Í gærkvöldi vorum við boðin til veislu hjá Áskeli og Elvu. Þar var verið að fagna þeim áfanga að Áskell varði doktorsverkefnið sitt á föstudaginn og eftir þriggja klukkustunda vörn var hann sæmdur doktorsnafnbót! Ég náði því miður ekki að vera við vörnina en mér skilst að hann hafi staðið sig með mikilli prýði - enda ekki við öðru að búast - hann kann bara að gera hluti vel!
Ég bauð fram hjálp í eldhúsinu og við hjálpuðumst að við snara fram smá veitingum fyrir kvöldið. Við ákváðum að hafa þetta einfalt. Nokkra smárétti - svona sitt lítið af hverju sem fólk gæti borðað standandi - jafnvel með glas í hönd. Við hittumst fyrr um daginn heima hjá þeim hjónum og brettum um ermarnar, ristuðum, smurðum, hristum og hrærðum. Meira segja dætur þeirra hjóna, Siv og Saga hjálpuðu til svo allt færi vel.
Doktorsveisla í götunni: Þrjár snittur, salat í bolla, ostapinnar, kjúklingavængir og súkkulaðihjúpuð jarðarber!
Fyrsta skrefið var að sneiða niður fimm snittubrauð í þunnar sneiðar, pensla með jómfrúarolíu - salta og pipra og rista síðan í heitum ofni undir grillinu.
Þessi var ljómandi góð; ferskt grænt pestó genovese með þykkri sneið af brie osti og svo blandaðar Kalamata ólífur.
Þessi var einstaklega ljúffeng; með rauðu pestói, hvítlaukssalami, basillaufi og síðan pepperoni grilliata.
Á þessa settum við ólívutapenade, ítalska hráskinku, klettasalat og svo niðurskorna sólþurrkaða tómata.
Mér skildist á Elvu að hæfileikar Áskels í eldhúsinu væri vel nýttir við það að láta hann festa vínber og ólívur á ostana. Og það var kominn tími til að gera ostapinna aftur - þeir hafa ekki verið gerðir síðan 1982. En núna eru þeir mættir á svæðið aftur og þeir eru sérstaklega ljúffengir.
Við vorum með sérlega ljúffengan ost - Västerbottenost - sem er bragðmikill, harður ostur sem eins og margur góður matur - varð til fyrir mistök. Hann er bara framleiddur í einni ostagerð hér í Svíþjóð. Hægt væri að nota hvaða ost sem er í staðinn - en um að gera að láta hann hafa hann bragðmikinn.
Vínber og ostur - hvað annað?
Og svo ostur og ólífur - klassíker!
Gerðum líka kjúklingavængi. Hægt er að gera þá frá grunni eftir t.d. þessari uppskrift. Eða stytta sér leið og kaupa þá tilbúna - bara hita þá í ofni. Og bera þá svo fram með gorganzola-sýrðrjómasósu.
150 gr af gorganzola osti var hrært saman við 500 ml af creme fraiche.
Hver segir að ekki sé hægt að gera salat að pinnamat? Hér vorum við með blönduð grænlauf með franskri dressingu (eitt hvítlauksrif, ein tsk djion, 100 ml olía og 25 ml balsmaik edik), litla plómutómata, mangó, gula papríku og grillaðan haloumi osti og svo smátt saxað basil og steinselju.
Saga, yngri dóttir þeirra hjóna, var afar liðtæk í að hræra í súkkulaðinu. 300 gr af súkkulaði voru brædd í potti, 20 gr af smjöri og svo skvetta af rjóma.
Berjunum var velt upp úr súkkulaðinu og sett í ísskápinn. Síðan bræddum við 100 gr af hvítu súkkulaði og slettum yfir með gaffli.
Tími til að njóta!