Showing posts with label avacadó. Show all posts
Showing posts with label avacadó. Show all posts

Friday, 15 January 2016

Einfalt salat með safaríkri kjúklingabringu, rauðbeðum, eggjum og lárperuaioli

Ég hef í nokkur ár verið áhugasamur um lágkolvetnamatarræði. Áhugi minn vaknaði fyrir rúmum tveimur árum þegar vinur minn prófaði þetta matarræði og léttist um rúm 10 kíló á nokkrum mánuðum. Þrátt fyrir árangurinn var ég skeptískur, enda samviskusamlega uppalinn, sem læknir, um hættur fitu - sér í lagi mettaðar fitu. Ég hafði lengi haft dálítið samviskubit vegna dálætis míns á smjöri og rjóma en eftir því sem ég kynnti mér næringarfræðina nánar og sérstaklega rannsóknir sem liggja að baki fræðunum, hvarf samviskubit mitt eins og dögg fyrir sólu. Ég prófaði þetta matarræði í nokkra mánuði með góðum árangri og með góðri líðan. 

Eftir að hafa slegið slöku við í nokkur misseri, og nokkur kíló, var þörf að spýta í lófana og ýta kolvetnunum aftur á hliðarlínuna og einbeita sér að hollu og náttúrulegu matarræði. Þegar ég byrjaði aftur núna um áramótin ætlaði ég að einbeita mér að morgunverðinum þar sem mér hafði áður fundist það erfiðast. En ég hef ekki staðið mig í stykkinu, þar sem ég hef verið á of mikilli hraðferð á morgnanna til að gera eitthvað frumlegt! En ég hef ekki soltið - ommilettur, steikt egg, soðin egg með tómötum og majónesi og steikt beikon er ljúffengur morgunverður sem maður verður seint leiður á - og eins sumum er tíðrætt þá gefur morgunstund gull í mund.

En það er samt ekki morgunverðaruppskrift sem hér verður færð, heldur gerð grein fyrir afskaplega safaríkri kjúklingabringu, lágkolvetnaréttur, sem einfalt er að elda! 

Einfalt salat með safaríkri kjúklingabringu, rauðbeðum, eggjum og lárperuaioli

Slátrarinn niður á St. Georgsstræti selur frjálsar hænur í búðinni sinni á sanngjörnu verði. Mér finnst þær hverrar krónu virði. Þetta er hænur sem fá að vappa um frjálsar, lifa lengur og fá maís sem gerir kjötið dekkra og bragðmeira. Svona eins og kjúklingur á að bragðast.

Þessi eldamennska er eins einföld og hugsast getur - og niðurstaðan sérstaklega ljúffeng.

Fyrir fjóra 

4 kjúklingabringur
50 g smjör
salt og pipar
4 harðsoðin egg
75 g blandað salat
1/2 púrrulaukur
15 kirsuberjatómatar
1/2 rauður chilipipar
handfylli ferskt kóríander

4 msk majónes
1 lárpera (avókadó)
1 hvítlauksrif
salt og pipar


Byrjið á því að skola af kjúklingum, þerrið hann, saltið og piprið. Bræðið smjörið á pönnu og brúnið kjúklinginn að utan. Setjið hann svo í 180 gráðu heitan ofn í 20 mínútur eða þangað til að kjarnhiti hefur náð 72 gráðum. 

Sjóðið eggin og kælið. 


Leggið salatblöðin á disk, svo rauðbeður, tómata, púrrulauk í sneiðum. Leggið bringurnar ofan á, skreytið með niðursneiddu chili og ferskum kóríander.


Aiolið er einfalt. Skerið lárperuna í tvennt, takið steininn úr og skafið svo lárperuna úr hýðinu. Setjið í matvinnsluvél ásamt einu hvítlauksrifi og majónesi. Saltið og piprið. Maukið vandlega saman.


Raðið á disk - algert sælgæti.

Bon appetit!



Wednesday, 16 February 2011

Kraftmikill kjúklingur, Diablo, með ofurnachos, gulum baunum,quesadillas og avakadósalati - SKÁL!


Á laugardagskvöldið síðastliðið vorum við með góða gesti; Addý og Gumma nágranna okkar úr Lagergränden (næsta gata) og börnin þeirra og svo Jón Þorkel og son hans Einar - Álfa var því miður í vinnunni (búa í sömu götu). Hér búa eiginlega ekkert nema Íslendingar! Það er alltaf gaman að hafa matarboð (hef örugglega vélritað þessa setningu hundrað sinnum). Þeir sem lesa síðuna mína ættu að vita að það er engin lygi.

Mál voru rædd fram og tilbaka. Ætli við höfum ekki tæpt á vel flestum málum; stjórnmálum frá ýmsum vinklum, nýafstöðnum byltingum, vandasömum fjölskyldumálum, hinum síerfiðu trúmálum, þjóðkirkjunni, jarðarförum og jafnvel íþróttarheimilum. Það er aldrei leiðinlegt að ræða málin. Kannski var það maturinn... en stundum varð manni pínu heitt í hamsi - en bara í örskamma stund. En svo var líka hlegið og skálað. SKÁL!

