Tuesday 24 April 2012

Dásamlegt dádýrs "roast" beef með ekta kartöflugratíni og rauðvínssósuErfið vika að baki. Mikið rosalega getur verið gott að það sé kominn helgi. Núna í vikunni var ég að kynna rannsóknarverkefni mitt á vorráðstefnu sænska gigtarfélagsins. Um var að ræða fyrstu niðurstöður úr faraldsfræðiverkefni sem ég hef verið að vinna að síðasta árið. Það var heilmikil vinna að ná að klára úrvinnslu gagna til að hafa eitthvað að segja á ráðstefnunni. Og það tókst! Varð handleiðurum mínum ekki til skammar og held að ég hafi komist frá þessu sómasamlega. Þannig að núna verður slappað af!

Þessa uppskrift gerði ég síðustu helgi. Eins og oft áður þá voru það nágrannar okkar í Púkagrandanum, Gustav og Ulrika, sem færðu okkur villibráðina. Að þessu sinni var um að ræða dádýrsinnanlæri sem við fengum gefins. Þau halda reglulega að okkur villibráð, seinast fékk ég bæði elgshakk, elgsinnanlæri og villisvínahakk. Þetta er efni í endalausar veislumáltíðir að því er virðist!

Aspasinn fer bráðum að koma í verslanir. Skánn er þekktur fyrir aspasinn sem er ræktaður hér um slóðir. Hann verið ræktaður hérna síðan á sautjándu öld. Áður var hann tíndur villtur við austurströndina. Aspas frá Lundi er sérstaklega ljúffengur. Þegar hlýna fer í veðri förum við oft í hjólatúra aðeins út úr bænum. Mér finnst alltaf jafngaman að hjóla fram á litla sölubása þar sem verið er að selja ferskan aspas. Að þessu sinni fékk ég þó aspasinn frá Spáni - hann var samt nokkuð góður - en ekki eins góður og þegar maður fær hann nýskorinn af bónda á svæðinu!Dásamlegt dádýrs "roast" beef með ekta kartöflugratíni og rauðvínssósu 
Matur eins og þessi er frábær. Þetta er í raun bara að raða saman góðu hráefni. Sé maður með kjöthitamæli við hendina þá er eiginlega ekki hægt að klúðra þessum mat.Ég hafði kryddað vöðvann ríkulega með salti og pipar. Bræddi síðan smjör í pönnu og brúnaði að utan.Setti vöðvann síðan í eldfast mót. Setti nokkrar greinar af timian með og setti síðan inn í forhitaðan ofn - 130 gráður. Ég hafði sett hitamæli í kjötið og tók það út þegar það var í rétt rúmlega 60 gráðum.Eins og sagt var í titlinum á færslunni þá er þetta "ekta" gratín. Og ekta gratín er einfalt. Flysjaði niður nokkrar kartöflur og setti í gegnum matvinnsluvél til að fá alveg jafnþunnar sneiðar. Smurði eldfast mót með smjöri. Raðaði kartöflunum niður. Setti smáræði af mjög smátt skornum lauk og hvítlauk á milli laga. Þá setti ég tæplega 300 ml af rjóma og svo malaði ég smávegis af fersku múskati yfir. Síðast en ekki síst lag af rifnum bragðmiklum cheddarosti!Kjötið fékk að hvíla undir álpappír í 15 mínútur áður en það var skorið í heldur þunnar sneiðar.Kartöflugratínið var ekki lítið girnilegt þegar það kom úr ofninum. Það er eitthvað alveg dásamlegt að sökkva skeiðinni í mjúkt gratínið og sjá hvernig rýkur úr því. Ilmurinn af múskatinu kemur í gegn.

Með matnum gerði ég einfalda rauðvínssósu. Hugmyndin af þessari sósu er kominn frá sænskum veitingamanni og sjónvarpskokki, Leif Mannerström. Hann var einnig dómari í vinsælum sjónvarpsþætti - Svensk Mästarkock - þar sem sænskir áhugakokkar kepptust um að verða stjörnukokkar. Í einum þættinum var verkefnið meðal annars að gera rauðvínssósu. Nær allir keppendur gerðu sósu eftir uppskrift hans - sem er ábyggilega ágætt - ég breytti þó lítillega útaf, aðallega hvað magn varðar. Við Íslendingar viljum mikið af sósu og ekkert slor! Setti hálfan lítra af rauðvíni í pott, bætti við niðurskornum rauðlauk, 3 lárviðarlaufum, nokkrum greinum af fersku timian og síðan salt og pipar. Sauð síðan sósuna niður um 2/3 hluta og síaði síðan yfir í annan pott og bætti þá hálfum lítra af heimagerðu nautasoði saman við (það er í góðu lagi að nota tenging). Suðan fékk að koma upp og þá var hún þykkt með smjörbollu. Til að fá jafnvægi þarf alltaf að smakka sósuna til, salta og pipra og jafnvel sæta hana með rifsberjahlaupi.

