úrval Útsýn um tilboð til Alpanna fyrir skít og kanel og við slógum til. Við enduðum á Skihotel Speiereck í eigu frábærra íslenskra hjóna, Dodda og Þurý, og þar kynntumst við fullt af góðu fólki. Við skemmtum okkur stórkostlega með nýjum vinum bæði á fjallinu og af því! Meiriháttar - við vorum orðin skíðafólk!

Árið eftir fórum við aftur á sama stað með foreldrum okkar og vinum. Árið 2009 fórum við til Disentis í Sviss. Í fyrra fórum við svo aftur til Austurríkis til Dodda og Þurýjar og það var eins og að koma heim! Við skíðuðum í ellefu daga og það var alveg frábært. Ég fékk að elda og við skemmtum okkur stórkostlega - Villi  lærði að skíða og Valdís varð frábær á skíðum. Núna erum við að telja niður að næstu ferð! Við leggjum af stað á morgun. Við getum ekki beðið.


Kraftmikill kjúklingur "Diablo" með ofurnachos, gulum baunum, quesadillas og avakadósalati.

Þar sem við vorum ansi mörg í mat gerði ég þrjá kjúklinga. Fyrir fullorðna reyndi ég að keyra hitann upp og gerði sterka marineringu. Fyrir hvern fugl gerði ég eftirfarandi marineringu; 75 ml af thai chillisósu, 2-3 kúfaðar teskeiðar af sambal olek (chillimauk ættað frá Austurlöndum fjær - Indónesíu, Malasíu og víðar - gert úr mismunandi chilliávöxtum), 1/2 tsk af þurrkuður chilliflögur, 1 kúfuð tsk af sterku papríkudufti, salt, pipar, nokkrar skvettur af tabasco sósu og 2-3 msk af jómfrúarolíu fyrir hvern kjúkling. Marineringuna setti ég í ziplock poka.



Kjúklinginn klippti ég upp í gegnum bakið og opnaði upp. Lagði síðan bringuhliðina upp og þrýsti niður á bringubeinið þannig að það brotnaði. Þannig verður fuglinn eins og á myndinni hér að ofan, flatur. Setti síðan kjúklinginn ofan í pokann með marineringunni, lokaði pokanum og nuddaði kjúklinginn upp úr kryddblöndunni. Fuglinn fékk að marinerast í tæpan sólarhring í ísskápnum. Ástæða þess að maður brýtur upp fuglinn á þennan hátt er tvenns konar. Í fyrsta lagi er auðveldara að hjúpa kjúklinginn með marineringunni og í öðru lagi þá getur maður lagt fuglinn flatann í ofnskúffunni og hann eldast aðeins hraðar.

Fyrir börnin var reynt að hafa þetta mjög einfalt. Kjúklingurinn var kryddaður bara með smá salti, pipar og papríkudufti. Það þýðir lítið að gefa grísunum svona sterkan mat - það er bara ávísun á kvart og kvein. Bakað í ofni með niðurskornum kartöflum.


Ofurnachos - er auðvitað auðveldasti rétturinn undir sólinni og ég held að flestir hafa pantað svona einhvern tíma á pöbbnum eða texmex veitingastöðu. Eldamennskan er bara fólgin í því um að raða upp hráefninu. Nachosflögur í botninn á eldföstu móti, síðan tómat (tacosósa), vel kryddað steikt nautahakk, papríkur í nokkrum litum, tómatar, rauðlaukur, jalapeno pipar (og smávegis af leginum), síðan nóg af rifnum osti. Bakað þangað að osturinn er bráðinn og verður gullinn.


Gulu baunirnar eru auðvitað bara hitaðar í potti. Salatið; græn lauf, tómatar, kúrbítur og svo niðursneitt avakadó. Salatið var síðan bragðbætt með smáræði af ferskur sítrónusafa, jómfrúarolía, og síðan salt og pipar. Bar einnig fram creme fraiche með matnum - til að kæla hann niður aðeins - fyrir þá sem það vildu. Smá ábending - borði maður sterkann mat þá er vita vonlaust að reyna að kæla sviðna tungu með vatni - það gerir málið bara verra. Mjólkurvörur leysa svona hratt og örugglega.


Quesadillas (stundum kallað tostitas) voru líka einfaldar. þetta eru í raun bara samlokur meðtortillur í staðinn fyrir brauð. Blandaði saman tómatsósu og chillimauki og smurði á tortillakökur, síðan rifin ostur, lokað með annari tortillaköku.


