Showing posts with label hummus. Show all posts
Showing posts with label hummus. Show all posts

Tuesday, 16 June 2020

Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar!



Valdís Eik Ragnarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð með glæsibrag. Það er alveg stórkostlega skemmtilegt að sjá barnið sitt klára menntaskóla. Athöfnin var auðvitað með öðru sniði - aðeins annað foreldrið mátti koma í hátíðarsalinn. Ég horfði á útsendinguna í gegnum netið - sem var furðuvel heppnuð. Ég var að rifna úr stolti yfir frábæra frumburðinum okkar. 

Um kvöldið var svo veisla stúdínunni til heiðurs. Þar var fjölmennt, en þó innan Covid ráðlegginga. 


Marókóskt Mese hlaðborð með ljúfum veigum - Svipmyndir frá stúdentsveislu Valdísar! 





Fyrir lambið

4 lambaframpartar
Marókósk kryddblanda - heimagerð (blanda af ristuðu broddkúmeni, kóríander auk túrmeriks, hvítlauksdufti, papríkudufti og salti og pipar. 
Beð af mirepoix (gulrætur, laukur, sellerí)
Jómfrúarolía. 


Útbjó kryddblönduna. Smurði lambið ríkulega með jómfrúarolíu og lagði á beð af mirepoix sem ég hafði skorið niður. Lambið var svo nuddað ríkulega með kryddblöndunni og bakað undir álpappír í 4 klukkustundir.


Kjötið varð lungamjúkt og leikur einn að toga beinin úr og aðskilja kjötið frá. Setti það til hliðar og geymdi í kæli til morguns.


Gerði líka fullt af brauðdeigi. Fyrst var að undirbúa flatbrauðið. Ég hef oft gert einhvers konar grillbrauð og það er einstaklega auðvelt. Gerði líklega 6 uppskriftir

Einföld uppskrift er eitthvað á þessa leið; 

Fyrir flatbrauðið

600 gr hveiti eru sett í skál
1 tsk salt
2 msk jómfrúarolíu. 
1 pakkir af þurrgeri 
30 g hunang
600-700 ml vatn



Þetta er síðan hrært saman í góðri hrærivél.  Látið hefast yfir nótt.


Skipti deiginu síðan í 12 kúlur sem fengu að hefast aftur í um klukkutíma.


Bakaði svo brauðið á pizzusteini úti á grilli. Penslaði hverja sneið með hvítlauksolíu og saltaði vandlega.


Brauðið heppnaðist mjög vel.


Um það leyti sem gestirnir voru að mæta setti ég risastóra paellupönnu á gasið og steikti rifið kjötið aftur í jómfrúarolíu og kryddaði aftur með restinni af kryddblöndunni sem ég hafði gert kvöldið áður.


Rauðbeðu- og chilihummus

2 dós kjúklingabaunir
3 msk tahini
100 g innlagðar rauðbeður
2 msk chilimauk (að eigin vali)
salt og pipar
75 ml jómfrúarolía
1 hvítlauksrif
salt og pipar


Skar einn rauðkálshaus niður með mandólíni og lagði í pækil gerðan úr þremur hlutum vatns, tveimur hlutum af góðu ediki og einum hluta af sykri. Sauð þetta upp, lét kólna og standa á rauðkálinu í tvo til þrjá tíma. Við það verður það létt pæklað - ennþá stinnt og aðeins undir tönn.


Og auðvitað var skálað fyrir stúdínunni.

Prosecco frá Piccini hefur verið í uppáhaldi hjá okkur síðan við heimsóttum framleiðandann Piccini til Toscana sumarið 2017. Þar tókum við Kristján Kristjánsson upp fyrstu sjónvarpsþættina okkar fyrir sjónvarp Símans. Algerlega ógleymanleg ferð!


Svo var ekkert annað að gera en að raða á disk, fyrst brauð og svo hlaða öllu gúmmelaðinu á brauðið.

Þetta heppnaðist vel og maturinn var nær allur snæddur upp til agna.

Til hamingju - elsku Valdís Eik. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 9 June 2019

Mesa hlaðborð með grilluðum lambalundum, hummus, salati, flatbrauði og kaldri sósu á dásamlegum sumardegi


Þó að ég hafi ótrúlega gaman af því að elda mat og kvarta ekkert undan því að þurfa að verja heilum degi í eldhúsinu, þá er það samt svo að maður hefur ekki alltaf endalausan tíma til þess að standa yfir hlóðunum. Það sem ég elska við þessa uppskrift er hversu fljótleg hún er. Og ekki veitti af þar sem ég er á vakt um helgina og kom heim nokkuð lúinn. 

