Og matarsóun er stórt vandamál í heiminum í dag. Sums staðar er talið að allt að 40% af þeim mat sem sendur er í verslanir endi á haugunum. Hvílík endemis sóun. Ekki bara er það sorglegt í ljósi þess hversu margir svelta í heiminum í dag, heldur ekki síður vegna umhverfisáhrifa. Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að dýri sé slátrað til þess eins að enda á haugunum. Dýrin okkar, grænmetið, á betra skilið en að enda á haugunum.
Auðvitað er hægt að hita mat að nýju og njóta hans vel - en það er líka skemmtilegt að breyta einni ljúffengri máltíð í eitthvað allt annað - og álíka, ef ekki ennþá ljúffengara.
Afgangaveisla! Tvær ljúffengar eggjakökur - frá Mexíkó og Miðjarðarhafi!
Mexíkósk eggjakaka
Fyrir fjóra til sex
6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
1 rauðlaukur
1 græn papríka
2 hvítlauksrif
10 msk kjötsósa (td. af Bolognese sósu)
15-20 jalapenósneiðar
150 g rifin ostur
6 tsk sýrður rjómi
3 msk kóríander
Miðjarðarhafs eggjakaka
6 egg
50 ml rjómi
salt og pipar
200 g lambakjöt (af lambalæri eða lambaframparti)
10 kirsuberjatómatar
10 kalamata ólívur
10 grænar ólívur
100 g feta ostur
2-3 msk jómfrúarolía
Allt byrjar með eggjunum. Það er alltaf þess virði að nota góð egg - ég kaupi oftast lífræn, en ávallt frá hænum sem hafa fengið að ganga frjálsar! Mér finnst það skila sér í bragðinu.
Hrærið eggin saman við rjómann og saltið og piprið.
Byrjum á að gera Mexíkóeggjakökuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt, skerið papríku í strimla og steikið í olíu eða smjöri þangað til að grænmetið er mjúkt og glansandi. Saltið og piprið.
Takið grænmetið af pönnunni og bætið smjörklípu á pönnuna. Þegar smjörið er þagnað hellið þið eggjunum á pönnuna og leyfið eggjunum aðeins að taka sig. Raðið þá lauknum og papríkunni á ofan eggin, svo kjötsósunnni. Raðið þvínæst jalapenó pipar á pönnuna og sáldrið ostinum yfir. Látið eggin eldast næstum því eldast í gegn. Setjið undir grillið í ofninum til að leyfa ostinum að brúnast.
Skreytið með sýrðum rjóma og ferskum kóríander.
Næst er svo Miðjarðarhafseggjakakan. Byrjið á því að skera utan af lambalærinu og sneiðið í smáa bita. Raðið í smurt eldfast mót. Setjið næst helmingaða kirsuberjatómata og ólívur með lambinu. Saltið og piprið.
Hrærið eggin saman við rjómann, saltið og piprið og hellið saman við eggin. Brjótið svo fetaostinn yfir, dreifið tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu yfir og bakið í 30 mínútur í 200 gráðu heitum ofni.
Þegar ofnbakaða eggjakakan kemur út ofninum þarf bara að skreyta hana með ferskri steinselju eða með myntu sé hún við hendina.