Saturday 29 December 2012

Kraftmikil gulrótar- og kjúklingabaunasúpa í nýja þrýstipottinum

Súpur eru fyrirtaks matur fyrir daganna milli jóla og áramóta! Hátíðirnar eru auðvitað svo gegnsýrðar af áti að á annan eða þriðja í jólum getur maður bara varla meira. En samt þarf maður að borða eitthvað. Og þá er ágætt að reyna fyrir sér í súpugerð. Súpur eru verðlaunandi að því leyti að þeir bera með sér keim af hollustu þó svo að einhver sletta af rjóma hafi verið notuð - sem þó er ekki raunin með þessa kraftmiklu grænmetissúpu. 

Ég fékk þennan fína þrýstipott í jólagjöf frá minni heittelskuðu. Það er auðvelt að gefa mér jólagjafir! Mig langar alltaf í eitthvað í eldhúsið - en það fer að koma sá tími þar sem hægt er að segja að ég eigi allt það helsta! 


Ég fékk þennan þýska - WMF þrýstipott 6,5 lítra sem er afar einfaldur í notkun. Ég las bæklinginn nákvæmlega og horfði á nokkur vídeó á Youtube og losnaði þar við alla hræðslu við að nota þrýstipottinn (hafði séð fyrir mér hann springa undan þrýstingi og þeyta súpu yfir allt og alla). En svo fór ekki og allt gekk ljómandi vel.

Kraftmikil gulrótar- og kjúklingabaunasúpa í nýja þrýstipottinum

Fyrst steikti ég einn niðurskorin gulan lauk, þrjú hvítlauksrif og tvær sellerístangir í jómfrúarolíu. Saltaði og pipraði. Síðan setti ég tvær kúfaðar teskeiðar broddkúmen, tvær teskeiðar papríkuduft og tvær teskeiðar af túrmeriki. Síðan setti ég átta gróft skornar gulrætur og steikti í nokkrar mínútur. Bætti þvínæst við tveimur dósum af niðurskornum tómötum, einni matskeið af tómatpúré, tveimur dósum af kjúklingabaunum og svo tveimur lítrum af kjúklingasoði. Salt og pipar. 

Lokið var sett á pottinn og honum læst - hann settur undir hæsta straum þangað til að viðunandi þrýstingi var náð og svo fékk súpan að krauma við lágan hita, nógum til að halda uppi þrýstingnum í pottinum í 25 mínútur. Væri þessi súpa gerð í venjulegum potti myndi ég sjóða súpuna á lágum hita í að minnsta kosti eina klukkustund. 

Á meðan bökuðum við flatbrauð sem Snædís hafði undirbúið, sjá uppskrift hérna

Með matnum fengum við okkur hvítvínstár. Lindemans Chardonnay búkolla er í uppáhaldi hjá móður minni. Og þetta er ljómandi hvítvín. Fallega gult á litinn, sítróna og kannski epli í nefið. Sömu tónar á tunguna með smávegis smjörkeim eins og oft er af Chardonnay hvítvínum. Passaði ljómandi vel með matnum!Rjúkandi góð súpa. Grænmetið varð fullkomlega eldað og súpan hafði djúpt arómatískt bragð eins og maður hefði eldað hana lengi!


Nærmynd af sömu súpu. Girnileg ekki satt?

Sendi öllum lesendum mínum kærar þakkir fyrir árið sem er að líða! Það verður áfram líf á síðunni minni - en kannski með eilítið öðru sniði þar sem fyrri part árs mun mikið af matarorku minni fara í að skrifa bók sem stefnt er að að komi út á næsta ári! 

Bon appetit!

Minni svo á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen! 

Sunday 23 December 2012

Þorláksmessa og skötuveisla - Það eru að koma jól!


Hin árlega skötuveisla var haldin núna eins og alltaf áður í Púkagranda 5. Þar bjóða Jónas og Hrund og börnin þeirra, vinir okkar og nágrannar, heim vinum sínum og fjölskyldumeðlimum til þessarar ágætu veislu. Þetta mun vera í fjórða sinn sem við hittumst á Þorlák og lyftum glösum og syngjum saman. Og þetta er alltaf mikið gleðistund og fyrir mína parta hefjast jólin mín í húsum þeirra. 