Að elda aspasinn var auðvitað sáraeinfalt. Bara að grilla hann á blúsheitri pönnu og raspa síðan smáræði af parmaosti yfir. Einfalt, ekki satt?
Með matnum drukkum við rauðvín frá Frakklandi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég smakka vín frá þessum framleiðanda. Nýlega prófaði ég Gigondas frá E. Guigal sem var afar ljúffengt. Að þessu sinni prófaði ég Cotes du Rhone frá því 2007. Vínið er að mestu gert úr Shyraz þrúgu (60%) og síðan Grenache og Mourvedre. Þetta er dökkrautt vín í glasi. Ilmar af berjum, kryddað. Ágætt fylling með góðum ávexti og kryddi - jafnvel piprað. Gott eftirbragð með góðu jafnvægi.Tími til að njóta!

ps. Minni á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen - þar er hægt að bæta sér í hóp áhugamanna um matargerð mína. Þar ætla ég að reyna að vera með efni frá bæði ensku og íslensku síðunni, hlekki frá öðrum síðum, skemmtilegar tilvitnanir og mögulega skemmtileg myndbönd.

Verið velkomin!

Ragnar

Monday 16 April 2012

Croque Madame: Opin samloka "muffins style" með skinku, eggi ogbechamél sósu að hætti Rachel KhooVið höfum verið dugleg í garðinum í dag! Veðrið hefur verið fallegt og því um að gera að hreinsa til svo hægt sé að fara í að planta og sá næstu helgi. Við keyrðum í morgun í fallegt gróðurhús sem er staðsett í Flyinge og keyptum gróðurmold, nokkur blóm, kartöfluútsæði og nokkrar kryddjurtir. Ég átti ansi glæsilegan kryddjurtagarð síðastliðið sumar en það var ekki mikið sem lifði af veturinn. Mér sýnist þó graslaukurinn, estragonið og timianið ætla að hafa það af!

Það er gaman að skipuleggja garðinn fyrir sumarið. Ég ætla að sá þremur tegundum af kartöflum, möndlukartöflum, asterix og svo Maris Piper. Síðan verður settar niður nokkrar tegundir af káli, kúrbítur og eitthvað fleira. Ég keypti nokkrar tegundir af timian, rósmarín, salvíu, myntu og svo ætla að ég að sá steinselju, kóríander og basiliku. Það er fátt betra en að geta gengið út í garð og sótt kryddið í matinn! Myndin hér að ofan var tekin snemma í júní í fyrra!

Þessi uppskrift í dag er fengin frá Rachel Khoo sem er breskur kokkur sem er búsettur í París sem hefur rekið lítið veitingahús í íbúðinni sinni. Nanna Teitsdóttir - sem er með heimasíðuna - eldar í vesturheimi - , setti hlekk á sjónvarpsþætti sem voru teknir í sýningu á BBC2 nýverið en má einnig nálgast á Youtube. Þarna eldar hún sína útgáfu af þekktum frönskum réttum og meðal annars þessa útgáfu af hinni sígildu samloku, Croque Madame!

Croque Madame: Opin samloka "muffins style" með skinku, eggi og bechamél sósu að hætti Rachel Khoo.


