Wednesday, 30 March 2016

Frá afgöngum í veislumáltið! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi!

Það er frábært að halda góðar matarveislur - fátt finnst mér vera skemmtilegra! Þeir sem fylgjast með blogginu mínu og bókunum ættu ekki að hafa farið á mis við það! En stór hluti af því að halda matarveislu er að gera afgöngunum góð skil. Það er fátt sorglegra en að henda mat, sérstaklega góðum, fullkomlega ljúffengum mat.

Og matarsóun er stórt vandamál í heiminum í dag. Sums staðar er talið að allt að 40% af þeim mat sem sendur er í verslanir endi á haugunum. Hvílík endemis sóun. Ekki bara er það sorglegt í ljósi þess hversu margir svelta í heiminum í dag, heldur ekki síður vegna umhverfisáhrifa. Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að dýri sé slátrað til þess eins að enda á haugunum. Dýrin okkar, grænmetið, á betra skilið en að enda á haugunum.

Auðvitað er hægt að hita mat að nýju og njóta hans vel - en það er líka skemmtilegt að breyta einni ljúffengri máltíð í eitthvað allt annað - og álíka, ef ekki ennþá ljúffengara.

Afgangaveisla! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi! 

Mexíkósk eggjakaka

Fyrir fjóra til sex

6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
1 rauðlaukur
1 græn papríka
2 hvítlauksrif
10 msk kjötsósa (td. af Bolognese sósu)
15-20 jalapenósneiðar
150 g rifin ostur
6 tsk sýrður rjómi
3 msk kóríander

Miðjarðarhafs eggjakaka

6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
200 g lambakjöt (af lambalæri eða lambaframparti)
10 kirsuberjatómatar
10 kalamata ólívur
10 grænar ólívur
100 g feta ostur
2-3 msk jómfrúarolía


Allt byrjar með eggjunum. Það er alltaf þess virði að nota góð egg - ég kaupi oftast lífræn, en ávallt frá hænum sem hafa fengið að ganga frjálsar! Mér finnst það skila sér í bragðinu. 

Hrærið eggin saman við rjómann og saltið og piprið. 


Byrjum á að gera Mexíkóeggjakökuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt, skerið papríku í strimla og steikið í olíu eða smjöri þangað til að grænmetið er mjúkt og glansandi. Saltið og piprið. 


Takið grænmetið af pönnunni og bætið smjörklípu á pönnuna. Þegar smjörið er þagnað hellið þið eggjunum á pönnuna og leyfið eggjunum aðeins að taka sig. Raðið þá lauknum og papríkunni á ofan eggin, svo kjötsósunnni. Raðið þvínæst jalapenó pipar á pönnuna og sáldrið ostinum yfir. Látið eggin eldast næstum því eldast í gegn. Setjið undir grillið í ofninum til að leyfa ostinum að brúnast. 


Skreytið með sýrðum rjóma og ferskum kóríander.


Næst er svo Miðjarðarhafseggjakakan. Byrjið á því að skera utan af lambalærinu og sneiðið í smáa bita. Raðið í smurt eldfast mót. Setjið næst helmingaða kirsuberjatómata og ólívur með lambinu. Saltið og piprið. 

Hrærið eggin saman við rjómann, saltið og piprið og hellið saman við eggin. Brjótið svo fetaostinn yfir, dreifið tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu yfir og bakið í 30 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. 


Þegar ofnbakaða eggjakakan kemur út ofninum þarf bara að skreyta hana með ferskri steinselju eða með myntu sé hún við hendina.

Saturday, 26 March 2016

Bestu lambauppskriftir af blogginu! Gleðilega páska!

Páskarnir eru snemma í ár. Persónulega hef ég aldrei áttað mig á því hvernig dánardægur Krists virðast sveiflast ár frá ári, en það mun vera einhver lógík þar að baki - á fyrsta sunnudegi eftir fullt tungl á eða eftir vorjafndægri - held að þetta sé nokkurn veginn rétt hjá mér (treysti annars á leiðréttingu)? Það er löngu kominn tími á að halda annað Níkeuþing og hafa þetta bara á sama degi ár frá ári - ef það er eitthvað sem er absólút í þessu lífi þá er það fæðingardagur og dánardagur.

