Monday 23 November 2020

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi


Mér finnst ákaflega jólalegt að gera mína eigin síld fyrir jólin. Og þegar ég segi gera mína eigin síld - þá meina ég auðvitað að bragðbæta síldina sjálfur. Ég hef aldrei farið og verkað síldina frá grunni - enda er það óþarfi þegar unnt er að kaupa hana tilbúna, þ.e.a.s. verkaða, og klára svo með því að kynna hana fyrir ýmis konar sósum og kryddi. Maður hefur, jú, ekki endalausan tíma. 

Í þessari færslu ætla ég að leika mér mest með sýrðan rjóma og majónesi - persónulega eru það síldarréttirnir sem ég leita helst í þegar ég sæki hlaðborð heim. Ætli ég geri ekki aðra fljótlega - með aðeins öðrum áherslum. Á þessum síðustu og verstu tímum er nauðsynlegt að teygja vel og rækilega á aðventunni. 

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi

Ég kynntist þessari síldartegund, Klädesholmen, þegar ég bjó í Svíþjóð. Ég bloggaði meira að segja um þær uppskriftir. Eins og þá - var faðir minn, Ingvar, mér innan handar en foreldrar mínir eru miklir síldarunnendur og bera ábyrgð á því að hafa komið mér á bragðið. 

Ég var svo á kynningu í sænska sendiráðinu fyrir tveimur árum og sá að hún er komin á markað á Íslandi. Jón, sem flytur síldina inn, var svo almennilegur að gefa mér nokkra pakka af síldinni og reyna að gera henni góð skil. Þ


Þetta eru ekki flóknar uppskriftir og það góða við þær er að það má gæða sér á þeim strax. En ætli þær verði ekki enn ljúffengari við að fá að standa í ísskáp í sólarhring. Þá fá allar bragðtegundirnar að kynnast betur. 

Ég geri mér grein fyrir því að ekki skilja allir þetta hrafnaspark og ætli það sé ekki best að skrifa þetta upp aftur. 

Jólasinnepssíld 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
3 msk majónes 
handfylli hakkað dill
1 msk hlynsíróp 
1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
salt og pipar eftir smekk. 


Aðferðafræðin er ekki flókin. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Västerbottensíld 

Þessi uppskrift sló í gegn. Ég stal þessari uppskrift af netinu þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður. 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
1/2 dl majónes 
handfylli hökkuð steinselja
hnífsoddur af chilidufti
1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
salt og pipar eftir smekk



Þessi uppskrift er líka ofureinföld - en kannski sú eina sem krafðist einhverrar eldamennsku, ef eldamennsku skyldi kalla. Það þurfti að sjóða eggin! 


Og rífa ostinn. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Hvítlaukssíld

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
3 msk majónes 
handfylli hökkuð steinselja
1/2 tsk Bera chilisósa
3-4 stór hvítlauksrif
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan gengið er frá og máltíðin undirbúin.


Einfalt og meira að segja fljótlegt. 


Mamma mín, Lilja María, tók að sér að smyrja rúgbrauðið. Allir fengu einhver verkefni. 



Það var dálítið sænsk slagsíða á þessu hjá okkur. Bárum fram soðnar kartöflur sem við veltum upp úr góðri jómfrúarolíu, soðin egg, hrökkbrauð og meiri Västerbottenost. Og smá jólabjór. 

Þetta reyndist sannkölluð síldarveisla. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 15 November 2020

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 

Það var svo ljúft veður liðna helgi að ég fékk þá flugu í höfuðið að grilla. Sumir vetrardagar bara kalla á að maður kyndi upp í grillinu - og eldi kvöldverð undir berum himni. En þegar á hólminn var svo komið sendi ég karl föður minn út með kjötið. En hann þurfti ekki að standa lengi við grillið þar sem ég hafði látið skera lambahrygginn í mjög þunnar sneiðar - svo þær væru eldsnöggt á grillinu.  

Ég hef ætlað að gera þetta um nokkuð skeið - en ekki látið verða af því fyrr en nú. Íslenskar kótilettur, lambakonfekt, er gjarnan skorið aðeins þykkara. Ég fékk svona þunnt skornar lambakótilettur þegar ég var í heimsókn hjá Ramon Bilbao í Rioja haustið 2018. Hugmyndin á bak við þessar þunnt skornu kótilettur er að maður nái lambafitunni stökkri og ljúffengri án þess að ofelda sjálft kjötið.  

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati


Þetta er ekki flókin matseld en það er skynsamlegt að leyfa kjötinu að meyrna í ísskáp í nokkra daga og svo marinerast í nokkrar klukkustundir. Ég fékk Geira í Kjötbúðinni á Grensásveginum til að saga hrygginn niður með þessum hætti. 