Síðan steikt á báðum hliðum í smá olíu þar til fallega gullið.



Með matnum drukkum við tvö ólík vín - eitt af því var Pata negra Tempranillo búkolla sem ég keypti nýlega. Mér finnst ágæt að eiga búkollu upp í skáp og þessa valdi ég vegna þess að ég hafði prófað vín frá sama framleiðanda í flösku og þótti það bara ansi gott. Þetta er Spánskt Tempranillo vín - ekki eins þroskað og það í flöskunni en gott engu að síður. Dökkt og þykkt í glasi. Ilmar af dökkum berjum - smávegis tannín. Passaði ágætlega með öllum þessum heita mat. Gott eftirbragð.

Þetta var virkilega góður matur. Svona ekta Texmex. Mér sýndust allavega flestir háma í sig og ekki var mikill afgangur af öllu klabbinu.

Bon appetit!

Sunday 13 February 2011

Gómsætur ristaður lax á fennelbeði með hrísgrjónum og fersku salati -og auðvitað hvítvínsglasi



Við erum afar spennt á heimilinu. Við erum upptekin af því að telja niður að því að leggja af stað til Austurríkis þar sem við ætlum að vera á skíðum í rúmar tvær vikur. Þetta er fimmta skipti sem við förum á skíði í Ölpunum. Það er nú saga að segja frá því af hverju við urðum að skíðafjölskyldu - saga sem ég hef ábyggilega sagt áður - en góð saga er aldrei of oft sögð.

Árið 2006 leysti ég af á Austfjörðum í nokkra daga yfir páskana. Við ókum norðurleiðina og stoppuðum við á Akureyri þar sem vinir okkar bjuggu tímabundið. Vigdís Hrefna vinkona okkar lék aðalhlutverkið sýningu leikfélagsins, Litlu Hryllingsbúðinni, sem var alveg stórgóð skemmtun.  Við dvöldum hjá þeim yfir helgi. Bassi, maðurinn hennar Viggu, vildi endilega prófa að fara á snjóbretti og ekki vildi ég standa í veginum fyrir því.

Þá hafði ég ekki farið á skíði síðan að ég var 18 ára gamall þegar ég fór í skíðaferð með MH til Dalvíkur (það var nú fjör). Alltént var ég alvarlega ryðgaður. En við slógum til. Fórum upp í fjall og leigðum okkur búnað - það var til allt á alla - nema það voru ekki til skór á mig. God damn it (blessun þó). Hins vegar voru HEAD skór á helmingsafslætti - 18600 krónur - djöfull var það dýrt fannst mér. En allir voru komnir upp í fjall og ég sló til, en sór þess eið að þetta yrði ekki síðasta sinn sem ég stigi á skíði. Og viti menn. Þetta var dásamlegt. Að líða niður brekkurnar á skíðunum. Ég fann mig þarna í hlíðunum, og mér leið eins og barni, þetta var svo gaman! Það besta sem ég hafði gert í mörg herrans ár! Ég var frelsaður - skíðafrelsaður.

Allaveganna - þetta er ekki skíðablogg. Þetta er matarblogg. Víkjum að nú að rétti dagsins.

Gómsætur ristaður lax á fennelbeði með hrísgrjónum og fersku salati - og auðvitað hvítvínsglasi


Þetta er ákaflega einföld matargerð. Laxinn þarf auðvitað bara að hreinsa og plokka burtu bein - ef einhver eru eftir í flakinu. Salta og pipra. Skar þrjá meðalstóra fennelhausa í sneiðar og steikti á pönnu með smá hvítlauksolíu við heldur lágan hita í 10-15 mínútur - þar til fennelinn er ilmandi og karmelliseraður. Þá er fennelinn lagður í eldfast mót og laxinn settur ofaná - með roðið upp.

Bræddi síðan tvær matskeiðar af smjöri í potti og penslaði síðan roðið á fisknum, saltaði og pipraði. Fiskurinn var síðan settur í blússheitan ofninn með grillið á fullu. Setti laxinn rétt fyrir neðan miðju, þannig að hann hefði tíma til að eldast í gegn - og roðið að ristast og verða knassandi stökkt. Þetta tók ekki mikið meira en 10 mínútur.