Í ár erum við hjónakornin í ferðalagi, barnlaus og alles! Þar sem við erum nú búsett á Bretlandseyjum þá er vitaskuld kjörið að sæta lagi og reyna að skoða þessar fallegu eyjar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ferðumst um England. Fyrir rúmum 10 árum fórum við í stutta ferð þar sem við fórum til Bath, skoðuðum m.a. Stonehenge og Cotswolds - alveg einstaklega ljúf ferð. Nú fórum við akandi til Cornwall. Byrjuðum í Padstow, þar sem sjónvarpskokkurinn Rick Stein ,rekur bæði veitingahús, kaffihús og gistiheimili. Sumir kalla bæinn Rickstow. Við ætlum líka til Port Isaac, Newquay og Fowey. Við eigum pantaða gistingu á B&B hér í kring og þetta byrjar alltént einstaklega ljúfflega. Ökuferðin hingað var í glampandi sól - en næstu dagar munu víst einkennast af hefðbundnu ensku sumarleyfisveðri - rigningu og sudda! En erum með krók á móti bragði - regnhlífar!

Þannig að páskamáltíðin hjá okkur verður með óhefðbundnu sniði að þessu sinni. Og hver veit hvar?

Niðurstaðan verður því að í þessari páskafærslu verða rifjaðar upp uppáhalds lambakjötuppskriftirnar mínar sem ég hef birt hérna á blogginu í gegnum árin.

Bestu lambauppskriftir af blogginu! Gleðilega páska! 

1. Sjö tíma lambalæri með ekta lambasósu og ostakartöflugratíni

Þetta er eiginlega í toppsætinu hjá mér! En eftir á að hyggja eftir að hafa gert þessa uppskrift nokkrum sinnum þá er hyggilegra að hafa lægra hitastig en ég gef upp í uppskriftinni. Þegar ég gerði hana í fyrsta sinn þá var ég með 100 gráður en síðar hef ég haft lægri hita og fundist það jafnvel betra. Ætli ég myndi ekki ráðleggja 75 gráður í dag. Og svo brúna kjötið í stutta stund í ofni eða á grillinu ef veður leyfir.


2. Langeldaður lambaframpartur með ferskum hvítlauk, rósmarín og splunkunýjum hvítum strengjabaunum

Ætli það hafi ekki verið Vigdís Hrefna vinkona mín sem kenndi mér að elda lambaframpart. Hún og Bassi, maðurinn hennar, buðu okkur einhverntíma í mat og elduðu lambaframpart sem var algerlega himneskur. Kjötið hreinlega rann mjúklega af beininum. Síðan þá hef ég eldað lambaframpart margsinnis. Og ekki bara er hann talsvert ódýrari, með réttum handbrögðum getur hann líka orðið ljúffengari en lambarlærið!


3. Úrbeinaður og fylltur lambahryggur "sous-vide" með gratíni, einfaldri soðsósu og baunum

Lambahryggur er í uppáhaldi hjá mörgum nautnaseggjum og það er vel skiljanlegt. Feitt og safaríkt lambakjöt er sérlega ljúffengt. Með því að úrbeina hrygginn og vefja hann upp með þessum hætti er hægt að nota beinin til að búa til kyngimagnaða soðsóðu - mun betri en nokkur teningur getur nokkru sinni töfrað fram!

Í þessari uppskrift elda ég hrygginn "sous-vide" - í poka undir þrýstingi en það er líka vel hægt að elda hann í ofni.