Að borða kæsta skötu er auðvitað stórmerkileg hefð. Ekki fyrir þær sakir að hún sé góð eða lykti vel heldur þveröfugt. Kæst skata er bæði ljótur og vondur matur - sama hvað allir skötuelskendur segja. Að bíta í skötubarð þannig að brjóskið merjist og ammóníakfnykurinn gýs upp í nefholið er nóg til að láta mann gráta. Og það gerir maður - og er ekki minni maður fyrir vikið. Þó lætur maður sig hafa þetta. Öllu er nú hægt að koma niður með bjórglas í annarri hendi og brennivínssnaps í hinni! Og hamsatólgin og dásamlega rúgbrauðið hennar Hrundar gerir það að verkum að maður raunverulega nýtur máltíðarinnar. 

Verkun skötu er auðvitað ekki merkileg saga. Skata, eins og hákarl, er brjóskfiskur og brjósk þessara dýra innihalda mikið að þvagefni. Skatan er verkuð þannig að börð hennar eru sett í fat og breytt er yfir og náttúran fær að hafa sinn gang - fiskurinn fær að rotna. Við það brotnar þvagefnið í skötunni niður og verður að ammóníaki sem gefur henni sína kæstu lykt og svæsna bragð. Að borða skötu er eins og að hýða sig til að eiga inni fyrir þeim kræsingum sem við fáum að njóta á næstu dögum!

Þorláksmessa og skötuveisla - Það eru að koma jól!

Það verður ekki mikið um uppskriftir í þessari færslu þar sem ég var ekki við stjórnvölinn! Ég fékk þó uppskriftina að rúgbrauðinu sem er alveg frábær og í mínum huga er sigurvegari dagsins.


Veisluborðið var fallega skreytt. 


Varla er hægt að matreiða skötu innandyra og þá kemur sér vel að eiga smáhýsi útí garði til að fremja þau myrkraverk sem fólgin eru í því að sjóða skötu.Jónas tók sig vel út í skúrnum. Til að þola suðuna var honum reglulega færður bjór og snaps. Það verður að koma í ljós hvort hann ber einhvern skaða af því að marinerast í skötufnyknum! En við munum fylgjast vel með honum!


Hákarl er náttúrulega bragðvondur eins og skatan. En samt er ágætt að fá sér einn og einn bita til að núllstilla bragðlaukana fyrir hátíðirnar. 


Mamma og pabbi komu með íslenskt jólabrennivín. Mamma tók það að sér að setja flöskuna í fernu og skreyta með nokkrum grenigreinum og einhverju fleiru. Fryst í sólarhring. Brennivín, bæði jólaútgáfan, og venjulegt, danskt jubileum ákavíti, gera manni kleift að komast í gegnum máltíðina með bros á vör.


Í rúgbrauðið fóru 5 bollar af rúgmjöli, 3 bollar af hveiti, 1 1/2 l af súrmjólk, 3-4 tsk matarsóda, 2-3 tsk salt og 500 g af sírópi. Hráefnunum er blandað saman í hrærivél og síðan sett í form. Bakað við 90-100 gráður í 8-10 klukkustundir. Klassískt mun vera að baka brauðið í mjólkurfernu - en gott að muna eftir því að fylla einungis fernuna að hálfu þar sem deigið á eftir að rísa um helming. 

Þetta er alveg dásamlega ljúffeng uppskrift. Hrund er vön að hefja þessar veislur með því að biðjast afsökunar á því hvernig rúgbrauðið hafi misheppnast - svo er það alltaf algerlega fullkomið - sætt og savory (þakklátur fyrir íslenska þýðingu).


Bjór og snaps - lífsbjörg skötuhatarans í skötuveislum. 


Fyrir þá sem eru ekki eins harðir í skötunni þá var líka boðið upp á þennan ljúffenga plokkfisk. Plokkfiskur er sígíldur réttur. Soðin fiskur rifin niður og blandaður með niðurskornum kartöflur, kryddaður með salti, pipar og smá karrí. Jafningurinn - klassísk bechamél sósa - 60 gr af smjöri og 60 gr af hveiti eru hrærð saman til að búa til smjörbollu og svo er lítri af nýmjólk soðinn upp í smjörbollunni þangað til hún þykknar. Blandað saman við fiskinn og sett í eldfast mót. Rifnum osti sáldrað yfir og bakað í ofni þangað til að osturinn brúnast.