Hráefnalisti

Hvítt brauð
Egg
Skinka
Cheddarostur
15 gr smjör
15 gr  hveiti
200-250 ml mjólk


Þetta er auðvitað sáraeinfalt. En ansi sniðugt að gera þetta svona "muffins". Mér skilst að á Íslandi hafi gengið yfir muffinsæði síðastliðin misseri. Ég veit þó ekki hvort ég kem inn í þessa bylgju á hárréttum tíma? Við sjáum hvað setur.Fyrst er að útbúa bechamélsósuna sem er í raun ekkert nema uppstúfur. Og það er ekkert mál að gera uppstúf. Bræðið 15 gr af smjöri í potti, setjið síðan jafnmikið af hveiti saman við og hrærið. Þarna er maður kominn með smjörbollu (roux). Þá hellir maður 200-250 ml af mjólk saman við og hrærir á meðan. Um leið og mjólkin sýður þykknar sósan. Saltað og piprað. Síðan má bragðbæta með því að mala negul saman við. Rachel setur teskeið af djion sem er alveg ljómandi hugmynd.Næsta skref er að skera skorpuna af brauðinu og fletja brauðið síðan út. Þá er það penslað með smjöri og sett í muffinsmót, smjörhliðina að mótinu svo auðvelt sé að ná því út. Þá setti ég smá skinkubita ofan í brauðið, svo teskeið af bechamél sósu.Þvínæst brýtur maður eitt lítið egg ofan í mótið (ef eggið er stórt þá er bara að hella smávegis af hvítunni frá) og síðan aðra teskeið af bechamél sósu.Til að toppa þetta alveg þá raspaði ég cheddarost yfir.

Bakað í 10-15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.Borið fram með smáræði af klettasalati og niðurskornum tómötum.

Þetta reyndist vera svo gott að ég var alveg miður mín!Tími til að njóta!

Wednesday 11 April 2012

Incredible Indian Lamb Shanks with Rice Pilaf, BBQ Naan Bread, Caramelized Carrots and Icelandic Beer

Hérna er upprifjun frá því í fyrra þegar við bræður elduðum þennan dásemdarrétt. Indverska lambaskanka með pilaf, naan brauði og sykur/cumin-brúnuðum gulrótum!

Endilega kíkið við á síðuna: The Doctor in the Kitchen

Bon appetit!

Sunday 8 April 2012

Gómsætur villtur og svikinn héri með villisveppasósu og kartöflumús

Það eru komnir páskar. Það hefur vart farið fram hjá neinum. Á döfinni hjá okkur er að elda réttinn sem ég var með í seinustu færslu. Eins og ég sagði þá vorum við svo heppinn að tengdafaðir minn, Eddi, kom með lambarifjur frá Íslandi þegar hann kom til okkar í heimsókn núna á miðvikudaginn síðastliðinn. Við höfum reynt að vera góð við hann þessa síðastliðnu daga. Á föstudaginn langa fórum við í langan bíltúr til Höganås og keyptum ittala glös og þegar heim var komið elduðum við steik og bernaise að beiðni eiginkonu minnar. Laugardagskvöldið matreiddum við síðan elgsinnanlæri með rauðvínssósu sem mun án efa birtast á blogginu mínu. Við höfum því ekki soltið frekar en fyrri daginn.

Við höfum ekki farið á mis við páskahretið - hér hefur verið ískalt og blásið þannig að það nísti inn að beini. Það snjóaði meira að segja í nótt og í morgun sem er óvenjulegt fyrir þennan árstíma hér á Skáni. Maður verður þá bara að kynda í arninum og hlýja sér eins og framast er kostur!

Þennan rétt þekkja flestir. Svikinn héri er klassískur nautahakksréttur sem var í miklu uppáhaldi á mínu heimili þegar ég var að vaxa úr grasi. Þetta var gjarnan borið fram á virkum dögum og þótti ansi flott. Og gott var það - ég man að ég var aldrei vonsvikinn með þennan rétt. Þetta hef ég eldað einstaka sinnum og meira að segja bloggað um það einhverntíma á bernskuárum þessa bloggs!

Að þessu sinni nota ég elgshakk sem ég fékk gefins frá nágrönnum mínum Gustav og Ulriku Brogren en Gustav er lunkinn veiðimaður. Ég ákvað að elda "hérann" í þessu terrine móti sem ég keypti þegar við vorum að ferðast um Frakkland 2010. Ég fann þennan í verslun í Colmar og það var hægt að kaupa þessa leirpotta í mörgum stærðum og gerðum og skreytta á ólíkan máta! Ég hef aldrei notað fatið áður. Það hefur mestmegnis verið til skreytingar útí í eldhúsglugga hjá mér.

Gómsætur villtur "svikinn héri" með villisveppasósu og kartöflumús 
Vilhjálmur Bjarki, sonur minn var mér innan handar í eldhúsinu, hann fékk af fylla mótið, raða eggjunum og flétta beikonið. Og var mjög svo ánægður með afraksturinn!Það fyrsta sem ég gerði var að þvo fatið! Ekki veitti af því að það hafði setið útí í glugga síðan haustið 2010 og verið notað undir kryddjurtir sem ég verið að reyna að halda lífi í! Ansi laglegur pottur, ekki satt?


