Tuesday 31 July 2012

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu& kaperssmjöri og gómsætukartöflusalati

þorskur

Okei! Það eiga sennilega ekki margir eftir að lesa þessa færslu. Ég hef lært það á því að hafa bloggað í núna rúmlega fimm ár að "fisk"færslur fá alltaf færri heimsóknir en kjötfærslur. Bökunar- og jólafærslur fara hinsvegar í gegnum þakið! Svo hafa ansjósur ótrúlega slæma ímynd - og algerlega að ósekju. Ansjósur sem eru marineraðar í jómfrúarolíu eru ótrúlega ljúffengar! Þær hafa líka þann kostinn að hafa bragðaukandi áhrif, svipað og þriðja kryddið (mónósódíum glútamat) nema það er fullkomlega náttúrulegt. Og þegar fiskurinn hefur steikst í smjörinu gefur það sérlega gott bragð - ekki fiskibragð eins og margir ímynda sér. Það er mjög gott að lauma ansjósum í ýmsa pastarétti og kássur - sjáiði til!

En fisk og ansjósur (sem er líka fiskur) í sömu færslunni. Ég er heppinn ef fleiri en 10 lesa alla færsluna!
En fyrir ykkur sem lesið alla færsluna og við þann sem síðan eldar réttinn vil ég segja: "You are in for a treat" - þar sem niðurstaðan var algerlega stórkostlega. Þorskurinn er góður einn og sér - en með ansjósu- og kaperssmjöri, það voru einfaldlega allir í skýjunum! Bókstaflega í skýjunum. Meira að segja börnin voru ánægð! 

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu- og kaperssmjöri & gómsætu kartöflusalati

 Þorskur eitt 

Fyrst var að sjóða kartöflur - ég hafði fengið nýjar kartöflur útí búð - sem ég sauð í ríkulega söltuðu vatni í u.þ.b 15 mínútur. Síðan var vatninu hellt af og þær fengu að kólna. Þá hrærði ég saman 3 msk af sýrðum rjóma, 1 msk af dijon, 1 msk af hlynsírópi, 1 smátt saxaðan, lítinn rauðlauk, handfylli af hakkaðri ferskri steinselju - salt og pipar saman við. Sett inn í kæli.

Þá skolaði ég þorskhnakkastykki sem ég hafði keypt frosin hjá Gallerí fiski og þurrkaði. Penslaði með bræddu smjöri og saltaði og pipraði.

Þá bræddi ég 100 gr af smjör í potti og þegar smjörið var farið að hitna setti ég 5 flök af söxuðum ansjósum saman við og bræddi í smjörinu, þá 2 msk af kapers, svo 2 msk af saxaðri steinselju, salt og pipar og safa úr 1/4 sítrónu.

Hitaði grillið á fullt - 275 gráður og grillaði fiskinn í 8-10 mínútur þangað til að hann var eldaður í gegn.
two oceans
Two Oceans

Með matnum drukkum við smá hvítvínsdreitil. Hafði keypt hvítvínsbúkollu eftir ráðleggingum vínkonsultants Sydsvenskan (mest lesna dagblað á Skáni) Andrési Fagerström. Að þessu sinni hafði ég keypt vín frá Suður Afríku, Two Oceans Sauvignion Blanc frá 2010. Þetta er heldur þurrt vín, með talsverðum ávaxtakeim, eplum og létt á bragðið. Ljómandi sopi. Það er svo gott að geta seilst inn í kæli á heitum kvöldum eftir smá hvítvínstári

Þorskur nærmynd 

Svo var bara að raða á disk. Fiskbiti - matskeið af smjöri á hvern bita. Væn skeið af kartöflusalati. Smáræði af fersku salati.
Bon appetit! 

Monday 23 July 2012

Grillaðar rauðar pylsur með pækluðum rauðlauk, dijonmayo, kotasælu og salati

Við komum úr sumarbústaðnum seinni partinn í gær. Við höfðum byrjað daginn með látum með því að þrífa allt húsið hátt og lágt! Síðan ókum við sem leið lá til Kaupinhafnar og gengum smá hring frá Kongens Nytorv út á Nørregade í verslunina Notre Dame þar sem við keyptum smá nauðsynjar fyrir barnaherbergin. Síðan mjökuðum við okkur heim á leið til Lundar þar sem við vorum komin heim á réttum tíma til að skella í mat. Það er, að mínu mati, ekki hægt að stoppa í Kaupinhöfn án þess að fá sér Hot Dog med de hele! Og svo eina Cocio með! Það er bara eitthvað dásamleg pervertískt gott við þessa kombination sem gleður mitt heimska hjarta.