Eins og fram hefur komið þá er skata ekki fallegur matur - myndin er því til sönnunar!


Hamsatólg hefur þó einhvern blæ fegurðar sem einnig finnst á flauelsfeitu bragðinu!


Kveifar eins og ég fá sér einungis smá ræfil af skötu, meira af plokkfiski, kartöflu og rófu og svo auðvitað nokkrar sneiðar að rúgbrauðinu ljúffenga.

Svo var sungið og skálað! Ég er þegar farinn að hlakka til Þorláksmessu á næsta ári!

Bon appetit og gleðileg jól!

Sunday 16 December 2012

Opnar samlokur par exellans; steikarsamloka og kjúklingaloka


Þetta er fullkominn morgunverður á sunnudagsmorgni - steikarsamloka. Þarna er hægt að nýta afganga helgarinnar á ljúffengan hátt. Svo hressir þetta líka við sálartetrið í þeim svo vöktu lengst fram eftir nóttina áður. Ég hef alla tíð verið mikill unnandi þess að fá mér góðan morgunverð um helgar; egg og beikon, ommilettu, steikta sveppi, ekta ensku fry-up, ostabrauð eða brauð með hrærðum eggjum! Endilega smellið á lagið sem fylgir færslunni til að koma ykkur í rétta stemmingu!

Ætli þessi helgarmorgunverðarhefð hafi ekki byrjað hjá föður mínum, sem á laugardagsmorgnum bauð okkur bræðrunum upp á "brauð ríka mannsins". Og það var ekki lítið sem okkur fannst þetta merkileg máltið. Þetta var samt bara brauðsneið smurt með mayonesi eða tómatsósu, næst niðurskorin pylsa (oft afgangur frá kvöldinu áður) - skorin stundum á breiddina - stundum á lengdina - stundum steikt - stundum soðin, næst steiktur laukur og svo remúlaði eða sinnep. Þetta er auðvitað bara pylsa með öllu - en þegar pabbi bjó þetta til á laugardagsmorgnum - var þetta brauð ríka mannsins!

Af og til endurtek ég leikinn en verð þó að játa að það er langt síðan síðast - ætli ég sé ekki farinn að gera mínar eigin útgáfur eins og þessar tvær;

Opnar samlokur par exellans; steikarsamloka og kjúklingaloka

Hráefnalisti:

Gott hvítt brauð
1-2 msk hvítlauksolía
1 msk dijon sinnep
Handfylli af sveppum og lauk
200 gr nautakjöt
Ostur
Jómfrúarolía
Klettasalat
2 msk mayonnaise
Afgangur af kjúklingByrjum á steikarsamlokunni sem var á boðstólum fyrir viku.


Ég hafði keypt þetta fyrirtaks franskbrauð útí búð sem ég skar í tvær þykkar sneiðar, penslaði með hvítlauksolíu og grillaði á pönnu. Smurði síðan brauðsneiðina með djionsinnepi.Steikti sveppi og lauk í smáræði af smjöri - saltaði og pipraði. Notaði þessa nýju fyrirtaks pönnu sem ég er ákaflega hrifinn af; Zwilling Spirit, sem er með keramíkhúð í stað teflon.


Svo steikti ég um 200 gr af nautakjöti í 2 msk af olíu, saltaði og pipraði. Blandaði síðan sveppunum og lauknum saman við.


Lagði kjötið ofan á brauðið og lagði síðan tvær ostsneiðar yfir það. Sett undir grillið í 3-4 mínútur - rétt til að brúna ostinn!


Girnilegt ekki satt?

Þá er bara að vinda sér yfir í næstu samloku. Ég hafði eldað kjúklinginn hennar mömmu - sjá hérna, og auðvitað var smá afgangur - og hann verður að nýta!