Eins og ég nefndi þá hafði ég fengið gefins nokkur kíló af ólíkri villibráð. Fékk kjöt af elg, villisvíni og dádýri. Að þessu sinni valdi ég að nota elginn. Við höfum gert hamborgara úr elgshakki og það var alger upplifun. Elgur er ansi fitulítið kjöt þannig að það er ráðlegt að blanda öðru hakki samanvið. Klassískt er að bæta smáræði af feitu svínahakki saman við til að auka fituinnihaldið. Ég notaði 150 gr af nautahakki sem ég átti til inn í frysti. Samtals var þetta þá um 800 gr af kjöti.


Til að gera góðan "svikinn hérna" þarf að bragðbæta kjötið lítillega. Fyrst fínhakkaði ég einn rauðlauk, sellerístöng, gulrót og svo tvö hvítlauksrif og bætti saman við. Síðan 1-2 msk af herbes de provance (kryddblanda sem inniheldur gjarnan; rósmarín, fennel, basil, timian og stundum lofnargjörð).

Síðan setti ég 50 ml af þessum jólabjór sem ég fann inn í kæli. Þetta er óvenjulega bragðmikill og reyktur bjór. Ágætur alveg - en það kraftmikill að maður nýtur ekki nema 2-3 sopa og þá er maður mettur af þessu sérstaka bragði. En hann sómir sér vel í bakgrunni í rétti eins og þessum. Deigið var síðan hnoðað saman í hrærivélinni þangað til að það var vel blandað.Síðan lagði ég beikonsneiðar í botninn á mótinu þannig að helmingurinn stóð upp úr, þannig að hægt væri að vefja deigið alveg inn í beikonhjúp! Setti fyrst helminginn af kjötinu og raðaði síðan þremur soðnum eggjum (hugmyndin að þessu er komin frá kjötbúðingum frá Sikiley en þar tíðkast að setja soðinn egg í hleifinn). Raðaði síðan kjötinu í kring.Svona leit þetta út þegar búið var að flétta allt beikonið.Þá var hleifurinn setturinn inn í ofn og bakaður í rúma klukkustund við 200 gráðu hita. Hleifurinn lætur frá sér talsvert að vökva sem blandað er saman við sósuna. Þegar maður er með svona góðgæti má ekkert fara til spillis!Annars gerði ég einfalda sveppasósu. Steikti fyrst venjulega sveppi, kannski 5-6 stóra niðurskorna, í smá smjörklípu. Bætti síðan við nokkrum Slippery Jack sveppum sem ég hafði týnt síðasta haust (hafði látið þá liggja í sjóðandi vatni í 30 mínútur til að sjúga í sig vatnið aftur). Skar þá líka niður og bætti við hina sveppina. Geymdi vatnið til að bæta við sósuna. Saltaði og pipraði. Bætti við helmingnum af sveppavatninu og síðan öllum vökvanum af kjötinu. Skvetta af rjóma og loks var sósan þykkt með maizena mjöli.Með matnum drukkum þetta vín, sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Coto de Imaz Gran Reserva frá því 2000. Þetta er Rijoa vín frá Spáni gert úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er þroskað vín - kryddað. Þetta vín hefur bragð af þroskuðum kirsuberjum, súkkulaði með löngu og ríku eftirbragði. Passaði frábærlega með matnumVillti svikni hérinn var síðan borinn fram með einfaldri kartöflumús sem var gerð eftir hefðbundinni aðferð, með klípu af smjöri, mjólk, salt og pipar. Alger óþarfi að skreyta hana meira þar sem hérinn og sósan áttu að leika aðalhlutverkið!

Þetta var frábær máltíð!
Tími til að njóta!

Thursday 5 April 2012

Kryddhjúpaðar íslenskar lambarifjur með rótargrænmetisgratíni, grænum baunum og brúnni sósu

Jæja, nú eru páskarnir að ganga í garð. Enn ein hátíðin! Og mér sem fannst eins og jólin og áramótin bara nýafstaðin! En ekki að ég sé að kvarta, því fer fjarri. Þetta gefur manni auðvitað tækifæri til þess að reyni að spreyta sig í eldhúsinu eins og oft áður. Og ég er nokkurn veginn búinn að leggja upp með matseðlil helgarinnar. Ég var svo heppinn að áskotnast lambahryggur frá Kjöthöllinni sem tengdafaðir minn kom með frá Íslandi í gær. Hann ætlar að vera hjá okkur yfir páskana og munum við gera okkar besta að hlúa vel að honum.