En eins og kom fram seinustu færslu þá á skíðafríið sem í vændum er hug minn allan. Ég hugsa eiginlega ekki um neitt annað! Lífið er matur, en matur fyrir og eftir skíðafrí! Það var hrein tilviljun hvernig við enduðum í Austurríki í lok febrúar 2007. Við fengum tölvupóst frá Úrval Útsýn um tilboð til Alpanna fyrir skít og kanel og við slógum til. Við enduðum á Skihotel Speiereck í eigu frábærra íslenskra hjóna, Dodda og Þurý, og þar kynntumst við fullt af góðu fólki. Við skemmtum okkur stórkostlega með nýjum vinum bæði á fjallinu og af því! Meiriháttar - við vorum orðin skíðafólk!

Árið eftir fórum við aftur á sama stað með foreldrum okkar og vinum. Árið 2009 fórum við til Disentis í Sviss. Í fyrra fórum við svo aftur til Austurríkis til Dodda og Þurýjar og það var eins og að koma heim! Við skíðuðum í ellefu daga og það var alveg frábært. Ég fékk að elda og við skemmtum okkur stórkostlega - Villi  lærði að skíða og Valdís varð frábær á skíðum. Núna erum við að telja niður að næstu ferð! Við leggjum af stað á morgun. Við getum ekki beðið.


Kraftmikill kjúklingur "Diablo" með ofurnachos, gulum baunum, quesadillas og avakadósalati.

Þar sem við vorum ansi mörg í mat gerði ég þrjá kjúklinga. Fyrir fullorðna reyndi ég að keyra hitann upp og gerði sterka marineringu. Fyrir hvern fugl gerði ég eftirfarandi marineringu; 75 ml af thai chillisósu, 2-3 kúfaðar teskeiðar af sambal olek (chillimauk ættað frá Austurlöndum fjær - Indónesíu, Malasíu og víðar - gert úr mismunandi chilliávöxtum), 1/2 tsk af þurrkuður chilliflögur, 1 kúfuð tsk af sterku papríkudufti, salt, pipar, nokkrar skvettur af tabasco sósu og 2-3 msk af jómfrúarolíu fyrir hvern kjúkling. Marineringuna setti ég í ziplock poka.



Kjúklinginn klippti ég upp í gegnum bakið og opnaði upp. Lagði síðan bringuhliðina upp og þrýsti niður á bringubeinið þannig að það brotnaði. Þannig verður fuglinn eins og á myndinni hér að ofan, flatur. Setti síðan kjúklinginn ofan í pokann með marineringunni, lokaði pokanum og nuddaði kjúklinginn upp úr kryddblöndunni. Fuglinn fékk að marinerast í tæpan sólarhring í ísskápnum. Ástæða þess að maður brýtur upp fuglinn á þennan hátt er tvenns konar. Í fyrsta lagi er auðveldara að hjúpa kjúklinginn með marineringunni og í öðru lagi þá getur maður lagt fuglinn flatann í ofnskúffunni og hann eldast aðeins hraðar.

Fyrir börnin var reynt að hafa þetta mjög einfalt. Kjúklingurinn var kryddaður bara með smá salti, pipar og papríkudufti. Það þýðir lítið að gefa grísunum svona sterkan mat - það er bara ávísun á kvart og kvein. Bakað í ofni með niðurskornum kartöflum.


Ofurnachos - er auðvitað auðveldasti rétturinn undir sólinni og ég held að flestir hafa pantað svona einhvern tíma á pöbbnum eða texmex veitingastöðu. Eldamennskan er bara fólgin í því um að raða upp hráefninu. Nachosflögur í botninn á eldföstu móti, síðan tómat (tacosósa), vel kryddað steikt nautahakk, papríkur í nokkrum litum, tómatar, rauðlaukur, jalapeno pipar (og smávegis af leginum), síðan nóg af rifnum osti. Bakað þangað að osturinn er bráðinn og verður gullinn.


Gulu baunirnar eru auðvitað bara hitaðar í potti. Salatið; græn lauf, tómatar, kúrbítur og svo niðursneitt avakadó. Salatið var síðan bragðbætt með smáræði af ferskur sítrónusafa, jómfrúarolía, og síðan salt og pipar. Bar einnig fram creme fraiche með matnum - til að kæla hann niður aðeins - fyrir þá sem það vildu. Smá ábending - borði maður sterkann mat þá er vita vonlaust að reyna að kæla sviðna tungu með vatni - það gerir málið bara verra. Mjólkurvörur leysa svona hratt og örugglega.


Quesadillas (stundum kallað tostitas) voru líka einfaldar. þetta eru í raun bara samlokur meðtortillur í staðinn fyrir brauð. Blandaði saman tómatsósu og chillimauki og smurði á tortillakökur, síðan rifin ostur, lokað með annari tortillaköku.


Síðan steikt á báðum hliðum í smá olíu þar til fallega gullið.



Með matnum drukkum við tvö ólík vín - eitt af því var Pata negra Tempranillo búkolla sem ég keypti nýlega. Mér finnst ágæt að eiga búkollu upp í skáp og þessa valdi ég vegna þess að ég hafði prófað vín frá sama framleiðanda í flösku og þótti það bara ansi gott. Þetta er Spánskt Tempranillo vín - ekki eins þroskað og það í flöskunni en gott engu að síður. Dökkt og þykkt í glasi. Ilmar af dökkum berjum - smávegis tannín. Passaði ágætlega með öllum þessum heita mat. Gott eftirbragð.

Þetta var virkilega góður matur. Svona ekta Texmex. Mér sýndust allavega flestir háma í sig og ekki var mikill afgangur af öllu klabbinu.

Bon appetit!