Í morgun vaknaði ég svo með pylsur á heilanum. Ég fór eins og oft áður í sunnudagsfótboltann með Íslendingum úr nágrenninu um morguninn og þegar heim var komið, um hádeigisbil, gauluðu garnirnar. Ég átti nokkrar rauðar pylsur sem orðið höfðu afgangs frá því úr sumarbústaðarferðinni og því var í lófa lagið að skella þeim á grillið og gæða sér á þeim í hádegisverð. En samviskan leyfði ekki alveg að ganga alla leið - þannig að mér datt í hug þessi "hollari" aðferð. Og svei mér þá ef þetta verður ekki endurtekið - Púkapylsur, a new dish is born!

Grillaðar rauðar pylsur með pækluðum rauðlauk, dijonmayo, kotasælu og salati

hollar pylsur 2

Og meðlætið er nú einfalt. Ég sótti ferskt salat út í garðinn minn, hrærði aðeins í kotasælunni. Blandaði saman matskeið af mayonaise við eina matskeið af djion sinnepi.

Síðan saxaði ég niður hálfan rauðan lauk, heilan, rauðan tómat. Teskeið eða svo af balsamik ediki, síðan 1 msk af hvítlauksolíu, salt og pipar. Hrærði og lét standa í nokkrar mínútur.

pylsur 1

Svo er eiginlega ekkert annað að gera en að kynda undir grillinu. Grilla pylsurnar þangað til að þær eru á mörkunum á því að springa. Hita brauðin.

Síðan er bara að raða. Fyrst að smyrja brauðin að innan með dijon-mayonaisinu, svo niðurskorið salat úr garðinum, svo kotasæla, þá pylsan og svo rauðlauks/tómatsalsa.

pylsur 2

Bon appetit!

Wednesday 18 July 2012

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum ogsveitakartöflum

hamborgrara

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hamborgara áður - en kannski ekki eins oft og þessi herramannsmatur á skilið þar sem ég er mikill aðdáandi alvöru hamborgara og þá sér í lagi ostborgara. Snemma árið 2010 fór ég í heimsókn til vinar míns í Danmörku sem hafði efnt til mikillar ostborgaraveislu fyrir okkur félaga sína. Sú veisla var innblásin af þessari síðu sem er á vegum ostaframleiðenda í Wisconsin í Bandaríkjunum. Ég bloggaði um þessa veislu hérna um árið og hlaut fyrir vikið heiðurssæti á Facebooksíðu Cheese and Burger Society of America (jippí - what an honor!).

Við erum núna stödd í sumarleyfi á vesturströnd Danmerkur rétt utan við bæinn Stauning við Ringköbingfjörð. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir, leigði hérna stórt sumarhús við ströndina og bauð dætrum sínum og fjölskyldum þeirra hingað í tilefni sextugsafmælis síns. Upp úr ferðatösku eins ferðalangsins komu þessir dásamlegu íslensku ostar og þá varð augljóst að við urðum að efna til ostaveislu að einhverju tagi. Úr varð þessi hamborgaraveisla.

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum og sveitakartöflum

Hamborgararnir voru hnoðaðar saman úr 100% sænsku nautahakki og voru svo kryddaðir með salti, pipar, hvítlaukskryddi og smávegis af papríkudufti. Einu sinni var ég alltaf að blanda laufkryddi, lauk, hvítlauk og mylsnu og svoleiðis saman við hakkið en ég er alveg hættur slíku. Leyfi bara kjötinu að njóta sín eins og það er - með smá kryddi. Jónas félagi minn bætir stundum gráðaosti saman við nautahakkið og það smakkast alveg ljómandi.