Fyrir þá sem lesa bloggið mitt reglulega mun þessi uppskrift vera kunnugleg. Síðastliðið sumar vorum við í heimsókn á Íslandi og þá heimsóttum við meðal annars æskuvin minn, Sverri Norðfjörð, og eiginkonu hans Bryndísi og strákana þeirra, Hákon og Pétur. Við áttum saman alveg sérlega ljúft kvöld. Bryndís sá um matargerðina og ég hef oft nefnt það á blogginu mínu hversu góður kokkur Bryndís er! Svo góður var hann að ég hef leikið hann eftir tvívegis síðan þá! Og hyggst gera það aftur nú um páskana. Ég bregð aðeins út af fyrri færslunni með vali á meðlæti og auðvitað sósunni!

Það að verka kjötið á þennan hátt er almennt kölluð frönsk aðferð til að meðhöndla lambahrygg. Þá varðveitir maður meira af sjálfum rifjunum. Þá sker maður burtu hluta af síðunni og hreinsar síðan kjötleifar af rifjunum þannig að beinin standi út. Tengdafaðir minn fékk slátrarann í Kjöthöllinni til afgreiða þetta fyrir sig þannig að ég þarf lítið annað að gera en að byrja að elda!

Kryddhjúpaðar íslenskar lambarifjur með rótargrænmetisgratíni, grænum baunum og brúnni sósuHráefnalisti

Meðlæti - Rótargrænmetisgratin

Kartöflur
Gulrætur
Polkabeður
Salt og pipar
1 peli rjómi
300 gr ostur
Smjör/olía

Rifjur

1 kg lambarifjur
Salt og pipar
Handfylli parmaostur
1 hvítlauksrif
Handfylli brauðmylsna
Handfylli steinselja
Handfylli basil
Handfylli timian
2 msk dijon sinnep


Eins og kemur fram í titlinum bárum að þessu sinni fram aðeins frábrugðið gratin. Við flysjuðum og skárum niður bæði kartöflur, gulrætur, seljurót og svo polkabeður sem hafa þetta fallega hringmynstur þegar maður sker þær niður. Eldfast mót var smurt að innan með olíu og svo var rótargrænmetinu raðað í fatið. Saltaði vel og pipraði. Hellti síðan rúmlega pela af rjóma yfir og setti svo vel af osti ofan á. Bakað í rúman klukkutíma við 200 gráður.Fyrst voru rifjurnar þrifnar og þurrkaðar. Þá voru þær saltaðar og pipraðar og síðan brúnaðar að utan á heitri pönnu, rétt til þess að loka kjötinu. Þá voru þær settar til hliðar á meðan næstu skref voru undirbúin.Kryddblandan var búin til úr handfylli af nýrifnum parmaosti, hvítlauksrifi, handfylli af brauðmylsnu, handfylli af steinselju, basil og fersku timian og svo salti og pipar sem var allt hakkað saman í matvinnsluvél þangað til að það varð að fallegri heiðgrænni mylsnu sem ilmaði dásamlega.


Næst var síðan að smyrja lambarifjurnar með góðu frönsku dijonsinnepi - t.d. Edmont Fallot.

Og síðan velta þeim upp úr mylsnunni og síðan var þeim raðað í eldfast mót og þær bakaðar við 200 gráðu hita þangað til að kjarnhitinn náði um 65 gráðum.

Með matnum drukkum við þetta frábæra rauðvín frá Frakklandi. E. Guigal Gigondas frá því 2007. Þetta vín er frá syðri hluta Rónardalsins. Það er gert úr blöndu, mestmegnis Grenache (65%), Mourvédre (25%) og síðan Syrah. Þetta er ljómandi sopi. Djúpur rauður litur. Á bragðið kröftugur ávöxtur, eilítil sýra og góð tannín í jafnvægi. Gott eftirbragð. Þetta er vín sem hefur fengið mjög svo góða dóma af ýmsum gagnrýnendum eins og mörg vín frá þessum framleiðandi.