Fyrst ristaði ég brauðsneiðar. Smurði með mayonesi. Þá var sett klettasalat og svo kjúklingurinn sem ég hafði skorið niður - 150 gr sirka. Ég hrærði síðan 2 msk af djionsinnepi og mayonaise (50-50) saman við kjúklinginn. Skipt niður á milli tveggja brauðsneiða. Því næst setti ég tvær þykkar ostsneiðar yfir og undir grillið.


Alger success! 

Bon appetit!

Sunday 9 December 2012

Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmetiMóðir mín, Lilja María, er góður kokkur. Það eru þau reyndar bæði foreldrar mínir - og bera hvað mesta ábyrgð á þráhyggjukenndri ást minni á mat og matseld. Móðir mín á marga góða rétti í handraðanum og þessi var oft á boðstólunum á sunnudagskvöldum. Þegar við hjónin vorum að byrja að slá okkur upp - hérna snemma árs 1997, þá bauð móðir mín verðandi tengdadóttur sinni upp á þennan rétt. Snædís man vel eftir því þegar við settumst niður að borðum og gæddum okkur á þessum rétti. Ég veit ekki hvort það hafi verið ástæðan fyrir því að Snædís ílengdist með mér en það er á hreinu að það varð ekki til að ýta henni á braut!

Þetta er klassísk matseld. Nudda kjúkling upp úr góðu kryddi og baka í  ofni. Rjómalöguð sveppasósa gælir auðvitað við bragðlaukana og hefur þetta "umami" bragð sem flestum nautnaseggjum finnst eftirsóknarvert - já og flestum reyndar.

Aðferðin við að elda grænmeitið er líka fengið frá foreldrum mínum. Þau kynntust þessari aðferð þegar þau voru eitt sinn á ferð í Afríku - Suður-Afríku að mig minnir! Og fengu þar grænmeti sem var eldað á þessa vísu. Og þetta er alveg frábær aðferð - það sætir eiginlega furðu að ég skuli ekki elda þennan rétt oftar. Jæja ...vindum okkur í þetta!

Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmetiÉg keypti Bjärekjúkling, sem er frá Torekov á norðvestanverðum Skáni og alinn upp við miklu betri skilyrði en almennt tíðkast við framleiðslu kjúklings. Hann er ekki hafður í búrum, alinn á skánskum maís, engin sýklalyf, fær að lifa talsvert lengur en vaninn er við framleiðslu hefðbundins kjúklings. Og ég er sannfærður um að hann sé bragðbetri! Svona kjúkling finnst mér alltaf hafa vantað á Íslandi!

Ég lagði kjúklinginn í eldfast mót ofan á beð af grænmeti - mirapoix (eins og alltaf) - lauk, sellerí og gulrætur. Penslaði kjúklinginn með bráðnu smjöri og nuddaði með papríkudufti, salti, pipar og smá timian.

Bakað í ofni við 180 gráður þangað til að kjarnhiti náði 82-84 gráðum. Tekin út á látin standa í augnablik áður en hann var skorinn niður.


Þá að grænmetinu. Ég skar niður nokkrar gulrætur, kartöflur, eins brokkolíhaus og svo einn hvítan lauk. Grænmetið forsauð ég í vel söltuðu vatni í 10 mínútur. Vatninu hellt frá. 

Því næst skar ég niður 5 hvítlauksrif og steikti í olíu - gætti þess vel að það fengi ekki að brenna. Þegar hvítlaukurinn var glasandi setti ég grænmetið saman við og steikti í 4-5 mínútur.Ég skar niður 250 gr af sveppum sem ég síðan steikti í smjöri ásamt tveimur litlum skarlottulaukum og 2-3 hvítlauksrifjum.Steikti sveppina þangað til að þeir fóru að brúnast og gáfu frá sér hnetukenndan ilm. Þá setti ég 250 ml af heimagerðu kjúklingasoði samanvið og sauð upp. Þá pela af rjóma og sauð upp að nýju. Saltað og piprað. Hellti síðan öllum vökvanum sem rann af kjúklingum í gegnum sigti saman við sósuna og hrærði vel. Saltað og piprað. Hérna hefst síðan hin hefðbundna sósugerðarlist. Það þarf alltaf að "djassa" upp sósuna þangað til að hún er eins og hún á að vera. Þessi sósa þurfti smá soya og síðan teskeið af rifsberjasilli, aðeins meira af salti og pipar. Fullkomin!Kjúklingurinn var safaríkur, lungamjúkur og dásamlega góður á bragðið. 