Þessi uppskrift kom eiginlega úr nokkrum áttum. Ég var eitthvað að kíkja í gegnum gamlar færslur á blogginu, eins og þessa, sem er frá því 2007. Í gær var ég svo eitthvað að spekúlera hvað ég ætti að gera við lambalundirnar sem við höfðum keypt og póstaði uppskrift sem ég gerði á sólardegi seint síðastliðið sumar, sjá hérna. Þegar heim var komið leitaði hugurinn til Norður-Afríku og ég rifjaði upp að ég hef nokkrum sinnum bloggað um Mesa hlaðborð (eins og ég sé þau fyrir mér - en ég hef aldrei komið til þessara landa), sjá hérna og hérna

Þannig að úr varð þessi uppskrift - sem var eiginlega gerð á hlaupum! En hún varð ljúffeng engu að síður. 

Mesa hlaðborð með grilluðum lambalundum, hummus, salati, flatbrauði og kaldri sósu á dásamlegum sumardegi

Hráefnalisti fyrir 4-5

1 kg lambalundir
4 msk jómfrúarolía
1 msk broddkúmen
1 msk kóríanderfræ
1 msk papríkuduft
1 msk hvítlauksduft
2 tsk pipar
1 tsk sítrónupipar
2 tsk salt
1 tsk laukduft
250 g aspasspjót

Fyrir köldu sósuna

1 lítil dós grísk jógúrt
2 msk hvítlauksolía
handfylli mynta og steinselja
1 msk fljótandi hunang
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Fyrir brauðið 

3 bollar hveiti
200 ml súrmjólk
150 ml vatn
þurrger
2 msk jómfrúarolía
1 msk sykur
salt og pipar

Fyrir hummus

1 dós kjúklingabaunir
2 msk tahini
2 hvítlaukif
safi úr hálfri sítrónu
150 ml jómfrúarolía
salt og pipar

Ætli það sé ekki skynsamlegast að byrja á brauðinu. Blandið þurrefnunum saman og bætið svo súrmjólkinni og olíunni saman við. Það er svo breytilegt hvað þarf mikið af vatni til að binda allt deigið. Hnoðið í nokkrar mínútur og látið svo hefast í þrjú kortér. 


Þá er að skola og þerra lambalundirnar og leggja í skál.


Ég útbjó kryddið með því að blanda öllum kryddunum saman í mortéli og steyta svo vandlega saman.


Svo velti ég lundunum upp úr jómfrúarolíu og kryddi og lét standa úti á borði á meðan ég undirbjó aðra hluti matarins.


Hummus er fljótlegur. Skola kjúklingabaunirnar, setja í matvinnsluvél ásamt tahini, hvítlauk og sítrónusafa og blanda saman, salta og pipra. Svo er olíunni helltsaman við í hægum straumi. Sett í skál, meiri olíu sáldrað yfir og svo örlitlu af papríkudufti.

Kalda sósan var líka fljótleg. Setti jógúrtina í skál, bætti hvítlauksolíu saman við, hunangi og svo fullt af smáttskornum ferskum kryddjurtum - myntu og steinselju. Einnig sítrónusafa og smáttskorinn börk af sítrónunni. Saltaði og pipraði og lét standa á meðan eldamennskan hélt áfram.


Fann þennan fallega aspas útí búð. Skar neðan af honum. Velti upp úr olíu, saltaði og pipraði og lagði á fat.


Gerði þetta ofureinfalda salat. Ég held að eitthvað hafi breyst í framleiðslu á fetaosti hjá Dalaostum, án þess að ég þori að fullyrða um það. Mér finnst þessi ostur hafa breyst mikið. Hann er mun mýkri og sýran hefur verið „tónuð niður“ sem mér finnst mikið til bóta. 


Raðaði nokkrum salatlaufum á blað, skar niður tómata og rauðlauk með mandólíni, muldi ostinn yfir, skreytti með fersku basil. Sáldraði svo góðri olíu yfir og smá sítrónusafa.


Notaði grillpönnu ofan á gasgrillið til að steikja brauðið. Ég hellti smá olíu í hendurnar á mér og togaði brauðið til við grillið og skellti því svo bara beint á plötuna. Þegar brauðið var steikt að utan færði ég það upp á efri grindina til að bakast.


Svo var bara að grilla lambalundirnar og aspasinn. Það tekur nú ekki langan tíma að elda þetta hráefni.


Svo er bara að raða þessu upp á fat, kalla á krakkana og fá þá til að leggja á borð.


Brauðið penslaði ég svo með hvítlauksolíu og saltaði aðeins. Það heppnaðist ótrúlega vel - þó það hafi verið kastað nokkuð til verksins.


Ég fékk þessa flösku gefins um daginn. En þetta vín var að vinna til verðlauna sem bragðbesta rósavín í ár á stórri vínhátið. Og þetta vín fær afbragðsdóma á vivino.com. Sem er skiljanlegt - vínið er meiriháttar. Ilmar af sumri, ávexti - það er brakandi ferskt, skarpt ávaxtabragð. Ef þetta er ekki sumarvín þá veit ég ekki hvað. Og það er jú sól í kortunum.


Þetta var sannkölluð veislumáltíð á mettíma! 

Verði ykkur að góðu! 



