Thursday 27 August 2009

Frábært heimagert reykt beikon - Charcauterie - allir geta gert beikon!



Fljótlega eftir að við fluttum í húsið fór mig af dreyma um matjurtagarð, grænmetisbeð og ávaxtatré. Þegar við tókum við húsinu var garðurinn ekkert kominn á veg og ekki stóð til að ljúka gerð hans fyrr en í lok maí. Mér tókst þó koma upp ágætum kryddjurtagarði þar sem ég rækta fjölda krydda; rósmarín, lárviðarlauf, Fáfnisgras, salvíu, lofnargjörð, bergmyntu og síðan nokkrar tegundir af timian, myntu og að sjálfsögðu basil. Síðan hef ég sett niður epla-, peru-, plómu- og kirsuberjatré og síðan nokkrar tegundir af berjarunnum; bláberja, hindberja og brómberja. Hugmyndin er sú að allt sem er í garðinum mínum beri ávöxt. Á næsta ári stefni ég á að byrja rækta mitt eigið grænmeti; tómata, kúrbít, baunir og gulrætur. Í anda sjálfsþurftarbúskapar hef ég verið að horfa á seríur Hugh Fearnley Whittingsstall og tilraunir hans um sjálfþurftarbúskap "The River Cottage". Þetta setti mig algerlega í gírinn fyrir það sem kom næst.


Ég nefndi það í seinustu færslu að ég hefði séð myndband á matarsíðu moggans sem hefði alveg gert mig heltekin af þessari hugmynd að gera mitt eigið beikon, pancetta, skinkur og pylsur. Núna eru rúmlega tvær vikur síðan að ég að ég sá Inga Steinar Ingason segja frá hugðarefni sínu um þetta sama efni. Ég náði sambandi við hann á netinu og hann er þegar búinn að gefa mér mörg góð ráð. Sama kvöld og ég sá þetta pantaði ég nokkrar bækur sem ég fékk í lok seinustu viku sem ég er að vinna mig í gegnum. Kennir þar ýmissa grasa. Charcuterie er sennilega bókin sem er með mesta kjötið á beinunum. Þá er bókin Pork & Sons sennilega sú bók sem veitir manni mestan innblástur, höfundur hennar rekur veitingahús í Frakklandi sem leggur aðaláherslu á Svínakjöt og þá sérstaklega Charcauterie. Þá tók ég líka Home Smoking and Curing eftir Keith Erlandson sem er ágætt inngangsbók - sér í lagi fyrir þá sem langar til að smíða sitt eigið reykingarstæði. Nokkrar fleiri keypti ég einnig en þær á ég eiginlega eftir að glugga í gegnum. Nánar að því síðar.

Verkefnið sem ég er að blogga um hérna fór af stað áður en allar bókmenntir um þetta efni voru komnar í hús og studdist ég aðallega við þennan ágæta Kanadamann, frá legourmettv, sem var sjálfur að takast á þetta verkefni í fyrsta sinn. Bæti inn fyrsta hluta af þríleik hans fyrir áhugasama. Framhaldið er hægt að sjá á youtube.

Þetta verkefni hefur núna tekið flugið og seinasta mánudagskvöld rétt undir miðnættið fékk ég að smakka afraksturinn. Hvílíkt og annað eins. Mæli með þessu heimaverkefni fyrir alla áhugasama. Þetta var einhvern veginn á þennan veg.

Frábært heimagert reykt beikon - Charcauterie - allir geta gert beikon!


Fyrst blandaði ég saman 3/4 bolla af salti (kannski of mikið), aðeins minna af púðursykri og svo 4 msk af hlynsírópi. Þessu var svo nuddað rækilega inn í kjötið og sett í Ziplock poka og sett í kæli í sjö daga. Snúið á hverjum degi. Eftir að fleskið er tekið úr blönduni er bitinn settur í ísskáp til að þorna í tæpan sólarhring.



Eftir sjö daga lýtur bitinn svona út. Orðinn miklu harðri viðkomu. Þarna má byrja að kalla þetta beikon og í raun er allt í lagi að skera bita af og steikja sér. En það er hægt að bæta ennfrekar.



Setti Hickorybita, bleytta í box, ásamt smá púðursykri. Þurfti að skipta um tvisvar til að koma hitanum í bitanum upp í 65 gráður.