Með matnum var ég með einfalda kalda sítrónusósu sem ég hef ábyggilega bloggað um áður. 200 ml af creme fraiche sett í skál, safi úr heilli sítrónu, mjög svo smátt skorinn börkur af hálfri sítrónu, hálf matskeið af góðu hlynsírópi og svo salt og pipar.

Með matnum bárum við fram hrísgrjón og svo einfalt salat; græn lauf, avókadó, kúrbít og svo dökk steinlaus vínber.

Með matnum drukkum við Montes Alpha Chardonnay frá því 2008 sem Kolbrún mágkona mín kom með þegar hún var í heimsókn í seinustu viku. Þetta er eitt af mínum uppáhalds hvítvínum og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ljósum ávöxtum, peru, sítrus og eik. Þykkt og frískandi á tungu, smjörkennt og eikað. Virkilega gott vín.


Bon appetit.

Tuesday 8 February 2011

Ljúffeng ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum og timian

Þennan fiskrétt eldaði ég um daginn. Ég hafði verið að skoða fiskborðið í stórmarkaðinum þar sem ég er vanur að versla og rakst þá á þessa sandhverfu og hún var alveg glansandi fersk. Það er ekki á hverjum degi að ég elda fisk í heilu lagi - en í flestum af matreiðslubókunum sem ég á er það alvanaleg eldunaraðferð. Eins og ég hef nefnt áður hérna á blogginu, þá verður maður að hafa aðeins varann á þegar maður er að versla fisk hérna í suður Svíþjóð. Hann er auðvitað ekki eins góður og á Fróni, ekki eins ferskur - en það kemur fyrir að maður ratar á góðan fisk - og þá er ekkert annað að gera en að hafa hann í matinn.

Það er auðvitað líka í anda manifestósins sem ég lagði upp með í upphafi janúar. Að borða aðeins hollari mat. Og verkefnið hefur tekist vel - eiginlega vonum framar og við höfum haft það ansi gott - jafnvel en betur en mér hefur kannski tekist að koma til skila á blogginu mínu. Það var sameiginlegt álit fjölskyldumeðlima að halda áfram í anda þess sem lagt var upp með - kannski með aðeins breytingum þó - við leyfum einnig fuglakjöt á virkum dögum - en reynum að hafa uppskriftirnar í hollari kantinum og munum áfram elda nóg af grænmeti. Sjáum hvað setur.

sandhverfa

Ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum, hvítlauk og timian

Þetta var auðvitað sáraeinföld eldamennska. Það var lítið að gera við sandhverfuna annað en að klippa hana aðeins til svo að hún myndi passa í ofnskúffuna mína. Ofnskúffan var smurð með smávegis hvítlauksolíu, söltuð og pipruð. Svo var sandhverfunni raðað á fatið.

Skar niður hálfan hvítlauk heldur smátt og sáldraði yfir, nokkrar greinar af fersku timian og síðan nokkur fersk lárviðarlauf. Skar niður 250 gr af kirsuberjatómötum og dreifði á milli. Sáldraði smávegis af jómfrúarolíu yfir, síðan salti og pipar, safa úr 2 sítrónum og skvettu af hvítvíni.

Sett inn í miðjan blússheitan ofn. Grillið á fullt - 275 gráður forhitaður. Fiskurinn eldast á nokkrum mínútum ekki mikið meira en 7-8 mínútum. Maður sér hvernig húðin á fisknum fer hreinlega að poppast. Fiskurinn gefur frá sér vökva - fiskikraft - sem blandast olíunni, tómötunum, hvítvíninu og sítrónusafanum.

Þegar fiskurinn er tilbúinn er hann færður á annað fat. Kryddjurtirnar sem höfðu brunnið aðeins voru færðar frá. Vökvinn á ofnskúffunni er hrærður saman í einfalda sósu.

Borið fram með soðnum möndlukartöflum og einföldu "rustic" salati; spínatlauf, gróft skorinn laukur, papríka, nokkrar kalamataólívur og gúrkubitar. Gott ef ég setti ekki mulin fetaost í salatið líka.

sandhverfaaleidiofninn

Bon appetit.

Sunday 6 February 2011

Feikigóð ekta "flæskesteg" með kartöflugratíni og öllu tilheyrandifyrir frábæra gesti





Við höfum verið heppinn þessa helgi að fá góða gesti. Mér finnst alltaf gaman að fá gesti. Og ég hef sagt það margsinnis áður að mér finnst það svo notalegt þegar húsið okkar í Púkagrandanum iðar af lífi; fólk að hlæja, skála, borða, börn að hlaupa um - fátt iljar mér meir en slíkar stundir. Núna fengum við systur Snædísar, Kolbrúnu og son hennar Martein í heimsókn yfir helgina. Marteinn og Villi, sonur minn, eru á svipuðum aldri og geta svo sannarlega leikið sér saman - og þá er sko fjör!

Ég hafði lofað Kolbrúnu að ég myndi elda hvað sem er fyrir hana í matinn og það fyrsta sem hún bað um var .... steik og bernaise. Ég átti erfitt með að svara þessari bón játandi þrátt fyrir loforðið - þar sem ég var með það í matinn seinustu helgi. Og það er nú svo að það verður að líða þó nokkur stund á milli bernaisesósu áts - annað er ekki hægt - meira segja þó að maður reyni að gera hollu útgáfuna af sósunni. Hvernig sem á það er litið þá er bernaise alltaf bernaise. Eftir nokkrar uppástungur varð einhugur um purusteik. Og það er nú ekki af verri endanum - Er það nokkuð?



Ég fór til slátrarans míns, Holmgrens í Saluhallen. Fjandinn er mér  farið að þykja vænt um fólkið sem er að vinna þarna. Það er alltaf augljóst þegar fólk vandar til verksins. Það sést glögglega þegar maður skimar yfir kjötborðið - allt frá heimagerðu bjúgunum, þurrkuðu skinkunum, heimagerðu pulsunum þeirra, heimagerða veislumatnum, svína-, nauta-, lamba-, kálfakjötsins og svo villibráðarinnar - að það er augljóst að þarna er fagfólk á ferð. Svo er það líka ráðagott og til í að spjalla um hráefnið! Svona eiga slátrarar að vera! Ég held að kjöthöllin og Melabúðin á Íslandi er það næsta sem við Íslendingar komumst nálægt svona þjónustu!

Feikigóð ekta "flæskesteg" með kartöflugratíni og öllu tilheyrandi fyrir frábæra gesti




Fyrsta skrefið er alltaf að undirbúa soðið fyrir sósuna - við Íslendingar elskum jú sósur -  sem er auðvitað eðlilegt!. Fyrst er að undirbúa sitt - mirapoix - Skera niður eina stóra gulrót, einn lauk, tvær sellerí stangir. Steikja í potti með smá matarolíu. Bæta síðan við nokkrum lárviðarlaufum, nokkrum piparkornum, salti, og svo 4 niðursneiddum hvítlauksgeirum og steikja við lágan hita í tíu mínútur með lokið á. Þannig losar maður út vökvann í þessum dásamlegu hráefnum. Lyktin í eldhúsinu verður auðvitað dásamleg! Þegar maður er búinn að steikja þetta um stund án þess að brúna hráefnið er ekkert annað að gera en að bæta við 2 lítrum af vatni og láta suðuna koma upp. Sjóða vel og rækilega í 1-2 klukkustundir með lokið á til að kreista allan kraft úr grænmetinu sem unnt er!





Næsta skref er að undirbúa kjötið. Þetta er auðvitað hefðbundin purusteik, tja...ég var með hrygg, samkvæmt hefðinni á maður að nota svínasíðu - en ég valdi þetta í staðinn. Ég keypti 2 kíló af góðu svínakjöti með puru og beini. Þreif og þurrkaði. Síðan sauð ég hálfan líter af vatni og setti í eldfast mót. Setti síðan kjötið með puruna niður í vatnið og inn í forhitaðan ofn í 20 mínútur. Kjötið var síðan tekið út, snúið við og sett á grind.

Spekkað með negulnöglum, ferskum lárviðarlaufum, salti og pipar. Soðinu, sem hafði verið útbúið áður var svo hellt í eldfasta mótið, kjötið sett á grind fyrir ofan soðið og þetta var síðan allt sett inn í ofninn við 180 gráðu hita. Kjötið fékk að eldast þangað til að það var komið í 68 gráðu hita í kjarnann - það tók um 90 mínútur. Þá var hitinn aukin í 220 gráður og kjötið fékk sjéns til að leyfa purunni að poppa - sem það og gerði. Það tók ekki nema 10-15 mínútur. Kjötið var síðan lagt til hliðar, undir álpappír, á meðan sósan var undirbúinn.



