Wednesday 18 July 2012

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum ogsveitakartöflum

hamborgrara

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um hamborgara áður - en kannski ekki eins oft og þessi herramannsmatur á skilið þar sem ég er mikill aðdáandi alvöru hamborgara og þá sér í lagi ostborgara. Snemma árið 2010 fór ég í heimsókn til vinar míns í Danmörku sem hafði efnt til mikillar ostborgaraveislu fyrir okkur félaga sína. Sú veisla var innblásin af þessari síðu sem er á vegum ostaframleiðenda í Wisconsin í Bandaríkjunum. Ég bloggaði um þessa veislu hérna um árið og hlaut fyrir vikið heiðurssæti á Facebooksíðu Cheese and Burger Society of America (jippí - what an honor!).

Við erum núna stödd í sumarleyfi á vesturströnd Danmerkur rétt utan við bæinn Stauning við Ringköbingfjörð. Tengdamóðir mín, Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir, leigði hérna stórt sumarhús við ströndina og bauð dætrum sínum og fjölskyldum þeirra hingað í tilefni sextugsafmælis síns. Upp úr ferðatösku eins ferðalangsins komu þessir dásamlegu íslensku ostar og þá varð augljóst að við urðum að efna til ostaveislu að einhverju tagi. Úr varð þessi hamborgaraveisla.

Gómsætir grillaðir hamborgarar með íslenskum dalaostum og sveitakartöflum

Hamborgararnir voru hnoðaðar saman úr 100% sænsku nautahakki og voru svo kryddaðir með salti, pipar, hvítlaukskryddi og smávegis af papríkudufti. Einu sinni var ég alltaf að blanda laufkryddi, lauk, hvítlauk og mylsnu og svoleiðis saman við hakkið en ég er alveg hættur slíku. Leyfi bara kjötinu að njóta sín eins og það er - með smá kryddi. Jónas félagi minn bætir stundum gráðaosti saman við nautahakkið og það smakkast alveg ljómandi.

Grillað þangað til að kjötið var medium rare! Þannig finnst mér það best.

ostar2

Eins og áður hefur komið fram höfðu okkur áskotnast nokkrar tegundir af ostum sem framleiddir eru af Mjólkursamsölunni í Búðardal. Þarna voru tvær tegundir af höfðinga, Stóri Dímon, Kastali, Dalahringur og svo tveir nýir ostar - Ljótur og Auður.

sveitakartöflur2

Við gerðum líka ofnbakaðar sveitafranskar með matnum. Hvað er hamborgari án franskra - tja ... mun léttari máltíð en líka fátæklegri! Frönskunum var velt upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo smáræði af hvítlaukskryddi og svo raðað á ofnplötu og bakaðar í 45 mínútur.

ostar3

Við létum ostana standa í 30 mínútur og jafna sig áður en þeir voru skornir niður og raðað á hamborgarana. Þannig mýkjast þeir og bragðið fær betur að njóta sín. Eins voru ostarnir ekki settir á hamborgarana á meðan þeir voru á grillinu. Ég vildi ekki bræða þá alveg niður - mér finnst bragðið af mygluostum tapast við þá meðferð - harða osta finnst mér gott að bræða niður en mygluostar eiga skilið aðeins ljúfari meðferð, maður vill jú njóta bragðsins!

hamborgari1

Myndirnar virðast kannski vera pínú "sloppí" en mér finnst maturinn engu að síður vera nokkuð girnilegur! Við vorum auðvitað með hefðbundið hráefni með borgurunum; salat, tómata, lauk, tómatsósu, sinnep og mayonaise, auk allra ostana.

Til vinstri er hamborgari með Ljótum - sem er mygluostur sem sver sig í ætt við franska Roquefort ostinn þó að sá íslenski sé mun mildari en hin franski! Til hægri er svo Auður sem er einkar ljúfur og bragðgóður hvítmygluostur.

hamborgari3

Hérna er svo Auður í nærmynd - nammi namm!

hamborgari5

Hér tróna svo tveir höfðingjar á toppnum. Blár höfðingi til vinstri og svo hin ljósi til hægri. Sælgæti!

rosemount
Rosemount

Með matnum drukkum við svo þetta rauðvín. Rauðvín og ostar passa, jú, svo vel saman. Að þessu sinni hafði ég keypt búkollu. Rosemount Shiraz Cabernet frá Ástraliu. Eins og nafnið gefur til kynna þá er vínið blanda úr tveimur þrúgum - 60% Shiraz og 40% Cabernet Sauvignion. Þetta er berjaríkt vín með ágætis fyllingu, tannín og mildu eftirbragði. Ljómandi góður sopi!

hamborgari4

Hér er svo ein lokamynd. Þetta var sannkölluð ostahamborgaraveisla - sælustunurnar voru við siðgæðismörk!

Bon appetit!

4 comments:

  1. Ragnar Freyr Ingvarsson18 July 2012 at 13:39

    Hérna er athugasemd

    ReplyDelete
  2. "nokkrar tegundir af ostum sem framleiddir eru af Mjólkursamsölunni í Búðardal."

    Fluttuð þið virkilega íslenska plastosta til Danmerkur?
    Flytjið þið íslenskt heimabruggað rauðvín með ykkur þegar þið farið til Frakklands?

    ReplyDelete
  3. Ragnar Freyr Ingvarsson18 July 2012 at 18:50

    Sæll Jón G.

    Ég flutti ekki með mér neina osta frá Íslandi en fékk þá að gjöf frá fólkinu sem kom til okkar til Svíþjóðar. Þá tók ég svo með mér til Danmerkur svo þeir myndu ekki skemmast á meðan við værum á ferðalagi

    Þessir ostar finnst mér persónulega mjög góðir - og ekki neitt plastkenndir eins og þú vilt kalla þá. Annars hef ég líka smakkað marga góða danska osta og er þegar byrjaður að borða þá - þar sem við erum búin að borða það helsta sem við komum með okkur frá Skáni.

    Og nei, ég myndi alls ekki flytja með mér íslenskt heimabrugg til Frakklands - vínið myndi ég kaupa á staðnum.

    Bestu kveðjur, Ragnar

    ReplyDelete
  4. Hamborgarar geta verið flottir ,jafnvel boðið upp á þá á 4 stjörnu veitingahúsum.Spanna sem sagt skalann frá sjoppum upp í góð 3-4 stjörnu veitingarhús.Spanna semsagt allan skalann .

    ReplyDelete