Cotes du Rhone
Með matnum drukkum við þetta vín frá E. Guigal frá Frakklandi, nánar tiltekið frá Rínardalnum. Vínið er árgangur 2008, hef drukkið 2007 áður, það var ljómandi gott. Gert úr blöndu af þremur þrúgum; Syrah 60%, grenache 30 % og restin er mourvedre þrúgur. Vínið fær að liggja á eikarfati í eitt ár áður en það er sett á flöskur. Þetta vín er fallega rautt, lyktar af berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og rennur ljúflega niður! Bon appetit!


Tuesday 4 December 2012

Þegar piparkökur bakast - kökugerðarmaður tekur fyrst...Þann fyrsta desember kom jólasnjórinn til Lundar. Eins og hann hefði verið pantaður. Ég vaknaði eftir að hafa verið á næturvakt á laugardagsnóttinni og reis úr rekkju rétt efir hádegið. Börnin voru þá þegar komin út að leika sér í nýföllnum snjónum og Snædís hafði þegar neytt færis og sett í piparkökudeig sem beið inni í kæli.

Við notuðum daginn til þess að hengja upp jólaljós. Sólin er farin að setjast snemma hérna í Suður Svíþjóð og því var lítið annað að gera en að kveikja upp í arninum, á jólaljósum og á kertum. Snædís hafði yfirumsjón með piparkökubakstrinum og ég gerði ekkert annað en að taka myndir og dást að fjölskyldunni minni á þessum ágæta sunnudegi.

Seinni partinn var ég kallaður yfir til nágranna míns, Gustav Brogren, sem vantaði aðstoð við að verka dádýr sem hann hafði veitt nokkrum dögum áður. Hægt er að sjá myndir af því hérna. Þegar því verki var lokið sneri ég heim og lyktin af nýbökuðum piparkökum tók á móti mér, og Diddú á fóninum. Ekki var annað hægt en að hlakka til jólanna!Það er fátt sem yljar mitt heimska hjarta meira en að kveikja upp í kamínunni. Ást mína á eldi erfi ég frá frá föður mínum, en saman deilum við áhuganum á því að eiga nóg að bíta og brenna. Þó allt innan skynsamlegra marka.Ég vildi óska að ég hefði einhverja uppskrift af því að gera heitt kakó. Ég set bara eina plötu af suðusúkkulaði í pott, hálfan lítra af mjólk og svo kannski tvær matskeiðar af kakómalti - mjög gróflega áætlað. Svo þarf að smakka til, bæta við súkkulaði ef smekkurinn kallar eftir því, eða mjólk eða jafnvel sykri!Þessir guttar, Vilhjálmur Bjarki til vinstri og Einar Jónsson til hægri, komu inn og fengu heitt kakó og hjálpuðu til við að skera út piparkökur.

Þegar piparkökur bakast, kökugerðarmaður tekur fyrst af öllu steikarpottinn og eitt kíló margarín...

Snædís sá um að finna uppskrift og hún rakst á eina á skátavefnum. Það var því hrært í hana en sú uppskrift var heldur blaut þannig að það þurfti að bæta heldur betur við af þurrefnum til að fá þetta í jafnvægi.Fyrst var hálfu kílói af hveiti, 150 gr af sykri, tvær og hálf tsk kanil, tvær tsk engifer, ein tsk negull, ein tsk matarsóda og 1/4 tsk af pipar blandað saman í skál. 


100 gr af smjöri var brætt í pottinn og blandað saman við þurrefnin. Þá var tveimur dl af mjólk og 3/4 dl af dökku sírópi sett saman við. Hnoðað saman. Því næst var deigið vafið inn í plast og látið standa í klukkustund.


Valdís var ákaflega dugleg. Sótti deigið og skar niður í viðráðanlega bita og hnoðaði vel og rækilega.
 

