Showing posts with label Rosemount. Show all posts
Showing posts with label Rosemount. Show all posts

Thursday, 22 January 2015

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti

Um síðustu helgi var okkur hjónum boðið í matarboð til Önnu Margrétar og Tomma, eigenda Sagna, sem gefa út bækurnar mínar. Og þar var aldeilis fín veisla. Anna hafði fengið veður af því að við hjónin værum í grænmetismánuði og gerði handa okkur frábæra rétti byggða á nýútkominni bók Önnu Jones; A modern way to eat! Við fengum þríréttaða veislu. Fyrst ljúffenga rústik tómatsúpu, svo spaghetti með avacadó, sítrónu og steinselju (geðveikt) og svo hráköku með rjóma í dessert. Ég var svo hrifinn af þessum réttum að Anna gaf mér bókina sína (ekki slæmt það). Hvet ykkur til að eignast þessa bók - með öllum þessum girnilegu réttum. Þið getið smellt beint á myndina til að komast á Amazon.




Alltént, daginn eftir var ég að lesa í gegnum hana og sá þá þessa uppskrift; Proper chili, á blaðsíðu 182. Getur grænmetischili slegið kjötréttinum við ... varla. Og það var bara ein leið til að komast að því - með því að prófa. Og svei mér þá, þetta er eitt besta chili sem ég hef fengið. Ég breytti eilítið út af leiðbeiningum hennar með því að bæta við kanelstöng og svo breytti ég hlutföllunum í baunum og korni þar sem ég átti ekki alveg það sem hún ráðlagði. Svona er þetta alltaf með uppskriftir, þær taka alltaf breytingum. Og niðurstaðan var algert dúndur. Þetta reyndist svo góður réttur að Snædís klappaði af ánægju. Ég hefði ekki átt að segja henni að uppskriftin hafi verið að mestu stolin, þá hefði heiðurinn verið allur minn!


Að öðru. Ég sá aðallista Eymundsson fyrir síðustu viku. Og mikið óskaplega var gaman að sjá að bókin mín gengur ennþá ljómandi vel og það eftir jólin. Þið vitið ekki hvað þetta fyllir mann mikilli gleði! Ég er fullur þakklæti! Takk fyrir frábærar móttökur, allar athugasemdirnar ... meiriháttar.

Dásamlegt chili sin carne með nachos, rifnum osti, gulum baunum og rifnum osti 


Hráefnalisti

Fyrir 8-10

1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
5 cm engifer
1 rauður chili
jómfrúarolía
2 tsk chiliduft
2 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
1 kanelstöng
3 lárviðarlauf
1 msk chipotlemauk
2 dósir niðursoðnir tómatar
150 g Puy linsur
150 g bulgur
200 g quino tricolore (blandað)
400 g blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, augnbaunir og brúnar baunir)
1,5 l kjúklingasoð
2 tsk kakóduft
salt og pipar

Meðlæti

Nachosflögur (eða tortilla)
1 niðurskorið chili
gular baunir
rifinn ostur
ferskur kóríander


Fyrsta skref var að skera laukinn, hvítlaukinn, engiferið og chili og steikja í heitri olíu þangað til mjúkt. Lét kanelstöngina og lárviðarlaufin vera með strax frá upphafi. Saltað og piprað. 


Næst var að bæta við öllu kryddi; chilidufti, broddkúmeni, kóríander, chipotlemauki, kakódufti og blanda vel saman og steikja í nokkrar mínútur. Næst var að hella tómtötunum saman við og hita að suðu. 


Svo þarf að skella linsunum saman við. Þær þurfa 30 mínútna suðu. 


Svo bulgur og quinoa. 


Þegar 10 mínútur eru eftir af suðunni þarf bara að skola af baununum og blanda saman við kássuna. 


Kássan þarf ekki nema 35-45 mínútna suðu. 