------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 16 July 2017

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, salati og marineruðum fetaosti


Við fluttum heim fyrir rétt tæplega ári síðan. Og það er óhætt að segja að þetta ár hafi liðið leifturhratt. Maður verður stundum orðlaus yfir því hvað tíminn leyfir sér að líða. Börnunum okkar hefur gengið vel að aðlagast aðstæðum; Valdís byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð og gengur ljómandi, Vilhjálmur unir sér vel í Ártúnsskóla og Ragnhildur Lára brosir út að eyrum. Snædís kláraði framhaldsnámið sitt - og fer til Englands að viku liðinni til að útskrifast. 

Fyrir ári síðan kom gámurinn okkar frá Svíþjóð í götunni okkar á Ártúnsholtinu. Við vorum í Englandi þannig að foreldrar mínir hóuðu saman vinum og ættingjum og gámurinn var tæmdur á mettíma. Við ætluðum auðvitað að vera löngu búin að blása til veislu og þakka þessu dásamlega fólki fyrir - en svona fór það - ári síðar komum við saman í Urriðakvíslinni og skáluðum. 

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, hvítlaukssósu, salati og marineruðum fetaosti

Og við gerðum gott betur en það - við heilgrilluðum lamb. Og það er ótrúlega gaman - það vekur svo mikla undrun hjá gestum, sérstaklega börnum sem reka upp stór augu þegar þau sjá að kjötið kemur raunverulega af heilum skeppnum. 

Fyrir 40 

1 lambaskrokkur
1 l jómfrúarolía
1 staukur marokkóskir draumar
Salt og pipar

3 hvítir laukar
10 hvítlauksrif
5 msk jómfrúarolía
3 rauðir chilipiprar
5 dósir tómatar
1/2 túba tómatpúré
tabaskó
salt og pipar

4 dósir kjúklingabaunir
4 msk tahini
safi úr tveimur sítrónum
6 hvítlauksrif
salt og pipar
500 ml jómrúarolía

400 g fetaostur
handfylli rósapipar
1 rauður laukur
handfylli steinselja og mynta
salt og pipar

Nóg af tortillum


Byrjið á því að skola skrokkinn og þerra. 


Við notuðum kryddblönduna sem ég útbjó með Krydd og tehúsinu - þetta er blanda sem ég útbjó fyrir bókina mína, Grillveisluna, sem kom út í fyrra. Hún er sérstaklega ljúffeng. Þetta er blanda úr papríkudufti, broddkúmeni, engifer, pipar og fleira góðgæti. Hún er einstaklega góð á lamb og kjúkling. 


Fyrst er að þræða lambið upp á spjót. Ég á mótorknúið spjót sem ég keypti í Svíþjóð sem er ansi þægilegt.

Ég blandaði heilum stauk af marokkóskum draumum saman við jómfrúarolíuna og penslaði í þykku lagi á allt lambið.


Svo er gott að fá svona vanan grillmann til að hjálpa sér - Tómas Hermannsson, bókaútgefandi. Hann hefur heilgrillað lamb mörgum sinnum.


Það skiptir miklu máli að stjórna hitanum eins vel og maður getur. 


Þegar lambið fór að brúnast heldur mikið á slögunum - klæddum við lambið í pils.


Eftir þrjá og hálfan tíma var kjötið tilbúið!


Maður þarf fyrst að skoða það aðeins. Að mínu mati reyndist það vera fullkomlega eldað.


Svo er bara að skera.


Og skera meira!


Svo er um að gera að hafa þennan mann, Ingvar Sigurgeirsson, föður minn og svo einnig bróður minn, Kjartan innan handar til að hjálpa til við að snara meðlætinu fram á mettíma. 


Skerið laukinn, hvítlaukinn, chilipiparinn niður gróft og steikið í olíu. Saltið og piprið. Hellið tómatinum, púréinu útí og sjóðið upp. Bragðbætið með salti, pipar og tabaskó. 


Setjið fetaostinn í skál og hellið jómfrúarolíu yfir. Þessi mynd var tekin úr bókinni minni - þar sem ég marineraði með ólífum og kapers. En fyrir veisluna notaði ég rósapipar og rauðlauk. 


Hummus er eins einfaldur og hugsast getur. Kjúklingabaununum, tahini og hvítlauk er blandað saman í matvinnsluvél. Svo hellir maður olíunni þangað til að hummusinn fær þá þykkt sem óskað er eftir. Næst sítrónusafa og svo er saltað og piprað

 

Skerið grænmetið niður - og blandið saman við salatið. 


Við vorum með fína fordrykki - Gin og grape - sem sló heldur betur í gegn! 


Nóg af bjór - það er nauðsynlegt þegar maður er með grillveislu. 


Svo vorum við með Masi Modello - rauðvín frá svæðunum í kringum Veróna. Þetta er vín sem er auðvelt að drekka og passar ljómandi vel með bragðríkum mat eins og við vorum að bera fram. 


Svo er bara að njóta. Rista tortilluna á grillinu og leggja á disk, svo chilitómatsósu, lambið, hummus, salat og marineraðan fetaost. 

Hreinasta sælgæti!