Grillað þangað til að kjötið var medium rare! Þannig finnst mér það best.

ostar2

Eins og áður hefur komið fram höfðu okkur áskotnast nokkrar tegundir af ostum sem framleiddir eru af Mjólkursamsölunni í Búðardal. Þarna voru tvær tegundir af höfðinga, Stóri Dímon, Kastali, Dalahringur og svo tveir nýir ostar - Ljótur og Auður.

sveitakartöflur2

Við gerðum líka ofnbakaðar sveitafranskar með matnum. Hvað er hamborgari án franskra - tja ... mun léttari máltíð en líka fátæklegri! Frönskunum var velt upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo smáræði af hvítlaukskryddi og svo raðað á ofnplötu og bakaðar í 45 mínútur.

ostar3

Við létum ostana standa í 30 mínútur og jafna sig áður en þeir voru skornir niður og raðað á hamborgarana. Þannig mýkjast þeir og bragðið fær betur að njóta sín. Eins voru ostarnir ekki settir á hamborgarana á meðan þeir voru á grillinu. Ég vildi ekki bræða þá alveg niður - mér finnst bragðið af mygluostum tapast við þá meðferð - harða osta finnst mér gott að bræða niður en mygluostar eiga skilið aðeins ljúfari meðferð, maður vill jú njóta bragðsins!

hamborgari1

Myndirnar virðast kannski vera pínú "sloppí" en mér finnst maturinn engu að síður vera nokkuð girnilegur! Við vorum auðvitað með hefðbundið hráefni með borgurunum; salat, tómata, lauk, tómatsósu, sinnep og mayonaise, auk allra ostana.

Til vinstri er hamborgari með Ljótum - sem er mygluostur sem sver sig í ætt við franska Roquefort ostinn þó að sá íslenski sé mun mildari en hin franski! Til hægri er svo Auður sem er einkar ljúfur og bragðgóður hvítmygluostur.

hamborgari3

Hérna er svo Auður í nærmynd - nammi namm!

hamborgari5

Hér tróna svo tveir höfðingjar á toppnum. Blár höfðingi til vinstri og svo hin ljósi til hægri. Sælgæti!

rosemount
Rosemount

Með matnum drukkum við svo þetta rauðvín. Rauðvín og ostar passa, jú, svo vel saman. Að þessu sinni hafði ég keypt búkollu. Rosemount Shiraz Cabernet frá Ástraliu. Eins og nafnið gefur til kynna þá er vínið blanda úr tveimur þrúgum - 60% Shiraz og 40% Cabernet Sauvignion. Þetta er berjaríkt vín með ágætis fyllingu, tannín og mildu eftirbragði. Ljómandi góður sopi!

hamborgari4

Hér er svo ein lokamynd. Þetta var sannkölluð ostahamborgaraveisla - sælustunurnar voru við siðgæðismörk!

Bon appetit!

Wednesday 11 July 2012

Grilluð flankasteik með graslaukssósu og steiktum lauk & sveppumÉg man ekki eftir því að hafa séð þennan bita, flankasteik, á meðan ég bjó á Íslandi. Það getur auðvitað verið vegna þess að ég var ekkert sérstaklega að leita að þessum bita! Hvað um það - þá er þetta afar góður grillbiti. Yfirleitt er hann á mjög góðu verði miðað við "betri bitana" á nautinu og afar hentugur á grillið. Hér í Svíþjóð og mun víðar er þetta afar algeng sjón í verslunum á þessum árstíma. Ég er alveg sannfærður um að þetta er hægt að finna í betri verslunum og í versta falli hægt að panta þetta hjá góðum slátrara eins og fólkinu sem vinnur í Kjöthöllinni!

Bitar eins og þessir hafa gott af því að fá smávegis marineringu áður en þeir eru lagðir á funheitt grillið. Svo er mikilvægt að hafa í huga að sneiða þá þunnt niður þegar búið er að elda þá og muna eftir því að skera þvert á vöðvaþræðina - þannig tryggir maður að bitinn verði mjúkur og góður. Á myndinni hér að ofan má sjá að flankasteik er fengin af neðanverðum kviðveggnum.

Ég naut þess að kollegi minn kom mér í samband við nautabónda á norðanverðum Skáni sem ræktar Angus nautgripi á lífrænan hátt og ég var því með í panta hlutdeild í nauti sem var slátrað núna snemma í vor. Ég á því marga góða bita í frystinum - bæði á grillið og í hamborgara fyrir sumarið og svo í kássur þegar fer að hausta.