Með matnum nutum við þessa ljómandi góða rauðvíns. Rosemount Shiraz frá 2013. Þetta er ástralskt vín sem ég hafði ekki bragðað áður. Vínið er ferskt með ágætri berjafyllingu sem mér fannst passa vel með kraftmiklum mat eins og þeim sem við vorum að bera fram. Gaf ekkert eftir. 



Svo er bara að raða á disk. Nachos, chili, ostur, ferskt chili, kóríander. Og svo bara njóta.

Grænmetisveislan virðist endalaus.



Wednesday, 18 July 2012

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum ogsveitakartöflum

hamborgrara

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hamborgara áður - en kannski ekki eins oft og þessi herramannsmatur á skilið þar sem ég er mikill aðdáandi alvöru hamborgara og þá sér í lagi ostborgara. Snemma árið 2010 fór ég í heimsókn til vinar míns í Danmörku sem hafði efnt til mikillar ostborgaraveislu fyrir okkur félaga sína. Sú veisla var innblásin af þessari síðu sem er á vegum ostaframleiðenda í Wisconsin í Bandaríkjunum. Ég bloggaði um þessa veislu hérna um árið og hlaut fyrir vikið heiðurssæti á Facebooksíðu Cheese and Burger Society of America (jippí - what an honor!).

Við erum núna stödd í sumarleyfi á vesturströnd Danmerkur rétt utan við bæinn Stauning við Ringköbingfjörð. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir, leigði hérna stórt sumarhús við ströndina og bauð dætrum sínum og fjölskyldum þeirra hingað í tilefni sextugsafmælis síns. Upp úr ferðatösku eins ferðalangsins komu þessir dásamlegu íslensku ostar og þá varð augljóst að við urðum að efna til ostaveislu að einhverju tagi. Úr varð þessi hamborgaraveisla.

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum og sveitakartöflum

Hamborgararnir voru hnoðaðar saman úr 100% sænsku nautahakki og voru svo kryddaðir með salti, pipar, hvítlaukskryddi og smávegis af papríkudufti. Einu sinni var ég alltaf að blanda laufkryddi, lauk, hvítlauk og mylsnu og svoleiðis saman við hakkið en ég er alveg hættur slíku. Leyfi bara kjötinu að njóta sín eins og það er - með smá kryddi. Jónas félagi minn bætir stundum gráðaosti saman við nautahakkið og það smakkast alveg ljómandi.

Grillað þangað til að kjötið var medium rare! Þannig finnst mér það best.

ostar2

Eins og áður hefur komið fram höfðu okkur áskotnast nokkrar tegundir af ostum sem framleiddir eru af Mjólkursamsölunni í Búðardal. Þarna voru tvær tegundir af höfðinga, Stóri Dímon, Kastali, Dalahringur og svo tveir nýir ostar - Ljótur og Auður.

sveitakartöflur2

Við gerðum líka ofnbakaðar sveitafranskar með matnum. Hvað er hamborgari án franskra - tja ... mun léttari máltíð en líka fátæklegri! Frönskunum var velt upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo smáræði af hvítlaukskryddi og svo raðað á ofnplötu og bakaðar í 45 mínútur.

ostar3

Við létum ostana standa í 30 mínútur og jafna sig áður en þeir voru skornir niður og raðað á hamborgarana. Þannig mýkjast þeir og bragðið fær betur að njóta sín. Eins voru ostarnir ekki settir á hamborgarana á meðan þeir voru á grillinu. Ég vildi ekki bræða þá alveg niður - mér finnst bragðið af mygluostum tapast við þá meðferð - harða osta finnst mér gott að bræða niður en mygluostar eiga skilið aðeins ljúfari meðferð, maður vill jú njóta bragðsins!

hamborgari1

Myndirnar virðast kannski vera pínú "sloppí" en mér finnst maturinn engu að síður vera nokkuð girnilegur! Við vorum auðvitað með hefðbundið hráefni með borgurunum; salat, tómata, lauk, tómatsósu, sinnep og mayonaise, auk allra ostana.

