Þennan rétt hef ég ekki gert oft áður - en hann varð til þegar ég var að gera uppskriftir fyrir eina af matreiðslubókunum mínum. Ég veit enn þann dag í dag ekki af hverju hún komst ekki í bókina. Það er hreinlega stundum þannig - en hún er alveg nógu ljúffeng. Heit og seðjandi.
Það er mikilvægt að elda hjörtun nægilega vel. Hjartað er vöðvi sem inniheldur litla fitu og er heldur undir tönn þegar hann er of lítið eldaður. En eldaður við lágan hita í 1,5 til 2 klst verður bitinn lungamjúkur.
Kryddlegin hjörtu Læknisins í Eldhúsinu
Fyrir fjóra
4 lambahjörtu
1 rauður chili
2 hvítlauksrif
1/2 tsk cheyenne pipar
1 tsk þurrkuð sterk papríka (sterk)
2 msk jómfrúarolía (það má nota chilibragðbætta jómfrúarolíu)
4 msk hveiti
salt og pipar
4 gulrætur
1 rauðlaukur
1 sellerísstöng
2 hvítlauksrif
1 msk tómatmauk
150 ml rauðvín
500 ml lambasoð
1 tsk Yfir holt og heiðar kryddblanda
50 g smjör
salt og pipar
2 íslenskar rauðar papríkur
pæklaður íslenskur chilipipar til skrauts
hrísgrjón
salat að eigin vali
1. Sneiðið og skolið hjörtun undir köldu vatni og setjið í skál.
2. Bætið smátt skornum chili ásamt hvítlauk, chilidufti, papríkudufti, jómfrúarolíu, salti og pipar og blandið vandlega saman og látið marínerast í að minnsta kosti klukkustund í kæli.
3. Brúnið upp úr blöndu af smjöri og jómfrúarolíu og setjið til hliðar. Hrærið hveitið saman við.
4. Skerið laukinn, hvítlaukinn og selleríið smátt og steikið í olíunni, saltið og piprið.
5. Bætið kjötinu út í pottinn og blandið vel saman. Flysjið gulræturnar og setjið heilar saman við.
6. Hækkið hitann undir pottinum og þegar allt kraumar rækilega hellið þið víninu saman við og sjóðið upp - og svo niður um helming.
7. Bætið lambasoðinu saman við og hitið að suðu og setjið svo inn í 160 gráðu heitan, forhitaðan ofn og látið dvelja þar í 90 mínútur.
8. Þegar hálftími er eftir sneiðið þið tvær papríkur niður í lengjur og hrærið saman við kássuna.
9. Takið pottinn úr ofninum og setjið á hlóðirnar og blandið smjörinu saman við.
10. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og fersku salati úr nýju íslensku grænmeti.
11. Skreytið kássuna með pækluðum chili (uppskriftin verður í nýju bókinni minni).
12. Og skálið fyrir haustinu í öllum sínum ljóma!