Thursday 19 September 2013

Kryddaðir kjúklingavængir með kastala-gráðostasósu og niðurskornu grænmeti

Þegar ég var átján ára bjuggum við fjölskyldan í Toronto í Kanada. Þar var móðir mín í framhaldsnámi í kennslufræði og við áttum heima í úthverfi þessarar annars ágætu borgar. Ég eignaðist góða vini í skólanum og ein þeirra átti bíl. Við gerðum okkur einstaka sinnum ferð út á land og eitt sinn ókum við meðfram Ontario vatni suður til Niagara fossa. Við stoppuðum við Niagara fossa sem hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir alla Íslendinga! Búið er að steypa kantinn sem fossinn rennur um og bærinn sjálfur en ein ömurlegasta túrista gildra sem völ er á. Eftir bátsferð upp að fossinum ókum við áfram suður yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Það var stór munur að fara yfir landamærin. Gatnakerfið versnaði til mun á leiðinni til Buffalo. Þar stoppuðum við á einhverri knæpunni og pöntuðum - en ekki hvað - Buffalo vængi. Ég og Freyr vinur minn, sem bjó hjá okkur um þetta leyti, hesthúsuðum 75 vængi. Það var ekki lítið sem okkur tókst að borða á þessum árum án þess að það sæist á manni.

Um daginn fékk ég svo kryddaða kjúklinga og þá rifjaðist þetta upp fyrir mér - þetta er algert ljúfmeti. Og einfalt er það. Allavegana þessi uppskrift.

Þó verður að segjast um þessa uppskrift að hún er ekki mikið lík þeirri upprunalegu, þar sem kjúklingurinn er djúpsteiktur og síðan velt upp úr heitri kryddsósu. Í þessari uppskrift vel ég þá leið að marinera bitana í kryddaðri sósu og svo baka þá í ofni.

Kryddaðir kjúklingavængir með kastala-gráðostasósu og niðurskornu grænmeti

Hráefnalisti

3 kg kjúklingavængir

1 dós tacósósa
3 msk tómatpuré
3 msk sambal garlic
5 msk jómfrúarolía
2 tsk hvítlaukssalt
2 msk papríkuduft
2 tsk cheyanne pipar
Salt og pipar


Sósa
100 gr blámygluostur
50 gr rjómaostur
100 ml creme fraiche
Salt og piparFyrst er að marinera vængina. Best er að marinera þá í ísskáp yfir nótt - en ef það gengur ekki má láta nokkrar klukkustundir duga. Ef fljótari leiðin er valin er kannski ekkert svo vitlaust að pensla kjúklingavængina rækilega með marineringunni áður en maður settur þá í ofninn.
Setti þrjú kíló af kjúklingavængjum, eina dós af tacósósu, þrjár matskeiðar tómatpuré, þrjár matskeiðar sambal garlic, fimm msk jómfrúarolíu, tvær tsk hvítlaukssalt, tvær msk papríkuduft, tvær teskeiðar cheyanne pipar og svo að lokum salt og piparÞetta fékk að marinerast yfir nótt í ísskápnum. Bakað í ofni við 200 gráður í 35-45 mínútur þangað til að þetta fer að taka fallegan dumbrauðan lit og eldhúsið ilmar dásamlega.

Með þessu finnst mér gott að bera fram niðurskornar gulrætur, sellerí og agúrku. 

Sósuna er síðan mjög létt að útbúa. Takið 100 gr af kastala eða öðrum góðum blámygluosti og stappið niður með 50 gr af rjómaosti og blandið 100 ml af creme fraiche. Hrærið vel saman. Viljið þið hafa sósuna meira fljótandi er bara að bæta meiri sýrðum rjóma saman við. 

Tími til að njóta! 

No comments:

Post a Comment