Hafði þetta á óbeinum hita, bara kynnt undir álboxinu. Stakk hitamæli í kjötið og reykti þetta í 4 klukkustundir. Mér skilst að allir í götunni hafi fattað hvað um var að vera.


Eftir reykinn hafði bitinn umbreyst. Ég og Kjartan bróðir steiktum okkur sitthvora sneiðina rétt fyrir miðnætti þetta kvöld. Þetta reyndist meiriháttar á bragðið. Kannski eilítið of saltað, maður fann alveg djúpt hlynsírópsbragð og síðan ljúfan reykkeim. Það verður nóg að gera á næstunni með verkefni af þessum toga. Verði okkur að góðu.

Sunday 23 August 2009

Ljúffengt asískt grill snýr aftur ásamt hrísgrjónasalati, grilluðugrænmeti og köldu hvítvínsglasi




Það skall á aftur með blíðskaparveðri hérna um daginn. Það varð eiginlega allt of hlýtt og þá varð nærri ómögulegt að sofa á nóttunni. Mér fer svona hiti ekki of vel - að minnsta kosti ekki á nóttinni. Það er náttúrulega frábært á heitum eftirmiðdögum í sumarfríinu að setjast á pallinn eftir góðan hjólatúr um nærlægar sveitir og fá sér einn kaldann á pallinum. Enn á nóttinni saknar maður Íslands, gusturinn sem lyftir gluggatjöldunum frá glugganum, köldum blæstrinum, heitri sænginni - ljúfur svefninn. Það er eiginlega búið að vera sumar núna í meira eða minna hálft ár. Langafi Snædísar, eiginkonu minnar, sagði um sólina þegar hann var orðinn leiður á henni..."þarna er helvítis gula fíflið". Með þessu er ég ekki að segja að ég sé kominn alveg þangað - enn. En ég er farin að hlakka til haustsins. Ekki bara útaf hitanum sem núna límir buxurnar við lærinn heldur öll verkefnin sem ég er farin að planleggja fyrir haustið.

Þetta verður gott haust. Haust á Skáni eru falleg, með allri uppskerunni; gnægð af rótargrænmeti og öðru grænmeti en ekki síst fyrir þær sakir að ég með stór plön fyrir haustið - sem ég vonast til að leyfa bloggverjum að fylgjast með. "Charcuterie". Ég hef verið að skoða heimasíðu matarsíðu netmoggans. Þar rakst ég á ágæta þætti sem kallast - Eldum íslenskt - þar fer fyrir þættinum kokkurinn Bjarni G. Kristinsson sem annars starfar á þeim frábæra veitingastað Grillinu. Þessir þættir njóta stuðnings Bændasamtakanna með réttu enda hafa íslenskir bændur mikið af góðu hráefni sem þeir þurfa að koma betur á framfæri. Og í þessum þáttum reyna þeir það. Í einum af þáttunum voru þeir að kynna íslenska svínarækt og ræddu þá við Inga Steinar Ingason sem sagði frá áhugamáli sínu um heimagert beikon og pancetta. Það þurfti ekki meir. Ég sendi Bjarna kokki póst nærri því um leið, fékk netfangið hans Inga og sendi honum síðan póst. Sama kvöld pantaði ég sjö bækur um efnið, daginn eftir fór ég til slátrarans, um kvöldið var fyrsta beikonið komið í pækil og núna býð ég eftir að það verði tilbúið. Það eru metnaðarfull verkefni á döfinni: pylsur, salami, paté, beikon, pancetta, serrano og reyktur fiskur. Hlakka til að deila því með netheimum. Jæja, snúum okkur að málefni dagsins.

Ég hef nokkrum sinnum verið með asískt þema á grillinu. Þetta er í raun endurtekning á þema en með smá breytingum - smá núansar hér og þar. Í fyrra var ég með grillspjót með nautakjöti, grænmeti og bar fram með hrísgrjónasalati, Árið þar áður eldaði ég úti á svölum lax með teryaki/soya gljáa, sjá hér. Í ár var ég með marineraðan kjúkling, grænmeti og hrísgrjónasalat.

Ljúffengt "asískt" grill snýr aftur ásamt hrísgrjónasalati, grilluðu grænmeti og köldu hvítvínsglasi
Fyrst var að huga að kjúklingnum - ég hafði bara bringur í þetta sinn, mér finnst í raun upplæri þó vera besti bitinn á fuglinum. En hvað um það - bringur var það sem var til í frystinum. Þau voru að sjálfsögðu þiðinn og þá lögð í marineringu í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Ætli það hafi farið hálfur bolli af soyasósu, væn skvetta af jómfrúarolíu, heilmikið af ferskri steinselju, fimm niðursneiddir hvítlauksgeirar, einn niðursneiddur chilli með fræunum, nokkrir dropar af sesamolíu, salt, pipar og matskeið af sykri. Fékk eins og áður sagði að liggja í kælinum í nokkar klukkustundir.



Kjartan bróðir gerði frábæra kalda sósu til að hafa með kjúklingum. Hún var eitthvað á þessa leið; fyrst bolli af sýrðum rjóma, 2 msk af jómfrúarolíu, 1 smátt skorið hvítlauksrif, hálfur kjarnhreinsaður rauður chilli - smátt skorinn, 3 msk af smátt skornum rauðlauk, hálf teskeið þurrkað engifer, hálf teskeið paprikuduft, skvetta af rauðvínsediki, salt og pipar og smávegis sykur til að ná jafnvægi. Skreytt með flatlaufssteinselju.

Hrísgrjónasalöt eru góð. Það er smá hefð fyrir hrísgrjónasalötum í minni fjölskyldu. Pappa finnst þetta algert lostæti og hefur verið duglegur að gera fyrir okkur góð hrísgrjónasalöt. Þau geta nánast verið máltíð útaf fyrir sig en mér finnst þau alltaf sóma sér betur sem meðlæti. Jasmín hrísgrjón höfðu verið soðin skömmu áður og leyft að kólna aðeins. Pannan var hituð, smá olía á pönnuna, þá var hálfur rauðlaukur, 2 smátt skorinn hvítlauksrif steikt þar til mjúk. Þá bætti ég skornum sveppum, smá kúrbít og þvínæst hrísgrjónunum og steikti í smá stund. Setti því næst gula og rauð papriku og hrærði saman. Þá setti ég tvö egg og hrærði saman við og leyfði eggjunum að eldast. Svo í lokin skvetta af soya sósu, salt, pipar, sykur. Namminamm.



Með matnum drukkum við Gallo Turning Leaf Chardonnay. Við erum búinn að vera að smakka þó nokkuð af Gallo vínum upp á síðkastið. Það helgast að því að á leiðinni heim frá Þýskalandi stoppuðum við í landamæraverslun sem var með tilboð á hinum ýmsustu Gallo vínum. Því meira sem maður keypti, því betra verð - sannur Íslendingur, gjaldþrota eður ei, lætur svona kostaboð ekki fram hjá sér fara. Þetta er ágætis hvítvín, má segja klassískt Chardonnay. Fallega gult á litin, ilmur af sætum ávexti, þurrt en talsverð ávaxtaríkt á bragðið - perukennt, þykkt að mér fannst. Sómaði sér prýðilega með matnum.


Bon appetit!

Monday 17 August 2009

Seiðandi vorlauks og kartöflusúpa með grófu brauði og girnilegumáleggsbakka





Gatan okkar er að taka á sig endanlega mynd. Síðasta föstudag voru verðandi nágrannar í skoðunarferð um húsin. Svona forsýning áður en þau verða síðan afhent viku síðar. Það verður gaman að skipta á nágrönnum - fá venjulegt fólk í staðinn fyrir smiðina sem hafa verið nágrannar okkar síðasta hálfa árið. Ekki það að þessir smiðir hafi verið neitt hræðilegir - þvert á móti - það er bara það hversu snemma þeir byrja á morgnana að vinna. Hvern dreymir um að vakna við loftpressu klukkan tuttugu mínútur í sjö á morgnana. Svíar taka daginn snemma - ef maður leyfir sér að alhæfa ... og þeir fara snemma í háttinn. Allavega fer allt í ró eftir klukkan níu á kvöldin. Það eru bara við Íslendingarnir sem erum með læti fram eftir nóttu.


Ég hef ekki verið duglegur að elda súpur - hvað þá að blogga um þær. Ég hef einungis nokkrum sinnum bloggað um súpur. Seinast í fyrrasumar þegar breskur kollegi minn kom í heimsókn og var með erindi á lyflæknaþinginu á Selfossi. Þá gerði ég þessa fiskisúpu innblásna frá Tælandi. Einhvern tíma á frumbernsku þessarar bloggsíðu sagði ég frá þessari grænmetissúpu sem Snædís, konan mín, gerði eitt sinn. Þegar Vilhjálmur varð tveggja ára vorum við hjónin með afmælisveislu handa honum og þá buðum við uppá þessa einföldu tómatsúpu. Annars hef ég oft sagt að mér finnist súpa aldrei spennandi matur. Þetta er að breytast - maður er náttúrulega alltaf að þroskast eitthvað ... vonandi! Það vill nú vera þannig með smekk manns, bæði á mat og vínum, að þetta þróast með tímanum. Maður lærir að njóta einhvers sem áður vakti aldrei neina löngum. Rick Stein segir það að minnsta kosti í einum af sjónvarpsþáttum sínum, Food heros - another helping, eitthvað á þessa leið "Our taste evolves, we are continually moving forward". Kannski er eitthvað til í þessu hjá kallinum.


Ég man ekki í hvaða matreiðslubók ég sá þetta - en uppskrift eins og þessi finnst áreiðanlega í mörgum bókum. Þetta er það sem maður kallar "klassíker". Þetta var þó í fyrsta sinn sem ég bý svona súpu til. Það má segja að þetta sé svona ekta súpa fyrir haustið - sem er að vissu leiti rétt, svona súpur og gróft brauð eru vissulega fánaberar fyrir þá árstíð. Það sem fékk mig til að gera þetta á miðju sumri var það að það kom ný uppskera þá helgi sem ég var í búðinni. Nýuppteknar kartöflur og ný uppskera af vorlauk (reyndar frá Póllandi, sem er nú bara 4 klukkutíma í ferjunni Ystad hérna á Skáni).

Seiðandi vorlauks og kartöflusúpa með grófu brauði og girnilegum áleggsbakka


Eitt kíló af kartöflum og tveir vorlaukar, einn hvítur laukur, 5 hvítlauksrif var skorið niður í smáa bita. 30 gr af smjöri, smá skvetta af olíu var hituð í potti. Fyrst steikti ég laukinn þar til hann var glær, saltaði og pipraði, þá var kartöflunum og vorlauknum bætt saman við og steikt áfram 10-15 mínútur. Þá var einum lítra af kjúklingasoði (sem ég gerði sjálfur nokkrum vikum áður) hellt saman við og smáræði af vatni, saltað og piprað aftur og þessu leyft að krauma í klukkustund. Saltað og piprað eftir smekk. Þá var ráðist á súpuna með töfrasprota og hún maukuð þannig að hún varð alveg laus við alla bita. 50-100 ml af matreiðslurjóma var sett út í fyrir litinn og áferðina.

Brauðið var einfalt - eins og allt brauð sem ég geri. 2 hlutar hvítt hveiti, 1 hlutur haframjöl, 1 grahamsmjöl var sett í skál. Tvær og hálf teskeið af geri er vakið í 300 ml af vatni með smá sírópi út í. Þá er 3-4 msk af olíu og smá salti bætt við hveitið og þegar gerið hefur vaknað er því blandað saman við hveitið. Hnoðað í nokkrar mínútur og látið hefast í eina (eða fleiri) klukkustund. Þá er loftið hnoðað úr deiginu og mótað í brauðhleif. Penslað með eggjablöndu, saltað og þvínæst bakað í kannski 20-30 mínútur.


Með matnum bárum við einnig fram bakka með skinku, salami og nokkrum tegundum af ostum.

Með matnum drukkum við Gallo Chardonnay úr búkollu. Þetta er ágætisbúkolla - köld og góð úr ísskápnum. Það er alltaf gaman að drekka kalt hvítvín. Sjá hvernig það myndast dögg á glasinu. Þetta er ávaxtaríkt vín, perur, eins og flest Chardonnay er þetta dáldið smjörkennt vín, örlítið áfengisbragð þegar hlýnar í glasinu. Passaði prýðisvel með súpunni.

Bon appetit!

Thursday 13 August 2009

Pottþétt pastasalat, heitur brauðhleifur og rauðvínglas eftir langanferðadag

Ég var að ljúka vikufríi í seinustu viku og naut þess í botn. Bróðir minn var að flytjast til Kaupmannahafnar þar sem hann fer í framhaldsnám og það er gott að vita af honum nærri. Það væri yndislegt ef sama væri upp á teningnum með foreldra mína (já, og jafnvel tengdó!). Það er eiginlega bara fjölskyldan sem maður saknar ... jú og kannski Lækjarkots - sumarkots foreldra minna. Allavega þá lögðum við fjölskyldan land undir fót og renndum suður til Berlínar að hitta vini okkar þar. Fórum frá Lundi yfir brúnna til Kaupmannahafnar, þaðan suður til Rodby, með ferju til Puttgarden og svo beina leið til Berlínar. Þar gistum við hjá góðum vinum okkar í suðurhluta Berlínar. Við komum seinnipartinn og okkar beið kaldur bjór, kjöt á grillinu og með matnum var borið fram þetta ljúffenga pastasalat. Maturinn var frábær, kjötið gott ... en sérstaklega þetta pastasalat. Það "hit the spot" eins og sagt er.

Við vorum fimm daga í Berlín í góðu yfirlæti, sáum mikið af borginni; frá Potsdamer Plats, helfararminnisvarðann, Reichstag, Brandenborgarhliðið, menjar múrsins, Schöneberg, Krauzberg, NeuKöln, flóamarkaði, Bergmannsstrassi, fórum að vatninu/ströndina í jaðri borgarinnar. Borðuðum góðan mat, smökkuðum þýskan bjór og sátum frameftir á kvöldin og spiluðum Backgammon. Frábær ferð. Nokkrum sinnum á leiðinni heim frá Berlín varð mér hugsað til þessa ljúffenga pastasalat sem systkynin Anna Lilja og Benjamín Edelstein elduðu handa okkur og ég varð að endurtaka leikinn. Það var ekki síður gott.



Mér brá dálítið þegar ég steig út úr lestinni og tók eftir leturgerðinni á nafni lestarstöðvarinnar. Það var auðvitað óþarfi, þrátt fyrir að maður tengi þetta óneitanlega tíma nasismans, en þetta á sér lengri sögu en til seinna stríðs.



Brandenburgarhliðið er táknrænt fyrir Berlín, margir herir hafa marserað fyrir framan það síðan það var reist af Karl Gotthard Langhans á árunum 1788 til 1791. Fyrst kannski herir Napóleons og seinna Nasistarnir. Það var byggt sem tákn um frið - núna er það auðvitað þekkt sem sameiningartákn Þýskalands.



Allir að slaka á fyrir framan Dómkirkjuna sem liggur við endan á Under den Linden. Allir lúnir eftir langa gönguferð - og reyndar saddir líka þar sem við höfðum stoppað á leiðinni og gætt okkur á Lammchun (Turkish Pizza) sem er algert lostæti.

Langaði síðan í framhjáhlaupi hvetja alla mataráhugafólk að kíkja á bloggið hjá einum af bloggvinum mínum, Elínar Helgu Egilsdóttur, sem er matarbloggari eins og ég nema hvað hún er hörkudugleg að blogga. Það er ekki langt síðan að hún byrjaði en hún er með færslur daglega og hefur verið með það síðustu mánuði - hún er uppspretta af innblæstri. Einnig hefur mbl.is farið af stað með áhugavert verkefni - matur og vín - sem verður ábyggilega gaman að fylgjast með. Annars verður að segjast að ég sakna að meira hefur ekki komið frá honum Árna Birni Helgasyni sem byrjaði með verkefnið svangur.is - gerði nokkur metnaðarfull myndbönd sem hann var með á facebook og líka á youtube. Skelli inn einni af bestu færslunum hans að mínu mati;

Ég hef ekki gert mikið af því að elda pastasalöt í gegnum tíðina - eins og ég er nú hrifinn af pasta. Þetta er svona kalt pasta salat - eða í raun volgt - kannski bara eins og maður vill hafa það. Góða við svona salöt er að þetta er svona þjóðráð til þess að tæma ísskápinn og búa til pláss fyrir það sem verður svo næst á dagskrá - og það er alltaf eitthvað á dagskrá.

Ljúffengt blandað Pastasalat, brakandi brauð og rauðvínglas eftir langan ferðadag
Matargerðin var samvinnuverkefni hjá mér og bróður mínum. Ekki það að svona matargerð sé á nokkurn hátt flókin heldur eigum við bræður okkar bestu stundir í eldhúsinu með bjórglas í annarri, tónlist á fóninum (núna Arcade Fire - bæði Funeral og Neon Bible). Jæja. Back to business. 


Pasta, til dæmis Penne, er soðið samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni og svo sett í skál. Niðurskornir sveppir eru steiktir í smá hvítlauksolíu og svo settir í skálina. Gul og rauð paprika, tveir tómatar (kjarnhreinsaðir) og hálfur kúrbítur, er skorin niður og bætt saman við, smátt skorinn Toscana salami pylsa, kannski 250 gr, handfylli af kalamata ólívum, handfylli af steinselju, basil, mulin fetaostur, saltað og pipraö eftir smekk. Kjartan bjó til þessa fyrirtaksdressingu; 2 msk hvítlauksolía (heimagerð), 4 msk sýrður rjómi, skvetta af hlynsírópi, salt og pipar. Þessu hrært vel saman og svo blandað við pasta salatið. Borið fram með heitum brauðhleif.

Með matnum drukkum við Gallo Sonoma Country Zinfandel frá því 2006. Þetta er ansi kröftugt vín, kannski full kröftugt fyrir þennan mat - en gott engu að síður. Þetta er fremur dökkt á litin, þungur ilmur af dökkum ávexti. Þetta vín er munnfyllir - mikil ávöxtur - sem passaði ágætlega með pylsunni. Passaði síður með pastanu. Var best eftir matinn. Eftir á að hyggja þá eru vín af þessu tagi meira ætlum steikum og svoleiðis ... en við vorum bæði svöng og þyrst og þetta sinnti vel hinu síðar nefnda.



Svona mat munum við gera aftur. Það er á hreinu.

Friday 7 August 2009

Gómsæt grilluð lambapylsa með steinseljukartöflumús, grilluðum lauk, skánsku sinnepi og títuberjasultu

saluhallen_i_lund.jpg Ég hef verið að dunda mér síðan að ég flutti hingað að kynna mér pylsumenningu þeirra Svía - korv. Eins og frændur þeirra í Danmörku þá er hér ágætisúrval af pylsum í ýmsum stærðum og gerðum. Þeir sem hafa búið í Svíþjóð eða búa þar núna hafa án efa prófað það helsta - Falukorv, Lantkorv, prinskorv og fleiri tegundir. Flestar þessara pylsna eru ágætar til síns brúks en teljast seint til þess að vera herramannsmatur. Maður verður meira að segja pínuleiður þegar lesið er í gegnum innihaldslýsinguna. Sumar pylsurnar innihalda alveg niður í 30 prósent kjöt! Hins vegar er hægt að komast í feitt þegar maður kynnst slátrara. Eftir því sem ég kemst næst þá eru hérna í bænum eru tveir afbragðsslátrarar og ég skipti oftar við þann sem er í Saluhallen. 

Saluhallen er lítil "verslunarmiðstöð" sem var sett á laggirnar vorið 1909. Sagan segir að hún hafi verið reist vegna aukinna krafna um hreinlæti sem þótti ábótavant á söluvögnum sem stóðu undir berum himni á Stóratorginu og prönguðu  með fisk og kjöt. Þarna er ostabúð, bakari, kaffihús, nokkrir veitingastaðir, fisksali og svo þessi prýðisgóði slátrari - Holmgren & Co. Þeir gera sínar eigin pylsur - margar tegundir - og þær eru allar ansi góðar. Þessi er eiginlega mitt uppáhald. Þetta er sennilega blanda af svína og lambahakki, með ilmríkum kryddjurtum, sölt og bragðmikil. 

Þetta verður svona örfærsla - til að halda þessu lifandi!

Gómsæt grilluð lambapylsa með steinseljukartöflumús, grilluðum lauk, skánsku sinnepi og títuberjasultu

Þetta var eldamennska eins og hún gerist auðveldust. Hita grillið, stinga fín göt á pylsuna svo að hún springi ekki í hitanum, Grilla pylsuna. Skera lauk í skífur, pensla hann með olíu og svo grilla laukinn That's it!

Til að gera kartöflumúsina; sjóða 700 gr af flysjuðum kartöflum (best að flysja þær eftir á - þannig halda þeir meira af bragði sínu við suðuna, salta vatnið ríkulega. Þegar þær eru tilbúnar er bara að stappa, bæta við smá mjólk, smá sykri, salti, pipar, ögn af smjöri, og svo ferskri smátt skorinni flatlaufssteinselju. 

Borið fram með skánsku sinnepi - sem er fremur sætt, grófkornasinnep ansi bragðsterkt. Klassískt er að bera fram títuberjasultu með nær flestum mat sem borin er fram í Svíþjóð - steiktum strömming, steiktri síld, kjötbollum, pylsum, skinkum ... nær öllu.

Bon appetit. 

pylsa.jpg