1 lambahryggur - skorinn þunnt
3-4 msk góð jómfrúarolía (ég notaði bragðbætta olíu frá Olio principe)
2 msk Yfir holt og heiðar 
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Fyrir kryddsósuna

1 dós sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1/2 dós af bragðbættum rjómaosti
2 hvítlauksgeirar
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Grískt salat 

græn lauf
kjarnhreinsuð agúrka
rauðlaukur
kalamata ólífur 
fetaostur
fersk mynta 

Kartöflusalat

700 g soðnar og flysjaðar kartöflur (láta kólna) 
4-5 msk pæklaður rauðlaukur
2-3 msk sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1 msk hlynsíróp
salt og pipar


Ég byrjaði eldamennskuna um hádegisbil. Kjötið hafði þá fengið að meyrna í ísskáp í þrjá til fjóra daga og svo á frammi á borði yfir nótt. Skolaði af því og þerraði og setti í ílát. Bætti olíunni, öllu kryddinu - bæði því þurrkaða og því ferska og salti og pipar saman við og lét marinerast í nokkrar klukkustundir. 


Ilmurinn af þessu kjöti var himneskur. 


Sósan var ofureinföld. Blandaði saman sýrðum rjóma, majónesi og rjómaosti. Hakkaði svo heilmikið af kryddjurtum (þeim sömu og ég hafði notað í marinerínguna) og hrærði saman við. Smá hlynsíróp og smakkaði svo til með salti og pipar. 


Salatið var líka einfalt. Bara að skola grænu laufin og leggja á disk, sneiða gúrkuna og kjarnhreinsa, sneiða rauðlaukinn, sáldra yfir svörtum kalamata ólívum, ásamt fetaosti. Skreytt með myntu. Saltað og piprað. 


Pabbi sá um að grilla. Hann er með ferlega heitann brennara á grillinu sínu. Kjötið þurfti ekki nema 90 sekúndur á hvorri hlið. 


Kartöflusalatið var líka fljótlegt að matreiða. Kartöflurnar voru flysjaðar, soðnar í söltu vatni og settar í skál til að kólna. Sýrðum rjóma og mæjónesi blandað saman, ásamt hökkuðum pækluðum rauðlauk (heimagerðum að sjálfsögðu - sjá hérna). 


Þetta var ljómandi gott rauðvín. Trapiche Medalla Cabernet Sauvignion frá 2017. Þetta er kraftmikið vín, gott að leyfa því að anda svolítið, þurrt á tungu, ríkur ávöxtur og ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. 


Sannkölluð veislumáltíð. 

Verði ykkur að góðu! 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 8 November 2020

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús


Blóðmör eða blóðbúðingur verður seint kallaður fallegasti matur sem um getur. Og fólk skiptist gjarnan í tvo hópa - þeir sem borða blóðmör, og svo hinir sem gera það alls ekki. Það tók mig nokkuð langan tíma að læra að kunna meta blóðmör. Mér þótti til dæmis ekki blóðmör góður fyrr en ég fór að steikja hann og bera hann fram með rifsberjasultu eða sætu sinnepi. Svo kynntist ég bæði sænskri og enskri útgáfu og þær geta verið mjög ljúffengar. Sérstaklega bresku blóðpylsurnar sem fylgja með "Full english breakfast

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús

Hráefnalisti

1 líter lambablóð 
1 laukur
1 epli
250 ml pilsner
175 g rúgmjöl
175 g perlubygg
250 g lambafita
50 ml birkisíróp
2 tsk salt
1 tsk allrahanda
1/4 múskathneta
10 piparkorn
8 negulnaglar
2 einiber
1 msk þurrkað majoram
50 g smjör

1 rófa
1 sæt kartafla
100 g smjör
100 ml mjólk 
1 tsk sykur
salt og pipar

500 g kartöflur
50 g smjör
50 ml mjólk
1 tsk sykur
salt og pipar


Skerið laukinn smátt niður og steikið í smjörinu. Saltið og piprið. Hakkið lambafitina gróflega. Setjið í skál ásamt rúgmjöli og byggi. Bætið lambafitunni saman við. 


Bætið svo við blóðinu ásamt sírópinu. Steytið negulnaglana, einiberin og piparinn í mortéli og bætið saman við. Hrærið vandlega.


Raspið hnetuna og bætið allrahanda og majoram saman við. 

Hrærið vandlega með sleif eða sleikju. 

Setjið í vel smurt bökunarform, hyljið með álpappír og bakið í 180 g heitum forhituðum ofni í 60-90 mínútur. 


Búðingurinn er tilbúinn þegar unnt er að stinga hnífi í hann án þess að hann litist af blóði þegar hann er dreginn út. 

Látið kólna í ísskáp í nokkrar klukkustundir. 


Ég gerði tvennskonar kartöflumús með blóðmörnum. Notaði nýja íslenska rófu og sæta kartöflu sem ég flysjaði og skar í bita. Sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru mjúkar hellti ég vatninu frá og stappaði saman með smjöri, mjólk, sykri, salti og pipar. 

Kartöflurnar fengu sömu meðferð. 


Skar svo búðinginn í sneiðar og steikti upp úr smjöri við lágan hita, eina mínútu á hvorri hlið. Bar fram með kartöflumúsinni, heimagerðri bláberjasultu og sætu sinnepi. 

Bar fram með ísskaldi nýmjólk. 

Þessi búðingur var frábær tilraun. Ég hef aldrei reynt að gera minn eigin blóðmör. Eftir á að hyggja hefði ég átt að nota aðeins meiri fitu og aðeins færri negulnagla. Líklega hefði ég átt að sjóða byggið áður. En maður lifir og lærir. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa