Sunday 22 September 2013

Doktorsveisla í götunni: Þrjár snittur, salat í bolla, ostapinnar, kjúklingavængir og súkkulaðihjúpuð jarðarber


Í gærkvöldi vorum við boðin til veislu hjá Áskeli og Elvu. Þar var verið að fagna þeim áfanga að Áskell varði doktorsverkefnið sitt á föstudaginn og eftir þriggja klukkustunda vörn var hann sæmdur doktorsnafnbót! Ég náði því miður ekki að vera við vörnina en mér skilst að hann hafi staðið sig með mikilli prýði - enda ekki við öðru að búast - hann kann bara að gera hluti vel! 

Ég bauð fram hjálp í eldhúsinu og við hjálpuðumst að við snara fram smá veitingum fyrir kvöldið. Við ákváðum að hafa þetta einfalt. Nokkra smárétti - svona sitt lítið af hverju sem fólk gæti borðað standandi - jafnvel með glas í hönd. Við hittumst fyrr um daginn heima hjá þeim hjónum og brettum um ermarnar, ristuðum, smurðum, hristum og hrærðum. Meira segja dætur þeirra hjóna, Siv og Saga hjálpuðu til svo allt færi vel. 

Doktorsveisla í götunni: Þrjár snittur, salat í bolla, ostapinnar, kjúklingavængir og súkkulaðihjúpuð jarðarber!


Fyrsta skrefið var að sneiða niður fimm snittubrauð í þunnar sneiðar, pensla með jómfrúarolíu - salta og pipra og rista síðan í heitum ofni undir grillinu. 


Þessi var ljómandi góð; ferskt grænt pestó genovese með þykkri sneið af brie osti og svo blandaðar Kalamata ólífur. 


Þessi var einstaklega ljúffeng; með rauðu pestói, hvítlaukssalami, basillaufi og síðan pepperoni grilliata. 


Á þessa settum við ólívutapenade, ítalska hráskinku, klettasalat og svo niðurskorna sólþurrkaða tómata. 


Mér skildist á Elvu að hæfileikar Áskels í eldhúsinu væri vel nýttir við það að láta hann festa vínber og ólívur á ostana. Og það var kominn tími til að gera ostapinna aftur - þeir hafa ekki verið gerðir síðan 1982. En núna eru þeir mættir á svæðið aftur og þeir eru sérstaklega ljúffengir. 


Við vorum með sérlega ljúffengan ost - Västerbottenost - sem er bragðmikill, harður ostur sem eins og margur góður matur - varð til fyrir mistök. Hann er bara framleiddur í einni ostagerð hér í Svíþjóð. Hægt væri að nota hvaða ost sem er í staðinn - en um að gera að láta hann hafa hann bragðmikinn.

Vínber og ostur - hvað annað?


Og svo ostur og ólífur - klassíker! 


Gerðum líka kjúklingavængi. Hægt er að gera þá frá grunni eftir t.d. þessari uppskrift. Eða stytta sér leið og kaupa þá tilbúna - bara hita þá í ofni. Og bera þá svo fram með gorganzola-sýrðrjómasósu. 
150 gr af gorganzola osti var hrært saman við 500 ml af creme fraiche.


Hver segir að ekki sé hægt að gera salat að pinnamat? Hér vorum við með blönduð grænlauf með franskri dressingu (eitt hvítlauksrif, ein tsk djion, 100 ml olía og 25 ml balsmaik edik), litla plómutómata, mangó, gula papríku og grillaðan haloumi osti og svo smátt saxað basil og steinselju. 


Saga, yngri dóttir þeirra hjóna, var afar liðtæk í að hræra í súkkulaðinu. 300 gr af súkkulaði voru brædd í potti, 20 gr af smjöri og svo skvetta af rjóma. 


Berjunum var velt upp úr súkkulaðinu og sett í ísskápinn. Síðan bræddum við 100 gr af hvítu súkkulaði og slettum yfir með gaffli. Skál fyrir Áskeli og Elvu - takk fyrir okkur!

Tími til að njóta!

Thursday 19 September 2013

Kryddaðir kjúklingavængir með kastala-gráðostasósu og niðurskornu grænmeti

Þegar ég var átján ára bjuggum við fjölskyldan í Toronto í Kanada. Þar var móðir mín í framhaldsnámi í kennslufræði og við áttum heima í úthverfi þessarar annars ágætu borgar. Ég eignaðist góða vini í skólanum og ein þeirra átti bíl. Við gerðum okkur einstaka sinnum ferð út á land og eitt sinn ókum við meðfram Ontario vatni suður til Niagara fossa. Við stoppuðum við Niagara fossa sem hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir alla Íslendinga! Búið er að steypa kantinn sem fossinn rennur um og bærinn sjálfur en ein ömurlegasta túrista gildra sem völ er á. Eftir bátsferð upp að fossinum ókum við áfram suður yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Það var stór munur að fara yfir landamærin. Gatnakerfið versnaði til mun á leiðinni til Buffalo. Þar stoppuðum við á einhverri knæpunni og pöntuðum - en ekki hvað - Buffalo vængi. Ég og Freyr vinur minn, sem bjó hjá okkur um þetta leyti, hesthúsuðum 75 vængi. Það var ekki lítið sem okkur tókst að borða á þessum árum án þess að það sæist á manni.

Um daginn fékk ég svo kryddaða kjúklinga og þá rifjaðist þetta upp fyrir mér - þetta er algert ljúfmeti. Og einfalt er það. Allavegana þessi uppskrift.

Þó verður að segjast um þessa uppskrift að hún er ekki mikið lík þeirri upprunalegu, þar sem kjúklingurinn er djúpsteiktur og síðan velt upp úr heitri kryddsósu. Í þessari uppskrift vel ég þá leið að marinera bitana í kryddaðri sósu og svo baka þá í ofni.

Kryddaðir kjúklingavængir með kastala-gráðostasósu og niðurskornu grænmeti

Hráefnalisti

3 kg kjúklingavængir

1 dós tacósósa
3 msk tómatpuré
3 msk sambal garlic
5 msk jómfrúarolía
2 tsk hvítlaukssalt
2 msk papríkuduft
2 tsk cheyanne pipar
Salt og pipar


Sósa
100 gr blámygluostur
50 gr rjómaostur
100 ml creme fraiche
Salt og piparFyrst er að marinera vængina. Best er að marinera þá í ísskáp yfir nótt - en ef það gengur ekki má láta nokkrar klukkustundir duga. Ef fljótari leiðin er valin er kannski ekkert svo vitlaust að pensla kjúklingavængina rækilega með marineringunni áður en maður settur þá í ofninn.
Setti þrjú kíló af kjúklingavængjum, eina dós af tacósósu, þrjár matskeiðar tómatpuré, þrjár matskeiðar sambal garlic, fimm msk jómfrúarolíu, tvær tsk hvítlaukssalt, tvær msk papríkuduft, tvær teskeiðar cheyanne pipar og svo að lokum salt og piparÞetta fékk að marinerast yfir nótt í ísskápnum. Bakað í ofni við 200 gráður í 35-45 mínútur þangað til að þetta fer að taka fallegan dumbrauðan lit og eldhúsið ilmar dásamlega.

Með þessu finnst mér gott að bera fram niðurskornar gulrætur, sellerí og agúrku. 

Sósuna er síðan mjög létt að útbúa. Takið 100 gr af kastala eða öðrum góðum blámygluosti og stappið niður með 50 gr af rjómaosti og blandið 100 ml af creme fraiche. Hrærið vel saman. Viljið þið hafa sósuna meira fljótandi er bara að bæta meiri sýrðum rjóma saman við. 

Tími til að njóta! 

Sunday 15 September 2013

Risa-Risotto og ljúffengt focaccia brauð á síðbúnu þrítugsafmæli Snædísar

Mín kæra eiginkona átti afmæli núna á dögunum og við ákváðum að bjóða til veislu. Við sögðum í gríni að við værum að halda upp á þrítugsafmælið hennar - sem í sjálfu sér var satt og rétt þar sem við náðum aldrei að halda það hérna um árið. Þá hafði mér boðist að fara á námskeið í lyflækningum - þar sem 1-2 fulltrúar frá hverju Evrópulandi var boðin þáttaka. Snædís var ekkert yfir sig hrifinn af tímasetningunni, en þar sem myndu halda upp á afmælið síðar hlyti þetta núna að vera í lagi. Og núna 6 árum síðar slógum við til.

