Saturday 29 December 2012

Kraftmikil gulrótar- og kjúklingabaunasúpa í nýja þrýstipottinum

Súpur eru fyrirtaks matur fyrir daganna milli jóla og áramóta! Hátíðirnar eru auðvitað svo gegnsýrðar af áti að á annan eða þriðja í jólum getur maður bara varla meira. En samt þarf maður að borða eitthvað. Og þá er ágætt að reyna fyrir sér í súpugerð. Súpur eru verðlaunandi að því leyti að þeir bera með sér keim af hollustu þó svo að einhver sletta af rjóma hafi verið notuð - sem þó er ekki raunin með þessa kraftmiklu grænmetissúpu. 

Ég fékk þennan fína þrýstipott í jólagjöf frá minni heittelskuðu. Það er auðvelt að gefa mér jólagjafir! Mig langar alltaf í eitthvað í eldhúsið - en það fer að koma sá tími þar sem hægt er að segja að ég eigi allt það helsta! 


Ég fékk þennan þýska - WMF þrýstipott 6,5 lítra sem er afar einfaldur í notkun. Ég las bæklinginn nákvæmlega og horfði á nokkur vídeó á Youtube og losnaði þar við alla hræðslu við að nota þrýstipottinn (hafði séð fyrir mér hann springa undan þrýstingi og þeyta súpu yfir allt og alla). En svo fór ekki og allt gekk ljómandi vel.

Kraftmikil gulrótar- og kjúklingabaunasúpa í nýja þrýstipottinum

Fyrst steikti ég einn niðurskorin gulan lauk, þrjú hvítlauksrif og tvær sellerístangir í jómfrúarolíu. Saltaði og pipraði. Síðan setti ég tvær kúfaðar teskeiðar broddkúmen, tvær teskeiðar papríkuduft og tvær teskeiðar af túrmeriki. Síðan setti ég átta gróft skornar gulrætur og steikti í nokkrar mínútur. Bætti þvínæst við tveimur dósum af niðurskornum tómötum, einni matskeið af tómatpúré, tveimur dósum af kjúklingabaunum og svo tveimur lítrum af kjúklingasoði. Salt og pipar. 

Lokið var sett á pottinn og honum læst - hann settur undir hæsta straum þangað til að viðunandi þrýstingi var náð og svo fékk súpan að krauma við lágan hita, nógum til að halda uppi þrýstingnum í pottinum í 25 mínútur. Væri þessi súpa gerð í venjulegum potti myndi ég sjóða súpuna á lágum hita í að minnsta kosti eina klukkustund. 

Á meðan bökuðum við flatbrauð sem Snædís hafði undirbúið, sjá uppskrift hérna

Með matnum fengum við okkur hvítvínstár. Lindemans Chardonnay búkolla er í uppáhaldi hjá móður minni. Og þetta er ljómandi hvítvín. Fallega gult á litinn, sítróna og kannski epli í nefið. Sömu tónar á tunguna með smávegis smjörkeim eins og oft er af Chardonnay hvítvínum. Passaði ljómandi vel með matnum!Rjúkandi góð súpa. Grænmetið varð fullkomlega eldað og súpan hafði djúpt arómatískt bragð eins og maður hefði eldað hana lengi!


Nærmynd af sömu súpu. Girnileg ekki satt?

Sendi öllum lesendum mínum kærar þakkir fyrir árið sem er að líða! Það verður áfram líf á síðunni minni - en kannski með eilítið öðru sniði þar sem fyrri part árs mun mikið af matarorku minni fara í að skrifa bók sem stefnt er að að komi út á næsta ári! 

Bon appetit!

Minni svo á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen! 

No comments:

Post a Comment