Friday 27 March 2020

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashew hnetum og að lokum fjögurra osta með bláberjum í eftirréttÉg er varla sá eini sem dettur í hug að eldaflatbökur í lok vikunnar. Það er bæði fljótlegt og svo ef maður vandar valið á áleggjunum þá er getur það verið alveg einstaklega ljúffengt. 

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum 

Fyrir flatbökubotnana

Ef maður er alveg að brenna út á tíma - er auðvitað hægt að kaupa tilbúið deig út í búð - en það er líka auðvelt að gera sitt eigið deig. 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti
300 ml volgt vatn
2 msk jómfrúarolía
25 gr ger
25 gr sykur
2 tsk salt

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti

Hér nýtast afgangar vikunnar vel.

3-4 msk hvítlauksolía
2-3 soðnar kartöflur
1/2 haus spergilkál
handfylli af rifnum pizzaosti
4-5 msk af rifnum gráðaosti
salt og piparPenslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.

Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum. 

Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
6-7 döðlur skornar í bita
1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam
handfylli spínant
3-4 basillauf
handfylli cashewhnetur


Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashewhnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.


Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjumÞessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf. 

3-4 msk hvítlauksolía
handfylli af rifnum pizzaosti
Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti
Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga
handfylli rifinn piparosturPenslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu - rifsberjasultu eða jafnvel chilisultu. Þvílík föstudagsveisla.


Auðvitað fengum við okkur rauðvínstár með bökunum. 19 Crimes the Uprising frá því 2018 frá Ástralíu. Þetta vín er blanda úr Shiraz/Syrah, Cabernet Sauvignon, Grenache. Þetta er ansi kraftmikið vín - enda fær það að þroskast að hluta í rommtunnum. Mikill ávöxtur og ljómandi gott jafnvægi á tungu. 

Verði ykkur að góðu. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 15 March 2020

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta


Þetta er ótrúlegir tímar sem við lifum á í dag. Það er óhætt að segja að heimurinn sé að breytast dag frá degi. Sjálfur hef ég verið í sóttkví ásamt fjölskyldu minni, fyrst heima hjá mér og svo nú í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Það var gott að skipta um umhverfi. Það er erfitt að vera í sóttkví. Og ég veit líka hvað það er erfitt að vera í veikur í einangrun. Það veit ég frá fyrstu hendi þar sem ég hef tekið þátt í því verkefni að vitja Covid-19 veikra sjúklinga í heimahúsi auk þess að sinna gigtarsjúklingum mínum með fjarlækningum. Þetta er krefjandi en á sama tíma mjög gefandi verkefni. Ég er einkar þakklátur að fá að taka þátt í þessu og fá að sinna öllu þessu fólki. Þetta er tími til að standa saman og styðja hvert annað. 

Ég hef líka notað tímann til að dunda mér í eldhúsinu. Það er gott að vinna heima vitandi að það bíður ljúffeng máltíð í lok dags. Þessi nautarif fann ég frystinum. Þau eru beint frá bónda.

Þessa máltíð eldaði ég á miðvikudagskvöldið - sem var þá þriðji dagur í sóttkví. 

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta

Hráefnalisti (fyrir sex - en þetta dugar vafalaust fyrir fleiri)

2 kg nautarif
3 sellerísstangir
5 gulrætur
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2 msk Edmond Fallot rauðvínsedik
4 msk hveiti (bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti)
4 msk jómfrúarolía
1/2 flaska gott rauðvín
3 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk ítölsk kryddblanda (hefði notað kryddvöndul en var í sóttkví)
600 ml nautasoð
salt og pipar

500 g Rustichella d'Abruzzo Penne


Það er ekki leiðinlegt að elda úr svona hráefni. Þetta nautakjöt var beint frá býli.

Fyrst er að velta kjötinu upp úr bragðbættu hveiti.


Svo er kjötið brúnað að utan í nokkrar mínútur þangað til að það hefur tekið á sig fallegan lit.


Næst er að skera grænmetið; gulræturnar gróflega, laukinn, selleríið, hvítlaukinn heldur fínt og mýkja í pottinum. Þá er að bæta kjötinu aftur í pottinn og hella edikinu saman við og láta það sjóða niður og nudda botninn á pottinum til að ná upp kraftinum sem er fastur á botninum.


Næst er að bæta rauðvíninu saman við - ég setti hálfa flösku eða svo. Sauð upp áfengið og bætti svo niðursoðnum tómötum saman við ásamt nautasoðinu.


Villi Bjarki hefur verið afar áhugasamur um að hjálpa mér við mér við matargerðina. Hann sá um að krydda matinn.


Bætti smá skvettu af Cassis Noir De Bourgogne - þetta er ljúffengur sólberjalíkjör frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Hann er einkar ljúfur á bragðið með djúpt sólberjabragð.


Svo er bara að láta suðuna koma upp og setja svo pottinn inn í 150 gráðu heitan ofn og leyfa honum og dvelja þar í fjórar til fimm klukkustundir.


Það er mikilvægt að sjóða pastað í ríkulega söltuðu vatni.


Kássan er tilbúin þegar beinin renna auðveldlega frá kjötinu. Svo er bara að bera veisluna á borð.

Eins og ég nefndi hér að ofan þá var þessi réttur eldaður fyrir fjölskylduna en hún dugar fyrir fjöldann allan af fólki - ég hefði boðið vinum og vandamönnum en þar sem við erum í sóttkví þá urðum við lögum samkvæmt að draga línurnar.


Með matnum nutum við Masi Nectar Campofiorin sem er frá sveitunum skammt fyrir utan Verónaborg á norðanverðri Ítalíu. Þetta er sérstaklega ljúffent vín. Hugur minn leitar oft til Ítalíu - ekki bara vegna þess að ég hef heimsótt þennan framleiðenda, og ekki bara vegna hve vænt mér þykir um Ítalíu - og hef farið þangað í ferðalög reglulega liðna áratugi, og ekki bara vegna þess hversu dásamlegur maturinn þeirra er, vínið og menningin - en þá sérstaklega núna - í ljósi þeirrar eldraunar sem þeir eru að ganga í gegnum. 


Þetta var dásamleg máltíð.

Og gerði sóttkvínna léttari!

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa