Wednesday 29 February 2012

Lovely Italian pot-roast with mashed potatoes, mixed tomato salad and ahealthy drop of wine

Hérna er upprifjun frá því í haust. Þá eldaði ég þessa dásamlegu ítölsku pottsteik sem heppnaðist alveg stórvel.

Ef þið hafið áhuga þá getið þið kíkt á færsluna á ensku á heimasíðu minni: The Doctor in the Kitchen.

Bon appetit!

Sunday 26 February 2012

Knassandi heimagert Vínarsnitzel með kryddsmjöri og fersku salatiVið erum búin að dvelja í Ölpunum síðastliðna viku. Eins og undanfarin ár gistum við hjá vinum okkar á Skihotel Speiereck sem liggur við rætur fjallsins Speiereck. Hótelið er staðsett í litlum fallegum bæ, St. Michael. Hingað erum við að koma núna í fimmta sinn - og hefur dvöl okkar lengst í hvert sinn. Í ár náum við 13 dögum á skíðum og jafnlöngum tíma af ljúfu alpalífi. Síðastliðna viku voru góðir vinir okkar með okkur hérna á á hótelinu. Þessa viku erum við svo heppin að foreldrar mínir og bróður komu og verða með okkur á skíðum síðari vikuna. Fall er þó fararheill, þar sem bæði sonur minn, Villi, og pabbi veiktust skyndilega og liggja núna í bælinu og reyna að jafna sig. Ég hef nokkrum sinnum bloggað hérna frá Ölpunum; hérna er frásögn af grísnum góða! Og hérna eldaði ég nautalund með öllu fyrir hótelgesti - kíkið á þetta!


Þessi uppskrift er augljóslega innblásin af Ölpunum. Vínarsnitsel er næstum eins og þjóðarréttur hérna - það er selt á öllum stöðum hér í Ölpunum. Það væri vandræðalaust að borða snitsel í hvert mál - að minnsta kosti einu sinni á dag - sé löngunin nægileg. Sverrir, æskuvinur minn, sem var með okkur í seinustu viku er mikill snitselunnandi og komu upp hugmyndir að smíða "app" til að hafa í símanum til að aðstoða svanga að finna næsta snitselstað. Ég er sannfærður að það væri markaður fyrir svoleiðis aðstoðarforrit - allavegana myndi ég punga út nokkrum krónum fyrir að hafa svona forrit í símanum mínum. Sverrir - láttu slag standa!

Ég fékk ráðleggingar um gerð þessa snitzels frá kollega mínum Tómasi Mandl sem á ættir að rekja til Austurríkis. Hann benti mér á að kaupa kótilettur með vænni fiturönd. Hann nefndi að maður ætti að skera röndina af og nota hana til steikingarinnar - þannig myndi brauðhjúpurinn verða miklu stökkari og meira knassandi. Og hann hafði rétt fyrir sér. Ég brá mér því til vinar míns, Holmgrens slátrara, og sótti þessar dýrindis svínakótilettur.

Knassandi heimagert Vínarsnitzel með kryddsmjöri og fersku salati


Hráefnalisti

1 kg grísakótilettur
Salt og pipar
Smjör/olía
500 gr hveiti
500 gr brauðmolar

Kryddsmjör:

150 gr smör
2 hvítlauksrif
Handfylli steinselja
3 ansjósuflök
Salt og pipar

Eins og ég nefndi sótti ég þessar girnilegu grísakótilettur til slátrarans. Ég skar þær af beininu og svo skar ég fituröndina alveg af.Síðan var ekkert annað að gera en að lemja kótilettuna með kjöthamri þangað til að hún verður um 3ja mm þykk.Síðan skar ég fituna niður í tenginga. Setti svo smá blöndu af smjöri, olíu og svo fituna í pönnu og setti undir lágan hita, þannig að fitan bráðnar hægt og rólega - og fituröndin verður stökk og gullinbrún. Hún er síðan veidd upp úr olíunni og sett til hliðar. Siðblindir nautnaseggir geta síðan saltað röndina og etið eins og snakk (óhollara verður það ekki - og ætlar undirritaður hvorki að játa eða neita að hafa gert slíkt!).Síðan er að undirbúa brauðhjúpinn. Gott er að bæta smá salti og pipar í hveitið og hrærðu eggin. Þá er grísakótilettunum velt fyrst upp úr hveitinu, svo í eggjahræruna og síðast í brauðraspinn.Hitinn er hækkaður aðeins undir pönnunni og vínarsnitselið er steikt við miðlungshita þangað til að það er orðið fallega gullið á báðum hliðum.Lagt til hliðar í volgan ofn á meðan næsta er steikt. Raðað á disk.Ég hafði undirbúið kryddsmjörið áður en ég steikti kjötið. Það var líka fljótgert. Setti 150 gr af smöri við herbergishita í matvinnsluvélina, tvö hvítlauksrif, handfylli af steinselju, þrjú flök af ansjósum í olíu (ekki hafa áhyggjur af þessu - ansjósurnar munu ekki skilja eftir sig fiskbragð, heldur sterkt "umami" bragð af smjörinu sem mun lyfta öllum réttinum) og svo auðvitað salt og pipar!Hakkað vel saman í vélinni þannig að ansjósurnar hverfi eiginlega inni í smjörið.Sett á álpappír, mótað í sívaling - eða svona karmellu - og sett í frystinn í 20-30 mínútur. Tekið út rétt áður en átti að bera fram snitselið.Með matnum drukkum við þetta ágæta rauðvín. Trivento Celeccion Fincas Malbec frá því 2009. Þetta er prýðisgott rauðvín, dökkrautt í glasi. Ilmar af ávöxtum, plómum, kryddað. Á bragðið ávaxtaríkt, kryddað með ágætum tannínum og eikarkeim. Kollegi minn ráðlagði mér að hafa ölglas við hönd en á laugardagskvöldi langar mann bara gjarnan í rauðvínsglas. Og mér fannst þetta passa ljómandi vel saman.

Við bárum fram matinn með ofnbökuðum kartöflum sem við höfðum skorið í fleyga. Velt upp úr smá jómfrúarolíu, salt og pipar og svo bakað inn í ofni í 30 mínútur. Nokkur salatlauf fengu einnig af fylgja með til þess að maður geti ímyndað sér að einhver hollusta fengi að vera með á disknum. Þannig fær maður minna samviskubit. Það hverfur síðan alveg þegar maður gæðir sér á þessu dásamlega góðgæti! Og þegar smjörið bráðnar ofan á snitselið... You'd think you had died and gone to heaven!Tími til að njóta!

Wednesday 22 February 2012

The Perfect Oven Roast Potato! Viva Potatoes!

Fyrir áhugasama þá er hérna upprifjun af síðunni minni, snarað yfir á enska tungu.

Hvet alla til að prófa þessa útgáfu af ofnbakaðri kartöflu - verða varla betri.

Verið velkominn á: The Doctor in the Kitchen

Bið að heilsa úr Austurísku Ölpunum!

Með bestu kveðju, Ragnar

Ps. Ný færsla á okkar ylhýra móðurmáli er í vændum!

Sunday 19 February 2012

Gómsæt Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu


ragnarobertauern

Nú fer að líða að því að við höldum af stað til Austurríkis. Við erum virkilega spennt að leggja í hann - enda er þetta stóra fjölskyldufríið okkar. Við höldum suðureftir núna á föstudagseftirmiðdaginn og keyrum sem leið liggur niður til St. Michael í Austurríki. Fjölskyldan mín hefur hálf gaman að því hvað ég er spenntur fyrir þessari ferð. Ég er fullur af einhverskonar barnslegri tilhlökkun. Að renna sér niður brekkur - er eðlilegt að fullorðin maður hafi svona gaman að því að leika sér? Þið munið taka eftir því að það verður lítið um að vera á síðunni næstu vikur - kannski að maður laumi inn einstaka færslum úr Ölpunum! Myndin hér að ofan var tekin af undirrituðum á 35 ára afmælinu þegar við vorum í Austurríki í fyrra - dásamlegur dagur!

Þessi réttur var á borðum núna síðastliðna helgi - þá vorum við með frændfólk Snædísar í heimsókn. Það er ekki oft sem ég tek upp á því að grilla á veturna. Það kemur þó fyrir. Að minnsta kosti einu sinni á vetri er kynnt upp undir grillinu - maður dúðar sig upp og fer út í kuldann með grillspaðann í einni hendi og brjóstbirtu í hinni. Það er alltaf sérstök stemming að grilla í myrkrinu. Vasaljósappið í símanum mínum kom að góðum notum!

Hugmyndin að þessum rétt er kominn frá Chef John sem er með heimasíðuna foodwishes.com sem er ákaflega skemmtileg síða sem ég mæli eindregið með. Hann er með stutt vídeó um einstaka rétti - mjög aðgengilegt allt, svo hljómar hann líka einkar vinalega sér í lagi þegar hann líkur myndböndunum sínum með orðunum "enjoy" með feitri og mildri amerískri röddu.

Beurre Noir er tegund af smjörsósu þar sem maður steikir smjörið lágan hita þangað til að það að það fer að brúnast eilítið - þá er maður kominn með beurre noisette - sem hefur ljómandi hnetukeim og er gjarnan notað t.d. á fiskrétti. Við ætlum að steikja smjörið ögn lengur, í dökk brúnan lit (ekki brenna) og þegar smjörið er orðið dökkbrúnt er einhverslags sýru bætt saman við, t.d. sítrónusafa eða einhverju ediki. Vík að því síðar. Við munum meira að segja svindla dálítið á þessum fornu hefðum.

Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu 

preppingthesauce

Fyrst bræðir maður 1 msk af smjöri við lágan hita á pönnu, eftir að það byrjar að freyða set ég síðan einn niðursneiddan hvítlauksgeira og steiki áfram við lágan hita - hvítlaukurinn á ekki að brenna en mun taka smá lit af smjörinu.

beurrenoir

Þegar smjörið hefur brúnast hellti ég 250 ml af góðu balsamikediki saman við og sauð upp. Þegar suðan var komin upp bætti ég kúfaðri teskeið af tómatpúré og einum kjarnhreinsuðum og söxuðum rauðum chilli. Hrært saman. Hitinn er lækkaður en frekar og edikinu leyft að sjóða niður um 2/3. Þá er slökkt undir og fjórum matskeiðum af smjöri hrært saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Ef balsamikedikið er mjör súrt þarf að sæta það örlítið með sykri eða sírópi (ég þurfti þó ekki að gera slíkt - var með þokkalegt edik).

ribeyesteak-1

Ég hafði keypt gott sænskt nautakjöt, sem að mínu mati er af góðum gæðum, og sneiddi niður í 2,5 cm þykkar sneiðar. Klappaði kjötinu með góðri jómfrúarolíu og saltaði og pipraði.

meatonfire

Fór út í kuldann og grillaði í nokkrar mínútur á hvorri hlið þangað til að kjötið var sirka medium rare.

steakwithbuerreblanc

Ég hafði vafið nokkrum stórum kartöflum í álpappír og bakað í ofni í einn og hálfan tíma við 180 gráður. Skar einn kross í kartöflurnar, opnaði, teskeið af creme fraiche, salt, pipar og svo saxaður ferskur graslaukur. Steikin var svo sett á disk og 1-2 matskeiðum af sósu hellt yfir. Sumir munu segja að þetta sé ekki nóg af sósu - en þessi sósa er ansi kraftmikil og kjötið meyrt og safaríkt - þannig að það þarf ekki mikið af sósu til þess að allir verði glaðir. Meira að segja að konunni minni fannst þetta nóg sósa en hún er einn mesti sósuisti sem um getur.

masi

Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2008. Þetta er vín frá Ítalíu, svæðinu í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Þetta vín hefur verið framleitt lengi - í meira en 40 ár. Það er kirjuberjarautt í glasi. Á tungu ávaxtaríkt og ferskt, örlítil sýra og tannín. Góð fylling og langt eftirbragð. Ljómandi gott vín - paraði sig ljómandi vel með matnum, sem var alveg gómsætur.

Bon appetit.

Thursday 16 February 2012

Salmon "en papillote" with Caramelized Lemons, Fresh Herbs and BeurreBlanc

Hérna er upprifjun frá því sumarið 2009 - Ljúffengur Lax "en papillote" með karmelliseruðum sítrónum, ferskum kryddjurtum og beurre blanc.

Verið velkomin á: The Doctor in the Kitchen

Næsta "orginal" færsla birtist núna um helgina!

Með bestu kveðjur, Ragnar

Sunday 12 February 2012

Dásemd í potti: Lambapottréttur frá Lankasterskíri - núna er veisla!

Ég hef lengi viljað elda þennan rétt. Ég hef verið fylgismaður "slow cooking" - síðastliðin ár hef ég bloggað fjölda rétta sem voru eldaðir eftir þeirri aðferðafræði. Satt best að segja veit ég ekkert betra en að eyða heilum laugardegi í að elda - helst hægt og rólega. Með þessari aðferð nær maður að umbreyta hráefni á sem bestan hátt - breyta seigum ódýrum kjötbita í ljúffenga munnfylli sem bráðnar í munni er ótrúlega gefandi.

Í fjölda matreiðslubóka sem ég á kemur þessi uppskrift fyrir - enda er um enga nýja uppskrift að ræða. Þetta mun aldrei falla undir neina "glamour" eldamennsku, enda eru pottréttir sjaldnast af þeirri gerðinni. Þetta er matur fyrir sálina - sem vermir hjartað og lætur manni líða vel. Þetta er matur sem maður á að elda á rólegum laugardegi, helst köldum, og gæða sér á þegar maður kemur heim eftir langan göngutúr í frostinu. Dagarnir hafa einmitt verið þannig síðasta mánuðinn. Mér skilst að Íslendingar hafa ekkert misst af því kuldaskeiði sem hefur verið í Evrópu síðastliðin mánuðinn - hérna hefur líka verið einkar kalt síðastliðnar vikur!

Mér skilst að þessi réttur hafi orðið til fyrir löngu síðan - í Lankasterskírí í Englandi. Fyrir tíma iðnvæðingarnar og þess tíma að allir höfðu ofn á heimilum sínum fóru eldabuskur með þennan rétt í kermaíkpotti og settu í ofn bakarans sem þá hafði lokið störfum fyrir daginn en hafði heitan ofn til ráðstöfunar. Hægt var að raða pottum sínum í ofninn að morgni og koma og sækja hann að loknum vinnudegi. Þetta er einfaldur réttur - en ekki láta blekkjast, þetta er alger veislumáltið. Við notuðum sænskan lambaframpart sem var sóttur hérna útí búð. Þetta hefði verið ennþá betra með íslensku lambi!

Dásemd í potti: Lambapottréttur frá Lankasterskíri - núna er veisla!

Hráefnalisti

1 lambaframpartur
900 gr kartöflur
2-3 laukar
800-900 ml kjúkingasoð
Smjör
Salt og pipar
Timían

Meðlæti - Rauðkálssulta

1/2 haus rauðkál
Klípa af smjöri
1 dl eplaedik
1/2 balsamikedik
2 dl berjasafi (td. bláberjasafi)
Salt og pipar
1 msk sykur
3-4 Negulnaglar
2 tsk muldur kóríander

Einfaldasti réttur sem ég hef eldað - það eina sem þarf er smá tími!Það er sjaldan sem hægt er að nálgast heilan frampart í verslunum hérna. Yfirleitt þarf ég að panta þetta frá slátraranum. Kosturinn við þennan bita er að hann er auðvitað þrælódýr en það þarf þó að gefa sér tíma í að úrbeina hann. Ekki láta ykkur það vaxa ykkur í augum heldur setjið bara góða tónlist á og beittan hníf í hönd - þá mun þetta ganga vel. Bara fylgja beininu.
Svo er um að gera að geyma beinið - brúna það í ofni og sjóða með smávegis grænmeti og búa til ljúffengt lambasoð.Það fékkst heil ósköp af kjöti af þessum eina framparti - nóg fyrir okkur öll og gott betur. Og þetta tók miklu styttri tíma en ég hafði gert mér grein fyrir - en kannski gleymdi ég mér líka bara, svona föndur er eitthvað sem ég get alveg gleymt mér í.Næst er að flysja nokkrar kartöflur. Og síðan að skera þær niður - það væri auðvitað hægt að nota mandólín, sem væri fljótlegra - en sjónvarpskokkurinn Rick Stein hvatti áhorfendur sína að forðast það. Kartöflurnar yrðu mun heimilislegri og meira "rustic" við að sneiða þær niður með hníf.Síðan þarf maður 2-3 stóra lauka sem er skornir niður í skífur og svo í helminga.Ég átti kraftmikið kjúklingasoð inni í frysti sem ég hafði búið til áður og setti í pott og sauð upp. Auðvitað væri hægt að gera bara soð úr teningum - en fátt gerir mat betri en gott soð. Auguste Escoffier sem er faðir franskrar matargerðar sagði einhvern tíma að kokkar væri skilgreindir eftir því hvernig og hversu góð soð þeir gerðu.Þá er lítið annað að gera en að raða kartöflunum, lauknum og kjötinu í pottinn. Þarna er mikilvægt að staldra við. Það er ráðlagt að smyrja pottinn að innan með bráðnu smjöri. Salta og pipra rækilega og setja nokkur lauf af fersku/þurrkuðu timian. Þá er bara að byrja að raða réttinum saman. Fyrst kartöflur, svo lauk, svo kjöt, salta og pipra, timian og þar fram eftir götunum þar til að potturinn er fullur eða hráefni þrýtur.Raða síðan einu lagi af kartöflum, lauk og svo lambakjöti. Muna að setja timian, salt og pipar á hvert lag!Þegar komið er að síðasta laginu er ráðlagt að þrýsta ofan á hráefnið þannig að það verði þéttara. Þá hellti ég 800-1000 ml af kjúklingasoði - ekki þannig að það flaut yfir en sást þó. Síðan reyndi ég að raða síðasta laginu af kartöflum fallega ofaná. Þá var lokið sett ofan á pottinn, inn í ofn - 130-150 gráður í 3-6 klukkutíma.Klukkutíma áður en að rétturinn er borin fram, tekur maður hann út úr ofninum í stutta stund og penslar efsta lagið með bræddu smjöri. Þá hækkar maður hitann á ofninum í 200 gráður og setur svo réttinn aftur inn - en núna án loksins þannig að kartöflurnar nái að taka lit.Maturinn er borin fram með rauðkáli, sem er ekkert svo frábrugðið því sem við erum vön að hafa með jólamatnum. Uppskriftin frá Lankasterskíri kveður á um pæklað rauðkál - en það tekur nokkra daga að matbúa það - þannig að þessi uppskrift var spunninn á staðnum!Hálfur haus af rauðkáli var skorinn niður, settur í pott með klípu af smjöri, 1 dl af eplaediki, 1/2 dl af balsamikediki, 2 dl af berjasafa (td. bláberjasafa), salt og pipar, 1 msk af sykri, kryddað með nokkrum negulnöglum og teskeið af muldum kóríander. Vökvinn var soðinn upp og svo soðinn niður þannig að allur vökvi hafði gufað upp.Maturinn var alveg magnaður. Hvernig getur svona einfaldur réttur - með svona fáum hráefnum orðið svona ljúffengur!?
Með matnum drukkuð við þetta kraftmikla rauðvín, Wolf Blass Presidents Selection Cabernet Sauvignion frá því 2004. Þetta vín er frá Suður Ástralíu. Wolf Blass framleiðir fjölda vína - allt frá búkollum sem eru alveg ljómandi, upp í þungavigtarvín. Þetta er fallega dökkrautt vín í glasi. Bragðmikið með miklu berjabragði, keimur af súkkulaði, vanillu og eikað. Djúpt bragð með góðri fyllingu.Tími til að njóta!

Ef ykkur lýst vel á eftir lesturinn - deilið endilega færslunni! mbk, Ragnar

Tuesday 7 February 2012

Pönnusteikt rauðspretta með heimagerðu remúlaði og gómsætukartöflusalati

Steiktur fiskur er klassískur réttur. Á flestum íslenskum heimilum myndi ég gera ráð fyrir að ýsa yrði oftast fyrir valinu ef ætti að steikja fisk. Hérna á norðanverðu meginlandinu yrði hins vegar ýmis konar flatfiskur fyrir valinu, eins og til dæmis rauðspretta. Rauðspretta er ákaflega þægilegur fiskur að elda - bragðgóður auðvitað og eldast fljótt og örugglega. Hefur örlitla sætu sem t.d. ýsa hefur ekki. Það hefur margoft komið fram að ég er engin sérstakur aðdáandi ýsu. Með þessum orðum vona ég að ég stuði ekki of marga.

Ég held að það sé minni dásamlegu móður að þakka að ég "fíli" ekki ýsu. Hún eldaði bara eiginlega of mikið af henni, þó ekki skorti fjölbreytileikann, þegar ég var barn og unglingur. Hvorki ég, faðir minn eða bróðir erum sérstakir aðdáendur - en núna hef ég tekið ýsuna í sátt. Ég þurfti eiginlega að flytja frá Íslandi til að kunna að meta hana. Annars er hann auðvitað ein af auðlindum okkar, og ég er ekki að tala í pólitísku samhengi, fiskurinn okkar. Ég á hér við hversu gott hráefni fiskurinn er, sá sem er seldur í verslunum. Þann lúxus býr maður ekki við hérna á meginlandinu og ef hann fæst þá kostar hann formúlu!
Ég hef einhvern tíma áður bloggað um svona steiktan fisk - þó kannski ekki alveg eins og þennan. Að þessu sinni gerði ég heimagert remúlaði. Ekki alveg eins og maður er vanur, svona út úr búð, heldur meira svona eins og Frakkarnir höfðu hugsað sér. Reyndi þó að gera aðeins léttari útgáfu af þeirra hugmynd. Fjandinn, það er ekki hægt að borða svona mikið mayonaise með góðri samvisku.