Sósan var eins einföld og hugsast var. Ég hafði gert lambasoð áður sem ég átti inni í frysti. Það er auðvelt að gera lambasoð - eina sem þarf er pottur og smá tími, fyrst steikja grænmeti; lauk, gulrót, sellerí, hvítlauk þangað til mjúkt. Bæta við brúnuðum lambabeinum. Fylla yfir með vatni og sjóða í nokkra tíma. Í byrjun kemur upp svona brúnleit froða sem er gott að fleyta ofan af - þ.e.a.s. vilji maður frá tært soð! Soðið sem ég hafði búið til var þokkalega kraftmikið en það þurfti að skerpa á því. Það er best gert með því að sjóða það niður þangað til maður er ánægður með kraftinn. Síðan er að þykkt með smjörbollu, salt og piprað eftir smekk. Voila!

Tími til að njóta!

Tuesday 3 April 2012

Fljótleg ofngrilluð bleikja spekkuð fetaosti og einföldu kúskús salati

Í upphafi hverrar viku höfum við reynt að elda fiskrétti. Þessi var mjög svo vel heppnuð tilraun. Eins og ég hef nefnt oft áður hefur verið á brattann að sækja að fá góðan ferskan fisk hérna á Skáni. Helst er hægt að fá eldislax frá Noregi sem er mjög góður og svo er gott úrval af ýmsum flatfiskum sem eru sóttir hérna í kringum Suður Svíþjóð! Fljótlega eftir að við fluttum prófaði ég að kaupa frosinn fisk út í búð en það þurfti ekki marga bita áður en það fór beinustu leið í ruslið. Hef ekki keypt frosinn fisk útí búð eftir þann skandall. Hins vegar keyra hérna um fiskbílar og selja fisk á okurverði. En þó oft ansi góðan fisk! Fyrir nokkru komst ég síðan í kynni við íslenska konu sem selur íslenskan fisk í Malmö og er meira að segja farin að keyra heim - www.gallerifisk.se.

Af henni keypti ég bæði þorskhnakka, löngu, skötusel og bleikju. Allt íslenskan fisk - og hefur smakkast alveg stórvel. Hef eldað allt nema lönguna. Á eftir að gera grein fyrir einhverjum af þessum réttum hérna á blogginu. Byrja þó á þessum.

Fljótleg ofngrilluð bleikja spekkuð fetaosti með einföldu kúskús salati 
Þetta er sérstaklega einfaldur réttur. Bara að taka bleikjuna út úr frystinum og leyfa henni að aðþýðast í rólegheitunum. Fiskurinn var síðan penslaður með jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo var um það bil 70 gr af fetaosti mulið yfir. Smá skvetta af agave sírópi og síðan handfylli af kapers.Ofninn var hitaður í 275 gráður og grillið blússhitað.Svona þunn flök þurfa ekki langa eldun undir grillinu - ekki meira en 7 mínútur.
Með matnum gæddum við okkur á hvítvínstári frá Ítalíu. Leonardo Trebbiano. Þetta er vín frá svæðunum í kringum Empoli, sem er mitt á milli Flórens og Pisa. Cantine Leonardo er samyrkjubú um 150 bænda sem framleiða nokkrar tegundir af víni. Þetta hvítvín er gert úr 100% Trebbiano þrúgum. Þetta vín er ljóst í glasi - sítrónutónar. Heldur þurrt vín, bragð af sítrónu og epli, létt sýra. Ágætt eftirbragð. Féll mjög vel að matnum.

Með matnum vorum bar ég fram einfalt kúskús salat. Kúskúsið var eldað eins og sagt er fyrir um á pakkanum. Steikti hálfa niðurskorna rauða papríku og aðra gula, hálfan rauðan lauk og 2 smáttskorin hvítlauksrif í jómfrúarolíu þangað til að grænmetið var farið að mýkjast. Þá var það hrært saman við kúskúsið, saltað og piprað. Nokkur græn blönduð salatlauf fengu síðan að fljóta með!

Gerðum líka ofureinfalda sýrðrjómasósu. 100 ml af léttum sýrðum rjóma var hrært saman við hálft hakkað hvítlauksrif, tsk af sírópi, safa úr hálfri sítrónu, salt og pipar.
Tími til að njóta!

Sunday 1 April 2012

Lovely 7 Hour Leg of Lamb with Proper Sauce and Oozing Cheese Gratin.

Býð lesendum í heimsókn á enska heimsíðu mína: The Doctor in the kitchen.

Í þetta skiptið býð ég upp á á lambalæri sem var eldað við lágan hita í sjö klukkustundir! Algerlega himneskt.

Tími til að njóta!