Það var talsvert soð undir kjötinu - kannski 600 til 700 ml. Soðið var þykkt með hefðbundinni smjörbollu, 30 gr af smjör og síðan jafnmikið af hveiti, hrært saman í potti og síðan er heitu svína/grænmetissoðinu hrært saman við. 100 ml af matreiðslurjóma er bætt saman við. Hrært saman. Bragðbætt með salti og pipar, kannski smá sírópi, smá soya, allt til að ná jafnvægi.

Borið fram með kartöflugratíni. Gert á hefðbundin hátt með þunnt skornum kartöflum. Fyrst smá hvítlauksolía í botninn á fatinu, svo kartöflur, salt, pipar, smá ostur, rjómi og þar fram eftir götunum. En á milli kartaflanna laumuðum við nokkrum niðursneiddum þistilhjörtum - svona til að breyta aðeins útaf.

Bar einnig fram með matnum steikt epli. Skar niður fjögur græn epli nokkurn vegin í teninga og steikti upp úr smjöri þar til að eplin urðu gullin á lit.



Með matnum drukkum við frábært vín. Tenuta Sant'Antonio Amarone della Valpolicella frá því 2006. Þetta er ítalskt vín sem er gert á aðeins frábrugðin hátt en flest önnur. Oft gert úr nokkrum þrúgutegundum, mest Corvina, síðan Rondinella og Molinara. Berin eru tínd í október, en í staðinn að vinna vínið strax eru berin að hluta þurrkuð í þrjá mánuði þannig að safinn verður kraftmeiri. Niðurstaðan verður dökkt, kraftmikið, ávaxtaríkt vín sem fyllir munninn af bragði. Þetta vín er allt þetta - kryddað, kraftmikið, nánast rúsínukennt bragð - munnfyllir. Namminamm!

krumbl

Í eftirrétt gerði ég krumbl. Ég hef bloggað um krumblin mín áður - þetta gerði ég úr hindberjum. 150 gr af sykri, jafnmikið af mjúku smjöri, 75 gr af hveiti, 75 af haframjöli, 1 tsk af vanilludropum er hrært saman og sett í mót, síðan handfylli af berjum og síðan er meira af deigi dreift ofan á. Bakað í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita þangað til að deigið er orðið fallega gullbrúnt á litin. Borið fram með vanilluís.

krumblogís

Bon appetit!

Thursday 3 February 2011

Heimagerð rjúkandi instant núðlusúpa - ljómandi góður hádegisverður!

Ég hef upp á síðkastið verið að horfa á nýjustu þætti Hugh Fearnley Whittingstall. Hann er breskur sjónvarpskokkur sem hefur síðastliðin ár notið vaxandi vinsælda í Bretlandi. Hann hefur síðasta áratuginn sent frá sér bækur og sjónvarpsþætti um aðalverkefnið sitt, The River Cottage. Þá hóf hann sjálfþurftarbúskap sem hefur vaxið ár frá ári. Þættir hans og bækur hafa verið mér mikill innblástur bæði í eldhúsinu og í garðinum! Nýjustu þættir hans - River Cottage Every Day - fjalla um eins og nafnið gefur til kynna um þann mat sem hann eldar hvunndags. Kíkið endilega á heimasíðuna hans - www.rivercottage.net.

Í einum þættinum gerir hann hádegisverðinn að viðfangsefni og þessi hugmynd er að nær öllu leiti kominn frá honum. Takk Hugh. Mér fannst hugmyndin það brag góð að mér fannst þjóðráð að koma henni áleiðis. Þetta er fljótlegur, hollur en fyrst og fremst góður réttur.

Janúar er nú liðin - en manifestóið sem lagt var upp með í upphafi árs mun halda áfram og teygja sig inn í komandi mánuði. Var einmitt að fá sendingu af matreiðslubókum m.a. nokkrar um grænmetisrétti - kannski ég detti niður á einhvern snilldarrétt til að skella á bloggið mitt.

Heimagerð rjúkandi "instant" núðlusúpa - ljómandi góður hádegisverður!