Grilluð flankasteik með graslaukssósu og steiktum lauk & sveppum

Fyrst er að krydda nautið. Ég hafði fengið sendingu frá Skerjaveri, þau eru þekktust fyrir að framleiða "best á lambið", og studdist við kryddblöndu frá þeim - best á nautið. Þetta er ljómandi góð kryddblanda sem inniheldur blöndu af sítrónupipar, svörtum pipar, rósmarín, papríku, basil og steinselju. Ég bætti við smá cheyenne pipar, meira af papríku og svo maldon salti!

Fyrst penslaði ég steikina með jómfrúarolíu og makaði síðan blöndunni vel á allar hliðar kjötsins. Lét svo kjötið standa inn í ísskáp í rúmlega klukkustund.Flankasteik

Ég held að það skipti höfuðmáli að gefa kryddinu smá tíma til þess að komast inn í ysta lag kjötsins.

Sveppir&laukur

Skar niður einn rauðan lauk, einn gulan lauk og svo um það bil 15 sveppi sem ég steikti í smáræði af olíu, saltaði vel og pipraði. Setti nokkrar greinar af sítrónutimian og lét það steikjast með og læða bragði sínu inn í grænmetið!

á grillinu

Ég setti svona þykka grillplötu á grillið. Það varð alveg rjúkandi heitt. Steikin sem var kannski bara 3-4 cm þykk var steikt í 2 mínútur á hvorri hlið. Það þurfti ekkert meira.

graslaukssósa

Ég hef bloggað mikið af hvítum sósum upp á síðkastið. Mér finnst kaldar sósur oft vera svo viðeigandi með grillmatnum. Það gefur manni líka þá "illusion" að maturinn sé léttur. Alltént var þessi sósa gerð úr tveimur desilítrum af léttum creme fraiche, tveimur hökkuðum hvítlauksgeirum, fullt af graslauk - smátt skornum, salti, pipar og smá hunangi til að sæta. Skreytt með graslauksblómum (sem blómstra um miðjan júní í garðinum mínum).

grænmeti steikt

Grænmetið var sett í skál og skreytt með nokkrum ferskum sítrónutimian laufum.

rare steak

Kjötið var að mestum hluta "rare" - sem mér finnst vera ljómandi. Þynnri endi kjötsins passaði vel fyrir þá sem vildu "medium rare".

Lindemans
Lindemans

Með matnum drukkum við smáræðis dreitil af Lindemans Bin 50 - Shiraz sem er frá Ástralíu. Þetta er auðvitað vel þekkt vín á Íslandi. Hérna í Svíþjóð er hvítvínið mjög vinsælt en rauðvínið frá þeim vín sem þarf að panta. Ég rakst á þetta í Systembolaget nýverið á ágætu verði og varð ekki svikinn. Þetta vín er þykkt í glasi. Mikill ávöxtur í nefi. Bragðið örlítið sultukennt með smá krydduðum keim og ágætu eftirbragði.

steak bon appetit!

Borið fram með ákaflega einföldu salati. Klettasalati úr garðinum, tómötum, papríkur og tómötum.

Bon appetit!

Thursday 5 July 2012

Grill grill grill: fylltar litríkar papríkur, grillaðarkjúklingabringur og gróft flatbrauð

Þrátt fyrir að þetta hafi verið kaldasti júnímánuður í Svíþjóð nánast síðan að mælingar hófust þarf ekki mikla sól til þess að maður fari í grillskap. Það er auðvitað alltaf skemmtileg stemming að grilla - ég held að flestir séu sammála um það. Og á sumrin verður þetta nánast eins og múgæsing. Og ekki að ástæðulausu - grillmatur er svo góður. Og það má eiginlega setja hvað sem er á grillið. Svo þarf ekki alltaf að láta barbekjú sósu (þó að hún sé auðvitað déskoti góð) leika aðalhlutverkið á grillmatnum. Að þessu sinni fékk BBQ sósan að bíða í ísskápnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég geri fylltar papríkur, þær hef ég gert nokkrum sinnum og meira segja bloggað um það einu sinni áður, sjá hér. Þá fyllti ég þær með steiktu grænmeti, beikoni og smávegis af hvítmygluosti. Að þessu sinni sótti ég innblástur til Miðausturlanda - kúmin (cummin - ekki kúmen/caraway) er bragð sem ég kann sérstaklega vel við. Og þetta krydd var rauði þráðurinn að þessu sinni!