Pönnusteikt rauðspretta með heimagerðu remúlaði og kartöflusalati 


Þessar ljúffengu kartöflur fengust nýverið úti í ICA búðinni okkar. Þessar fjólubláu kallast Bláar Kongó kartöflur og hinar ílöngu (sést ekki nógu vel þar sem ég var búinn að skera þær niður) heita aspas kartöflur og eru einstaklega bragðgóðar. Við byrjuðum á því að gera kartöflusalatið þar sem það sem maður leyfir gjarnan kartöflunum að kólna aðeins áður en maður blandar þeim saman við laukinn og sósuna. Kartöflurnar, 700gr, voru flysjaðar og soðnar í söltuðu vatni þangað til að hnífur rann ljúflega í gegnum þær, ca. 15 mínútur.Næsta skref var að skera niður 3 vorlauka, 1 rauðlauk heldur smátt og setja í skál. Þá setti ég kartöflurnar sem höfðu fengið að kólna aðeins. Síðan kom dressingin; 2 matskeiðar af creme fraiche, 1 tsk hlynsíróp og svo 1 tsk Edmont Fallot dijon sinnep. Hrærði þessu svo saman við kartöflurnar og laukinn. Skreytti síðan með söxuðum vorlaukstoppum og graslauk.Það er mikilvægt þegar verið er að steikja fisk í brauðraspi að krydda á öllum stöðum. Setja salt og pipar á fiskinn, í hveitið - ég setti líka hvítlauksduft og papríkuduft og jafnvel í brauðraspið líka. Þannig verður maturinn sérstaklega bragðgóður. Síðan veltir maður fisknum fyrst upp úr hveiti, svo hrærðu eggi og svo upp úr raspinu.Steikt upp úr blöndu af smjöri og olíu við miðlungshita - þangað til að hjúpurinn er fallega gullinn á litinn.Remúlaði var gert eftir franskri fyrirmynd - þó með breytingum þar sem ég vildi ekki notast eingöngu við mayonaise. Túrmerik hefði gefið dönsku mayonaise sinn lit og var því sleppt hér.Blandaði saman 200 ml af léttu creme fraiche, 1 matskeið af mayonaise, 5 smáttskornum conrichons (smáar súrar gúrkur), 2 matskeiðum af söxuðum kapers, 2 tsk af sírópi, 2 smátt skorin ansjósuflök (í olíu - og verið alveg óhrædd, það verður ekki fiskibragð af sósunni - þetta er leið til að lyfta sósunni upp á annað plan, ég lofa), síðan 2 msk af smátt skorinni steinselju og graslauk, salt og pipar eftir smekk.Við bárum einnig fram einfalt salat með matnum. Við smökkuðum þetta ágætis ástralska hvítvín með matnum. Cape Mentelle Sauvignion Blanc Semillion frá því 2007. Þetta er fölgult vín í glasi. Ilmar af berjum, sítrónukeimur í nefi. Á bragðið jafnvel epli, sítróna, örlítil sýra. Ljómandi gott vín.Tími til að njóta!

Sunday 5 February 2012

Real Comfort Food: Steak and Guinness Pie with Green Peas and Home MadeFrench Fries

Þessi færsla birtist á blogginu mínu snemma síðastliðið ár. Þetta er einn besti vetrarréttur sem um getur - yljar manni alveg niður í hjartarætur.

Verið velkomin á: The Doctor in the Kitchen

.
Thursday 2 February 2012

The greatest cheeseburgers of all time? From the Doctor in the Kitchen

Þessi færsla birtist á blogginu mínu í köldum febrúarmánuði árið 2010. Núna er hún í enskum búningi!

The Doctor in the Kitchen kynnir:

THE GREATEST CHEESEBURGERS OF ALL TIME?

Verið velkominn í heimsókn!