Til vinstri er hamborgari með Ljótum - sem er mygluostur sem sver sig í ætt við franska Roquefort ostinn þó að sá íslenski sé mun mildari en hin franski! Til hægri er svo Auður sem er einkar ljúfur og bragðgóður hvítmygluostur.

hamborgari3

Hérna er svo Auður í nærmynd - nammi namm!

hamborgari5

Hér tróna svo tveir höfðingjar á toppnum. Blár höfðingi til vinstri og svo hin ljósi til hægri. Sælgæti!

rosemount
Rosemount

Með matnum drukkum við svo þetta rauðvín. Rauðvín og ostar passa, jú, svo vel saman. Að þessu sinni hafði ég keypt búkollu. Rosemount Shiraz Cabernet frá Ástraliu. Eins og nafnið gefur til kynna þá er vínið blanda úr tveimur þrúgum - 60% Shiraz og 40% Cabernet Sauvignion. Þetta er berjaríkt vín með ágætis fyllingu, tannín og mildu eftirbragði. Ljómandi góður sopi!

hamborgari4

Hér er svo ein lokamynd. Þetta var sannkölluð ostahamborgaraveisla - sælustunurnar voru við siðgæðismörk!

Bon appetit!

Saturday, 9 December 2006

Fyrsta færsla

Jæja...þá er ég búinn að opna þetta blogg. Sniðugt.

Hugmyndin með þessari síðu er að halda dagbók yfir aðgerðir mínar í eldhúsinu - uppskriftir og svoleiðis. Reyna að hafa þetta á svona dagbókarformi - og skrá þannig reglulega hvað fer fram í eldhúsinu mínu - þetta er auðvitað stolin hugmynd. Ég var nýlega að lesa bók eftir Nigel Slater sem heitir Kitchen Dairies og þar rekur hann eldamennsku sína í eitt ár - frábær bók - og alveg þjóðráð að herma eftir. Ef maður getur ekki fengið góðar hugmyndir þá bara stelur maður þeim frá einhverjum öðrum.

Það er nú eiginlega hægt annað en að koma þá allavega með eina góða uppskrift í upphafi.
Þessi frábæri pasta réttur var í matinn hjá mér seinasta sunnudagskvöld. Hugmyndin var fengin frá Armando Percuoco sem er ítalskur kokkur búsettur í Ástralíu og rekur veitingahús í Sydney.

Truffle eggjapasta

Ef maður fylgir uppskriftinni til hlýtar þarf maður að geyma nokkur egg í kassa með hvítum trufflum (jarðsveppum - fokdýrir sveppir sem vaxa neðanjarðar við rætur eikatrjáa og einhverra annarra trjátegunda). Ég gerði ódýrari útgáfu af þessum rétt.

Sauð upp pela af matreiðlsurjóma, blandaði 1 msk af trufflu olíu saman við þegar suðan var kominn upp og leyfði þessu að sjóða aðeins niður. Á meðan sauð ég spaghetti í miklu vatni - söltuðu. Þegar spaghettíið var soðið, hellti ég vatninu af og setti svo pastað aftur í pottinn og rjóma/trufflublönduna saman við. Leyfði því að standa - með lokið á - á meðan ég steikti egg á pönnu. Léttsteikt þannig að þau voru ennþá ansi blaut.

Því næst er pastanu hrært rækilega og sett á disk og skreytt basil. Saltað og piprað. Eggið lagt ofan á og ríkulegu magni af parmisanosti raspað yfir.

Því næst er þessu blandað saman og borðað. Mér fannst þetta ákaflega gott en Snædísi (konunni minni) fannst trufflan aðeins væmin ...en samt kláraði hún matinn sinn og vel það!



Rosemount GTR passaði ekki alveg með þessum mat - þar sem það er fullsætt á bragðið.