Hráefnalisti

100-140 gr núðlur
1/2 gulrót
1/2 sellerístöng
1/2 vorlaukur
1/8 rauðlaukur
1/8 paprika
1 teningur grænmetiskraftur
2 msk soya sósa
Safi úr 1/2 sítrónu
1 tsk púðusykur
400 ml vatn
Salt og pipar

Ég keypti bara venjulega núðlur, sem þurfa ekki nema 5 mínútna suðu (eða liggja í heitu vatni í 5-6 mínútur). Þeim er gjarnan skipt í skammta sem eru passlegir í súpur - Ég notaði um 50-70 gr í hvern skammt. Skar síðan niður næfurþunnt hálfa gulrót, vorlauk, sellerí, 1/8 af smáttskornum rauðlauk og annað eins af papriku. Setti síðan smá steinselju.

Stakk síðan með hálfum tenging af grænmetiskrafti (Chef du fond - án MSG) - þó ennþá í umbúðunum. Útbjó síðan smá blöndu, með 2 msk soya sósu, safa úr hálfri sítrónu og smá púðursykur. Setti þetta í litla krukku.

Síðan skellti ég krukkunni og kraftinum ofan í súpuílátið. Lokið á og ofan í tösku. Í hádeginu er kraftinum sleppt úr hjúp sínum, soyablandan hellt yfir og síðan er 400 ml sjóðandi vatni hellt ofan á og hrært og látið standa í 5 mínútur. Salta og pipra eftir smekk. Njóta. Súpan er fantagóð.

núðlusúpa

Bon appetit!

Tuesday 1 February 2011

Frábær nautasteik og LÉTT Bernaise sósa - Er slíkt raunverulegurmöguleiki?



grajur

Það er búið að vera nóg um að vera síðastliðna daga. Ég hef starfað við húðdeildina í Lundi síðastliðna mánuði og nú var kominn tími til að skipta um vettvang á nýjan leik. Það er alltaf mikið að gera síðustu dagana - nóg af pappír sem þarf að lesa yfir, skrifa undir og senda af stað. Næst mun ég hefja störf á barnagigtardeildinni. Það verður spennandi að fara að sinna börnum. Hingað til hef ég nær einvörðungu sinnt fullorðnum - nema þegar maður skreppur í hérað. Hér í Lundi hefur sá hátturinn verið á að gigtlæknar fullorðinna sinna einnig gigtveikum börnum - ólíkt öðrum stöðum! Hvað sem því líður verður spennandi að skipta um starf aftur.

Annars fannst mér ég hafa ágæta ástæðu til þess að fagna núna um helgina. Ég var að skrá mig í doktorsnám. Þannig að það er nóg í deiglunni. Þetta var allavegana næg ástæða fyrir mig að elda steik og bernaise.

Nú er það svo að bernaise sósa er sennilega óhollasta sósa í heiminum. Tja...óholl og óholl - hún er alltént gerð úr nær hreinu smjöri. Fyrir hverja eggjarauðu setur maður venjulega 50 gr af smjöri - sem er líka almennt hugsað sem sósa fyrir einn. Bara sósan er farin að sliga í 500 kaloríurnar per mann! Þegar ég gerði bernaise seinast - einhvern tíma í haust - skipti ég út helmingi smjörsins fyrir creme fraiche (sem er nú engin megrunarvara - en skárri en smjörið) og niðurstaðan var alveg ljómandi. Núna var því ákveðið að sleppa smjörinu alveg! Og það heppnaðist ótrúlega vel.

Annars verður rólegt á síðunni minni þessa vikuna. Kannski á ég eitthvað í handraðanum til að skella á netið en lítið verður eldað. Ég er staddur í héraði - í Filipstad í Värmlandi - heimabæ WASA hrökkbrauðsins! Ætli það verði ekki mest núðlusúpa þessa vikuna. Þá er ágætt að hugsa til síðustu helgar og ylja sér í huganum!

kjöt

Steik og LÉTT Bernaise sósa - Er það raunverulegur möguleiki?

Þetta var virkilega ljúf kvöldstund. Svo vildi til að nágrannar okkar, Jónas og Hrund og börnin þeirra, höfðu líka ákveðið að elda steik og því slógum við saman.

Þetta var ekki flókin matargerð. En að gera bernaise sósu krefst natni. Ég elda hana alltaf yfir vatnsbaði. Einnig er mikilvægt að halda alltaf fast í skálina með hendinni - þá skynjar maður best þann hita sem er fyrir hendi. Ef skálin er að verða það heit að erfitt er að halda í skálina - þá þarf að taka hana af hitanum og halda áfram að hræra. Ef maður passar ekki upp á þetta er hætt við að bernaise sósan verði einfaldlega að ommilettu.