4. Ljúffengar lambarifjur "sous-vide" með katalónskum kartöflum, brúnni sósu og auðvitað góðu rauðvíni

Lambarifjur eru auðvitað bara niðursneiddir hryggjarbitar, en skornir á þennan hátt þá breytast þeir á einhvern hátt - þó að það sé að mestu sjónrænt. Hér eru lambabitarnir eldaðir "sous-vide" undir vatnsþrýstingi - og þannig verða þeir lungamjúkir. En eins og með alla kjötbita þá er vandræðalaust hægt að elda þá í ofni líka! Læt einn hlekk fylgja hérna með í kaupbæti - Bryndís Pétursdóttir vinkona mín kenndi mér að elda þá með kryddhjúpi! Það var eiginlega eftir að velja á milli þessara uppskrifta.



5. Ljúffengir langeldaðir lambaskankar með gorgonzola polenta og dásamlegri sósu!

Lambaskankar eru líka hráefni sem geta með réttri matseld orðið að guðafæðu. Djúpt kjötbragð eldað í langan tíma þangað til að kjötið hreinlega dettur af beinunum. Og það þarf ekki mikla kunnáttu til að elda lambaskanka. Bara fylgja einföldum leiðbeiningum og þú ert kominn með veislu. Kosturinn við lambaskanka er jafnframt að þeir eru oftast talsvert ódýrari en aðrir bitar á lambinu.


6. Langelduð lambasíða með smjörsteiktum sykurbaunum, gulrótum og einföldu salati að hætti Villa

Ég verð eiginlega að hafa þessa með. Ég held að ég hafi einhvern tíma eldað alla hluta lambsins, að undanskildu einhverju af innmatnum - en þessi biti kom mér hvað mest á óvart. Lambaslög - ég held að það séu ekki margir sem yfirhöfuð hafa séð, keypt eða hvað þá eldað lambaslög. En ég get sagt ykkur það að þau eru ljúffeng. Prófi bara og þið verðið ekki svikin - (og hérna er svo marókósk útgáfa fyrir þá sem vilja eitthvað nýstárlegt).


Ég vona að þessi færsla hjálpi ykkur eitthvað við páskaeldamennskuna. 

Bon appetit!

Monday, 14 March 2016

Marókósk matarveisla á Walpole Road; Langeldaður lambaframpartur, myntu- og grænbaunahummus, harissasósa, gufusoðið grænmeti með sítrónuolíu - jibbí


Síðastliðnir dagar hafa verið viðburðarríkir. Síðustu helgi ókum við feðginin, táningurinn og ég, til Svíþjóðar þar sem bíllinn var seldur, ég sagði upp í vinnunni í Lundi og tæmdi skrifstofuna. Á miðvikudaginn var húsið svo selt á ágætu verði og við gátum andað léttar. Svo fékk ég stöðuhækkun í vinnunni minni og mun verða Interim Clinical Director og hjálpa til að þróa starfsemina áfram og aðstoða við að finna eftirmann. Svo erum við að leggja síðustu drög á bókaskrif og það er ákaflega spennandi að sjá bókina verða til. Hún kemur út í vor og ég hlakka svo sannarlega til að sýna ykkur hana - ég er ákaflega stoltur af þessari bók!

Konunni minni líður vel í náminu og börnin eru að læra að verða Englendingar þó að það sé ekki nema til skamms tíma. Sú yngsta er meira að segja orðin altalandi á ensku, syninum líður vel og spjarar sig vel í skólanum. Táningurinn hefur tekið stórstígum framförum í skólanum og við hjónin erum afar stolt af þeim! Það er spennandi að sjá þau takast á við andbyr og ná að sigra!

En að matnum. Ég er afar hrifinn af matargerð í Norður Afríku og þá sérstaklega af marókóskum mat. Ég veit þó ekki hvort Marókkóbúar myndu kannast við þessa rétti - en þetta er alltént mín túlkun á því sem ég hef lesið í matreiðslubókum, kannað á netinu og séð í matreiðsluþáttum.