Hún útbjó þessar kúlur sem voru látnar standa í augnablik á meðan unnið var með afganginn af deiginu.Efnileg dama, ekki satt!Rúllað út í þunnt lag á plötuSíðan var deigið skorið út, bæði eftir formum og svo var Valdís sérstaklega dugleg að skera út fríhendis.

Kökurnar voru síðan bakaðar við við 200°C í 8-12 mínútur.Karlar og kerlingar.Jólatré og stjörnur.Og meira að segja piparkökubörn. Svo fengu foreldrarnir smávegis af heitri jólaglögg og allir voru glaðir.

Bon appetit!

Sunday 2 December 2012

Beikonvafinn þorskhnakki með chilli-sveitafrönskum og hvítlaukssósu


Er eitthvað sem beikon getur ekki gert? Þetta er auðvitað retorísk spurning þar sem flestur matur virðist verða betri bara við það eitt að vera snertur af nokkrum beikonsneiðum. Sumum myndi kannski finnast það smáborgaralegt að nota bara venjulegt beikon þegar loftþurrkaðar skinkur gætu verið betri; pancetta eða parmaskinka væru boði. Og það gæti hreinlega verið svo! Það var nú bara þannig að ég átti nokkra beikonpakka inn í ísskáp sem ég hafði keypt á svo 3-1 tilboði úti í búð. Og þá verður bara eitthvað svona niðurstaðan. 

Og ég hafði fengið þennan dásamlega góða þorsk á Íslandi þegar við vorum í heimsókn nýverið - tíminn líður nú hratt - það var fyrir mánuði síðan. Við keyptum þennan glæsilega þorskhnakka út í fiskbúð á leiðinni á flugvöllinn, létum vakúmpakka hann og svo var honum skellt í töskuna rétt áður en tékkað var inn. Og viti menn! Þegar heim var komið var hann ennþá alveg ísskaldur. Það er víst déskoti kalt í farangursrýminu. 

Mér finnst frábært að borða fisk. Oftast reyni ég að elda hann á eins einfaldan hátt og mögulegt er, oftast pensla ég hann bara með smjöri og grilla inn í ofni. Að djúpsteikja er auðvitað dásemd en allir vita að það má maður bara gera einu sinni á ári og ég er búinn með þann skammt þegar ég djúpsteikti þennan dásamlega skötusel, sjá hérna, núna í maí síðastliðnum. Ég sýð fisk afar sjaldan - einhvern veginn hefur mér aldrei þótt það sérstaklega spennandi! Beikonvafinn þorskhnakki með chilli-sveitafrönskum og hvítlaukssósu

Þetta er auðvitað eins einfalt og hugsast getur. Eina sem þarf að passa er að vefja beikonsneiðnum vandlega hringinn þannig að þær haldist á sínum stað.


Fyrst þarf að pipra fiskinn. Það er óþarfi að salta hann þar sem að beikonið er gjarnan salt og það myndi ég ætla að væri nóg. 


Lagt í eldfast mót og smurt með smáræði af olíu. Sett inn í 220 gráðu heitan ofn í 15 mínútur.


Fiskurinn kemur út svona útlítandi - ilmar dásamlega.Við áttum þessa búkollu inn í ísskáp Drostdy-Hof Chardonnay Voigner. Ég kaupi nokkuð oft vín frá þessum framleiðanda - og finnst það alveg ágætt. Þetta eru alltaf ansi góð kaup - gott verð. Vínið er frá Suður Afríku - mildur, gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Frískandi sopi.

Með matnum gerði ég líka einfaldar sveitafranskar. Kartöflur skornar í skífur, velt upp úr olíu, saltaðar og svo sáldraði ég nokkrum þurrkuðum og hökkuðum chilli flögum yfir og síðan til að gera enn betur bætti ég við örlitlu af cheyenne pipar. 

Gerði einnig þessa einföldu sýrðrjómasósu sem ég hef gert svo oft áður. Ein dós af léttum sýrðum rjóma, einn maukaður hvítlauksgeiri, salt, pipar, ein tsk hlynsíróp, safi úr hálfri sítrónu og nokkur söxuð steinseljulauf.


Bon appetit. 

Þarf varla að taka það fram hversu dásamlega safaríkur fiskurinn var!