Thursday 26 August 2021

Dúndur forréttur - Serranóvafin hörpuskel með brenndu salvíusmjöri


Hörpuskel er kjörið að bera fram sem forrétt til að tendra bragðlaukana. Hana má ekki elda lengi, annars er hætta á að hún verði gúmmíkennd og jafnvel seig undir tönn.

Serranóskinka kemur frá Spáni og er einstaklega bragðgóð. Auðvitað væri hægt að nota parmaskinku eða jafnvel beikon. Ef beikon verður fyrir valinu er nauðsynlegt að steikja það í gegn. Beikonið ver hörpuskelina fyrir hitanum og leggur til ljúffengt bragð.

Steikt salvía er sælgæti og passar hreint út sagt ljómandi vel með þessum rétti. En það verður auðvitað að nota ferska salvíu. Þurrkuð salvía mun ekki gera neitt fyrir réttinn – nema gera hann verri! Og það er engin ástæða til að skemma dásamlega góðan mat!

Fyrir fjóra sem forréttur

12 hörpudiskar
6-12 sneiðar serranóskinka (háð stærð)
safi úr ½ sítrónu
salt og pipar
75 g smjör
12-15 salvíulauf


Vefjið hverja hörpuskel með hálfri til einni sneið af serranóskinku, penslið með olíu, vætið með ferskum sítrónusafa, saltið og piprið.

Rennið tveimur spjótum í gegnum hörpuskelina (þá er maður snarari við að snúa þeim og það heldur skinkunni á sínum stað – jafnframt er mikilvægt að láta spjótin liggja í vatni í um klukkustund til að síður kvikni í þeim).


 

Kyndið grillið og þegar það er blússheitt er hörpuskelin elduð í eina til eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Setjið til hliðar.


 

Skellið pönnu á grillið og bræðið smjörið. Þegar það hefur hljóðnað er salvían sett á pönnuna og steikt þar til hún verður stökk – hafið auga með pönnunni þar sem þetta tekur einvörðungu nokkrar sekúndur.

Leggið svo hörpuskeljarspjótin á disk, raðið salvíu ofan á og hellið brúnuðu salvíusmjöri yfir.



 Njótið.!