Marókósk matarveisla á Walpole Road; Langeldaður lambaframpartur, myntu- og grænbaunahummus, harissasósa, gufusoðið grænmeti með sítrónuolíu - jibbí

Fyrir sex til átta

1 lambaframpartur
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 tsk papríkuduft
salt og pipar
1 laukur
2 sellerístangir
2 þurrkaðir chili
1 hvítlaukur

3 kúrbítar
5 gulrætur
3 msk jómfrúarolía
safi úr heilli sítrónu
1 tsk fersk mynta.
salt og pipar

2 handfylli blandaðar baunir
1 handfylli blandað salat
50 g fetaostur
1/2 rauður chili
15 valhnetuhelmingar
safi úr hálfri sítrónu
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar

6 msk grísk jógúrt
2 tsk harissa
1 msk hlynsíróp
salt og pipar

150 ml hummus
100 g petit pois (ferskar frosnar baunir)
2 msk fersk mynta
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar



Það er afar auðvelt að útbúa nuddið á kjötið. Ég ristaði broddkúmen og kóríanderfræ á pönnu í nokkrar sekúndur. Færði síðan yfir í mortél og steytti með papríkudufti, salti og pipar.


Það liggur í augum uppi að kalla ætti kryddblönduna, einhverslags nudd - það er lýsandi um hvað á að gera við hana. Nudda henni inn í kjötið! Byrjið á því að nudda olíu inn í kjötið, svo kryddnuddinu sjálfu!

Slátrarinn sem ég versla við, Paul Brampton, sá um að úrbeina frampartinn og binda hann inn í svona klump. Lambakjötið var fengið frá bóndabæ rétt utan við Brighton, en borgin er umlukin grænum landbúnaðarsvæðum sem sum kallast The Downs. Ég ferðast um þessi svæði á hverjum degi á leiðinni í og úr vinnu í Eastbourne.

Ég setti kjötið inn í 160 gráðu heitan ofn í fjóra tíma eða svo. Var svo klárað undir grillinu í nokkrar mínútur til fá fallegan lit á hjúpinn. 


Harrissusósan er eins einföld og hugsast getur. Tveimur teskeiðum af harsissa er blandað saman við svo sem sex matskeiðar af grískri jógúrt. Smakkað til með hlynsírópinu, salti og pipar.


Eiginlega allir stórmarkaðir í grenndinni hér selja ferskar kryddjurtir fyrir lítin pening. Eitt búnt af myntu fær maður fyrir 120-150 krónur. Eins og gott að njóta þess meðan maður getur! 



Það er fljótlegt að gera hummus. Hérna er hlekkur á grunnuppskriftina. Ég sauð baunirnar í söltuðu vatni í þrjár mínútur, hellti vatninu frá og maukaði svo myntuna saman við baunirnar með töfrasprota. Hrærði svo hummusnum saman við. Kreisti sítrónusafa saman við og saltaði og pipraði eftir smekk. 


Fyrir salatið var bara að leggja blönduð lauf á disk. Sjóðið baunirnar í nokkrar mínútur í söltuðu vatni og látið kólna. Leggið svo ofan á salatið. Myljið fetaost yfir ásamt þurrristuðum valhnetumkjörnum. Skerið chili niður smátt og dreifið yfir. Kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir og sáldrið jómfrúarolíu jafnt yfir salatið. Saltið og piprið.


Skerið gulrætur niður í munnbitastóra bita. Hitið hálfan lítra af kjúklingasoði í potti og leggið gulræturnar í sigti í pottinn. Gufusjóðið í 15 mínútur. Bætið svo gróft skornum kúrbítnum í grindina og sjóðið áfram í 10 mínútur. Setjið í skál. Hellið tveimur til þremur msk af soðinu yfir, svo jómfrúarolíu, sítrónusafa, saltið og piprið og skreytið að lokum með ferskri myntu. 


Svo er bara að leggja á borð. Látið kjötið hvíla í 15-20 mínútur áður en það er skorið. Það verður mun safaríkara fyrir vikið. 


Lungamjúkt og dásamlega ljúffengt. 

Bon appetit!