Það var nú samt gott að ég fór á þetta námskeið þar sem kynntist hópi lækna frá nokkrum ólíkum löndum og okkur varð mjög vel til vina og höfum haldið sambandi síðan þá. Höfum farið saman á skíði nokkrum sinnum og mætt í brúðkaup, sjá hérna, og veislur hingað og þangað.

Jæja, aftur að þessari veislu. Núna í vor buðum við einnig til veislu þar sem ég gerði paellu - uppskriftina að henni verður að finna í bókinni minni sem mun koma út eftir nokkrar vikur. Núna var semsagt hugmyndin að prófa að gera risotto á sömu pönnuni. Og viti menn - það heppnaðist stórvel!

Risa-Risotto og ljúffengt focaccia brauð á síðbúnu þrítugsafmæli Snædísar

Hráefnalisti

Grunnur fyrir brauð (fyrir veislu)

5 kg hveiti
4 lítrar vatn
100 gr salt
100 gr sykur
4 pakkar þurrger

Focaccia:

Fletja út deigið og dreifa svörtum Kalamata ólívum, grænum ólívum, tómtötum, hvítlauk og fersku rósmarín yfir

Risa-Risotto

5 kg Arboríó hrísgrjón
5 heilir kjúklingar
2 kg sveppir
250 gr smjör
50 ml jómfrúarolía
Salt og pipar
6 laukar
1 búnt sellerí
2 hvítlaukar
1,5 l hvítvín
12 l kjúklingasoð
700 gr Parmaostur
300 gr smjör

Ég byrjaði á því að gera brauðið - ákvað að setja í það þegar á föstudagskvöldið þannig að það fengi góðan tíma til að hefast. Mér finnst brauð sem hafa fengið að hefast lengi við aðeins lægra hitastig gjarnan hafa betra bragð.


Fimm kíló af hveiti, fjórir lítrar af vatni, 100 grömm af salti, 100 af sykri og svo 4 pakka af geri var blandað saman í stórum plastbala. Fékk að hefast fyrst þrjár klukkustundir inni og svo úti yfir nótt við sirka 12 gráður í samtals 16 tíma. 


Setti nóg af hveiti á borðið til að það festist ekki við. Lamið niður og hnoðað í nokkrar mínútur.


Setti jómfrúarolíu í botninn á ofnskúffum og lagði deigið ofan í. Bjó til brunna og hellti svo meiri jómfrúarolíu yfir. Raðaði svo ýmist svörtum Kalamata ólívum, grænum ólívum, tómtötum, hvítlauk og rósmarín og bjó þannig til nokkrar ólíkar útgáfur. Að lokum nóg af salti og svörtum pipar. 


Fékk svo að hefast aftur í klukkustund áður en þær fóru inn í ofninn.


Brauðið heppnaðist vel - varð stökkt að utan með lúngamjúkt að innan. 


Það viðraði frábærlega til veisluhalda. Við settum upp útieldhús og stilltum öllum græjum upp. Fengum borð og stóla lánaða hjá nágrönnunum þannig að allir gætu setið til borðs. 


Allt var tilbúið - svo var bara að byrja að elda.


Steikti 2 kg af sveppum upp úr 250 gr af smjöri og 50 ml jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Þegar þeir voru fallega brúnaðir og ilmuðu dásamlega voru þeir settir til hliðar. 


Hlutaði niður og úrbeinaði fimm kjúklinga sem ég síðan steikti upp úr smjöri og olíu. Þegar þeir voru orðir fallega gullinbrúnir voru þeir lagðir til hliðar.


Steikti síðan sex smátt saxaða lauka, heilt búnt af niðurskornu sellerí og tvo hvítlauka (smátt skorna) á pönnunni. Þegar grænmetið var farið að glansa var setti ég fimm kíló af hrísgrjónum á pönnuna. 


Ég notaði Arboríó hrísgrjón - steikti þau með grænmetinu þangað til að þau fara aðeins að verða ljós í köntunum. Þá hellti ég 1,5 L af hvítvíni saman við og sauð upp áfengið. 


Næst var að setja heimgert kjúklingasoð saman við - könnu og könnu í senn. Ég átti 8 L af heimagerðu soði en það dugði ekki til þannig að ég bætti við 4 L af vatni og smá krafti sem því nam. Auðvitað var saltað vel og piprað. 

Grjónin eru elduð þangað til að þau eru al dente. Þá setti ég 700 gr af Parmaosti saman við ásamt 300 gr af smjöri sem fékk að bráðna saman við grjónin.


Gerðum einfalt salat; grænlauf, tómata og parmaost í bitum. Bjó til einfalda dressingu á salatið - einn hlutur balsmikedik, þrír hlutar jómfrúarolía, tvær teskeiðar dijon sinnep, einn saxaður hvítlauksgeiri og svo salt og pipar. 
Og svo var bara að gefa fólki að borða! Og að drekka. 


Við vorum bæði með Lindemans Chardonnay hvítvín í búkollum - sem stendur alltaf fyrir sínu og svo Trivento mixtus rauðvín frá Argentínu sem er blanda af Shiraz og Malbec - alveg ljómandi góður sopi sem við gerðum góð skil um kvöldið. 


 Ég sá ekki betur en að þetta hafi runnið ljúflega niður!

Tími til að njóta!

Wednesday 11 September 2013

Beikonvafinn skötuselur með ristuðu-hvítlauks aioli og blönduðum strengjabaunum

Ég nefndi um daginn á Facebook síðunni minni að ég hefði fundið skötusel í frystinum hjá mér. Ég hafði víst gleymt honum síðan að ég var síðast á Íslandi - sem var nú í sumar. Það er alltaf gaman að finna svona ljúfmeti - eitthvað sem maður hélt að maður væri búinn að nota. Svolítið eins og að finna þúsundkall í buxum sem maður ætlaði að skella í þvottinn. 

Ég reyni alltaf að fá dálítið af fiski þegar ég er á Íslandi. Og það gengur furðuvel að koma honum til Lundar. Ég er vanur að frysta hann, vefja honum síðan vel inn, skella honum í töskuna á leiðina á flugvöllinn. Sem betur fer er ísskalt í farangursrýminu - þannig að hann hefur alltaf verið gaddfreðinn þegar hann kemur á leiðarenda. 

Það er líka gaman að kaupa fisk á Íslandi, sérstaklega í fallegum fiskbúðum eins og þeirri sem er að finna á Sundlaugarveginum - svo eru líkar margar aðrar góðar! Þegar ég hef nefnt þetta á blogginu eða á Facebook hef ég alltaf fengið einhverjar athugasemdir um að fiskurinn á Íslandi sé svo dýr - en við sem búum erlendis - fyrir okkur er þetta þveröfugt. Fiskur er í Svíþjóð munaðarvara - sem í ofanálag er ekki af nærri sömu gæðum og hægt er að nálgast á Íslandi. Beikonvafinn skötuselur með ristuðu-hvítlauks aioli og blönduðum strengjabaunum

1 kg skötuselur
500 gr beikon
1 hvítlaukur
2 msk jómfrúarolía
500 gr 
blandaðar baunir
Salt og pipar


Aioli

2 eggjarauður
1 teskeið dijion
1 tsk sítrónusafi
300 ml jómrúarólía
1 tsk hvítvínsedikÞó að fiskurinn hafi verið aðalrétturinn - þá var aðferðin kannski ekki sú frumlegasta - ég hef bloggað um beikonvafinn fisk áður. Get eiginlega ekki leynt því. En það er gott að vefja fisk beikoni og baka í ofni.

Ætli nýlundan sé ekki fólgin að þessu sinni í heimagerða aioli-inu sem ég gerði með ofnsteiktum hvítlauk!


Skötuselur er þéttur fiskur. Og heldur sér vel við eldun.


Aftan á honum er þessi himna sem gott er þó að taka af. Stundum kemur hún af í einu lagi en að þessu sinni varð ég að gera tvær atlögur að henni til að fá hana af.


Vafði heilan hvítlauk, með skvettu af góðri jómfrúarolíu og bakaði í ofni í 45 mínútur.Skötuselurinn var snyrtur til og vafinn inn í nokkrar sneiðar af beikonu. Nuddaði upp úr olíu, pipar, og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.Með matnum var ég með blandaðar baunir; vaxbaunir og svo venjulegar strengjabaunir sem fást núna ferskar á grænmetismörkuðum niðri í bæ.


Það er furðu auðvelt að gera aioli. Setjið tvær eggjarauður í skál, eina teskeið af dijion, eina tsk af sítrónusafa og þeytið svo saman. Hellið svo olíunni, 300 ml, fyrst dropa og dropa í senn og svo í straumi þegar olían fer að bindast. Þegar öll olían er kominn saman við setjið þið eina teskeið af hvítvínsediki og svo eins mikið af ofnsteikta hvítlauknum og hugurinn girnist. Hann er núna sætur og ljúffengur.Með matnum gæddum við okkur á þessu fyrirtaks hvítvíni frá Ítalíu. Masi Masianco frá því 2012. Þetta er vín gert úr Pinot Grigio og Verduzzo þrúgum. Þetta er létt og frískandi vín, með góðu ávaxtabragði sem liggur vel á tungunni og með ljúfu og örlítið sætu hungangskenndu eftirbragði.  


Njótið með góðu vínglasi með góðum vinum!

Tími til að njóta!

Sunday 1 September 2013

Valdís eldar; Gamaldags gómsætt kjöt í karrí með hrísgrjónum og salati

Dóttir mín, Valdís Eik (12 ára) hefur tekið að sér það verkefni að sjá um matargerðina á þriðjudagskvöldum á vetri komandi. Ég var á svipuðum aldri þegar ég fór að hjálpa til í eldhúsinu í Lönguhlíðinni hjá mömmu og pabba. Og ég held hreinlega að það hafi verið það sem kveikti hjá mér ástríðuna fyrir mat og matargerð. Mamma mín kenndi mér að gera lista, versla í matinn, elda réttinn sem ég fékk að velja sjálfur og svo sá ég meira að segja um fráganginn. Það þurfti ekki mörg skipti til að ég varð sjálfstæður og gat séð um þetta að mestu. Ætli það sé ekki svo - fái maður ábyrgð til að leysa eitthvert verkefni þá rísa flestir undir henni. Þannig var það allavegana í mínu tilviki.

Svo vona ég auðvitað að börnin mín fái líka áhuga á því að elda og borða góðan mat. Þekki hvað er hollt og nytsamlegt og velji vel það sem þau láta ofan í sig. Þetta er jú ein sú mikilvægasta þekking sem við látum börnunum okkar í té. Hvernig á að sjá um að elda ofan í sig og fólkið í kringum sig. Fyrir nú utan samverustundirnar við matarborðið, þar sem hægt er að deila því sem gerðist um daginn, ræða málin og heyra hvað börnunum liggur á hjarta.

Það kom mér nokkuð á óvart þegar að dóttir mín stakk upp á þessum rétti. Hann hef ég eiginlega aldrei eldað sjálfur. Mamma gerði hann oft og auðvitað er hann ljúffengur. Þetta er einföld eldamennska og byggir á því að vera með gott hráefni. Ég hafði tekið með mér lambakjöt frá Kjöthöllinni í Skipholtinu, sem ég hafði hugsað mér að nota í kjötsúpu þegar færi að hausta en auðvitað hentaði það líka vel til þessa verkefnis!

Valdís eldar: Gamaldags gómsætt kjöt í karrí með hrísgrjónum og salati


Kjötið fékk að þiðna í ísskápnum í heilan sólarhring. Kjötið þarf að sjóða að lágmarki í klukkustund í vel söltuðu vatni til að verða nógu meyrt til að það falli af beinunum. Valdís sauð það í 35 mínútur í þrýstipottinum mínum til að spara tíma. 


Ég leiðbeindi Valdísi um það hvernig á að undirbúa smjörbollu. 60 gr af smjöri brætt í potti. 


Í smjörið setti Valdís síðan 60 gr af hveiti og tvær teskeiðar af karrídufti.


Svo setti Valdís einn lítra af lambasoðinu af kjötinu ásamt lambateningi til að fá meiri kraft. Hrært vel saman og soðið í 10 mínútur til að sjóða burt hveitibragðið. Næst setti Valdís þrjár til fjórar msk af rjóma, tvær matskeiðar af soyasósu og saltaði svo vel og pipraði.


Get ekki betur séð en að kokkurinn sé stoltur af frammistöðu sinni. 


 Með kjötinu voru borin fram soðin Basmati hrísgrjón og einfalt salat með marglitum kirsuberjatómötum.


Maturinn heppnaðist frábærlega. 

Hlakka til að prófa það sem hún töfrar fram næsta þriðjudag.

Tími til að njóta!