Svo sé ég að fleiri eru að gera fylltar papríkur og greina frá því á blogginu sínu. Eva Laufey Kjaran er ung kona sem er afar metnaðarfullur matarbloggari. Þessa uppskrift, birti hún nýverið í pistli í Smartlandi Morgunblaðsins, sem er ákaflega girnileg og ég á ábyggilega eftir að herma eftir. Hún er líka með heimasíðu sem mér finnst gaman að kíkja á, www.evalaufeykjaran.com. Hún bakar mikið af kökum og býr til annað góðgæti og tekur mikið af fallegum myndum. Check it out!

Grill grill grill: fylltar papríkur, grillaðar kjúklingabringur og gróft flatbrauð

fylltar 1

Papríkurnar leika aðalhlutverkið að þessu sinni. Fyrst sauð ég 250 gr af Puy linsum í söltuðu vatni í 25 mínútur. Vatninu var síðan hellt frá og linsurnar settar til hliðar í augnablik.

Skar svo niður einn lauk, þrjá hvítlauksgeira, hálfa sæta kartöflu og eina gulrót. Hitaði olíu á pönnu og steikti síðan grænmetið þangað til að það var mjúkt. Bætti svo saman við einni kúfaðri teskeið af kúmeni, túrmeriki og kóríander. Saltaði og pipraði. Þá fóru linsurnar saman við ásamt einni dós af hökkuðum tómötum, ein matskeið af tómatpuré og svo ein tsk af sírópi til að balansera bragðið. Hitað að suðu og þá lagt til hliðar. Skar toppinn af fjórum papríkum og hreinsaði kjarnann út. Fyllti með linsunum.

fylltar papríkur 1

Ætlaði að tylla haloumiosti ofan á - en hafði láðst að kaupa hann svo að ég notaði það sem var til - sem var mozzarellaostur. Fetaostur hefði líka verið afbragð, en ég átti hann ekki til heldur.

fylltar eldaðar

Papríkurnar voru settar á óbeinan hita á grillinu og voru tilbúnar á rúmum hálftíma.

kjúklingabringur

Að krydda kjúklingabringurnar var nokkuð einfalt. Útbjó kryddblöndu gerða úr einni teskeið af kúmeni, túrmeriki, papríkudufti, hálfri tsk af möluðum fennelfræjum, salti og pipar. Fyrst penslaði ég bringurnar með jómfrúarolíu og svo makaði ég kryddblöndunni á bringurnar. Grillað í 10 mínútur á hvorri hlið þangað til eldað í gegn.

gróft flatbrauð

Flatbrauðið var gert á eftirfarandi hátt. Fyrst vakti ég 15 gr af geri í 300-400 ml af volgu vatni, ásamt einni msk af sykri. Blandaði 300 gr af hveiti, 300 gr af rúgmjöli, salti og tveimur msk af jómfrúarolíu. Þegar gerið var farið að freyða er vökvanum blandað saman við hveitið. Hnoðað í fimm mínútur. Síðan blandaði ég saman einni dós af kjúklingabaunum og svo einni teskeið af kúmenfræjum. Blandað saman í mínútu en þess gætt að að kjúklingabaunirnar maukist ekki alveg.

Flatt út og penslað með hvítlauksolíu, saltað og piprað. Grillað á báðum hliðum.

matur og rósavín

Borið fram með einfaldri jógúrtsósu. tveir dl af jógúrt, tvær msk af söxuðum myntulaufum, tvö hökkuð hvítlauksrif, salt, pipar og smá skvetta af hlynsírópi.

gallo_ro_769_savi_769_n.png
Gallo White Grenache

Með matnum fengum við okkur smá tár á rósavíni. Á sumrin, þegar heitt er í veðri er gott að fá sér léttvínsglas. Og þegar sólin skín finnst mér rósavín alltaf ansi ljúffengt. Rósavíni er almennt ekki gert hátt undir höfði en eru ansi vinsælt hérna í Svíþjóð. Þetta var létt og gott vín, kalt úr ísskápnum. Gert úr grenache þrúgum þar sem hýðið fær að liggja á safanum í sólarhring til að gefa víninu sinn rósableika lit. Ávaxtaríkt og frískandi.

Bon appetit!

P.s. Takk fyrir undirtektirnar á Facebook - The Doctor in the Kitchen - Gleður sannarlega. Núna þarf aðeins tæplega 400 likes í viðbót og þá mun ég éta grísahöfuð! Endilega hjálpið mér að láta það verða að veruleika!