Fyrsta skrefið að því að gera sósuna er að byrja á því að gera bragðbætinn (essence). Bernaise er í auðvitað bara bragðbætt smjörsósa, gerð á sama hátt og Hollandaisesósa. Hálfur bolli hvítvínsedik og hálfur bolli hvítvín er sett í bott. Tvær greinar af fáfnisgrasi er sett í pottinn ásamt hálfum niðurskornum skarlotulauk auk nokkurra piparkorna. hitað að suðu og svo soðið niður þangað til að rúmlega 1-2 matskeiðar eru eftir af vökva í pottinum.  Næsta skref er að setja 4-5 eggjarauður í skál, smá nautakraft, salt og pipar og hræra saman. Setja yfir heitt vatnsbað. Hræra. Aldrei sleppa skálinni. Þegar sósan fer að hita þarf að byrja að bæta creme fraiche út í (creme fraiche-inn hafði ég þeytt upp nærri helming áður - til að fá meira volume - og þarna er svarið við því af hverju ég notaði ekki létt creme fraiche - ekki hægt að þeyta hann upp). Creme fraiche-inum var svo bætt út í skeið fyrir skeið - og viti menn hún varð þykk og falleg. Síðan hellti ég bragðbætinum saman við ásamt fersku estragoni.

bernaise

Með matnum vorum við með ofnsteiktar kartöflur, gerðar eins og ég lýsti hérna- nema að viðbættu enn einu skrefi - í lok reglu tvö þegar var verið að "tossa" kartöflurnar þá sáldruðum við smá hveiti yfir áður en þær voru síðan steiktar í ofnskúffunni - til að tryggja að þær yrðu enn stökkari og flottari.

DSC_0071

Við bárum einnig fram með matnum Haricots verts strengjabaunir. Teknar úr frysti, beint í sjóðandi saltað vatn - soðið í 2-3 mínútur. Vatninu hellt frá og baunirnar síðan steiktar upp úr smá hvítlauksolíu. Saltað og piprað.

Við vorum með tvo ólíka bita af nautakjöti, entrecote og síðan nautalund. Entrecote bitinn var skorinn niður í heldur þunnar sneiðar og lundin niður í medalíur. Sett á fat. Saltað vel og piprað fyrir steikingu. Blanda af smjöri og olíu var hitað á stórri pönnu. Kjötið var steikt eins og lög gera ráð fyrir, snöggt við háan hita á báðum hliðum, og svo sett inn í hundrað gráðu heitan ofn í nokkrar mínútur.

kartöflur

Með matnum drukkum við tvær frábærar vínflöskur. Jónas kom með Coto de Imaz Gran Reserva 2001 með sér. Ég hef nokkrum sinnum drukkið þetta vín áður, en oftar hef ég drukkið Reservuna frá sama merki sem mér finnst líka ansi gott og um hana hef ég bloggað nokkrum sinnum. Og ekki var þetta vín síðra - svo sannarlega ekki. Dumbrautt á litinn, heldur þurrt á tungu en samt ávaxtaríkt og vel eikað. Þetta er afbragðsvín.

matur

Ég hafði fjárfest í flösku af einum af mínum uppáhalds Roija vínum af þessu tilefni. RODA reserva - sem af einhverri ástæðu hefur verið á ótrúlega góðu verði hérna í Svíþjóð - það kostar þó skildinginn - en miðað við gæði... hverrar krónu virði. Þetta er að mínu mati alveg fantagott vín - enda eitt af mínum uppáhaldsvínum. Þessi framleiðandi gerir nokkrar tegundir af Rioja: Reserva, RODA I og síðan Cirsion - öll frábær, stígandi í gæðum (og verði). Þetta vín er einnig dumbrautt, verkar þykkara en það fyrra. Lyktar af dökkum berjum. Munnfyllir, eik og ber. Sælgæti. Algert sælgæti.

RODA

Þetta var alger veisla!

Í eftirrétt fengum við okkur vanilluíss með heimagerði súkkulaðisósu sem heimasætan, Valdís Eik, gerði handa okkur úr íslensku suðusúkkulaði og rjómaskvettu. Hún er efnileg stúlkan!

Bon appetit!